Hæstiréttur íslands

Nr. 2021-10

A (Jón Gunnar Ásbjörnsson lögmaður)
gegn
B (Benedikt Ólafsson lögmaður)

Lykilorð

  • Kæruleyfi
  • Gjaldþrotaskipti
  • Réttindaröð
  • Sértökukrafa
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.

Með beiðni 5. janúar 2021 leitar A leyfis Hæstaréttar til að kæra úrskurð Landsréttar 22. desember 2020 í máli nr. 583/2020: A gegn þrotabúi B á grundvelli 2. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um að viðurkennt verði að gagnaðili skili henni nánar tilgreindum fjármunum og að krafan, sem hún lýsti við gjaldþrotaskipti eiginmanns síns, njóti stöðu í réttindaröð samkvæmt 1. mgr. 109. gr. laga nr. 21/1991. Leyfisbeiðandi gerir jafnframt kröfu um dagsektir í tengslum við framangreinda skyldu um skil á fjármununum auk kröfu um viðurkenningu á skaðabótum sem nemi dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu á nánar tilgreindu tímabili og að sú krafa njóti stöðu í réttindaröð samkvæmt 3. tölulið 110. gr. laga nr. 21/1991. Í úrskurði héraðsdóms var öllum kröfum leyfisbeiðanda hafnað en með úrskurði Landsréttar var krafa hennar tekin til greina að hluta.

Leyfisbeiðandi byggir á því að kæruefnið hafi fordæmisgildi um þá aðstöðu þegar kröfuhafi geri sértökukröfu í fjármuni sem berast þrotabúi í kjölfar riftunar skiptastjóra á greiðslu. Jafnframt hafi kæruefnið fordæmisgildi að því er varði aukaliði sértökukröfu sem hafi það að markmiði að bæta tjón kröfuhafa vegna ólögmætrar vörslu skiptastjóra á fjármunum og til að knýja skiptastjóra til að verða við kröfu um skil á þeim. Auk þess telur leyfisbeiðandi að í úrskurði Landsréttar hafi ranglega verið sagt að leyfisbeiðandi hafi gert kröfu um dráttarvexti af því fé sem hún njóti tilkalls til en hið rétta sé að hún hafi gert kröfu um skaðabætur sem svari til dráttarvaxta af fjármununum. Úrskurður Landsréttar sé af þessum sökum bersýnilega rangur. Loks telur leyfisbeiðandi að málið varði mikilvæga hagsmuni sína.

 Að virtum gögnum málsins verður hvorki séð að kæruefnið varði mikilsverða almannahagsmuni né að það hafi fordæmisgildi svo einhverju nemi þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991. Þá eru engin efni til að beita heimild  3. málsliðar 2. mgr. sömu greinar í málinu. Beiðninni er því hafnað.