Hæstiréttur íslands
Mál nr. 421/2017
Lykilorð
- Atvinnuréttindi
- Leigubifreiðar
Reifun
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Greta Baldursdóttir og Viðar Már Matthíasson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 27. júní 2017 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun og að fengnu áfrýjunarleyfi. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd.
Ákærði krefst sýknu af kröfum ákæruvaldsins.
I
Samkvæmt gögnum málsins starfaði ákærði sem ökumaður hópferðabifreiða og leiðsögumaður í skipulögðum skoðunarferðum ferðaþjónustufyrirtækisins B ehf. á þeim tíma er atvik málsins urðu hinn 18. nóvember 2016. Þann dag var hann í slíkri skipulagðri ferð um hinn svokallaða „Gullna hring“ með viðkomu í hellinum Leiðarenda á Reykjanesi. Voru ferðamenn þeir sem voru með ákærða í skoðunarferðinni sjö talsins og ók ákærði þeim á fólksbifreið sem gerð er fyrir átta farþega. Á áfangastaðnum Geysi í Haukadal lagði ákærði bifreiðinni í stæði hópbifreiða við þjónustumiðstöðina og þar hafði lögregla afskipti af honum. Var það mat lögreglu að þar sem akstur ákærða hefði verið gegn gjaldi væri um að ræða brot á lögum um leigubifreiðar. Að teknu tilliti til hagsmuna farþeganna var ákærða þó leyft að aka þeim til Reykjavíkur.
Í málinu liggja frammi gögn ferðaþjónustufyrirtækisins um þá tegund skoðunarferðar sem ákærði fór í umræddan dag. Eins og þar er rakið skyldi fyrsti áfangastaðurinn vera hellirinn Leiðarendi, þaðan yrði farið að Gullfossi og síðan Geysi. Frá Geysi skyldi svo haldið til Þingvalla og þaðan aftur til Reykjavíkur. Samkvæmt gögnum þessum skyldi skoðunarferðinni hagað eftir nákvæmri áætlun fyrirtækisins bæði hvað varðaði tímasetningar og skoðunarstaði auk þess sem upplýst var um að ýmiss konar fróðleikur yrði veittur í ferðinni um þá skoðunarstaði.
II
Ákærða er í máli þessu gefið að sök að hafa ekið bifreið með farþega gegn gjaldi og án þess að hafa atvinnuleyfi til aksturs leigubifreiða þannig að hann hafi gerst sekur um brot gegn 1. mgr. 6. gr., sbr. 1. mgr. 11. gr., laga nr. 134/2001 um leigubifreiðar.
Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laganna taka þau til fólksbifreiða sem notaðar eru til leigubifreiðaaksturs, en fólksbifreiðar sem skráðar eru fyrir fleiri en átta farþega falla ekki undir lögin. Þá segir að það teljist leigubifreiðaakstur þegar fólksbifreið er seld á leigu ásamt ökumanni fyrir tiltekið gjald til flutnings á farþegum og farangri þeirra. Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga er atvinnuleyfi samkvæmt 5. gr. laganna skilyrði til þess að viðkomandi sé heimilt að taka að sér eða stunda leigubifreiðaakstur.
Óumdeilt er í málinu að ákærði hafði gild réttindi til aksturs leigu- og hópbifreiða og að bifreiðin var á vegum fyrirtækis sem hafði gilt rekstrarleyfi til hópferðaaksturs. Þá er enn fremur ágreiningslaust að ákærði hafði ekki atvinnuleyfi til að stunda leigubifreiðaakstur.
Samkvæmt framburði ákærða sem fær stoð í öðrum gögnum málsins liggur fyrir að umrætt sinn var ákærði, sem starfsmaður ferðaþjónustufyrirtækisins, að aka ferðamönnum milli staða í fyrirfram skipulagðri skoðunarferð, sem þeir höfðu pantað áður og greitt fyrir, auk þess sem hann var leiðsögumaður þeirra í ferðinni. Þykir því fram komið að akstur ákærða með ferðamennina í bifreiðinni hafi verið þáttur í þjónustu ferðaþjónustufyrirtækisins við þátttakendur í hinni skipulögðu skoðunarferð og þar með hafi gjald fyrir flutninginn verið innifalið í heildarverði skoðunarferðarinnar. Féll akstur ákærða með farþega umrætt sinn því ekki undir gildissvið laga nr. 134/2001, sbr. skilgreiningu á hugtakinu leigubifreiðaakstur í 1. gr. laganna. Að því virtu fól akstur ákærða ekki í sér brot á lögum nr. 134/2001 eins og honum er gefið að sök í ákæru.
Verður ákærði því sýknaður af kröfum ákæruvaldsins.
Allur sakarkostnaður eins og hann var ákveðinn í héraði og fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun verjanda fyrir Hæstarétti að virðisaukaskatti meðtöldum eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, X, er sýkn af kröfum ákæruvaldsins.
Allur sakarkostnaður eins og hann var ákveðinn í héraðsdómi greiðist úr ríkissjóði.
Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun verjanda ákærða, Boga Nilssonar hæstaréttarlögmanns, 620.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Suðurlands 4. maí 2017.
Mál þetta, sem dómtekið var þann 6. apríl sl., er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Suðurlandi, dagsettri 12. desember 2016 á hendur ákærða, X, kt. [...], til heimilis að [...]
„fyrir brot á lögum um leigubifreiðar
með því að hafa, síðdegis föstudaginn 18. nóvember 2016, ekið bifreiðinni [...] (fólksbifreið í flokki M1) með farþega, gegn gjaldi og án þess að hafa atvinnuleyfi til aksturs leigubifreiða, frá Reykjavík að þjónustumiðstöðinni við Geysi í Haukadal, þaðan sem ákærði hugðist aka farþegum bifreiðarinnar aftur til Reykjavíkur.
Telst brot ákærða varða við 1. mgr. 6. gr., sbr. 1. mgr. 11. gr. laga um leigubifreiðar nr. 134, 2001.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“
Ákærði krefst sýknu af öllum kröfum ákæruvaldsins og þá krefst hann þess að allur sakarkostnaður verði greiddur úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun verjanda hans.
Málavextir.
Föstudaginn 18. nóvember 2016 kl. 15:10 veittu lögreglumenn athygli fólksbifreiðinni [...] þar sem hún stóð í stæði hópbifreiða við þjónustumiðstöðina Geysi í Bláskógabyggð. Lögreglumenn höfðu tal af ökumanni bifreiðarinnar, ákærða í máli þessu, og kvaðst hann vera starfsmaður A, en það sé rekið á nafni fyrirtækisins B hf., kt. [...]. Í lögregluskýrslu segir að fyrirtækið hafi rekstrarleyfi dagsett 1. nóvember 2015 til hópferðaaksturs í 5 ár. Hafi ökumanni verið bent á að bifreiðin uppfyllti ekki skilyrði rekstrarleyfisins og þar sem um akstur gegn gjaldi væri að ræða væri um að ræða brot á lögum um leigubifreiðar, en 7 farþegar voru í bifreiðinni. Ákærði framvísaði gildum ökuréttindum til aksturs leigu- og hópbifreiða, útgefnum 9. nóvember 2016. Umrædd bifreið mun vera af gerðinni Opel Vivaro, 8 farþega og hafi hún ekki verið leyfisskoðuð. Að teknu tilliti til hagsmuna farþega var ákærða leyft að ljúka ferð sinni til Reykjavíkur.
Framburður ákærða og vitna fyrir dómi.
Ákærði skýrði svo frá fyrir dómi að hann hefði umrætt sinn ekið ferðamönnum sem hefðu greitt fyrir ferðina fyrirfram og hefði verið um svokallaða pakkaferða að ræða á vegum fyrirtækisins A. Hefði verið ekið að þjónustumiðstöðinni við Geysi í Haukadal þar sem lögreglan hefði haft afskipti af honum. Hann kvaðst hafa leyfi til aksturs leigu- og hópferðabifreiða. Hann kvaðst hafa verið með 7 farþega, honum hafi verið sagt hvert hann ætti að fara, stöðvað væri á ákveðnum stöðum og væri hann þá leiðsögumaður en hvorki komið nálægt bókun ferðarinnar né greiðslum frá farþegum. Hann taldi fyrirtækið sem hann starfaði hjá hafa haft öll tilskilin leyfi og þá taldi hann sig ekki hafa verið að aka leigubifreið, heldur hópferðabifreið.
Vitnið C lögreglumaður skýrði svo frá í símaskýrslu fyrir dómi að umrædd bifreið hafi ekki verið með tilskilið rekstrarleyfi sem leigubifreið og þá hefði hún ekki verið leyfisskoðuð. Hann kvað hafa komið fram hjá farþegunum að þeir hefðu greitt fyrir ferðina.
Vitnið D lögreglumaður skýrði svo frá í símaskýrslu fyrir dómi að afskipti hefðu verið höfð af ákærða og minnti hann að hann hefði gengist við því að hafa ekið umræddri bifreið án tilskilinna leyfa.
Niðurstaða.
Ákærða er í máli þessu gefið að sök að hafa ekið bifreið með farþega gegn gjaldi og án þess að hafa atvinnuleyfi til aksturs leigubifreiða. Óumdeilt er að ákærði hafði gild réttindi til aksturs leigu- og hópbifreiða og þá er einnig óumdeilt að bifreiðin var á vegum fyrirtækis sem hafði gilt rekstrarleyfi til hópferðaaksturs. Samkvæmt gögnum málsins er umrædd bifreið skráð fyrir 8 farþega en samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 134/2001 falla fólksbifreiðar sem skráðar eru fyrir fleiri en átta farþega ekki undir lögin. Samkvæmt 2. málslið sömu lagagreinar telst það leigubifreiðaakstur þegar fólksbifreið er seld á leigu ásamt ökumanni fyrir tiltekið gjald til flutnings á farþegum og farangri þeirra. Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga er atvinnuleyfi skv. 5. gr. skilyrði þess að viðkomandi sé heimilt að taka að sér eða stunda leigubifreiðaakstur. Þar sem ákærði ók bifreið sem féll undir framangreind lög um leigubifreiðar án þess að hafa aflað sér atvinnuleyfis eins og honum bar samkvæmt framangreindum lagaákvæðum telst sannað að hann hafi gerst sekur um brot gegn lögunum og er brot hans rétt fært til refsiákvæða í ákæru.
Samkvæmt framlögðu sakavottorði hefur ákærði ekki áður sætt refsingu.
Refsing ákærða er hæfilega ákveðin 50.000 krónur í sekt til ríkissjóðs, sem ákærða ber að greiða innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dóms þessa en sæta ella fangelsi í 4 daga.
Þá ber með vísan til 1. mgr. 218. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála að dæma ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, Boga Ísaks Nilssonar hdl., 160.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.
Hjörtur O. Aðalsteinsson dómstjóri kveður upp dóm þennan.
Dómsorð:
Ákærði, X, greiði 50.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dóms þessa en sæta ella fangelsi í 4 daga.
Ákærði greiði allan sakarkostnað þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Boga Ísaks Nilssonar hdl., 160.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.