Hæstiréttur íslands

Mál nr. 160/2001


Lykilorð

  • Skaðabætur
  • Líkamstjón
  • Örorka
  • Gjafsókn


Fimmtudaginn 4

 

Fimmtudaginn 4. október 2001.

Nr. 160/2001.

Guðrún Edda Káradóttir

(Karl Axelsson hrl.)

gegn

Sjóvá-Almennum tryggingum hf.

(Ólafur Axelsson hrl.)

 

Skaðabætur. Líkamstjón. Örorka. Gjafsókn.

G varð fyrir varanlegu líkamstjóni í umferðarslysi á árinu 1997. Var varanlegur miski G metinn 15%, en varanleg örorka 30%. Áður en slysið átti sér stað hafði G, sem var fædd árið 1953, stundað nám um nokkurra ára skeið, síðast í bókmenntafræðum við Háskóla Íslands, en þar á undan verið húsmóðir. Þurfti G að hætta námi vegna afleiðinga slyssins. Í málinu krafðist G þess að bætur fyrir varanlega örorku væru ákveðnar á grundvelli 5.-7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, en ekki 8. gr. sömu laga. Samkvæmt 2. mgr. 7. gr. laganna skyldi meta árslaun sérstaklega, þegar óvenjulegar aðstæður væru fyrir hendi, t.d. breytingar á tekjum eða atvinnuhögum, en samkvæmt þágildandi 8. gr. sömu laga, sem farið hafði verið eftir við tjónsuppgjör vegna slyssins, skyldi ákveða bætur til barna og tjónþola, sem að verulegu leyti nýttu vinnugetu sína þannig, að þeir hefðu engar eða takmarkaðar vinnutekjur, á grundvelli miskastigs samkvæmt 4. gr. laganna. Héraðsdómur taldi að rétt hefði verið að fara eftir þágildandi ákvæðum 8. gr. skaðabótalaga við uppgjör á örorkubótum G. Hæstiréttur staðfesti héraðsdóm með vísan til forsendna hans.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 4. maí 2001. Hún krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 4.305.351 krónu með 2% ársvöxtum frá 27. desember 1997 til 27. október 1999, en með dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem henni hefur verið veitt á báðum dómstigum.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Hvor aðili skal bera sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.

Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti verður ákveðinn eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, Guðrúnar Eddu Káradóttur, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 250.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 7. febrúar 2001.

Mál þetta, sem dómtekið var 24. janúar síðastliðinn að afloknum munnlegum málflutningi, er höfðað með stefnu, þingfestri 5. september 2000.

Stefnandi er Guðrún Edda Káradóttir, kt. 260953-5759, Njálsgötu 12a, Reykjavík.

Stefndi er Sjóvá-Almennar tryggingar hf., kt. 701288-1739, Kringlunni 5,  Reykjavík.

Stefnandi gerir þær dómkröfur aðallega, að stefndi verði dæmdur til að greiða henni skaðabætur, að fjárhæð 4.305.351 krónur, ásamt 2% ársvöxtum frá 27. september 1997 til 27. október 1999 og dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst stefnandi þess, að stefndi greiði henni skaðabætur, að fjárhæð 4.191.984 krónur, ásamt 2% ársvöxtum frá 27. september 1997 til 27. október 1999 og dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til greiðsludags. Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar að skaðlausu samkvæmt mati dómsins, auk virðisaukaskatts samkvæmt lögum nr. 50/1988.

Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda og að henni verði gert að greiða stefnda málskostnað að skaðlausu.

I.

Málsatvik

Stefnandi lenti í umferðarslysi 27. september 1997, er hún ók bifreið sinni, Z-1487, norður Hverafold í Reykjavík og inn á Fjallkonuveg til vesturs og í veg fyrir bifreiðina KV- 486, sem ekið var vestur Fjallkonuveg. Fór hún daginn eftir á bráða- og slysadeild Sjúkrahúss Reykjavíkur, þar sem hún var greind með hnykk­áverka, tognun á lendhrygg, mar og tognun á brjóstbaki, mjóbaki og yfir mjaðma­grind, auk þess sem hún var með sprungu ofarlega í sveifarbeini á hægri fótlegg. Varð stefnandi fyrir varanlegu líkamstjóni við umræddan árekstur og hefur síðan þjáðst af svefnleysi, höfuðkvölum og doðatilfinningu út í handleggi, auk óþæginda neðst í mjóbaki og á þjósvæði. Þegar óhappið varð stundaði stefnandi nám í bókmenntafræðum við Háskóla Íslands, en hún kveðst hafa orðið að hætta því vegna afleiðinga slyssins. Í ágúst 1998 leitaði stefnandi til lögmanns og veitti honum umboð til að ganga frá uppgjöri á skaðabótum sér til handa vegna slyssins. Með matsgerð Jónasar Hallgrímssonar læknis, dagsettri 1. september 1999, voru á grundvelli skaðabótalaga nr. 50/1993 metnar þjáningar stefnanda, varanlegur miski og varanleg örorka. Var það mat Jónasar, að stefnandi hefði verið veik í tíu mánuði. Þá var varanlegur miski metinn 15% á grundvelli útbreiddra tognunareinkenna, sérstaklega í hálsi, herðum og brjóstbaki, ásamt höfuðverk. Þá taldi læknirinn slysið hafa orðið til þess að breyta öllum framtíðaráætlunum stefnanda, en óvíst væri um getu hennar á vinnumarkaði eða við háskólanám framvegis. Hefðu möguleikar hennar til starfs utan heimilis og tekjuöflunar á þeim sviðum, sem hún hefði hugsað sér, skerst verulega. Var varanleg örorka stefnanda metin 30%.

Áðurnefnd bifreið stefnanda var tryggð lögbundinni tryggingu hjá stefnda, sbr. 91. og 92. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Sendi þáverandi lögmaður stefnanda kröfugerð vegna slyssins til stefnda með bréfi, dagsettu 27. september 1999. Vegna kröfu um bætur fyrir varanlega örorku var miðað við meðalárslaun félagsmanna í Félagi íslenskra fræða, sem talin voru hafa verið 1.191.476 krónur síðustu 12 mánuði fyrir slys. Við þá fjárhæð var bætt 6% vegna tapaðra lífeyrisréttinda og voru viðmiðunarlaunin því samtals 2.025.104 krónur. Var krafist bóta á grundvelli tífaldrar þeirrar fjárhæðar, margfaldaðri með örorkustigi, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 50/1993, sbr. 1. gr. laga nr. 42/1996, eða sem svaraði 6.075.312 krónum. Með símbréfi, dagsettu l. nóvember 1999, sendi stefndi lögmanni stefnanda sáttaboð, þar sem miðað var við uppgjör vegna varanlegrar örorku samkvæmt 8. gr. þágildandi skaðabótalaga, enda hefði stefnandi litlar vinnutekjur haft næstliðin þrjú ár. Var þar gert ráð fyrir bótum vegna varanlegrar örorku að fjárhæð 900.023 krónur, en eftir 19% frádrátt vegna aldurs, sbr. 1. mgr. 9. gr. skaðabótalaga, námu örorkubætur 729.019 krónum. Þann 3. nóvember 1999 var gengið til uppgjörs aðila um bætur á grundvelli sáttaboðs stefnda og gerði lögmaður stefnanda þá fyrirvara um fjárhæð bóta vegna varanlegrar örorku. Samkvæmt því voru stefnanda greiddar l.787.437 krónur í bætur og þar af voru áðurnefndar 729.019 krónur vegna varanlegrar örorku.

II.

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi byggir á því, að þegar slysið varð, hafi hún verið komin vel á veg með nám sitt í bókmennafræði við Háskóla Íslands og búin að ljúka 20 einingum af 90. Hafi stefnandi verið skráð til prófs í tveimur fimm eininga námskeiðum á haustmisseri 1997 og þremur fimm eininga og einu þriggja eininga námskeiði á vormisseri 1998. Hafi hún því stefnt að því að ljúka 28 einingum um veturinn 1997 - 1998 og þá verið hálfnuð með nám sitt. Sökum líkamstjóns stefnanda hafi áform hennar að engu orðið og þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir hafi henni reynst ómögulegt að halda áfram háskólanámi. Heldur stefnandi því fram, að við útreikning skaðabóta henni til handa vegna skerðingar á varanlegri örorku eigi að fara eftir ákvæðum 5.-7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, en ekki 8. gr. laganna. Í 8. gr. laganna felist undantekning, sem túlka verði þröngt og komi hún aðeins til framkvæmda, þegar allt annað þrýtur. Í 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaganna sé gert ráð fyrir að ákveða skuli árslaun með mati, þegar sérstaklega stendur á. Í athugasemdum, er fylgdu frumvarpi til laganna, séu sett nánari viðmið um, hvenær greinin eigi við. Þar segi, að ákvæðinu skuli beitt, þegar tjónþoli stundi nám og þiggi laun þegar líkamstjón beri að höndum og skuli þá miða árslaun við tekjur, sem tjónþoli mundi hafa haft, hefði hann verið nýbúinn að ljúka námi. Sé í dæmaskyni nefnt iðnnám og síðar í athugasemdunum læknastúdentar.

Stefnandi hafi verið 44 ára, er slysið varð og hefði farið að vinna á sínu sviði, hefði slysið ekki komið til, og þá haft tekjur sem starfandi bókmenntafræðingur. Verði því við útreikning bóta fyrir varanlega örorku að miða við þær tekjur, sem stefnda hefði haft í framtíðinni, sbr. 5. - 7. gr. skaðabótalaga. Verði þar af leiðandi að meta árslaun hennar sérstaklega, sbr. 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, enda óvenjulegar aðstæður fyrir hendi. Sé það mat stefnanda, að í því sambandi sé eðlilegt að miða við meðallaun þeirra ríkisstarfsmanna í Félagi íslenskra fræða og kjaradeild Félags íslenskra félagsvísindamanna ári áður en slysið varð, eða nánar tiltekið á tímabilinu október 1996 til september 1997. Um stefnanda geti því ekki gilt sömu sjónarmið og um börn eða unglinga eða ungt fólk í námi. Þrátt fyrir að stefnandi hafi haft takmarkaðar vinnutekjur næstliðin ár á undan, beri að hafa í huga að stefnandi, sem hafi verið 44 ára á slysdegi, hafi verið í námi til stúdentsprófs og síðar í háskólanámi í því skyni að fara aftur á vinnumarkaðinn og auka tekjumöguleika sína. Telji stefnandi því, að undantekningarákvæði 8. gr. skaðabótalaga geti ekki átt við um hana og verði því að meta tekjur hennar sérstaklega, sbr. 2. mgr. 7. gr. laganna. Geti í þessu sambandi engu skipt, hvort stefnandi hafi þegið laun í tengslum við nám sitt, enda ekki gert ráð fyrir starfsnámi eða verklegu námi í bókmenntafræðum á sama hátt og t.d. hjá iðn- og læknanemum.

 Aðalkrafa stefnanda taki mið af meðallaunum ríkisstarfsmanna í Félagi íslenskra fræða og kjaradeild Félags íslenskra félagsvísindamanna á tímabilinu l. október 1996 til l. október 1997 samkvæmt upplýsingum Kjararannsóknarnefndar opinberra starfsmanna, að viðbættum 6% vegna tapaðra lífeyrisréttinda. Sé fjárhæðin tífölduð í samræmi við reglu 6. gr. skaðabótalaga, eins og henni hafi verið breytt með 1. gr. laga nr. 42/1996 og loks margfölduð með örorkustigi stefnanda. Þá séu dregin frá 19% vegna aldurs stefnanda, er slys varð, sbr. 9. gr. skaðabótalaga. Til frádráttar kröfunni komi enn fremur greiðsla frá stefnda vegna varanlegrar örorku, sbr. uppgjör, dagsett 2. október 1999. Sundurliðast krafan sem hér segir:

Árslaun (1.954.488+117.269 kr. x 10 x 30%)                                          6.215.271 kr.­

Frádráttur (19% sbr. 9. gr. skaðabótalaga)                                        -1.180.901 kr.­

Samtals:                                                                                                     5.034.370 kr.­

Áður greitt af stefnda vegna varanlegrar örorku

(kr. 900.023 - 171.004 kr.)                                                                          -729.019 kr.­

Samtals:                                                                                                     4.305.351 kr.

Varakrafa stefnanda miðist við þá kröfu, sem þáverandi lögmaður stefnanda hafi gert fyrir hennar hönd á hendur stefnda með bréfi, dagsettu 27. september 1999. Sú kröfugerð miðist við árslaun 1.910.476 krónur, sem lögmaðurinn hafi sagt vera meðallaun félagsmanna í Félagi íslenskra fræða á síðustu 12 mánuðum fyrir slys. Sú fjárhæð sé hins vegar lægri en tölur Kjararannsóknarnefndar opinberra starfsmanna gefi til kynna. Miðist varakrafan því við, að dómurinn telji stefnanda bundna af kröfugerð í áðurnefndu bréfi lögmannsins og að leiðréttingum verði ekki komið að síðar. Sundurliðast varakrafan svo:

Árslaun (1.910.476+114.628 kr. x 10 x 30%)                                          6.075.312 kr.­

Frádráttur (19% sbr. 9. gr. skaðabótalaga)                                         -1.154.309 kr.­

Samtals:                                                                                                     4.921.003 kr.­

Áður greitt af stefnda vegna varanlegrar örorku

(900.023 kr. - 171.004 kr.)                                                                          -729.019 kr.­

Samtals:                                                                                                     4.191.984 kr.

III.

Málsástæður og lagarök stefnda

Stefndi byggir sýknukröfu á því, að fullnaðaruppgjör hafi farið fram á tjóni stefnanda með áðurnefndri greiðslu til hennar og sé það uppgjör í samræmi við skaðabótalög nr. 50/1993, sbr. breytingarlög nr. 42/1996, sem hér eigi við.

Í gögnum málsins komi fram, að stefnandi hafi verið við nám, er slysið átti sér stað.  Ætti því að vera óumdeilt, að stefnandi hafi þá verið námsmaður í skilningi 8. gr. skaðabótalaga. Hafi hún enga tekjureynslu haft sem launþegi, enda verið við nám undanfarin ár og þar á undan húsmóðir. 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, sem stefnandi vilji nú byggja kröfu sína á, eigi við um launþega, þar sem óvenjulegar aðstæður séu fyrir hendi varðandi laun þeirra eða starf, þannig að marktæk launaviðmiðun fáist ekki, sé litið til tekna þeirra næstu 12 mánuði fyrir slysið. Sé tekið sem dæmi í greinargerð fyrir lögunum sjálfstæður atvinnurekandi, þar sem tekjur séu undirorpnar tíðum breytingum og tjónþoli sem sé atvinnulaus. Í slíkum tilvikum verði að meta árslaunin eftir mati vegna óvenjulegra aðstæðna.

Í öllum tilvikum sé í greininni átt við launþega, þar sem af sérstökum ástæðum sé ekki hægt að miða við laun næstu 12 mánuði á undan. Það komi einnig skýrt fram í greinargerðinni, að hún eigi aðeins við þá námsmenn, sem þiggi laun í tengslum við námið, svo sem iðnnemar og læknanemar. Segi í greinargerðinni, að um tjónþola, sem ekki fá laun í tengslum við nám, fari eftir ákvæðum 8. gr. frumvarpsins. Hafi uppgjör það, sem fram fór, því verið í samræmi við gildandi skaðabótarétt og teljist því fullnaðargreiðsla til stefnanda. 

IV.

Forsendur og niðurstaða

Fram er komið í málinu, að stefnandi lauk gagnfræðaprófi og var nokkur ár að hluta í Myndlistarskóla Reykjavíkur, en vann samhliða því námi, aðallega í verslunum. Eftir að hún gifti sig var hún heimavinnandi, utan þess, að hún vann eitt ár á meðferðarstöð. Fyrir nokkrum árum hóf stefnandi nám við öldungadeild Menntaskólans í Hamrahlíð og lauk stúdentsprófi þaðan vorið 1996. Um haustið það ár hóf hún nám í bókmenntafræði við Háskóla Íslands. Hafði hún lokið 20 einingum af 90, er slysið varð, og stefndi að því að ljúka 28 einingum til viðbótar veturinn 1997 – 1998. Kemur fram í matsgerð Jónasar Hallgrímssonar læknis, dagsettri 1. september 1999, að tognunareinkenni frá hálsi, herðum og brjóstbaki, með leiðslu niður í handleggi, valdi henni töluverðum erfiðleikum í námi og við heimilisstörf, en sérstaklega séu höfuðverkir þjakandi og hafi þeir orðið til þess, að hún hafi, að minnsta kosti tímabundið, hætt námi við Háskóla Íslands. Sé óvíst um getu hennar á vinnumarkaði eða við háskólanám í framtíðinni. Kemst læknirinn að þeirri niðurstöðu, að af þessum sökum verði talið, að möguleikar stefnanda til starfs utan heimilis og tekjuöflunar á þeim sviðum, sem hún hafði hugsað sér, hefðu skerst verulega og mat hann varanlega örorku stefnanda 30%.

Samkvæmt 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 skal meta árslaun sérstaklega, þegar óvenjulegar aðstæður eru fyrir hendi, t.d. breytingar á tekjum eða atvinnuhögum. Byggir stefnandi málssókn sína á því, að aðstæður stefnanda hafi verið með þeim hætti, er slys það, er mál þetta er sprottið af, átti sér stað, að ákvæði þetta eigi hér við, en ekki 8. gr. sömu laga, sem farið var eftir af hálfu stefnda við tjónsuppgjör vegna slyssins.  Samkvæmt síðarnefndu greininni, svo sem hún hljóðaði, áður en henni var breytt með 7. gr. laga nr. 37/1999, skal ákvarða bætur til barna og tjónþola, sem að verulegu leyti nýta vinnugetu sína þannig, að þeir hafa engar eða takmarkaðar vinnutekjur, á grundvelli miskastigs samkvæmt 4. gr. laganna. Skulu bætur þá ákveðnar sem hundraðshluti af bótum fyrir varanlegan miska eftir þágildandi reglum 1. – 4. málsliðar 1. mgr. 4. gr. Kemur fram í athugasemdum með frumvarpi til skaðabótalaganna, að þessari heimild eigi að beita í þeim tilvikum, þegar tekjuöflun tjónþola hefur verið mjög takmörkuð. Eigi heimildin einkum við um börn, ungt námsfólk og þá, sem vinna heimilisstörf.

Stefnandi hafði samkvæmt framansögðu verið í námi, er hún lenti í umferðarslysinu, og þar áður að langmestu leyti heimavinnandi húsmóðir. Kemur fram í símbréfi stefnanda til þáverandi lögmanns hennar frá 1. nóvember 1999, að samkvæmt skattframtölum hafi hún haft um 120.000 krónur í tekjur síðustu þrjú ár fyrir slys. Er þannig ljóst, að fyrir slysið nýtti stefnandi aflahæfi sitt þannig, að hún hafði mjög takmarkaðar vinnutekjur, sbr. þágildandi 1. mgr. 8. gr. skaðabótalaga. Kemur þá til skoðunar, hvort aðstæður stefnanda séu svo óvenjulegar, að ákvæði 2. mgr. 7. gr. geti hér átt við.

Í greinargerð með 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga segir, að ákvæðinu myndi t.d. beitt um sjálfstæða atvinnurekendur, er hafa tekjur, sem undirorpnar eru tíðum breytingum, en árslaun manna í þessum hópi sé almennt ekki unnt að ákveða á grundvelli tekna á næstliðnum 12 mánuðum fyrir tjónsdag, svo sem gert var, áður en 7. gr. laganna var breytt með 6. gr. laga nr. 37/1999. Þá myndi heimildinni verða beitt, hefði tjónþoli verið í hlutastarfi og þegar hann hefur verið atvinnulaus, er hann varð fyrir líkamstjóni og enn fremur um menn, sem eru í rannsóknarleyfi, eða hafa tekið sér leyfi án launa til að auka þekkingu sína eða verklega starfsfærni. Eins myndi ákvæðinu beitt um menn, sem stunda nám og þiggja laun í tengslum við það, t.d. iðnnám, en um tjónþola, sem ekki fá laun í tengslum við nám, færi eftir ákvæðum 8. gr. frumvarpsins. Í greinargerð með því ákvæði er þess getið, að þegar draga skuli mörkin milli 2. mgr. 7. gr. og 8. gr. verði almennt að telja, að 2. mgr. 7. gr. verði beitt um þann, sem vinnur hálft launað starf eða meira utan heimilis, en 8. gr. um þann, er vinnur minna en hálft starf utan heimilis. Þá skuli reglum 8. gr. beitt um ungt námsfólk, þótt það afli tekna í vinnu með námi og án tillits til tekna af þess konar vinnu, svo framarlega sem nemandinn stundar í reynd nám með eðlilegum hætti.

Stefnandi hafði stundað nám um nokkurra ára skeið, áður en umrætt slys átti sér stað og þar áður hafði hún verið heimavinnandi húsmóðir. Þá fékk stefnandi ekki laun í tengslum við nám sitt og enn fremur voru vinnutekjur hennar mjög rýrar síðustu árin fyrir slysatburð. Verður að telja, að enda þótt stefnandi hafi ekki verið ,,ungur námsmaður,” er hún lenti í slysinu, svo sem um er getið í athugasemdum með frumvarpi til skaðabótalaga, gildi sömu lagasjónarmið að þessu leyti um stefnanda og námsmenn almennt. Þegar allt framangreint er virt er það niðurstaða dómsins, að rétt hafi verið að fara eftir þágildandi ákvæðum 8. gr. skaðabótalaga um uppgjör á örorkubótum stefnanda vegna umrædds slyss, svo sem gert var. Ber því að sýkna stefnda af kröfum stefnanda í máli þessu, en rétt þykir, að málskostnaður þeirra í millum falli niður.

Stefnandi fékk gjafsókn með bréfi dómsmálaráðuneytisins 9. október 2000. Greiðist gjafsóknarkostnaður hennar úr ríkissjóði, þar með talin laun lögmanns stefnanda, Guðjóns Ólafs Jónssonar hdl., sem þykja hæfilega ákveðin 350.000 krónur.

Dóminn kvað upp Helgi I. Jónsson héraðsdómari.

Dómsorð:

Stefndi, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., er sýkn af kröfum stefnanda, Guðrúnar Eddu Káradóttur, í máli þessu.

Málskostnaður fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin laun lögmanns hennar, Guðjóns Ólafs Jónssonar hdl., 350.000 krónur.