Hæstiréttur íslands
Mál nr. 858/2016
Lykilorð
- Kærumál
- Vistun barns
- Aðfararheimild
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með ódagsettri kæru sem barst héraðsdómi 23. desember 2016 en kærumálsgögn bárust Hæstarétti 4. janúar 2017. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 22. desember 2016 þar sem varnaraðila var heimilað að vista barn sóknaraðila, B, utan heimilis hennar í 6 mánuði. Kæruheimild er í 1. mgr. 64. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hún kærumálskostnaðar án tillits til gjafsóknar sem henni hefur verið veitt.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Með úrskurði varnaraðila 15. september 2016 var sonur sóknaraðila tekinn af heimili hennar og vistaður utan þess á vegum varnaraðila í tvo mánuði. Þótt gildistími úrskurðarins hafi liðið 15. nóvember sama ár, án þess að gerð yrði krafa fyrir dómi um að sú ráðstöfun yrði framlengd, gat það ekki hindrað að síðar yrði tekin ný ákvörðun á grundvelli 1. mgr. 31. gr. barnaverndarlaga bæri nauðsyn til. Er þess þá að gæta að hagsmunir barnsins skulu ávallt hafðir í fyrirrúmi í samræmi við grundvallarreglu barnaréttar. Að virtu því sem rakið er í hinum kærða úrskurði um atvik málsins var brýnt að tryggja öryggi sonar sóknaraðila eins og gert var með ákvörðun varnaraðila 22. nóvember 2016 á þeim grundvelli sem gerð hefur verið grein fyrir. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsenda hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur en um gjafsóknarkostnað sóknaraðila fer eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Allur gjafsóknarkostnaður sóknaraðila, A, greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, 350.000 krónur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 22. desember 2016.
Krafa sóknaraðila er dagsett 2. desember 2016 og barst dóminum sama dag. Málið var tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 19. desember sl. Sóknaraðili er Barnaverndarnefnd Hafnarfjarðar en varnaraðilar eru A og C.
Dómkröfur sóknaraðila eru þær að Héraðsdómur Reykjaness úrskurði að barnið B, kt. [...], með lögheimili að [...],[...], verði áfram vistað utan heimilis á vegum sóknaraðila í allt að sex mánuði samkvæmt 1. mgr. 28. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.
Varnaraðili A gerir þá kröfu að kröfum sóknaraðila í málinu verði hafnað og að sóknaraðili verði úrskurðaður til að greiða varnaraðila málskostnað eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.
Varnaraðili C gerir þá kröfu að kröfum sóknaraðila verði hafnað og að sóknaraðili greiði varnaraðila málskostnað.
I
Í október 2015 barst tilkynning um að dóttir varnaraðila, D, hefði sagt frá kynferðislegri misnotkun af hálfu föður síns, varnaraðila C. Í framhaldi var varnaraðili C handtekinn og gert að sæta gæsluvarðhaldi og bæði börn varnaraðila, D og B, vistuð utan heimilis með samþykki móður en hún var á þessum tíma í innlögn á Reykjalundi vegna kvíða og þunglyndis. Stúlkan staðfesti framburð sinn í Barnahúsi og kom fram í máli hennar að hún hefði áhyggjur af bróður sínum því að hún hefði talið sig sjá pabba sinn eiga við hann. Viðtal var tekið við B í Barnahúsi en erfitt reyndist að ná athygli hans og kom ekkert fram sem benti til þess að hann hefði orðið fyrir misnotkun af hálfu varnaraðila C. Börnin fóru heim til móður sinnar og var lögð áhersla á af hálfu barnaverndarstarfsmanna að faðir þeirra kæmi ekki á heimilið meðan málið væri í rannsókn. Þegar á leið komu upp áhyggjur barnaverndarstarfsmanna um að stúlkan, sem nú hafði verið í meðferðarviðtölum í Barnahúsi, nyti ekki stuðnings móður sinnar og vísbendingar voru um að faðir barnanna væri ekki með öllu fluttur af heimilinu og væri í samskiptum við fjölskylduna. Móðir samþykkti ekki vistun stúlkunnar utan heimilis og var með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness 26. apríl 2016 staðfestur úrskurður barnaverndarnefndar um vistun stúlkunnar utan heimilis í sex mánuði.
Við upphaf málsins var farið á heimili fjölskyldunnar og þar reyndist vera hin mesta óreiða og börnin illa hirt að mati barnaverndarstarfsmanna. Stúlkan var með skán í hári og þvagfærasýkingu og bæði börnin notuðu bleyju, stúlkan pissaði í bleyju en drengurinn kúkaði í bleyju vegna hægðavandamála og hafði ekki verið vaninn á klósett. Eftir að börnin höfðu verið einn mánuð á vistheimilinu brá svo við að hægðavandamál B var úr sögunni og D hætt að pissa í bleyju.
Fram kemur jafnframt í gögnum málsins að meðan börnin dvöldu á vistheimili gekk þeim allt í haginn en eftir að þau fóru aftur heim til móður sinnar seig aftur á ógæfuhliðina. Móðir fékkst ekki til að koma í viðtal til barnaverndarstarfsmanna og svaraði ekki símhringingum frá þeim. Í byrjun ágúst kom svo í ljós að B var hættur að mæta í leikskólann og nokkru síðar bárust upplýsingar um að móðir hans hefði skráð B í skóla í Reykjavík og hugðist flytja til Reykjavíkur.
Þrátt fyrir fullyrðingar móður komu fram vísbendingar um að varnaraðilar væru ennþá í samvistum. Þau höfðu m.a. farið saman í sumarbústaðarferð og komið saman í viðtal í skólum barnanna. Þá kom tilkynning til barnaverndarnefndar undir nafnleynd um að þau hefðu verið saman í afmælum. Við könnun barnaverndarnefndar kom í ljós að þau höfðu ekki sótt um skilnað eins og móðir hafði sagt barnaverndarnefnd. Rætt var við B og kom fram í samtali við hann að hann hefði farið með foreldrum sínum í útilegu í sumar. Foreldrar hans byggju saman á heimilinu og stundum vaknaði hann á nóttunni og þá færi hann upp í rúm til mömmu og pabba og legðist á milli þeirra.
Þegar þessar upplýsingar lágu fyrir þótti starfsmönnum sóknaraðila sýnt að foreldrar mundu ekki ætla sér að vera í samvinnu við nefndina og að móðir hefði sagt ósatt um hagi þeirra og sonar þeirra á heimilinu. Var þá kveðinn upp úrskurður 1. september 2016 samkvæmt 31. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 um töku drengsins af heimilinu og vistun hans á vegum nefndarinnar.
Þann 1. september 2016 barst tölvubréf frá vistmóður þar sem hún lýsir högum og hegðun drengsins á heimilinu. Kom þar fram að drengurinn ætti við hægða- og þvagvandamál að stríða eins og þegar hann kom í vistun í hið fyrra sinn. Fram kemur ennfremur í tölvubréfi fósturmóður að hún hafi átt samtal við B og spurt hann hvort þau systkinin ættu einhver leyndarmál. Hann hafi sagt svo ekki vera en hins vegar ættu þeir feðgar leyndarmál sem væri að pabbi hans nuddaði typpið á honum inni á baði og bæri á það krem. Pabbi hafi sagt að hann mætti ekki segja mömmu frá þessu. Í framhaldi af þessu var send kæra til lögreglu og óskað eftir rannsóknarviðtali í Barnahúsi.
Mál drengsins var lagt fyrir Barnaverndarnefnd Hafnarfjarðar 13. september 2016. Á fundinum áréttaði móðir að faðir barnanna væri fluttur af heimilinu og hefði ekki búið þar frá því í desember 2015. Hún sagði rétt að drengurinn svæfi oft uppi í hjá henni í rúminu sem hefði áður verið rúm beggja foreldra. Varnaraðili B kom einnig á fund nefndarinnar. Í máli hans kom m.a. fram að foreldrar gerðu sér nú grein fyrir því að skilnaður þeirra væri misráðinn þar sem samband þeirra væri traust þótt þau þyrftu að búa hvort í sínu lagi á meðan á þessum rakalausa málarekstri gegn honum stæði.
Skýrsla var tekin af B í Barnahúsi 14. september 2016. Þar staðfesti drengurinn framburð sinn um að faðir hans hefði nuddað á honum typpið og borið krem á það og auk þess stungið fingri inn í endaþarm hans. Faðir hans hafi sagt að hann mætti ekki segja mömmu frá. Úrskurður var kveðinn upp 15. september 2016 um að B skyldi tekinn af heimili foreldra og vistaður á vegum Barnaverndarnefndar Hafnarfjarðar í tvo mánuði. Barnaverndarnefnd samþykkti jafnframt með vísan til 1. mgr. 28. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 að gerð yrði krafa fyrir héraðsdómi um að ráðstöfun þessi stæði í allt að sex mánuði.
Ekki varð úr að krafa um áframhaldandi vistun utan heimilis væri sett fram af hálfu sóknaraðila fyrir héraðsdómi í tæka tíð áður en vistunartími rann út, sbr. 1. mgr. 28. gr. barnaverndarlaga. Hins vegar beitti sóknaraðili þann 22. nóvember 2016 ákvæðum 31. gr. laganna um neyðarvistun og úrskurðaði að barnið skyldi kyrrsett á vistheimilinu. Með kröfu sinni í málinu krefst sóknaraðili þess að ráðstöfun þessi standi í allt að sex mánuði.
II
E sálfræðingur var fenginn til að vinna sálfræðilegt mat á forsjárhæfni varnaraðila A. Í matsgerð hans segir m.a. að töluverðar vísbendingar séu um vanrækslu móður og ljóst að hennar tilfinningavandi og tengslavandi hafi hamlað getu hennar til að sinna börnunum með eðlilegum hætti. Þá hafi komið fram vísbendingar um ákveðið innsæisleysi móður, m.a. varðandi þvagfæravanda D og tilfinningar. Að auki hafi komið fram vísbendingar um að móðir gæti hafa beitt börnin ofbeldi.
Varnaraðili A hafi góða kosti. Hún sé greind, hafi menntun og vinnusögu, sé reglusöm og sýni áhuga á að fá börnin aftur. Hún hafi að mestu staðið sig vel í umgengni og að mörgu leyti farið eftir ábendingum fagaðila og barnaverndar. Matsmaður telur þó að varnaraðili A hafi ennþá ekki sýnt að henni sé treystandi og að hún hafi ekki ennþá tekið skýra afstöðu í þessu máli. Matsmaður hafi rætt málið opið við varnaraðila A og bent henni á að meðan staðan væri svona gæti matsmaður ekki mælt með að hún fengi börnin. Matsmaður telur ljóst að varnaraðili A sé ekki að fara að skilja við barnsföður sinn. Hún sé í miklum samskiptum við hann og hún hafi sjálf sagt að hann væri á heimilinu en þó ekki þegar börnin væru þar. Varnaraðili A hafi sagt að D sé búin að draga framburð sinn til baka og að B sé hraðlyginn. Á þessum grundvelli sé ekki unnt að sjá að varnaraðili ætli sér að standa með börnunum og styðja þau í gegnum þetta mál.
Matsmaður telur að töluverð áhætta muni fylgja því ef börnin færu aftur í umsjá móður. Helstu þættir séu að hún hafi ekki tekið afstöðu með börnunum til þess að vernda þau. Vísbendingar séu um ákveðna vanrækslu á tímabili og mögulegt ofbeldi. Einnig hafi hún ekki verið í nægilega góðu samstarfi við barnavernd. Þá hafi hún sýnt af sér ákveðið dómgreindarleysi, m.a. með því að vera áfram með barnsföður inni á heimilinu og að hafa lagt að stúlkunni að breyta framburði sínum. Einnig hafi hún ekki sinnt þvagfæravanda stúlkunnar eða hægðavanda drengsins og ekki viðurkennt að um vandamál væri að ræða.
Matsmaður segir að hann hafi átt gott samtal við móður í lokaviðtali. Farið hafi verið yfir málið og matsmaður látið hana vita af sínum áhyggjum og að ekki yrði mælt með því að hún fengi börnin aftur við óbreytt ástand. Varnaraðili A hafi þá lýst miklum vilja til samstarfs. Hún hafi bent á að ekki hafi verið reyndur neinn stuðningur og að hún ætli að styðja börn sín og forgangsraða þeim í efsta sæti. Matsmaður telur hins vegar að í viðtölum hans við varnaraðila hafi komið fram að að hún varpi ábyrgð á aðra, fyrrverandi lögmann sinn, skóla stúlkunnar, barnavernd, Barnahús, fósturmóður og aðra sem hafa komið að málum stúlkunnar.
Matsmaður mælir með að börnin verði áfram í fóstri en að umgengni haldi áfram undir eftirliti. Umgengni þurfi að vera undir ströngu eftirliti á meðan lögreglurannsókn sé í gangi, enda telur matsmaður að það sé töluverð hætta á að móðir reyni að hafa áhrif á framburð barnanna.
Varnaraðili A telur nauðsynlegt að bregðast við fjölmörgum rangfærslum sem birtast í greinagerð sóknaraðila. Rétt sé að börn varnaraðila hafi hvort í sínu lagi verið vistuð utan heimilis en rangt sé þar fjallað um veru föður barnanna á heimili varnaraðila. Rétt sé að lögheimili fjölskyldunnar allrar hafi verið flutt á sama heimilisfang í Reykjavík. Komi það til af því að ekki sé heimilt að flytja eingöngu varnaraðila og börn hennar, heldur verði að flytja alla fjölskylduna þar sem varnaraðili og faðir barnanna hafi ekki gengið frá skilnaði.
Varnaraðili A hafi áður greint frá misskilningi varðandi orðræðu um að faðir barnanna búi inni á heimilinu. Drengurinn hafi greint frá því að hann sofi í pabba og mömmu rúmi en ekki á milli þeirra eins og haldið sé fram. Hann hafi frá flutningi föður og systur sofið uppi í rúmi hjá varnaraðila hverja nótt og því sé ekkert óeðlilegt við að hann taki svona til orða en rúmið sé vissulega rúm foreldra hans beggja eða hafi a.m.k. verið það alla tíð þó að faðir hans sé fluttur út af heimilinu.
Þá vill varnaraðili A mótmæla því harkalega að hún hafi tekið skýra afstöðu með föður barnanna gegn börnunum varðandi frásögn þeirra. Hið rétta sé að dóttir varnaraðila hafi ítrekað greint svo frá við varnaraðila A að hún hafi í byrjun ekki sagt satt hvað varði föður sinn og því hafi varnaraðili eingöngu sagt dóttur sinni að segja satt, annað ekki. Varnaraðili A kveðst fyrst og fremst standa með börnum sínum, enda hafi hún vísað föður þeirra út af heimilinu fyrir heilu ári síðan og hafi búið ýmist ein eða með börnin sín frá þeim tíma.
III
Sóknaraðili tekur undir með matsmanni að ekki sé ráð að B fari aftur í umsjá móður meðan ekki er komin niðurstaða í kærumál á hendur föður barnanna. Í ljós hafi komið að móðir taki skýra afstöðu með föður þrátt fyrir að halda öðru fram.
Með hliðsjón af framansögðu telur sóknaraðili nauðsyn standa til að drengurinn verði vistaður utan heimilis í allt að sex mánuði til að tryggja að hann sé ekki í samskiptum við föður sinn meðan kærumál er í rannsókn og ferli. Nauðsyn beri til að drengurinn fái viðeigandi meðferð í Barnahúsi en slík meðferð sé gagnslaus njóti barn ekki stuðnings foreldris.
Sóknaraðila beri skylda til að tryggja óskilyrtan rétt barnsins fyrir vernd og umönnun í samræmi við ákvæði barnaverndarlaga og ákvæði samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2003. Með hliðsjón af atvikum máls og í þágu hagsmuna barnsins sé nauðsynlegt að ráðstöfun samkvæmt framansögðu standi í allt að sex mánuði, sbr. 1. mgr. 28. gr. barnaverndarlaga. Um frekari lagarök er vísað til 4. kafla barnaverndarlaga nr. 80/2002, meginreglna barnalaga nr. 76/2003 og stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Varnaraðili A byggir í fyrsta lagi á því að neyðarvistun, sem framkvæmd var þann 22. nóvember 2016 skv. 31. gr. barnaverndarlaga, hafi skort lagastoð, enda hafi drengurinn þá þegar verið vistaður utan heimilis í tvo mánuði samkvæmt úrskurði eða frá 15. september 2016. Engin lagaheimild sé fyrir slíku, enda komi skýrt fram í greinargerð með ákvæði 26. gr. barnaverndarlaga að telji barnaverndarnefnd að vistun þurfi að standa lengur en í tvo mánuði verði nefndin að afla sér dómsúrskurðar. Þá byggir varnaraðili einnig á því að framkvæmd neyðarvistunar hafi ekki verið fylgt að forminu til. Í greinargerð með 31. gr. barnaverndarlaga sé sett fram skýrt skilyrði um að náist ekki samkomulag við foreldra um áframhaldandi ráðstöfun eftir að neyðarvistun lýkur verði nefndin að kveða upp úrskurð innan 14 daga frá því að tekin var ákvörðun um neyðarvistun. Ef úrskurður nefndarinnar liggur ekki fyrir innan tilskilins tíma falli bráðabirgðaráðstöfunin úr gildi.
Varnaraðili byggir jafnframt á því að sóknaraðila hafi skort heimild til ákvörðunar um áframhaldandi vistun utan heimilis. Í a lið 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 sé kveðið á um að nefndinni sé heimilt að úrskurða um að barn skuli dveljast utan heimilis í allt að tvo mánuði. Heimild barnaverndarnefndar til að úrskurða um vistun í skamman tíma sé að finna í 27. gr. laganna og eigi við þegar ljóst þykir að barnið fái ekki viðunandi umönnun á heimili sínu, aðstæður þess séu óviðunandi eða það í hættu. Ákvarðanir, sem teknar séu samkvæmt þessari grein, séu tímabundnar og ekki ætlað að standa lengur en tvo mánuði. Ef nefndin komist að þeirri niðurstöðu að hagsmunum barnsins sé best borgið með lengri dvöl en í tvo mánuði þurfi hún að leita til dómstóla samkvæmt 28. gr. barnaverndarlaga. Frá þessu séu engin frávik.
Í barnaverndarlögum sé reynt að tryggja samfellu í vinnslu barnaverndarmáls. Í þeim tilvikum þegar nauðsynlegt sé að vista barn utan heimilis sé mikilvægt að tryggja stöðugleika fyrir barnið og að rof verði ekki á vistun meðan verið sé að taka ákvarðanir um framlengingu vistunar. Um þetta sé m.a. fjallað í 2. mgr. 28. gr. laganna. Í tilviki varnaraðila hafi ekki verið leitað atbeina dómstóla fyrir áframhaldandi vistun drengsins og sú neyðarráðstöfun samkvæmt 31. gr. barnaverndarlaga, sem beitt hafi verið 22. nóvember 2016, hafi því með öllu verið óheimil svo sem og málsmeðferð öll í kjölfarið.
Með vísan til framangreinds sé því krafist að því þvingunarástandi sem nú ríki sé aflétt án tafar.
Loks vísar varnaraðili til meðalhófsreglna barnaverndarlaga, sbr. 7. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga en sú regla hafi verið þverbrotin í málinu. Hvorki hafi verið tilsjón á heimilinu eða óboðað eftirlit þrátt fyrir að varnaraðili hafi þráfaldlega boðið slíkt. Því sé ljóst að ekki hafi verið gætt lögbundins meðalhófs og því ber að hafna kröfu sóknaraðila.
Af hálfu varnaraðila C var ekki lögð fram greinargerð í málinu en í málflutningi vísaði lögmaður hans til sömu sjónarmiða og málsástæðna sem fram koma hjá varnaraðila B.
IV
Barnið B verður sex ára [...] nk. Systir hans, D, varð átta ára [...] sl. Hún var með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness 26. apríl 2016 vistuð utan heimilis í sex mánuði en samkvæmt gögnum málsins býr hún enn hjá fósturforeldrum þar sem B er einnig vistaður. Ástæða fyrir vistun D var frásögn hennar í Barnahúsi um að varnaraðili C hefði misnotað hana kynferðislega. B hefur einnig skýrt svo frá í Barnahúsi að varnaraðili C hafi brotið gegn honum á sama hátt.
Fram kemur í gögnum málsins að mikil breyting til batnaðar hefur orðið á systkinunum, bæði líkamlega og andlega, eftir að þau fóru úr umsjá varnaraðila A og í fóstur.
Sóknaraðili ákvað 1. september 2016 að beita neyðarvistun samkvæmt 31. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 og úrskurðaði 15. september 2016 að B skyldi tekinn af heimili varnaraðila A og vistaður á vegum sóknaraðila í tvo mánuði, sbr. 1. mgr. 27. gr. laganna. Jafnframt samþykkti sóknaraðili með vísun til 1. mgr. 28. gr. laganna að gerð yrði krafa fyrir héraðsdómi um vistun utan heimilis í allt að sex mánuði.
Sóknaraðili krafðist ekki framlengingar fyrir dómi á vistun barnsins utan heimilis innan tveggja mánaða eins og áskilið er og rann því gildistími úrskurðar sóknaraðila frá 15. september 2016 út 15. nóvember 2016. Svo virðist sem sóknaraðili hafi orðið þess áskynja 22. nóvember 2016 og greip þá til þess ráðs að beita á ný úrræðum 31. gr. barnaverndarlaga um neyðarvistun og úrskurðaði um kyrrsetningu barnsins á vistheimilinu. Í framhaldi af því var málið lagt fyrir dóminn 2. desember 2016 innan tilskilins 14 daga frests samkvæmt 2. mgr. 31. gr. barnaverndarlaga.
Framangreindir annmarkar á málsmeðferð sóknaraðila þykja ekki valda því að krafa sóknaraðila eigi sér ekki lagastoð og að fella beri úrskurð sóknaraðila úr gildi.
Í málinu liggur fyrir að systkinin D og B hafa bæði borið alvarlegar ásakanir á hendur föður sínum, varnaraðila C. Samkvæmt gögnum málsins hefur varnaraðili A ekki tekið ákveðna afstöðu með börnum sínum í málinu heldur dregur trúverðugleika þeirra í efa. Hefur hún reynt að hafa áhrif á framburð D og segir B búa til sögur. Framburður varnaraðila A varðandi hjónaband sitt og fyrirætlanir hennar í því sambandi hefur verið misvísandi. Undir rekstri málsins hjá sóknaraðila sýndi varnaraðili A mikla tregðu til að vera í samvinnu við starfsmenn sóknaraðila. Í raun verður ekki annað ráðið af gögnum málsins en að varnaraðili A hafi tekið afstöðu með föður í málinu og því ekki líklegt að hún sýni syni sínum fullan stuðning heima fyrir.
Þegar tekið er tillit til hinna alvarlegu ásakana barnanna á hendur föður sínum, sem fram koma í vitnaskýrslum þeirra í Barnahúsi, verður afstað varnaraðila A til málsins að liggja skýr fyrir. Á það hefur skort og afstað hennar skýrðist ekki í skýrslu hennar fyrir dómi. Þegar framangreint er virt verður að fallast á með sóknaraðila að ekki sé unnt að treysta því að varnaraðili A muni standa við bakið á syni sínum ef fallist verður á kröfur hennar.
Brýnt þykir að barnið fari í viðtalsmeðferð í Barnahúsi en slík meðferð kemur ekki að gagni nema barnið njóti stuðnings foreldris og sé ekki í samskiptum við ætlaðan geranda.
Að mati dómsins reyndi sóknaraðili önnur vægari úrræði áður en ákvörðun var tekin um vistun drengsins utan heimilis en við ramman reip var að draga í þeim efnum vegna tregðu varnaraðila A til samvinnu við sóknaraðila.
Með vísan til alls framangreinds er það niðurstaða dómsins að fallast beri á kröfur sóknaraðila um að drengurinn verði vistaður utan heimilis varnaraðila A í sex mánuði eins og nánar greinir í úrskurðarorði.
Af hálfu sóknaraðila er ekki krafist málskostnaðar. Varnaraðili C krefst málskostnaðar. Rétt þykir að málskostnaður milli aðila falli niður. Varnaraðili A hefur gjafsókn í málinu. Gjafsókn varnaraðila, þar með talin þóknun lögmanns hennar, Helgu Völu Helgadóttur hdl., sem þykir hæfilega ákveðin 429.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, greiðist úr ríkissjóði.
Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð
Barnið B, kt. [...], sem lýtur forsjá varnaraðila, A og C, skal vistað utan heimilis á vegum sóknaraðila í sex mánuði frá uppkvaðningu úrskurðar að telja.
Málskostnaður fellur niður milli aðila. Allur gjafsóknarkostnaður, þ. á m. þóknun lögmanns varnaraðila A, Helgu Völu Helgadóttur hdl., 429.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.