Hæstiréttur íslands

Mál nr. 405/1998


Lykilorð

  • Einkahlutafélag
  • Félagsslit
  • Hluthafi


 

                                                                                                                 

Mánudaginn 29. mars 1999.

Nr. 405/1998.

Eydís Björg Hilmarsdóttir

(Einar Gautur Steingrímsson hdl.)

gegn

Herrafatnaði ehf.

Jóhanni Birgissyni og

Láru Höllu Elínbergsdóttur

(Jón Magnússon hrl.)

                                                             

Einkahlutafélög. Félagsslit. Hluthafi.

E krafðist þess að einkahlutafélaginu H yrði slitið með dómi samkvæmt 1. mgr. 81. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög. Talið var að E hefði átt ótvíræðan rétt til þess að teljast hluthafi í félaginu frá upphafi. Hvorki vanefnd E um að inna af hendi hlutafé til félagsins, né þau atvik að annar aðili hafði veitt atbeina sinn til að leysa hana undan þeirri vanefnd, þóttu breyta því að hana bar réttilega að telja eiganda að helmingshlut í félaginu. Fullnægði E því skilyrði 1. mgr. 81. gr. laga nr. 138/1994 til þess að hafa uppi kröfu um slit félagsins. Talið var að E hefði verið meinað að sækja aðalfund í félaginu, þar sem ráðstafanir hefðu verið gerðar á eignum þess. Hefði þannig verið brotið gegn X. kafla laga nr. 138/1994. Var krafa E um slit á félaginu tekin til greina.

 

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 1. október 1998. Hún krefst þess að Herrafatnaði ehf. verði slitið með dómi, svo og að stefndu verði gert að greiða henni málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndu Herrafatnaður ehf. og Jóhann Birgisson krefjast þess að héraðsdómur verði staðfestur og áfrýjanda gert að greiða þeim málskostnað fyrir Hæstarétti.

Stefnda Lára Halla Elínbergsdóttir hefur ekki látið málið til sín taka.

Áfrýjandi hefur stefnt Birgi Georgssyni til réttargæslu. Af hans hálfu hefur verið sótt þing fyrir Hæstarétti og krefst hann málskostnaðar úr hendi áfrýjanda.

I.

Samkvæmt því, sem er komið fram í málinu, var áðurnefndur Birgir Georgsson fyrirsvarsmaður Herrafataverslunar Birgis hf., sem mun hafa staðið að rekstri samnefndrar verslunar frá 1989. Áfrýjandi mun hafa starfað við þá verslun frá því um haustið 1991 og síðan hafið sambúð með Birgi fyrri hluta næsta árs. Samkvæmt málatilbúnaði áfrýjanda átti hlutafélagið í fjárhagsörðugleikum og var bú þess tekið til gjaldþrotaskipta 13. júlí 1994.

Áður en til gjaldþrotaskipta kom á búi félagsins var stofnað nýtt hlutafélag með heitinu Herrafatnaður, sem keypti tæki, áhöld, vörubirgðir og viðskiptavild þess, auk þess að taka yfir leigusamning um húsnæði undir verslun þess. Var þetta gert með samningi 25. júlí 1993, sem var breytt með yfirlýsingu 1. ágúst sama árs.

Hlutafélagið Herrafatnaður, nú einkahlutafélag, sem er stefndi í málinu, var nánar tiltekið stofnað 7. maí 1993. Í upphafi stofnsamnings sagði að stofnendur væru áfrýjandi ásamt stefndu Jóhanni og Láru. Í 3. gr. samningsins sagði að hlutafé skyldi verða „minnst kr. 400.000,oo“, svo og að það væri allt greitt á stofnfundi, en af því væri helmingur í eigu áfrýjanda, eða 200.000 krónur, og fjórðungur í eigu hvors hinna stofnendanna. Sömu upplýsingar um fjárhæð hlutafjár og innborgun þess komu fram í tilkynningu, sem var beint til hlutafélagaskrár 27. maí 1993. Þar greindi og frá því að stefnda Lára væri stjórnarmaður, stefndi Jóhann varamaður í stjórn, en áfrýjandi framkvæmdastjóri með prókúruumboð. Með tilkynningu 5. ágúst 1993 til hlutafélagaskrár var greint frá því að ný stjórn hefði verið kjörin í félaginu, en í henni ættu sæti stefndi Jóhann, sem væri stjórnarformaður, Ásdís Þorsteinsdóttir og Þorsteinn Unnsteinsson. Sá síðastnefndi hefði prókúruumboð fyrir félagið, en prókúra áfrýjanda væri afturkölluð. Af gögnum málsins verður ekki ráðið annað en að stjórn félagsins hafi verið óbreytt allt þar til hlutafélagaskrá var tilkynnt 21. ágúst 1997 að Þorsteinn Unnsteinsson hefði sagt sig úr stjórn Herrafatnaðar, sem þá var orðið einkahlutafélag, og prókúruumboð hans verið fellt niður, en við því hefði tekið Birgir Georgsson.

Í ársreikningum fyrir Herrafatnað hf. árin 1994 og 1995 kom fram að við lok næstliðinna ára hafi félagið átt ógreitt hlutafé að fjárhæð 400.000 krónur. Samkvæmt gögnum úr bókhaldi félagsins var gerð millifærsla í reikningum þess 31. desember 1995, þar sem krafa um ógreitt hlutafé var gerð upp með færslu sömu fjárhæðar til skuldar á viðskiptareikningi Birgis Georgssonar. Fyrrnefndur Þorsteinn Unnsteinsson, sem á þeim tíma annaðist bókhald fyrir félagið, bar fyrir héraðsdómi að hann hafi upp á sitt eindæmi tekið ákvörðun um þessa millifærslu „af því að það liti illa út gagnvart bönkum að það stæði ógreitt hlutafé.“

Í héraðsdómsstefnu greinir áfrýjandi frá því að hún hafi slitið sambúð við Birgi Georgsson 19. maí 1997. Í málinu liggja fyrir bréf, sem gengu í kjölfarið á milli lögmanna áfrýjanda og Birgis varðandi fjárslit þeirra, þar á meðal bréf lögmanns þess síðarnefnda 18. september 1997. Þar sagði meðal annars eftirfarandi: „Fyrir liggur skv. viðskiptayfirlitinu, að Eydís hefur greitt hlutafé sitt í Herrafatnaði ehf. þar sem að skuld hennar vegna ógreidds hlutafjár var viðskiptafærð og skv. viðskiptareikningi hennar þá skuldar hún fyrirtækinu nú kr. 3.925.- ... Varðandi hlutafélagið Herrafatnað ehf. og hlutafjáreign Eydísar í því hlutafélagi þá kemur það umbjóðanda mínum í raun ekki við þar sem að hann er ekki hluthafi í félaginu en hins vegar launþegi hjá því eins og raunar Eydís var. Vilji Eydís selja hlut sinn í félaginu verður hún því að bjóða hann til sölu í samræmi við ákvæði hlutafélagalaga og hægt er að reyna að ná samningum um kaup hlutanna á eðlilegu verði svo fremi, sem aðrir hluthafar neyti ekki forkaupsréttar.“ Með bréfi 25. september 1997 til viðskiptaráðuneytis krafðist áfrýjandi þess með vísan til 62. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög, sbr. 3. gr. laga nr. 43/1997, að ráðherra boðaði til hluthafafundar, þar sem stjórn Herrafatnaðar ehf. hafi ekki látið verða af því að efna til slíks fundar. Af hálfu stefnda Jóhanns var ráðuneytinu ritað bréf 29. sama mánaðar, þar sem fram kom að félaginu hafi ekki borist beiðni um að efnt yrði til hluthafafundar fyrr en með afriti af umræddu bréfi áfrýjanda, en ákveðið hefði verið að verða við ósk hennar og halda fund 14. október 1997. Liggur fyrir í málinu bréf lögmanns stefnda Jóhanns 1. október 1997 til áfrýjanda með boðun til þessa fundar. Fundurinn var síðan haldinn á áður ákveðnum tíma og mættu til hans lögmenn aðilanna. Í fundargerð sagði meðal annars eftirfarandi: „Jón Magnússon hrl. gerði grein fyrir því f.h. sinna umbjóðenda, að þeir teldu Eydísi Hilmarsdóttur ekki hafa greitt áskrift sína að hlutafé í félaginu og væri því ekki hluthafi í raun. Einar Gautur Steingrímsson hdl. mótmælti þessu f.h. síns umbjóðanda og benti á að opinber skráning sýndi að Eydís Hilmarsdóttir væri hluthafi í félaginu. Ákveðið var að taka þetta mál fyrir á framhaldshluthafafundi að viku liðinni ...“. Á fundinum var jafnframt bókuð ósk lögmanns áfrýjanda um að fundargerðabók félagsins og hlutaskrá lægju fyrir á næsta fundi. Samkvæmt fundargerð frá framhaldsfundi 21. október 1997 kom á ný til umræðu hvort áfrýjandi væri hluthafi í félaginu og var þá meðal annars bókuð svofelld afstaða stefndu Jóhanns og Láru: „Með færslunum í ársreikningi árið 1995 sé í raun verið að framselja alla hluti til Birgis Georgssonar enda ljóst af bókhaldi félagsins að hann einn hefur lagt félaginu til fjármuni. Birgir Georgsson sé því í raun réttur eigandi félagsins.“ Þessu var mótmælt af hálfu áfrýjanda. Vegna óska lögmanns hennar á síðasta fundi var jafnframt ritað í fundargerðina frá 21. október 1997 að enginn hluthafi gæti upplýst hvar fundargerðabók væri niður komin, svo og að „hlutaskrá hefur ekki verið færð.“ Á fundi þessum kom enn fremur fram að ákveðið hefði verið að halda aðalfund í félaginu 22. nóvember 1997. Fyrir þann fund var áfrýjanda tilkynnt með símskeyti að samkvæmt hlutaskrá í félaginu væri hún ekki meðal hluthafa og fengi hún því ekki aðgang að honum. Samkvæmt málatilbúnaði áfrýjanda kom lögmaður hennar að luktum dyrum þegar hann hugðist sækja aðalfundinn fyrir hennar hönd.

Nýtt félag, Herrafataverslun Birgis ehf., var stofnað af Bjarna Vilhjálmssyni 28. október 1997. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum um stofnun félagsins var Bjarni eini hluthafinn með hlutafé að fjárhæð 500.000 krónur. Í tilkynningu til hlutafélagaskrár sama dag kom fram að Bjarni væri stjórnarmaður í félaginu, en varamaður hans væri Gísli Birgisson. Framkvæmdastjóri væri Birgir Georgsson, sem hefði prókúruumboð ásamt Bjarna. Í málinu liggur fyrir að þetta nýja félag hafi með samningi 1. nóvember 1997 keypt rekstur, nafn, umboð, innréttingar, vörubirgðir og fleiri lausafjármuni Herrafatnaðar ehf.

II.

Samkvæmt 1. mgr. 81. gr. laga nr. 138/1994 geta hluthafar, sem ráða yfir minnst fimmtungi hlutafjár, krafist dóms fyrir því að einkahlutafélagi skuli slitið. Dómkrafa áfrýjanda, sem er studd við þetta lagaákvæði, getur því aðeins komið til álita að sýnt sé fram á að hún sé hluthafi í Herrafatnaði ehf. Þótt aðilarnir deili um hvort þessu skilyrði fyrir kröfu áfrýjanda sé fullnægt var henni með öllu þarflaust að gera sérstaka kröfu í málinu um að viðurkennt yrði með dómi að hún sé hluthafi í félaginu, svo sem stefndu Jóhann og Herrafatnaður ehf. héldu fram við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti. Verður í því sambandi að líta til þess að krafa áfrýjanda er reist meðal annars á þeirri málsástæðu að hún sé hluthafi í félaginu, en til þess verður þá að taka afstöðu við úrlausn málsins.

Við stofnun hins stefnda félags giltu um það lög nr. 32/1978 um hlutafélög. Í stofnsamningi um félagið 7. maí 1993 var sem áður segir ritað að áfrýjandi ætti helmingshlut í því og að allt hlutafé, 400.000 krónur, væri innborgað. Af gögnum málsins verður ekki ráðið að hlutabréf hafi verið gefin út í félaginu, sbr. 21. gr. laga nr. 32/1978, eða að gerðar hafi verið ráðstafanir samkvæmt 22. gr. laganna ef hlutafé var ekki í raun innborgað, svo sem stefndu halda fram. Þrátt fyrir vanrækslu félagsstjórnar í þessum efnum átti áfrýjandi ótvíræðan rétt á grundvelli stofnsamningsins til að teljast frá upphafi hluthafi í félaginu með það hlutafé, sem greindi í honum, og til að hlutaskrá, sem stjórninni bar að gera samkvæmt 24. gr. laga nr. 32/1978, yrði í samræmi við þetta.

Í ljósi þeirra færslna í efnahagsreikningi Herrafatnaðar hf. við lok áranna 1993 og 1994, sem áður er getið, verður að leggja til grundvallar að stofnendur félagsins, þar á meðal áfrýjandi, hafi ekki greitt hlutafé, þrátt fyrir gagnstæða fullyrðingu í gögnum um stofnun og skráningu þess. Á hinn bóginn verða hvergi fundin merki þess að áfrýjandi hafi óskað eftir að verða leyst undan hlutafjárloforði sínu. Stjórn félagsins höfðaði hvorki mál gegn áfrýjanda til efnda á hlutafjárloforði hennar né afhenti stjórnin öðrum rétt til hlutafjárins að undangengnum fresti handa áfrýjanda til að koma málum sínum í rétt horf, sbr. 2. mgr. 14. gr. laga nr. 32/1978. Vanefnd áfrýjanda veitti því félaginu aðeins tilkall til vaxta af skuld hennar, sbr. 1. mgr. 14. gr. laga nr. 32/1978, svo sem ákvæðinu var breytt með 7. gr. laga nr. 69/1989. Vanefndinni lauk með innborgun hlutafjár, sem málsaðilar eru sammála um að hafi farið fram 31. desember 1995 með millifærslu í bókhaldi félagsins. Þótt ráðið verði af gögnum um þá millifærslu að Birgir Georgsson hafi goldið með henni fyrir vanefnd áfrýjanda verður ekki leitt af lögum nr. 138/1994, sem þá höfðu tekið gildi, eða almennum reglum fjármunaréttar að hann hafi með þessu öðlast rétt til að ganga inn í réttindi áfrýjanda sem hluthafa í félaginu. Samkvæmt öllu þessu getur því hvorki vanefnd áfrýjanda um að inna af hendi hlutafé til félagsins né þau atvik að annar hafi veitt atbeina sinn til að leysa hana undan þeirri vanefnd fengið því breytt að eftir sem áður bar réttilega að telja hana eiga helmingshlut í félaginu.

Stefndu Jóhann og Herrafatnaður ehf. bera fyrir sig að áfrýjandi geti ekki neytt réttinda sem hluthafi í félaginu, þar sem nafn hennar sé ekki skráð í hlutaskrá fyrir félagið, sbr. 4. mgr. 19. gr. laga nr. 138/1994. Varðandi þessa málsástæðu verður ekki litið framhjá því að samkvæmt fyrrnefndri fundargerð frá hluthafafundi 21. október 1997 var fullyrt þar af hálfu stefnda Jóhanns að hlutaskrá hafi ekki verið færð. Þetta ásamt öðru því, sem liggur fyrir í málinu, sýnir svo ekki verði um villst að hlutaskrá með færslum dagsettum 7. maí 1993 og 3. janúar 1996, sem lögð hefur verið fram í málinu og er undirrituð af sama málsaðila, hefur í raun verið gerð eftir að deilur höfðu risið um rétt áfrýjanda til hlutafjár í félaginu. Þegar af þessari ástæðu hefur þetta skjal ekkert gildi sem sönnunargagn í málinu og verður það virt að vettugi.

Stefndu hafa ekki borið því við að hlutaféð í Herrafatnaði ehf., sem áfrýjandi öðlaðist réttindi yfir við stofnun félagsins, hafi af öðrum ástæðum gengið úr eigu hennar. Hún fullnægir því fyrrnefndu skilyrði 1. mgr. 81. gr. laga nr. 138/1994 til að geta átt aðild að kröfu um slit félagsins.


III.

Eins og áður var rakið var áfrýjanda af hendi annarra hluthafa í Herrafatnaði ehf. meinað að sækja aðalfund í félaginu 22. nóvember 1997. Með þeirri háttsemi brutu stefndu af ásetningi gegn ákvæðum X. kafla laga nr. 138/1994. Á hluthafafundinum var kynnt fyrrnefnd ráðstöfun á eignum félagsins til Herrafataverslunar Birgis ehf., sem Birgir Georgsson var þá framkvæmdastjóri fyrir. Sú ráðstöfun ein sér leiðir verulegar líkur að því að hluthafar, sem áttu kost á að sækja fundinn, hafi af ásetningi notfært sér þá aðstöðu að áfrýjandi var þar útilokuð frá því að láta þessa ráðstöfun til sín taka. Stefndu hafa ekki leitast við að hnekkja þessum líkum, hvorki með því að leggja fram gögn um hvað Herrafatnaður ehf. hafi fengið að endurgjaldi við þessa ráðstöfun né með skýringum, sem að haldi gætu komið. Að þessu gættu er fullnægt skilyrðum 1. mgr. 81. gr. laga nr. 138/1994 til að taka til greina kröfu áfrýjanda um að einkahlutafélaginu Herrafatnaði skuli slitið.

Stefndu Jóhann og Herrafatnaður ehf. verða dæmdir í sameiningu til að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem er ákveðinn í einu lagi eins og í dómsorði greinir. Rétt þykir að málskostnaður verði látinn falla niður hvað varðar stefndu Láru.

Dómsorð:

Einkahlutafélaginu Herrafatnaði skal slitið.

Stefndu, Herrafatnaður ehf. og Jóhann Birgisson, greiði í sameiningu áfrýjanda, Eydísi Björgu Hilmarsdóttur, samtals 900.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti. Málskostnaður fellur niður á báðum dómstigum að því er varðar stefndu, Láru Höllu Elínbergsdóttur.

 

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 16. september 1998.

Ár 1998, miðvikudaginn 16. september er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Allani Vagni Magnússyni, héraðsdómara, kveðinn upp dómur í málinu nr: E-5943/1997 Eydís Björg Hilmarsdóttir gegn Herrafatnaði ehf., Jóhanni Birgissyni og Láru Höllu Elínbergsdóttur og Birgi Georgssyni til réttargæslu. Mál þetta var dómtekið 7. september 1998.

Stefnandi er Eydís Björg Hilmarsdóttir, kt. 170668-3329, Drápuhlíð 8, Reykjavík.

Stefndu eru Herrafatnaður ehf., kt. 670593-2239, Fákafeni 11, Reykjavík, Jóhann Birgisson, kt. 240369-5919, Berjarima 4, Reykjavík, og Lára Halla Elínbergsdóttir, kt. 141149-4319, Stórholti 6a, Akureyri.

Birgi Georgssyni, kt. 210249-6729, Dalseli 29, Reykjavík, er stefnt til réttargæslu.

Dómkröfur stefnanda eru þær að hlutafélaginu Herrafatnaði ehf., kt. 670593-2239, Fákafeni 11, verði slitið með dómi.

Krafist er málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefndu.

Þá er sú krafa gerð að áfrýjun dóms hindri ekki aðför eftir dóminum sbr. 5. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991.

Dómkröfur stefndu, Herrafatnaðar ehf og Jóhanns Birgissonar eru þær að kröfu stefnanda verði hafnað og stefndu verði gert að greiða stefnanda málskostnað samkvæmt mati dómsins auk virðisaukaskatts á málskostnað vegna stefnda Jóhanns sem ekki sé virðisaukaskattsskyldur.

Vegna réttargæslustefnda er einungis krafist greiðslu kostnaðar hans vegna málareksturs þessa samkvæmt mati dómsins enda engar kröfur gerðar á hendur honum né heldur gerir hann kröfur á hendur stefnanda.

Af hálfu stefndu Láru Höllu Elínbergsdóttur hefur ekki verið sótt þing.

 

Málsástæður og helstu lagarök.

Stefnandi kveðst hafa kynnst réttargæslustefnda Birgi Georgssyni árið 1986 er hún vann í versluninni Herraríki þar sem hann var verslunarstjóri. Vann hún þar í tvö ár.

Haustið 1991 réðst stefnandi í vinnu hjá Herrafataverslun Birgis hf. Vann hún þar út febrúar 1992. Haustið 1992 fór stefnandi að starfa á ný hjá Herrafataverslun Birgis. Bú félagsins var tekið til gjaldþrotaskipta þann 13. júlí 1994. Fyrirtækið Herrafatnaður ehf. var stofnað þann 7. maí 1993 en stefnandi krefst slita þess í máli þessu. Rekstri fyrra félagsins var hætt á sama tíma og þetta félag hóf rekstur.

Stefnandi kveður formsatriði við stofnun hins nýja félags hafa verið í höndum Jóns Magnússonar hrl. og réttargæslustefnda. Á meðan hafi stefnandi fyrst og fremst unnið við búðina. Stefnandi kveður réttargæslustefnda og hana hafa ákveðið að eiga félagið í sameiningu. Sonur réttargæslustefnda, stefndi Jóhann, og frænka hans, stefnda Lára Halla, urðu eigendur að 50% hlutafjár í félaginu. Kveðst stefnandi hafa sætt sig við það. Á þessum tíma hafi fyrra félagið staðið í mikilli launaskuld við stefnanda. Kveðst stefnandi hafa verið afar óánægð með að hafa ekki fengið laun sín greidd en hún hafi verið í óvígðri sambúð með réttargæslustefnda. Réttargæslustefndi og Jón Magnússon hrl. hafi síðan tjáð stefnanda að laun hennar hefðu verið gerð upp og lögð inn í hið nýja félag. Kveðst stefnandi treysta því að svo væri. Hún skrifaði síðan undir þau skjöl sem að henni voru rétt. Kom þar fram meðal annars að allt hlutafé væri greitt. Að fengnum þessum upplýsingum frá réttargæslustefnda hafi hún ekki gert frekari reka að því að innheimta launin enda hafi hún talið sig hafa fengið þau greidd. Herrafataverslun Birgis hf. hafi ekki verið orðin gjaldþrota þá. Hafi menn jafnvel verið að gera sér vonir um að við samninga við lánardrottna mætti fá skuldir lækkaðar eða felldar niður. Eftir þetta kveðst stefnandi ekki hafa hugsað meira um stofnun félagsins.

Stefnandi heldur því fram að hún hafi í raun borið fyrirtækið uppi. Hafi hún unnið almenn afgreiðslustörf, verið í samskiptum við birgja, farið út á sýningar, tekið öll fylgiskjöl og merkt inn á þau tékkanúmer og slíkt og búið þau þannig í hendur á bókaranum, Þorsteini Unnsteinssyni. Hún hafi þó aldrei komið nálægt eiginlegu bókhaldi. Einnig hafi hún séð um tollútreikninga og að sækja vörur. Hún hafi unnið á lægri launum hjá fyrirtækinu en aðrir. Það hafi hún gert sem eigandi til að spara launatengd gjöld og auka verðmæti hlutar síns í félaginu. Mánaðarlaun stefnanda hefðu reyndar um tíma verið 120.000 krónur á mánuði en haustið 1996 hafi þau verið lækkuð í kr. 80.000 af þeim ástæðum sem raktar voru. Vegna ötullar vinnu stefnanda hafi félaginu vaxið fiskur um hrygg.

Stefnanda lýsir því að aðalfundur hafði ekki verið haldinn. Samkvæmt samþykktum félagsins skyldi vera búið að halda aðalfund fyrir lok júnímánaðar. Þann 25. september 1997 hafi viðskiptaráðuneytið verið beðið um að halda aðalfundinn þar sem hann hafði ekki verið haldinn. Í tilefni af beiðni þessari hefði lögmaður stefndu skrifað viðskiptaráðuneytinu bréf sem sé á misskilningi byggt. Hefði hann byggt á því að engin formleg beiðni samkvæmt 60. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög hafi komið fram um að halda fund og því ekki skilyrði fyrir að ráðuneytið hlutist til um að halda fundinn. Ekki var haldinn aðalfundur í félaginu.

Þann 1. október 1997 hafi verið boðað til hluthafafundar en ekki aðalfundar. Af því tilefni var þann 6. október 1997 þess krafist að aðalfundarstörf færu fram á hinum boðaða hluthafafundi en af einhverjum ástæðum hafði stefnda Jóhanni Birgissyni ekki borist bréf þetta, að því er lögmaður hans tjáði og fullyrti eftir honum. Ekki hafi komið til mála af hálfu annarra hluthafa að fram færu venjuleg aðalfundarstörf á þessum fundi þótt það hefði verið hægt, sbr. síðustu málsgrein 63. gr. ehfl. Lögmaður stefnanda kveðst hafa mætt til framhalds hluthafafundar þann 14. október 1997. Þar hafi því verið haldið fram að hlutafé stefnanda væri ógreitt. Yfir þessu hafi stefnandi orðið þrumu lostin, þegar þetta var borið undir hana, því hún hefði talið að réttilega hefði verið gengið frá málum og treyst öllu sem meðhluthafar hennar, réttargæslustefndi og lögmaður þeirra hefðu tjáð henni, þ.e.a.s. að laun hennar hefðu verið réttilega uppgerð og fjármunirnir afhentir hinu nýstofnaða félagi. Þegar félagið hafi verið stofnað árið 1993 hafi stefnandi ekki verið orðin 25 ára gömul og ekki haft neina viðskiptareynslu. Ekki sé gert ráð fyrir því í lögum um einkahlutafélög að til sé ógreitt stofnhlutafé, sbr. 2. mgr. 9. gr. ehfl. Við stofnun félagsins hafi þó gilt aðrar reglur samkvæmt lögum nr. 32/1978 um hlutafélög, en þar er gert ráð fyrir því í II. kafla að stofnendur skrái sig fyrir hlutafé með áskriftaskrá og er heimilt samkvæmt 2. mgr. 11. gr. þeirra laga að skrá hlutafélagið ef helmingur hlutafjárins er greiddur. Sé stofnhlutafé ekki greitt samkvæmt eldri lögum fari eftir ákvæðum 14. gr. þar sem annað hvort þurfi að innheimta ógreitt hlutafé eða gefa 4 vikna frest til að koma málunum í rétt horf áður en öðrum verður afhentur hluturinn. Þessa leið hafi stefndu ekki kosið að fara.

Á framhaldsfundi þann 21. október 1997 hafi því verið haldið fram að í bókhaldi félagsins væri til færsla þar sem millifært væri af viðskiptareikningi réttargæslustefnda hjá félaginu yfir á ógreitt hlutafé, og því haldið fram að réttargæslustefndi væri eigandi allra hluta í félaginu. 

 

Málsástæður og lagarök.

Stefnandi byggir kröfur sínar á því að stjórn félagsins og hluthafar hafi brotið gróflega á rétti hennar sem eiganda 50% hlutafjár í félaginu:

Með því að veita henni ekki aðgang að neinum gögnum er varða félagið.

Með því að halda ekki aðalfund í félaginu og neyta til þess alls konar bragða, fyrst að tefja málin sem mest þeir máttu og síðan að lýsa því yfir að lokum að hún fengi ekki aðgang að fundum félagsins á grundvelli fyrirsláttar.

Með því að standa að stofnun nýs félags, Herrafataverslun Birgis ehf., í þeim eina tilgangi að draga undan Herrafatnaði ehf. eigur þess og viðskiptavild.

Ef rekstur félagsins hefði verið seldur hefði mátt búast við að fyrir félagið kæmi verð á bilinu 10-15.000.000 króna sem stefnandi hefði fengið helminginn af. Nú sé verið að reyna að taka verðmætin undan henni endurgjaldslaust.

Um þennan lið vísist til 51. gr. og 70. gr. ehfl.

Þótt rétt reyndist að hlutaféð hafi verið ógreitt hafi borið samkvæmt 14. gr. laga nr. 32/1978 að gefa stefnanda kost á að greiða áður en hlutaféð hafi verið afhent öðrum.

Svo augljóst sé að um eftirá skáldskap er að ræða að í símskeyti frá 26. nóvember 1997 sé spunnin upp heil saga um að réttargæslustefndi hafi leyst til sín allt hlutafé í félaginu í árslok 1995, stefnandi samþykkt þetta og síðan hafi réttargæslustefndi endurselt hlutaféð stefndu Jóhanni og Láru Höllu. Ef nokkur fótur hefði verið fyrir þessari sögu hefðu þessi sjónarmið fyrir löngu verið komin fram þar sem á undan höfðu gengið yfirlýsingar sömu aðila í gagnstæða átt.

Ef hártoganir stefndu væru teknar alvarlega væri verið að viðurkenna að maður, sem enga aðild eigi að hlutafélagi, geti orðið eigandi hlutafjár með því einu að maður útí bæ, sem tekur að sér bókhald félagsins, framkvæmi millifærslu af viðskiptareikningi hans yfir á reikninginn Hlutafé, að hlutaðeigandi aðilum forspurðum, og það þótt verðmæti hlutafélagsins væri orðið margfalt verðmæti hlutafjárins. Svona meiningar eiga sér hvergi stoð í neinum reglum fjármunaréttarins, hvar sem stigið er niður fæti. Í mesta lagi kann stefnandi að skulda réttargæslustefnda kr. 200.000,00 vegna þessarar bókhaldsfærslu ef staðhæfing um að hlutafé hafi verið ógreitt reynist rétt, sem þó er dregið í efa.

Aðild stefndu Jóhanns og Láru Höllu að málinu byggist á því að þau eru eigendur 50% hlutafjár í félaginu. Ekki verði séð að réttargæslustefndi hafi nokkurn tímann eignast hlutabréf í þessu félagi. Alls ekki hlutabréf stefnanda, eins og rakið hafi verið, og ekki sé að sjá að eigendaskipti hafi nokkurn tímann farið fram með gildum hætti á öðrum hlutum í félaginu samkvæmt ákvæðum samþykkta þess eða hlutafélagalaga. Hann geti því ekki haft beina aðild að málinu en með hliðsjón af atvikum hafi þótt rétt að stefna honum til réttargæslu.

Krafan um slit á félaginu byggist á því að ofangreind brot séu svo alvarlegs eðlis að skilyrði 81. gr. ehfl. séu fyrir hendi. Þetta sé stefnanda nauðsynlegt því með þessu móti megi biðja um að bú félagsins sé tekið til skipta samkvæmt 1. tl. 2. mgr. 82. gr. ehfl. og fari um skiptin eftir ákvæðum laga um gjaldþrotaskipti sbr. 84. gr. ehfl. og geti þá skiptastjóri meðal annars höfðað mál samkvæmt 108. gr. sömu laga, rift ráðstöfunum, sannreynt það tjón sem valdið hefur verið og kannað að hverjum hugsanleg bótakrafa skuli beinast. Kunni jafnvel að vera að fleiri beri ábyrgð en nefndir eru í 108. gr. samkvæmt almennu skaðabótareglunni

Um málskostnað vísast til XXI. kafla l. nr. 91/1991, sérstaklega 129. gr. og 130. gr. Taka þarf tillit til þess að stefnandi er ekki virðisaukaskattskyld og þarf því aðfararhæfan dóm fyrir skattinum.

Af hálfu stefndu er krafist sýknu af kröfum stefnanda þar sem hún eigi ekki aðild að þeirri kröfu, sem sett er fram í stefnu. Stefnandi sé ekki hluthafi í hlutafélaginu Herrafatnaði ehf. og hafi því ekkert með málefni félagsins að gera og geti ekki gert kröfu til slita þess. Stefnandi eigi þannig ekki aðild að þeirri kröfu sem hún hefur uppi hér.

Hlutafélagið Herrafatnaður hafi verið stofnað þegar í gildi voru lög nr. 32/1978 um hlutafélög. Í 2. mgr. 13.gr. þeirra laga segi, að áskrifandi hlutafjár megi ekki skuldajafna kröfu, sem risin sé af áskrift, við kröfu, sem hann kunni að eiga á hendur félaginu, nema stjórn þess samþykki. Ekkert samþykki stjórnar Herrafatnaðar hf. síðar ehf. liggi fyrir, þess efnis, að stefnandi hafi mátt skuldajafna kröfu sem hún kunni að eiga á félagið fyrir áskrift sinni, hvað þá heldur kröfu á hendur öðru félagi, sem haldið er fram í stefnu, að stefnanda hafi verið talin trú um, að væri framlag hennar til Herrafatnaðar hf. Sú staðhæfing sé með öllu glórulaus. Fyrir liggi, að stefnandi hafi aldrei greitt hlutafé sitt í Herrafatnaði hf. og því aldrei orðið hluthafi í félaginu. Þá hafi inneign stefnanda í Herrafatnaði ehf. ekki verið fyrir hendi heldur hafi hún skuldað og skuldi Herrafatnaði ehf. stórfé, þegar búið sé að bókfæra raunverulegar úttektir á stefnanda.

Þá liggi fyrir, að stefnandi sjálf líti ekki á sig sem hluthafa, því að hún hafi ekki talið hlutafé í Herrafatnaði ehf. til eigna á skattframtali sínu eða annarsstaðar svo vitað sé ef undan sé skilin tilkynning til hlutafélagaskrár. Þetta sé glögg vísbending um viðhorf stefnanda sjálfs á þeim tíma, þ.e. áður en stefnanda var talin trú um, að hún gæti náð fram fjárhagslegum ávinningi af því, að hafa á sínum tíma verið skráð sem hluthafi þó hún hafi aldrei greitt hlutafé sitt eða gert tilraun til þess. Þá liggi fyrir samkvæmt 15.gr. hlutafélagalaganna frá 1978, að stefnandi greiddi hlutafé sitt ekki innan þess frests, sem gefin var í þeim lögum þ.e. innan þriggja ára frá því að félagið er skráð og hafði ekki gert það við gildistöku laga um einkahlutafélög þ.1. janúar 1995. Það hafi heldur ekki verið gert síðar.

Í lögum um einkahlutafélög nr. 138/1994 komi fram í 11. gr. sambærilegt ákvæði við ákvæði 2. mgr. 13. gr. eldri laga um hlutafélög. Lög nr. 138/1994 hafi tekið gildi l. janúar 1995. Með undirskrift undir ársreikninga og vitund um þá færslu sem átti sér stað í árslok 1995, samþykkti stjórn félagsins hana, en stjórnin var í raun eingöngu stefndi Jóhann samkvæmt samþykktum félagsins, þrátt fyrir að þrír væru tilkynntir. Þeir sem þó voru skráðir í stjórn félagsins á þeim tíma voru stefndi Jóhann, sem samþykkti þessa skuldajöfnun við réttargæslustefnda og bókari félagsins, sem færði umrædda færslu og móðir stefnanda, sem að ekki er vitað hvort kom að málinu, en talið líklegt að svo sé, þar sem stefnandi hafði náið eftirlit með bókhaldi félagsins og uppgjöri og vissi vel af umræddri skuldajöfnun. Kaup réttargæslustefnda á öllum hlutum í félaginu var því öllum aðilum þessa máls ljós strax frá því að kaupin áttu sér stað.

Í 19.gr. laga um einkahlutafélög komi fram í 4. mgr., að sá sem eignist hlut í einkahlutafélagi geti ekki beitt réttindum sínum sem hluthafi nema nafn hans hafi verið skráð í hlutaskrá eða hann hafi tilkynnt og fært sönnur á eign sína á hlutnum. Í máli þessu liggi fyrir, að nafn stefnanda sé ekki á hlutaskrá og stefnandi hafi ekki fært sönnur á eign sína á þeim hlutum, sem hún var í upphafi skrifuð fyrir. Bent er á, að það er ekki nægjanlegt samkvæmt 19. gr. laga um einkahlutafélög, að hluthafi hafi verið tilkynntur. Til þess að geta beitt réttindum sínum sem hluthafi verði viðkomandi aðili að færa sönnur á eign sína. Takist sú sönnun ekki, liggi fyrir, að ákvæðum 19.gr. nefndra laga sé ekki fullnægt og þar sem að ekki sé sannað af hálfu að hún eigi hlut í félaginu, sé stefnukrafan fráleit.

Kröfugerð sína í máli þessu byggi stefnandi á 81. gr. laga um einkahlutafélög. Skilyrði þess, að hægt sé að gera kröfu sem þessa sé í fyrsta lagi, að hana geri hluthafi, sem ráði minnst 1/5 hluta fjár, sem ekki sé um að ræða í máli þessu. Stefnandi eigi ekki hlut í félaginu og geti því ekki haft uppi kröfu sem þessa samkvæmt 81. gr. laga um einkahlutafélög. Í öðru lagi sé það skilyrði að hluthafar hafi af ásetningu misnotað aðstöðu sína í félaginu eða tekið þátt í brotum á lögum um einkahlutafélög eða samþykktum félagsins. Þessu skilyrði sé heldur ekki fullnægt og komi því krafa stefnanda ekki til álita og beri að sýkna stefndu af kröfum stefnanda. Ljóst sé að stefndi Jóhann hafi ekki misnotað aðstöðu sína í félaginu og þá ekki hlutafélagið sjálft, en málið sé einnig höfðað gegn því samkvæmt stefnu. Stefndi Jóhann hafi útbúið hlutaskrá í félaginu í ársbyrjun 1996 í samræmi við raunveruleg eignarráð á hlutum félagsins og fyrir beiðni réttargæslustefnda hafi þau stefndu Jóhann og Lára Halla skráð sig fyrir hlut að þeim fjárhæðum, sem fram kemur í hlutaskrá. Stefndi Lára Halla hafi ítrekað óskað eftir því við réttargæslustefnda, að hann skrái hlut þann sem hún er skráð fyrir yfir á sitt eigið nafn, en það hafði ekki verið gert þegar mál þetta var höfðað. Hlutaskrá sú, sem að stefndi Jóhann útbjó, hafi verið í samræmi við staðreyndir og bókhald félagsins og gerði hann meðal annars stefnanda grein fyrir hlutaskránni. Þá hefur stefndi Jóhann ekki brotið gegn ákvæðum laga um einkahlutafélög og í raun er engin tilvísun til þess í stefnu. Af stefnu verður því ekki ráðið á hvaða grundvelli með tilvísun til 81. gr. laga um einkahlutafélög stefnandi reisi kröfur sínar á hendur stefnda Jóhanni.

Meginatriðið sé það, að fólk getur ekki eignast hlut í hlutafélagi nema greiða hann eða fá hann að gjöf. Stefnandi hafi ekki greitt hlut í félaginu og stefnandi ekki fengið neinn hlut gefinn i félaginu. Hlutafélagið sé henni því að öðru leyti óviðkomandi en því, að hún hafi unnið hjá félaginu um árabil sem launþegi.

Ljóst sé að hlutafé réttargæslustefnda í Herrafatnaði ehf. sé eign réttargæslustefnda eins en ekki fyrrum sambýliskonu hans. Sambýliskonan fyrrverandi, stefnandi í máli þessu, geti ekki eignast réttindi í hlutum fyrrum sambýlismanns síns nema að hún hafi fengið þá í sinn hlut við skipti á búi sambúðarfólksins miðað við þá stöðu sem í málinu er og fyrir liggur. Skiptum vegna sambúðarslita stefnanda og réttargæslustefnda sé ekki lokið og hefði ef til vill verið eðlilegra fyrir stefnanda, að beina kröfum sínum að réttargæslustefnda vegna sambúðarslita í stað þess að höfða mál til slita á félaginu Herrafatnaði ehf. sem stefnandi eigi enga aðild að og komi ekkert við.

Stefndu vísa til laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, til eldri laga um hlutafélög nr. 32/1978, til laga um einkahlutafélög nr. 138/1994 og til meginreglna kröfu- og eignarréttarins.

 

Niðurstaða.

Stofnfundur var haldinn 7. maí 1993 í hlutafélaginu Herrafatnaði hf. Samkvæmt stofnfundargerð var stefnda Lára Halla Elínbergsdóttir kosinn stjórnarformaður, varamaður í stjórn var kosinn stefndi Jóhann og stefnandi ráðinn framkvæmdastjóri með prókúruumboði. Í stofnsamningi sagði að stofnfé félagsins yrði minnst 400.000 krónur og að hlutafé væri greitt á stofnfundi þannig að stefnandi greiddi 200.000 krónur, stefndi Jóhann 100.000 krónur og stefnda Lára Halla 100.000 krónur.

Í tilkynningu til hlutafélagaskrár dagsettri 7. maí segir að hlutaféð sé greitt.

Samkvæmt vottorði úr hlutafélagaskrá dagsettu 12. júní 1997 sátu í stjórn frá 5. ágúst 1993 Jóhann Birgisson sem var stjórnarformaður, Þorsteinn Unnsteinsson og Ásdís Þorsteinsdóttir. Þá kemur fram í fundargerð frá 5. ágúst 1993 að prókúruumboð stefnanda var afturkallað frá þeim degi. Með tilkynningu til hlutafélagskrár dagsettri 21. ágúst 1997 var tilkynnt að Þorsteinn Unnsteinsson hefði sagt sig úr stjórn félagsins og prókúra hans var afturkölluð og tilkynnt um að réttargæslustefndi Birgir Georgsson færi með prókúru frá þeim degi.

Engin hlutaskrá var gerð við stofnun Herrafatnaðar hf. eins og boðið var í 1. mgr. 24. gr. laga um hlutafélög nr. 32/1978, nú 19. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög. Frammi liggur í málinu skjal sem ber yfirskriftina Hlutaskrá fyrir Herrafatnað ehf. Þar kemur fram hverjir skráðir hluthafar voru 7. maí 1993 og upphæð hlutafjár. Síðar segir að Birgir Georgsson hafi keypt hlutafé að nafnverði 400.000 krónur 31. desember 1995 eða allt hlutafé félagsins. Þessu næst að réttargæslustefndi Birgir hafi selt stefndu Láru Höllu Elínbergsdóttur og stefnda Jóhanni Birgissyni hlutafé að nafnverði 100.000 krónur hvoru þann 3. janúar 1996 og að hluthafar frá þeim degi séu réttargæslustefndi Birgir og stefndu Lára Halla og Jóhann.

Loks að hlutaskrá þessi sé óbreytt 20. nóvember 1997.

Stefndi Jóhann Birgisson undirritar tilkynningar þessar.

Þá hefur verið lagður fram hreyfingalisti úr bókhaldi Herrafatnaðar ehf. dags. 1. september 1997 þar sem fram kemur að 31. desember 1995 hafi verið millifært af efnahagsreikningi 400.000 krónur og sú skýring komið fram af hálfu réttargæslustefnda og vitninu Gunnari að þann dag hafi réttargæslustefndi greitt 400.000 króna hlutafé til fyrirtækisins. Þá kemur fram að í ársreikningum félagsins fyrir árin 1993 og 1994 var hlutafé sagt ógreitt. Vitnið Þorsteinn Unnsteinsson bar að hann hefði fært umrædda færslu í bókhaldi félagsins 31. desember 1995 og ekki er ágreiningur um það í málinu að hlutafé hefði verið greitt til félagsins þann dag.

Samkvæmt lokamálslið 4. mgr. 19. gr. laga um einkahlutafélög getur sá sem eignast hefur hlut ekki beitt réttindum sínum sem hlutahafi nema nafn hans hafi verið skráð í hlutaskrá eða hann hafi tilkynnt og fært sönnur á eign sína á hlutnum.

Stefnandi hefur ekki sýnt fram á að hún hafi eignast hlut í félaginu. Er hér til þess að taka að sú fullyrðing hennar að hún hafi lagt fram stofnfé með inneign sinni hjá Herrafataverslun Birgis er ekki studd öðrum gögnum en fullyrðingu hennar sjálfrar og gagna nýtur ekki við í málinu um að hún hafi innt greiðslu af hendi. Þá verður ekki fallist á það með stefnanda að sú meðferð sem hlutaskrá fékk hjá forsvarsmönnum félagsins eftir að stefnandi var gengin úr stjórn svo og aðgerðir þeirra að öðru leyti hvað snerti innheimtu hlutafjár geri það að verkum að hún uppfylli skilyrði 4. mgr. 19 gr. laga um hlutafélög. Breytir hér engu þó að stefndi Jóhann hafi sent henni fundarboð sem hluthafa eftir að réttargæslustefndi hafði keypt alla hluti í félaginu 31. desember 1995. Eins og kröfugerð er háttað í máli þessu, þ.e. að krafist er slita á hinu stefnda einkahlutafélagi Herrafatnaði, verður stefnandi að sýna fram á að vafalaust sé að hún sé hluthafi en það hefur henni ekki tekist eins og áður segir. Er þá engin afstaða tekin til þess hvort stefnandi eigi kröfu á hendur stefndu eða öðrum vegna starfa þeirra sem stjórnarmenn eða trúnaðarmenn félagsins vegna hugsanlegra brota gagnvart henni.

Samkvæmt þessu er það niðurstaða málsins að stefndu verða sýknaðir af öllum kröfum stefnanda en rétt þykir að málskostnaður falli niður.

Dómsorð:

Stefndu, Herrafatnaður ehf, Jóhann Birgisson og Lára Halla Elínbergsdóttir skulu sýkna af öllum kröfum stefnanda, Eydísar Bjargar Hilmarsdóttur.

Málskostnaður fellur niður.