Hæstiréttur íslands
Mál nr. 75/2003
Lykilorð
- Kynferðisbrot
- Miskabætur
|
|
Miðvikudaginn 28. maí 2003. |
|
Nr. 75/2003. |
Ákæruvaldið(Sigríður Jósefsdóttir saksóknari) gegn Jóhannesi Helga Ásgeirssyni (Björn Ólafur Hallgrímsson hrl.)
|
Kynferðisbrot. Miskabætur.
J var ákærður fyrir kynferðisbrot með því að hafa haft samræði við X á meðan hún gat ekki spornað við verknaðinum sökum ölvunar og svefndrunga. Í héraðsdómi var talið sannað að J hefði gerst sekur um þessa háttsemi og var hann því sakfelldur fyrir brot gegn 196. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Í Hæstarétti var tekið fram að af gögnum málsins yrði ráðið að X hefði gert J skýrlega grein fyrir því, að hún vildi ekki hafa við hann mök við þær aðstæður sem voru fyrir hendi umrætt sinn. Hefði honum mátt vera ljóst, þrátt fyrir vinsamleg samskipti þeirra áður en þau lögðust til svefns, hver vilji hennar var í þessu efni. Þótti því sýnt að J hefði gegnið lengra en hann hafði ástæðu til að ætla sér heimilt, þegar stúlkan var sofandi og notfært sér þannig svefndrunga hennar vegna þreytu og undanfarandi áfengisdrykkju til að koma fram vilja sínum. Var dómur héraðsdóms um 6 mánaða fangelsi staðfestur um annað en skaðabætur sem þóttu hæfilega ákveðnar 300.000 krónur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 19. febrúar 2003 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar á sakfellingu héraðsdóms, þyngingar á refsingu ákærða og hækkunar dæmdra miskabóta í 600.000 krónur ásamt dráttarvöxtum, eins og greinir í ákæru.
Ákærði krefst þess aðallega, að hann verði sýknaður af refsikröfu ákæruvaldsins og bótakröfu vísað frá dómi. Til vara er þess krafist, að refsing verði milduð og skilorðsbundin og ákærði sýknaður af bótakröfu eða hún lækkuð verulega. Þá er jafnframt sett fram krafa um ómerkingu héraðsdóms og heimvísun málsins.
Fyrir Hæstarétt hefur verið lagt vottorð Heiðdísar Sigurðardóttur sálfræðings frá 14. maí 2003 um líðan kæranda, er komið hafi til fjögurra viðtala við sálfræðinginn á þessu ári til viðbótar þeim, sem frá er greint í héraðsdómi. Að auki eru upplýsingar byggðar á prófunum á geðlægð og streituviðbrögðum í kjölfar áfalla, sem lögð voru fyrir kæranda 8. og 12. maí sl. Í vottorðinu segir, að athugun leiði í ljós einkenni áfallaröskunar, er lýsi sér í endurupplifunum, endurteknum hliðrunarviðbrögðum og viðvarandi einkennum aukinnar örvunar. Auk þessara einkenna komi fram hjá stúlkunni depurð, miklar tilfinningasveiflur og sé áberandi stutt í grát. Tilfinningaleg vanlíðan sé til staðar hjá henni og þörf sé á áframhaldandi meðferð.
Af gögnum málsins verður ráðið, að kærandi hafi gert ákærða skýrlega grein fyrir því, að hún vildi ekki hafa við hann mök við þær aðstæður, sem fyrir hendi voru umrætt sinn. Þrátt fyrir vinsamleg samskipti þeirra, áður en þau lögðust til svefns, mátti honum vera ljóst, hver vilji hennar var í þessu efni. Er því sýnt, að hann hafi gengið lengra en hann hafði ástæðu til að ætla sér heimilt, þegar stúlkan var sofandi, og notfært sér þannig svefndrunga hennar vegna þreytu og undanfarandi áfengisdrykkju til að koma fram vilja sínum.
Með þessum athugasemdum og annars með skírskotun til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur um annað en miskabætur til brotaþola, sem þykja hæfilega ákveðnar 300.000 krónur.
Ákærði skal greiða áfrýjunarkostnað sakarinnar, eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en fjárhæð miskabóta, sem ákveðin er 300.000 krónur.
Ákærði skal greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Björns Ólafs Hallgrímssonar hæstaréttarlögmanns, 250.000 krónur, og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Sifjar Konráðsdóttur hæstaréttarlögmanns, 125.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 29. janúar 2003.
Mál þetta, sem dómtekið var 9. janúar sl., er höfðað samkvæmt ákæru útgefinni af ríkissaksóknara 7. júní 2002 á hendur Jóhannesi Helga Ásgeirssyni, [...] fyrir kynferðisbrot með því að hafa að morgni laugardagsins 21. júlí 2001, í svefnherbergi íbúðar að [...], haft samræði við X, og við það notfært sér það að X gat ekki spornað við verknaðinum sökum ölvunar og svefndrunga.
Þetta er talið varða við 196. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 40/1992.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.
Af hálfu ákærða er þess krafist aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum ákæruvaldsins. Til vara að honum verði ekki gerð refsing, en að ákvörðun refsingar verði að öðrum kosti frestað skilorðsbundið. Til þrautavara er þess krafist að ákærða verði dæmd svo væg refsing sem lög framast heimila og að fullnustu verði þá frestað skilorðsbundið. Krafist er frávísunar skaðabótakröfu og er henni mótmælt sem órökstuddri og of hárri. Til vara er krafist sýknu af bótakröfu og til þrautavara að kröfufjárhæð verði lækkuð mjög verulega. Krafist er hæfilegra málsvarnarlauna til handa skipuðum verjanda, auk virðisaukaskatts, samkvæmt framlagðri tímaskýrslu. Þess er loks krafist að allur sakarkostnaður verði greiddur úr ríkissjóði ef aðalkrafa um sýknu verður tekin til greina, en ella að sakarkostnaði verði skipt hæfilega að mati réttarins.
X krefst miskabóta að fjárhæð 600.000 krónur auk dráttarvaxta skv. III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá 21. júlí 2001 til greiðsludags, auk málskostnaðar samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi að viðbættum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun.
Málsatvik og sönnunarfærsla.
Hinn 24. júlí 2001 kærði X fædd 1981 kynferðisbrot ákærða aðfaranótt 21. sama mánaðar. Hún kvaðst hafa farið út með vinkonum sínum D og C föstudagskvöldið 20. júlí og fengið leyfi C til að gista hjá henni, þar sem C bjó í miðbænum en kærandi í [...]. Þær urðu ekki samferða í íbúðina og var C sofandi þegar kærandi kom þangað. Kvaðst hún hafa lagt sig í sama rúm, sem er stórt vatnsrúm. Stuttu síðar hringdi ákærði, sem var fyrrverandi kærasti C, og svaraði kærandi símanum þar sem C vaknaði ekki. Var ákærði þá á leið í bæinn utan af landi og kvaðst ætla að koma. Höfðu þau C áður talað um að hann kæmi. Kærandi og ákærði þekktust ekki fyrir. Kærandi heldur því fram að ákærði hafi komið um klukkan sex, hann hafi verið ágengur og komið í veg fyrir að hún gæti sofnað í um þrjá klukkutíma. Kveðst hún loks hafa sofnað um klukkan níu og vaknað um hálftíma síðar við það að ákærði var með lim sinn inni í kynfærum hennar. Ákærði kveðst hafa sofnað og vaknað við staðlausar ásakanir kæranda. Heldur hann því fram að hafi einhver mök átt sér stað þá hafi það verið í svefnástandi hans, eða að það hafi verið kærandi sem hafi misnotað hann kynferðislega.
Kærandi fór á Neyðarmóttöku Sjúkrahúss Reykjavíkur síðdegis sama dag og atvikið átti sér stað og var skoðuð þar af Jóhönnu Jónasdóttur lækni. Skráði læknirinn frásögn hennar af atburðinum og lýsingu á ástandi hennar. Þar kemur fram að kærandi sé yfirveguð, en þreytt og reiðist og gráti þegar hún rifji upp atburðinn, einnig að hún virðist „andlega stabíl.” Engin sýnileg merki séu um ofbeldi og skoðunin leiði ekki í ljós hvort samfarir hafi átt sér stað. Í skýrslu um endurkomu segir um kæranda, að hún óttist árásaraðilann, finni til sektarkenndar eða blygðunar, að hún stríði við geðsveiflur og svefntruflanir, og að stutt sé í tárin. Staðfest er með vottorði Heiðdísar Sigurðardóttur sálfræðings að kærandi hefur komið til hennar í tíu viðtöl í framhaldi af atburðinum. Tekin voru sýni á Neyðarmóttöku og send Rannsóknarstofu Háskólans í meinafræði, sást sæði á pinna með sýni sem tekið var úr miðjum leggöngum, á speculum og í nærbuxum, og þóttu sýni þessi líkleg til að gagnast við DNA greiningu. Rannsóknarstofa Háskólans í meinafræði annaðist sendingu sýnanna 20. september 2001 til DNA greiningar hjá Rettsmedisinsk Institutt í Oslo og barst niðurstaða þaðan með bréfi dagsettu 26. október 2001. Í niðurstöðu álitsgerðar Gunnlaugs Geirssonar prófessors, dagsettri 5. nóvember 2001, segir um DNA rannsóknina: „Samkvæmt framanskráðu koma rannsóknarniðurstöður heim við það að sæði það, sem fannst í leggöngum X sé frá Jóhannesi Helga Ásgeirssyni.”
Við aðalmeðferð máls þessa gaf ákærði skýrslu fyrir dóminum sem og vitni svo sem nú verður rakið.
Ákærði Jóhannes Helgi Ásgeirsson skýrði svo frá fyrir dóminum að hann hefði verið á sveitaballi þetta kvöld en síðan komið til fyrrverandi kærustu sinnar, vitnisins C, um nóttina, að hennar beiðni. Þegar hann kom hefði honum ekki tekist að vekja C. Spurður hvort kærandi hefði verið vakandi taldi hann svo vera. Til marks um það sagði hann hana hafa farið að tala, þegar hann var uppi í rúminu að reyna að vekja C. Hann kvað þau hafa spjallað saman og síðan kelað og knúsast, en svo hafi hún ekki viljað ganga lengra af því að hann var fyrrverandi kærasti C og hún var þarna líka á staðnum. Hann hafi ekki verið að erfa það. Fram kom að hann hefði aldrei séð kæranda áður. Aðspurður kvaðst hann hafa átt upptökin að því að daðra við kæranda. Hann kvað kæranda hafa farið úr rúminu og fram einu sinni og hafi hann beðið hana að koma aftur inn í rúmið, ekki af því að hann væri ósáttur, heldur hafi hann ekki viljað að það kæmi upp einhver „leiðinda mórall” vegna þess að hún hefði hrökklast úr rúminu vegna ágengni hans. Hann kvaðst ekki hafa hugmynd um hvenær hann kom á staðinn eða hversu langur tími leið frá því að hann kom í íbúðina og þar til hann sofnaði. Hann kvaðst síðast muna að hann lá á milli kæranda og C og sneri að C, og að kærandi var að strjúka á honum hárið. Svo kvaðst hann muna eftir ástandi, eins og hann væri á milli svefns og vöku, eða draumaástandi. Hann hafi þá verið í samskiptum við einhverja manneskju, að veltast um rúmið, eða að „knúsast” við einhverja stelpu. Hann kvaðst síðan hafa vaknað um morguninn við einhver læti í kæranda. Nánar spurður um þetta kvað hann kæranda hafa kallað „C, C, Jói er að ríða mér.” Kvaðst hann ekki hafa vitað hvað á hann stóð veðrið, en áttað sig á að kærandi var að saka hann um að hafa verið að eiga við hana samfarir. Hann kvaðst hafa farið fram með C og brotnað þar niður, hann hafi verið fullur ennþá þegar hann vaknaði og liðið illa. Kærandi hafi verið undir sæng þegar hann vaknaði, og kvaðst hann ekki vita hvernig hún var þá klædd, en fyrr hafi hún verið í brjóstahaldara og nærbuxum. Hann kvaðst ekki hafa talað aftur við kæranda þarna og taldi hana hafa farið í burtu á undan sér. Hann kvað niðurstöður DNA rannsóknar ekki breyta neinu um framburð sinn og ekki vekja upp neinar minningar. Kvað hann þetta allt hafa gerst án hans vitundar. Lýsti hann töluverðri áfengisneyslu og kvaðst einnig fyrr um kvöldið hafa tekið tvö hylki af „Ripped-Fuel,” sem hann sagði vera örvandi efni, hafa svipuð áhrif og koffein. Hann kvaðst ekki muna eftir að hafa sagt að hann gæti ekki sofið vegna þessa.
Skýrsla ákærða fyrir dóminum var í samræmi við það sem hann bar hjá lögreglu. Hann neitaði þar staðfastlega vitneskju um samfarir og taldi niðurstöðu DNA rannsóknarinnar helst benda til þess að kærandi hefði beitt hann misneytingu.
Kærandi, X, kvaðst hafa komið um fimmleytið til vinkonu sinnar, vitnisins C, á [...]. Þær hefðu verið að skemmta sér saman fyrr um kvöldið ásamt fleirum og hafi hún fengið leyfi til að gista hjá C. C hafi verið sofandi þegar hún kom og hafi hún lagst til svefns. Þegar hún hafi verið að sofna hafi sími C hringt, hafi hún svarað þar sem C vaknaði ekki. Þetta hafi verið ákærði, sem hafi sagst vera á leiðinni. Hún hafi sagt honum að þær væru sofandi og því væri ekkert gaman að koma. Hún hafi síðan vaknað við einhvern undir sænginni og hafi fyrst haldið að þetta væri C, en þegar farið var að strjúka henni um magann, þá hafi hún vaknað betur og áttað sig á að fyrrverandi kærasti C, ákærði, var þar kominn. Hún kvað þau ekki hafa þekkst, en hún hefði séð hann einu sinni áður í bænum. Þau hafi spjallað og síðan hafi hann farið að reyna við hana, en hún hafi ekki viljað sofa hjá honum, ekki síst vegna þess að C var þarna. Hann hafi ekki látið sér segjast og haldið áfram að reyna við hana. Hún kvaðst hafa farið fram í stofu, en ákærði hafi komið á eftir henni og kippt af henni sænginni, hún hafi þá farið aftur inn í rúmið, en þá hafi hann byrjað aftur að reyna við hana, þetta hafi endurtekið sig þrisvar. Nánar spurð kvað hún þetta hafa gengið svona í eina þrjá klukkutíma, eða frá klukkan sex til níu. Hún kvaðst ekki hafa verið ánægð með þetta og auk þess hafi hún verið mjög þreytt, þar sem hún hafði vakað frá því hálfátta morguninn áður og átt annríkan dag, einnig hafi hún verið eitthvað ölvuð. Hún kvaðst ekki geta sagt um hvort ákærði var drukkinn, en hann hefði sagst hafa tekið tvær til þrjár „Ripped-Fuel” töflur og ekki geta sofnað strax. Hún kvaðst loks hafa lagst í rúmið fyrir ofan C, þannig að C hafi verið á milli þeirra, en ákærði hafi ekki verið ánægður með þetta. Hún hafi þá sagt að hún vildi þetta ekki og að hann væri alltaf að koma við hana og káfa á henni. Hann hafi þá sagt að hann ætlaði ekki að gera neitt. Kvaðst hún þá hafa tekið skýrt fram að hún vildi ekki sofa hjá honum, en hafi hann spurt hvort hún treysti sér ekki. Þá hafi hún fært sig aftur. Hann hafi síðan snúið að C og hún hafi snúið að honum. Hann hafi tekið hendina á henni og lagt hana á hnakkann á sér, hafi hún strokið á honum hnakkann og sofnað við það. Kvaðst hún hafa vaknað um hálftíma seinna við að hann var búinn taka niður um hana nærbuxurnar og losa brjóstahaldarann og var með lim sinn inni í henni. Þá hafi hún snúið að höfuðgaflinum og snúið baki í ákærða. Þau hafi öll verið þversum í rúminu. Hún kvað það rangt sem lýst er í skýrslu Neyðarmóttöku, að hann hefði legið ofan á henni. Um leið og hann hafi orðið var við að hún var vöknuð, hafi hann kippt sér til hliðar og látið eins og hann væri að vakna. Hún hafi æst sig eitthvað og spurt hvern fjandann hann væri að gera, en hann hafi látið eins og hann vissi ekkert og hún væri móðursjúk. C hafi vaknað og ekki vitað hvað var að ske. C hafi síðan farið fram með ákærða og hafi hún steinsofnað á meðan þau töluðu saman frammi. Hún kvaðst hafa hafa vaknað um hádegið og þá beðið þar til ákærði var farinn. Hún kvaðst síðan hafa farið til E vinkonu sinnar sem bjó í sama húsi, og þar hafi hún hringt í systur sína, sem hafi komið og sótt hana. Síðar hafi hún hringt í D, vinkonu sína, sem hefði kvatt hana til að fara á Neyðarmóttökuna. Hún kvaðst hafa farið í eina endurkomu og til sálfræðings. Hún kvað sér nú líða ágætlega ef hún væri ekki að tala um þetta og sæi ákærða ekki. Hún kvaðst ekki muna hvað hún drakk þetta kvöld, en hafa fundið á sér.
Framburður hennar fyrir dóminum var í góðu samræmi við það sem hún hafði áður borið um atburðinn hjá lögreglu.
Vitnið C kvaðst hafa verið í sambandi við ákærða, en ekki nú í rúmt ár. Hún kvaðst hafa verið sofnuð þegar kærandi kom. Hún kvað rétt að hún hefði beðið ákærða að koma. Hún kvaðst hafa vaknað við kæranda, sem hafi verið hálfpartin í sjokki og ásakað ákærða fyrir að hafa sofið hjá sér. Nánar spurð um ástand kæranda, kvað hún hana hafa virst vera í uppnámi, en ekki öskrandi. Henni hafi fundist ákærði eins og koma af fjöllum og vera ringlaður. Kvað hún hafa verið ruglingslegt að vakna við þetta, hefði hún ekki vitað hvað hún átti að halda. Aðspurð kvað hún kæranda hafa verið undir sænginni við höfðagaflinn og hafi ekki sést hvernig hún var klædd, ákærði hafi verið í miðju rúminu og sjálf hafi hún verið við fótagaflinn. Hún kvaðst ekki hafa þekkt kæranda vel, þær hefðu kynnst fáum mánuðum áður. Hún kvaðst ekki geta metið ölvunarástand kæranda og ákærða um morguninn. Hún kvað rétt að kærandi hefði fengið leyfi til að gista, en kvaðst ekki hafa búist lengur við henni, hún hafi átt að sofa í stofunni. Hún kvaðst hafa farið aftur inn í rúm eftir að hafa talað við ákærða og hafi hún og kærandi sofnað. Hún kvað ákærða hafa farið á undan kæranda úr íbúðinni.
Í skýrslu vitnisins hjá lögreglu segist hún hafa farið að sofa kl. 04:45. Hún segir að þegar hún hafi vaknað við ásakanir kæranda hafi þau öll legið þversum í rúminu, og hafi ákærði verið þétt upp við hana og verið steinsofandi og hafi það tekið nokkra stund að vekja hann, en kærandi hafi legið á bakinu og verið með einhvers konar ásakanir.
Vitnið A, systir kæranda, kvað kæranda hafa hringt og beðið hana um að sækja sig. Á leiðinni heim og heima hafi kærandi sagt sér að strákur hefði haft við hana samfarir gegn hennar vilja. Hafi vitnið þá ákveðið að fara með hana á Landspítalann og láta skoða hana. Kærandi hefði verið niðurdregin og þegar hún hefði spurt hana nánar út í það sem hafði skeð þá hefði hún brotnað niður. Kvaðst hún hafa tekið systur sína alvarlega.
Skýrsla vitnisins hjá lögreglu var í samræmi við framburð hennar fyrir dómi. Þar lýsti hún einnig nánar frásögn systur sinnar af atburðum næturinnar og er sú frásögn í samræmi við framburð kæranda.
Vitnið D kvaðst hafa unnið með kæranda á þeim tíma sem atvikið átti sér stað og hafa verið með henni fyrr sama kvöld. Kærandi hefði hringt í hana á laugardeginum, hún hefði strax heyrt að ekki var allt í lagi. Kærandi hefði fyrst spurt hana hvað ákærði héti fullu nafni og hvar hann ætti heima. Kvaðst vitnið þá hafa spurt hvort hann hefði gert eitthvað slæmt við hana og sagt henni að tala þá við lögregluna. Kærandi hefði þá farið að gráta og lýst því sem komið hafði fyrir. Hún kvað þær hafa drukkið á föstudagskvöldið, en hún taldi ekki að kærandi hefði verið í annarlegu ástandi.
Framburður vitnisins fyrir dóminum var í samræmi við það sem hún skýrði frá hjá lögreglu.
Vitnið B, móðir kæranda, kvað dóttur sína hafa sofið í stofunni fram yfir hádegi á sunnudeginum, kvaðst hún hafa veitt því athygli að hún talaði upp úr svefninum, m.a. um að hún þyrfti að fara aftur í skoðun. Kvaðst hún hafa minnst á þetta við hana þegar hún vaknaði, og hefði hún þá sagt sér frá atvikinu, ekki í smáatriðum, en talað um að hann hefði nauðgað sér. Kvað hún hana hafa grátið mikið og með miklum ekka þegar hún var að segja frá. Hún kvað kæranda hafa átt dálítið erfitt um tíma á eftir, en viðtölin hjá sálfræðingnum hefðu hjálpað. Hún vildi taka fram að kærandi hefði alltaf sofið mjög fast.
Skýrsla vitnisins hjá lögreglu var í samræmi við vætti hennar fyrir dómi.
Vitnið E kvaðst búa í sama húsi og C og hafi kærandi komið til sín þegar hún fór frá C í umrætt sinn. Kærandi hafi spurt hana hvað ákærði héti fullu nafni, og hún hafi verið mjög reið. Kvaðst vitnið hafa spurt hvort ekki væri allt í lagi. Hafi kærandi þá lýst fyrir henni því sem komið hafði fyrir og grátið. Systir kæranda hafi síðan komið og þær hafi ekki rætt þetta frekar. Hún kvaðst hafa verið með kæranda og D kvöldið áður og hafi þær allar verið hressar. D og kærandi hafi ekki verið með peninga og því verið að fá sopa og sopa. Hún kvaðst sjálf hafa farið heim á milli klukkan eitt og tvö.
Í framburði sínum hjá lögreglu skýrði vitnið frá á sama hátt.
Vitnið Jóhanna Jónasdóttir læknir kvaðst hafa skoðað kæranda á Neyðamóttöku, og staðfesti skýrslu sína þar um. Hún kvaðst hafa skrifað frásögn stúlkunnar eftir punktum sem hún hefði tekið á meðan hún talið við hana, en ekki borið það undir hana. Stúlkan hefði verið mjög pirruð og lagt áherslu á að hún ætlaði að kæra. Sýnataka hefði verið hefðbundin. Hún kvaðst hafa séð hana við endurkomu og staðfesti skýrslu þar um. Henni hefði verið vísað til sálfræðings.
Vitnið Gunnlaugur Geirsson læknir staðfesti tvær álitsgerðir vegna meðferðar sýna og DNA rannsóknar og skýrði þær.
Vitnið Heiðdís Sigurðardóttir sálfræðingur kvað kæranda hafa verið vísað í viðtöl til sín af Neyðarmóttökunni. Hefði kærandi komið í tíu viðtöl, sem væri venjulegt meðferðarplan. Hún hefði reynt að bera sig vel, og hefði í fyrstu ekki viljað nýta tímana, en síðar hefði komið í ljós að henni leið verr en hún hafði sagt í upphafi. Hún hefði verið spennt og viðkvæm en komin eitthvað áleiðis í bata þegar hún hætti í viðtölunum. Einnig hefði blandast inn í vanlíðanina að kæranda hafi fundist að henni væri ekki trúað. Vitnið taldi það myndu hjálpa kæranda að fara í fleiri viðtöl. Kvaðst hún ekki hafa aflað upplýsinga um heilsufarssögu og ekki lagt fyrir hana próf.
Niðurstaða
Kæranda og ákærða ber saman um að þau hafi spjallað um nóttina og látið vel hvort að öðru, og að kærandi hafi ekki viljað ganga lengra. Hafi hún vegna þess flutt sig fram í stofuna, en komið aftur að áeggjan hans.
Kærandi heldur því fram að þegar ákærði kom í íbúðina hafi hún verið sofnuð, en vaknað við að hann var uppi í rúminu og var að strjúka sig. Þessu neitar ákærði og telur hana hafa verið vakandi. Þeim ber á milli um það hvort hún hafi einu sinni eða þrisvar flúið hann og farið fram í stofuna. Loks ber þeim á milli um ákæruefni þessa máls. Kærandi kveðst hafa vaknað og þá snúið baki í ákærða, með buxurnar niður um sig og hafi ákærði verið að hafa við hana samfarir aftanfrá. Þegar hann hafi orðið var við að hún vaknaði hafi hann fært sig og þóst sofa. Ákærði heldur því fram, á hinn bóginn, að hann hafi engar samfarir haft og vaknað við skammir kæranda.
Framburður kæranda var skýr og trúverðugur og hefur verið stöðugur. Framburður ákærða og vitnisins C styður, að kærandi hafi sakað ákærða um brotið, verið í uppnámi og grátið. Samkvæmt vætti systur kæranda, móður hennar og tveggja vinkvenna var hún mjög miður sín þegar hún sagði þeim frá atburðinum. Hún fór á Neyðarmóttökuna sama dag. Vottar læknirinn að hún hafi verið reið og grátið. Við skoðun á Neyðarmóttöku fannst sæði í leggöngum kæranda. DNA rannsókn leiddi í ljós að sæðið var úr ákærða.
Framburður ákærða hefur verið dálítið á reiki. Hann sagði fyrst við yfirheyrslu hjá lögreglu, að kærandi og C hefðu báðar legið sofandi í rúminu þegar hann kom. Síðar í sömu skýrslu kvað hann kæranda hafa verið vakandi. Í sömu yfirheyrslu kvaðst hann ýmist muna eftir gagnkvæmum atlotum eins og á milli svefns og vöku, sem hann gerði sér ekki grein fyrir hver hefði átti upptökin að, eða hann sagði að engar samfarir hefðu átt sér stað, og að hann myndi muna það ef svo hefði verið. Þá kvaðst hann ekkert sáðlát hafa haft. Eftir að honum var kynnt niðurstaða DNA rannsóknarinnar neitaði hann samförum, en taldi að hann hefði annað hvort athafnað sig sofandi eða sjálfur verið misnotaður.
Ákærði tók efnið „Ripped-Fuel,” sem hann hefur lýst sem örvandi efni. Er líklegt að það hafi haft áhrif á vökuástand hans. Þykir mega leggja til grundvallar framburð kæranda um að hann hafi haldið henni vakandi í um þrjár klukkustundir og að klukkan hafi verið um níu að morgni þegar hún sofnaði. Sannað telst með framburði beggja að kærandi hafði marg lýst því yfir að hún vildi ekki hafa mök við ákærða. Í ljósi þessa eru skýringar ákærða á kynmökunum ótrúverðugar, en sannað er með DNA rannsókninni að honum varð sáðlát í leggöng kæranda.
Kærandi hafði drukkið áfengi um kvöldið sem vænta má að hafi haft samverkandi áhrif með svefndrunga. Þegar atburðurinn átti sér stað var komið fram undir morgun og hafði kærandi þá varla sofið í sólarhring. Sofnaði hún í trausti þess að ákærði héldi orð sín um að láta hana í friði. Þykir við þessar aðstæður trúverðugt að hún hafi sofið svo fast að hún yrði ekki strax vör við mök ákærða.
Með framburði kæranda, staðfestingu ákærða á því að hún hafi ekki viljað kynmök, DNA rannsókn og vætti um viðbrögð kæranda og eftirköst af atburðinum, þykir sannað, þrátt fyrir neitun ákærða, að hann hafi haft samræði við kæranda er hún gat ekki spornað við vegna svefndrunga og ölvunar. Með vísan til þessa hefur ákærði gerst sekur um háttsemi þá sem í ákæru greinir og er brot hans þar rétt fært til refsiákvæðis.
Refsiákvörðun.
Ákærði er fæddur árið 1977. Hann hefur fjórum sinnum hlotið sekt fyrir umferðarlagabrot og einu sinni fyrir fíkniefnabrot. Hann er fundinn sekur um brot gegn kynfrelsi kæranda. Engar refsilækkunarástæður eru til staðar. Refsing þykir hæfilega ákveðin fangelsi í sex mánuði.
Skaðbótakrafa
Þórdís Bjarnadóttir héraðsdómslögmaður hefur krafist miskabóta f.h. brotaþola X að fjárhæð 600.000 krónur auk dráttarvaxta skv. III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá 21. júlí 2001 til greiðsludags, auk málskostnaðar að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi að viðbættum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun. Um rökstuðning fyrir kröfunni er vísað til sakarefnis máls þessa og atvikalýsingar eins og þar kemur fram.
Um lagarök er vísað til XX. kafla laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, til 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, um vaxtakröfu til laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu og um málskostnað til 4. mgr. 172. gr. laga nr. 19/1991.
Ákærði hefur í máli þessu verið fundinn sekur um þá háttsemi sem er grundvöllur bótakröfunnar og er fallist á bótaábyrgð. Sannað er með framburði vitna að atburðurinn olli brotaþola hugarangri og hefur hún í kjölfarið leitað sér sálfræðiaðstoðar. Samkvæmt vætti sálfræðingsins hefur hún enn ekki unnið sig fyllilega út úr afleiðingum atviksins rúmu ári eftir að það átti sér stað. Ákærða var kynnt skaðabótakrafan 5. desember 2001. Er ákærði dæmdur til þess að greiða brotaþola skaðabætur sem þykja hæfilega ákvarðaðar 200.000 krónur ásamt vöxtum svo sem nánar greinir í dómsorði. Ákærði skal einnig greiða þóknun réttargæslumanns brotaþola, Þórdísar Bjarnadóttur héraðsdómslögmanns, sem þykja hæfilega ákvarðaðar 100.000 krónur.
Ákærði skal greiða allan sakarkostnað af málinu, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Björns Ólafs Hallgrímssonar hæstaréttarlögmanns, sem ákvarðast 200.000 krónur.
Af hálfu ákæruvaldsins var málið flutt af Sigríði Jósefsdóttur saksóknara.
Hjördís Hákonardóttir héraðsdómari, sem dómsformaður og meðdómendurnir Arngrímur Ísberg og Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómarar kváðu upp dóminn.
D ó m s o r ð
Ákærði, Jóhannes Helgi Ásgeirsson, skal sæta fangelsi í sex mánuði.
Ákærði skal greiða allan sakarkostnað af málinu, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Björns Ólafs Hallgrímssonar hæstaréttarlögmanns, 200.000 krónur.
Ákærði skal greiða X 200.000 krónur í skaðabætur ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 21. júlí 2001 til 5. janúar 2002 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags og 100.000 krónur vegna þóknunar réttargæslumanns hennar, Þórdísar Bjarnadóttur héraðsdómslögmanns.