Hæstiréttur íslands
Mál nr. 115/2000
Lykilorð
- Skuldamál
- Fyrning
|
|
Fimmtudaginn 21. september 2000. |
|
Nr. 115/2000. |
Kaupgarður hf. (Hróbjartur Jónatansson hrl.) gegn H. Albertsson ehf. (Elvar Örn Unnsteinsson hrl.) |
Skuldamál. Fyrning.
H vann ýmis verk fyrir K við byggingu fjölbýlishúss. Innréttaði H íbúð í húsinu, en samkomulag var um að H fengi greitt fyrir verkin, sem hann vann við húsið, með andvirði íbúðarinnar þegar hún yrði seld. Í mars 1995 gerðu H og K skriflegt samkomulag um íbúðina og uppgjör vegna vinnu H fyrir K þar sem fram kom að H hefði fengið íbúðina afhenta og væri um að ræða fullnaðaruppgjör. Í mars 1996 var gert kauptilboð í íbúðina. Kveður H K, sem þá var eigandi að íbúðinni, hafa neitað að staðfesta söluna á henni og taldi H að með þessu hefði K rift samkomulaginu frá í mars 1995. Krafði H K um greiðslu skuldar í bankanum Í auk reiknings fyrir vinnu H við að fullgera íbúðina. Nokkru síðar seldi K íbúðina og greiddi H fyrir verkin, sem hann hafði unnið við húsið, með því að leggja hluta kaupverðsins inn á reikning H. Taldi H að ekki væri um að ræða greiðslu vegna vinnu við íbúðina, heldur innborgun vegna annarra verka sem H vann fyrir K. Höfðaði H mál á hendur K til heimtu greiðslu vegna vinnu við íbúðina. Talið var að K hefði ekki efnt samkomulag sitt við H frá í mars 1995. Var krafa H um greiðslu fyrir vinnu við innréttingu íbúðarinnar því tekin til greina. Ekki var fallist á að krafa H væri fyrnd, en talið var að fyrningarfrestur hefði byrjað að líða þegar vinnu H við innréttingu íbúðarinnar lauk og hafi fyrningu verið slitið með birtingu stefnu nokkru áður en fjögur ár voru liðin frá verklokum.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Markús Sigurbjörnsson og Pétur Kr. Hafstein.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 16. mars 2000 og krefst aðallega sýknu af kröfu stefnda en til vara að hún verði lækkuð verulega. Hann krefst og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Við munnlegan málflutning fyrir Hæstarétti bar lögmaður áfrýjanda fram nýjar málsástæður. Á þeim verður ekki byggt við úrlausn málsins með vísan til 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 17. gr. laga nr. 38/1994.
Áfrýjandi hefur ekki hnekkt þeirri staðhæfingu stefnda, að vinnu hans við innréttingu hinnar umdeildu íbúðar nr. 04-02 í húsinu Þverholti 28 í Reykjavík hafi ekki lokið fyrr en í febrúar 1995. Krafa stefnda vegna vinnu þessarar gat því ekki byrjað að fyrnast fyrr en þá, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda. Fyrningu var slitið með birtingu stefnu 28. desember 1998. Með þessari athugasemd og með vísan til forsendna héraðsdóms að öðru leyti verður hann staðfestur.
Áfrýjandi greiði stefnda málskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Kaupgarður hf., greiði stefnda, H. Albertsson ehf., 150.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur héraðsdóms Reykjavíkur miðvikudaginn 22. desember 1999.
Mál þetta, sem dómtekið var þann 8. desember sl. að loknum munnlegum málflutningi, er höfðað með stefnu birtri 28. desember 1998 af H. Albertssyni ehf., kt. 430394-2589, Kambsvegi 6, Reykjavík, á hendur Kaupgarði hf., kt. 641073-0169, Engihjalla 8, Kópavogi.
Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 554.982 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 24. apríl 1996 til greiðsludags og málskostnað að mati dómsins.
Stefndi gerir þær dómkröfur aðallega að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda en til vara að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega. Þá er þess krafist að stefnanda verði gert að greiða málskostnað að mati dómsins.
Yfirlit um málsatvik og ágreiningsefni
Málsatvik eru þau að stefnandi vann ýmis verk fyrir stefnda við byggingu fjölbýlishúss við Þverholt 28, fyrst utanhúss en eftir það einnig önnur verk. Stefnandi innréttaði íbúð í húsinu nr. 0402 en samkomulag var um að stefnandi fengi greitt fyrir verkin, sem hann vann fyrir stefnda, með andvirði íbúðarinnar þegar hún yrði seld. Samkomulag var einnig um að stefnandi legði til vinnu við að fullgera íbúðina en stefndi efni sem stefnandi tók út í reikning stefnda hjá versluninni þar sem efnið var keypt. Fyrirsvarsmaður stefnanda upplýsti, er hann gaf skýrslu fyrir dóminum, að vinnu við innréttingu á íbúðinni hafi lokið í febrúar 1995 en af hálfu stefnda er því haldið fram að það hafi verið í síðasta lagi um mánaðamót nóvember - desember 1994.
Þann 1. mars 1995 gerðu málsaðilar skriflegt samkomulag um íbúðina og uppgjör vegna verka er stefnandi hafði unnið fyrir stefnda. Þar kemur fram að íbúðin hafi verið afhent stefnanda 1. október 1994 og að uppgjör vaxta á áhvílandi húsbréfum ásamt hússjóði, fasteignagjöldum og tryggingu vegna ársins skyldi skiptast á milli aðila samkvæmt því. Þar segir enn fremur að íbúðin hafi verið fullnaðaruppgjör á milli málsaðila, Þakverktaka hf. og Harðar Albertssonar persónulega.
Stefnandi hefur lagt fram kauptilboð, sem samþykkt er af hans hálfu sem eiganda íbúðarinnar með áritun dagsettri 22. mars 1996, en tilboðsgjafar eru Valgeir Valgeirsson og Auður Ingólfsdóttir. Samkvæmt því sem fram hefur komið var stefndi þá eigandi íbúðarinnar. Í bréfi stefnanda til stefnda, dagsettu 24. mars sama ár, kemur fram að stefnandi telji að stefndi hafi rift samkomulaginu frá 1. mars 1995 þar sem hann hafi neitað að staðfesta þessa sölu á íbúðinni. Í bréfinu fer stefnandi fram á að stefndi greiði tilgreinda skuld í Íslandsbanka og að auki reikning að upphæð 649.000 krónur fyrir vinnu stefnanda við að fullgera íbúðina.
Stefndi seldi Hallgrími Ævari Hallgrímssyni íbúðina með kaupsamningi sem dagsettur er 5. apríl 1996. Stefndi greiddi stefnanda fyrir verkin sem stefnandi vann fyrir hann með því að leggja 1.000.000 krónur af andvirði íbúðarinnar inn á reikning hjá stefnda. Það er óumdeilt en af hálfu stefnanda er því hins vegar mótmælt að þessi greiðsla hafi verið fyrir vinnu við íbúðina heldur hafi hún verið innborgun vegna annarra verka sem stefnandi vann fyrir stefnda.
Stefnandi hefur höfðað málið til innheimtu á 649.292 króna reikningi frá 24. mars 1996 vegna vinnu við íbúðina. Stefnandi hefur í endanlegri kröfugerð dregið frá reikningsfjárhæðinni 94.310 krónur vegna skuldajafnaðarkröfu stefnda en ekki er ágreiningur um hana í málinu. Hins vegar er deilt um það hvort krafa stefnanda hafi verið greidd með samkomulagi málsaðila frá 1. mars 1995. Einnig er ágreiningur um það hvort krafan sé fyrnd svo og hvenær fyrningarfrestur hafi byrjað að líða.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi segir skuldina, sem hann krefur stefnda um í málinu, vera samkvæmt framlögðum reikningi, dagsettum 24. mars 1996, að fjárhæð 649.292 krónur. Reikningurinn sé þannig til kominn að stefnandi, sem sé verktaki á sviði húsbygginga, innréttinga og smíðavinnu, hafi verið beðinn um að sjá um smíði og uppsetningu innréttinga í íbúð nr. 402 við Þverholt 28 í Reykjavík fyrir stefnda, sem þá hafi verið eigandi íbúðarinnar. Vinna stefnanda hafi aðallega falist í loftaklæðningu, smíði stiga, uppsetningu eldhúsinnréttingar, uppsetningu hurða og sólbekkja auk þess að leggja parket á gólf. Stefndi hafi lagt til allt efni í þessu sambandi en stefnandi alla vinnu.
Þegar stefnandi hafði unnið þetta umbeðna verk og vinnu hans verið lokið við innréttingar í íbúðinni og lagningu parkets á gólf hafi orðið að samkomulagi milli málsaðila að stefnandi yrði eigandi íbúðarinnar í uppgjöri þeirra í milli vegna annarra verka sem stefnandi hafði unnið við á vegum stefnda við byggingaframkvæmdir. Stefndi hafi þá selt íbúðina Bryndísi Ólafsdóttur, dóttur Ólafs Torfasonar, framkvæmdastjóra hjá stefnda. Salan hafi verið málamyndasala til þess að stefnda tækist að afla húsbréfa með fasteignaveðbréfum. Stefnandi hafi síðan átt að fá eigninni afsalað til sín þannig að honum gæfist kostur á að selja hana og fá þannig fram áðurnefnt uppgjör við stefnda. Allt þetta hafi virst vera á góðri leið með að ganga eftir þar til stefnandi hafi orðið þess áskynja skömmu síðar að stefndi hafi haft aðrar fyrirætlanir með íbúðina og hafi hann ekki ljáð máls á því að heimila stefnanda að selja hana. Stefnandi telur að hann hafi verið svikinn um greiðslu og uppgjör af hálfu stefnda sem hann hafi átt að fá með andvirði framangreindrar íbúðar.
Stefnandi hafi þá sent stefnda ábyrgðarbréf, dagsett 24. mars 1996, með kröfum um uppgjör og greiðslu fyrir áðurnefnda vinnu við innréttingu íbúðarinnar. Með bréfinu hafi fylgt hinn umstefndi reikningur. Stefndi hafi svo séð til þess að eignin var seld Hallgrími Ævari Hallgrímssyni með samningi 5. apríl 1996.
Af hálfu stefnanda er því haldið fram að stefndi hafi, þrátt fyrir margítrekaðar tilraunir stefnanda, ávallt komið sér undan að greiða reikninginn. Honum hafi að lokum verið sent bréf lögmanns stefnanda, dagsett 12. október 1998, með kröfu um greiðslu reikningsins. Ólafur Torfason hafi svarað því bréfi og í fyrstu ekkert kannast við að hafa átt í viðskiptum við stefnanda varðandi nefnda innréttingarsmíði og í svari hans frá 24.október 1998 segi að enn hvíli þoka yfir huga hans um meint tengsl hans og stefnanda varðandi margnefnda íbúð.
Stefnandi byggir kröfur sínar á því að honum hafi verið falið að sjá um smíðavinnu fyrir stefnda og að stefnda beri skylda til að greiða þann reikning sem stefnandi hafi gert honum vegna vinnunnar. Stefndi hafi móttekið reikninginn þegar hann hafi verið sendur með ábyrgðarbréfi þann 24. mars 1996. Fulltrúi stefnda, Ólafur Torfason, hafi nú borið því við að hann sjái ekki að stefndi eigi að greiða reikninginn. Þessar mótbárur stefnda hafa ekki komið fram áður og stefndi hafi ekki mótmælt reikningnum. Fyrstu athugasemdir hans um málið komi fram með bréfi til lögmanns stefnanda 18. október 1998. Reikningurinn sé sanngjörn og eðlileg krafa stefnanda fyrir þá vinnu sem hann hafi unnið í þágu stefnda og samkvæmt hans óskum. Stefndi hafi sjálfur greitt allan efniskostnað við framkvæmdina og geti því varla borið fyrir sig að vinnan hafi ekki verið unnin. Stefnandi hafi ítrekað reynt að fá reikninginn greiddan, en þrátt fyrir þær tilraunir hafi enginn árangur orðið og sé málsókn til innheimtu kröfunnar því nauðsynleg. Af hálfu stefnanda er varakröfu um lækkun vegna meintra galla á verkum stefnanda mótmælt. Stefnandi telur lækkunarkröfu stefnda vanreifaða, órökstudda og án tilgreiningar á fjárhæð.
Stefnandi byggir á því að stefnda beri að greiða hinn umstefnda reikning og reisir þá kröfu sína á meginreglum samninga- og kröfuréttar um skuldbindingargildi loforða og stefnda beri samkvæmt grunnrökum 5. gr. laga um lausafjárkaup nr. 39/1922, með eða án lögjöfnunar, að greiða uppsett verð stefnanda fyrir vinnuna. Kröfur um dráttarvexti og vaxtavexti styður stefnandi við ákvæði III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 ásamt síðari breytingum. Kröfur um málskostnað styður stefnandi við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Málsástæður og lagarök stefnda
Af hálfu stefnda er málsatvikalýsingu stefnanda mótmælt sem rangri og ósannaðri í veigamiklum atriðum. Stefndi telur málsatvik vera þau að fyrirsvarsmaður stefnanda hafi á sínum tíma unnið að ýmsum verkefnum fyrir stefnda við byggingu fjölbýlishússins við Þverholt sem gangi í daglegu tali undir nafninu Egilsborgir. Hafi hann gert þetta ýmist í nafni fyrirtækja sinna, Þakverktaka hf. og H. Albertssonar ehf., eða persónulega. Erfiðlega hafi gengið að selja íbúðir á þessum tíma og þá sérstaklega íbúðir sem ekki hafi verið fullkláraðar. Samkomulag hafi tekist með aðilum á árinu 1994 um að prófa að innrétta í sameiningu eina íbúðina að fullu og selja hana þannig tilbúna. Skyldi stefnandi leggja til vinnu en stefndi efni. Stefnandi hafi síðan átt að fá greitt fyrir verk sitt af söluverði íbúðarinnar þegar hún seldist.
Vinna við innréttingar hafi hafist um mitt ár 1994 og hafi henni lokið eigi síðar en um mánaðamótin nóvember-desember sama ár. Sala á íbúðinni hafi hins vegar gengið hægt og hafi vanskil á áhvílandi húsbréfalánum hlaðist upp.
Þann 1. mars 1995 hafi aðilar svo gert með sér samning um fullnaðaruppgjör á milli stefnda annars vegar og Þakverktaka hf., stefnanda og Harðar Albertssonar persónulega hins vegar vegna vinnu hinna síðarnefndu að Egilsborgum. Þótt samningurinn hafi verið gerður 1. mars 1995 hafi verið við það miðað að stefnandi hafi tekið við umráðum íbúðarinnar 1. október 1994 og miðaðist uppgjör vaxta vegna áhvílandi lána við þann dag. Íbúðin hafi hins vegar ekki verið skráð formlega á nafn stefnanda til þess að spara kostnað. Hann hafi hins vegar haft öll umráð íbúðarinnar og hafi hann getað ráðstafað henni að vild. Sem dæmi um það nefnir stefndi að sama dag og samkomulagið var gert hafi einn aðila samningsins, Þakverktakar hf., sem hafi verið í eigu sama eiganda og stefnandi en sé nú gjaldþrota, þinglýst veðskuldabréfi á eignina að fjárhæð 1.500.000 krónur eins og fram komi á dómskjali nr. 9.
Af hálfu stefnda er því mótmælt að stefndi hafi hindrað sölu á íbúðinni og að með því hefði hann í raun rift samkomulaginu frá l. mars 1995. Með bréfi stefnanda til stefnda frá 24. mars 1996 hafi fylgt reikningurinn, sem deilt er um í máli þessu, en því sem þar komi fram hafi harðlega verið mótmælt af hálfu stefnda. Sölutilraunir hafi haldið áfram og u.þ.b. mánuði seinna, eða 5. apríl 1996, hafi íbúðin verið seld Hallgrími Ævari Hallgrímssyni. Greiðslur samkvæmt kaupsamningi hafi verið inntar af hendi til stefnda sem þinglýstum eiganda íbúðarinnar. Stefndi hafi síðan afhent stefnanda 1.000.000 króna af þessari greiðslu en hann hafi lagt þá fjárhæð inn á reikning stefnanda. Eftirstöðvum söluverðsins, eða u.þ.b. 300-400.000 krónum, hafi stefndi þó haldið eftir vegna meintra galla sem komið hafi í ljós á verkum stefnanda í Egilsborgum.
Löngu síðar eða þann 12. október 1998 hafi stefnda síðan borist innheimtubréf frá lögmanni stefnanda þar sem gerð hafi verið krafa um greiðslu reikningsins, sem deilt er um í málinu, en krafan hafi borist með bréfi stefnanda, dagsettu 24. mars 1996. Stefndi hafi mótmælt greiðsluskyldu sinni og hafi lögmaður stefnanda því höfðað mál þetta til greiðslu reikningsins.
Stefndi byggir sýknukröfu sína í fyrsta lagi á því að stefndi hafi greitt stefnanda að fullu fyrir þau verk sem stefnandi byggir kröfur sínar á. Stefndi hafi gert skuldbindandi samning við stefnanda þann 1. mars 1995 um fullnaðaruppgjör á greiðslum vegna þeirra verka sem stefnandi hafði unnið fyrir stefnda að Egilsborgum fram að þeim tíma sem samkomulagið var gert eða 1. mars 1995.
Verkin, sem stefnandi byggir dómkröfur sínar á, hafi verið unnin í íbúð nr. 402 í umræddu húsi. Verkin hafi verið unnin á tímabilinu maí til október 1994 og vísar stefndi í því sambandi til reikninga Húsasmiðjunnar hf. en þar komi fram að stefnandi hafi tekið út allt efni til verksins á því tímabili. Þau verk sem unnin hafi verið eftir 1. október 1994 séu alfarið á ábyrgð stefnanda þar sem hann hafi fengið umrædda íbúð afhenta þann dag samkvæmt samkomulaginu frá 1. mars 1995 en stefndi beri enga ábyrgð á verkum eftir þennan dag. Þó svo að litið væri svo á að stefndi bæri ábyrgð á öllum verkum stefnanda í íbúðinni þá breyti það engu þar sem þau hafi örugglega verið unnin fyrir 1. mars 1995.
Af hálfu stefnda er því haldið fram að samningurinn frá 1. mars 1995 sé skuldbindandi fyrir aðila þessa máls þar sem honum hafi ekki verið rift. Stefnandi hafi enga tilraun gert til að rifta samningnum eða að fá viðurkenningu dómstóla á lögmæti slíkrar riftunar. Það eina sem liggi fyrir í málinu séu vangaveltur og ágiskanir um riftun sem settar hafi verið fram í bréfi stefnanda frá 24. mars 1996 og mótmælt hafi verið af stefnda.
Stefndi byggir sýknukröfu sína jafnframt á því að krafa stefnanda sé fyrnd. Stefnandi hafi fengið íbúðina afhenta 1. október 1994 og beri stefndi því enga ábyrgð á þeim verkum sem unnin hafi verið í íbúðinni eftir þann tíma. Krafan fyrnist á fjórum árum, sbr. 1. tl. 3. gr. fyrningarlaga nr. 14/1905. Fyrningarfrestur teljist frá 1. október 1994 en stefna í máli þessu hafi verið birt í lok desember 1998 og hafi krafan þá verið fyrnd. Jafnvel þótt fyrningarfrestur teldist frá verklokum þá verði að álíta að þau hafi verið eigi síðar en 1. desember 1994. Efni til síðasta verksins, sem hafi verið parketlögn, hafi verið tekið út seinni hluta október 1994. Samkvæmt reikningi stefnanda hafi verkið tekið 126 klukkustundir. Þótt aðeins sé miðað við að verkið hafi verið unnið af einum manni í dagvinnu hafi það tekið um það bil þrjár vikur og hafi því verið lokið eigi síðar en 1. desember 1994. Þótt miðað sé við þann dag sem upphaf fyrningarfrests þá sé krafan fyrnd.
Varakrafa stefnda byggir í fyrsta lagi á því að hluti kröfunnar hafi verið greiddur með skuldajöfnuði við skuld stefnanda vegna matarúttektar hjá stefnda. Stefnandi hefur lækkað kröfuna um þá fjárhæð og þarf því ekki að taka afstöðu til þess við úrlausn málsins. Varakrafan er hins vegar jafnframt byggð á því að stefndi eigi kröfu á hendur stefnanda vegna galla á verkum sem stefnandi hafi unnið hjá stefnda í Egilsborgum. Hvað varðar lýsingu á göllunum er vísað til bréfs frá Tækniþjónustu Sigurðar Þorleifssonar ehf. til húsfélagsins Egilsborga. Jafnframt er vísað til verktilboðs og verktilhögunar á dómskjölum nr. 14 og 15, þar sem stefnandi geri stefnda tilboð um lagfæringar á hluta af göllunum. Tilboðið sé sett fram af H.A.- Verktökum hf., Kambsvegi 6, Reykjavík, en engin kennitala komi fram. Félag með þessu nafni finnist ekki í þjóðskrá. Stefnandi sé hins vegar skráður á þessu heimilisfangi og hafi þau símanúmer, sem komi fram á tilboðinu, auk þess að hafa sama fyrirsvarsmann. Verði samkvæmt þessu að álíta að hér sé um stefnanda að ræða og að verktilboð það, sem hann hafi sett fram, sé viðurkenning á hluta af göllunum þar sem hann bjóðist til þess að lagfæra þá, eins og hann orði það, endurgjaldslaust.
Vísað er til meginreglna samninga- og kröfuréttarins um gerð samninga, skuldbindingargildi þeirra og vanefndir og vanefndaúrræði. Varðandi kröfuna um málskostnað úr hendi stefnanda er vísað til 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Niðurstöður
Í samkomulagi málsaðila og tveggja annarra tilgreindra aðila frá 1. mars 1995 segir að þessir aðilar séu sammála um að íbúðin sem um ræðir hafi verið afhent stefnanda hinn 1. október 1994. Enn fremur segir að íbúðin hafi verið fullnaðaruppgjör milli samningsaðila. Af hálfu stefnda er því haldið fram að hann hafi með samkomulaginu gert upp kröfuna sem deilt er um í málinu. Þetta verður að skilja þannig að stefndi hafi skuldbundið sig til þess að stefnandi yrði eigandi íbúðarinnar til að ná fram umræddu uppgjöri enda hefur ekkert komið fram í málinu sem bendir til annars.
Ljóst er af því sem fram hefur komið og viðurkennt er af hálfu stefnda að hann seldi Hallgrími Ævari Hallgrímssyni íbúðina með kaupsamningi dagsettum 29. mars 1996. Stefndi hefur því ekki efnt samkomulagið frá 1. mars 1995 gagnvart stefnanda. Það eru því ekki haldbærar varnir af hálfu stefnda að hann hafi gert kröfu stefnanda upp með samkomulaginu. Krafan er samkvæmt reikningi stefnanda að fjárhæð 649.292 krónur en hann hefur í kröfugerð sinni fyrir dóminum dregið frá skuldajafnaðarkröfu stefnda að fjárhæð 94.310 krónur. Að þessu frátöldu hefur hvorki fjárhæð reikningsins né efni hans að öðru leyti sætt andmælum af hálfu stefnda. Verður með vísan til þessa að telja kröfu stefnanda réttmæta að þessu leyti.
Krafa stefnanda er fyrir vinnu við íbúðina sem um ræðir. Krafan fyrnist því á fjórum árum samkvæmt 1. tl. 3. gr. laga um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda nr. 14/1905. Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. sömu laga byrjar fyrningarfrestur að líða þegar krafan verður gjaldkræf. Með vísan til 12. gr. laga um lausafjárkaup nr. 39/1922 verður að telja að krafa verði í fyrsta lagi gjaldkræf þegar hún er sett fram en það var í þessu tilfelli gert með bréfi stefnanda þann 24. mars 1996 og er reikningurinn, sem liggur til grundvallar kröfum stefnanda í málinu, dagsettur sama dag. Fyrningu var slitið samkvæmt 1. gr., sbr. 11. gr., laga nr. 14/1905 með birtingu stefnu þann 28. október 1998. Samkvæmt þessu verður ekki fallist á þau rök stefnda að umrædd krafa stefnanda á hendur honum sé fallin niður fyrir fyrningu.
Varakrafa stefnda um lækkun á kröfum stefnanda vegna meintra galla á verkum, er stefnandi vann fyrir stefnda, er studd þeim rökum að stefnandi hafi með lýsingu á verktilhögun og verktilboði viðurkennt hluta af göllunum. Einnig vísar stefndi í þessu sambandi til lýsingar Sigurðar Þorleifssonar frá Tækniþjónustu Sigurðar Þorleifssonar ehf. á göllunum frá nóvember 1998. Engar fjárhæðir eru tilgreindar, hvorki í þessari lýsingu né í framangreindri lýsingu á verktilhögun. Verktilboðið sem stefndi vísar til er frá H.A. Verktökum hf. en ekki stefnanda. Fjárhæðir eru þar tilgreindar við þrjá liði af átta. Óljóst þykir hvernig skýra á það sem kemur fram í þessum skjölum og hver tengsl eru milli þess og varakröfu stefnda. Krafa stefnda um lækkun þykir því, eins og hún er sett fram af hálfu stefnda, hvorki studd haldbærum gögnum né rökum, og verður með vísan til þess að hafna henni.
Samkvæmt því sem hér hefur komið fram ber að taka kröfur stefnanda á hendur stefnda til greina.
Rétt þykir að stefndi greiði stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 150.000 krónur.
Dóm þennan kvað upp Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari.
Dómsorð:
Stefndi, Kaupgarður hf., greiði stefnanda, H. Albertssyni ehf., 554.982 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 24. apríl 1996 til greiðsludags og 150.000 krónur í málskostnað.