Hæstiréttur íslands
Mál nr. 307/1999
Lykilorð
- Bifreið
- Slysatrygging
- Vinnuslys
- Líkamstjón
- Skaðabætur
|
|
Fimmtudaginn 16. desember 1999. |
|
Nr. 307/1999. |
Óli Jón Hermannsson (Steingrímur Þormóðsson hrl.) gegn Vátryggingafélagi Íslands hf. og Landflutningum ehf. (Hákon Árnason hrl.) |
Bifreiðir. Slysatrygging ökumanns. Vinnuslys. Líkamstjón. Skaðabætur.
Ó sá um fermingu og affermingu flutningabifreiða hjá L. Hann var að draga fiskkassa með járnkrók eftir gólfi tengivagns þegar brún eins kassans gaf sig með þeim afleiðingum að Ó féll út úr vagninum og slasaðist. Ó stefndi L og vátryggjanda bifreiðarinnar til greiðslu bóta. Talið var að slysatrygging ökumanns tæki ekki til slyssins og að það yrði heldur ekki rakið til atvika, sem L bæri bótaábyrgð á. Var því sýknað.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Arnljótur Björnsson og Markús Sigurbjörnsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 4. ágúst 1999. Hann krefst þess aðallega að stefndi Vátryggingafélag Íslands hf. verði dæmdur til að greiða sér 3.021.095 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 7. október 1996 til greiðsludags. Til vara krefst hann þess að stefndi Landflutningar ehf. verði dæmdur til að greiða sér sömu fjárhæð og vexti. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar úr hendi stefndu í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndu krefjast aðallega staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður falli niður.
I.
Áfrýjandi var flutningastjóri hjá stefnda Landflutningum ehf. Fólst starf hans í því að taka á móti vöruflutningabifreiðum félagsins, sem komu til Reykjavíkur, og sjá um affermingu og fermingu þeirra. Áfrýjandi slasaðist 7. október 1996 þegar hann féll af eftirvagninum PT 368, sem tengdur var við vörubifreiðina AP 637. Bifreið þessi er dráttarbifreið án flutningapalls. Í umrætt sinn var áfrýjandi að afferma eftirvagninn á Grandagarði við Reykjavíkurhöfn, en í vagninum voru plastkassar með ísuðum fiski, hver um það bil 70 til 90 kg að þyngd. Var vörulyftari notaður við verkið. Þurfti að draga kassana að dyrum á hlið eftirvagnsins til að unnt væri að ná til þeirra með lyftaranum. Áfrýjandi var samkvæmt venju einn við verkið og dró kassastæður með járnkrók að dyrunum. Hélt hann hægri hendi í dyrastafinn, en tók í krókinn með vinstri hendi. Fyrir dómi sagði áfrýjandi að pallurinn hafi verið blautur og háll af slori og tiltölulega auðvelt að draga kassana eftir því. Hann minnti að hann hafi dregið þrjá kassa í einu. Hafi hann krækt í brún efst á neðsta kassanum og dregið kassana þannig. Hafi þá brúnin gefið sig og rifnað eða brotnað með þeim afleiðingum að hann kastaðist aftur fyrir sig, út um dyrnar og niður af vagninum. Hafi það verið um 1,20 til 1,30 m fall.
II.
Áfrýjandi telur sig eiga rétt á bótum úr lögmæltri slysatryggingu ökumanns samkvæmt 92. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Krefur hann stefnda Vátryggingafélag Íslands hf. um slysatryggingarbætur, en þegar slysið varð hafði meðstefndi slíka vátryggingu hjá vátryggingafélaginu Skandia hf. vegna bifreiðarinnar AP 637. Hið stefnda vátryggingafélag hefur tekið við réttindum og skyldum síðastnefnds félags.
Orsök slyssins var sú að plastkassi á kyrrstæðum eftirvagninum lét undan við átak frá áfrýjanda. Varð slysið því ekki að neinu leyti rakið til aksturs bifreiðarinnar, sérstaks búnaðar hennar eða eiginleika sem ökutækis. Atburðurinn varð ekki í slíkum tengslum við afferminguna að hann verði talinn hafa hlotist af notkun bifreiðarinnar eða við stjórn hennar, sbr. 88. gr. og 92. gr. umferðarlaga. Er ekki fallist á að slysatrygging ökumanns taki til slyssins. Verður því staðfest niðurstaða héraðsdóms um að sýkna stefnda Vátryggingafélag Íslands hf.
Eins og málið liggur fyrir verður ekki séð að neitt hafi verið athugavert við aðbúnað á vinnustað svo valdið hafi slysi áfrýjanda. Með þessari athugasemd og að öðru leyti með vísun til forsendna héraðsdóms verður hann einnig staðfestur að því er varðar sýknu stefnda Landflutninga ehf.
Ákvæði héraðsdóms um málskostnað verður staðfest. Rétt er að hver aðila beri sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 5. júlí 1999.
Mál þetta, sem dómtekið var hinn 2. júlí sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Óla Jóni Hermannssyni, kt. 291151-2059, Svarthömrum 33, Reykjavík, á hendur Vátryggingafélagi Íslands hf., kt. 690689-2009, Ármúla 3, Reykjavík, til greiðslu neðangreindra bótagreiðslna, vaxta og málskostnaðar. Til vara er málið höfðað á hendur Landflutningum ehf., kt. 710169-4629, Skútuvogi 8, Reykjavík til lúkningar á sömu dómkröfum og stefnist þá til réttargæslu Vátryggingafélagi Íslands hf. sem ábyrgðartryggjanda. Málið var þingfest 17. mars 1998.
I. Aðalaðild. Dómkröfur stefnanda eru þær aðallega að Vátryggingafélag Íslands hf. verði dæmt til að greiða stefnanda 3.021.095 kr. ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá 7. október 1996 til greiðsludags.
II. Varaaðild. Verði Vátryggingafélag Íslands hf. sýknað af dómkröfum stefnanda, gerir stefnandi þá dómkröfu aðallega, að hið stefnda félag, Landflutningar ehf., verði dæmt til að greiða stefnanda 3.021.095 kr. ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá 7. október 1996 til greiðsludags.
Í báðum tilvikum er gerð krafa um málskostnað að skaðlausu, þar sem hliðsjón verði höfð af því að stefnandi er ekki virðisaukaskattskyldur og þeim kostnaði sem stefnandi hefur orðið fyrir vegna málsins.
Dómkröfur stefndu eru þær aðallega að þeir verði sýknaðir af öllum kröfum stefnanda og tildæmdur málskostnaður úr hans hendi að mati dómsins, en til vara er þess krafist að stefnukröfur verði stórlega lækkaðar og málskostnaður felldur niður.
I.
Atvik máls og ágreiningsefni.
Málsatvik eru þau að þann 7. október 1996 varð stefnandi fyrir slysi er hann féll út úr yfirbyggðum tengivagni vöruflutningabifreiðarinnar AP 637. Tengivagninn er með skrásetningarnúmerið PT 368. Var stefnandi að afferma vöruflutningabifreiðina, er þá stóð á vinnusvæði Toppfisks hf., Fiskislóð 15a, Grandagarði. Var stefnandi að flytja fiskikassa úr stæðu á vagninum yfir á lyftara sem staðsettur var við hlið tengivagnsins. Varð slysið með þeim hætti að hann var að draga stæðu með fiskikössum að hliðardyrum tengivagnsins og notaði við verkið járnstöng með krók sem hann krækti í handfang á neðsta kassanum til að draga stæðuna til. Síðan gerðist það að sögn stefnanda að handfangið á kassanum sem krækt var í rifnaði af og við það féll stefnandi aftur fyrir sig út um hliðarhurð á tengivagninum og niður á malbikað vinnuplan. Var fallhæð frá gólfi tengivagnsins að jörð um 150 cm.
Stefnandi kom niður á vinstra hnéð og vinstri öxl. Fann hann strax fyrir miklum sársauka í hnénu. Hélt stefnandi að hann hefði aðeins tognað og gat ekið vörubifreiðinni frá Grandagarði að vinnusvæði Landflutninga ehf. að Skútuvogi 8. Þaðan var stefnanda ekið á slysadeild Sjúkrahúss Reykjavíkur í Fossvogi. Röntgenmyndir og sneiðmyndir sýndu brot í liðfleti á ytra hluta sköflungs. Var gerð aðgerð og stefndi síðan meðhöndlaður á göngudeild. Var hann útskrifaður af bæklunardeild þremur dögum eftir innlögn, í gipsi. Stefnandi hóf síðan vinnu aftur þremur og hálfum mánuði eftir slysið. Gerð er grein fyrir slysi stefnanda og sjúkrasögu í vottorði Ágústs Kárasonar læknis dags. 4. febrúar 1998 í örorkumati Atla Þórs Ólasonar læknis dags. 14. janúar 1998, sem gerði örorkumat vegna stefnanda á grundvelli skaðabótalaga nr. 50/1993.
Niðurstaða þess er sem hér segir:
„1. Tímabundið atvinnutjón skv. 2. grein:
Í þrjá og hálfan mánuð....100%
2. Þjáningabætur skv. 3. grein:
Í heild fjórir mánuðir, þar af fjórir dagar rúmliggjandi.
3. Varanlegur miski skv. 4. grein: 15%
4. Varanleg örorka skv. 5. grein: 10%
5. Hefðbundin, varanleg læknisfræðileg örorka: 15%“
Að ósk stefnanda reiknaði Jón E. Þorláksson tryggingafræðingur út slysið með eldri aðferð út frá 15% og 10% varanlegri örorku.
Stefnandi krafði stefndu um bætur með bréfi dags. 27. janúar 1998. Var krafist bóta á grundvelli 15 % læknisfræðilegrar örorku án þess að sérstök fjárhæð væri sett fram. Fallið var frá kröfu um bætur samkvæmt fyrri dómvenju undir rekstri málsins.
Höfðaði stefnandi síðan þetta mál á hendur stefndu. Er málið höfðað aðallega á hendur Vátryggingafélagi Íslands hf. en til vara á hendur Landflutningum ehf.
Aðalaðild
Kröfuna á hendur stefnda, Vátryggingafélagi Íslands ehf., byggir stefnandi á 92. gr. umferðarlaganna nr. 50/1987 þar sem hann hafi verið ökumaður bifreiðarinnar þegar slysið varð og hann því orðið fyrir slysi við starfa sinn sem stjórnandi bifreiðarinnar.
Varaaðild
Kröfuna á hendur stefnda, Landflutningum ehf., byggir stefnandi í fyrsta lagi á því að stefndi, Landflutningar ehf., beri hlutlæga ábyrgð á tjóni stefnanda með því að slysið megi rekja til bilunar eða galla í tæki sem notað hafi verið í atvinnurekstri vinnuveitanda. Enn fremur að það hafi verið vinnuveitanda hans, stefnda, Landflutninga ehf., að sjá um að vinnutilhögun væri með réttum hætti. Í öðru lagi byggir stefnandi á því að slysið verði rakið til sakar stefnda, Landflutninga ehf., með gáleysi félagsins á aðbúnaði á vinnustað.
Af hálfu stefndu er öllum kröfum og röksemdum stefnanda hafnað.
II.
Málsástæður og lagarök stefnanda.
Af hálfu stefnanda er tekið fram að hann hafi krækt í þar til gert handfang á einum fiskikassanum með þar til gerðum járnkrók. Hafi stefnandi síðan togað í krókinn til að færa kassann á griparma lyftarans. Ekki vildi þá betur til en að handfangið hafi rifnað, eins og pappír og stefnandi fallið aftur fyrir sig út af tengivagninum, í gegnum hliðarhurð, og niður á malbikað vinnuplan, er vagninn stóð á.
Stefnandi tekur fram að um hafi verið að ræða eins fiskikassa og notaðir séu á öllum fiskimörkuðum hér á landi. Þessir kassar séu úr trefjaplasti og taki 90 lítra, lengd kassanna sé 84 cm, breidd 51 cm og hæð 26 cm. Til að færa kassana úr stað séu notaðir járnkrókar sem séu 60 til 70 cm að lengd, með handfangi og ca. 10 cm krók á endanum.
Á efri brún kassanna sé handfang eða hak til að færa þá úr stað og séu til þess notaðir slíkir krókar sem stefnandi notaði er slysið varð. Kveður stefnandi að hann hafi verið búinn að færa marga kassa með þessum hætti er slysið varð. Hafi hann ekki getað búist við öðru en þessi kassi sem hann var að færa er slysið varð, væri eins og allir hinir. Það hafi hins vegar ekki verið heldur hafi kassinn greinilega verið gallaður að því leyti að handfangið hélt ekki og gaf sig er í það var togað.
Stefnandi kveður að hann hafi með engu móti getað gert sér grein fyrir ástandi fiskikassans og því hafi farið sem fór. Bendir stefnandi á að hann hafi í öllu farið eftir þeim vinnuaðferðum sem á vinnustað hans hafi verið stundaðar og honum hafi verið leiðbeint um af sínum yfirboðara, Má Þorvarðarsyni, verkstjóra.
Stefnandi tekur fram að slysið virðist ekki hafa verið tilkynnt Vinnueftirliti ríkisins. Er um það vísað til svarbréfs Vinnueftirlitsins frá 12. október 1997 til lögmanns stefnanda, þar sem segir að slysið hafi ekki verið tilkynnt Vinnueftirlitinu er það átti sér stað og því ekki verið rannsakað.
Málsástæður stefnanda.
Aðalaðild
Dómkröfur sínar á Vátryggingafélag Íslands hf. reisir stefnandi á þeim tryggingarsamningi sem eigandi bifreiðarinnar AP-637 og tengivagnsins PT-368 hafi gert og verið skylt að gera samkvæmt 92. grein umferðarlaga. Um sé að ræða slysatryggingu, þar sem líf og heilbrigði ökumanns sé vátryggt gegn þeirri hættu sem fylgi starfi ökumanns bifreiðar, samanber efnisákvæði greinarinnar á þá leið, að ökumannstryggingin skuli tryggja bætur „vegna slysa sem ökumaður kann að verða fyrir við starfa sinn.“
Til grundvallar bótakröfu stefnanda liggi því tryggingarsamningur eiganda bifreiðarinnar AP-637 og hins stefnda félags, gerður til hagsbóta fyrir stefnanda.
Byggir stefnandi á því að losun og lestun vörubifreiðar sé þáttur í eðlilegri og venjulegri notkun slíkra bifreiða og stefnandi hafi því orðið fyrir slysi við starfa sinn, sem stjórnandi bifreiðarinnar, eins og staðfest hafi verið t.d. í H 1995:1727, H 1996:3141 og í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 14. nóvember 1996, en þá voru málsatvik þau að ökumaður vörubifreiðar var að hagræða farmi á palli hennar, þegar hann féll aftur fyrir sig og slasaðist. Héraðsdómarinn felldi slysið undir 92. grein með svofelldum orðum: „Lestun og losun vörubifreiðar, þ.m.t. að hagræða farmi, er þáttur í notkun hennar og þar með eðlilegur hluti af starfi vörubifreiðarstjórans.“
Séu þessar dómsniðurstöður og í fullkomnu samræmi við það sem fram komi í ræðu framsögumanns fyrir 92. greininni á Alþingi Íslendinga, er hún var felld inn í frumvarp að núgildandi umferðarlögum á sínum tíma við aðra umræðu frumvarpsins.
Varðandi kröfu þessa á Vátryggingafélag Íslands hf. bendir stefnandi á að vöruflutningabifreiðin AP-637 hafi verið tryggð hjá Vátryggingafélaginu Skandía hf. er slysið varð og að hið stefnda félag hafi nú tekið á sig skyldur þess.
Varaaðild
Verði ekki á það fallist, að 92. grein umferðarlaga taki til þess slyss sem stefnandi varð fyrir þann 7. október 1996, við vinnu stefnanda sem vörubifreiðarstjóri AP-637 og þar með að hann eigi dómkröfu á Vátryggingafélag Íslands hf., er á því byggt, að slys stefnanda verði rakið til vanbúnaðar og ófullnægjandi verkstjórnar og því beri Landflutningar hf. ábyrgð á tjóni stefnanda vegna slyssins.
Byggir stefnandi í þessu efni á þeirri heimild 2. mgr. 19. greinar eml. að heimilt sé að höfða mál á hendur Vátryggingafélagi Íslands hf., eins og málum háttar og ef það félag verði sýknað geti stefnandi beint dómkröfum sínum, að því frágengnu, að Landflutningum hf. þar sem dómkröfur stefnanda á báða þessa aðila eigi rætur að rekja til sama atviks og aðstöðu.
a. Byggir stefnandi í varaaðild á því að slysið hafi hlotist af hlut, handfangi á fiskikassa, sem átti að vera í lagi, en var það ekki. Um hafi verið að ræða bilun eða galla sem vinnuveitandi stefnanda beri ábyrgð á. Byggir stefnandi á því að vanbúnaður fiskikassans hafi valdið slysinu, hvort sem handfangið á kassanum hafi verið slitið eða gallað. Um hafi verið að ræða tjón sem hlaust af galla í tæki sem notað var í atvinnurekstri vinnuveitanda stefnanda og á slíku tjóni beri vinnuveitandinn hlutlæga ábyrgð samkvæmt meginreglum skaðabótaréttarins.
Byggir stefnandi á því að slík ábyrgð vinnuveitanda nái til allra tækja svo sem áhalda, véla, efnis og annarra muna. Engu máli skipti í þessu efni, hvort annmarkinn á fiskikassanum hafi verið upprunalegur, stafað af rangri framleiðsluaðferð eða rangri hönnun eða að annmarkinn hafi komið síðar til vegna slits.
b. Stefnandi byggir einnig á því að vinnuveitandi hans, atvinnurekandinn, hafi átt að sjá til þess að vinnutilhögun öll væri með réttum hætti. Skilyrði til vinnu væru rétt og réttur búnaður notaður til verksins. Í því sambandi er á það bent að stefnandi hafi unnið verkið eins og honum hafði verið leiðbeint þar um. Færði hann fiskikassana til með þeim búnaði og þeirri aðferð sem honum hafði verið uppálagt og tíðkaðist á þessum vinnustað.
c. Verði ekki fallist á hlutlæga ábyrgð vegna bilunar eða galla í tæki eða á vinnuveitendaábyrgð og þar með ábyrgð vinnuveitanda, atvinnurekanda, á verktilhögun, er á því byggt að hið stefnda félag, Landflutningar ehf., beri sök á tjóni stefnanda vegna gáleysis félagsins um aðbúnað á vinnustað, sem hafi verið vanbúinn, vegna galla eða slits í handfangi fiskikassans.
d. Í þessu sambandi bendir stefnandi á að orsakir slyssins hafi ekki verið rannsakaðar á nokkurn hátt, en að því leiði að hið stefnda félag hafi bæði sönnunarbyrði og sönnunarfærslubyrði um að slysið hafi ekki orsakast af galla eða bilun í tæki sem stefnandi var að vinna við og að verkstjórn og vinnutilhögun hafi ekki verið ábótavant.
Stefnandi byggir í öllum tilvikum á því að það hafi verið skylda hins stefnda félags, sem atvinnurekanda, að tilkynna slysið þegar til Vinnueftirlits ríkisins skv. 81. grein laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, sbr. 3. mgr. 1. greinar reglugerðar nr. 612/1989, sbr. 2. grein og 4. grein sömu reglugerðar.
e. Dómkröfur sínar sundurliðar stefnandi með neðangreindum hætti:
Stefnandi byggir á lögum nr. 50/1993 með áorðnum breytingum með lögum nr. 42/1996 og örorkumati Atla Þórs Ólasonar matslæknis. Þjáningabætur séu þó miðaðar við læknisvottorð Ágústs Kárasonar.
|
Bætur fyrir annað fjártjón |
150.000.00 |
|
Þjáningabætur: |
|
|
Rúmliggjandi: 4 dagar x 1.300 x 3582/3282 |
5.675.00 |
|
og með hækjur 70 dagar (10 vikur) x 1.300 x 3582/3282 |
99.318.00 |
|
Batnandi með fótaferð 166 x 700 x 3523/3282 |
126.821.00 |
|
Miskabætur, 4.000.000 x 3582/3282 x 15% |
654.845.00 |
|
Bætur fyrir varanlega örorku |
1.984.436.00 |
|
Samtals örorkubætur |
3.021.095.00 |
Kröfu um bætur fyrir annað fjártjón styður stefnandi við 1. grein laga nr. 50/1993. Að samkvæmt ákvæðum greinarinnar, eins og fram komi í greinargerð með lögunum, sé átt við kostnað sem falli á tjónþola fyrst eftir slys og erfitt sé að færa sönnur á með reikningum. Þar af leiðandi byggir stefnandi á að hér sé um að ræða þann kostnað sem slasaðir einstaklingar hafa af ferðum til lækna og sjúkraþjálfara t.d. og ýmsan kostnað annan svo sem símakostnað og ýmis smáútgjöld og því til viðbótar lækniskostnað og sjúkraþjálfunarkostnað, sem gleymist að taka reikning fyrir en ljóst sé eigi að síður að sé fyrir hendi.
Varðandi stefnanda sé ljóst að hann hafi orðið fyrir ýmsum kostnaði vegna þeirra áverka sem hann hlaut í slysinu, vegna læknisferða og komu á Sjúkrahús Reykjavíkur. Þá hafi stefnandi orðið að nota hækjur í 10 vikur, en allir vita að við slíkar aðstæður sé erfitt að bjarga sér, sem oft verði til töluverðs kostnaðar fyrir viðkomandi.
Kröfu um þjáningabætur byggir stefnandi á læknisvottorði Ágústs Kárasonar læknis frá 4. febrúar 1998, en þar komi fram að stefnandi hafi verið rúmliggjandi að mestu í viku og verið síðan á hækjum í 10 vikur eða 70 daga. Á þessum forsendum byggir stefnandi kröfu sína um verðbættar 1.300 krónur í 74 daga. Samkvæmt mati Atla Þórs sé þjáningatímabil stefnanda alls 4 mánuðir, sem stefnandi telur heldur skamman tíma miðað við vottorð Ágústs Kárasonar læknis, en stefnandi telur það vottorð staðfesta að þjáningatímabil vegna slyssins hafi verið lengri tími en 4 mánuðir eða alls 8 mánuðir, samanber að stefnandi komi til Ágústs Kárasonar í júlí 1997 og sé þá sendur í æfingar.
Á ofangreindum grundvelli gerir stefnandi kröfu um þjáningabætur í alls 8 mánuði eða 240 daga. Er því gerð krafa um verðbættar 700 krónur í 166 daga.
Krafa um miskabætur er byggð á örorkumati Atla Þórs Ólasonar læknis um 15% læknisfræðilega örorku stefnanda og á 4. grein laga nr. 50/1993.
Varðandi kröfu um bætur fyrir varanlega örorku bendir stefnandi á að tekjureynsla hans ári fyrir slysið sé eftirfarandi: Mánuðina október 1996 aftur til maí 1996 vann stefnandi hjá hinu stefnda félagi og hafði 150.000 kr. í mánaðarlaun. Maí til og með apríl 1996 vann stefnandi hjá Pípulagnaverktökum og var með 109.200 kr. í maí, og síðan 84.600 kr. í apríl. Mars 1996 til og með nóv 1995 vann stefnandi hjá Húsasmiðjunni. Voru laun hans á þessa leið. Í mars 1996 346.519 kr., í febrúar 1996 106.744 kr., í janúar 1996 106.744 kr., í des. 1995 55.231 kr. +162.477 kr. og í nóvember 1995 116.097 kr. Samtals voru brúttólaun stefnanda ári fyrir slysið því 1.837.612 kr.
Fjárhæðin 1.837.612.- hækkuð skv. hækkun launavísitölu frá október 1996 (148,2 stig) til janúar 1998 (167,9 stig) er 2.081.883 kr. Sú fjárhæð að viðbættu framlagi atvinnurekanda í lífeyrisjóð, 6%, hækkuð með stuðlinum 10 og síðan margfölduð með örorkustigi stefnanda, 10%, geri 2.206.796 kr.-.
Sé miðað við þá fjárhæð verða bætur fyrir varanlega örorku eftirfarandi:
2.206.796x10x10 = 2.206.796. Lækkun v. aldurs 18% eða 1.809.572. Verður þá bótakrafan 1.036.569 + 1.809.572 = 2.846.141.
Útreikningur kröfunnar, eins og að ofan greinir, sé grundvallaður á 1. málsgrein 7. greinar laga nr. 50/1993, er kveði á um heildarvinnutekjur tjónþola á næstliðnu ári fyrir þann dag er tjón varð. Telur stefnandi að með útreikningi þessum verði ekki komist nær því hverjar þessar heildarvinnutekjur hans þetta tímabil hafi verið.
Stefnandi bendir hins vegar á að samkvæmt skattframtölum hans gjaldárin 1997 til og með 1995, hafi heildarvinnutekjur hans árin 1996 til og með 1994 verið sem hér segir: Árið 1996 kr. 2.058.039, árið 1995 kr. 2.020.420, árið 1994 kr. 1.967.102. Heildarvinnutekjur stefnanda hafi því verið 2.015.187 kr. að meðaltali þrjú ár fyrir slysið.
Byggir stefnandi á að það sé bæði eðlilegra og sanngjarnara varðandi bótagrundvöll stefnanda og sýni betur tekjuöflunarhæfi hans og það fjárhagslega tjón, sem hann hafi orðið fyrir, að miða við tekjur hans 3 ár fyrir slysið. Einnig megi benda á að aðstæður hans hafi verið óvenjulegar að því leyti að hann hafi ekki unnið samfellt hjá sama vinnuveitanda, heldur verið að leita sér að varanlegum vinnustað.
Einnig megi benda á að þetta meðaltal sé öruggari vísbending um tekjur komandi ára, en þegar aðeins sé miðað við heildarvinnutekjur næstliðið ár fyrir þann dag er tjón hafi orðið.
Samkvæmt því reiknist krafa hans þannig:
Árslaun 2.015.187 kr. x 167,9/148,2 = 2.283.062 + framlag atvinnurekanda í lífeyrissjóð 6% = 2.420.045 x stuðullinn 10 x 10% varanleg örorka = 2.420.045 kr.
Byggir stefnandi samkvæmt þessu á að tjón stefnanda vegna varanlegrar örorku hafi verið 2.420.045 kr.-. Undir rekstri málsins var sú fjárhæð lækkuð í 1.984.436 kr.
Kröfu um bætur fyrir varanlega örorku styður stefnandi enn fremur við 5., 6. og 7. grein laga nr. 50/1993 og niðurstöðu örorkumats Atla Þórs Ólasonar.
Kröfu sína á hendur Vátryggingafélagi Íslands hf. styður stefnandi við 92. grein umferðarlaga.
Kröfu sína á hendur Landflutningum hf. styður stefnandi við meginreglur skaðabótaréttarins um hlutlæga ábyrgð atvinnurekanda á göllum eða bilunum (sliti) í tækjum. Einnig vísar stefnandi til laga nr. 46/1990 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, sérstaklega er vísað til 13. greinar laganna, sem og 20., 21., og 23. greinar, sbr. 86. greinar sömu laga.
Þá vísar stefnandi til reglna vinnuréttar um verkstjórnar- og húsbóndavald atvinnurekanda og þar á móti hlýðniskyldu starfsmanns.
Stefnandi vísar að síðustu til reglna skaðabótaréttarins um vinnuveitendaábyrgð og til sakarreglunnar.
Þá vísar stefnandi til þeirrar sönnunarreglu að sá sem auðveldara eigi með að tryggja sér sönnun beri að gera slíkt, en geri hann það ekki beri hann svokallaða sönnunarbyrði. Þá vísar stefnandi til þess að samkvæmt 81. grein laga nr. 46/1980, sbr. reglugerð nr. 612/1989, sé lögð á atvinnurekanda ákveðin sönnunarfærslubyrði varðandi vinnuslys.
Fjárkröfu sína styður stefnandi við meginreglur laga nr. 50/1993 og tilgang löggjafans með setningu laganna.
Varðandi réttarfarslega heimild til varaaðildar er vísað til 2. mgr. 19. greinar eml. nr. 91/1991.
III.
Málsástæður og lagarök stefnda.
Aðalaðild
Stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., byggir kröfu sína um sýknu af kröfu stefnanda um bætur úr slysatryggingu ökumanns á því að slys stefnanda falli utan gildissviðs 92. gr. uml. og gildissviðs slysatryggingarinnar, þar sem slysið hafi ekki hlotist af notkun bifreiðarinnar AP 637 sem ökutækis. Það sé grundvallaratriði við túlkun á gildissviði 92. gr. og skilmálum slysatryggingarinnar að tilgangur löggjafans með setningu 92. gr. hafi verið sá að veita stjórnendum bifreiða bótarétt sem væri sambærilegur bótarétti farþega sem slasist í ökutæki. Bótaréttur farþega byggist á 88. gr. umfl. og sé sá réttur háður því almenna skilyrði að slys verði rakið til notkunar ökutækis í skilningi ákvæðisins.
Verði 92. gr. umferðarlaganna því ekki túlkuð rýmra en svari orðanna hljóðan og tilganginum með ákvæðinu en í lagagreininni segir að slysatryggingin skuli gilda fyrir hvern ökumann sem tækinu stjórnar og tryggja bætur vegna slyss sem ökumaður verði fyrir við starfa sinn. Þetta sé eðlilegast að skýra þannig að slysatryggingin taki aðeins til þeirra slysa sem ökumaðurinn hljóti af notkun ökutækisins þegar hann sé við stjórn þess. Slys sem ökumaðurinn verði fyrir við annars konar meðhöndlun ökutækisins falli því utan gildissviðs 92. gr. Enda myndu farþegar eða aðrir sem slösuðust við slíkar kringumstæður heldur ekki njóta bótaverndar samkvæmt bótaákvæðum umfl. Sé það grundvallarskilyrði þess að slys á ökumanni falli undir gildissvið 92. gr. uml. og gildissviðs slysatryggingarinnar að slys hafi hlotist af notkun ökutækis í skilningi notkunarhugtaks 88. gr. uml. Er beinlínis tekið á þessu í H 1997 13. nóvember í málinu nr. 47/1997 en þar segir orðrétt: „Fordæmi Hæstaréttar við skýringu á þessu ákvæði (92.gr. umferðarlaga) eru á þá leið að skilyrði greiðsluskyldu úr þessari vátryggingu séu þau að ökumaður hafi orðið fyrir slysinu við stjórn ökutækisins og jafnframt að slysið verði rakið til notkunar þess í skilningi 1. mgr. 88. gr. laganna.“
Slys stefnanda hafi ekki hlotist af notkun bifreiðarinnar í skilningi notkunarhugtaks 88. gr. uml. né hafi stefnandi verið við stjórn hennar þegar slysið varð. Bifreiðin hafi staðið kyrr á áfangastað og hlaust slysið af því að stefnandi féll aftur fyrir sig út úr tengivagni bifreiðarinnar. Hlaust slysið hvorki af akstri bifreiðarinnar né sérstökum búnaði hennar eða eiginleikum sem ökutækis og flutningabifreiðar og hlaust því ekki af vélknúnu ökutæki í notkun.
Slysið falli þannig ljóslega utan gildissviðs 92. gr. umfl. og slysatryggingarinnar enda hafi slysið hvorki verið umferðarslys samkvæmt skilmálum tryggingarinnar né ökumaður að stjórna bifreiðinni þegar hann féll út úr henni.
Beri því að sýkna stefnda, Vátryggingafélag Íslands hf., af öllum kröfum stefnanda um bætur úr slysatryggingu ökumanns.
Varaaðild
Stefndi, Landflutningar ehf., hefur fallið frá kröfu um sýknu vegna aðildarskorts. Hins vegar er byggt á að sýkna beri félagið þar sem það beri ekki að lögum ábyrgð á slysi stefnanda.
Stefndi, Landflutningar ehf., vísar því á bug að hann beri hlutlæga ábyrgð á slysinu þar sem það megi rekja til þess að fiskikassinn sem stefnandi ætlaði að færa til hafi verið bilaður eða gallaður og því vanbúinn. Stefndi beri ekki ábyrgð á bilun eða galla í tækjum eða búnaði nema um sé að ræða eitthvað sem beinlínis sé notað í atvinnurekstri fyrirtækisins. Svo hafi alls ekki verið í þessu tilviki. Fiskikassar séu sannanlega ekki búnaður/tæki sem stefndi noti í atvinnurekstri sínum og verði því ekki ábyrgð á bilun eða galla í þeim lögð á stefnda. Telji stefnandi að slíkir kassar séu venjulegur búnaður sem stefndi notar, beri honum að sanna slíkt en það hafi hann ekki gert.
Enn fremur sé það með öllu ósannað að það hafi verið bilun eða galli í fiskikassa sem valdið hafi slysinu. Það komi fram hjá stefnanda sjálfum að járn sem hann hafi notað hafi skroppið til á kassanum en slíkt geti ekki talist bilun eða galli í tæki heldur óhappatilvik sem stefndi, Landflutningar ehf., geti ekki borið ábyrgð á.
Þá vísar stefndi því alfarið á bug að eitthvað hafi verið athugavert við vinnutilhögun verksins. Engin ástæða hafi verið til þess að hafa verkstjóra yfir stefnanda til að leiðbeina honum við starfann enda verkið einfalt og stefnandi fullfær um að sinna því sjálfur.
Stefndi vísar því einnig á bug að hann beri ábyrgð á slysi stefnanda vegna gáleysis um aðbúnað á vinnustað. Slysið hafi orðið á malbikuðu plani sem ekkert hafi verið athugavert við. Verði því ekki séð hvað hafi átt að vera það athugavert við vinnustaðinn að rekja megi til sakar stefnda. Sönnunarbyrðin um slíkt liggi alfarið hjá stefnanda.
Starfsmanni Vinnueftirlitsins hafi strax verið gert kunnugt um málið. Slysið hafi hins vegar ekki verið tilkynnt sérstaklega til Vinnueftirlitsins fyrr en í október 1996. Við það hafi ekkert verið að athuga. Í fyrsta lagi hafi stefnandi haldið sjálfur að hann hefði bara tognað og ekið í burtu af slysstað. Í öðru lagi hefði ekkert frekar verið upplýst um orsakir slyssins þótt Vinnueftirlitinu hefði verið tilkynnt um það.
Stórkostlegt gáleysi
Stefndu byggja kröfur sínar um sýknu einnig á því að öll bótaábyrgð stefndu, ef hún teldist vera fyrir hendi, væri fallin niður sökum stórkostlegs gáleysis stefnanda sjálfs og gildir einu á hverju bótaábyrgðin væri byggð. Stefnandi hafi sýnt af sér stórfellt gáleysi með því gæta ekki að því að járn það sem hann notaði til að færa til kassana væri tryggilega krækt í kassann áður en hann togaði í kassann. Stefnandi hafi þar með ekki hagað sér eins og góður og gegn, skynsamur maður sem aftur leiði til þess að hann verði að bera tjón sitt sjálfur.
Stefnukröfum er mótmælt sem allt of háum. Miðist varakrafan við það. Byggt er á skaðabótalögum nr. 50/1993.
Kröfuliður um bætur fyrir „annað fjártjón" sé með öllu ósannaður og beri því alfarið að hafna honum. Engin gögn liggi fyrir í málinu um þessa kostnaðarliði eða þá þjónustu sem leiði til þeirra. Hefði stefnanda verið í lófa lagið að afla sér kvittana vegna slíks kostnaðar ef um hann hefði verið að ræða.
Kröfu um þjáningabætur er mótmælt sem of hárri og alls ekki í samræmi við 3. gr. skaðabótalaganna. Útreikning þjáningabóta beri að miða við örorkumat á dskj. 5 Þar komi fram að stefnandi hafi verið frá vinnu í 4 mánuði, þar af rúmliggjandi í 4 daga. Stefnandi hafi því verið rúmfastur í 4 daga og veikur án þess að vera rúmliggjandi í 116 daga. Þjáningabætur beri að miða við þetta samkvæmt skaðabótalögum. (4x1300 + vísitöluhækkun, 116x700 + vísitöluhækkun).
Varanlegt fjártjón
Samkvæmt skaðabótalögum eigi að reikna bætur fyrir varanlega örorku þannig að miðað sé við heildarvinnutekjur tjónþola á næstliðnu ári fyrir tjónsdag sbr. 7. gr. laganna. Stefnandi hafi verið í starfi allt árið á undan slysinu. Verði því ekki stuðst við aðrar fjárhæðir en þau laun. Undantekningarákvæði 2. mgr. 7. gr. eigi ekki við í þessu tilviki.
Samkvæmt 9. gr. skbl. eigi að lækka bætur vegna aldurs ef tjónþoli sé 26 ára eða eldri þegar slysið varð. Stefnandi sé fæddur 29. nóvember 1951 og slysið hafi orðið 7. október 1996. Stefnandi hafi því verið 44 ára á slysdegi. Alls sé því um að ræða 18 ár eða 18%. Þessa lækkun vanti í útreikning á kröfu um varanlega örorku. Þess er krafist að bætur verði lækkaðar sem þessu nemi.
Vaxtakröfum er sérstaklega andmælt en bótakrafan beri ekki dráttarvexti frá fyrri tíma en dómsuppsögudegi sbr. t.d. H 1990, 128 og H 1995, 30. mars í málinu nr. 429/1992.
IV.
Niðurstaða.
Stefnandi var starfsmaður hjá Landflutningum ehf. þegar slysið varð. Hann hafði það starf með höndum að taka við vöruflutningabifreiðum stefnda, sem til Reykjavíkur komu, og annast um losun og lestun þeirra. Þegar slysið varð var hann að afferma vöruflutningabifreið, sem flutt hafði togarafisk frá Fáskrúðsfirði og var farmurinn í fiskikössum í tengivangi vöruflutningabifreiðarinnar AP 637. Telja verður nægilega upplýst samkvæmt gögnum máls að slysið hafi gerst með þeim hætti að handfang á fiskikassa hafi gefið sig þegar stefnandi var að draga með járnkrók stæðu með þremur fiskikössum í átt að hliðardyrum tengivagnsins og við það hafi hann fallið aftur fyrir sig og niður á malbikað plan.
Dómkröfur sínar á hendur stefnda, Vátryggingafélagi Íslands hf., byggir stefnandi á slysatryggingu ökumanns samkvæmt 92. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.
Ökumannstrygging samkvæmt 92. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 gildir fyrir hvern ökumann sem tækinu stjórnar. Vátryggingin skal tryggja bætur vegna slyss sem ökumaður kann að verða fyrir við starfa sinn. Samkvæmt dómafordæmum Hæstaréttar um skýringu á 92. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. H 1997:3287, eru skilyrði greiðsluskyldu úr þessari vátryggingu þau, að ökumaður hafi orðið fyrir slysinu við stjórnun ökutækisins, og jafnframt að slysið verði rakið til notkunar þess í skilningi 1. mgr. 88. gr. laganna.
Svo sem fyrr greinir var stefnandi að færa til farm í tengivangi vöruflutningabifreiðarinnar AP 637 þegar slysið varð. Bifreiðin var kyrrstæð og slys stefnanda hlaust hvorki af eiginleikum bifreiðarinnar sem ökutækis né af sérstökum búnaði hennar sem vöruflutningabifreiðar. Slys stefnanda hlaust því ekki af vélknúnu ökutæki í notkun í skilningi 1. mgr. 88. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 og fellur því utan gildissviðs vátryggingar samkvæmt 92. gr. laganna. Ber því að sýkna stefnda, Vátryggingafélag Íslands hf., af kröfum stefnanda í málinu, en rétt þykir að málskostnaður falli niður að því er þann stefnda varðar.
Dómkröfur sínar á hendur stefnda, Landflutningum ehf., byggir stefnandi á því að stefndi beri hlutlæga ábyrgð á tjóni stefnanda vegna þess að slysið hafi hlotist af bilun eða galla í tæki, sem notað var í atvinnurekstri vinnuveitanda. Er þá vísað til þess að vanbúnaður fiskikassans hafi valdið slysinu, þar sem handfangið hafi rifnað af. Á þetta sjónarmið verður ekki fallist. Umræddur fiskikassi var hluti af farminum og ekki í eigu eða á ábyrgð stefnda, Landflutninga ehf. Þá liggur og ekki annað fyrir en stefnandi hafi beitt venjulegum aðferðum við losun farmsins og ekkert var athugavert við aðbúnað á vinnustað. Orsakir slyssins liggja ljóst fyrir og stefnandi var fullfær um að sinna sínu verki. Fullyrðingar um að verkstjórn og vinnutilhögun hafi verið ábótavant hafa ekki við rök að styðjast. Slys stefnanda verður ekki rakið til atvika, sem stefndi, Landflutningar ehf., ber bótaábyrgð á. Ber því einnig að sýkna þann stefnda af kröfum stefnanda í málinu, en eftir atvikum verður málskostnaður felldur niður.
Eggert Óskarsson héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
Dómsorð:
Stefndu, Vátryggingafélag Íslands hf. og Landflutningar ehf., skulu vera sýkn af kröfum stefnanda, Óla Jóns Hermannssonar, í máli þessu.
Málskostnaður fellur niður.