Hæstiréttur íslands

Mál nr. 146/2000


Lykilorð

  • Höfundarréttur
  • Aðild
  • Skaðabætur
  • Miskabætur


Fimmtudaginn 16

 

Fimmtudaginn 16. nóvember 2000.

Nr. 146/2000.

Íslenska ríkið

(Einar Karl Hallvarðsson hrl.)

gegn

Þorsteini Jónssyni

Þórhalli Sigurðssyni og

Örnólfi Árnasyni

(Sigurður G. Guðjónsson hrl.)

og gagnsök

                                     

Höfundarréttur. Aðild. Skaðabætur. Miskabætur.

Félagið Ó framleiddi tvær kvikmyndir á árunum 1981 og 1983. Þegar kvikmyndafélagið var lýst gjaldþrota á árinu 1986 voru kvikmyndirnar seldar ÞJ á nauðungaruppboði, með öllum þeim réttindum sem tilheyrðu framleiðanda. Í janúar 1988 gerðu ÞJ og menntamálaráðuneytið með sér tvo samninga um rétt til sýninga kvikmyndanna í skólum og öðrum fræðslustofnunum í eigin þágu þessara stofnana á Íslandi í fimm ár. Gerði ÞJ samninginn fyrir hönd eigenda myndanna. ÞJ, ÞS og Ö, sem töldu sig fara sameiginlega og óskipt með höfundarétt að kvikmyndunum, héldu því fram að þrátt fyrir að samningarnir hefðu verið tímabundnir hefðu kvikmyndirnar verið notaðar til kennslu allt fram á skólaárið 1997 til 1998 og hafi samkomulagi um frekari greiðslu af kvikmyndunum verið hafnað. Höfðuðu þeir því mál gegn íslenska ríkinu (Í) til greiðslu bóta fyrir fjártjón og miska. Talið var að Í hefði ekki hrakið fullyrðingar ÞJ, ÞS og Ö um að þeir ættu höfundarrétt að kvikmyndunum. Í málinu lá fyrir að kvikmyndirnar höfðu verið leigðar út 14 mánuðum lengur en samningar kváðu á um, en frekari afnot myndanna voru talin ósönnuð. Menntamálaráðuneytið var sem samningsaðili talið hafa borið ábyrgð á því að sýningum kvikmyndanna var haldið áfram þó að réttur til sýninga þeirra hafi verið liðinn. Talið var að um hefði verið að ræða saknæm brot á höfundarrétti ÞJ, ÞS og Ö og að þeir ættu rétt til bóta á grundvelli 1. mgr. 56. gr. höfundalaga nr. 73/1972. Þá voru þeir taldir eiga rétt á miskabótum á grundvelli 2. mgr. 56. gr. höfundalaga.

 

Dómur hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir, Hjörtur Torfason, Hrafn Bragason og Markús Sigurbjörnsson.

            Aðaláfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar með stefnu 7. apríl 2000. Hann krefst aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefndu og honum dæmdur málskostnaður  í héraði og fyrir Hæstarétti. Til vara krefst hann þess að dæmdar bætur verði stórlega lækkaðar og málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti felldur niður.

            Gagnáfrýjendur áfrýjaðu málinu með stefnu 6. júní 2000. Þeir krefjast þess aðallega að aðaláfrýjandi verði dæmdur til að greiða 15.180.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 24. janúar 1993 til greiðsludags og málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti. Til vara krefjast þeir þess að héraðsdómur verði staðfestur.

I.

            Málsatvik eru reifuð í héraðsdómi. Svo sem þar greinir gerðu gagnáfrýjandi Þorsteinn Jónsson og menntamálaráðuneytið með sér tvo samninga 25. janúar 1988 um rétt til sýninga tveggja kvikmynda “í skólum og öðrum fræðslustofnunum í eigin þágu þessara stofnana (non-commercial, institutional rights) á Íslandi” í fimm ár til 24. janúar 1993. Samningana gerði Þorsteinn fyrir hönd eigenda myndanna, svo sem í samningunum greinir. Gagnáfrýjendur fullyrða að þeir fari sameiginlega og óskipt með allan höfundarrétt að kvikmyndunum. Hafa þeir lagt fram samninga við höfunda skáldsagna þeirra sem kvikmyndirnar eru byggðar á svo og samninga við höfunda tónlistar.  Þeir fullyrða jafnframt að þeir hafi ráðið starfsmenn til verksins og gert upp við þá sem og við fyrrnefnda aðila. Samningar þessir voru gerðir í nafni Kvikmyndafélagsins Óðins hf. sem hafi verið í eigu þeirra félaga. Við gjaldþrotaskipti á kvikmyndafélaginu voru eignir þess seldar á nauðungaruppboði 26. júní 1987, þar á meðal réttindi framleiðanda framangreindra mynda. Hæstbjóðandi á uppboðinu var Þorsteinn Jónsson. Samkvæmt 8. gr. höfundalaga nr. 73/1972, sbr. 1. gr. og 5. gr.  sömu laga, geta framleiðendur kvikmyndaverks öðlast höfundarrétt að verki sínu. Hefur aðaláfrýjandi ekki hrakið fullyrðingu gagnáfrýjenda um að þeir eigi höfundarrétt að þessum kvikmyndum. Ber að staðfesta ákvæði héraðsdóms um að þeir séu réttir aðilar dómsmáls þessa.

II.

            Eins og að framan greinir sömdu menntamálaráðuneytið og Þorsteinn Jónsson fyrir hönd eigenda kvikmyndanna um það 25. janúar 1988 að ráðuneytið keypti rétt til sýninga á umræddum kvikmyndum í skólum og öðrum fræðslustofnunum hér á landi í fimm ár. Fyrir þennan rétt greiddi ráðuneytið sex milljónir króna. Fram er komið að kvikmyndirnar voru lánaðar út til loka marsmánaðar 1994 eða 14 mánuðum lengur en samningar kváðu á um. Af hálfu gagnáfrýjenda hafa ekki verið færðar fram nægar líkur fyrir frekari afnotum myndanna og ber að staðfesta héraðsdóm um að þau séu ósönnuð. Staðfesta ber héraðsdóm um að menntamálaráðuneytið sem samningsaðili hafi borið ábyrgð á því að sýningum kvikmyndanna var haldið áfram þó að réttur til sýninga þeirra hafi verið liðinn.

            Gagnáfrýjendur krefjast skaðabóta og reisa málatilbúnað sinn á því að afnot kvikmyndanna eftir að samningsbundnum afnotum lauk hafi verið ólögmæt og saknæm. Fallast ber á það með héraðsdómi að framangreind afnot hafi eftir að samningstíma lauk verið saknæm brot á höfundarrétti gagnáfrýjenda og beri þeim bætur úr hendi aðaláfrýjanda vegna þeirra, sbr. 1. mgr. 56. gr. höfundalaga. Með skírskotun til raka héraðsdóms ber að staðfesta hann um að eðlilegast sé að miða fébætur við það endurgjald er menntamálaráðuneytið samdi um fyrir sýningarréttinn með samningunum 25. janúar 1988. Gögn málsins bera það hins vegar með sér að við ákvörðun endurgjaldsins hafi verið litið til fleiri atriða en viðskiptalegra sjónarmiða. Þykir mega hafa það í huga við ákvörðun bótanna. Samkvæmt 2. mgr. 56. gr. höfundalaga skal dæma höfundi miskabætur úr hendi þess sem raskað hefur rétti hans með ólögmætri háttsemi. Með því að rétti gagnáfrýjenda var raskað á ólögmætan hátt ber að dæma þeim miskabætur. Bæði fjártjón og miska verður að meta nokkuð að álitum og er rétt eins og hér háttar til að ákveða bæturnar í einu lagi. Með framangreind sjónarmið í huga þykir rétt að aðaláfrýjandi greiði gagnáfrýjendum bætur fyrir brot á höfundarrétti þeirra, sem teljast hæfilega ákveðnar í heild 1.600.000 krónur.

Krafa gagnáfrýjenda um skaðabætur var fyrst sett fram með bréfi þeirra til menntamálaráðherra 11. nóvember 1998. Er því rétt samkvæmt 15. gr. vaxtalaga að miða upphafstíma dráttarvaxta við 11. desember sama árs.

            Samkvæmt framangreindri niðurstöðu er rétt að aðaláfrýjandi greiði gagnáfrýjendum málskostnað, svo sem nánar er kveðið á um í dómsorði.

                                                            Dómsorð:

            Aðaláfrýjandi, íslenska ríkið, greiði gagnáfrýjendum, Þorsteini Jónssyni, Þórhalli Sigurðssyni og Örnólfi Árnasyni, 1.600.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 11. desember 1998 til greiðsludags og samtals 600.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

 

 

 

          Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur fimmtudaginn 3. febrúar 2000

I

          Mál þetta, sem tekið var til dóms að loknum munnlegum flutningi 24. janúar sl., er höfðað með stefnu sem er árituð um viðtöku 20. maí 1999. 

          Stefnendur eru Þorsteinn Jónsson, kt. 061246-6969, Mjóuhlíð 6, Þórhallur Sig­urðs­son, kt. 230546-3989, Ránargötu 33 og Örnólfur Árnason, kt. 150241-2519, Bræðra­borgarstíg 8, allir í Reykjavík.

          Stefndi er íslenska ríkið og er fjármála- og menntamálaráðherra stefnt fyrir þess hönd.

          Dómkröfur stefnenda eru að stefndi verði dæmdur til að greiða þeim skaðabætur að fjárhæð 15.180.000 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 24. janúar 1993 til greiðsludags.  Þá er og krafist málskostnaðar.

          Stefndi krefst sýknu og málskostnaðar en til vara að kröfur stefnenda verði stór­lega lækkaðar og málskostnaður felldur niður.

 

II

          Stefnendur kveða málavexti vera þá að á árunum 1981 og 1983 hafi Kvik­mynda­fél­agið Óðinn hf. framleitt kvikmyndirnar Punktur, punktur, komma, strik og Atóm­stöð­ina.  Framleiðsla kvikmyndanna hafi verið samkvæmt samningi við höfunda skáldsagnanna, sem þær byggja á.  Auk þess hafi verið gerðir sérstakir samningar við höfunda tón­listar og aðra starfsmenn er til þurfti. 

          Kvikmyndafélag þetta var lýst gjaldþrota 10. febrúar 1986 og að kröfu skipta­réttar voru eignir þess seldar á nauðungaruppboði 26. júní 1987, þar á meðal fram­an­greind­ar kvikmyndir.  Segi í endurriti uppboðsbókar að kvikmyndaverkin séu seld með öllum þeim réttindum er tilheyrðu framleiðanda.  Hæstbjóðandi á nauð­ung­ar­upp­boð­inu var einn stefnenda máls þessa, Þorsteinn Jónsson.

          Þegar stefnandi var orðinn eigandi allra réttinda framleiðenda að kvikmyndunum gerði hann tvo samninga um þær við menntamálaráðuneytið 25. janúar 1988.  Sam­kvæmt samningunum veitti Þorsteinn, f.h. eigenda kvikmyndanna, mennta­mála­ráðu­neyt­inu rétt til að fjölfalda og sýna í skólum og öðrum fræðslustofnunum hér á landi báð­ar kvikmyndirnar í 5 ár, til 24. janúar 1993.  Fyrir þennan afnotarétt greiddi ráðu­neyt­ið samtals 6 milljónir króna fyrir fram.  Menntamálaráðuneytið fól Námsgagna­stofn­un umsjón með framkvæmd samningsins og samkvæmt upplýsingum ráðu­neyt­is­ins lét Náms­gagnastofnun gera 35 eintök af hvorri mynd.   Af þeim hefur ráðu­neytið afhent stefn­endum 22 eintök af annarri myndinni og 24 af hinni en ekki er vitað um afdrif hinna eintakanna.

          Stefnendur segja að þrátt fyrir að samningarnir um kvikmyndirnar væru tíma­bundn­ir hafi Námsgagnastofnun og ráðuneytið látið það viðgangast að þær væru not­aðar við kennslu allt fram á skólaárið 1997 til 1998.

          Stefnendur kveðast ítrekað hafa reynt að ná samkomulagi við stefnda um greiðslu fyrir afnot af kvikmyndunum en því verið hafnað.  Þeir hafi staðið þrír að Kvik­mynda­fél­aginu Óðni hf. og tóku þátt í gerð kvikmyndahandritanna auk þess sem Þórhallur Sigurðs­son var upptökustjóri á myndinni Punktur, punktur, komma, strik og Örnólfur Árna­son framleiðslustjóri Atómstöðvarinnar.  Samkvæmt því fari stefn­end­ur með allan rétt að þessum kvikmyndum og fara sameiginlega og óskipt með höf­und­arrétt að þeim.

          Stefnendur kveða fjárkröfu sína vera tvíþætta.  Í fyrsta lagi sé krafist bóta fyrir fjár­tjón að fjárhæð 10.180.000 krónur.  Sú krafa sé grundvölluð á framreiknuðu verði upp­haflegu samninganna  miðað við lánskjaravísitölu í janúar 1993 og er sá reikn­ing­ur unn­inn af tryggingafræðingi.  Samkvæmt útreikningum hans hafi 3.000.000 króna í janúar árið 1988 jafngilt 5.090.000 krónum í janúar 1993 en samtals 10.180.000 krónur fyrir báðar kvikmyndirnar.  Í öðru lagi er krafist miskabóta að fjár­hæð 5.000.000 króna.

         

          Að öðru leyti en að framan greinir lýsir stefndi málavöxtum á þá leið að samn­ing­arn­ir við Kvikmyndafélagið Óðinn hf. hafi átt sér þann sérstaka aðdraganda að fjár­hags­erfiðleikar þess hafi ráðið því að stefnandi, Þorsteinn Jónsson, ásamt fleirum hafi óskað eftir því að stefndi keypti rétt til sýningar myndanna.  Þar sem Náms­gagna­stofnun taldi myndirnar hafa gildi fyrir kennslu, einkum til kynningar á íslensk­um bók­menntum og kvikmyndagerð, hafi verið óskað eftir sérstakri fjárveitingu til samn­ing­anna.  Samningsverðið hafi verið óvenjuhátt og ekki í samræmi við það verð sem greitt hafði verið fyrir íslenskar kvikmyndir í fullri lengd til sýninga í skólum.  Helg­að­ist óvenjuhátt kaupverð og stuttur samningstími helst af því að að öðrum þræði var um styrk að ræða.  Samkvæmt gögnum málsins hafi meðalverð á ári fyrir 3 aðrar kvik­myndir sem keyptar höfðu verið til 12 ár, framreiknað til mars árið 1993, verið frá 113.700 krónum til 220.000 króna en kaupverð myndanna sem um ræði í þessu máli fram­reiknað til sama tíma sé 1.042.800 krónur fyrir hvert ár.

          Í greinargerð stefnda er fjallað um það að stefnandi, Þorsteinn, hafi haldið því fram að myndirnar hefðu verið í notkun í skólum landsins eftir að samningstíminn hafi verið runninn út.  Þrátt fyrir það hafi hann enga sönnun fært fram fyrir þeirri full­yrð­ingu og stefnendur hafi ekki andmælt notkun myndanna, þrátt fyrir þennan grun sinn, eða nýtt sér réttarúrræði til þess að leggja bann við hinum ætluðu sýningum.   Af hálfu mennta­málaráðuneytisins hafi það verið kannað hjá Námsgagnastofnun hvort rétt væri að myndirnar hefðu verið sýndar eftir að samningstíma lauk.  Í greinargerð frá Náms­gagna­stofnun komi fram að myndirnar hafi ekki verið innkallaðar fyrr en í mars­mán­uði 1994 og að fengnum þeim upplýsingum hafi því verið beint til Náms­gagna­stofn­unar að eiga viðræður við stefnendur um lausn málsins en enginn árangur hafi orðið af þeim viðræðum.

 

III

          Stefnendur byggja málsókn sína á því að menntamálaráðuneytið hafið notað kvik­mynd­irnar, sem þeir eigi í sameiningu höfundarrétt að, eftir að samningsbundnum af­not­um lauk.  Þessi afnot hafi falið í sér ólögmæta og saknæma háttsemi ráðuneytisins, sem íslenska ríkið beri ábyrgð á.  Hin ólögmæta háttsemi hafi varað til loka skóla­árs­ins 1997 til 1998 og því falið í sér stórfellt brot. 

          Fjárkröfurnar kveðast stefnendur byggja á því að dómstólar leggja að jafnaði til grund­vallar bótum fyrir fjárhagslegt tjón í málum vegna brota á höfundarrétti, það verð sem greiða hefði þurft fyrir verkið eða afnot af því samkvæmt gjaldskrá ef um af­notin hefði verið samið.  Í þessu tilfelli sé ekki til að dreifa gjaldskrá fyrir afnot kvik­mynda, hins vegar liggi fyrir það verð sem menntamálaráðuneytið greiddi fyrir samn­ings­bund­in afnot til fimm ára á árinu 1998.  Við ákvörðun skaðabóta fyrir fjártjón í þessu máli verði að leggja til grundvallar verðmæti samningsfjárhæðarinnar árið 1993 þegar hin ólög­mætu afnot hófust.  Að öðrum kosti hagnist hinn brotlegi á ólögmætri og sak­næmri háttsemi sinni.

          Auk bóta fyrir hið fjárhagslega tjón krefjast stefnendur miskabóta og telja að dæma beri þær ríflega í ljósi þess hve brotið er stórfellt og hversu freklega mennta­mála­ráðuneytið hafi gengið á rétt þeirra sem höfunda.

 

IV

          Stefndi byggir sýknukröfu sína í fyrsta lagi á því að stefnendur eigi ekki aðild að mál­inu, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.  Bendir hann á að ekki séu komin fram nægilega traust gögn til að slá megi því föstu að stefnendur eigi höfundarrétt að myndunum en ekki aðrir.  Ekki hafi verið lagðir fram samningar um það á hendi hverra höfundarréttur sé eða til hverra greiðslur hafi runnið eða í hvaða hlutföllum.  Kvikmyndafélagið Óðinn hf. kunni að hafa átt höfundarréttinn en það hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta og ekki sé vitað á hendur hverra höf­und­ar­rétt­urinn hafi færst við sölu kvikmyndanna á nauðungaruppboði þótt stefnendur haldi því fram að Þorsteinn Jónsson hafi keypt rétt framleiðanda á uppboðinu.  Þá sé ekki upp­lýst hvort stefnendur eigi jafnan höfundarrétt eða skiptan.

          Af hálfu stefnda er því mótmælt að menntamálaráðuneytið hafi notað kvik­mynd­irnar eftir lok samnings um afnot þeirra.   Þegar stefnandi, Þorsteinn Jónsson, hafi vakið athygli á þeim grun sínum að myndirnar væru enn í  notkun hafi ekki verið vitað um það af hálfu menntamálaráðuneytisins.  Kveður stefndi hér vera um ranga máls­út­list­un að ræða og órökstuddar kröfur sem eigi að leiða til sýknu af öllum kröfum stefn­enda. Á engum stigum hafi verið til að dreifa ólögmætri eða saknæmri háttsemi mennta­málaráðuneytisins eða starfsmanna þess. 

          Þá er því mótmælt af hálfu stefnda að stefnendur hafi orðið fyrir fjártjóni.  Þeir hafi ekki sannað tjón sem afleiðingu af ætluðum óheimilum útlánum myndanna þannig að stefndi hefði haft af því sérstakan ávinning.  Um bótarétt færi eftir 56. gr. höf­undalaga nr. 73/1972 auk almennra reglna fébótaréttar.  Ósannað sé að hve miklu leyti myndirnar hafi verið sýndar, þrátt fyrir útlán.  Engu tjóni sé fyrir að fara, enda hafi verð fyrir sýningarréttinn verið svo hagstætt að það hefði réttlætt rúmlega 20 ára samn­ingstíma, miðað við aðra sambærilega samninga.  Af þessum ástæðum sé kröf­um stefn­enda og ætluðu tjóni eindregið mótmælt sem ósönnuðu, enda megi bætur sam­kvæmt nefndri lagagrein ekki nema hærri fjárhæð en ávinningi.  Svo sem fram komi í gögn­um málsins virðist sem myndirnar hafi ekki verið fénýttar eftir að samn­ings­bundnum tíma lauk.  Ekki sé vitað til þess að þau útlán sem munu hafa farið fram hjá Námsgagnastofnun í um 13 mánuði eftir að samningsbundnum tíma lauk hafi skert mögu­leika á sölu myndanna á öðrum markaði, en stefnendur hafa ekki sýnt fram á að mynd­irnar hafi á þessum tíma verið á myndbandaleigumarkaði, til sýninga í sjón­varpi, eða fénýttar á annan hátt.  Endurgjald fyrir myndirnar tvær hafi verið mjög hátt, svo sem aðdragandi samninganna sé til vitnis um.  Stefnendur hafi ekki sýnt fram að mynd­irnar séu hlutfallslega verðmætari en aðrar sambærilegar að lengd þegar þær hafa verið seldar til sýninga í sjónvarpi.  Ekki hafi stefnendur heldur sýnt fram á með gögn­um að aðsókn að þeim hafi verið meiri í kvikmyndahúsum eða að þær hafi verið leigðar út á myndbandamarkaði.     

          Stefndi mótmælir því sem röngu og ósönnuðu að útlán myndanna eða notkun þeirra hafi varað lengur en bréf Námsgagnastofnunar sé til vitnis um, eða í um það bil 13 mánuði eftir að samningsbundnum tíma lauk.  Eftir það hafi myndirnar verið inn­kall­aðar og ekki lánaðar út eða sýndar.  Samningarnir hafi verið um rétt til sýninga en ekki leigusamningar.  Í þeim hafi engin ákvæði verið um skiladag eintakanna til rétt­hafa og ekki kveðið á um sérstaka innköllun myndanna eða að gera hafi átt sérstakar ráð­stafanir til að stöðva útlán.   Það hafi fremur verið skylda eigenda myndanna að aftur­kalla þær úr vörslum handhafa þeirra strax er samningstíma lauk, enda hafi þeim borið að takmarka tjón sitt eftir almennum reglum.   Á grundvelli þessa sé því ekki unnt að líta svo á að útlánin hafi verið óheimil eða brot á höfundarrétti, sbr. 21. og 24. gr. höfundalaga, enda hafi útlánin ekki verið til almennings heldur aðeins til fræðslu í skól­um.   Stefndi mótmælir því að um saknæma háttsemi hafi verið að ræða eða að brot­in hafi verið stórfelld.  Verði ekki annað séð en að útlánin hafi farið fram vegna gá­leysis Námsgagnastofnunar um samningstíma. 

          Í bréfi forstjóra Námsgagnastofnunar 17. janúar 1996 sé upplýst að á tímabilinu frá 25. janúar 1993 til loka marsmánaðar 1994 hafi kvikmyndin Atómstöðin verið lán­uð út í 16 skipti og kvikmyndin Punktur, punktur, komma, strik í 35 skipti. 

          Miskabótakröfu stefnenda er mótmælt á þeim grundvelli að ekki sé vitað til þess að kvikmyndirnar hafi á einhvern hátt verið afbakaðar eða listrænu gildi þeirra verið rask­að.  Útlán þeirra hljóti fremur að hafa aukið á heiður rétthafa þeirra en hitt, enda hafi þeir ekki gert sérstakar ráðstafanir til að banna sýningar myndanna þótt for­göngu­manni þeirra hafi talið sér kunnugt um sýningarnar.  Telur stefndi því engin efni til að dæma stefnendum miskabætur, enda hafi ekki verið til að dreifa sök starfs­manna hans. 

          Varakröfu sína um stórfellda lækkun á kröfum stefnenda byggir stefndi á því að ekki verði byggt á samningunum um kvikmyndirnar, sem gerðir voru við rétthafa þeirra í janúar 1988.  Bætur verði aðeins dæmdar að álitum miðað við sanngjarnt með­al­verð fyrir kvikmyndir í fullri lengd til notkunar í grunnskólum í um það bil 13 mán­uði, en engin útlán eða sýningar hafi farið fram eftir lok marsmánaðar 1994.  Stefn­end­ur hafi heldur ekki lagt fram sérstaka gjaldskrá eða viðmiðanir.  Eðlilegra sé á allan hátt að miða við það verð sem greitt hafi verið fyrir sambærilegar myndir en út­list­un á því sé að finna í gögnum málsins.  Til stuðnings lækkunarkröfunni er enn­fremur áréttað að samningar vegna þessara mynda hafi verið óvenjulegir og ekki á við­skiptalegum forsendum eins og tíðkist um aðrar kvikmyndir.  Þá hafi þeir ekki verið til fjárhagslegs ávinnings fyrir stefnda.  Loks telur stefndi að líta beri til tómlætis stefn­anda, sem virðist kunnugt um notkun myndanna þegar í mars 1993 en geri ekki reka að því að takmarka tjón sitt eða leggja bann við notkun þeirra.  Þá beri og að líta til þess að myndirnar voru lánaðar í fá skipti eftir að samningstíma lauk.

 

V

          Á árunum 1981 og 1983 framleiddi Kvikmyndafélagið Óðinn hf. kvikmyndirnar Punktur, punktur, komma, strik og Atómstöðina og voru þær byggðar á samnefndum skáld­sögum.  Félagið hafði samið við höfunda skáldsagnanna um kvikmyndunina og einnig samdi það við höfunda tónlistar og eru þessir samningar meðal gagna málsins.  Sam­kvæmt samningunum fengu nefndir höfundar greiðslur fyrir notkun verka sinna í kvik­myndunum og einnig eru þar ákvæði um greiðslur í framtíðinni.  Með vísan til þessa svo og 8. gr. höfundalaga nr. 73/1972 er í ljós leitt að Kvikmyndafélagið Óðinn hf. átti höfundarrétt að kvikmyndunum. 

          Hlutafélagið var tekið til gjaldþrotaskipta 10. febrúar 1986 og að kröfu skiptaréttar voru nefndar kvikmyndir seldar á nauðungaruppboði 26. júní 1987.  Á upp­boðinu keypti stefnandi, Þorsteinn Jónsson, báðar kvikmyndirnar "með öllum þeim réttindum er tilheyra framleiðanda". 

          Þorsteinn Jónsson og fyrirtæki hans höfðuðu mál á hendur stefnda í nóvember 1996 til greiðslu sömu kröfu og er til umfjöllunar í þessu máli.  Málinu lauk 22. októ­ber 1998 með því að Hæstiréttur vísaði því frá héraðsdómi.  Í þinghaldi 24. júní 1997 hafði lögmaður stefnenda lýst "því yfir að aðild sóknarmegin sé hjá Þorsteini Jónssyni, Örnólfi Árnasyni og Þórhalli Sigurðssyni", þ.e. stefnendum þessa máls.  Þrátt fyrir þetta gengu þeir Þórhallur og Örnólfur ekki inn í eldra málið.  Þeir standa hins vegar allir þrír að þessu máli og í stefnu er gerð grein fyrir því að þeir hafi tekið þátt í gerð hand­rita kvikmyndanna, auk annarra starfa við töku þeirra. 

          Í 8. gr. höfundalaga segir að höfundur verks teljist sá, uns annað reynist, sem til­greind­ur er á eintökum þess með venjulegum hætt eða lýstur er höfundur, þegar verk er birt.  Síðar í sömu grein segir að þessum ákvæðum skuli einnig beita um fram­leið­anda kvikmyndaverks.  Ekki hafa verið lögð fram eintök af kvikmyndunum og ekki liggur fyrir neinn gerningur um framsal Þorsteins Jónssonar til annarra stefnenda á þeim rétti, eða hluta hans, sem hann keypti á nauðungaruppboðinu.  Að svo vöxnu máli er ekki á öðru að byggja en framangreindri yfirlýsingu lögmanns stefnenda frá 24. júní 1997 og þar eð ekki hefur verið sýnt fram á annað, verður að líta svo á að stefn­endur eigi höfundarrétt að kvikmyndunum og séu því réttir aðilar að málinu.       

          Eins og að framan var gerð grein fyrir sömdu menntamálaráðuneytið og Þorsteinn Jóns­son, fyrir hönd eigenda, um það 25. janúar 1988 að ráðuneytið keypti rétt til sýn­inga á umræddum kvikmyndum í skólum og öðrum fræðslustofnunum hér á landi í fimm ár frá þeim degi að telja.  Fyrir þennan rétt greiddi ráðuneytið sex milljónir króna.  Þrátt fyrir að samningsbundnum afnotum lyki er það viðurkennt af stefnda að kvik­myndirnar voru lánaðar út til loka marsmánaðar 1994 eða 14 mánuðum lengur en samn­ingar kváðu á um.  En ósannað er að þær hafi verið lengur í útláni, þrátt fyrir að starfs­menn stefnda hafi ekki skilað öllum þeim eintökum, sem gerð voru af kvik­mynd­unum í upphafi samningstímans.  Útlán kvikmyndanna, bæði meðan á samn­ings­tímanum stóð og eins eftir að honum lauk, voru á vegum Námsgagnastofnunar en á þeirri stofnun ber menntamálaráðuneytið ábyrgð, sbr. lög nr. 23/1990.  Það skiptir því engu máli við úrlausn málsins hvað starfsmenn ráðuneytisins vissu eða máttu vita um útlán kvikmyndanna.  Útlán þeirra, eftir að samningarnir voru úr gildi fallnir, verður að meta sem saknæmt atferli af hálfu starfsmanna stefnda og braut það gegn rétti stefnenda.  Verður fallist á þá kröfu þeirra að þeim beri bætur úr hendi stefnda.

          Við ákvörðun bótafjárhæðar er eðlilegast að taka mið af samningunum frá 25. janúar 1988, enda verður að ætla að menntamálaráðuneytið hafi með þeim fallist á að greiða það verð fyrir sýningarréttinn á þessum kvikmyndum, sem það taldi eðlilegast.  Kemur því ekki til skoðunar hvaða verð það greiddi fyrir sýningarrétt á öðrum kvik­mynd­um, er stefndi telur sambærilegar, á svipuðum tíma.  Samkvæmt þessu verða fé­bætur til stefnenda ákveðnar 1.400.000 krónur.

          Samkvæmt 2. mgr. 56. gr. höfundalaga skal dæma höfundi miskabætur úr hendi þess sem raskað hefur rétti hans með ólögmætri háttsemi.  Það var ólögmæt háttsemi af hálfu starfsmanna stefnda að sýna kvikmyndir stefnenda eftir að samningar þeirra og menntamálaráðuneytisins féllu úr gildi.  Með þessu var rétti stefnenda raskað á ólög­mætan hátt og ber þeim því miskabætur, er þykja hæfilega ákveðnar 600.000 krónur.

Mál til heimtu bóta vegna sýninga framangreindra kvikmynda var upphaflega höfð­að af Þorsteini Jónssyni með stefnu, sem árituð var um viðtöku 13. nóvember 1996.  Það mál var dæmt í héraði 31. október 1997 en með dómi Hæstaréttar 22. októ­ber 1998 var því vísað frá héraðsdómi.  Þetta mál var síðan þingfest eins og rakið hefur verið.  Með fyrri málshöfðuninni var fyrning rofin þannig að dráttarvaxtakrafa stefn­enda verður tekin til greina, þó þannig að vextirnir skulu reiknast frá 25. janúar 1993.

Samkvæmt framansögðu skal stefndi greiða stefnendum 400.000 krónur í máls­kostnað.

Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp dóminn.

Dómsorð:

Stefndi, íslenska ríkið, greiði stefnendum, Þorsteini Jónssyni, Þórhalli Sigurðs­syni og Örnólfi Árnasyni, 2.000.000 króna með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxta­laga nr. 25/1987 frá 25. janúar 1993 til greiðsludags og 400.000 krónur í máls­kostnað.