Hæstiréttur íslands
Mál nr. 545/2007
Lykilorð
- Kynferðisbrot
- Tilraun
- Skilorð
- Miskabætur
|
|
Fimmtudaginn 22. maí 2008. |
|
Nr. 545/2007. |
Ákæruvaldið(Ragnheiður Harðardóttir, vararíkissaksóknari) gegn Sturlu Sigurgeirssyni (Sveinn Andri Sveinsson hrl. Einar Þór Sverrisson hdl.) (Ása Ólafsdóttir hrl., réttargæslumaður)
|
Kynferðisbrot. Tilraun. Skilorð. Miskabætur.
S var í héraði talinn hafa gerst sekur um brot gegn 196. gr., nú 2. mgr. 194. gr., sbr. 20. gr., almennra hegningarlaga með því að hafa nýtt sér svefndrunga og ölvunarástand X og reynt að hafa við hana kynferðismök. Sú niðurstaða var staðfest fyrir Hæstarétti. Við ákvörðun refsingar S var m.a. litið til þess að brot hans beindist gegn persónu- og kynfrelsi konu sem hann vissi að hafði átt við erfiðan geðsjúkdóm að stríða og þess að brotið hefði haft verulegar andlegar afleiðingar fyrir hana. Þótti refsing S hæfilega ákveðin fangelsi í tólf mánuði en þar af voru níu mánuðir skilorðsbundnir með hliðsjón af verulegum drætti sem varð á rannsókn málsins og því að S hafði ekki áður gerst sekur um refsiverða háttsemi. Þá þótti S með háttsemi sinni hafa bakað sér skyldu til greiðslu miskabóta til X sem þóttu hæfilega ákveðnar 500.000 krónur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Markús Sigurbjörnsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 27. september 2007 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvaldsins, sem krefst staðfestingar á sakfellingu ákærða, að refsing verði þyngd og hann dæmdur til að greiða X 1.000.000 krónur með vöxtum eins og í ákæru greinir.
Ákærði krefst aðallega sýknu, en til vara að refsing verði milduð.
Fallist er á með héraðsdómi að sannað sé að ákærði hafi notfært sér svefndrunga og ölvun X til þess að reyna að hafa við hana kynferðismök. Brot hans er réttilega heimfært til refsiákvæða í hinum áfrýjaða dómi og er refsing hans jafnframt hæfilega ákveðin þar. Að teknu tilliti til þess verulega dráttar, sem varð á rannsókn málsins, svo og að ákærði hefur ekki áður gerst sekur um refsiverða háttsemi, er rétt að binda hluta refsingarinnar skilorði eins og nánar greinir í dómsorði.
Ákvæði héraðsdóms um bætur og sakarkostnað skulu vera óröskuð.
Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara um sakarkostnað og ákvörðun Hæstaréttar um málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans og þóknun réttargæslumanns brotaþola, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti, eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, Sturla Sigurgeirsson, sæti fangelsi í 12 mánuði. Fresta skal fullnustu níu mánaða af refsingunni og sá hluti hennar falla niður að liðnum tveimur árum frá uppsögu þessa dóms haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Héraðsdómur skal að öðru leyti vera óraskaður.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 614.428 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 435.750 krónur, og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Ásu Ólafsdóttur hæstaréttarlögmanns, 124.500 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 20. júní 2007.
Mál þetta, sem dómtekið var 30. maí sl., er höfðað með ákæru útgefinni af ríkissaksóknara 22. febrúar 2007 á hendur Sturlu Sigurgeirssyni, kennitala [...],[...], Reykjavík, fyrir kynferðisbrot gegn X, kennitala [...], framin í Reykjavík, með því að hafa:
1) Síðla árs 2003, á heimili X að [...], reynt að setja getnaðarlim sinn í kynfæri hennar þar sem hún svaf í rúmi sínu og þannig notfært sér að hún gat ekki spornað við verknaðinum.
2) Að morgni fimmtudagsins 3. nóvember 2005, á heimili X að [...], reynt að setja getnaðarlim sinn í kynfæri hennar þar sem hún svaf í rúmi sínu, haldið henni fastri er hún vaknaði við þetta og þröngvað eða reynt að þröngva henni með ofbeldi til samræðis.
Er brot ákærða samkvæmt 1. lið talið varða við 196. gr., sbr. 20. gr., almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 40/1992, en samkvæmt 2. ákærulið aðallega við 194. gr. almennra hegningarlaga, en til vara við sömu lagagrein sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.
Af hálfu X er krafist miskabóta að fjárhæð 1.000.000 króna auk vaxta samkvæmt 8. gr., sbr. 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 3. nóvember 2005 til þess dags er mánuður var liðinn frá því að bótakrafa var birt ákærða, en með dráttarvöxtum frá þeim degi samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga, til greiðsludags.
Ákærði krefst þess að hann verði sýknaður af ákæru. Komi hins vegar til sakfellingar sé heimfærslu til 194. gr. almennra hegningarlaga andmælt og þess krafist að hann verði þá dæmdur til vægustu refsingar sem lög leyfi og að hún verði þá bundin skilorði. Þá verði bótakröfu í ákæru vísað frá dómi en hún annars lækkuð verulega. Loks verði allur sakarkostnaður felldur á ríkissjóð, þar með talin hæfileg málsvarnar- og réttargæsluþóknun til handa verjanda.
Málsatvik.
Samkvæmt frumskýrslu barst lögreglu tilkynning kl. 08.19, fimmtudaginn 3. nóvember 2005, um að nauðgun hefði átt sér stað í íbúð að [...], Reykjavík. Er lögreglumenn komu á vettvang kl. 08.35 hafi A, sem tilkynnt hafi um atvikið, tekið þar á móti þeim. Í íbúðinni hafi einnig verið X og hafi henni augljóslega verið mikið niðri fyrir. Hafi hún verið klædd hvítum bol og hvítum nærbuxum. Hafi A tjáð lögreglu að hann hafi verið gestkomandi hjá X um nóttina, ásamt ákærða, og hafi þau öll setið þar við drykkju. Kvaðst A hafa sofnað ölvunarsvefni í sófanum og er hann vaknaði hafi hann séð hvar X var að henda ákærða út úr íbúðinni. Hefði hún þá sagt honum að ákærði hefði nauðgað henni. Kemur og fram í frumskýrslunni að lögreglumenn hafi í framhaldi flutt X, í fylgd A, á neyðarmóttöku Landspítala-háskólasjúkrahúss til skoðunar. Jafnframt hafi lögreglumenn farið að heimili ákærða að [...] og handtekið hann þar. Hafi hann verið fluttur á lögreglustöð þar sem framkvæmd hafi verið á honum réttarlæknisfræðileg skoðun. Þá hóf lögregla rannsókn á meintum brotavettvangi.
Er lögreglan hafði tal af X á neyðarmóttökunni kvaðst hún hafa orðið fyrir nauðgun af hendi ákærða. Hafi þau tvö, ásamt A, verið að skemmta sér kvöldið áður. Er liðið hafi á kvöldið hafi ákærði farið heim til sín en A sofnað ölvunarsvefni í sófa í íbúð X. Kvaðst X hafa verið búin að klæða sig í náttkjól og í þann mund að fara að sofa er ákærði hafi komið inn í íbúðina og nauðgað henni. Kvaðst X vilja kæra atburðinn. Kemur fram í lögregluskýrslunni að X hafi verið í miklu uppnámi en jafnframt virst undir annarlegum áhrifum. Hafi hún þjáðst af geðsjúkdómum og hafi verið á sterkum lyfjum vegna þeirra.
Miðvikudaginn 9. nóvember 2005 óskaði X eftir að leggja fram kæru á hendur ákærða fyrir að hafa nauðgað henni umrædda nótt. Kemur fram í lögregluskýrslu sem tekin var þá af henni að ákærði hefði farið heim til sín um miðnættið eftir að hafa verið, ásamt henni og A, við drykkju á heimili hennar um kvöldið. Hafi A lagst til svefns í sófa í íbúðinni en hún sjálf hafi lagst til svefns í rúmi sínu, sem sé í sama rými og sófinn. Hafi hún svo vaknað við það, einhvern tímann um morguninn, að ákærði barði að dyrum. Kvaðst hún ekki viss hvort hún eða A hafi opnað fyrir honum en hann hafi í það minnsta komist inn í íbúðina. Einhvern tímann í framhaldi kvaðst X hafa vaknað upp við að ákærði hafi verið búinn að klæða hana úr nærbuxunum og hafi verið að reyna að hafa við hana mök með því að reyna að koma lim sínum inn í leggöng hennar. Hafi ákærði haldið höndum hennar niðri og við það hafi ól á úri hennar slitnað. Hún hafi þó barist á móti honum, náð að koma honum ofan af sér og hrekja hann út úr íbúðinni með barsmíðum. Hafi þetta staðið mjög stutt yfir og hafi hún ekki náð að kalla á hjálp, enda hafi hún verið að berjast við ákærða til að hann færi af henni. Hann hafi hins vegar á meðan á þessu stóð sagt eitthvað á þá leið: „Slappað af X.“ A hafi fyrst vaknað þegar hún hafi verið búin að hrekja ákærða út og hafi hann hringt á lögreglu stuttu síðar. Kvaðst X telja að ákærði hefði ekki verið með smokk og að hann hefði ekki haft sáðlát við þessar aðfarir.
Eftir að hafa skýrt frá ofangreindu kvaðst X einnig vilja kæra ákærða fyrir annað atvik sem gerst hefði síðla árs 2003, en þá hafi hún búið í íbúð að [...], við hliðina á íbúð ákærða. Kvaðst X í umrætt sinn hafa verið að skemmta sér, ásamt ákærða og fleira fólki, og sofnað í framhaldi ölvunarsvefni uppi í rúmi sínu í öllum fötunum. Hafi hún þá vaknað við það að ákærði hafi verið búinn að klæða hana úr að neðan, úr buxum og nærbuxum, en hann hafi sjálfur verið búinn að klæða sig úr öllum fötum. Hafi hann þá verið að reyna að troða lim sínum inn í leggöng hennar. Hafi hún náð að komast frá honum og reka hann út. Kvaðst hún hvorki hafa sagt frá þessu atviki né leitað sér aðstoðar vegna þess hjá læknum eða öðru fagfólki. Hún hafi hins vegar í kjölfar þess verið lögð inn á geðdeild, en hún hafi verið þunglyndis- og kvíðasjúklingur frá árinu 1990. Eigi hún til að missa minnið ef hún reiðist mikið og þar af leiðandi sé minni hennar af þessum atvikum ekki fullkomið.
Er tekin var lögregluskýrsla af ákærða að viðstöddum verjanda, strax eftir handtöku hans að morgni fimmtudagsins 3. nóvember, kannaðist hann við að hafa verið við drykkju ásamt X og A í íbúð X nóttina á undan. Kvaðst hann þó lítið muna eftir atburðum næturinnar enda lendi hann í því að muna ekki eftir atvikum þegar hann drekki, eða fá svokallað „blackout“. Kvaðst hann ekki muna eftir að hafa haft mök við X þá um nóttina. Hins vegar hafi hann haft mök við hana áður eða um hálfu ári fyrr.
Tekin var aftur lögregluskýrsla af ákærða, miðvikudaginn 28. júní 2006, en þá hafði X sett fram kæru á hendur honum eins og að framan greinir. Er í upphafi lögregluskýrslu þessarar tekið fram að ákærða hafi verið kynntur réttur hans til að njóta aðstoðar verjanda en hann hafi ekki viljað nýta sér þann rétt að svo stöddu. Er í lögregluskýrslu þessari haft eftir ákærða að hann teldi sig muna betur eftir atvikum en áður. Er og haft eftir honum að einhvern tímann umrædda nótt hafi þau X og A sofnað. Síðan segir : „Ég veit ekki hvort að það fóru að koma hjá mér hugsanir um að sofa hjá X, en það gæti verið að ég þjáist af kynlífsfíkn og klámfíkn. Síðan er það næsta sem ég veit er að ég er farinn að eiga við X þar sem hún lá sofandi í rúminu en hún vaknaði við það og varð skiljanlega mjög reið og henti mér út og vakti við það A. Ég veit ekki hvað ég fór langt en ég man eftir því að hafa verið farinn að káfa á X en síðan fór ég í svokallað „blackout“ þannig að ég man ekkert frekar af því sem gerðist en það gerist stundum fyrir mig. Það næsta sem ég man er það að X var að henda mér út. Ég veit hreinlega ekki hvort ég náði að hafa mök við hana en A sagði mér síðar að hún hafi verið með áverka í klofinu.“ Þá er haft eftir ákærða að sú frásögn sé „hárrétt“ sem höfð er eftir A í lögregluskýrslu, sem tekin var af honum 9. nóvember 2005, að X hafi komið til hans, eftir að hafa hent ákærða út úr íbúðinni, og sagt honum að ákærði hefði nauðgað sér.
Þá er eftirfarandi haft eftir ákærða varðandi atvikið sem lýst er í ákærulið 1: „Síðan vil get ég sagt að svona gæti hafa gerst áður þar sem ég vaknaði einu sinni við hliðina á X, uppi í rúmi og þá sá ég að X var í rusli, leið illa. Ég spurði hana hvað væri að en þá sagði hún að ég hefði gert eitthvað svipað, s.s. að ég hefði nauðgað sér og barið sig. Ég mundi ekkert eftir því og geri ekki enn og það sá ekkert á henni. Ég veit ekki hvort það gerðist eða ekki. Ég lét hana hafa tíu þúsund krónur og síðar fjögur þúsund krónur vegna þessa, sem einskonar skaðabætur.“
Í málinu liggur frammi skýrsla um réttarlæknisfræðilega skoðun á X, sem framkvæmd var á neyðarmóttöku slysadeildar Landspítala-háskólasjúkrahúss 3. nóvember 2005 kl. 12.30. Haft er þar eftir henni að ákærði hafi tekið hana og ýtt henni ofan í sófa, dregið hana úr nærbuxunum og nauðgað henni í gegnum leggöng. Hún hafi reynt að streitast á móti. Hafi hún verið óviss um hvort hann fékk sáðlát en þegar hann hafi staðið upp hafi hún hent honum út. Kemur og fram að ákærði hafi haldið handleggjum hennar. Um ástand hennar við skoðun segir að hún hafi verið ölvuð og þreytuleg og að hún hafi verið reið út í ákærða. Um tilfinningalegt ástand hennar er merkt við að hún hafi verið fjarræn, eirðarlaus og óttaslegin. Þá er merkt við að kreppuviðbrögð hafi einkennst af skjálfta og hrolli. Í niðurstöðum læknis segir að X hafi verið úrvinda af þreytu vegna áfengisneyslu og svefnleysis. Við skoðun hafi ekki sést nein merki um ofbeldi á líkama hennar nema að við leggangaopið sé afrifa í slímhúðinni sem gæti hafa orsakast við nýlegar samfarir.
Tekið var blóðsýni úr X er hún var skoðuð á neyðarmóttöku og var það rannsakað hjá lyfjafræðistofnun. Í matsgerð, sem dagsett er 29. maí 2007, kemur fram að alkóhól í blóði hafi verið 2,11.
Í skýrslu tæknideildar lögreglunnar í Reykjavík 29. nóvember 2005 kemur fram að engin lífsýni sem nothæf geti talist til DNA-kennslagreiningar hafi fundist við rannsókn á sængurfatnaði, fötum og öðrum munum. Þá liggur fyrir matsgerð lyfjafræðistofnunar, dags. 29. maí 2007, þar sem fram kemur að alkóhól í blóði hans hafi mælst 2,01.
Skýrslur fyrir dómi.
Ákærði neitar sakargiftum samkvæmt báðum liðum ákæru. Skýrði ákærði svo frá að hann væri öryrki vegna geðsjúkdóms en hann hefði verið greindur með geðhvörf sem haldið væri í skefjum með inntöku lyfja. Þá hafi hann átt við áfengissýki að stríða og væri drykkja hans það mikil að þeir dagar væru færri sem hann drykki ekki en þeir sem hann drykki. Kvaðst ákærði telja að góður kunningsskapur hafi verið á milli hans og X, en íbúðir þeirra hafi verið samliggjandi er þau bjuggu bæði að [...]. Hafi hann flutt inn í íbúð sína á árinu 2001 en hún hafi flutt inn nokkru seinna. Aðspurður um sakargiftir í ákærulið 1 kvað ákærði þær vera rangar. Hann kvaðst hins vegar kannast við að hafa átt kynferðislegt samneyti við X en það hafi verið með samþykki beggja. Hefði þá allt bent til þess að þau hefðu haft samfarir enda kvaðst hann hafa vaknað við hliðina á henni eftir „blackout“. Hafi hún þá verið klædd bol en hann verið allsnakinn. Hafi hún ekki gert neinar athugasemdir við hann vegna þessa í það skiptið. Hann sagðist ekki vera viss um hvenær þetta var en það gæti hafa verið á árinu 2003. Þá sagði ákærði að rétt væri eftir sér haft í skýrslu, sem tekin var af honum hjá lögreglu 30. júní 2006, að einhverju sinni hafi hann vaknað upp við hliðina á X og hún hafi þá sagt hann hafa meðal annars nauðgað sér og barið sig. Hann kvaðst hins vegar ekki minnast þess sjálfur að þetta hefði gerst þannig í raun. Þá kannaðist hann við að hafa látið hana tvívegis fá peninga, tíu og fjögur þúsund krónur, til þess að greiða skuldir. Hafi það eingöngu verið gert í greiðaskyni, eins og fleiri dæmi væru um á milli þeirra, en ekki beint hugsað sem skaðabætur. Ákærði var spurður hvort verið gæti að umrætt atvik hefði átt sér stað í byrjun febrúarmánaðar 2004, þar sem haft væri eftir X í vottorði Gísla Á. Þorsteinssonar geðlæknis, að hún hefði orðið fyrir líkamsárás og tilraun til nauðgunar í byrjun febrúar 2004, skömmu áður en hún var lögð þar inn á bráðadeild. Svaraði ákærði þá þannig að hann myndi eftir að X hefði verið lögð inn stuttu eftir að hún hefði „sagt honum frá þessu“ en þá hafi hann ekkert endilega búist við að hún vildi tala við hann meir.
Varðandi 2. lið ákærunnar skýrði ákærði svo frá að um miðnætti aðfaranætur fimmtudagsins 3. nóvember 2005 hafi hann verið staddur heima hjá sér er hann heyrði símleiðis í A. Hafi það svo einhvern veginn þróast þannig að hann fór til þeirra X þar sem þau hafi verið við bjórdrykkju á heimili hennar. Hafi þau setið þar öll við drykkju en hann teldi þó að hann hefði í tvígang skroppið út um nóttina. Í fyrra skiptið til að kaupa sígarettur í 10-11 en í síðara skiptið til að redda meira áfengi. Undir morgun hafi þau X og A sofnað, hann í sófanum en hún í rúmi sínu, en sjálfur kvaðst ákærði hafa haldið drykkjunni eitthvað áfram. Dvöl hans í íbúðinni umrædda nótt hafi svo endað með því að X hafi beðið hann að fara vegna ágreinings milli þeirrar. Spurður hvort hann hafi haft einhver kynferðisleg afskipti af X þar sem hún lá í rúmi sínu umrætt sinn sagði ákærði að hann myndi þetta ógreinilega en hann myndi þó að hann „hefði eitthvað verið utan í henni“ en hann myndi það þó ekki nákvæmlega. Spurður nánar með hvaða hætti það hefði verið kvaðst ákærði kjósa að neita að svara þeirri spurningu. Ákærði var þá spurður hvort rétt væri haft eftir honum í framangreindri lögregluskýrslu þar sem segi: „Ég veit ekki hvort að það fóru að koma hjá mér hugsanir um að sofa hjá X, en það gæti verið að ég þjáist af kynlífsfíkn og klámfíkn. Síðan er það næsta sem ég veit er að ég er farinn að eiga við X þar sem hún lá sofandi í rúminu en hún vaknaði við það og varð skiljanlega mjög reið og vakti við það A.“ Kvað hann þetta rétt eftir sér haft og að þetta hefði atvikast með þessum hætti en hann kvaðst þó ekki tilbúinn að lýsa því frekar með hvaða hætti hann hefði verið farinn að „eiga við X“. Ákærði var og spurður hvort eftirfarandi umsögn í sömu lögregluskýrslu væri rétt eftir honum höfð: „Ég veit ekki hvað ég fór langt en ég man eftir að hafa verið farinn að káfa á X en síðan fór ég í svokallað „blackout“ þannig að ég man ekkert frekar af því sem gerðist en það gerist stundum fyrir mig. Ég veit hreinlega ekki hvort að ég náði að hafa mök við hana en A sagði mér síðar að hún hafi verið með áverka í klofinu.“ Svaraði ákærði því til að hann væri ekkert viss um að þetta væri rétt eftir sér haft. Gerð skýrslunnar hefði tekið langan tíma auk þess sem komið hefði í ljós að málinu væri ekki lokið með þessari skýrslutöku. Hann hefði því verið orðinn óþolinmóður og verið tregur til að undirrita skýrsluna auk þess sem hann hafi ekki haft næga einbeitingu til að geta almennilega lesið hana yfir. Lögreglumaðurinn hafi svo lesið hér og þar úr skýrslunni. Hefði einhverju verið breytt en síðan kvaðst ákærði hafa viljað losna frá þessu og komast burt. Rétt væri að hann fái oft svokallað „blackout“ en hins vegar væri orðalagið: „Ég veit hreinlega ekki hvort ég náði að hafa við hana mök“ ekki rétt því það benti til þess að hann hefði verið ákveðinn í að reyna að hafa mök við X en hann minntist þess ekki að þessu hafi verið svo farið. Sérstaklega spurður um rispur sem greinst höfðu á bringu hans við læknisskoðun, eftir að hann var handtekinn, sagðist ákærði telja að þær væru af hans eigin völdum.
Ákærði kvaðst hafa verið allsgáður er hann gaf framangreinda lögregluskýrslu 30. júní 2006. Hins vegar hefði verjandi hans ekki verið viðstaddur skýrslutökuna þar sem lögreglumaðurinn sem tók hana hefði blekkt sig. Lögreglumaðurinn hefði sagt að hann þyrfti eingöngu að gera þessa skýrslu til að ljúka þessu máli en að það færi ekkert fyrir dóm. Ákærði taldi sig hafa vitað að hann ætti rétt á aðstoð verjanda og að hann þyrfti ekki að tjá sig án aðstoðar hans. Hafi ákvörðun hans um að afþakka aðstoð verjanda við skýrslutökuna helgast af þessari yfirlýsingu lögreglumannsins. Ákærði sagði að tengsl þeirra X hefðu haldist óbreytt allt fram að atvikinu sem ákæruliður 2 lýtur að. Eftir það atvik hafi þau talað saman símleiðis í nokkur skipti og einu sinni hafi hann bankað hjá henni og hún þá hleypt honum inn. Spurður út í umsögn í læknisvottorði Kristófers Þorleifssonar, um að ákærði hefði tjáð honum í viðtali 29. nóvember 2006 að hann hefði farið inn í íbúð X, háttað hana úr og átt við hana mök, kvaðst ákærði ekki kannast við að hafa sagt þetta við lækninn og að hann skilji ekki hvaðan læknirinn hafi þetta. Sagðist ákærði hafa sagt lækninum nákvæmlega það sama og hann sagði í skýrslutökunni hjá lögreglu.
X kvað þau ákærða hafa búið á sama stigagangi fjölbýlishúss og verið kunningjar. Aðspurð um kæruefni samkvæmt ákærulið 1 sagði X að umrætt sinn hefði hún orðið vör við það þegar hún vaknaði að hún væri ekki í neinu að neðan. Hafi þetta verið á árinu 2003, líklega í febrúar, en hún hafi þá verið nýflutt í húsið. Er hún var spurð hvort þetta gæti hafa verið síðar á árinu 2003 kvaðst hún ekki muna það. Sagði hún að þegar hún vaknaði hefði ákærði verið inni í íbúðinni en íbúðin sé aðeins eitt herbergi. Hún kvaðst þó ekki muna nákvæmlega hvar hann var en hann hafi allavega ekki verið uppi í rúmi hennar. Líklega hafi hann setið einhvers staðar í herberginu. Hafi hann verið alklæddur, í skyrtu og buxum. Hafi þau verið við drykkju í íbúðinni um nóttina ásamt A og konu sem kölluð sé B, en þau tvö síðastnefndu hafi verið farin úr íbúðinni er vitnið fór að sofa. Hafi mikið verið drukkið umrætt kvöld. Kvaðst vitninu ekkert hafa litist á sjálfa sig þegar hún vaknaði því hún hafi verið komin í mikið kvíðakast og rugl. Aðspurð nánar um þetta sagðist vitnið á þessum tíma hafa verið mjög illa haldin vegna geðsjúkdóma sem hrjái hana. Þá hafi hún neytt töluverðs áfengis á umræddu tímabili og eigi til að fá svokallað „blackout“. Hafi hún verið greind með þunglyndi og ofsakvíða og hafi þetta versnað mjög síðan árið 1996. Hún kvað samgang hafa verið áfram á milli þeirra ákærða eftir umræddan atburð en hún kannaðist ekki við að hafa haft lykil að íbúð hans eins og ákærði hefur borið. Spurð hvort þau ákærði hefðu haft kynmök á þessu tímabili kannaðist hún ekki við það.
Vitnið var spurt hvort eftirfarandi umsögn í lögregluskýrslu, sem hún gaf 9. nóvember 2005, væri rétt eftir henni höfð: „X kveðst síðan hafa vaknað við það að Sturla var búin að klæða sig úr að neðan, buxum og nærbuxum, en hann sjálfur hafi verið búinn að klæða sig úr öllum fötum, og hafi X vaknað við það að hann hafi verið að reyna að troða lim sínum inn í leggöng hennar.“ Svaraði vitnið þá „Þetta var alla vega góð tilraun“. Ítrekað aðspurð um þetta sagði X fyrst að þetta væri rétt eftir sér haft en bætti því við að alla vega hefði hann verið að reyna að fá hana í rúmið. Hún hefði síðan sofnað og ákærði mætti ekki sjá sofandi kvenmann án þess að afklæða hann. Alla vega hefði hann afklætt hana. Vitnið tók og fram að minni hennar væri ekki gott vegna geðrænna veikinda sinna og ætti hún til að missa minnið ef hún reiddist mjög mikið. Þá hefði hún og verið mjög spennt á taugum, meðal annars vegna þessa máls. Er hún var spurð hvort verið gæti að umræddur atburður hefði gerst stuttu áður en hún var lögð inn á bráðamóttöku geðdeildarinnar eða í byrjun febrúar 2004, eins og haft er eftir henni í læknisvottorði Gísla Á. Þorsteinssonar geðlæknis, svaraði hún að það gæti verið.
Aðspurð um kæruatriði samkvæmt 2. ákærulið sagði vitnið að þau A og ákærði hefðu verið við drykkju umrætt kvöld og hefði því lokið þannig að ákærði yfirgaf íbúðina en A fékk að gista á sófa í herberginu. Sjálf kvaðst hún hafa háttað sig ofan í rúm og sofnað. Undir morgun kvaðst hún hafa orðið vör við að ákærði kæmi aftur inn í íbúðina. Hafi hún stuttu síðar, líklega milli kl. fimm og sex, vaknað við það að ákærði var ofan á henni og hélt henni. Kvaðst hún þá hafa verið í náttkjólnum og í nærbuxum innan undir. Ákærði hafi hins vegar verið í gallabuxum og skyrtu sem hafi verið hneppt frá honum. Hafi ákærði verið að reyna að færa hana úr nærbuxunum. Kvaðst vitnið hafa reiðst þá mjög og náð að koma honum ofan af sér og síðan út úr íbúðinni. Hafi þetta allt gerst mjög snöggt og gæti hún ekki munað hvort ákærða hafi tekist að koma henni úr buxunum. Hann hefði hins vegar reynt að halda höndunum á henni. Hann hafi þó hvorki hótað henni né beitt hana öðru ofbeldi. Ekki minntist hún þess að hafa klórað ákærða í þessum átökum né kallað á hjálp. Þá hafi ólin á úri hennar farið í sundur í átökunum því hún hafi eftir á tekið eftir að úrið lá í rúminu með sundurslitna ól. Eftir að ákærði var farinn út kvaðst vitnið hafa fengið sér einn eða tvo bjóra og reynt að jafna sig. Hafi hún sagt A frá því sem gerst hefði en hann hefði vaknað þegar hún var að reka ákærða út. Hafi hann fljótlega kallað til lögreglu en vitnið kvaðst ekki hafa viljað tilkynna atburðinn til lögreglu. Hafi það því verið ákvörðun A að kalla hana til. Þegar vitnið var spurt út í þann framburð sinn hjá lögreglu, að hún hefði í greint sinn vaknað við að ákærði var búinn að klæða hana úr nærbuxunum og verið að reyna að hafa við hana mök með því að koma limi sínum inn í leggöng hennar, kvaðst hún ekki muna þetta í smáatriðum. Hún kvaðst hins vegar kannast við að hafa lýst þessu svo hjá lögreglu. Hún gæti hins vegar ekki munað þetta vel. Er hún var spurð hvort hún teldi sig hafa munað þetta betur þegar hún gaf skýrslu sína hjá lögreglu sex dögum eftir meintan atburð játaði hún því hikandi. Spurð hvort hún teldi að þau geðlyf sem hún tæki nú hefðu einhver áhrif á minni hennar við skýrslugjöf hennar fyrir dóminum taldi vitnið svo ekki vera. Þá var vitnið innt eftir hvort hún kannaðist við þá frásögn sem lögreglumaður hafði eftir henni á neyðarmóttökunni að ákærði hefði komist inn í íbúðina þegar hún var að búa sig undir að fara að sofa og nauðgað henni. Kvaðst hún þá ekki muna sérstaklega eftir þessu samtali við lögreglumanninn. Ekki kvaðst hún heldur neitt geta tjáð sig um þá umsögn sem Jóhanna Jónasdóttir læknir skráði eftir henni á neyðarmóttökunni, að ákærði hefði ýtt henni ofan í sófann, dregið hana úr nærbuxunum og nauðgað henni gegnum leggöng. Vitnið kvaðst aldrei hafa haft nein kynferðisleg samskipti við ákærða af fúsum og frjálsum vilja.
Þorsteinn Þór Guðmundsson lögreglumaður kvaðst hafa komið á vettvang 3. nóvember 2005. Hann mundi ekkert eftir atvikum en staðfesti frumskýrslu sem hann gerði um málið.
Þórir Ingvarsson lögreglumaður kvaðst hafa rætt við X á neyðarmóttökunni. Kvaðst hann hafa handskrifað eftir henni á staðnum umsögn hennar en síðan hafi hann unnið úr því þá formlegu skýrslu sem fyrir liggi í málinu. Hafi hún í samtalinu meðal annars skýrt honum frá því að hún hefði orðið fyrir kynferðisofbeldi af hendi tilgreinds manns. Ástand hennar hafi verið fremur dapurt. Hún hafi verið eitthvað ölvuð og hafi hún átt erfitt með að segja frá því sem gerðist. Spurður út í skýrslu sem hann tók af ákærða 30. júní 2006 og ástæðu þess að verjandi ákærða hafi þá ekki verið viðstaddur sagði hann að illa hefði gengið að finna tíma sem hentaði bæði verjanda og ákærða. Þegar þetta hefði borist í tal við ákærða við boðun hans hefði ákærði óskað eindregið eftir að fá að gefa skýrsluna enda þótt verjandinn yrði þá ekki viðstaddur. Kvaðst vitnið ekki hafa talið ástæðu til að meina honum það. Kvaðst hann ekki muna annað en að ástand ákærða hefði verið ágætt við yfirheyrsluna og ekki annað að sjá en að hann væri vel hæfur til að gefa skýrslu. Þá sagði hann fráleitt að hann hefði sagt ákærða að mál þetta yrði fellt niður að lokinn skýrslutöku yfir honum. Er Þórir var spurður um mismunandi notkun hans á gæsalöppum í skýrslum sem hann tók af ákærða sagðist hann nota gæsalappir í þeim tilvikum þegar hann hefur framburðinn mjög nákvæmlega eftir skýrslugjafa og geri hann sér þá far um að nota sem mest orðalag viðkomandi.
Sigurður Sigurbjörnsson lögreglumaður, sem ritaði undir sem vottur við lögregluskýrslu sem tekin var af ákærða 30. júní 2006, kvaðst ekki minnast annars en að ákærði hefði þá verið allsgáður. Sagðist hann eingöngu hafa verið viðstaddur er ákærði las skýrslu sína yfir, staðfesti hana og undirritaði.
A kvaðst hafa verið staddur aðfaranótt 3. nóvember 2005 í íbúð X og verið þar við drykkju ásamt ákærða og henni. Kvaðst hann ekki hafa orðið var við að þau hefðu neitt verið að draga sig saman umrætt sinn. Hins vegar vissi hann til þess að góður vinskapur hefði verið á milli þeirra. Sjálfur kvaðst hann hafa þekkt X um langt skeið en ekkert kynferðislegt samband hefði verið á milli sín og hennar. Á sama hátt hefði hann þekkt ákærða vel og engin óvild hefði verið á milli þeirra. Hafi þau öll verið orðin mjög ölvuð og kvaðst A loks hafa lagst til svefns og sofnað áfengisdauða í sófanum í íbúðinni. Kvaðst hann telja að ákærði hefði þá setið á móti honum en sagðist ekki muna hvar X var þá. Hafi hann svo vaknað við mikinn hávaða sem stafaði af því að X hafi þá verið að henda ákærða út úr íbúðinni. Hafi ákærði verið kominn út úr íbúðinni þegar hann vaknaði. X, sem klædd hafi verið í ljósan náttslopp, hafi þá sagt honum að ákærði hefði nauðgað sér án þess að lýsa því nokkuð nánar. Hann kvaðst hins vegar hafa spurt hana hvort hún vildi ekki leita til lögreglunnar en hún hafi þá neitað því. Honum hafi hins vegar sýnst andlegt ástand X það slæmt að honum hafi ekki litist á blikuna. Hafi hún virst sem ein taugahrúga. Hafi henni verið mikið niðri fyrir og hún hafi grátið. Kvaðst hann því hafa metið stöðuna þannig að eitthvað alvarlegt hefði gerst. Hafi hann því ákveðið að hafa sjálfur samband við lögreglu og óska eftir athugun hennar á málinu. Hafi hann gert það strax og telji hann að lögreglan hafi komið á staðinn fimmtán til tuttugu mínútum síðar.
Jóhanna Jónasdóttir læknir staðfesti að hún hefði skoðað X á neyðarmóttökunni og gert þá skýrslu sem þar var unnin vegna skoðunarinnar. Kvaðst hún hafa reynt að skrá niður frásögn hennar af atburðinum eins nákvæmlega og unnt var. Hafi X meðal annars virst kvíðin, hrædd og ósofin. Fersk afrifa utan við leggangaop gæti gefið vísbendingu um nýlegar samfarir en þyrfti ekki að gera það. Slíkar afrifur grói yfirleitt á tveimur til þremur sólarhringum. Þá gæfi slík afrifa heldur enga vísbendingu um hvort ofbeldi hefði verið beitt ef um samfarir hafi verið að ræða.
Kristófer Þorleifsson, sérfræðingur á geðdeild Landspítala-háskólasjúkrahúss, staðfesti að hann hefði unnið læknisvottorð um andlegt ástand ákærða, dags. 10. janúar 2007. Kom fram hjá honum að ákærði hefði skýrt honum frá því við skoðun hinn 29. nóvember 2006, vegna framkominnar kæru um nauðgun, að umrætt sinn hefði hann farið inn í íbúð konunnar sem kærði hann. Þau hefðu bæði verið drukkin og hefði hann háttað hana úr og átt við hana mök. Kvaðst vitnið telja að ákærða hafi tekist allvel, með lyfjainntöku, að halda einkennum geðhvarfasýki sinnar í skefjum og hafi dómgreind hans því ekki átt að vera brengluð vegna hennar. Hins vegar væri áfengissýki ákærða hans aðalvandamál í dag. Mætti því segja að ákærði væri brenglaður ef hann væri drukkinn en að hann væri í lagi ef hann væri ódrukkinn.
Helgi Guðbergsson læknir framkvæmdi réttarlæknisfræðilega skoðun á ákærða strax eftir handtöku hans. Taldi hann að rispa framan á bringu hans hefði verið nýleg og að hún gæti samrýmst því að ákærði hefði fengið hana í nýlegum átökum, þess vegna eftir neglur.
Gísli Á. Þorsteinsson, læknir á geðsviði Landspítala-háskólasjúkrahúss, kvaðst hafa haft X til meðferðar í alllangan tíma. Staðfesti hann vottorð sem hann gaf út um andlegt heilbrigði X hinn 7. mars 2007. Kom meðal annars fram hjá Gísla að X hefði haft orð á því, þegar hún var lögð inn á geðdeildina í febrúar 2004, að hún hefði orðið fyrir árás og verið rænd. Hún hefði hins vegar ekki minnst á að hún hefði orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi fyrr en löngu síðar. Gísli sagði að X væri haldin langvinnum þunglyndissjúkdómi sem ylli ekki í sjálfu sér minnisleysi. Hins vegar, ef viðkomandi kæmist í tilfinnanlegt uppnám eða kæmist í aðstæður sem virkuðu framandi og jafnvel ógnvekjandi á hann, væri honum hættara við minnisleysi en ella. Taldi Gísli ekki útilokað að sumir gætu upplifað þá stöðu sem ógnvekjandi sem X hafi verið í sem vitni hér fyrir dómi, það er að koma fyrir dóm sem meintur brotaþoli að ákærða viðstöddum.
Björgvin Sigurðsson, sérfræðingur hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, staðfesti að engin lífsýni hefðu fundist í þeim gögnum sem haldlögð voru á vettvangi sem gætu talist nothæf til DNA-kennslagreiningar.
Kristján Friðþjófsson rannsóknarlögreglumaður kom fyrir dóminn og staðfesti skýrslu tæknideildar um skoðun á vettvangi.
Heiðdís Sigurðardóttir sálfræðingur staðfesti vottorð sitt sem hún gaf vegna viðtala sem hún tók við X á vegum neyðarmóttökunnar á tímabilinu 10. maí 2005 til 24. ágúst 2006. Kvaðst hún telja að þau einkenni sem hún lýsir í vottorðinu gætu vel samrýmst því að X hefði orðið fyrir áfalli vegna þeirra brota sem hún telji sig hafa orðið fyrir af hendi ákærða. Sálræn áföll sem hún hafi orðið fyrir fyrr á lífsleiðinni gætu ekki skýrt þá áfallaröskun sem hún virtist hafa orðið fyrir.
Guðrún Blöndal, geðhjúkrunarfræðingur á geðsviði Landspítala-háskólasjúkrahúss, sagði X hafa verið dagsjúkling á deildinni, sem staðsett sé að [...], allt síðan hún flutti þangað á árinu 2003. Sagði hún X hafa skýrt sér frá því fyrir nokkrum mánuðum að ákærði hefði leitað á hana með því að þreifa á henni og reyna að setja getnaðarlim sinn inn í hana. Hefði X eingöngu sagt sér frá öðru tilvikanna, það er hinu síðara. Taldi Guðrún að X hefði eftir þennan atburð virst kvíðnari, einangrað sig meira og virst verr haldin af þunglyndi sínu en áður.
Niðurstaða í ákærulið 1.
Samkvæmt þessum ákærulið er ákærða gefið að sök að hafa síðla árs 2003 reynt að setja getnaðarlim sinn í kynfæri X þar sem hún svaf í rúmi sínu og þannig notfært sér að hún gat ekki spornað við verknaðinum. Sakargiftir á hendur ákærða vegna þessa atviks komu fyrst fram þegar tekin var lögregluskýrsla af X 9. nóvember 2005 vegna kæru hennar á hendur ákærða um tilraun til nauðgunar sem fjallað er um í ákærulið 2. Skýrði hún þá frá því að hún hefði einhvern tímann síðla árs 2003 vaknað við það að ákærði hafi verið búinn að klæða hana úr að neðan, úr buxum og nærbuxum, en hann hafi jafnframt sjálfur verið búinn að klæða sig úr öllum fötum. Hafi hann þá verið að reyna að troða lim sínum inn í leggöng hennar. Hafi hún náð að komast frá honum og reka hann út. Eins og áður hefur verið rakið lýsti hún þessum atburði hins vegar nokkuð á annan veg er hún gaf skýrslu fyrir dómi. Vitnisburður hennar, sem var nokkuð reikandi og á köflum mótsagnakenndur, sem hugsanlega má rekja til þess geðsjúkdóms sem hún er haldin samkvæmt vætti Gísla Á. Þorsteinssonar geðlæknis, verður ekki skilinn á annan veg en þann að ákærði hafi ekki verið við hlið hennar þegar hún vaknaði. Hafi hann setið á stól annars staðar í herberginu og verið fullklæddur, en þá hafi hann verið búinn að klæða hana úr að neðan. Þá hefur vitnisburður hennar um það hvenær umrætt atvik á að hafa gerst verið nokkuð á reiki. Enda þótt X hafi ítrekað verið spurð út í rás atvika í umrætt sinn verður ekki af vitnisburði hennar fyrir dómi ráðið svo ótvírætt sé að ákærði hafi reynt að setja getnaðarlim sinn í kynfæri hennar. Ákærði hefur fyrir dómi borið að rétt væri eftir honum haft í lögregluskýrslu að hann hafi einhverju sinni, hugsanlega á árinu 2003, vaknað upp við hliðina á X og hún þá sagt hann meðal annars hafa nauðgað sér og barið sig. Hins vegar neitaði hann að þetta hefði í raun gerst með þessum hætti. Þar sem engin önnur gögn liggja fyrir sem renna stoðum undir sakargiftir samkvæmt þessum lið ákæru, og framburður kæranda er ekki skýrari en raun ber vitni, þykir varhugavert, gegn neitun ákærða, að telja sannað að ákærði sé sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í þessum ákærulið.
Niðurstaða í ákærulið 2.
Samkvæmt gögnum málsins liggur fyrir að bæði ákærði og X voru verulega ölvuð umrædda nótt og bæði hafa upplýst að þeim hætti til að fá svokallað „blackout“ eftir slíka drykkju. Þá hefur og komið fram að X hafi þar að auki átt við að stríða langvinnan þunglyndissjúkdóm sem við tilteknar aðstæður geti haft áhrif á minni hennar. Sýnast þessar staðreyndir hafa að sýnu leyti haft í för með sér að framburður beggja um málsatvik var fjarri því að vera skýr og því erfiðara en ella fyrir dóminn að átta sig á hvað í raun gerðist umrætt sinn.
Ákærði neitar sök samkvæmt þessum ákærulið. Eins og að framan hefur verið lýst játaði ákærði fyrir lögreglu að hafa verið farinn „að eiga við“ X umrætt sinn þar sem hún lá sofandi. Bar hann fyrir sig minnisleysi vegna drykkju um það hversu langt það gekk en kvaðst muna eftir að hafa verið farinn að káfa á henni. Hafi því lokið með því að X hafi hent honum út. Er ákærði var yfirheyrður um sakarefnið fyrir dómi dró hann nokkuð úr játningu sinni. Gaf hann þá skýringu að verjandi hans hefði ekki verið viðstaddur umrædda yfirheyrslu hjá lögreglu og að lögreglumaðurinn hefði blekkt sig til að samþykkja að gefa skýrsluna án þess að verjandinn yrði viðstaddur með yfirlýsingu um að málið yrði í kjölfarið fellt niður. Þessu hefur lögreglumaðurinn eindregið mótmælt. Ákærði játaði þó að hafa verið „eitthvað utan í henni“ en neitaði að svara er hann var beðinn að lýsa því með hvaða hætti það hefði verið. Er borinn var undir hann framangreindur framburður hans hjá lögreglu um að hann hafi verið farinn að eiga við X þar sem hún lá sofandi og að hún hefði vaknað við það og orðið mjög reið, sagði hann þetta vera rétt eftir sér haft en kvaðst þó ekki tilbúinn að lýsa þessari háttsemi sinni frekar. Hann kvaðst þó ekki minnast þess að hafa haft þann ásetning að hafa mök við X og kvað framburð sem eftir honum var hafður í lögregluskýrslunni að því leyti til rangan.
Nokkurs misræmis gætir í vitnisburði X hjá lögreglu og fyrir dómi varðandi það atvik sem hér um ræðir. Hún bar þó í báðum tilvikum á þann veg að hún hefði vaknað við að ákærði var ofan á henni og hélt höndum hennar. Sá munur var hins vegar á framburði hennar varðandi það hversu langt ákærði gekk að öðru leyti, að hjá lögreglu sagði hún að ákærði hefði verið búinn að klæða hana úr nærbuxunum og verið að reyna að hafa við hana mök með því að reyna að koma lim sínum inn í leggöng hennar en fyrir dómi taldi hún að ákærði hefði verið að reyna að klæða hana úr nærbuxunum þegar hún vaknaði. Hafi þetta allt gerst mjög snöggt og gæti hún ekki munað hvort ákærða hefði tekist að koma henni úr buxunum. Þegar hún fyrir dómi var spurð nánar út í ofangreindan framburð hjá lögreglu kvaðst hún ekki muna þetta í smáatriðum en kannaðist við að hafa lýst þessu eins og þar greinir.
Þegar framangreint er virt, og jafnframt litið til þess að engin lífsýni, sem nothæf gátu talist til DNA-kennslagreiningar, fundust við rannsókn á sængurfatnaði, fötum og öðrum munum á vettvangi, þykir varhugavert að telja sannað að ákærði hafi í greint sinn sett eða reynt að setja getnaðarlim sinn í kynfæri X eins og honum er gefið að sök í þessum ákærulið. Sú staðreynd að X hafi reynst vera með ferska afrifu við leggangaopið við skoðun á neyðarmóttöku fær ekki að haggað þessari niðurstöðu, enda kom fram í vitnisburði Jóhönnu Jónasdóttur læknis að slík afrifa þyrfti ekki að gefa vísbendingu um nýlegar samfarir og gæfi heldur enga vísbendingu um hvort ofbeldi hefði verið beitt ef um samfarir hefði verið að ræða. Þegar hins vegar, auk framangreinds, er litið til vitnisburðar A um frásögn X af háttsemi ákærða og andlegt ástand hennar er hún lýsti atvikinu, vættis Jóhönnu Jónasdóttur læknis um ástand X þegar hún kom á neyðarmóttöku, vættis Guðrúnar Blöndal geðhjúkrunarfræðings um versnandi einkenni þunglyndis hennar og svo vættis Heiðdísar Sigurðardóttur sálfræðings um þá áfallaröskun sem X virtist hafa orðið fyrir í umrætt sinn, þykir verða að leggja til grundvallar að ákærði hafi haft þann ásetning að notfæra sér svefndrunga og ölvunarástand X í þeim tilgangi að hafa við hana kynferðismök. Hafi hann sýnt þann ásetning í verki með því að leggjast ofan á hana, halda höndum hennar og reyna að færa hana úr nærbuxunum. Af framburði X verður hins vegar ekki annað ráðið en að henni hafi strax tekist að velta ákærða af sér er hún vaknaði. Að þessu virtu þykir varhugavert að telja sannað að ákærði hafi með þessari háttsemi sinni gerst sekur um tilraun til nauðgunar sem varði við 194. gr., sbr. 20. gr., almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Hins vegar verður ákærði sakfelldur fyrir brot gegn 196. gr., sbr. 20. gr., sömu laga, sbr. lög nr. 40/1992, enda fellur verknaðarlýsing í ákæru undir efnislýsingu þeirrar greinar auk þess sem málið var flutt með tilliti til þessa, sbr. 1. mgr. 117. gr. laga nr. 19/1991, og hefur vörnum ákærða því ekki verið áfátt af þeim sökum. Eftir útgáfu ákæru var þessu lagaákvæði breytt með lögum nr. 61/2007. Fer því um dóm vegna brots ákærða eftir 1. mgr. 2. gr. almennra hegningarlaga.
Ákærði, sem fæddur er árið 1964, hefur samkvæmt fyrirliggjandi sakavottorði ekki áður gerst sekur um refsiverðan verknað. Brot hans beindist gegn persónu- og kynfrelsi konu sem ákærði vissi að hafði átt við erfiðan geðsjúkdóm að glíma. Hefur brotið aukið enn frekar á vanda hennar og haft verulegar andlegar afleiðingar fyrir hana. Að þessu gættu er refsing ákærða ákveðin fangelsi í 12 mánuði.
X hefur gert kröfu um greiðslu miskabóta að fjárhæð 1.000.000 króna úr hendi ákærða auk vaxta skv. 8. gr., sbr. 4. gr., laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 3. nóvember 2005 til þess dags er mánuður var liðinn frá því bótakrafan var kynnt ákærða en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr., sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Auk þess er gerð krafa um þóknun við réttargæslu úr hendi ákærða samkvæmt mati réttarins. Er krafan studd þeim rökum að brotaþola hafi liðið mjög illa eftir brotið enda hafi það verið til þess fallið að valda andlegri vanlíðan. Hafi hún sokkið djúpt ofan í þunglyndi, en hún sé þunglyndis- og kvíðasjúklingur fyrir, og geti brotið haft mjög alvarleg áhrif á persónu, andlega heilsu og kynfrelsi brotaþola og ófyrirséð um hvort hún muni ná sér að fullu. Til stuðnings kröfunni er vísað til 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.
Af fyrirliggjandi vottorði Heiðdísar Sigurðardóttur sálfræðings og vitnisburði hennar fyrir dómi verður ráðið að eftir atburð þann sem ákærði hefur verið sakfelldur fyrir hafi komið fram hjá brotaþola tilgreind einkenni um áfallaröskun. Þá kemur fram í vottorði Gísla A. Þorsteinssonar geðlæknis, sem og vitnisburði hans fyrir dómi, að brotaþoli hefði greint honum frá auknum geðrænum einkennum eftir þetta atvik, einkum meiri hræðsluköstum, fælni, hræðslu við að vera innan um ókunnugt fólk og martröðum að næturlagi. Loks taldi Guðrún Blöndal geðhjúkrunarfræðingur að brotaþoli hefði eftir þennan atburð virst kvíðnari, einangrað sig meira og virst verr haldin af þunglyndi sínu en áður. Með vísan til þessa er það niðurstaða dómsins að með broti sínu gagnvart brotaþola hafi ákærði valdið henni miska. Á hún rétt á miskabótum úr hendi ákærða á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Í ljósi atvika málsins eru bætur þessar hæfilega ákvarðaðar 500.000 krónur ásamt vöxtum eins og nánar er tilgreint í dómsorði.
Ákærði greiði 148.753 krónur í útlagðan sakarkostnað. Þá greiði ákærði helming af 336.150 króna málsvarnar- og réttargæslulaunum Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns og helming af 249.000 króna réttargæsluþóknun Helgu Leifsdóttur héraðsdómslögmanns, skipaðs réttargæslumanns X, við rannsókn málsins og fyrir dómi, en hinn helmingurinn greiðist úr ríkissjóði. Í báðum tilvikum hefur við ákvörðun þóknunar verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Ragnheiður Harðardóttir vararíkissaksóknari flutti málið fyrir ákæruvaldið.
Ásgeir Magnússon héraðsdómari sem dómsformaður, Jónas Jóhannsson héraðsdómari og Helgi I. Jónsson dómstjóri kváðu upp dóm þennan.
Dómsorð:
Ákærði, Sturla Sigurgeirsson, sæti fangelsi í 12 mánuði.
Ákærði greiði X 500.000 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 3. nóvember 2005 til 30. júlí 2006 en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði 148.753 krónur í útlagðan sakarkostnað. Ákærði greiði helming af 336.150 króna málsvarnar- og réttargæslulaunum Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns og helming af 249.000 króna réttargæsluþóknun Helgu Leifsdóttur héraðsdómslögmanns, skipaðs réttargæslumanns X, en hinn helmingurinn greiðist úr ríkissjóði. Í báðum tilvikum hefur við ákvörðun þóknunar verið tekið tillit til virðisaukaskatts.