Hæstiréttur íslands

Mál nr. 357/2005


Lykilorð

  • Skjalafals
  • Fjársvik


Fimmtudaginn 17

 

Fimmtudaginn 17. nóvember 2005.

Nr. 357/2005.

Ákæruvaldið

(Bogi Nilsson ríkissaksóknari)

gegn

Joshua Olayiwola Oladapo Dawodu og

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

Susan Hyns

(Sigmundur Hannesson hrl.)

 

Skjalafals. Fjársvik.

J og S, sem komið höfðu til landsins með tíu daga millibili, voru ákærð fyrir fjársvik og skjalafals, auk þess sem S var gefið að sök brot gegn lögum um útlendinga. J var sakfelldur fyrir skjalafals með því að hafa falsað tékka og selt þá tveimur íslenskum bönkum. Var þátttaka S í þeim brotum ekki sönnuð, nema að því er varðaði þrjá tékka, sem hún seldi sjálf. J var sakfelldur fyrir fjársvik með því að hafa tekið á leigu og slegið eign sinni á tvær jeppabifreiðar en ósannað var að S hafi tekið þátt í öðru broti hans. S hafði viðurkennt að hafa haft meðferðis til landsins og notað vegabréf nafngreindrar breskrar konu, en við rannsókn kom í ljós að vegabréfið var falsað. Þar sem verknaðarlýsing þessa brots í ákæruskjali féll ekki undir efnislýsingu 1. mgr. 155. gr. almennra hegningarlaga um skjalafals, þar sem ekki var uppfyllt það skilyrði ákvæðisins að skjalið hafi verið notað, var hún vegna þessa eingöngu sakfelld fyrir brot á lögum um útlendinga. Þóttu athafnir J og S sýna að strax í kjölfar komu sinnar til landsins hafi þau haft uppi áform um brot sín. Brotavilji þeirra hafi þannig bæði verið einbeittur og styrkur. Var refsing J hæfilega ákveðin fangelsi í 15 mánuði en S í fimm mánuði.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 22. júlí 2005 í samræmi við yfirlýsingu ákærða, sem nú kveðst heita Joshua Olayiwola Oladapo Dawodu, en sagðist áður heita Timothy Claude Newkirk, en jafnframt af hálfu ákæruvalds á hendur báðum ákærðu. Ákæruvaldið krefst staðfestingar á sakfellingu ákærða en þyngingar á refsingu. Þá krefst ákæruvaldið sakfellingar ákærðu, sem nú kveðst heita Susan Hyns, en sagðist áður heita Suzanne Claire Hydon, samkvæmt ákæru að undanskildum ákæruatriðum í 1. tl. A. þáttar og 1. tl. B. þáttar í IV. kafla ákæru og þyngingar á refsingu. Jafnframt er þess krafist að ákærði verði dæmdur til greiðslu skaðabóta, samtals að fjárhæð 7.100.107 krónur auk vaxta samkvæmt ákæru.

Ákærði krefst aðallega sýknu, en til vara að refsing verði milduð og að gæsluvarðhald hans frá 12. júní 2005 komi til frádráttar refsingu. Þá krefst hann þess að bótakröfum verði vísað frá dómi.

Ákærða krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms að því er hana varðar, en vægustu refsingar er lög leyfa verði hún sakfelld umfram það sem gert var í héraðsdómi. Þá krefst hún þess að gæsluvarðhald hennar frá 12. júní 2005 komi til frádráttar refsingu.

I.

          Ákærði kom hingað til lands flugleiðis fimmtudaginn 12. maí 2005. Þann 17. maí skráði hann sig á námskeið í íslensku fyrir útlendinga í tilteknum skóla. Sama dag fékk hann skráða kennitölu hjá Hagstofu Íslands. Við þá skráningu var upplýst að hann myndi dvelja á landinu í þrjá til sex mánuði. Þar næsta dag stofnaði ákærði tvo bankareikninga í Íslandsbanka hf. og Landsbanka Íslands hf. Í málinu er honum meðal annars gefið að sök að hafa á tímabilinu 5. maí til 2. júní 2005 falsað 11 tékka frá rótum og selt þá fyrrgreindum bönkum 19. maí til 7. júní í félagi við meðákærðu, að tveimur tilvikum undanskildum, eins og nánar er lýst í A. og B. þætti IV. kafla ákæru. Tékkunum er þar rétt lýst að allri gerð. Við rannsókn tæknideildar lögreglunnar á Keflavíkurflugvelli reyndist bandarískt vegabréf, sem ákærði hafði meðferðis til landsins, vera ófalsað. Það var útgefið til Timothy Claude Newkirk. Við rannsókn lögreglu hélt hann því fram að hann væri umræddur Timothy, en í yfirheyrslu hjá lögreglu eftir uppkvaðningu hins áfrýjaða dóms, sagði hann að sitt rétta nafn væri Joshua Olayiwola Oladapo Dawodu. Fyrir Hæstarétti byggir hann á að svo sé, en ákæruvaldið kveður það ekki hafa fengist staðfest. 

          Ákærða kom flugleiðis til landsins 22. maí 2005 og mun ákærði hafa sótt hana á flugvöllinn. Daginn eftir skráði hún sig á íslenskunámskeið í sama skóla og ákærði og fékk kennitölu hjá Hagstofunni á sama hátt og hann. Þann 27. sama mánaðar stofnaði hún tvo bankareikninga í Íslandsbanka hf. og Landsbanka Íslands hf. Allt þetta gerði hún í nafni breskrar konu, Suzanne Claire Hydon. Það var fyrst í yfirheyrslu hjá lögreglu 27. júní sem hún kvaðst vera frá Líberíu og hélt því fram að sitt rétta nafn væri Susan Hyns. Sagðist hún hafa eyðilagt skilríki sín. Viðurkenndi hún þá einnig fyrir dómi að hafa haft meðferðis til landsins og notað vegabréf áðurnefndrar Suzanne. Fyrir Hæstarétti byggir hún á að hennar rétta nafn sé Susan Hyns, en ákæruvaldið kveður að það hafi ekki fengist staðfest. Samkvæmt rannsókn lögreglunnar á Keflavíkurflugvelli var vegabréfið, sem hún var með, falsað með þeim hætti að upprunaleg mynd hafði verið fjarlægð úr því en mynd af ákærðu sett í staðinn. Ákærða hefur haldið því fram að tilgangur komu hennar til landsins hafi verið sá að stofna fyrirtæki með ákærða og opna verslun hér á landi og hafi þau ákveðið að hittast þegar hún kæmi til landsins 22. maí. Er framburður hans á sömu lund um þetta. Fram er komið að ákærðu gistu saman á tveimur gistiheimilum eftir að ákærða kom til landsins og mun ákærði hafa greitt gistingu hennar, flugfargjaldið til landsins og fargjald með Norrænu, sbr. III. kafla ákæru.

          Ákærði er einnig sakaður um fjársvik í II. kafla ákæru með því að hafa 1. júní tekið á leigu og slegið eign sinni á nánar tilgreindan jeppa, sem hann fór með úr landi daginn eftir með ferjunni Norrænu til Danmerkur. Þá eru bæði ákærðu sökuð Í III. kafla ákæru um að hafa í félagi svikið út og slegið eign sinni á aðra jeppabifreið 8. sama mánaðar. Ákærðu fóru daginn eftir á sömu ferju með þá bifreið til Hanstholm í Danmörku. Við komuna þangað 11. júní voru þau handtekin vegna rannsóknar máls þessa að kröfu lögreglunnar í Reykjavík og samkvæmt handtökuskipan útgefinni af Héraðsdómi Reykjavíkur. Þau voru hneppt í gæsluvarðhald daginn eftir, send hingað til lands og úrskurðuð í gæsluvarðhald 16. og 17. júní sem þau sæta enn.

II.

Ákærða var með hinum áfrýjaða dómi sakfelld fyrir að hafa haft meðferðis við komuna til landsins falsað vegabréf, eins og nánar er rakið í I. kafla ákæru. Var brotið talið varða við h. lið 2. mgr. 57. gr. laga um útlendinga nr. 96/2002 og 1. mgr. 155. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Hún unir þessari niðurstöðu. Fyrir Hæstarétti benti ákæruvaldið á að verknaðarlýsing brotsins í ákæruskjali félli ekki undir efnislýsingu 1. mgr. 155. gr. almennra hegningarlaga, þar sem ekki væri uppfyllt það skilyrði ákvæðisins að skjalið hafi verið notað. Allt að einu var krafist af þess hálfu staðfestingar á niðurstöðu héraðsdóms. Á það er fallist með ákæruvaldinu að verknaðarlýsingu í þessum kafla ákæru sé áfátt, enda er þar einvörðungu lýst að ákærða hafa haft meðferðis umrætt vegabréf, en þess hvergi getið að hún hafi framvísað því eða notað það, en brot samkvæmt 155. gr. almennra hegningarlaga er fyrst fullframið þegar skjal er notað. Verður háttsemi hennar því eingöngu felld undir h. lið 2. mgr. 57. gr. laga nr. 96/2002, sbr. 16. gr. laga nr. 20/2004.

Bifreið sú sem um er getið í II. kafla ákæru hefur enn ekki komið í leitirnar. Í yfirheyrslu hjá lögreglu 20. júní kvaðst ákærði hafa tekið bifreiðina, sem um getur í III. kafla ákæru, á leigu til að nota á Íslandi og í Danmörku. Nánar aðspurður hvert ferðinni hafi verið heitið er til Danmerkur væri komið sagði ákærði, að hann hafi ætlað að hitta mann að nafni T á tilteknu hóteli í miðborg Kaupmannahafnar. Í skýrslu sinni fyrir dómi sagði hann hins vegar að hann hafi ætlað að láta T hafa þessa bifreið þar sem leigutími þeirrar bifreiðar sem um getur í II. kafla ákæru hafi verið að renna út. Er því samkvæmt framansögðu ósamræmi í framburði ákærða um not á bifreiðinni í Danmörku. Um hlut ákærðu í brotinu í III. kafla sagði ákærði fyrir dómi að hún hafi ekki tekið þátt í að taka bifreiðina á leigu, heldur hafi hún einungis að hans beiðni pantað far með ferjunni fyrir þau og bifreiðina. Framburður ákærðu var á sama veg og ákærða um þetta. Með framasögðum athugasemdum og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms er staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða á sakargiftum samkvæmt II. og III. kafla ákæru og sýknu ákærðu samkvæmt síðarnefnda kaflanum.

Ákæruvaldið hefur fallið frá ákæru á hendur ákærða varðandi 4. lið B. þáttar IV. kafla ákæru, en hann var í héraðsdómi sýknaður af þessum ákærulið. Með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða á sakargiftum samkvæmt þessum kafla og heimfærslu til refsiákvæðis. Ákæruvaldið hefur fallið frá 1. ákæruliðum í báðum þáttum þessa kafla ákæru á hendur ákærðu. Ákærða hefur játað að hafa framselt tékkana í 5. og 6. lið A. þáttar ákæru og 5. lið B. þáttar ákæru með nafni Suzanne Claire Hydon, en fram er komið að hún hefur viðurkennt að hún sé ekki sú kona. Verður hún því sakfelld fyrir þá háttsemi, enda rúmast hún innan þeirrar verknaðarlýsingar sem fram kemur í upphafi IV. kafla ákæru. Brot hennar varða við 1. mgr. 155. gr. almennra hegningarlaga.

Ákærðu hafa bæði fullyrt að ákærða hafi ekki komið við sögu varðandi fölsun og sölu annarra tékka sem fjallað er um í þessa kafla ákæru. Eins og fram kemur í héraðsdómi er engum vitnum til að dreifa um að hún hafi átt þátt í sölu tékkanna eða verið með í ráðum við fölsun þeirra. Önnur gögn málsins styðja það heldur ekki. Þrátt fyrir atburðarásina í málinu, sem að framan er rakin, þykir gegn neitun ákærðu ekki fram komin lögfull sönnun um þetta og verður hún því sýknuð hvað þessa tékka varðar, sbr. 45. gr. og 46. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

III.

Ákærðu komu hingað til lands 12. maí  og 22. maí 2005. Athafnir þeirra, sem raktar eru hér að framan í upphafi I. kafla, sýna að strax í kjölfar komu sinnar höfðu þau uppi áform um brot sín. Var brotavilji þeirra þannig bæði einbeittur og styrkur. Brot þeirra tók til hárra fjárhæða. Þau hafa hvorug bætt fyrir brot sín nema að óverulegu leyti. Verður þetta virt þeim til refsiþyngingar, sbr. 2. tl., 6. og 8. tl. 70. gr. almennra hegningarlaga. Er refsing beggja ákærðu ákveðin með hliðsjón af þessu og með vísan til 77. gr. laganna. Refsing ákærða er hæfilega ákveðin í héraðsdómi, en ákærðu fangelsi í 5 mánuði. Frá refsingu skal draga gæsluvarðhaldsvist beggja frá 12. júní 2005.

          Ákærði hefur hvorki mótmælt fjárhæð þeirra bótakrafna sem hann var dæmdur með héraðsdómi til að greiða né dráttarvexti af þeim. Er krafa hans um frávísun þeirra við það miðuð að hann verið sýknaður af sakargiftum. Er því ekki tölulegur ágreiningur um kröfurnar. Er staðfest niðurstaða héraðsdóms um greiðslu ákærða á skaðabótum og dráttarvöxtum.

          Ákærði greiði allan sakarkostnað í héraði og fyrir Hæstarétti samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara og ákvörðun Hæstaréttar um málsvarnarlaun verjenda hans, sem eru ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti eins og greinir í dómsorði.

          Ákærða greiði helming alls sakarkostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti samkvæmt sama yfirliti um sakarkostnað og ákvörðun Hæstaréttar um málsvarnarlaun verjanda hennar, sem eru ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti eins og greinir í dómsorði. Hinn helmingur málsvarnarlaunanna greiðist úr ríkissjóði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður um refsingu ákærða, sem kveðst nú heita Joshua Olayiwola Oladapo Dawodu. Frá refsingunni dregst gæsluvarhaldsvist hans frá 12. júní 2005.

Ákærða, sem nú kveðst heita Susan Hyns, sæti fangelsi í fimm mánuði. Frá refsingunni dregst gæsluvarhaldsvist hennar frá 12. júní 2005.

Ákvæði héraðsdóms um skaðabætur skulu vera óröskuð.

Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns í héraði, Björns Þorra Viktorssonar héraðsdómslögmanns, 498.000 krónur, og skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 249.000 krónur.

Ákærða greiði helming málsvarnarlauna skipaðs verjanda síns á báðum dómstigum, Sigmundar Hannessonar hæstaréttarlögmanns, samtals 373.500 krónur, á móti helmingi sem greiðist úr ríkissjóði, 373.500 krónur.

Ákærðu greiði óskipt annan sakarkostnað málsins, samtals 86.453 krónur, ákærði að öllu leyti, en ákærða að helmingi.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 15. júlí 2005.

Málið er höfðað með ákæru útgefinni 5. júlí 2005 á hendur: ,,Timothy Claude Newkirk, kt. 260172-2989, bandarískum ríkisborgara og konu sem kveðst heita Suzanne Hyns og vera frá Líberíu

fyrir fjársvik og skjalafals framið í maí og júní 2005:

I.

Ákærðu Suzanne fyrir skjalafals og brot gegn útlendingalögum, með því að hafa við komu til landsins 22. maí undir ranga nafninu Susan Claire Hydon haft meðferðis vegabréf bresks ríkisborgara, með því nafni, sem ákærða vissi að hafði verið falsað með því að setja í það mynd af ákærðu í stað myndar af vegabréfshafa.

Telst þetta varða við h-lið 2. mgr. 57. gr. laga um útlendinga nr. 96, 2002 og 1. mgr. 155. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

II.

Ákærða Timothy Claude fyrir fjársvik og til vara fyrir fjárdrátt, með því að hafa þann 1. júní í auðgunartilgangi tekið á leigu hjá bílaleigunni Geysi, Holtsgötu 56, Reykjanesbæ, bifreiðina NJ-885, ársgamla af gerðinni MMC Pajero, verðmetna á 3.400.000 kr., og slegið eign sinni á bifreiðina, sem ákærði hafði með sér úr landi til Danmerkur með ferjunni Norrænu daginn eftir.

Telst þetta aðallega varða við 248. gr. almennra hegningarlaga en til vara við 247. gr. sömu laga.

III.

Ákærðu báðum fyrir fjársvik, með því að hafa í félagi þann 8. júní í auðgunartilgangi tekið á leigu hjá bílaleigunni Átaki, Smiðjuvegi 1, Kópavogi, bifreiðina VU-233 af gerðinni Toyota Land Cruiser, verðmetna á 4.250.000 kr., og slegið eign sinni á bifreiðina, sem ákærðu höfðu með sér úr landi til Danmerkur daginn eftir með ferjunni Norrænu frá Seyðisfirði en lögreglan handtók ákærðu við komu ferjunnar til Hirstholm í Danmörku 16. júní.

Telst þetta varða við 248. gr. almennra hegningarlaga.

IV.

Ákærðu báðum fyrir skjalafals, með því að hafa í félagi selt í bönkum í Reykjavík, nema annars sé getið, alls 11 tékka, samtals að fjárhæð 51.400 bandarískir dollarar, andvirði 3.317.122 kr., sem ákærðu höfðu falsað frá rótum í tölvu sem fannst í fórum þeirra en á tékkaeyðublöðunum er tilgreint að tékkarnir séu gefnir út til ákærðu af bönkum í Bandaríkjum Norður-Ameríku á tímabilinu 5. maí til 1. júní 2005:

A.           Tékkar innleystir í útibúum Landsbanka Íslands.  Ákærði Timothy Claude framseldi fjóra fyrstgreindu tékkana en ákærða Suzanne tvo síðustu með árituninni Suzanne Claire Hydon:

1)         Þann 19. maí í útibúinu í Austurstræti 11 tékka að fjárhæð 9.500 bandarískir dollarar, andvirði 614.840 kr., á eyðublaði nr. 1891495 sagðan gefinn út 12. maí 2005, á bankann Founders Federal Credit Union, af hálfu Express Comapny Inc., Minniapolis til ákærða Timothy Claude.

2)         Þann 24. maí tékka í sama útibúi að fjárhæð 8.500 bandarískir dollarar, andvirði 544.765 kr. á eyðublaði nr. 1891496, sagðan gefinn út 19. maí á bankann Foundrs Federal Credit Union, af hálfu Express Company Inc., Minneapolis, til ákærða Timothy Claude.

3)         Þann 30 maí í útibúinu við Strandgötu 1, Akureyri, tékka að fjárhæð 3.500 bandarískir dollara, andvirði 225.925 kr. á eyðublaði nr. 1891501, sagðan  gefinn út 23. maí 2005 af hálfu bankans Founders Federal Credit Union, af hálfu Express Comapany Inc., Minneapolis, til ákærða Timothy Claude.

4)         Þann 7. júní Austurbæjarútibúi bankans, Laugavegi 77, tékka að fjárhæð 9.500 bandarískir dollarar, andvirði 608.665 kr. á eyðublaði nr. 162 sagðan gefinn út 31. maí 2005 af hálfu bankans Wachovia, Raleigh, NC 27616, til ákærða Timothy Claude.

5)         Þann 30. maí í Austurbæjarútibúi, Laugavegi 77, tékka að fjárhæð 7.500 bandarískir dollarar, andvirði 483.150 kr. á eyðublaði nr. 506644, sagðan gefinn út 24. maí 2005 af hálfu bankans Chase, Lexington Avenue, New York, til Suzanne Claire Hydon.

6)         Þann 2. júní í Austurbæjarútibúi, Laugavegi 77, tékka að fjárhæð 7.500 bandarískir dollarar, andvirði 489.327 kr., á eyðublaði nr. 506649, sagðan gefinn út 26. maí 2005 af hálfu bankans Chase til Suzanne Claire Hydon.

B.              Tékkar innleystir í útibúum Íslandsbanka,  Ákærði Timothy Claude framseldi alla tékkana nema þann síðastgreinda, sem ákærða Suzanne framseldi með árituninni Suzanne Claire Hydon.

1)                   Þann 20. maí í útibúinu að Lækjargötu 12, tékka að fjárhæð 900 bandarískir dollarar, andvirði 57.671 kr., á eyðublaði nr. 506642, sagðan gefinn út 5. maí 2005 af hálfu bankans Chase til ákærða Timothy Claude.

2)                   Þann 26. maí í útibúinu við Garðatorg 7, Garðakaupstað, tékka að fjárhæð 1.000 bandarískir dollarar, andvirði 69.047 kr., á eyðyblaði nr. 1891498 sagðan gefinn út 20. maí 2005 af hálfu bankans Chase til ákærða Timothy Claude.

3)                   Þann 24. maí í útibúinu við Háaleiltisbraut 58, tékka að fjárhæð 1.200 bandarískir dollarar, að andvirði 76.830 kr., á eyðublaði nr. 1891502, sagðan gefinn út 24. maí af bankanumm Founders Federal Credit Union til ákærða Timothy Claude.

4)                   Þann 7. júní í útibúi í Hamraborg 14, Kópavogi, tékka að fjárhæð 1.300 bandarískir dollarar, andvirði 82.825 kr., á eyðublaði nr. 163, sagðan gefinn út 1. júní 2005 af bankanum Wachovia til ákærða Timothy Claude.

5)                   Þann 30. maí í útibúi í Skútuvogi 11, að fjárhæð 1.000 bandarískir dollarar, 64.077 kr., á eyðublaði nr. 506645 sagðan gefinn út 20. maí 2005 af bankanum Chase til Suzanne Claire Hydon.

Telst þetta varða við l. mgr. 155. gr. almennra hegingarlaga.

Þess er krafist, að ákærðu verði dæmd til refsingar.

Í málinu krefjast eftirgreindir þess að ákærðu verði dæmd til greiðslu skaðabóta:

Landsbanki Íslands skaðabóta að fjárhæð 2.953.757 kr. auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr., vaxtalaga nr. 38, 2001 að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar til greiðsludags.

Bílaleigan Geysir ehf., kt. 661093-2699 skaðabóta að fjárhæð 4.471.000 kr.

Íslandsbanki skaðabóta úr hendi ákærðu Suzanne Hyns að fjárhæð 64.077 kr. auk dráttarvaxta samkvæmt 3. kafla vaxtalaga frá 7. maí 2005.

Íslandsbanki skaðabóta úr hendi ákærða Timothy Claude að fjárhæð 281.373 kr. auk dráttarvaxta samkvæmt 3. kafla vaxtalalga frá 7. maí 2005.”

Undir aðalmeðferð málsins féll ákæruvaldið frá 1. tl. A-liðar IV. kafla ákæru og 1. tl. B-liðar sama kafla ákæru að því er varðar ákærðu Suzanne.

Leiðrétt var ritvilla í niðurlagi III. kafla ákæru þar sem segir að ákærðu hafi verið handtekin í Danmörku 16. júní þar sem á að standa 11. júní.

Undir aðalmeðferð málsins var skaðabótakrafa Landsbanka Íslands lækkuð um 606.023 krónur.

Verjandi ákærða Timothys krefst aðallega sýknu og að bótakröfum verði vísað frá dómi. Til vara vægustu refsingar, sem lög leyfa og að sýknað verði af bótakröfum. Komi til refsivistar er þess krafist að gæsluvarðhaldsvist ákærða komi til frádráttar með fullri dagatölu.  Málsvarnarlauna er krafist að mati dómsins.

Verjandi ákærðu Suzanne krefst vægustu refsingar sem lög leyfa.  Komi til fangelsisrefsingar er þess krafist að hún verði skilorðsbundin. Komi til óskilorðsbundinnar refsivistar er þess krafist að gæsluvarðhaldsvist ákærðu komi til frádráttar með fullri dagatölu.  Þess er aðallega krafist að öllum bótakröfum á hendur ákærðu verði vísað frá dómi, en til vara að sýknað verði af þeim og til þrautavara er krafist lækkunar að mati dómsins. Þess er krafist að allur sakarkostnaður, þar með talin málsvarnarlaun, verði greidd úr ríkissjóði að mati dómsins.

Upphaf máls þessa má rekja til kæru Landsbanka Íslands, dags. 10. júní sl., þar sem bankinn leggur fram kæru á hendur ákærða Timothy vegna tékkanna, sem lýst er í 1. og 2. tölulið a liðar IV. kafla ákæru.  Segir í kærunni að við athugun á tékkunum, sem þar greinir, hafi komið í ljós að þeir væru falsaðir og samkvæmt upplýsingum frá Bandaríkjunum séu tékkarnir falsaðir að öllu leyti.

Með kæru, dags. 14. júní sl., kærði Íslandsbanki bæði ákærðu vegna tékka, sem lýst er í b-lið IV. kafla ákærunnar.

Hinn 10. júní sl. var gefin út handtökuskipun á hendur báðum ákærðu, sem voru handtekin í Danmörku 11. s.m.  Bæði voru send hingað til lands vegna rannsóknar málsins 16. júní og úrskurðuð í gæsluvarðhald sama dag, sem bæði sæta enn. 

Verður nú vikið að einstökum ákæruliðum og rakinn framburður ákærðu og vitnisburður fyrir dómi.

Ákæruliður I.

Ákærða neitar sök.  Kvað hún unnusta sinn, búsettan í London, hafa útvegað sér vegabréfið, sem hér um ræðir eftir að hún bað hann um það. Hún kvað unnusta sinn vera lögreglumann.  Kvaðst ákærða ekki vita til þess að  vegabréfið væri falsað eins og lýst er í ákærunni. 

Eftir að ákærðu var greint frá því hjá lögreglunni, að samkvæmt upplýsingum frá breskum yfirvöldum væri nafnið Suzanne Hyns ekki að finna á skrá þar í landi, kvaðst hún hafa líberískt ríkisfang og hennar rétta nafn væri Suzanne Hyns.  Hún staðfesti þetta fyrir dóminum og að nafið á vegabréfinu væri ekki hennar rétta nafn. 

Niðurstaða ákæruliðar I.

Fyrir liggur rannsókn lögreglunnar á vegabréfinu sem hér um ræðir.  Er þar ítarlega lýst rannsókn, sem fram fór og í niðurstöðunni segir að vegabréf ákærðu hafi verið breytifalsað, sem í þessu tilviki merki að upplýsingasíða vegabréfsins sé fölsuð, en að öðru leyti sé vegabréfið ófalsað.  Þá er því lýst að upprunaleg mynd í vegabréfinu hafi verið skorin úr, en mynd af ákærðu sett í staðin. Kemur þetta vel fram á ljómyndum og að mati dómsins er augljóst af rannsókninni, sem gerð var á vegabréfinu, að það er falsað eins og lýst er í ákærunni.  Breska sendiráðið í Reykjavík staðfesti með bréfi, dags. 14. júní sl., að breska vegabréfið með sama númeri og vegabréf, sem ákærða notaði, hafi verið tilkynnt stolið á árinu 2001.

Með því sem nú hefur verið rakið og með framburði ákærðu að hluta, en að hluta gegn neitun hennar, er sannað að hún hafi gerst sek um háttsemi þá, sem hér er ákært fyrir og er brot hennar rétt fært til refsiákvæða í ákærunni.

Ákæruliður II.

Ákærði Timothy kvaðst hafa komið hingað til lands í því skyni að stofnsetja hér fataverslun, en hann kvaðst reka slíka verslun í Bandaríkjunum og væri að athuga að setja upp verslun einnig í Danmörku og í Færeyjum.  Kvaðst hann hafa komist í samband við meðákærðu á netinu, en fyrst hitt hana hér á landi. 

Ákærði neitar sök.  Kvaðst hann hafa tekið bílinn, sem hér um ræðir, á leigu með samningi við bílaleiguna hinn 1. júní sl.  Ákærði kvaðst hafa greint leigusalanum frá því að hann ætlaði í langa ferð.  Eftir að ákærði hafði tekið bílinn á leigu hafi kunningi ákærða hringt í hann og greint honum svo frá að hann myndi fljúga frá Bandaríkjunum til Kaupmannahafnar og hafi ákærði þá ákveðið að nota tækifærið og halda til Danmerkur með ferjunni, eins og í þessum ákærulið greinir, í því skyni að hitta þennan mann, T að nafni.  Kvaðst ákærði hafa látið T hafa bifreiðina, sem hér um ræðir til nota ytra, en sjálfur hafi ákærði haldið flugleiðis aftur hingað til lands, en erindið hafi verið að funda með manni frá Jamaíka hér á landi, en fundarefnið hafi, að sögn ákærða, verið viðskipti.  Ákærði kvaðst hafa haft samband við starfsmann bílaleigunnar er hann var staddur í Danmörku og rætt um framlengingu á samningnum og að hann myndi hafa bílinn á leigu nokkrum dögum lengur en um var samið samkvæmt samningnum en samkvæmt honum átti að skila bílnum 15. júní sl.  Hafi ákærða verið sagt að það væri í lagi svo lengi sem hann skilaði bílnum.  Ákærði kvað hafa vakað fyrir sér að taka við bifreiðinni, sem hér um ræðir, hjá T, sem fengi í staðinn bifreiðina, sem lýst er í ákærulið III.  Hafi ákærði þannig ætlað með fyrri bifreiðina hingað til lands með ferjunni með tveggja daga viðkomu í Færeyjum, þar sem hann kvaðst hafa ætlað að sinna viðskiptaerindum en halda að því loknu hingað til lands og skila bifreiðinni. 

Ákærði kvaðst hafa gert ráðstafanir varðandi það að T, sem hefur lyklana af bifreiðinni undir höndum, sendi lyklana til kunningjakonu ákærða í Englandi. Hún  ætli síðan að hafa samband við verjanda ákærða og fá upplýsingar um það hvar skila ætti lyklunum.

Ákærði kvaðst hafa það eftir kunningja sínum að bifreiðin væri nú á bifreiðastæði skammt frá hótelinu, þar sem ákærði dvaldi í Kaupmannahöfn. 

Vitnið Þ, starfsmaður bílaleigunnar Geysis,  lýsti því er ákærði Timothy tók bifreiðina, sem hér um ræðir á leigu.  Þ kvað ákærða hafa greitt 140.000 krónur í reiðufé vegna leigunnar og gerður hafi verið leigusamningur, sem liggur fyrir meðal gagna málsins.  Ákærða hafi verið heimill ótakmarkaður akstur.  Þ kvað ákærða hafa haft orð á því að hann ætlaði að ferðast vestur á land og hafi hann nefnt Snæfellsnes í þessu sambandi. Er Þ sýndi ákærða Íslandskort hafi ákærði bent á Grundarfjörð.  Þ kvað ákærða hafa hringt í bílaleiguna nokkrum dögum síðar og beðið um kveðju til sín.  Hann kvað ekki hafa borið á góma að ákærði hygðist fara með bílinn úr landi.

Vitnið J, starfsmaður bílaleigunnar Geysis, lýsti því er ákærði Timothy hringdi í síma sem tilheyrði bílaleigunni og spurðist fyrir um Þ, sem leigt hefði ákærða bifreiðina.  Símtalið var utan venjulegs vinnutíma og hafi ákærði því ekki náð sambandi við Þ, en þá beðið um kveðju til hans.  Ákærði hafi ekki greint vitninu frá því að bifreiðin hefði verið flutt úr landi.

Niðurstaða ákæruliðar II.

Ákærði neitar sök.  Framburður hans um þennan ákærulið og um ákærulið III er með fullkomnum ólíkindum.  Vísað er til þess, sem að framan var rakið um þetta.  Ekki ræður úrslitum eins og hér stendur á þótt ekki hafi verið tekið fram í leigusamningi að ekki mætti fara með bifreiðina úr landi.  Er málavextir og sönnunargögn eru metin heildstætt að öðru leyti er það er álit dómsins að ákærði hafi slegið eign sinni á bifreiðina hér á landi.  Hvorugt vitnanna, Þ og J, vissu að ákærði færi með bílinn úr landi. J kvað sér ekki hafa verið greint frá því er hann ræddi við ákærða í síma að ákærði hefði farið með bílinn úr landi.  Samkvæmt vitnisburði Þ gaf ákærði í skyn að hann hygðist ferðast innanlands og nefndi ákveðna staði í því sambandi.  Daginn eftir fór ákærði hins vegar með bifreiðina úr landi.  Hann kvaðst hafa afhent hana kunningja sínum ytra til afnota og hefur bíllinn ekki enn komist til skila, þótt ákærði segist geta komið því til leiðar. 

Þegar allt ofanritað er virt telur dómurinn að ákærði hafi tekið bifreiðina á leigu með auðgunarásetning í huga og að ákærði hafi slegið eign sinni á bifreiðina allt eins og í þessum ákærulið greinir. 

Er með öllu ofanrituðu sannað gegn neitun ákærða, að hann hafi gerst sekur um háttsemi þá, sem í þessum ákærulið greinir svo varði við 248. gr. almennra hegningarlaga.

Ákæruliður III.

Ákærði Timothy neitar sök.  Hann kvaðst hafa tekið bifreiðina á leigu, eins og lýst er í þessum ákærulið. Hann hafi hins vegar ætlað að skila henni aftur, en ekki getað það, þar sem hann hafi verið handtekinn í Danmörku 11. júní.  Ákærði kvaðst ekki hafa fjarlægt merkingar á bifreiðinni, sem var merkt bílaleigunni.  Hann hafi hins vegar farið með bifreiðina á bílaþvottastöð, en hann hafi ekki tekið eftir því hvort bifreiðin var merkt.  Að öðru leyti má vísa til þess sem rakið var undir ákærulið II varðandi bifreiðina, sem hér um ræðir, og fyrirætlan ákærða varðandi ráðstöfun á notkun beggja bílanna.

Ákærða Suzanne neitar sök.  Hún kvaðst engan þátt hafa átt í því að taka bílinn sem hér um ræðir á leigu, en hún kvað meðákærða hafa greint sér frá því að þau þyrftu að koma aftur til landsins og skila bifreiðinni. Ákærða kvað allt varðandi þessa bifreið hafa verið mál meðákærða og varðaði ákærðu ekki og hún hafi aldrei ætlað að slá eign sinni á bifreiðina.  Ákærða kvaðst hafa séð bílinn sama dag og þau meðákærði héldu af stað í ferðalagið í ferjuna, en hún kvaðst ekki hafa veitt neinum merkingum á bifreiðinni athygli.  Ákærða kvaðst hafa farið með ákærða í ferðina til Danmerkur vegna þess að hún hafi átt afmæli.  Þetta hafi verið eini tilgangur hennar með ferðinni, en meðákærði hafi greint henni frá því að hann ætti kunningja í Danmörku, sem þau gætu hitt.  Hún kvaðst hafa pantað ferðina fyrir bæði ákærðu til Danmerkur og til baka aftur.  Hún kvað þau meðákærða hafa ætlað að stunda fataviðskipti hér á landi og til hafi staðið að ákærða keypti fatnað til að selja hér.

Vitnið G, starfsmaður bílaleigunnar Átaks, kvað ákærða Timothy hafa hringt og beðið um jeppa á leigu í hálfan mánuð.  Er í ljós kom að ekki var, eins og á stóð, unnt að verða við ósk ákærða hafi hann hætt við leiguna. Nokkrum dögum síðar hafi ákærði hringt aftur og enn pantað Land Cruiser jeppa á leigu.  G kvað slíkan bíl nú hafa verið til taks og hafi ákærði verið sóttur á BSÍ sama dag og leigusamningur sem liggur frammi var gerður, en þetta var 8. júní, og átti  að skila bílnum aftur 22. s.m.  Ekki hafi verið minnst á að ákærði ætlaði með bílinn úr landi.  Ákærði hafi greitt 177.000 krónur í reiðufé fyrir bílinn.  G kvað ekki kveðið á um það í leiguskilmálum að ekki megi fara með leigðan bíl úr landi.  Ekki hafi verið talin þörf á því, þar sem bílaleigubílar séu fremur dýrir á Íslandi.  Hún kvað ákærðu Suzanne ekki hafa komið við sögu er bifreiðin var tekin á leigu. G kvað bílinn, sem hér um ræðir, hafa verið merktan bílaleigunni Átaki á mörgum stöðum og lýsti hún því nánar.  Er bílnum var skilað hafi verið búið að fjarlægja allar merkingarnar.

Vitnið Ö skjólastjóri lýsti því að ákærði Timothy skráði sig á námskeið í málaskóla, sem vitnið rekur, en skráningin hafi átt sér stað um það bil þremur vikum áður en námskeiðið átti að hefjast, sem var 6. júní sl.  Þá kvað Ö ákærðu Suzanne hafa komið um 10 dögum síðar og skráð sig á sama hátt á námskeið, en hún hafi sagst vera að leita sér að vinnu hér á landi.  Kvaðst Ö hafa skrifað upp á umsóknareyðublað fyrir bæði ákærðu, en eyðublaðið hafi verið til Hagstofu til að fá kennitölu.  Hvourgt ákærðu hafi komið á námskeiðið.

Niðurstaða ákæruliðar III.

Bæði ákæru neita sök.  Eins og rakið var í niðurstöðukafla ákæruliðar II er allur framburður ákærða Timothys um leigu bílanna, sem í þessum tveimur ákæruliðum greinir, flutning þeirra til Danmerkur með ferjunni og skýringar á þessu háttalagi reifarakenndur og að engu hafandi.  Bifreiðin, sem hér um ræðir, komst til skila, en þá var búið að fjarlægja allar merkingar á henni.  Með sömu rökum og í ákærulið II greinir telur dómurinn sannað gegn neitun ákærða, að hann hafi gerst sekur um háttsemina sem hér um ræðir og er brot hans rétt færð til refsiákvæðis í ákærunni.

Ákærða Suzanne pantaði farið fyrir bæði ákærða með ferjunni og fóru þau saman með henni.  Þrátt fyrir þetta og gegn eindreginni neitun ákærðu Suzanne er ósannað að hún hafi vitað hvað fyrir ákærða vakti með töku bílsins á leigu og för hans með bílinn úr landi.  Ber samkvæmt þessu að sýkna ákærðu Suzanne af þessum ákærulið.

Ákæruliður IV. A-liður.

Ákærði Timothy neitar sök.  Hann kvað T hafa sent fjóra fyrst greindu tékkana, sem hér um ræðir senda hingað til lands frá Bandaríkjunum, en T hafi afhent ákærða tvo síðast greindu tékkana er þeir hittust í Danmörku, en að beiðni ákærða hafi tveir síðast greindu tékkarnir verið stílaðir á nafn meðákærðu.  Ákærði neitaði því þannig að hafa falsað tékkana.  Hann kvaðst hafa framselt fjóra fyrstu tékkana, eins og lýst er í þessum ákærulið, en meðákærða Suzanne hafi framselt hina tvo síðast greindu, en ákærði kvaðst hafa afhent henni tékkana í þessu skyni.  Ákærði kvað ástæðu þess að tékkarnir fengust ekki innleystir í bönkum í Bandaríkjunum hafa verið þá, að rangt númer sé á tölvurönd neðst á tékkunum. Síðar bar hann að reikningsnúmer tékkana væru ekki rétt.  Ekki liggur fyrir hvort ákærði er þarna að ræða um sama hlut. Þetta hafi komið til vegna forrits, sem notað sé til að prenta út tékkaformið, eftir því sem skilja mátti á honum.  Hann kvað þannig ástæðu þess að tékkarnir fengust ekki innleystir í Bandaríkjunum annað hvort vera sökum þess að vitlaust númer hafi verið slegið inn við útgáfu þeirra, eða galli í tölvuforritinu, sem notað var við prentun tékkana.  Þessi sjónarmið eigi við um alla ellefu tékkana, sem í ákæru greinir. 

Ákærða var á það bent að samkvæmt niðurstöðu lögreglurannsóknar á tölvu, sem lagt var hald á í fórum ákærða, hafi verið talið að tékkarnir hafi verið prentaðir úr tölvu ákærða.  Þessu neitaði ákærði. 

Ákærði kvað hafa staðið til að nota söluandvirði tékkana til að koma á fót fyrirtækjum hér landi, í Færeyjum og Danmörku og þá hafi meðákærða fengið peninga í því skyni að fara til Ítalíu til að kaupa inn fatnað.

Ákærði Timothy kvað meðákærðu Suzanne ekki hafa átt þátt í útgáfu tékkana, sem hér um ræðir.  Hann kvað það hafa verið sameiginlega ákvörðun þeirra T að láta meðákærðu hafa peninga í því skyni að afla viðskiptasambanda á Ítalíu.  Þá kvað ákærði Suzanne ekki hafa komið við sögu varðandi meðferð fyrstu fjóra tékkana í þessum ákærulið.

Undir aðalmeðferð málsins var ákærða Timothy veittur frestur í því skyni að afla gagna frá Bandaríkjunum vegn allra ellefu tékkana, sem ákært er út af.  Faxbréf með eikennum Founders  var lagt fram af ákærða. Þar segir að allir ellefu tékkarnir hafi verið gefnir út af Founders. Fyrir liggur að aðeins hluti tékkanna sem hér um ræðir eru frá Founders og aðeins hluti þeirra er stílaður á ákærða Timothy. Þá er því lýst að mistök hafi átt sér stað varðandi reikningsnúmer á tékkunum. Þá segir í bréfinu:,,But our bank has got enough money to cover the check issued to MR. NEWKIRK“. Þá er því lýst að til frekari upplýsinga skuli haft samband við ,,Mr. SB”.  Ákærði greindi svo frá að SB væri unnusta margnefnds T. Skjalið er allt með ólíkindum, bæði að efni og formi.

Ákærða Suzanne neitar sök.  Hún kvaðst ekkert hafa haft með fyrstu fjóra tékkana að gera og ekki hafa verið með meðákærða er hann framvísaði þeim í banka. Hún kvaðst hins vegar hafa framselt tvo síðast greindu tékkana og meðákærði hafi afhent henni þessa tékka eftir að ákærða lýsti áhuga sínum á því að stunda viðskipti hér á landi og hafi þau ákærðu haft hug á því að stofna hér fyrirtæki.  Meðákærði hafi sagt að hann hefði næga peninga og hafi hann afhent ákærðu þessa tvo tékka til að leggja inn á bankareikning hennar.  Hún kvaðst ekki hafa vitað að tékkarnir væru falsaðir.

Vitnið Frímann Birgir Baldursson rannsóknarlögreglumaður staðfesti og skýrði gögn, sem unnin voru úr tölvu, sem lagt var hald á í fórum ákærða Timothys.  Frímann lýsti því að lítið hafi verið inni á tölvunni annað en grunnuppsetning auk tveggja eða þriggja forrita, sem eru til útprentunar á tékkum.  Þá hafi sést af gögnunum að prentaðar hafi verið út nokkrar ávísanir á nafn Timothy Claude Newkirk.  Ekkert hafi komið fram um að hugbúnaðurinn væri ólöglegur.

Lögreglan vann tæknirannsókn á tékkunum, sem hér um ræðir.  Rannsakað var hvort undirritun gjaldkera á tékkana hafi átt sér stað á hvern tékka fyrir sig, hvort samskonar pappír væri í tékkunum og í öðrum örkum, sem fundust í fórum ákærða Timothys undir rannsókn málsins og loks hvort öryggisatriði á tékkunum væru til staðar.  Í niðurstöðu rannsóknarinnar segir að með rannsóknaraðferðum, sem lýst er í skýrslu lögreglunnar dags. 25. júní 2005, að ávísanirnar sem lýst er í ákæruliðum 1 til 3, 5 og 6 í þessum tölulið ákæru, hafi allar verið undirritaðar eftir að tékkarnir voru prentaðir út.  Þá segir að rannsóknin hafi leitt í ljós að pappír í þessum ávísunum væri eins og pappír í óútfylltum ávísunarblöðum, sem fundust í fórum ákærða Timothys, bæði hvað varðaði gæði og öryggisatriði.

Magnús Kristinsson aðalvarðstjóri vann þessa rannsókn.  Hann kom fyrir dóminn og staðfesti hana og skýrði.

Vitnið ÞG, deildarstjóri hjá Landsbanka Íslands, lýsti því hvernig erlendir tékkar eins og hér um ræðir eru meðhöndlaðir í bankanum og hvernig staðið er að innheimtu þeirra.  Ekki er þörf á að rekja það.  ÞG kvað afdráttarlaust að samkvæmt upplýsingum frá hinum erlendu bönkum, sem þessir tékkar eru sagðir frá, að tékkarnir sem í þessum ákærulið greinir væru allir falsaðir frá grunni. Skýrði ÞG þetta nánar varðandi einstaka tékka.

Sigurður Árnason, tæknimaður hjá lögreglunni, rannsakaði innihald tölvu, sem lagt var hald á fórum ákærða Timothys.  Hann skýrði gögn, sem prentuð voru úr tölvunni.  Meðal annars var þar að finna form frá bönkum, sem hér um ræðir, skjásnið fyrir tékkana, sem í þessum ákærulið greinir og listi sem sýnir hvenær tékkarnir voru prentaðir.

Vitnið BG, fulltrúi Landsbankans, lýsti því er tékkarnir, sem lýst er í 1. og 2. tl. þessa ákæruliða voru keyptir af ákærða Timothy og andvirði lagt inn á reikning hans í bankanum.

Vitnið Jens Hilmarsson rannsóknarlögreglumaður lýsti því að nafnið SB, sem fram kom  á skjalinu, sem ákærði aflaði frá Bandaríkjunum og áður var vikið að hafi verið í farsíma ákærða og á miða, sem fannst í fórum hans. Hafi þessi upplýsingar komið fram við rannsóknina er unnið var að því að afla upplýsinga, sem kynnu að leiða til þess að bifreiðinni, sem lýst er í II. kafla ákæru yrði skilað.

Niðurstaða ákæruliðar IV A.

Ákærðu neita bæði sök.  Framburður ákærða Timothys er mjög ótrúverðugur um þennan ákærulið.  Hann aflaði gagna, sem hann kvað sýna að öllum tékkunum, sem ákært er út af, hafi verið hafnað af ástæðum sem raktar voru.  Skjalið sem ákærði aflaði að þessu leyti, og sem vikið var að, og sagt er frá Founders bankanum er óstaðfest utanréttarvottorð að engu hafandi, en eins og rakið var er þar gefið upp nafn á konu, sem ákærði kvað unnustu T viðskiptafélaga síns.  Allt er þetta með ólíkindum.

Dómurinn telur sannað með rannsókn á tékkunum og lýst var og með vitnisburði lögreglumannanna, sem unnu þessa rannsókn og skoðuðu gögn í tölvu, sem fannst í fórum ákærða Timothys, með vitnisburði ÞG og með öðrum gögnum málsins, en gegn neitun ákærða Timothys, að hann hafi gerst sekur um háttsemi þá, sem hér um ræðir og eru brot hans rétt færð til refsiákvæðis í ákærunni.

Fallið hefur verið frá 1. lið þessa ákæruliðar á hendur ákærðu Suzanne.  Ekkert liggur fyrir um það að ákærða hafi falsað tékka samkvæmt þessum ákærulið.  Þá liggur ekkert fyrir um það gegn eindreginni neitun hennar að hún hafi vitað að tékkarnir voru falsaðir er hún framvísaði tékkum samkvæmt liðum nr. 5 og 6.  Þá hafa bæði ákærðu borið að ákærða Suzanne hafi ekki verið með í för er ákærði Timothy framvísaði öðrum tékkum samkvæmt þessum ákærulið. Engin vitni hafa borið um þetta.

Þótt framburður ákærðu Suzanne sé um margt mjög ótrúverðugur er að öllu ofanrituðu virtu ósannað gegn eindreginni neitun hennar að hún hafi gerst sek um háttsemi, sem hér um ræðir og ber að sýkna hana af þessum ákærulið.

Ákæruliður IV. B-liður.

Ákærði Timothy neitar sök, en kannaðist við alla tékkana, sem hér um ræðir.  Hann kvað T ýmist hafa sent sér þá hingað til lands frá Bandaríkjunum, eða afhent sér þá í Danmörku.  Ákærði kvað sömu sjónarmið eiga við um tékkana í þessum ákærulið og í A-liðnum hér að framan um ástæðu þess, að tékkarnir fengust ekki innleystir og um fyrirhugaða ráðstöfun andvirðis þeirra. Ákærði kvað meðákærðu Suzanne hafa framvísað síðasta tékkanum, en ákærði hinum og kvað hann meðákærðu ekki hafa komið nærri fjórum fyrst greindu tékkunum.

Ákærða Suzanne neitar sök.  Hún kvað sömu sjónarmið eiga við varðandi þennan ákærulið og hinn næsta hér á undan og má vísa til þess, sem þar var rakið, en hún kvaðst hafa framvísað síðasta tékkanum, sem hér er ákært út af, en ekkert hafa með hina tékkana að gera og ekki hafa verið með meðákærða í för er hann framvísaði þeim.

Niðurstaða ákæruliðar IV B.

Ákærðu neita bæði sök.  Í kærubréfi Íslandsbanka dags. 14. júní 2005 segir að bankanum hafi borist tilkynning frá J.P. Morgan Chase Bank, New York, um að tékkarnir, sem hér um ræðir, verði ekki greiddir vegna ágalla á tékkunum.  Þá sést á frumriti tékkanna, utan tékka nr. 4, að þeir hafi verið áritaðir um fölsun (counterfeit).  Þá verður ekki betur séð en að nákvæmlega sama handbragð sé á þessum tékkum og þeim sem lýst var í ákæruliðnum næsta hér að framan.

Að öllu þessu virtu telur dómurinn sannað gegn neitun ákærða Timothys að hann hafi gerst sekur um háttsemi þá, sem í þessum ákærulið greinir, utan hann er sýknaður af tékka nr. 4, þar sem hann liggur ekki frammi í frumriti og engin gögn um ástæðu þess að hann fékkst ekki greiddur, liggja fyrir.

Með sömu röksemdum og rakin voru við ákærulið næsta hér að framan er ósannað að ákærða Suzanne hafi á saknæman hátt komið að máli þessu og ber að sýkna hana.

Gögn liggja frammi um það að fingraför ákærða Timothys svari til fingrafara sem tekin voru af manni, þá með öðru nafni, í Austurríki árið 1995. Einnig kemur fram að þessi maður hafi gengið undir sex öðrum nöfnum, þar á meðal Timothy Claude Newkirk. Þá bárust upplýsingar frá Svíþjóð um sömu fingraför manns sem þar bar enn annað nafn. Að öðru leyti liggur ekkert fyrir um sakaferil ákærðu.

Brot ákærða Timothys varða háar fjárhæðir og eru framin af styrkum og einbeittum brotavilja. Er þetta virt honum til refsiþyngingar. Refsing hans er ákvörðuð með hliðsjón af 77. gr. almennra hegningarlaga og þykir hún þannig hæfilega ákvörðuð fangelsi í 15 mánuði.

Refsing ákærðu Suzanne þykir hæfilega ákvörðuð fangelsi í 30 daga.

Ekki eru efni til að skilorðsbinda refsingu ákærðu.

Frá refsivist beggja skal draga gæsluvarðhald, sem hvort um sig hefur sætt vegna málsins, sbr. 76. gr. almennra hegningarlaga.

Ákærða Suzanne er sýknuð af háttsemi samkvæmt ákærulið IV B og ber samkvæmt því að vísa bótakröfu Íslandsbanka á hendur henni frá dómi.

Ákærði Timothy er bótaskyldur vegna háttsemi sinnar.  Skal hann greiða eftirtöldum aðilum skaðabætur auk vaxta eins og lýst er:

Landsbanka Íslands 2.347.734 krónur auk dráttarvaxta frá 6. ágúst 2005 að telja og til greiðsludags en þá hefur verið tekið tillit til lækkunar bótakröfunnar sem áður var lýst.

Bílaleigunni Geysi 4.471.000 krónur en það er verð bílsins sem lýst er í ákærulið II. Vaxta er ekki krafist.

Íslandsbanka 198.548 krónur, en þá hefur verið dregið frá andvirði tékkans samkvæmt ákærulið 4, sem sýknað var af. Ákærði greiði Íslandsbanka dráttavexti á framangreinda fjárhæð frá 6. ágúst 2005 að telja og til greiðsludags.

Ákærði Timothy greiði 400.000 króna verjanda- og málsvarnarlaun til Björns Þorra Viktorssonar héraðsdómslögmanns.

Ákærða Suzanne greiði 1/4 hluta af 400.000 króna verjanda- og málsvarnarlaunum til Sigmundar Hannessonar hæstaréttarlögmanns á móti 3/4 hlutum sem greiðast úr ríkissjóði.

Annan sakarkostnað leiddi ekki af máli þessu

Guðjón Magnússon, fulltrúi lögreglustjórans í Reykjavík, flutti málið fyrir ákæruvaldið.

Guðjón St. Marteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.

DÓMSORÐ:

Ákærði, Timothy Claude Newkirk, sæti fangelsi í 15 mánuði.

Ákærða, Suzanne Hyns, sæti fangelsi í 30 daga.

Frá refsingu beggja ákærðu skal draga gæsluvarðhald, sem hvort um sig hefur sætt vegna málsins.

Bótakröfu Íslandsbanka á hendur ákærðu Suzanne er vísað frá dómi.

Ákærði Timothy greiði eftirtöldum aðilum skaðabætur:

Landsbanka Íslands 2.347.734 krónur auk dráttarvaxta frá 6. ágúst 2005 að telja og til greiðsludags.

Bílaleigunni Geysi 4.471.000 krónur.

Íslandsbanka 198.548 krónur auk dráttarvaxta frá 6. ágúst 2005 að telja og til greiðsludags.

Ákærði Timothy greiði 400.000 króna verjanda- og og málsvarnarlaun til Björns Þorra Viktorssonar héraðsdómslögmanns.

Ákærða Suzanne greiði 1/4 hluta af 400.000 króna verjanda- og málsvarnarlaunum til Sigmundar Hannessonar hæstaréttarlögmanns á móti 3/4 hlutum, sem greiðast úr ríkissjóði.