Hæstiréttur íslands

Mál nr. 581/2015

Ákæruvaldið (Hulda María Stefánsdóttir saksóknari)
gegn
Sigurði Auðberg Davíðssyni Löve (Sveinn Guðmundsson hrl.),
(Stefán Karl Kristjánsson réttargæslumaður )

Lykilorð

  • Líkamsárás
  • Skilorðsrof
  • Einkaréttarkrafa

Reifun

S var sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa veitt A eitt hnefahögg í andlit með þeim afleiðingum að A hlaut fjölda brota í andlitsbeinum. Við ákvörðun refsingar S var meðal annars litið til þess að með brotinu rauf S skilorð samkvæmt eldri dómi og var sá dómur tekinn upp með vísan til 60. gr. almennra hegningarlaga og S gerð refsing í einu lagi fyrir brotin, sbr. 77. gr. sömu laga. Þá var jafnframt tekið tillit til þess dráttar sem varð á rannsókn málsins og S varð ekki um kennt. Var refsing S ákveðin 7 mánaða fangelsi auk þess sem honum var gert að greiða A 800.000 krónur í miskabætur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Helgi I. Jónsson og Karl Axelsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 29. júní 2015 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd.

Ákærði krefst aðallega ómerkingar hins áfrýjaða dóms og að málinu verði vísað heim í hérað til munnlegrar sönnunarfærslu á ný. Til vara krefst hann sýknu af kröfum ákæruvaldsins, en að því frágengnu refsimildunar. Þá krefst hann þess aðallega að einkaréttarkröfu verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að hún verði lækkuð.

Brotaþoli, A, krefst þess aðallega að ákærða verði gert að greiða sér 8.000.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 21. febrúar 2013 til 30. september sama ár, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst hann þess að ákvæði héraðsdóms um einkaréttarkröfu sína verði staðfest. Loks krefst hann þess að ákærða verði gert að greiða sér útlagðan kostnað vegna lögreglurannsóknar að fjárhæð 257.275 krónur.

I

Ákærði reisir ómerkingarkröfu sína á ákvæðum 204. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Um rökstuðning fyrir kröfunni vísar hann til þess að rannsókn málsins hafi verið „skrykkjótt og takmörkuð“ og henni ábótavant í ýmsum atriðum. Einnig er þess getið að málið hafi verið fellt niður af hálfu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og verður að skilja málatilbúnað ákærða á þann veg að það eigi að leiða til ómerkingar hins áfrýjaða dóms.

Samkvæmt 2. málslið 1. mgr. 204. gr. laga nr. 88/2008 getur Hæstiréttur ómerkt héraðsdóm ef verulegir gallar hafa verið á meðferð máls í héraði og vísað því frá héraðsdómi ef undirbúningi undir málsókn hefur verið áfátt í meginatriðum.

Hinn 10. mars 2014 felldi ríkissaksóknari úr gildi ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu 10. janúar sama ár um að fella málið niður og mælti fyrir um frekari rannsókn þess. Að þeirri rannsókn lokinni felldi lögreglustjórinn málið niður á ný með ákvörðun 16. desember 2014. Brotaþoli kærði 5. janúar 2015 þá ákvörðun til ríkissaksóknara, sem felldi hana úr gildi 16. febrúar sama ár, þar sem hann taldi málið líklegt til sakfellis, sbr. 145. gr. laga nr. 88/2008. Höfðaði hann síðan málið með ákæru 27. mars 2015.

Engir þeir gallar voru á meðferð málsins í héraði, sem leitt geti til ómerkingar hins áfrýjaða dóms og verður ómerkingarkröfu ákærða hafnað. Vegna kröfugerðar ákærða má og nefna að engir slíkir gallar voru á undirbúningi málshöfðunar að leiði til frávísunar málsins frá héraðsdómi.

II

Í málinu er ákærða gefin að sök líkamsárás með því að hafa að kvöldi 21. febrúar 2013, á veitingastaðnum [...] við Laugaveg í Reykjavík, slegið A ítrekað í andlitið með þeim afleiðingum að A tvíbrotnaði á kinnbeinaboga vinstra megin og brot var í augntóftargólfi og hliðlægum vegg vinstra megin í augntóft og í kinnbeini vinstra megin. Er þetta talið varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi fóru ákærði og brotaþoli umrætt sinn tveir saman inn á snyrtingu staðarins eða í rými þar fyrir framan. Ákærði, sem starfaði sem dyravörður á staðnum, lýsti atvikum þannig fyrir dómi að hann hafi verið kallaður til vinnu vegna óláta í brotaþola. Er þangað var komið hafi hann beðið brotaþola að yfirgefa staðinn, en brotaþoli beðið sig um að koma með sér á salerni staðarins til samræðna. Er þangað hafi verið komið hafi brotaþoli kýlt í spegil og ráðist á sig. Ákærði hafi vikið sér undan en tekið brotaþola hengingartaki og svæft hann. Hafi hálstakið einungis staðið yfir í „einhverjar sekúndur“ og ákærði og tveir menn, sem hafi verið með brotaþola inni á veitingastaðnum, komið brotaþola fyrir á stól. Ákærði hafi loks aðstoðað brotaþola við að finna yfirhöfn sína og síðan gengið með honum út af staðnum. Ákærði kvað brotaþola hafa verið með áverka í andliti áður en atvik gerðust. Brotaþoli hefur hins vegar lýst því að ákærði hafi beðið hann um að tala við sig á salerni veitingastaðarins. Hafi þeir rætt lítillega saman og ákærði síðan fyrirvaralaust veitt sér högg í andlitið með þeim afleiðingum sem í ákæru greinir. Taldi ákærði að höggin hafi ekki verið fleiri en eitt.

Eins og nánar er rakið í héraðsdómi bar vitnið B fyrir dómi að hún hafi ekki orðið vitni að atvikum með öðrum hætti en þeim að ákærði og brotaþoli, sem hafi verið í annarlegu ástandi, hafi farið bak við vegg á veitingastaðnum, en hún hafi snúið baki í þá átt og verið að tala við C, starfsmann á staðnum, er hún hafi  „heyrt högg“ koma þaðan sem ákærði og brotaþoli voru staddir og „A alveg vel krambúleraður eftir þetta og ranglar út ... og ég elti hann út og hringi á sjúkrabíl.“ Þá kom fram hjá vitninu að er brotaþoli kom á staðinn hafi hann verið með „einhverja ... plástra“ á augabrúnunum eftir „læknaheimsókn eða eitthvað“, en þó ekki með skakkan kjálka eins og verið hafi er hann yfirgaf staðinn. Þá bar fyrrgreind C einnig um að hafa „heyrt“ að til átaka kom milli ákærða og brotaþola. Hún bar á hinn bóginn að ákærði hafi verið „allur skrambúleraður“ og „bólginn og blár“ er hann kom inn á veitingastaðinn og hafi ástand hans verið óbreytt er hann yfirgaf staðinn. Þá er því lýst í héraðsdómi að lögreglumennirnir D og E, er komu að ákærða við veitingastaðinn umrætt kvöld, kváðu brotaþola greinilega hafa verið með áverka og kom fram hjá hinum fyrrnefnda að hún hafi talið áverkana nýlega „en við vissum náttúrulega að það var greinilega eitthvað gamalt líka.“

F, sérfræðingur í heimilislækningum, skoðaði brotaþola á bráðadeild Landspítalans sama kvöld og atvik gerðust og ritaði vottorð „með upplýsingum um tildrög og afleiðingar meintrar líkamsárásar.“ Þar segir að brotaþoli hafi verið „við meðvitund“ er hún tók á móti honum, en hann hafi virst vera undir áhrifum áfengis og jafnvel fíkniefna. Hafi virst sem hann hafi „fengið þungt högg í andlit“.  Hafi hann „augljóslega orðið fyrir áverkum á andliti og þar sem grunur var um andlitsbeinabrot var tekin sneiðmynd af andlitsbeinum og höfði“. Hafi hún leitt í ljós fjölda brota á andlitsbeinum, en brotaþoli hafi verið með innkýlt vinstra kinnbein. Þá var tilgreint að við skoðun á augum hafi sést „þunnir svokallaðir Steri-strip - plástrar rétt undir augabrúnum eftir nýlega aðgerð“, en brotaþoli hafi verið til meðferðar á bráðamóttöku fimm dögum áður. Læknirinn staðfesti vottorðið fyrir héraðsdómi. Kvað hún brotaþola hafa við fyrri komu á bráðamóttöku fimm dögum áður einnig verið með áverka á andliti eftir að ráðist hafi verið á hann með hafnaboltakylfu. Læknir, sem hafi skoðað brotaþola við þá komu á slysadeild, hafi ekki metið áverkana þess eðlis að líkur hafi verið á broti, en teknar hafi verið myndir af brotaþola í það skiptið. Vitnið tók fram að við síðari komuna á slysadeild hafi brotaþoli verið með „smá umbúðir þarna á augabrúninni.“ Kvaðst hún ekki geta fullyrt um tildrög áverka brotaþola, en þeir hafi verið þess eðlis að nauðsyn hafi verið á aðgerð.

III

Eins og að framan greinir fær lýsing brotaþola um að ákærði hafi umrætt sinn veitt sér hnefahögg í andlit stuðning í framburði tveggja vitna um að mikið hafi gengið á milli ákærða og brotaþola umrætt sinn. Enda þótt vitnum beri ekki saman um sýnilega áverka á andliti ákærða er hann kom á veitingastaðinn er fram komið að þegar hann fór þaðan þurfti hann brýnnar læknismeðferðar við vegna alvarlegra áverka í andliti. Að þessu sérstaklega gættu verður ekki vefengt sönnunarmat héraðsdóms um að brotaþoli hafi orðið fyrir líkamsárás af völdum ákærða greint sinn og að um hnefahögg hafi verið að ræða. Á hinn bóginn verður hvorki ráðið af framburði brotaþola né vitna eða öðrum gögnum málsins að ákærði hafi veitt brotaþola fleiri en eitt hnefahögg, eins og miðað er við í ákæru. Um afleiðingar líkamsárásarinnar að öðru leyti verður einnig að líta til þess að brotaþoli hafði nokkrum dögum fyrir atvikið orðið fyrir líkamsárás og verður að miða við að hann hafi fyrir þá árás sem um ræðir í þessu máli verið með einhverja áverka í andliti.

Með þessum athugasemdum verður staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að ákærði hafi gerst sekur um líkamsárás umrætt sinn með því að veita brotaþola eitt högg í andlit og að afleiðingar hennar hafi orðið slíkar að háttsemi ákærða verði heimfærð undir 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga.

IV

Samkvæmt sakavottorði ákærða var hann 4. júní 1998 dæmdur í þriggja mánaða skilorðsbundið varðhald fyrir brot gegn 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. Hinn 8. desember 1999 var ákærði dæmdur í níu mánaða fangelsi fyrir brot gegn 1. mgr. 217. gr. og 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. Þá hlaut hann 21. nóvember 2000 sex mánaða fangelsisdóm fyrir brot gegn 1. og 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga og með dómi 18. desember 2002 var honum gert að sæta fangelsi í 18 mánuði fyrir brot gegn 1. mgr. 217. gr. og 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. Að lokum var hann 22. janúar 2013 dæmdur í 90 daga fangelsi, skilorðsbundið í tvö ár, fyrir brot gegn 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga.

Samkvæmt 60. gr. almennra hegningarlaga verður síðastnefndur dómur tekinn upp og dæmdur með máli þessu og refsing tiltekin eftir 77. gr. sömu laga. Þá verður litið til þess að ákærða hefur fimm sinnum áður verið gerð refsing vegna líkamsárásar. Á hinn bóginn verður tekið tillit til þess dráttar sem varð á rannsókn málsins og ákærða verður ekki um kennt. Að framangreindu virtu verður refsing ákærða ákveðin fangelsi í sjö mánuði.

Niðurstaða héraðsdóms um einkaréttarkröfu brotaþola verður staðfest, þó þannig að hin tildæmda fjárhæð beri dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá því mánuður var liðinn frá birtingu hennar fyrir ákærða 30. september 2013, en ekki 24. maí 2015, eins og miðað er við í héraðsdómi. Þá verður ákærða samkvæmt 3. mgr. 176. gr. laga nr. 88/2008 gert að greiða brotaþola 100.000 krónur í málskostnað við að halda kröfu sinni fram fyrir Hæstarétti.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verða staðfest.

Ákærða verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Ákærði, Sigurður Auðberg Davíðsson Löve, sæti fangelsi í sjö mánuði.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skulu vera óröskuð.

Ákærði greiði A 800.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 21. febrúar 2013 til 30. október sama ár, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags og 100.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 557.261 krónu, þar með talin  málsvarnarlaun verjanda síns, Sveins Guðmundssonar hæstaréttarlögmanns, 496.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 12. júní 2015.

                Málið er höfðað með ákæru ríkissaksóknara, dagsettri 27. mars 2015, á hendur:

                ,,Sigurði Auðberg Davíðssyni Löve, kennitala [...],

  Nökkvavogi 31, Reykjavík,

fyrir líkamsárás, með því að hafa að kvöldi fimmtudagsins 21. febrúar 2013, á veitingastaðnum [...] við Laugaveg í Reykjavík, slegið A ítrekað í andlitið með þeim afleiðingum að A tvíbrotnaði á kinnbeinaboga vinstra megin, brot var í augntóftargólfi og hliðlægum vegg vinstra megin í augntóft og í kinnbeini vinstra megin.

Telst þetta varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Einkaréttarkrafa:

Af hálfu A, kt. [...], er þess krafist að ákærða verði gert að greiða skaðabætur að fjárhæð kr. 8.000.000 auk vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingar nr. 38/2001, frá 21. febrúar 2013 til þess dags er mánuður er liðinn frá birtingu kröfunnar, en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá er þess jafnframt krafist að ákærða verði gert að greiða brotaþola réttargæsluþóknun að skaðlausu skv. síðar framlögðum reikningi.“

Verjandi ákærða krefst sýknu og að bótakröfu verði vísað frá dómi en til vara að sýknað verði af bótakröfu. Málsvarnarlauna er krafist að mati dómsins.

                Samkvæmt frumskýrslu lögreglunnar, dagsettri 21. febrúar 2013, barst tilkynning um slasaðan mann við Laugaveg [...]. Við komu lögreglu á staðinn hafði B tal af lögreglunni og vísaði á A og kvað hann hafa lent í átökum inni á [...] en hún hefði ekki orðið vitni að þeim. Hún hefði elt A út af staðnum og talið hann kinnbeinsbrotinn og hún hafði áhyggjur af honum og hefði því hringt í lögreglu. Segir í skýrslunni að A hafi verið illa farinn í andliti og greinilega hafi verið um gamla áverka að ræða. Þá segir að sést hafi að vinstri kinn hans hafi verið innfallin og kvaðst hann finna mikið til í höfðinu. A kvað Sigga dyravörð á [...] hafa lamið sig. Lögreglan hélt á [...] en ákærði var farinn þaðan. Var þá hringt í hann og hann spurður um málsatvik. Kvað hann einn starfsmann [...] hafa hringt í sig þar sem A hafi verið á staðnum með mikil læti og var ákærði beðinn um að aðstoða við að fjarlægja hann. Greindi ákærði svo frá að A hefði verið með mikil læti og bað hann ákærða um að ræða við sig inni á snyrtingunni. Er þangað var komið sló A í spegil og réðst síðan á ákærða sem kvaðst hafa tekið A hengingartaki og svæft hann með slíku taki. Segir í skýrslunni að ákærði hafi verið spurður um högg og hefur lögreglan eftir ákærða í frumskýrslunni að hann hafi sagt að ekki hafi verið en um högg að ræða en hann hafi ekki getað útilokað það að hafa lamið A. Hann kvað þá A hafa rætt saman um stund uns A fór en ákærði hefði ekki tekið eftir því hvort hann hefði verið með einhverja áverka.

A lagði fram kæru á hendur ákærða hinn 25. febrúar 2013. Kvað hann ákærða hafa kýlt sig fyrirvaralaust nokkur högg í andlitið inni á [...] á þessum tíma.

Tekin var skýrsla af ákærða hjá lögreglunni 30. september 2013 og 6. nóvember 2014 og neitaði hann að hafa slegið A en hann lýsti samskiptum þeirra á þessum tíma.            

Nú verður rakinn framburður ákærða og vitnisburður fyrir dómi

Ákærði neitar sök. Hann kvaðst búa skammt frá [...] þar sem hann starfi sem dyravörður. C, starfsmaður á [...], hafi hringt í sig á þessum tíma að ráði eiganda staðarins og sagt mann með mikil læti þar inni og hún væri hrædd við hann. Er ákærði kom stuttu síðar bað hann A um að koma með sér út sem hann vildi ekki og bað A ákærða um að koma með sér inn á snyrtinguna sem hann gerði. A hafi verið fremur æstur og greinilega undir áhrifum. Er þeir komu inn á snyrtinguna hafi A kýlt þar í spegil. Ákærði reyndi að róa hann en A hafi þá snúið sér við og reynt að kýla ákærða. Ákærði hafi vikið sér undan og tekið A hálstaki, svæfingartaki, og svæft hann og lýsti ákærði þessu nánar en þetta hefði átt sér stað á gangi fyrir framan snyrtinguna. Eftir það hafi hann farið fram með A þar sem voru fyrir tveir erlendir menn sem voru með A greint sinn. Þeir hafi aðstoðað sig við að setja A í stól en hann hafi verið með meðvitund. Eftir samræður við A, sem vísað hafi verið út, hafi hann beðið um úlpuna sína. Ákærði fann hana og færði A sem gekk eftir það með ákærða út af staðnum. Ákærði neitaði að hafa slegið A og engin högg hefðu átt sér stað. Spurður um það hvort hann hefði séð áverka á A kvað hann A hafa verið mjög tekinn í andliti og með áverka þar. Ákærði kvaðst ekki hafa hlotið dyravarðarréttindi en hann kvað svæfingartak vera tak sem dyraverðir grípi til. Ummæli í frumskýrslu sem höfð eru eftir ákærða um að hann gæti ekki útilokað að hafa lamið A voru borin undir ákærða. Hann kvað þetta ekki rétt eftir sér haft í skýrslunni. Hann hafi ekki viðhaft þessi ummæli.

Vitnið A kvaðst hafa farið í aðgerð í Domus Medica að morgni 21. febrúar 2013 og hann hafi því verið með umbúðir vegna þess. Síðar sama dag byrjaði hann að drekka og fór ásamt tveimur pólskum kunningjum sínum á [...]. Þeir hafi verið þrír þarna inni auk B og starfsmanns staðarins. Hann hafi rætt stutt við B og keypt bjór. Hann hafi verið búinn að vera í um hálftíma inni á staðnum er ákærði kom að máli við hann og bað um að ræða við sig fyrir framan snyrtinguna. Er þeir komu þangað hlaut hann þungt högg svo höfuð hans mölbrotnaði. Hann viti ekki hvort höggin voru fleiri þar sem hann vankaðist við höggið. Hann tók fram að eftirlitsmyndavélar væru á þessum stað. Eftir þetta hafi B gengið með sér út af staðnum og hringdi hún á lögreglu og sjúkrabíl. Hann kvað engin önnur samskipti hafa verið milli þeirra ákærða en þessi og hann hafi ekki slegið spegil inni á snyrtingunni eins og ákærði bar. Árás ákærða hafi verið tilefnislaus. A lýsti stöðugum verkjum sem hann þurfi að þola eftir árásina. Læknisskoðun hafi leitt í ljós að hugsanlega þyrfti hann að gangast undir aðgerð sem hann lýsti. Þá hafi tennur skemmst og brotnað. Þá lýsti hann andlegum afleiðingum þessa en sér hafi liðið illa vegna þessa. Hann kvaðst ekki hafa haft ráð á því að leita sálfræðiaðstoðar sem hann telji sig þurfa.

Vitnið B kvaðst ekki vera með „frábært stálminni út af þessu“. Hún kvaðst hafa verið ölvuð og að drekka á [...] á þessum tíma er A kom þar inn í annarlegu ástandi og greinilega illa fyrir kallaður. Hún kvað A hafa verið með plástra í andlitinu en engir áverkar hafi verið sjáanlegir á honum. Hann hafi farið að „ibba sig“ og lýsti hún því er A og ákærði fóru á bak við vegg þar sem gengið er að salernum staðarins. Hún hafi ekki verið viss hvort annar maður hafi verið með þeim ákærða og A en hún kvaðst hafa heyrt högg og A hafi verið „vel krambúleraður“ eftir þetta og kjálkinn á honum út á hlið eins og vitnið bar. A hafði ekki þessa áverka við komu á staðinn. Nánar spurð hvort hún gæti greint hvort höggið sem hún kvaðst hafa heyrt hafi verið eins og eftir hnefahögg eða högg eftir fall eða álíka, kvaðst hún ekki geta greint það, hún hafi ekki séð hvað gerðist auk þess sem hún sneri baki í þá ákærða og A. Hún kvað A hafa komið einan inn á staðinn og hann hafi farið „krambúleraður“ út. Eftir þetta kom A og ranglaði hann út af staðnum eins og vitnið bar og hún á eftir og hringdi á sjúkrabíl. Í skýrslutöku hjá lögreglu greindi B svo frá að enginn annar inni á staðnum hefði getað lamið A. Spurð um skýringu á þessu kvaðst hún hafa gert ráð fyrir því að vinur A á staðnum hafi ekki haft ástæðu til að lemja hann, hafi hann verið þarna, og þá komu ekki aðrir en ákærði til greina.

Vitnið C var við störf á barnum á [...] á þessum tíma er A kom þar inn ásamt tveimur mönnum. A hafi verið í mjög annarlegu ástandi og allur ,,skrambúleraður“ bólginn og blár við komuna á staðinn. Hann bað um bjór og neitaði að greiða fyrir. Hún lýsti ástandinu uns hún hringdi í eiganda staðarins og spurði hvað hún ætti að gera en hún kvaðst hafa verið þunguð og frekar hrædd þar sem A lamdi í borðið og úthúðaði vitninu og neitaði að greiða bjórinn. Eigandinn ráðlagði henni að hringja í ákærða sem hún gerði og kom ákærði að hennar ósk. Ákærði hefði reynt að tala við A sem neitaði að fara út og var með læti. Að því kom að ákærði og A fóru saman inn á snyrtingu staðarins. Stuttu síðar kom ákærði fram og studdi A og bar hún að ákærði hefði svæft hann eða náð að róa hann niður. Eftir það sátu ákærði og A og töluðu saman uns ákærði færði A úlpu sína áður en þeir ákærði fóru út. Hún sá ekki hvað gerðist inni á snyrtingunni. Hún kvaðst hafa heyrt dynki og högg og átök hafi verið þar milli ákærða og A að hennar sögn. Hún sá ákærða ekki slá A. Hún kvaðst ekki hafa veitt athygli neinum viðbótaráverkum á A við brottför hans af staðnum. Hún kvað eftirlitsmyndavélar á staðnum og hún hafi talið að upptökur hefðu verið teknar vegna þessa atburðar en eigandi staðarins hefur haft með þær að gera og lögreglan hafi haft samband við hann vegna þess.

Vitnið G kvaðst daglegur gestur á [...] en hann muni ekki eftir atburðinum sem hér um ræðir og mundi ekki eftir neinum átökum milli ákærða og A. Hann minntist þess ekki að A hefði greint sér frá þessum atburði.

Vitnið H kvað hugsanlegt að hann hafi verið á [...] á þessum tíma en hann mundi ekki eftir þessum atburði.

Vitnið D lögreglumaður lýsti er tilkynning barst lögreglu um mann sem var illa farinn í andliti. Við komu lögreglunnar vísaði tilkynnandi á A sem sjáanlega var illa farinn og var honum ekið á slysadeild. Í fyrstu var óljóst hvað hefði gerst en A greindi frá því að Sigurður, yfirdyravörður á [...], hefði slegið sig en atburðinum var ekki lýst nánar.  Vitni hafi verið kona sem vann á barnum og þrír Pólverjar sem hún viti ekki deili á. Í frumskýrslunni segir að haft hafi verið samband við ákærða símleiðis og þar haft eftir honum að hann hafi ekki veitt A högg. Aðspurður hafi hann ekki sagst geta útilokað það að hafa lamið A. D kvaðst hafa spurt ákærða hvort hann hefði lamið A og hann hefði svarað því svo að hann gæti ekki útilokað það en ákærði hefði sagt að átök hefðu orðið á milli þeirra A sem hefði lamið í spegil og síðan ætlað að ráðast á ákærða sem hafi tekið A hengingartaki og svæft hann. Hún kvað lögregluna hafa tekið ljósmyndir af A á þessum tíma.

Vitnið E lögreglumaður lýsti komu lögreglunnar á vettvang en tilkynnt var um mann sem hefði verið sleginn. Við komu á vettvang var A fyrir utan staðinn og leit illa út og hafði greinilega verið sleginn en kinnbein hafi virst brotið og andlitið var greinilega aflagað. Honum var ekið á slysadeild þar sem í ljós kom að A var brotinn í andliti. Lögreglan fór þá aftur á [...] auk þess að hafa samband við rannsóknarlögreglumann sem tók við málinu.

Fyrir liggur læknisvottorð sem F sérfræðilæknir ritaði. Í vottorðinu er svo felldur kafli sem ber heitið rannsóknir:

 „Þar sem A hafði augljóslega orðið fyrir áverkum í andliti og þar sem grunur var um andlitsbrot var tekin sneiðmynd af andlitsbeinum og höfði. Ekki greindust blæðingar eða önnur áverka merki í heila eða höfuðkúpu. Hinsvegar var fjöldi brota í andlitsbeinum vinstra megin. Kinnbeinabogi vinstra megin var tvíbrotinn og fyrir miðju hans var 11 mm brotflaski sem að var töluvert skekktur. einnig voru brot í augntóftargólfi og hliðlægum vegg vinstra megin í augntóft. Einnig var brot inn í kinnbein vinstra megin. Þannig mynduðu brotin einn stóran brotaflasaka úr fremsta hluta kinnbeinaboga og upp hliðarvegg á augnumgjörðinni vinstra megin. Einnig sást vökvaborð í vinstri kinnholu. Aðra beináverka var ekki að finna á sneiðmynd af andlitsbeinum. Niðurstaða sneiðmyndar: Ekki áveramerki í heila eða höfuðkúpu. Hinsvegar var fjöldi brota í andlitsbeinum.“

Síðar í vottorðinu er svofelldur kafli sem ber heitið álit:

„A er ungur karlmaður sem kom á bráðamóttöku Fossvogi í fylgt lögreglu þar sem hann fannst liggjandi fyrir utan skemmtistaðinn [...]. Hann var greinilega með áverka í andliti sem hann kvaðst hafa hlotið við líkamsárás. Var í annarlegu ástandi annað hvort vegna áfengis- eða fíkniefnaneyslu. Var með fjölmörg beinbrot vinstra megin í andliti í kringum augntóft. Fór í aðferð 23.02.2013 hjá háls-, nef- og eyrnalæknum. Varðandi barahorfur vísa ég á álit þeirra en eins og þekkt er tekur það nokkurn tíma að jafna sig að fullu eftir beinbrot oft nokkrar vikur. Hins vegar voru ekki augljós merki um augnskaða sem að er helsti fylgikvilli slíkra brota.“

Vitnið F sérfræðilæknir skýrði og staðfesti vottorðið fyrir dómi. Hún kvað A hafa verið undir áhrifum við komu á slysadeild. Hún lýsti að A hefði komið á bráðamóttöku 16. febrúar 2013 og þá líka hlotið áverka á andliti eftir að ráðist hafði verið á hann með hafnaboltakylfu. Hún hafi ekki vitað hvort koma A á slysadeild 21. febrúar 2013 hafi verið vegna eldra málsins eða hvort um væri að ræða tvær aðskildar árásir. Læknir sem skoðaði A í fyrra skiptið hafi metið ástand hans svo að ekki hafi verið líkur á broti. F lýsti áverkunum sem hún greindi á A og hann hafi verið sendur í sneiðmyndtöku sem hún lýsti og aðgerðum sem hann þurfti að gangast undir vegna þessa. Hún kvaðst ekki geta fullyrt hvort áverkar sem hún greini á A hafi verið vegna atburðarins sem í ákæru greinir eða hvort þeir gætu hafa verið vegna fyrra málsins sem lýst var. Hún kvaðst ekki geta útilokað það. Hún kvað myndir hafa verið teknar við komu hans og bólga sjáist vinstra megin á kinn. Hún kvað hins vegar engan vafa við skoðun sína að A hafi verið brotinn eins og reyndist vera. Hún kvað áverkana sem í ákæru greinir geta samrýmst því að A hafi verið sleginn.

                Niðurstaða

Ákærði neitar sök. Engar upptökur eftirmyndavéla staðarins náðust. Ráða má af framburði ákærða og af vitnisburði A, B og C að ákærði og A fóru tveir inn á snyrtingu staðarins eða í rými þar fyrir framan. Þá kvað A ákærða hafa slegið sig. Áverkar á A, sem eru augljósir á ljósmyndum sem lögreglan tók af honum á þessum tíma, voru ekki til staðar við komu hans á [...] og hefur A lýst þessu og vitnið B. Þá lýsti vitnið D lögreglumaður því að A hefði verið með augljósa áverka í andliti sem lögreglan ljósmyndaði. Þá kvað D ákærða hafa greint frá því í símtali að átök hefðu orðið milli þeirra A og hann gæti ekki útilokað að hafa lamið A eins og lýst var. Ákærði neitar að hafa greint frá á þennan hátt. Lögreglumaðurinn sem ritaði þetta eftir ákærða er trúverðugur og engin skynsamleg skýring hefur komið fram hvers vegna þetta hafi verið haft eftir ákærða væri það ekki rétt. Þetta ræður hins vegar ekki úrslitum í málinu. Vitnin A, B og C báru ýmist um högg eða átök ákærða og A en ákærði bar ekki um neitt slíkt og kvaðst aðeins hafa svæft A. Vitnisburður vitnanna þriggja sem vísað er til kemur heim og saman við frásögn lögreglunnar af símtali við ákærða um að ekki væri útilokað að hann hefði lamið A. Fyrir liggur að A var í læknisaðgerð þennan dag og kom plástraður í andliti á [...]. Hann tók að drekka eftir aðgerðina og fór að lokum á [...]. Ekkert bendir til þess að A hafi hlotið andlitsáverkana sem lýst er í ákærunni annars staðar en á [...] greint sinn og verður trúverðugur vitnisburður A og B lagður til grundvallar þessari niðurstöðu. Þótt A og B hafi verið undir áhrifum áfengis greint sinn er vitnisburður beggja trúverðugur og ekkert sem bendir til þess að A hafi ákærða fyrir röngum sökum. Vitnið B heyrði högg fyrir framan snyrtinguna greint sinn og A hafi verið með sýnilega áverka er hann kom þaðan. Vitnið C kvaðst hafa heyrt dynki og högg frá snyrtingunni eða þar fyrir framan og að átök hefðu orðið milli ákærða og A. Ákærði bar að engin átök hefðu orðið. Hann hefði „svæft“ A. Það er mat dómsins að ekki sé öðrum til að dreifa en ákærða sem geti hafa veitt A áverkana sem hann bar er hann kom af snyrtingu staðarins á þessum tíma. Er þannig lagður til grundvallar trúverðugur vitnisburður A sem kvað höfuð sitt hafa „mölbrotnað“ við högg ákærða og með stoð í vitnisburði B og C sem báru um átök, með læknisvottorði A og vitnisburði F sérfræðilæknis, en gegn ótrúverðugum framburði og neitun ákærða, að hann hafi gerst sekur um háttsemina sem í ákæru greinir. Vitnisburður F sérfræðilæknis um hugsanlega áverka A sem hann kunni að hafa haft við komu á slysadeild nokkrum dögum áður skipti ekki máli þar sem árás ákærða var til þess fallin að valda áverkunum sem í ákæru greinir og er með þessum athugasemdum sannað að ákærði hafi verið valdur að áverkunum sem lýst er í ákærunni.

Brot ákærða er rétt fært til refsiákvæðis í ákæru.

Ákærði á að baki sakaferil frá árinu 1988. Hann hefur síðan hlotið fimm refsidóma fyrir líkamsárásir, bæði samkvæmt 1. mgr. 217. gr. og 1. og 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. Síðast hlaut ákærði dóm 22. janúar 2013, 90 daga skilorðsbundið fangelsi í tvö ár fyrir brot gegn 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. Með broti sínu nú hefur ákærði rofið skilorð þessa dóms og er hann dæmdur upp og ákærða gerð refsing í einu lagi, sbr. 60. og 77. gr. almennra hegningarlaga. Árás ákærða á A var fólskuleg og hafði alvarlegar afleiðingar í för með sér. Að þessu virtu þykir refsing ákærða hæfilega ákvörðuð fangelsi í 9 mánuði. Eins og sakaferli ákærða er háttað kemur skilorðsbinding refsingar í heild eða hluta ekki til álita.

Bótakrafa A er þannig saman sett að krafist er 5 milljóna króna í miskabætur og þriggja milljóna króna vegna áætlaðs læknis- og sjúkrakostnaðar. Kröfunni hefur verið andmælt. Hinn áætlaði kröfuliður er ódómtækur og er honum vísað frá dómi. A á rétt á miskabótum úr hendi ákærða á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Þykja miskabæturnar hæfilega ákvarðaðar 800.000 krónur auk vaxa svo sem í dómsorði greinir en dráttavextir reiknast frá 24. maí 2015 en þá var mánuður liðinn frá birtingu kröfunnar fyrir ákærða. Þá greiði ákærði 204.600 króna réttargæsluþóknun Stefán Karls Kristjánssonar hæstaréttarlögmanns, skipaðs réttargæslumanns A.

Ákærði greiði 368.280 króna málsvarnarlaun Sævars Þórs Jónssonar héraðsdómslögmanns. Tekið hefur verið tillit til virðisaukaskatts við ákvörðun þóknunar lögmanna.

                Óli Ingi Ólason aðstoðarsaksóknari flutti málið fyrir ákæruvaldið.

Guðjón St. Marteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.

                Dómsorð:

Ákærði, Sigurður Auðberg Davíðsson Löve, sæti fangelsi í 9 mánuði.

Ákærði greiði A, kt. 250878-4289, 800.000 krónur auk vaxta skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, frá 21. febrúar 2013 til 24. maí 2015 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði 204.600 króna réttargæsluþóknun Stefán Karls Kristjánssonar hæstaréttarlögmanns.

Ákærði greiði 368.280 króna málsvarnarlaun Sævars Þórs Jónssonar héraðsdómslögmanns. Tekið hefur verið tillit til virðisaukaskatts við ákvörðun þóknunar lögma