Hæstiréttur íslands

Mál nr. 68/2012


Lykilorð

  • Kærumál
  • Aðför
  • Innsetningargerð


                                     

Miðvikudaginn 8. febrúar 2012.

Nr. 68/2012.

Nýherji hf.

(Tómas Jónsson hrl.)

gegn

Faghúsum ehf.

(Ragnar Halldór Hall hrl.)

Kærumál. Aðför. Innsetningargerð.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var þeirri kröfu N hf. að fá umráð tiltekinna muna í húsnæði F ehf. Hæstiréttur vísaði til þess að þegar T hf., sem N hf. leiddi rétt sinn frá, tók á leigu húsnæði F ehf., hefðu þeir samið á þann veg að tæki þau, sem umráðakrafa N hf. tæki til, yrðu eign T hf. við lok leigusamnings um fasteignina. Voru því uppfyllt skilyrði 1. mgr. 78. gr. laga nr. 90/1989, fyrir því að taka kröfu N hf. til greina.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma Ólafur Börkur Þorvaldsson hæstaréttardómari og Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson settir hæstaréttardómarar.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 19. janúar 2012, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 26. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. janúar 2012, þar sem hafnað var þeirri kröfu sóknaraðila að fá með beinni aðfarargerð eftirtalda lausafjármuni úr umráðum varnaraðila: Gufupott af gerðinni Culino Combi 100E, steikar-/veltipönnu (stærð 91x85x14 cm), ofnasamstæðu með sex skúffum af gerðinni Convotherm, ofnasamstæðu með 10 skúffum af gerðinni Convotherm, uppþvottavél af gerðinni Wexiodisk, vaskaborð við uppþvottavél ásamt blöndunartækjum og kæliklefa og frystiklefa af gerðinni Criocabin. Kæruheimild er í 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og áðurgreind krafa hans tekin til greina. Þá er krafist málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar úr hendi varnaraðila.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

I

Svo sem rakið er í hinum kærða úrskurði tók TM Software hf. á leigu af varnaraðila húsnæði að Urðarhvarfi 6 í Kópavogi með samningi 23. desember 2005. Samkvæmt samningnum tók leigutaki við húsnæðinu fullbúnu samkvæmt teikningum en annaðist sjálfur og kostaði að öllu leyti að hanna og innrétta tækjasal ásamt varaaflsstöð í kjallara, allan tækjabúnað í mötuneyti (eldhústæki) og létta inniveggi. Í samningnum sagði að allir veggir og múr- og naglfastar innréttingar yrðu eign varnaraðila án endurgjalds að leigutíma loknum án tillits til þess af hvaða ástæðu samningurinn félli niður. Undanskildar voru þó innréttingar sem tilheyrðu sérstaklega starfsemi leigutaka.

Hinn 1. janúar 2009 hóf dótturfélag sóknaraðila, Viðja viðskiptaumsjón ehf., starfsemi í húsnæðinu og tók það síðan á framleigu af TM Software hf. með samningi 25. mars 2009. Áður hafði sóknaraðili með samningi 2. janúar 2009 keypt nánar tiltekið lausafé af TM Software hf. þar með talið eldhústæki og innréttingar í eigu félagsins í mötuneyti húsnæðisins. Bú félagsins var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness 17. mars 2010, en nafni þess hafði þá verið breytt í Roku ehf. Í kjölfarið höfðaði þrotabúið riftunarmál vegna þessara viðskipta á hendur sóknaraðila eftir reglum XX. kafla laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. og var málið þingfest 10. febrúar 2011. Í því máli eru hafðar uppi fjárkröfur á hendur sóknaraðila.

II

Í málinu liggur fyrir að TM Software hf. festi kaup á þeim tækjum sem umráðakrafa sóknaraðila tekur til. Þótt tæki þessi hafi verið felld inn í innréttingar á fasteign varnaraðila að Urðarhvarfi 6 í Kópavogi var umsamið að þau yrðu undanskilin þeim múr- og naglföstu innréttingum sem yrðu eign varnaraðila við lok leigusamnings um eignina. Sóknaraðili keypti tækin síðan af TM Software hf. með kaupsamningnum 2. janúar 2009. Af hálfu þrotabús félagsins hefur eignarhald sóknaraðila ekki verið vefengt og gildir einu í því tilliti gagnvart varnaraðila fyrrgreint riftunarmál sem búið hefur höfðað á hendur sóknaraðila þar sem, eins og áður segir, eru hafðar uppi fjárkröfur. Samkvæmt þessu er fullnægt skilyrðum 1. mgr. 78. gr. laga nr. 90/1989 fyrir því að umbeðin aðfarargerð nái fram að ganga.

Eftir þessum úrslitum verður varnaraðila gert að greiða sóknaraðila málskostnað í héraði og kærumálskostnað, sem ákveðinn verður í einu lagi, eins og í dómsorði greinir.

Eins og kveðið er á um í 1. mgr. 78. gr. laga nr. 90/1989 verður réttur þess sem krefst beinnar aðfarargerðar að vera skýr og ótvíræður. Samkvæmt 3. mgr. 83. gr. laganna skal hafna slíkri kröfu ef varhugvert verður talið að gerðin nái fram að ganga á grundvelli þeirra sönnunargagna sem krafan verður studd við, sbr. 1. mgr. sömu greinar, en þar segir jafnframt að veita skuli málsaðilum skamman frest til gagnaöflunar. Af þessu leiðir að dómari skal svo fljótt sem kostur er taka afstöðu til þess hvort gerðin nái fram að ganga. Á þessu varð mikill misbrestur í þessu máli sem fyrst var tekið fyrir á dómþingi 29. apríl 2011 eða liðlega þremur mánuðum eftir að aðfararbeiðnin barst héraðsdómi 11. janúar sama ár. Hinn kærði úrskurður var síðan kveðinn upp 5. janúar 2012. Þessi dráttur á meðferð málsins í héraði er aðfinnsluverður.

Dómsorð:

Sóknaraðila, Nýherja hf., er heimilt með beinni aðfarargerð að fá tekin úr umráðum varnaraðila, Faghúsa ehf., eftirtalið lausafé: Gufupott af gerðinni Culino Combi 100E, steikar-/veltipönnu (stærð 91x85x14 cm), ofnasamstæðu með sex skúffum af gerðinni Convotherm, ofnasamstæðu með 10 skúffum af gerðinni Convotherm, uppþvottavél af gerðinni Wexiodisk, vaskaborð við uppþvottavél ásamt blöndunartækjum og kæliklefa og frystiklefa af gerðinni Criocabin.

Varnaraðili greiði sóknaraðila samtals 400.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. janúar 2012.

Með aðfararbeiðni, móttekinni í Héraðsdómi Reykjavíkur 11. janúar sl., hefur sóknaraðili, Nýherji hf., kt. 530292-2079, Borgartúni 37, Reykjavík, krafist þess að úrskurðað verði að umráð nánar tilgreindra eldhústækja (lausafjár) skuli veitt honum með aðför, sbr. 1. mgr. 78. gr., sbr. 73. gr. laga nr. 50/1989 um aðför.

Tækin eru í hús­næði varnaraðila að Urðarhvarfi 6, Kópavogi, en nánar til tekið krefst sóknaraðili afhendingar þessara tækja:

-                 1 gufupotts (Culino Combi 100E)

-                 1 steikar-/veltipönnu (stærð 91x85 x14 cm)

-                 1 ofnasamstæðu með 6 skúffu (Convotherm)

-                 1 ofnasamstæðu með 10 skúffu (Convotherm)

-                 1 uppþvottavélar (tegund Wexiodisk)

-                 1 vaskaborðs við uppþvottavél ásamt blöndunartækjum

-                 1 kæliklefa (tegund Criocabin)

-                 1 frystiklefa (tegund Criocabin)

Sóknaraðili krefst jafnframt málskostnaðar úr hendi varnaraðila auk þess sem fjárnám verði heimilað fyrir kostnaði af væntanlegri gerð.

Varnaraðili, Faghús ehf., kt. 540187-1429, Kleifarási 18, Reykjavík, krefst þess að synjað verði um framgang umbeðinnar gerðar og að sóknaraðila verði gert að greiða varnaraðila málskostnað að skaðlausu samkvæmt mati dómsins.

Málið var tekið til úrskurðar 17. október 2011 að aflokinni aðalmeðferð.

Málavextir

Að sögn sóknaraðila tók TM Software ehf., (síðar Roka ehf.) á leigu, af varn­ar­aðila, húsnæði að Urðarhvarfi 6, Kópavogi, með leigusamningi, dagsettum 23. des­em­ber 2005. Samkvæmt 2. og 3. gr. samningsins hafi allt húsið að Urðarhvarfi 6, verið tekið á leigu frá 1. október 2007 til 30. september 2027. Í 5. gr. samningsins sé sér­stak­lega tekið fram að leigjandi, TM Software ehf., sjái um og kosti sjálfur meðal annars allan tækja­búnað/eldhústæki í mötuneyti hús­næð­is­ins. Þá komi enn fremur fram að inn­rétt­ingar, sem tilheyri leigjanda sérstaklega, séu undan­skildar því ákvæði samn­ingsins að múr- og naglfastar innréttingar skuli verða eign leigusala (varnar­aðila).

Í kjölfar þess að TM Software ehf. hafi hafið starfsemi sína í húsnæði varnar­aðila hafi ýmis tækjabúnaður verið settur upp, meðal annars í mötuneytinu, þar á meðal eftir­talin eldhústæki, sem hafi alfarið verið í eigu TM Software ehf., og krafist er afhend­ingar á:

-                       1 gufupottur (Culino Combi 100E)

-                       1 steikar-/veltipanna (stærð 91x85 x14 cm)

-                       1 ofnasamstæða með 6 skúffum (Convotherm)

-                       1 ofnasamstæða með 10 skúffum (Convotherm)

-                       1 uppþvottavél (tegund Wexiodisk)

-                       1 vaskaborð við uppþvottavél ásamt blöndunartækjum

-                       1 kæliklefi (tegund Criocabin)

-                       1 frystiklefi (tegund Criocabin)

Hinn 1. janúar 2009 hafi dótturfélag sóknaraðila, Viðja viðskiptaumsjón ehf., hafið starfsemi í húsnæðinu að Urðarhvarfi 6. Í kjölfar þess og með framleigu­samn­ingi, 25. mars 2009, hafi TM Software ehf. leigt Viðju viðskiptaumsjón ehf., hús­næðið. Í 2. gr. þess samnings sé sérstaklega tekið fram að húsnæðið sé í eigu varnar­aðila, Faghúsa ehf., og sé framleigt. Þá segi í 3. gr. samningsins að leigu­tími hefjist 1. janúar 2009, enda hafi dótturfélag sóknaraðila, Viðja viðskipta­umsjón ehf., þá þegar hafið starfsemi í húsnæðinu.

Í kjölfar framleigu TM Software ehf. til Viðju viðskiptaumsjónar ehf., dóttur­félags sóknaraðila, hafi sóknaraðili, með kaupsamningi, 2. janúar 2009, keypt bif­reiðar, tölvubúnað og húsgögn af TM Software ehf. Í kaup­samn­ingnum, nánar tiltekið í 3. gr., sé sérstaklega tekið fram að meðal annars séu seld tæki og inn­rétt­ingar í eldhús, í eigu TM Software ehf., í mötuneytinu að Urðarhvarfi 6, Kópavogi.

Með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness, 17. mars 2010, hafi bú TM Software ehf. (síðar Roka ehf.) verið tekið til gjaldþrotaskipta og búinu skipaður skiptastjóri. Við gjaldþrotið hafi skiptastjóri lýst yfir því að þrotabúið tæki ekki yfir leigu­samn­ing­inn við varnaraðila frá 23. desember 2005.

Í kjölfar þessa hafi starfsmenn varnaraðila farið að rýma húsnæðið að Urðar­hvarfi 6 og hafi starfsmenn Viðju viðskiptaumsjónar ehf. fengið afar skamman tíma til þess að taka tæki og búnað út úr húsnæði varnaraðila. Í raun hafi tíminn verið svo knappur að áðurnefnd eldhústæki hafi orðið eftir í húsnæðinu. Sóknaraðili hafi ítrekað reynt að fá umráð tækja sinna, en án nokkurs árangurs og hafi varnaraðili beinlínis staðið í vegi fyrir því að sóknaraðili fengi tækin í sínar vörslur.

Eftir árangurslausar tilraunir hafi verið send, 5. maí 2010, formleg áskorun til lög­manns varnar­aðila um afhendingu tækjanna. Þar hafi verið skorað á varnar­aðila að afhenda tækin og hleypa fulltrúum sóknaraðila inn í fasteignina að Urðar­hvarfi 6. Þar sem varnaraðili hafi ekki brugðist við áskoruninni sé sóknaraðila nauðugur sá kostur að fara fram á innsetningu.

Að mati varnaraðila er réttu máli hallað verulega í málsatvikalýsingu sóknar­aðila. Því sé nauðsynlegt að gera betur grein fyrir réttarstöðu aðila og leiðrétta beint ranghermi í aðfararbeiðninni.

TM Software ehf. hafi tekið á leigu af varnaraðila alla húseignina að Urðar­hvarfi 6 með húsaleigusamningi gerðum 23. desember 2005. Húsið hafi þá verið í bygg­ingu en 20 ára leigusamningur hafi átt að hefjast 1. október 2007. Í 9. gr. leigu­samn­ings­ins sé meðal annars svohljóðandi ákvæði: Leigutaka er óheimilt að fram­leigja hið leigða húsnæði nema með skriflegu samþykki leigusala.

Eftir að leigutaki hafi hafið umfangsmikla starfsemi sína í húsnæðinu hafi mál þróast þannig að sóknaraðili, Nýherji hf., hafi keypt allt hlutaféð í TM Software ehf. Eftir það virðist TM Software ehf. hafa gert svokallaðan „tímabundinn leigusamning“ við annað dótturfélag sóknaraðila, Viðju viðskiptaumsjón ehf. Þetta hafi verið gert án sam­ráðs við leigusalann, varnaraðila, og aldrei leitað samþykkis hans. Þessi samn­ingur sé óvenjulega óskammfeilinn löggerningur. Til dæmis sé í 9. gr. hans ákvæði um að leigu­takanum, Viðju viðskiptaumsjón ehf., sé óheimilt að framleigja án samþykkis leigu­salans, TM Software ehf. Með þessum sérstæðu viðskiptaháttum hafi sóknaraðili þessa máls komið hlutum svo fyrir, að dótturfélag hans, Viðja viðskiptaumsjón ehf., greiddi öðru dótturfélagi hans, TM Software ehf., húsaleigu fyrir afnot af Urðarhvarfi 6, sem síðarnefnda félagið hafi ekki skilað til eiganda hússins heldur hafi safnað upp tug­milljóna króna skuld við hann.

Stjórnendur Nýherjasamstæðunnar hafi ekki látið við þetta sitja, heldur hafi þeir látið dótturfélagið, TM Software ehf., selja móðurfélaginu allar helstu eignir þess og hafi greitt fyrir þær með málamyndagerningum. Þannig hafi verðmæt dótturfélög, eins og Skyggnir ehf., verið seld undan TM Software ehf. til Nýherja hf. svo dæmi sé tekið. Annað dæmi um slíkar ráðstafanir hafi sóknaraðili haft kjark til að leggja fram í þessu máli, en það sé samningur, dagsettur 2. janúar 2009. Þar „selji“ TM Software ehf. sókn­ar­aðila það sem eftir hafi verið af eignum dótturfélagsins, bifreiðar, innan­stokks­muni, og margt fleira að meðtöldum tækjum og innréttingum í eldhúsi að Urðar­hvarfi 6 eins og segi í þessu skjali.

Í beinu framhaldi af þessari aðgerð hafi komið fram krafa um gjaldþrotaskipti á búi TM Software ehf. Sóknaraðili hafi þá rokið til og breytt heiti félagsins í Roka ehf. Síðar hafi sóknaraðili svo tekið nafnið TM Software ehf. upp á annað dótturfélag sitt, sem reki sams konar starfsemi og hið gjaldþrota félag rak áður og noti til þess sömu áhöld, tæki og starfsmenn, og hafi þannig rækilega staðfest kennitöluflakkið.

Varnaraðili mótmælir því harðlega að sóknaraðili eigi nokkurn skapaðan hlut inni í húsinu að Urðarhvarfi 6 og þegar af þeirri ástæðu beri að synja um framgang hinnar umbeðnu gerðar.

Málsástæður og lagarök sóknaraðila

Sóknaraðili byggir kröfu sína um afhendingu eldhústækjanna á óumdeildum umráða- og eignarrétti hans að þeim, sem sé varinn af 72. gr. stjórnarskrárinnar. Varn­ar­aðili hafi aldrei átt umráða- eða vörslurétt yfir tækjunum. Óumdeilt sé að TM Software ehf., fyrrverandi leigu­taki hjá varn­ar­aðila, hafi keypt tækin og hafi því verið eigandi þeirra. Enn fremur sé óumdeilt að sóknaraðili hafi keypt tækin af TM Software ehf. með kaupsamningi og sé þar með núverandi eigandi þeirra. Réttur sókn­ar­aðila til varslna tækjanna og umráða yfir þeim sé því skýlaus og ótvíræður.

Varnaraðili hafi ekki neina heimild til að fara með vörslur og umráð tækjanna og brjóti gegn lögvörðum eignarrétti sóknaraðila. Jafnframt liggi ljóst fyrir að varnar­aðili muni hindra sóknaraðila í að neyta réttinda sinna og því séu ekki aðrar leiðir færar en að leita atbeina dómstóla með vísan til 78. gr. laga um aðför. Sóknaraðili áréttar að ekki sé ágreiningur um að tækin séu múr-/naglföst í skilningi húsaleigulaga nr. 36/1994, en þótt svo sé, sé 5. gr. húsaleigusamningsins, auk 66. gr. húsa­leigu­laga, skýr um rétt sóknaraðila í þeim efnum.

Þá bendir sóknaraðili á að varnaraðili hafi ekki mótmælt áskorun hans og ekki mót­mælt umráða- og eignarrétti sóknaraðila. Því sé ámælisvert af varnaraðila að halda tækj­unum í sínum vörslum og neita sóknaraðila um umráð þeirra.

Sóknaraðili telur fullnægt öllum skilyrðum laga nr. 90/1989 um aðför og byggir beiðn­ina á 1. mgr. 78. gr., sbr. 73. gr. þeirra. Hann vísar að auki til 72. gr. stjórn­ar­skrárinnar. Krafa hans um málskostnað styðst við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 1. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför.

Málsástæður og lagarök varnaraðila

Varnaraðili telur rétt sóknaraðila ekki svo ljósan að hann verði einvörðungu sannaður með þeim skjölum sem lögð hafi verið fram og öðrum sýnilegum sönnunar­gögnum. Hann uppfylli því ekki skilyrði 78. gr. laga nr. 90/1989 um aðför og telur varn­ar­aðili þörf frekari gagna til þess að sóknaraðili hafi sannað þau réttindi sem hann telji sig eiga. Hann verði því að afla sér dóms um þau réttindi eftir almennum reglum um meðferð einkamála.

Varnaraðili sé eigandi alls þess búnaðar sem sé nú í húsinu að Urðarhvarfi 6. Leigutakinn, TM Software, hafi farið úr húsnæðinu með allt sem honum tilheyrði, og sennilega fleira. Þrotabú leigutakans hafi ekki gert tilkall til eins eða neins í hús­næðinu, heldur bein­línis lýst yfir því að búið myndi ekki nýta rétt sinn samkvæmt húsa­leigu­samn­ingnum og þá ekki heldur efna skyldur leigutakans.

Varnaraðili vísar í þessu sambandi sérstaklega til ákvæða 5. gr. leigu­samn­ings­ins, dags. 23. desember 2005. Þar segi m.a.:

...TM Software sér um og kosta sjálfir að öllu leiti að hanna og innrétta tækni­rými (tækjasalur) ásamt varaaflsstöð sem verður stað­sett í lokuðu rými í kjall­ara, allan tækjabúnað í mötuneyti (eldhús­tæki) og létta inn­veggi (gler­veggi­/skil­rúm). Allar breytingar á húsnæðinu eða búnaði þess af hálfu leigj­anda skulu vera með leyfi og gerðar með skriflegu sam­komu­lagi við leigu­sala. Hús­næð­inu skal skila í lok leigutíma ásamt fylgifé þvegnu og ræstu og ekki í lakara ástandi en við upp­haf leigutíma fyrir utan eðlilegt slit. Allir veggir, múr- og nagl­fastar inn­rétt­ingar, sem leigjandi kann að setja upp eftir afhend­ingu verða eign leigu­sala, án sér­stakrar greiðslu að leigutíma loknum, eða við brott­fall leigu­samn­ings þessa án tillits til af hvaða orsökum leigu­samn­ingur­inn fellur niður. Undan­skildar eru þó innréttingar sem tilheyra sérstaklega starf­semi leigj­anda.

Varnaraðili telur augljóst að undanskotsgerningurinn, 2. janúar 2009, víki fyrir hinum eldri rétti varnaraðila samkvæmt húsaleigusamningnum, dags. 23. desember 2005. TM Software ehf. hafi fullkomlega brostið heimild til að ráðstafa tækjum og tólum sem hafi verið háð réttindum leigusala samkvæmt leigusamningnum og hafi verið varanlega skeytt við fasteignina. Þar sem hinn svokallaði „kaupandi“ þessara verð­mæta hafi ekki fengið vörslur þeirra áður en hann fór úr húsnæðinu hafi hann að sjálf­sögðu verið bundinn af ákvæði húsa­leigu­samningsins um eignarrétt leigusalans. 

Varnaraðili telur að óheimilt hefði verið að fjarlægja þessi tæki úr húsnæðinu án samþykkis hans á meðan leigutakinn hafi enn verið þar, þar sem þau hafi verið var­an­lega skeytt við eignina, en það skipti ekki máli þar sem tækin hafi verið í húsinu eftir að hann var farinn þaðan. Varnaraðili hafi verið í góðri trú um rétt sinn til þeirra, og sókn­ar­aðila hafi verið fullkomlega kunnugt um efni leigusamningsins, eins og gögn málsins beri með sér.

Varnaraðili telur að því fari fjarri að réttindi sóknaraðila til umræddra tækja séu svo skýr að dómurinn geti heimilað honum innsetningu í þau. Þegar af þeirri ástæðu beri að hafna kröfu hans.

Um málskostnaðarkröfu sína vísar varnaraðili til 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 94. gr. aðfararlaga nr. 90/1989.

Niðurstaða

Með málsaðilum er ágreiningur um eignarrétt að þeim tækjum sem sóknaraðili krefst afhendingar á. Samkvæmt 78. gr. laga nr. 90/1989 um aðför getur héraðsdómari úrskurðað að fullnægt verði með aðfarargerð rétti manns sem honum er aftrað að neyta og hann telur sig eiga og vera svo ljósan, að sönnur verði færðar fyrir honum með gögnum, sem aflað verður samkvæmt 83. gr. laganna. Við beina aðfarargerð eru heimildir til sönn­unar­færslu því takmarkaðar við skjöl og önnur sýnileg sönn­un­ar­gögn. Varnaraðili byggir á því að sóknaraðili hafi ekki, með framlögðum gögnum einum og sér, uppfyllt skilyrði ákvæðisins.

Til sönnunar eignarrétti sínum leggur sóknaraðili fram samning, dags. 23. des­em­ber 2005, þar sem TM Soft­ware ehf. tekur á leigu, af varnaraðila, húsnæðið að Urðar­hvarfi 6, Kópavogi, frá og með 1. október 2007. Í þeim samningi eru ákvæði um upp­setn­ingu inn­réttinga í eldhúsi hússins og um eignarrétt að þeim við lok leigu­samn­ings­ins. Auk þess leggur sóknaraðili fram samning, dags. 2. janúar 2009, þar sem hann kaupir af TM Software allan tækja­búnað félagsins, þar með talið tæki og innréttingar í eldhúsi að Urðar­hvarfi 6, Kópavogi. Á þessum samningi byggir sóknaraðili þá máls­ástæðu að hann eigi þau tæki sem hann krefst afhendingar á.

Varnaraðili telur þennan síðastnefnda kaupsamning, málamyndagerning, sem hafi alls ekki verið gerður á tilgreindum degi. Viðja, framleigjandinn, hafi ekki verið flutt inn í húsið á þeim tíma þegar samningurinn eigi að hafa verið gerður. Þar fyrir utan hafi efni samningsins ekki verið kynnt varnaraðila fyrr en eftir að sóknaraðili hóf að flytja tækin burt úr húsinu að Urðarhvarfi.

Samkvæmt dómi héraðsdóms, sem fylgdi dómi Hæstaréttar í máli nr. 205/2010,  krafðist Straumur-Burðarás þess, 1. febrúar 2010, að bú TM Software ehf. yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Í dóminum kemur jafnframt fram að við fyrirtöku kröf­un­nar, 11. febrúar 2010, hafi skiptaþoli mótmælt kröfunni og þá þingfest sérstakt mál um ágrein­inginn. Skiptabeiðandi hafi lagt fram greinargerð í því máli 15. febrúar og skiptaþoli 22. febrúar 2010. Með úrskurði, 17. mars 2010, var bú TM Soft­ware tekið til gjaldþrotaskipta. Með dómi Hæstaréttar 7. maí 2010 var sú niðurstaða staðfest.

Sama dag og skiptaþoli, TM Software, lagði fram í héraðsdómi greinargerð sína til varnar því að bú hans yrði tekið til skipta, 22. febrúar 2010, afhenti hann fyrir­tækja­skrá til­kynn­ingu dag­setta ári áður, 19. febrúar 2009, sem hlýtur þó að vera mis­ritun ártals. Í til­kynn­ing­unni kemur fram að nafni félagsins hafi, 5. febrúar 2010, verið breytt í Roka ehf. og tilteknir tveir menn kjörnir í stjórn og annar þeirra ráðinn fram­kvæmda­stjóri.

Með samningnum, 2. janúar 2009, seldi TM Software Nýherja ekki einvörð­ungu allan tækjabúnað og innréttingar að Urðarhvarfi 6, heldur einnig fjórar bifreiðar. Varnaraðili lagði fram tilkynningar um eigendaskipti þeirra og upplýsingar um skrán­ingu eigenda­skipta hjá Umferðarstofu. Á þremur tilkynningum um eigendaskipti eru kaup­samn­ingar sagðir dagsettir 2. janúar 2009 eins og samningur TM Software og Nýherja. Á tilkynningunum stendur þó að seljandi sé Roka ehf. en samkvæmt til­kynn­ingu til fyrirtækjaskrár var ekki skipt um nafn á félaginu fyrr en 5. febrúar 2010. Þessar tilkynningar um eig­enda­skipti voru ekki afhentar Umferðarstofu fyrr en 12. mars 2010 eða fimm dögum áður en bú TM Software (þá með skráð heiti Roka ehf.) var tekið til gjald­þrota­skipta. Í til­kynn­ingu um eigendaskipti á fjórða bílnum, sem er tilgreindur í samningi TM Soft­ware og Nýherja, segir að kaupsamningur sé dagsettur 31. ágúst 2009, sem sam­rýmist ekki því að hann hafi verið seldur með samningnum 2. janúar 2009. Samkvæmt tilkynningunni var sá bíll þar fyrir utan seldur Skyggni ehf. en ekki Nýherja hf.

Með framlögðum gögnum þykir varnaraðili hafa varpað nægjanlegum vafa yfir það að sá samningur sem sóknaraðili byggir á, eignarrétt sinn að inn­rétt­ing­unum, hafi verið gerður þann dag sem tilgreindur er í samningnum en framlögð gögn sóknar­aðila færa ekki, gegn gögnum varnaraðila, óyggjandi sönnur fyrir fullyrðingum hans. Þar sem óvíst er hvort samningurinn var gerður áður en eða eftir að bú TM Software var tekið til gjald­þrota­skipta þykir sóknaraðili ekki geta byggt á honum í þessu máli enda verða rétt­indi hans að vera svo skýr að jafna megi til þess að dómur hafi gengið um þau. Þar sem ekki er uppfyllt það skil­yrði 78. gr. laga nr. 90/1989 um aðför að sóknar­aðili hafi fært ótvíræðar sönnur fyrir eign­ar­rétti sínum, ber, samkvæmt 3. mgr. 83. gr. laganna, að hafna því að krafa hans um aðför nái fram að ganga.

Með vísan til þessarar niðurstöðu og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 1. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989, verður sóknaraðili dæmdur til að greiða varnaraðila 300.000 krónur í málskostnað.

Ingiríður Lúðvíksdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð. Tafir á uppkvaðningu úrskurðarins skýrast af miklum önnum dómara.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Hafnað er þeirri kröfu sóknaraðila, Nýherja hf., að fá umráð gufupotts (Culino Combi 100E), steikar-/veltipönnu (stærð 91x85 x14 cm), ofnasamstæðu með sex skúffum (Convotherm), ofnasamstæðu með 10 skúffum (Convotherm), uppþvottavélar (tegund Wexiodisk), vaskaborðs við uppþvottavél ásamt blöndunartækjum, kæliklefa (tegund Criocabin) og frystiklefa (tegund Criocabin) sem eru nú í hús­næði varnar­aðila, Faghúsa ehf., að Urðarhvarfi 6, Kópavogi.

Sóknaraðili greiði varnaraðila 300.000 krónur í málskostnað.