Hæstiréttur íslands
Mál nr. 690/2012
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
|
Þriðjudaginn 20. nóvember 2012. |
|
Nr. 690/2012. |
Lögreglustjórinn
á Suðurnesjum (Vilhjálmur Reyr Þórhallsson fulltrúi) gegn Y (Daði Ólafur Elíasson hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður
mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Úrskurður
héraðsdóms um að Y skyldi áfram sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli a. liðar 95.
gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.
Dómur
Hæstaréttar.
Mál þetta
dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir, Benedikt Bogason og Helgi I.
Jónsson.
Varnaraðili
skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 19. nóvember 2012 sem barst réttinum
ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 17.
nóvember 2012, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til
fimmtudagsins 22. nóvember 2012 klukkan 16 og einangrun meðan á gæsluvarðhaldi
stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð
sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði
felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími. Að
því frágengnu krefst hann þess að sér verði ekki gert að sæta einangrun meðan á
gæsluvarðhaldinu stendur.
Sóknaraðili
krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan
til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 17.
nóvember 2012
I
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur í dag krafist þess að
Y, [...], verði
með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness gert að sæta gæsluvarðhaldi og einangrun allt til fimmtudagsins 22. nóvember
2011, kl. 16:00.
Í greinargerð með kröfunni segir að hinn 12. nóvember sl. hafi lögreglu
borist tilkynning um að brotist hefði verið inn á skemmtistaðinn A, sem sé til
húsa við [...].
Á upptökum úr öryggismyndavél staðarins megi sjá tvo menn
koma að útidyrahurð staðarins og opna hana með lykli. Því næst megi sjá þá
ganga inn og slá inn öryggiskóða að þjófavarnarkerfi staðarins og slökkva
þannig á kerfinu. Þá nái þeir í lykla sem gangi að spilakössum inni á staðnum.
Alls hafi 11 spilakassar verið inni á staðnum, þ.e. fimm spilakassar frá
Íslandsspilum og sex frá Gullnámudeild Háskóla Íslands. Brotist hafi verið inn
í fjóra af fimm kössum Íslandsspila og stolið þaðan samtals 453.500 krónum. Þá
hafi verið brotist inn í alla sex kassa Gullnámunnar og stolið þaðan samtals
114.150 krónum. Þá hafi verið unnar miklar skemmdir á spilakössunum, sem að
mati eigenda þeirra hlaupi á hundruðum þúsunda. Endanlegt mat á þeim skemmdum
sem unnar hafi verið á spilakössunum liggi þó ekki fyrir.
Í greinargerðinni segir að mennirnir, sem farið hafi inn á A
í umrætt sinn, hafi verið klæddir í lopapeysur og trefla og með klúta fyrir
andlitum, auk þess sem þeir hafi haft hettur yfir höfðum sínum.
Þá segir í greinargerðinni að grunur lögreglu hafi fljótlega
beinst að B, kt. [...], en hún sé fyrrum starfsmaður
A og hafi látið af störfum þar fyrir nokkrum mánuðum.
Í greinargerðinni er frá því greint að lögregla hafi gert
húsleit á heimili B 14. nóvember sl. Við þá húsleit hafi m.a. fundist í rusli í
íbúð hennar teikning, sem lögregla telji að sé af anddyri skemmtistaðarins og
svæði þar sem spilakassarnir standi. Þá hafi lögregla einnig fundið í ruslinu
greiðslumiða frá Gullnámunni, sem hafi verið rifnir í tvennt. Telji lögregla að
þessar kvittanir séu úr þeim spilakössum sem brotist hafi verið inn í á
skemmtistaðnum. Aðspurð hafi B ekki viljað kannast við þessa miða. Lögregla
hafi náð að taka fingraför af miðunum og vinni nú að því að rannsaka hvort
fingraförin eigi við kærða, Y eða B.
Við leit lögreglu á heimili B hafi lögregla m.a. lagt hald á
myndavél og við skoðun á henni hafi lögregla fundið mynd af kærða og X, kt. [...].
Í kjölfarið hafi grunur lögreglu beinst að kærða og X og hugsanlegri aðild
þeirra að innbrotinu. Í kjölfarið hafi lögregla hafið leit að kærða og X og
hafi þeir verið handteknir í gær, 16. nóvember 2012.
Í greinargerðinni segir að teknar hafi verið skýrslur af
kærða, B og X sem sakborningum og einnig af C, kt.
[...] sem vitni. Hafi gætt töluverðs misræmis í framburði þeirra og hafi það
styrkt grun lögreglu enn frekar um að kærði, X og B hafi í sameiningu brotist
inn á skemmtistaðinn A.
Í greinargerðinni segir að rannsókn málsins sé á frumstigi.
Teknar hafi verið skýrslur af kærða, X og B sem sakborningum. Þá hafi lögregla
tekið skýrslur af tveimur vitnum og vinni nú að því að hafa upp á þriðja
vitninu, sem geti gefið mikilvægar upplýsingar um málsatvik. Þá liggi ýmis
sönnunargögn fyrir í málinu sem lögregla þurfi að rannsaka nánar, s.s.
fingraför, sem fundist hafi við rannsókn málsins. Telji lögregla að háttsemi
kærða kunni að varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Lögregla telji að ætla megi að kærði geti torveldað rannsókn
málsins og haft áhrif á samseka gangi hann laus. Þá telji lögregla einnig hættu
á að kærði verði beittur þrýstingi og að samverkamenn hans reyni að hafa áhrif
á framburð hennar gangi hann laus á frumstigum rannsóknar.
Með vísan til alls framangreinds, rannsóknarhagsmuna,
a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, 244. gr. og 254.
gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 telji lögreglustjóri brýna
rannsóknarhagsmuni standa til þess að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi
allt til fimmtudagsins 22. nóvember 2012, kl. 16:00. Þá sé þess krafist að kærða verði gert að sæta einangrun í gæsluvarðhaldinu samkvæmt
heimild í b-lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008.
Með vísan til framburðar kærða í málinu og rannsóknargagna
málsins að öðru leyti er fallist á það með lögreglustjóra að kærði sé undir
rökstuddum grun um að hafa framið brot sem fangelsisrefsing liggur við.
Rannsókn lögreglu á aðild ætlaðra tveggja samverkamanna kærða stendur nú yfir
og hefur kærði ekki borið um þátt annars þeirra í brotinu. Hætta þykir á því að
kærði kunni að torvelda rannsókn málsins, svo sem með því að hafa áhrif á samseka
og vitni, gangi hann laus á meðan á frumrannsókn málsins stendur. Er því
fallist á það með lögreglustjóra að skilyrðum a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga um
meðferð sakamála nr. 88/2008 sé fullnægt. Krafa lögreglustjóra er því tekin til
greina eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.
Ragnheiður Bragadóttir
héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð:
Kærði, Y, skal sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins
22. nóvember nk. kl. 16:00.
Kærði sæti einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.