Hæstiréttur íslands
Mál nr. 533/2006
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Miðvikudaginn 11. október 2006. |
|
Nr. 533/2006. |
Ákæruvaldið(Alda Hrönn Jóhannsdóttir fulltrúi) gegn X (Hilmar Ingimundarson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 9. október 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 10. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 9. október 2006, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 27. október 2006 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Varnaraðili styður aðalkröfu sína meðal annars við að sóknaraðili og héraðsdómur hafi verið bundnir af eldri úrskurði frá 2. október 2006 þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 103. laga nr. 19/1991 til 9. október 2006, en sýslumaðurinn í Hafnarfirði hafði þá krafist gæsluvarðhalds allt til 30. október 2006. Þó að svo hátti til sem að framan greinir er heimilt að framlengja gæsluvarðhaldsvist að gæsluvarðhaldstíma liðnum ef skilyrði 103. gr. laga nr. 19/1991 eru fyrir hendi á því tímamarki. Verður því ekki fallist á þessa röksemd varnaraðila fyrir aðalkröfu sinni.
Eins og fram kemur í úrskurði héraðsdóms var gefin út ákæra í fjórtán liðum á hendur varnaraðila 9. október 2006 vegna ætlaðra hegningarlaga-, umferðarlaga- og fíkniefnabrota hans á tímabilinu 23. júní til 1. október 2006. Hann hefur fyrir dómi játað aðild sína að brotum samkvæmt átta liðum ákærunnar. Fangelsisrefsing er lögð við hluta brotanna. Að þessu virtu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður fallist á að skilyrðum c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 sé fullnægt til að varnaraðili sæti gæsluvarðhaldi eins og í dómsorði greinir. Ekki þykir ástæða til að marka gæsluvarðhaldinu skemmri tíma en samkvæmt hinum kærða úrskurði.
Dómsorð:
Varnaraðili, X, skal sæta gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í máli hans, en þó ekki lengur en til föstudagsins 27. október 2006 kl. 16.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 9. október 2006.
Lögreglustjórinn í Hafnarfirði hefur krafist þess með skírskotun til c-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, að Héraðsdómur Reykjaness úrskurði, að X, [kt. og heimilsfang], verði áfram gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 30. október 2006 kl. 15:00, en gæsluvarðhaldsúrskurður var kveðinn upp þann 2. október sl. þar sem ákærða var gert að sæta gæsluvarðhaldi til dagsins í dag.
Kærði mótmælir framkominni kröfu en krefst þess til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími en krafist er.
Ákæra á hendur X var gefin út í dag og liggur frammi í gögnum málsins. Brot þau sem kærði er grunaður um að hafa framið, varða flest við ákvæði 244. gr. og 259. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, auk ákvæða umferðarlaga. Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að þá liggi enn fremur fyrir að ákærði hafi viðurkennt aðild sína að málum sem til rannsóknar hafi verið hjá lögreglu og rakin eru í hinum fyrri gæsluvarðhaldsúrskurði þann 2. október 2006.
Í greinargerð með kröfu lögreglustjóra kemur fram að ljóst þyki að brýn hætta sé á því að kærði haldi áfram brotum á meðan málum hans sé ekki lokið hjá lögreglunni í Hafnarfirði, Reykjavík, Blönduósi og Akureyri, verði hann nú látinn laus. Hafi kærði viðurkennt, bæði hjá lögreglu og fyrir dómi Héraðsdóms Reykjaness við fyrirtöku gæsluvarðhaldskröfu þann 2. október sl., að hafa gerst sekur um mörg þau ákæruatriði sem talin séu upp í ákæruskjali. Kærði hafi einnig viðurkennt fyrir dóminum við fyrirtöku gæsluvarðhaldskröfu þann 2. október sl. að vera fíkniefnaneytandi í töluverðri neyslu, og að hafa fjármagnað neyslu sína með afbrotum. Er það því mat lögreglustjóra að þegar hafi sýnt sig að brýn hætta sé á að kærði haldi áfram afbrotum meðan málum hans er ólokið fyrir dómi.
Samkvæmt sakavottorði frá 22. ágúst sl. kemur fram að kærði var dæmdur í 4 mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir brot gegn 1. mgr. 257. gr., 244., 259., 231.,1. mgr. 254., 1. mgr. 155. hgl. og árið 2006 hlaut hann 12 mánaða fangelsi skilorðsbundið til 3 ára þar sem síðastnefndur dómur var dæmdur með. Var hann dæmdur fyrir brot gegn 2. mgr. 257. gr.og 244. gr. hgl. og fíkniefnalöggjöfinni. Þá fékk hann þrívegis sekt fyrir brot gen fíkniefnalöggjöfinni á árinu 2006, síðast þann 7. júní.
Að öllu því virtu sem að framan hefur verið rakið um háttsemi ákærða nú og í úrskurði 2. október sl., sem og með hliðsjón af fyrirliggjandi gögnum, þykir ljóst að fyrir hendi sé augljós hætta á því að kærði haldi áfram brotastarfsemi gangi hann laus. Verður því fallist á kröfu lögreglustjóra í Hafnarfirði um að kærði sæti gæsluvarðhaldi á grundvelli c-liðar 103. gr. laga um meðferð opinberra mála á meðan, allt þar til dómur gengur í málum hans, en þó ekki lengur en til föstudagsins 27. október nk. kl. 16.00.
Finnbogi H. Alexandersson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
ÚRSKURÐARORÐ
Kærði, X, [kt.], sæti gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 27. október 2006 kl. 16:00.