Hæstiréttur íslands

Mál nr. 204/2009


Lykilorð

  • Ölvunarakstur
  • Brot gegn valdstjórninni
  • Skilorð


                                                         

Miðvikudaginn 16. júní 2010.

Nr. 204/2009.

Ákæruvaldið

(Hulda Elsa Björgvinsdóttir

settur saksóknari)

gegn

Grími Rúnarssyni og

(Jón Einar Jakobsson hrl.)

Daníel Rafni Guðmundssyni

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

Ölvunarakstur. Brot gegn valdstjórninni. Skilorð.

G var gefið að sök brot samkvæmt tveimur ákærum, annars vegar brot gegn nánar tilgreindum ákvæðum umferðarlaga nr. 50/1987 og hins vegar að hafa tvívegis veist að lögreglumönnum við skyldustörf. Voru síðari brotin talin varða við 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá var D gefið að sök brot á sama ákvæði með því að hafa veist að nafngreindum lögreglumanni, meðal annars með því að sparka tvisvar í andlit hans. Hafnað var aðalkröfu G og D um ómerkingu hins áfrýjaða dóms, þar sem ekki voru efni til að fallast á að niðurstaða héraðsdómara um sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi væri röng svo einhverju skipti fyrir úrslit málsins þannig að tilefni væri til að ómerkja héraðsdóm. G játaði hjá lögreglu að hafa framið hluta þeirra brota, sem honum var gefið að sök, en neitaði sök fyrir dómi. Talið var að leggja yrði til grundvallar að sönnun um þær sakargiftir, sem um ræddi hefði tekist óháð játningum hans hjá lögreglu, sem hann dró síðar til baka. Var hann því sakfelldur fyrir þessi brot. Þá þótti nýtt skjal, sem lagt var fyrir Hæstarétt, staðfesta enn frekar sönnun fyrir því að G hefði af ásetningi veist að lögreglumanni og reynt að slá höfði sínu í hann og var því staðfest sakfelling G samkvæmt 2. lið fyrri ákærunnar. Jafnframt var staðfest sakfelling D, þar sem talið var sannað að spörk hans hefðu hæft lögreglumanninn, sem hann var sakaður um að hafa veist að. Var G gert að sæta fangelsi í átta mánuði, auk þess sem hann var sviptur ökurétti, en refsing D ákveðin fangelsi í fjóra mánuði og bundin skilorði.

                                                         Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 24. apríl 2009 í samræmi við yfirlýsingar ákærðu um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er krafist staðfestingar héraðsdóms.

Ákærðu krefjast þess aðallega að héraðsdómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað, til vara sýknu, en að því frágengnu að refsing verði milduð.

I

Aðalkrafa ákærðu um ómerkingu héraðsdóms er einkum reist á því að ljóst hafi verið þegar við þingfestingu málsins að niðurstaða þess kynni að verulegu leyti að ráðast af mati á sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi. Mat héraðsdómara á munnlegri sönnunarfærslu fái ekki staðist og hefði dómur í málinu átt að vera skipaður þremur dómurum, sbr. 4. mgr. 3. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Þá hafi rannsókn málsins verið áfátt í verulegum atriðum.

Nefnt ákvæði laga nr. 88/2008 felur í sér heimild til að hafa dóm fjölskipaðan og víkja með því frá meginreglu 2. mgr. sömu greinar um að einn dómari skipi dóm í hverju máli. Ekki eru efni til að fallast á að niðurstaða héraðsdómara um sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi sé röng svo einhverju skipti fyrir úrslit málsins þannig að tilefni sé til að ómerkja héraðsdóm á grundvelli ákvæðis 3. mgr. 208. gr. framangreindra laga. Rannsókn málsins er ekki háð neinum annmörkum, sem máli skipta, en slíkt hefði getað varðað frávísun málsins frá héraðsdómi en ekki ómerkingu eins og krafist er. Samkvæmt því er aðalkröfu ákærðu hafnað.

II

Sakargiftir á hendur ákærða Grími eru samkvæmt ákærum 26. nóvember 2008 og 26. janúar 2009. Í þeirri fyrrnefndu eru brot tilgreind í tveimur liðum, þar sem sakir samkvæmt 1. lið eru taldar varða við nánar tilgreind ákvæði umferðarlaga nr. 50/1987, en samkvæmt 2. lið við 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með áorðnum breytingum. Í seinni ákærunni eru brot ákærða einnig talin varða við síðastnefnt lagaákvæði.

Ákærði Grímur játaði hjá lögreglu að hafa framið brot, sem um ræðir í 1. lið ákæru 26. nóvember 2008, svo og hluta af þeirri háttsemi, sem ákæra 26. janúar 2009 tók til, en fyrir dómi neitaði hann sök að öllu leyti. Hann mótmælir að sakfelling verði reist á skýrslum hans fyrir lögreglu, svo sem gert hafi verið í héraðsdómi, og krefst að litið verði framhjá þeim við mat á sönnun. Við úrlausn um þetta verður lagt til grundvallar að sönnun um þær sakargiftir, sem hér um ræðir, hafi tekist óháð játningum ákærða hjá lögreglu, sem hann dró síðar til baka. Með þessari athugasemd verður niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu ákærða fyrir umrædd brot staðfest.

Fyrir Hæstarétt hefur verið lagt endurrit hljóðupptöku af samtali ákærða Gríms og lögreglumanns við flutning þess fyrrnefnda af brotavettvangi í lögreglubifreið, sbr. 2. lið ákæru 26. nóvember 2008. Þetta nýja skjal staðfestir enn frekar sönnun fyrir því að ákærði hafi af ásetningi veist að lögreglumanninum og reynt að slá höfði sínu í hann. Niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu samkvæmt 2. lið ákæru 26. nóvember 2008 verður samkvæmt því staðfest.

Í héraðsdómi kemur fram að ákærði á nokkurn sakaferil að baki og með brotum, sem hann er nú dæmdur fyrir, hefur hann rofið skilorð samkvæmt dómi Héraðsdóms Reykjaness 27. mars 2007, þar sem honum var gerð fangelsisrefsing í 45 daga. Brot hans nú felast meðal annars í því að hafa tvívegis veist að lögreglumönnum við skyldustörf. Verður refsing hans ákveðin með hliðsjón af framanröktu og 77. gr. almennra hegningarlaga. Hún er hæfilega ákveðin í dómi héraðsdóms og verður staðfest, svo og ákvæði hans um sviptingu ökuréttar. Ekki eru efni til að binda refsinguna skilorði, svo sem ákærði krefst.

III

Ákærða Daníel er samkvæmt ákæru 26. janúar 2009 gefið að sök brot á 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga með því að hafa veist að nafngreindum lögreglumanni, meðal annars með því að sparka tvisvar í andlit hans. Tveir dyraverðir á veitingastað komu lögreglumönnum til aðstoðar þegar í brýnu sló fyrir utan hann. Annar þeirra bar fyrir dómi að hann hafi séð ákærða sparka í herðablað og öxl lögreglumannsins, en hinn kvað ákærða hafa sparkað í hann í mittishæð. Telst sannað að spörk ákærða hafi hæft lögreglumanninn, en þó ekki í höfuðið. Með þessari athugasemd verður niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu ákærða staðfest.

Með hinum áfrýjaða dómi var ákærði Daníel dæmdur til að sæta fangelsi í fjóra mánuði og er sú refsing hæfileg. Samkvæmt sakavottorði ákærða var honum 29. ágúst 2004 gert í Héraðsdómi Reykjaness að greiða sekt fyrir brot gegn 1., sbr. 3. mgr. 45. gr. umferðarlaga. Að virtum sakaferli ákærða þykir rétt að fresta fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum þremur árum frá uppsögu þessa dóms haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað vegna beggja ákærðu verða staðfest.

Ákærðu verða dæmdir til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjenda sinna, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákvæði héraðsdóms um refsingu ákærða Gríms Rúnarssonar og sviptingu ökuréttar skulu vera óröskuð.

Ákærði Daníel Rafn Guðmundsson sæti fangelsi í fjóra mánuði. Fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum þremur árum frá uppsögn þessa dóms haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skulu vera óröskuð.

Ákærðu greiði hvor um sig málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, hæstaréttarlögmannanna Jóns Einars Jakobssonar og Hilmars Ingimundarsonar, 313.750 krónur í hlut hvors. Ákærðu greiði í sameiningu annan áfrýjunarkostnað, 39.001 krónu.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 25. mars 2009.

                Ár 2009, miðvikudaginn 25. mars, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Pétri Guðgeirssyni, héraðsdómara,  kveðinn upp dómur í sakamálinu nr. 1725/2009:  Ákæruvaldið (Hulda Elsa Björgvinsdóttir) gegn Grími Rúnarssyni (Jón Einar Jakobsson hrl.) og Daníel Rafni Guðmundssyni (Hilmar Ingimundarson hrl.) sem tekið var til dóms hinn 17. sama mánaðar að lokinni aðalmeðferð.

                Málið er höfðað með tveimur ákæruskjölum ríkissaksóknara á hendur Grími Rúnarssyni, kt. 080477-3929, Holtagerði 34, Kópavogi og Daníel Rafni Guðmundssyni, kt. 200777-5739, Ystaseli 13, Reykjavík.

Í fyrsta lagi er málið höfðað með ákæru, dagsettri 26. nóvember 2008, á hendur ákærða Grími einum, “fyrir eftirgreind brot gegn umferðarlögum og almennum hegningarlögum framin í Kópavogi og Reykjavík aðfaranótt sunnudagsins 28. október 2007:

1.  Umferðarlagabrot, með því að hafa ekið bifreiðinni PK-515 undir áhrifum áfengis (vínandamagn í blóði 1,87 ‰) frá heimili sínu að Holtagerði 34 í Kópavogi til Reykjavíkur og ekið svo óvarlega um gatnamót Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar að hann ók þar niður götuvita og síðan farið af vettvangi án þess að sinna skyldum sínum vegna óhappsins.

2.  Brot gegn valdstjórninni, með því að hafa skömmu síðar, í lögreglubifreið á leið frá Kringlumýrarbraut á lögreglustöðina við Hverfisgötu, veist að lögreglumanninum A sem þar sat við hlið hans og slegið höfði sínu í höfuð hans.

Telst brot ákærða samkvæmt 1. ákærulið varða við 1. mgr. 4. gr., 1. mgr. 10. gr. og 1. mgr., sbr. 3. mgr. 45. gr., sbr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 1. gr. 48/1997. Brot samkvæmt 2. ákærulið telst varða við 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 101/1976 og 1. gr. laga nr. 66/2006.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og sviptingar ökuréttar samkvæmt 101. og 102. gr. umferðarlaga, sbr. 25. gr. laga nr. 44/1993 og 18. gr. laga nr. 66/2006.”

Í öðru lagi er málið höfðað með ákæru, dagsettri 26. janúar 2009, á hendur ákærðu báðum, “fyrir brot gegn valdstjórninni, aðfaranótt sunnudagsins 27. apríl 2008, utandyra við veitingastaðinn Kaffi Amor við Ráðhústorg, Akureyri.

1. Gegn ákærða Daníel, með því að hafa veist að B lögregluvarðstjóra, sem þar hafði afskipti af ákærðu vegna skyldustarfa sinna, ítrekað reynt að sparka í hann, togað í hálsmál á peysu sem hann klæddist og sparkað tvisvar í andlit hans með þeim afleiðingum að hann hlaut hruflsár á höku og blæðingu í vinstra auga.

2.  Gegn ákærða Grími, með því að hafa veist að C lögreglumanni, sem þar hafði afskipti af ákærðu vegna skyldustarfa sinna, reynt að slá hann í andlitið en höggið lenti á vinstri hendi og öxl hans, og tekið um höfuð C og háls og skellt honum í götuna þannig að höfuð hans skall í gangstétt. Afleiðingar árásarinnar urðu þær að C hlaut sár á vinstri augabrún.

Teljast brot ákærðu varða við 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 25/2007.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.”

Málavextir

Fyrri ákæran.

1.

Fyrir liggur að aðfaranótt sunnudagsins 28. október 2007 var bíl ákærða ekið á

götuvita  á gatnamótum Kringlumýrar- og Hringbrautar í Reykjavík.  Skömmu seinna var ákærði handtekinn þar sem hann var á gangi, ekki langt frá gatnamótunum.  Var hann færður á lögreglustöðina við Hverfisgötu.  Var ákærða tekið blóð þar til rannsóknar og reyndist það innihalda 1,87 ‰ af vínanda.  Í skýrslu sem ákærði gaf hjá lögreglunni um morguninn kannaðist hann við að hafa ekið heiman að frá sér þar sem hann hafði setið að drykkju frá því um klukkan 21 og hefði drykkjunni lokið um það leyti sem óhappið varð um nóttina.  Hann kvaðst ekki hafa neytt áfengis eftir að akstrinum lauk og kvaðst aðspurður halda að hann hefði hlaupið frá árekstursstað af hræðslu og “sjokki”.

Verður nú greint frá því sem komið hefur fram í dómi um þetta sakaratriði. 

Ákærði neitaði sök við þingfestingu málsins.  Hann hefur sagt að annar maður en hann hafi ekið bílnum.  Hafi það atvikast svo að hann rakst á mann fyrir utan húsið hjá sér, sem hann kannaðist einungis við í sjón.  Hafi maður þessi boðist til þess að aka bílnum með hann og það orðið úr.  Muni hann lítið eftir akstrinum, enda hafi hann verið mjög ölvaður.  Hann hafi rankað við sér í bílnum í farþegasætinu frammi í eftir áreksturinn og fundið til eymsla um líkamann.  Kveðst hann hafa farið úr bílnum og tekið á rás á brott.   Hann kveðst ekki vefengja niðurstöðu blóðrannsóknarinnar.  Hann kvaðst hafa verið klæddur í (bláleita) flíspeysu og dökkbláar gallabuxur þegar þetta gerðist.

Um skýrsluna sem hann gaf hjá lögreglunni morguninn eftir segir ákærði það að hann hafi fyrst neitað að hafa ekið bílnum en yfirheyrandinn hafi þá sagt honum að hugsa sinn gang og hann farið aftur í fangaklefann.  Hann hafi svo verið færður aftur til yfirheyrslu og þá hafi hann gefið skýrsluna sem skráð er eftir honum.  Hann kveðst ekki hafa borið því við að annar hefði ekið bílnum enda hann verið aumur og vankaður og viljað umfram allt komast heim til sín sem fyrst.  Hann hafi því játað þetta svona.

D  hefur skýrt frá því að hann hafi verið á ferð í bíl vestur Miklubraut um gatnamótin og þá séð bíl sem hafði verið ekið á staur og mannveru hlaupa frá bílnum.  Hann kveðst ekki muna eftir að hafa séð neinn annan við bílinn. Hann kveðst hafa gert viðvart um þetta til lögreglunnar sem hafi komið skömmu seinna.  Hafi lögreglan verið með mann í haldi sem þeir hafi tekið út úr bílnum.  Hafi sá maður verið í rauðum eða rauðgulum buxum eins og sá sem hlaupið hafði frá bílnum.

E sem var með D í bílnum hefur sagt frá því að þau hafi séð hvar bíl hafði verið ekið á staur á gatnamótunum.  Hafi þau séð mann í blárri peysu og rauðum íþróttabuxum með hvítri rönd hlaupa frá bílnum.  Lögreglan hafi svo komið þar sem þau biðu hjá bílnum og sýnt þeim mann sem hafði verið handtekinn.  Hafi sá maður verið eins klæddur og sá sem hljóp frá bílnum.  Hún segir að annan mann hafi ekki verið að sjá hjá bílnum en þennan sem hljóp frá honum. 

F lögreglumaður sem kom að bíl ákærða hefur skýrt frá því að þar hafi verið fyrir tvö vitni sem hafi lýst manni sem þau hefðu séð hlaupa frá bílnum í átt að Kringlunni og sagt hann hafa verið klæddan appelsínugulum buxum.  Hafi þau haldið þangað og fljótlega fundið mann sem svaraði til þessarar lýsingar og virst eigra um stefnulaust.  Engan annan hafi verið að sjá á þessu svæði sem sé bæði stórt og opið.  Hafi þau handtekið mann þennan sem hafi verið ölvaður, æstur og “stælóttur”, eins og vitnið orðar það.  Buxur mannsins hafi reynst vera rauðar á lit en úr fjarska hafi þær frekar sýnst vera appelsínugular.  Hafi hann ekki sagt annað en pass þegar honum var tilkynnt af hverju hann væri handtekinn.  Ekki hafi hann minnst á það að hann væri meiddur, svo að hún muni.  Hafi maðurinn verið sýndur fólkinu og það hafi staðfest að maðurinn væri sá sem þau hefðu séð hlaupa frá bílnum.

G lögreglumaður, sem tók skýrslu af ákærða, segir yfirheyrsluna hafa farið eðlilega fram og ekki annað borið út af en það að gera hafi þurft hlé þar sem ákærði hafi borið við minnisleysi um atvikin og viljað fá að hugsa sig um.  Hafi honum því verið veitt hlé til þess.  Hún kveðst ekki hafa beitt ákærða þeirri þvingun að hann fengi ekki frelsi nema hann játaði.   Hafi hann játað af frjálsum vilja.  Ekki kveðst hún muna hvernig ákærði hafi verið á sig kominn þegar hann gaf skýrsluna.   

H lögreglumaður, sem hefur vottað skýrsluna sem ákærði gaf, hefur  skýrt frá því að hann hafi ekki verið viðstaddur yfirheyrsluna heldur komið inn að henni lokinni.  Hann segir ekkert hafa bent til annars en að ákærði væri fær um að gefa skýrslu. 

I var í bíl sem átti leið fram hjá árekstursstaðnum.  Segist hann hafa séð hvar rauður sendibíll hafði ekið á staur og að maður í buxum í áberandi lit hljóp þaðan í átt að Kringlunni.  Kveðst hann þá ekki hafa séð að neinn annar væri í bílnum.

J hefur skýrt frá því að hún hafi verið heima hjá sér að horfa á sjónvarp þegar hún, eins og oft áður, heyrði skell koma frá gatnamótum Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar.  Þegar hún leit út hafi þar gefið að sjá rauðan bíl, að hana minnir, sem hafði ekið þar niður umferðarljós.  Kveðst hún hafa séð mann við bílinn halda um höfuð sér og virtist hann vera miður sín.  Sýndist henni maðurinn vera í appelsínugulum eða rauðum buxum.  Hún segist ekki hafa tekið eftir öðrum manni þarna.  Kveðst hún hafa hringt í lögregluna og tilkynnt um slysið.  Hún hafi farið aftur út í glugga og minnir hana að hún hafi séð manninn hlaupa í burtu en hún kveðst þó ekki geta fullyrt um það.   

Niðurstaða

Ákærði hefur neitað sök fyrir dómi og sagt ókunnan mann hafa ekið bílnum.  Hjá lögreglu játaði hann að hafa setið að drykkju heima hjá sér þar til hann fór þaðan á bílnum og ók honum á götuvitann.  Þá kvaðst hann ekki hafa drukkið eftir að akstrinum lauk.  Skýring sú sem ákærði hefur gefið á breyttum framburði sínum þykir ekki vera trúverðug frekar en saga hans um ókunna ökumanninn.  Þá er til þess að líta að lýsingu vitna á klæðnaði mannsins, sem sást við bílinn eftir áreksturinn, ber saman við þann búning sem ákærði var í þegar hann var handtekinn þar skammt frá og einnig hitt að vitnunum ber saman um að ekki hafi verið annan mann að sjá við bílinn.  Þykir ekki vera vafi á því að ákærði ók bílnum í umrætt sinn heiman að frá sér undir áhrifum áfengis og svo óvarlega að hann keyrði niður götuvitann á mótum Kringlumýrar- og Miklubrautar.  Hefur hann gerst sekur um brot gegn þeim lagaákvæðum sem tilgreind eru í ákærunni. 

2.

Meðal gagna málsins er skýrsla K lögreglumanns þar sem hún greinir frá því að á leið í lögreglustöðina við Hverfisgötu frá árekstursstaðnum, sem áður greinir, hafi ákærði, sem sat í aftursæti lögreglubílsins, handjárnaður aftur fyrir bak og fastur í bílbelti, skallað lögreglumanninn A sem sat við hlið ákærða.  Segir þar að enni ákærða hafi strokist við andlit lögreglumannsins.  Í málinu er mynddiskur sem sýnir það sem fram fór í aftursætinu og á honum er einnig hljóðupptaka.  Heyrist ákærði þar spyrja lögreglumanninn að því hvernig hann komist sem fyrst heim til sín og er hann þá beðinn um að hætta þessu.  Heyrist hann þá hreyta úr sér enskum blótsyrðum og sést svo kasta sér til hliðar á lögreglumanninn og teygja höfuðið til vinstri að höfði lögreglumannsins sem virðist ná að víkja sér lítillega undan með höfuðið en líkami ákærða skellur á hægri hlið lögreglumannsins.  Lögreglumaðurinn sést svo færa sig til hægri og setja bakið í ákærða og halda honum þannig skorðuðum.  Lögreglumaðurinn heyrist svo spyrja ákærða að því hvers vegna hann hafi reynt að skalla lögreglumann og ákærði þá svara “af því að ég spurði þig oft...ég spurði þig oft einfaldrar spurningar...”  Í upptökunni sést hvað tímanum leið meðan þetta gerðist en þeirri klukku ber ekki saman við það sem vitað er um tímann úr málsskjölunum.  Þar sem hægt er að bera kennsl á ákærða og lögreglumanninn af upptökunni þykir mega slá því föstu að hún sýni það atvik sem málið snýst um.

Verður nú greint frá því sem komið hefur fram í dómi um þetta sakaratriði. 

Ákærði segist muna eftir sér í lögreglubíl með hendurnar fyrir aftan bak og muni hann eftir því að hann hafi beðið um að fá að komast heim til sín og honum væri illt.  Hafi honum verið sagt að vera kyrr og ekki með nein læti.  Þá hafi það komið fyrir að hann hafi fengið í sig “væntanlega krampa eða einhvern sinadrátt eða eitthvað og...lendi þarna aðeins utan í lögreglumanni til vinstri”, enda verið mjög þröngt um hann þarna.  Hann segist aðspurður ekki hafa snert lögreglumanninn og þetta hafi alls ekki verið viljaverk.  Hann segist aðspurður fá krampa annað slagið og mjög oft fái hann sinadrátt.  Hann segir jafnframt að honum hafi verið óglatt þarna í bílnum og eins hafi hann verið aumur.  Hann segist þó ekki vera flogaveikur og ekki hafa leitað læknis út af krampaköstunum.  Skýring hans á orðaskiptum þeirra lögreglumannsins eftir atvikið er sú að spurning lögreglumannsins hafi verið leiðandi.

A lögreglumaður hefur skýrt frá því að hann hafi verið kvaddur á vettvang vegna umferðaróhapps á gatnamótunum umræddu ásamt K.  Hafi þau séð um að flytja handtekinn mann þaðan á lögreglustöðina.  Hafi maðurinn setið í aftursætinu hægra megin í bílnum og hann sjálfur setið við hlið hans.  Hafi maður þessi greinilega verið undir áhrifum áfengis og verið æstur.  Hafi hann þráspurt sömu spurningarinnar, sem vitnið man ekki hver var, og ekki virst skilja svörin sem hann fékk.  Þegar nær dró stöðinni, líklega á móts við Heklu á Laugavegi, hafi maðurinn skyndilega reynt að skalla vitnið með því að kasta sér til vinstri svo að höfuð hans straukst við vanga vitnisins.  Hafi maðurinn svo látið á sér heyra að hann hefði ætlað sér að skalla vitnið.  Ekki minnist vitnið þess að maðurinn hafi talað um að hann væri meiddur.  Þá hafi ekki verið áverka að sjá á honum.  Maðurinn hafi verið járnaður með hendur fyrir aftan bak meðan hann sat í bílnum og í bílbelti.

K lögreglumaður, sem ók lögreglubílnum með ákærða og A aftur í, segir ákærða hafa klifað á sömu spurningunni á leiðinni.  Þegar þau óku eftir Laugavegi kveðst hún hafa orðið vör við hreyfingu hjá ákærða og svo séð A bregðast við því með því að skorða hann.  Hafi maðurinn ekki virst vera meiddur og það því ekki verið athugað. 

Niðurstaða

Sú viðbára ákærða að hann hafi fengið “væntanlega krampa eða einhvern sinadrátt eða eitthvað..”, sem hafi valdið því að hann hafi kastast utan í lögreglumanninn, þykir vera með talsverðum ólíkindablæ og ekki er annað að sjá af myndskeiðinu en að ákærði hafi vísvitandi kastað sér til hliðar á lögreglumanninn, A.  Þá verður ekki annar skilningur lagður í það sem hann sagði eftir atvikið en að ákærði hafi gert þetta viljandi.  Telst því vera sannað að ákærði hafi ráðist á lögreglumanninn, sem var við skyldustörf, með því að kasta sér til hliðar á hann.  Þá verður að telja sannað með upptökunni og framburði A að ákærði hafi reynt að stanga hann í höfuðið en ekki náð að gera meira en að höfuð hans straukst við höfuð lögreglumannsins.  Hefur ákærði með þessu athæfi sínu orðið sekur um brot gegn 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga.  

Síðari ákæran.

Aðfaranótt sunnudagsins 27. apríl 2008, um klukkan hálffjögur, voru lögreglumennirnir B og C á eftirlitsferð um miðbæ Akureyrar og sást þá til tveggja manna meðal fólks sem stóð fyrir utan skemmtistaðinn Kaffi Amor.  Voru það ákærðu í máli þessu.   Samkvæmt skýrslu C var annar þeirra að sparka í rúðu á framhlið staðarins en hinn í stympingum við dyraverði.  Lögreglumennirnir höfðu afskipti af ákærðu en við það kom til ýfinga og átaka sem leiddu til þess að ákærðu voru  handteknir og færðir á lögreglustöðina.  Hlutu lögreglumennirnir meiðsli í átökunum og leituðu þeir með þau á slysadeild Fjórðungssjúkrahússins á  Akureyri.  Í málinu eru staðfest vottorð Guðrúnar Dóru Clarke um meiðsli lögreglumannanna.  Um C segir að hann hafi verið með lítið skurðsár lóðrétt á augabrún, vinstra megin, sem talsvert hafði blætt úr og um B segir að hann hafi verið með lítils háttar hrufl á hökunni og að blætt hefði inn á vinstra auga.

Ákærði Daníel Rafn var yfirheyrður hjá lögreglu um atvikið kl. 13.05, 27. apríl.  Hann kvaðst ekki muna neitt eftir atvikum vegna ölvunar en þó helst eftir að búið var að járna hann og átti að krækja fótum hans í handjárnin þar sem hann lá í götunni.  Hafi hann verið ósáttur við það. 

Ákærði Grímur var yfirheyrður hjá lögreglu þennan sama dag kl. 14,16 og kvaðst hafa verið mjög ölvaður eftir óhemju mikla áfengisdrykkju.  Hann kannaðist við að hafa verið að kasta glösum aftur fyrir sig á barnum á Kaffi Amor og einnig að hafa ekki sagt til nafns þegar lögreglan krafðist þess.  Sagðist hann hafa verið barnalegur og með “stæla” og rifið kjaft, en sagði lögregluna ekki hafa farið vel að honum heldur.  Þegar hann var spurður hvort hann hefði slegið lögreglumanninn kannaðist hann við að hafa veist að lögreglunni, stjakað við lögreglumanninum og ráðist á hann.  Hann vissi þó ekki hvort um ásetning hefði verið að ræða eða hvort hann hefði baðað frá sér höndunum.  Hann kvaðst halda að hann hefði ekki verið með krepptan hnefann.  Hann kannaðist við að hafa tekið um höfuð og háls lögreglumannsins og að hafa reynt að fella hann, enda hefði hann verið orðinn mjög æstur vegna framkomu lögreglunnar í garð þeirra Daníels Rafns sem hafi einkennst af “stælum” og hroka.  Hann neitaði því að hafa slegið höfði lögreglumannsins í götuna.  

Meðal gagna málsins eru ljósmyndir af rifinni peysu B lögreglumanns og af tveimur brotnum lögreglukylfum.

Verður nú greint frá því sem komið hefur fram í dómi um þetta sakaratriði. 

Ákærði Daníel neitar sök og kveðst ekki minnast þess að hafa ráðist á lögreglumenn að fyrra bragði.  Hann segir þá Grím hafa verið inni á Kaffi Amor að skemmta sér.  Þegar hann hafi orðið var við læti utandyra hafi hann farið út en þá hafi verið skellt í lás á eftir honum.  Hann hafi þá áttað sig á því að peysan hans hafði orðið eftir inni og bankað á hurðina.  Þegar opnað var hafi hann þurft “að rífast í þeim” til þess að  fá peysuna.  Hafi þá lögreglumaðurinn komið að og slegið hann kylfuhögg í lærið aftan frá.  Hann hafi þá, eins og áður segir, snúið sér við og til þess að komast hjá því að fá kylfuhögg í andlitið hafi hann gripið eitthvað í kylfuna “og svo lentum við í götunni.”  Hafi þeir þá komið fjórir eða fimm og “hoppað” ofan á honum og sparkað stanslaust í hann á meðan og haldið áfram að berja hann með kylfum.  Ekki viti hann hvort það voru lögreglumenn, dyraverðir eða þá einhverjir aðrir sem það gerðu.  Hann kveðst hafa verið fullur þegar þetta gerðist, þó ekki blindfullur.  Hann kveðst hafa lent með andlitið í götunni þegar hann féll en hann segist ekki hafa tekið eftir því hvort lögreglumaðurinn fékk áverka í þessum átökum.   Hann kannast við að hafa tekið í hálsmálið á lögreglumanninum en það hafi hann gert þegar hann tók “eitthvað utan um hann og er að reyna stoppa kylfuna”.  Hann neitar því að hafa sparkað í andlit lögreglumannsins, svo að hann viti til, og segist ekki hafa reynt að sparka í hann þegar hann lá í götunni.  Hann segir atvikin hafa rifjast upp fyrir sér nokkuð frá því að hann gaf skýrslu sína hjá lögreglunni. 

Ákærði Grímur neitar sök.  Hann kveðst hafa verið staddur fyrir utan Kaffi Amor, mjög ölvaður og skólaus og vart staðið í fæturna.  Hafi hann staðið þar við húsvegginn og lögreglumaðurinn hafi verið sífellt að ýta í hann svo að honum lá við falli.  Hafi hann svo séð að lögreglumaðurinn var með kylfu á lofti og barið með henni í annað lærið á ákærða.  Kveðst hann hafa fallið við þetta og lögreglumaðurinn þá sett hnéð í hnakka honum svo að andlitið fór í malbikið.  Hafi hann fundið gríðarlegan sársauka, bæði í læri og hnakka.  Hann kveðst hafa fengið nokkur kylfuhögg í sig og hafi kylfan brotnað við það.  Hann segist enn hafa verið ölvaður þegar hann var yfirheyrður hjá lögreglunni.  Um það sem hann sagði við yfirheyrsluna hjá lögreglunni vill hann taka það fram að honum hafi legið á að sleppa úr haldi og komast heim til fjölskyldu sinnar en yfirheyrandinn gefið í skyn að hann gæti haldið sér í sólarhring.  Beri skýrslan þess merki að hann hafi viljað sleppa úr haldi og því hafi hann því játað þar sitthvað á sig.         

B lögregluvarðstjóri hefur skýrt frá því að þeir C hafi verið staddir skammt frá Kaffi Amor þegar tilkynnt var að þar væru tveir óstýrilátir menn.  Hafi þeir séð til mannanna þar fyrir utan og að annar virtist vera að reyna að sparka sér leið inn á staðinn.   Hafi hann beitt sér gegn stórri rúðu sem þó hafi ekki brotnað.  Einnig hafi maðurinn sparkað og barið í hurðina.  Hafi þeir farið að athuga með þetta og þá verið sagt að mönnunum hefði verið vísað út af staðnum en annar þeirra, Daníel Rafn, hefði viljað fá aftur jakka sem hann hafði skilið eftir þar inni.  Hafi þeir báðir farið og rætt við Daníel Rafn en hinn maðurinn þá farið að skipta sér af þessu.  Hafi C þá snúið sér að þeim manni og farið að sinna honum og leitt hann í burtu.  Sjálfur kveðst vitnið hafa reynt að róa Daníel Rafn og fengið hann til þess að setjast inn í bíl hjá sér.  Daníel Rafn hafi hinsvegar rokið strax út aftur og að þeim Grími og C.  Hafi Daníel Rafn látið á sér skilja að hann vildi ekki fara í lögreglubílinn nema Grímur kæmi þangað líka.  Hafi Daníel Rafn neitað að segja til nafns og mennirnir verið erfiðir, ýmist uppstökkir eða mjög æstir.  Málum hafi verið þannig komið að C hafi virst vera kominn í vandræði með Grím og Daníel Rafn viljað blanda sér í það.  Kveðst vitnið þá hafa skipað honum að setjast inn í bílinn en hann orðið æstari við það og því kveðst vitnið hafa dregið upp kylfuna.  Hafi hann æst sig enn meir við það og hótað þeim lögreglumönnunum.  Hafi Daníel Rafn slegið til hans en hann þá tvisvar slegið með kylfunni í lærið á honum.  Í annað skiptið hafi kylfan líka rekist í bakið á C.  Við þessi högg hafi kylfan brotnað enda veigalítil og úr plasti.  Segir hann Daníel Rafn hafa ráðist á sig með höggum og eftir að tveir dyraverðirnir höfðu tekið hann hafi hann sparkað í sig í höfuðhæð.  Hafi hann náð að sparka svona hátt vegna þess að dyraverðirnir héldu honum uppi og maðurinn gat haft fæturna fría.  Hann kveðst hins vegar hafa getað borið fyrir sig hendurnar og þannig getað varist spörkunum að mestu leyti.  Hann segir ákærða hafa tekið í hálsmálið á flíspeysunni sem hann var í og rifið út úr því.   Að endingu hafi hann og dyraverðirnir náð að yfirbuga ákærða og handjárna hann.     

C lögreglumaður hefur skýrt frá því að þeir B hafi verið á eftirlitsferð og þá séð til manns vera að sparka í rúðu á skemmtistaðnum Amor.  Hafi þeir farið og reynt að tala um fyrir manninum, Daníel Rafni,  sem hafi róast og sagt að hann vildi fá einhverja flík sem hefði orðið innlyksa þar inni.  Hafi hann sest inn í lögreglubílinn en félagi hans, Grímur, sem hann minnir hafa verið ölvaðan, hafi hins vegar viljað skipta sér af þessu og kveðst C hafa farið að róa hann.  Daníel Rafn hafi hins vegar komið strax úr lögreglubílnum aftur og farið til Gríms.  B hafi þá komið á eftir Daníel Rafni og beðið hann um að segja til nafns hann þá virst verða æstari og hafi hann farið að hafa í hótunum við B.  Hafi B þá brugðið kylfu sinni og kveðst hann þá hafa farið að dæmi hans til þess að veita B aðstoð, ef á þyrfti að halda.  Hafi hann séð út undan sér að Daníel Rafn réðst gegn B með höggum og spörkum.  Ekki hafi hann séð hvar höggin lentu en þau hafi beinst að efri hlut líkama B.  Hafi þetta verið bæði áður og eftir að B beitti kylfunni á hann.  Ekki geti hann sagt hve mörg spörkin voru eða hvort Daníel Rafn sparkaði áður eða eftir að B beitti kylfunni.  Dyraverðirnir hafi ekki verið komnir B til hjálpar þegar hér var komið sögu.  Grímur hafi einnig farið að sýna meiri merki um æsing og óánægju og kveðst hann svo hafa séð út undan sér að Grímur sveiflaði hendinni og sló til hans.  Hann hafi þó náð að bera af sér höggið með vinstri framhandlegg en með hinni hendinni hafi hann veitt Grími kylfuhögg í lærið.  Hafi kylfan brotnað við það högg og þeir Grímur tekist fangbrögðum og fallið í götuna.  Hafi Grímur haldið aftur fyrir höfuðið á honum og slegið andliti hans ofan í götuna svo að sprakk fyrir á vinstri augabrún.  Honum hafi þó tekist að yfirbuga Grím með aðstoð starfsmanns á veitingastaðnum, L.  Hafi hann handjárnað Grím og hann verið settur í stóran lögreglubíl sem þá var kominn var á vettvang.  Kveðst hann svo hafa hjálpað til við að færa Daníel Rafn, sem þá hafði verið járnaður, í þennan sama lögreglubíl.   

L sem var barþjónn í Kaffi Amor í umrætt sinn hefur komið fyrir dóm og skýrt frá því að ákærðu hafi verið þar ölvaðir og til vandræða, annar þeirra með því að kasta aftur fyrir sig glösum.  Hafi þeim verið vísað út þess vegna og læst á eftir þeim enn mennirnir þá farið að berja húsið utan og sparka í rúður.  Í því hafi komið að lögreglubíll og kveðst hún hafa farið út og séð að B setti annan manninn inn í lögreglubílinn en C fór að reyna að tjónka við hinn.  Hafi sá verið upp við húsið, svo drukkinn að hann varla stóð í fæturna.  Maður þessi hafi æst sig upp og þeir C lent í átökum.  Hafi hún séð hann slá til C, sem hafi getað vikið sér undan og slegið hann með kylfunni í lærið svo að hún brotnaði.  Þeir hafi svo lent í götunni svo að C varð undir en hann hafi svo náð yfirhöndinni og hún þá farið til hjálpar.  Hafi C sett manninn í handjárn og hún séð að sprungið hafði fyrir á augabrúninni á honum.  Hinn maðurinn hafi komið út úr lögreglubílnum og þeir B lent í átökum.  Hafi hún séð að kylfa B brotnaði í tvennt. 

M var fyrir utan skemmtistaðinn í umrætt sinn.  Hafi lögregla komið á staðinn.  Annar þeirra tveggja sem málið snýst um hafi farið inn í lögreglubílinn enn hinn ekki.  Hinn hafi þá komið út úr bílnum og upp úr því hafi komið til átaka við lögreglumenn.  Muni hann ekki að segja hver hafi gert hvað í þeim átökum en lögreglumaður hafi verið með skurð eftir þau. 

N hefur skýrt frá því að hann hafi verið staddur við veitingastaðinn Kaffi Amor í umrætt sinn, alls gáður.  Hafi hann þá séð Daníel Rafn, sem hann kannist við, þar fyrir utan.  Hafi Daníel Rafn verið á tali við dyravörð og kvartað yfir peysu.  Hafi lögreglumaður komið aftan að honum og lamið hann með kylfu í fótinn. Daníel Rafn hafi þá snúið sér við og þá virst eins og lögreglumaðurinn ætlaði að slá hann í andlitið með kylfunni og þeir dottið þegar Daníel Rafn greip í kylfuna.  Hann kveðst ekki hafa séð að Daníel Rafn berði eða sparkaði í lögreglumanninn.  Þeir hafi þó báðir spriklað eftir að þeir voru fallnir.  Dyraverðir hafi svo komið og skorist í leikinn og einnig fleiri lögreglumenn.    

O hefur komið fyrir dóm og skýrt frá því að hann hafi verið staddur við veitingastaðinn margnefnda og þá séð Daníel Rafn, sem hann er kunnugur, að þvarga eitthvað við dyravörð.  Hafi þá lögreglumaður komið aftan að Daníel Rafn og barið hann í fótinn aftanverðan með kylfu.  Hafi lögreglumaðurinn ætlað að berja Daníel Rafn með kylfunni í andlitið en hann þá gripið í kylfuna og þeir flogist á.  Dyraverðir og aðrir lögreglumenn hafi svo margir saman ráðist á Daníel Rafn.  Ekki kveðst hann muna eftir smáatriðum í þessu. 

P hefur skýrt frá því að hann hafi verið staddur hjá Kaffi Amor og þá séð að lögreglumaður sló mann þar fyrir utan í fótinn með kylfu, líklega í lærið.  Hafi sá maður gripið í kylfuna en dyraverðir þá komið og stokkið til og einhverjir fleiri lögreglumenn á hann líka.  Hann kveðst ekki hafa séð högg eða spörk á undan þessu.  Kveðst hann hafa verið þarna með O en hann kveðst ekki þekkja ákærða Daníel Rafn. 

Q var dyravörður á Kaffi Amor þegar atvik málsins urðu.  Segir hann að ákærðu hafi verið vísað út af staðnum vegna óláta, fyrst Grími og svo Daníel Rafni.  Vegna óláta þeirra úti fyrir hafi verið hringt í lögreglu og tveir lögreglumenn komið á staðinn.  Kveðst hann hafa farið út eftir að þeir voru komnir og ekki séð hvað gerðist með þeim og ákærðu áður.  Hafi hann séð að ákærðu veittust að lögreglumönnunum, sem hafi ætlað að setja mennina í lögreglubílinn, en þeir ekki ráðið við mennina.  Hafi Daníel Rafn bæði hafi slegið og sparkað frá sér.  Hafi verið beitt kylfu á annan þessara manna, Daníel.  Hafi kylfan brotnað á læri hans eftir nokkur högg.  Þeir starfsmenn hússins hafi þá skorist í leikinn og kveðst vitnið hafa komið aftan að honum, tekið undir handarkrikana á honum, spennt handleggina fasta og lyft honum upp svo að fætur hans námu ekki við jörð.  Hafi ákærði þá farið að sparka frá sér og spörk komið í herðablaðið á lögreglumanninum, sem sneri baki í ákærða, í axlir hans og búk og aftanvert á höfuðið.   Kveðst hann svo hafa lagt manninn í götuna og þá hafi fleiri lögreglumenn komið að.  Hann kveðst ekki hafa fylgst með því sem gerðist í átökunum við hinn manninn. 

R sem var dyravörður á veitingastaðnum í umrætt sinn hefur skýrt frá því að eftir að ákærðu voru farnir út hafi annar þeirra sest inn í lögreglubílinn en svo komið þaðan út aftur.  Þar sem lögreglumennirnir hafi virst eiga í erfiðleikum með mennina hafi þeir starfsmenn hússins farið út til þess að hjálpa þeim við að handtaka mennina.  Hafi mennirnir veitt mótspyrnu og ýtt lögreglumönnunum frá sér.  Hafi menn fallið í götuna í þessum átökum.  Hafi hann séð lögreglumann berja annan manninn í lærið með kylfunni og hún brotnað við höggið.  Hafi þessi maður sparkað í lögreglumanninn, einhvers staðar í mjöðm á honum að hann minnir.  Kveðst hann hafa tekið þátt í því að yfirbuga hann ásamt Q og lögreglumanninum.  Hafi þeir togað manninn aftur á bak og sett hann þannig í jörðina og einnig segist hann hafa lagst ofan á fætur hans.  Hafi þetta verið sá mannanna sem hafði sest inn í lögreglubílinn, að hann telur.  Kveður hann manninn hafa náð að sparka einu sinni í lærið á lögreglumanninn áður en hann var lagður í jörðina, einhvers staðar í lærið.  Hann kveðst lítið hafa séð af átökum við hinn manninn en þó orðið þess áskynja að fljótt hafi gengið að yfirbuga hann.

S segir ákærða vera kunningja frænda síns.  Kveðst hann hafa verið staddur á Akureyri á þeim tíma sem um ræðir, segist hafa verið staddur fyrir utan Kaffi Amor í eitt sinn og þá séð að læti voru þar fyrir utan.  Hafi hann séð Daníel Rafn vera að reyna að komast inn í veitingastofuna.  Hafi þá lögreglumaður ráðist á hann og slegið til hans með kylfu en Daníel Rafn þá varið sig með því að grípa í höndina á lögreglumanninum og þeir tekist á.  Hafi þeir lent í jörðinni.  Þá hafi fleiri lögreglumenn komið á staðinn og tekið Daníel Rafn fastan. 

T sem var með S í umrætt sinn segist hafa séð að Daníel Rafn hafi verið á tali við lögreglumenn og allt virst í góðu.  Hafi lögreglumaðurinn tekið upp kylfu og slegið frá sér og stympingar orðið.  Hafi dyraverðir komið út og gengið í skrokk á Daníel Rafni og tekið hann og fellt hann niður.  Vitnið kveðst hafa verið drukkinn þegar þetta gerðist.  

U sem var dyravörður á Kaffi Amor í umrætt sinn hefur skýrt frá því að ákærðu í málinu hafi farið út af staðnum eftir ólæti þar inni.  Hafi annar þeirra látið ófriðlega og sparkað í glugga á staðnum.  Lögreglan hafi svo komið og átök hafi orðið með þeim og lögreglunni sem hafi tekist að setja annan mannanna inn í stóran lögreglubíl.  Kveðst hann svo hafa séð að lögreglumaður hafi verið blóðugur í andliti eftir þetta.  Hann segist hafa séð tvo dyraverði halda öðrum mannanna, ákærða Daníel Rafn sem hafi sparkað frá sér út í loftið.  Kveðst hann svo hafa séð að lögreglumaður hafi verið blóðugur í andliti eftir þetta, sá sem hafði verið að kljást við Daníel Rafn.  Ekki hafi hann séð að nein spörk hafi lent í lögreglumönnunum.  Kveðst hann halda að þegar þetta gerðist hafi lögreglumaður verið að setja hinn manninn inn í lögreglubílinn.  Hann segir Daníel Rafn hafa komið fyrir eins og hann væri undir áhrifum örvandi efna en hinn maðurinn hafi virst vera drukkinn.

Niðurstaða

1.                   Ákærði Daníel Rafn.

Ákærði hefur neitað sök í málinu.  Hann kveðst lítið muna eftir atvikum en kannast við að hafa lent í átökum við lögregluna og að hafa gripið um lögreglukylfuna til þess að verjast höggi af henni og að hafa í sama skyni tekið í hálsmálið á treyju lögreglumannsins og jafnvel eitthvað utan um hann.  Hann neitar því að hafa sparkað í lögreglumanninn eða að hafa reynt það.  B lögregluvarðstjóri segir ákærða hafa ráðist að sér með spörkum í höfuðhæð þar sem hann hékk í tökum dyravarðanna en hann kveðst þó hafa getað varist spörkunum að mestu leyti.  C lögreglumaður segist hafa séð það útundan sér að ákærði réðst að B með spörkum sem beindust að efri hluta líkamans.  Q dyravörður hefur sagt ákærða hafa sparkað frá sér og eftir að þeir dyraverðirnir náðu tökum á honum hafi hann sparkað í axlir og búk lögreglumannsins og höfuðið aftanvert.  R dyravörður segist hafa hjálpað Q að taka mann sem lögreglumaður var að kljást við.  Hafi maður þessi sparkað í mjöðmina á lögreglumanninum og einnig í lærið.  Þá segist U dyravörður hafa séð tvo aðra dyraverði hafa haldið ákærða Daníel Rafni og að hann hafi sparkað frá sér út í loftið.  Nokkur vitni önnur, sem komið hafa fyrir dóminn að tilhlutan ákærða og tengjast honum, segjast hafa verið stödd á Akureyri þegar þetta gerðist og hafa verið nærstödd þegar ákærði og lögreglumaðurinn tókust á.  Hafa þau sagt ákærða hafa tekið um kylfu lögreglumannsins til þess að verja sig við höggi af henni og að þeir tveir hafi svo fallið við það í götuna.  Þessi vitni hafa hins vegar ekki borið um spörk ákærða.  Dómaranum þykir tilkoma og frásögn vitna þessara fremur tortryggileg og ekki vera ástæða til þess að leggja mikið upp úr þeim. 

Telja verður sannað með vætti lögreglumannanna tveggja og dyravarðanna Q og R að ákærði hafi bæði sparkað og reynt að sparka í B og með læknisvottorðinu að hann hafi hlotið meiðsli eins og lýst hefur verið.  Þá er það einnig sannað með játningu ákærða sem styðst við gögn málsins að hann hafi togað í hálsmál peysu sem lögreglumaðurinn var í og rifið hana þar.   Hefur ákærði brotið gegn 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga.

2.                   Ákærði Grímur.

Ákærði neitar sök.  Í yfirheyrslu hjá lögreglu síðdegis þennan sunnudag kannaðist hann við að hafa veist að lögreglumanni, mjög ölvaður, stjakað við honum en þó vissi hann ekki hvort það hefði verið ásetningsverk; hann kynni að hafa baðað frá sér höndunum en sagðist þó ekki hafa verið með krepptan hnefann.  Þá kannaðist hann við að hafa tekið um höfuð og háls lögreglumannsins og að hafa reynt að fella hann.  Hann neitaði hins vegar að hafa skellt höfði lögreglumannsins í götuna.  Fyrir dómi hefur ákærði alfarið neitað sök í málinu og það sem hann játaði á sig hjá lögreglu hafi hann gert til þess að sleppa úr haldi, enda hafi honum verið hótað því að honum yrði haldið í sólarhring ef hann ekki játaði.  C lögreglumaður hefur skýrt frá því að ákærði hafi slegið til hans en hann náð að bera af sér höggið.  Þegar hann hafði beitt á hann kylfunni hafi þeir ákærði tekist fangbrögðum og fallið í götuna.  Hafi ákærði tekið um höfuð hans og slegið því í götuna svo að sprakk fyrir á vinstri augabrún.  L hefur sagt ákærða hafa slegið til C sem hafi getað vikið sér undan og eftir að hann beitti kylfunni hafi þeir lent í götunni svo að C varð undir.  Hafi hún svo séð að sprungið hafði fyrir á augabrún hans.  R dyravörður hefur sagt að ákærðu hafi veitt mótspyrnu þegar handtaka átti þá og menn fallið í götuna í þeim átökum.  Hann kveðst þó lítið hafa séð af átökunum við ákærða.  U dyravörður segir ákærðu hafa verið í átökum við tvo lögreglumenn og að annar lögreglumannanna hafi verið blóðugur í andliti.  Hann kveðst aftur á móti halda að það hafi verið sá sem hafði verið að kljást við Daníel.  Önnur vitni hafa ekki borið um þetta sakarefni.

Ákærði hefur ekki gefið viðhlítandi skýringu á breyttum framburði sínum og verður að byggja á játningu hans í málinu hjá lögreglu.  C segir ákærða hafa slegið til sín og á sama veg ber L.  Er á það að líta að ákærði játaði hjá lögreglu að hafa baðað frá sér höndunum og telst ákærði vera sannur að því að hafa reynt að slá lögreglumanninn, þótt engu verði slegið föstu um það hvort högginu var beint að andliti hans.  Játningu ákærða um það, að hann hafi veist að lögreglumanninum, tekið um höfuð hans og háls og reynt að fella hann, ber saman við frásögn lögreglumannsins og að nokkru leyti L um þetta atriði og er ennfremur í samræmi við frásögn R.  Telst vera sannað að ákærði hafi tekið lögreglumanninn tökum og fellt hann.  Loks hefur C sagt ákærða hafa slegið höfði hans við gangstéttina þegar þeir féllu svo að sprakk fyrir á augabrún.  Þessu hefur ákærði neitað en þessi frásögn lögreglumannsins hefur stuðning af læknisvottorðinu í málinu og framburði L.  Verður að telja sannað að ákærði hafi gert þetta á hlut lögreglumannsins.  Hefur ákærði með þeirri háttsemi, sem sannast hefur á hann, brotið gegn 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga.

Viðurlög og sakarkostnaður

Ákærði Grímur var á árunum 1999 og 2000 sektaður þrisvar sinnum fyrir umferðarlagabrot, þar af einu sinni fyrir ölvun við akstur, og árið 2001 hlaut hann 30 daga fangelsi fyrir slíkt brot.  Árið eftir hlaut hann fjögurra mánaða fangelsi fyrir umferðarlaga- og þjófnaðarbrot og voru tveir mánuðir skilorðsbundnir.  Loks var hann árið 2006 dæmdur í 45 daga skilorðsbundið fangelsi fyrir þjófnað.  Hann hefur rofið skilorð þess dóms og ber að dæma hann upp og gera ákærða refsingu í einu lagi.  Þykir hún hæfilega ákveðin fangelsi í átta mánuði. 

Ákærði Daníel Rafn hlaut ákærufrestun fyrir skjalafals árið 1999 og árið 2003 var hann sektaður fyrir ölvun við akstur.  Refsing hans þykir hæfilega ákveðin fangelsi í fjóra mánuði. 

Svipta ber ákærða Grím ökurétti í 18 mánuði frá dómsbirtingu að telja.

Dæma ber ákærða Grím til þess að greiða verjanda sínum, Jóni E. Jakobssyni hrl., 300.000 krónur í málsvarnarlaun og 31.750 krónur vegna útlagðs kostnaðar.  Þá ber að dæma ákærða Daníel Rafn til þess að greiða verjanda sínum, Hilmari Ingimundarsyni hrl., 200.000 krónur í málsvarnarlaun og 27.000 krónur vegna útlagðs kostnaðar.  Málsvarnarlaunin dæmast með virðisaukaskatti. 

Í málinu eru gögn varðandi það að ákærðu voru látnir sæta blóðrannsókn vegna atviksins við Kaffi Amor.  Ekki verður séð að málið hafi gefið tilefni til slíkrar rannsóknar og verða ákærðu því ekki dæmdir til þess að greiða kostnað af henni.  Samkvæmt því ber að dæma ákærðu til þess að greiða óskipt 203.765 krónur í annan sakarkostnað.  Loks ber að dæma ákærða Grím einan til þess að greiða 51.574 krónur í annan sakarkostnað. 

Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp dóminn.

DÓMSORÐ:

Ákærði, Grímur Rúnarsson, sæti fangelsi í átta mánuði. 

Ákærði, Daníel Rafn Guðmundsson, sæti fangelsi í fjóra mánuði. 

Ákærði Grímur er sviptur ökurétti í 18 mánuði frá dómsbirtingu að telja.

Ákærði Grímur greiði verjanda sínum, Jóni E. Jakobssyni hrl., 300.000 krónur í málsvarnarlaun og 31.750 krónur vegna útlagðs kostnaðar. 

Ákærði Daníel Rafn greiði verjanda sínum, Hilmari Ingimundarsyni hrl., 200.000 krónur í málsvarnarlaun og 27.000 krónur vegna útlagðs kostnaðar. 

Ákærðu greiði óskipt 203.765 krónur í annan sakarkostnað og ákærði Grímur einn 51.574 krónur.