Hæstiréttur íslands

Mál nr. 263/2007


Lykilorð

  • Umferðarlagabrot
  • Ávana- og fíkniefni
  • Þjófnaður
  • Svipting ökuréttar
  • Upptaka
  • Skilorð


Fimmtudaginn 6

 

Fimmtudaginn 6. desember 2007.

Nr. 263/2007.

Ákæruvaldið

(Sigríður J. Friðjónsdóttir, saksóknari)

gegn

Sæmundi Þór Sæmundssyni

(Kristján Stefánsson hrl.)

 

Umferðarlagabrot. Fíkniefni. Þjófnaður. Svipting ökuréttar. Upptaka. Skilorð.

 

S var sakfelldur fyrir fíkniefnalagabrot, þjófnað og akstur undir áhrifum slævandi lyfja sem endaði með því að hann ók aftan á aðra bifreið. Með brotunum rauf hann skilorð dóms frá 19. apríl 2006, þar sem hann hlaut 45 daga skilorðsbundið fangelsi fyrir gripdeild og fíkniefnalagabrot. Í samræmi við 60. gr. almennra hegningarlaga var þessi dómur tekinn upp og bæði málin dæmd í einu lagi og var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að S skyldi sæta fjögurra mánaða fangelsi fyrir þessi brot. Í ljósi nýrra upplýsinga um aðstæður S þótti rétt að skilorðsbinda refsinguna að fullu. Þá var staðfest niðurstaða héraðsdóms um ökuleyfissviptingu S og upptöku fíkniefna.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Hjördís Hákonardóttir og Páll Hreinsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 30. apríl 2007 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar á sakfellingu og ökuréttarsviptingu ákærða og þyngingar á refsingu.

Ákærði krefst þess að hann verði sýknaður af ákæru 27. nóvember 2006, honum verði ekki gert að sæta sviptingu ökuréttar og að refsing hans verði milduð og hún bundin skilorði.

Fyrir Hæstarétt hafa verið lagðir úrskurðir Héraðsdóms Reykjavíkur 31. ágúst 2006 og 16. nóvember 2007. Í fyrrnefnda úrskurðinum var ákærði sviptur sjálfræði í eitt ár en í þeim síðarnefnda í tvö ár. Í vottorði Ómars Ívarssonar geðlæknis 5. maí 2006, sem fram kemur í hinum fyrrnefnda úrskurði, segir að ákærði sé haldinn aðsóknargeðklofa og sé auk þess haldinn truflunum vegna neyslu ávana- og fíkniefna. Í síðarnefnda úrskurðinum er getið um vottorð Garðars Sigursteinssonar geðlæknis 11. nóvember 2007 þar sem fram kemur að ákærði hafi átt við langvarandi fíkniefnavanda að stríða og að ekki fari á milli mála að hann sé haldinn alvarlegum fíknisjúkdómi. Samkvæmt vottorði Tómasar Zoëga geðlæknis, sem fram kemur í úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur frá  31. ágúst 2006, er áréttað að ákærði hafi aldrei hlotið neina langvarandi meðferð í formi lyfjagjafar vegna geðklofasjúkdóms síns. Á hinn bóginn hafi hann misnotað mikið af lyfjum. Samkvæmt vottorði Ómars Ívarssonar geðlæknis, sem fyrr var nefnt, kemur fram að ákærði hafi einnig misnotað lyf inni á geðdeild en í herbergi hans hafi fundist tóm sprautuglös og í þvagsýni hans hafi mælst Rivotril.

Ákærði neitar að hafa verið undir áhrifum slævandi lyfja þannig að hann hafi ekki getað stjórnað bifreið örugglega 12. júní 2006 eins og honum er gefið að sök í ákæru 27. nóvember 2006. Við munnlegan málflutning fyrir Hæstarétti var á því byggt í vörn ákærða að hann hefði tekið lyfið Rívotríl (klónazepam) reglulega að læknisráði og hafi því öðlast þol gegn verkun þess.

Samkvæmt matsgerð Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði reyndust 55 ng/ml af klónazepami vera í blóði ákærða samkvæmt sýni sem tekið var 12. júní 2006. Fram kom hjá vitninu Jakobi Kristinssyni dósent og lyfjafræðingi hjá Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði að þetta lyf sé notað við flogaveiki en einnig sé unnt að nota það sem kvíðastillandi lyf. Dæmi væru um að þetta lyf væri misnotað af fíklum eins og önnur lyf af flokki benzódíazepína. Klónazepam væri á markaði sem lyf undir nafninu Rívotríl. Einnig kom fram hjá honum að hefði ákærði ekki tekið lyfið oft eða samfellt í langan tíma væri nokkuð öruggt að hann væri undir meiri áhrifum en svo að hann gæti stjórnað bifreið með öruggum hætti. Vitnið Áslaug Gunnarsdóttir læknir framkvæmdi hæfnispróf á ákærða 12. júní 2006 og taldi hann ekki færan um að stjórna ökutæki örugglega. Hún bar fyrir dómi að fyrrnefnt lyf væri ekki gefið við geðklofasýki. Með fyrrnefndu vottorði Tómasar Zoëga geðlæknis er upplýst að ákærði hafi aldrei hlotið neina langvarandi meðferð í formi lyfjagjafar vegna geðklofasjúkdóms síns og ekki liggur heldur fyrir í málinu að ákærði hafi tekið lyfið Rívotríl  í langtímameðferð.

Af framansögðu athuguðu verður talið að fram sé komin lögfull sönnun fyrir því að ákærði hafi ekki verið fær um að stjórna bifreið örugglega vegna lyfjanotkunar er hann ók 12. júní 2006 af bifreiðastæði við Snorrabraut 56 í Reykjavík út á götuna.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða og heimfærslu brota til refsiákvæða.

Samkvæmt framansögðu hefur ákærði verið sviptur sjálfræði í tvö ár og mun hann dveljast næstu sex mánuði á sambýlinu að Hólabrekku í Hornafirði frá 30. nóvember 2007 til þess að takast á við sjúkdóm sinn og fíkniefnavanda. Þegar til þessa er litið þykir mega skilorðsbinda refsingu hans að fullu.

Ákvæði héraðsdóms um sviptingu ökuréttar, upptöku fíkniefna og sakarkostnað verða staðfest.

 Ákærða verður gert að greiða áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjenda síns fyrir Hæstarétti, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti, allt eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði, Sæmundur Þór Sæmundsson, sæti fangelsi í fjóra mánuði, en fullnustu refsingarinnar skal frestað og hún falla niður að liðnum þremur árum frá uppkvaðningu dómsins, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákvæði héraðsdóms um sviptingu ökuréttar, upptöku fíkniefna og sakarkostnað skulu vera óröskuð.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 245.316 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 224.100 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 7. mars 2007.

Mál þetta, sem dómtekið var 14. febrúar sl., er höfðað með ákæru útgefinni af lögreglustjóranum í Reykjavík 24. október 2006 á hendur Sæmundi Þór Sæmundssyni, [kt.], Snorrabraut 52, Reykjavík, fyrir eftirtalin fíkniefnalagabrot framin í bifreiðinni TF-[...]í Reykjavík á árinu 2006:

I.

Miðvikudaginn 3. maí á Hverfisgötu við Klapparstíg haft í vörslum sínum 0,88 g af amfetamíni, 1,76 g af marihuana og 0,67 g af hassi, sem lögreglumenn fundu að hluta við leit á ákærða og að hluta við leit í bifreiðinni.

II.

Sunnudaginn 21. maí á bifreiðastæði við JL-húsið við Hringbraut haft í vörslum sínum 0,57 g af amfetamíni, sem lögreglumenn fundu við leit í bifreiðinni.

Þetta er talið varða við 2. gr., sbr. 5. gr., laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. og 6. gr. sömu laga, varðandi meðferð ákærða á kannabis, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og jafnframt að framangreind fíkniefni, sem hald var lagt á, verði gerð upptæk samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001.

Í þinghaldi 7. desember 2006 voru þingfestar og sameinaðar þessu máli tvær aðrar ákærur á hendur ákærða útgefnar af lögreglustjóranum í Reykjavík. Var önnur útgefin 14. nóvember 2006 fyrir þjófnað, með því að hafa þriðjudaginn 8. ágúst 2006 í versluninni Nóatúni, Nóatúni 17, Reykjavík, stolið 3 pakkningum af laxi og 2 pokum af karamellum samtals að verðmæti 1.921 krónur. Er brot þetta talið varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Hin ákæran er útgefin 27. nóvember 2006 en þar er ákærða gefið að sök umferðarlagabrot, með því að hafa ekið bifreiðinni TF-[...], mánudaginn 12. júní 2006, ófær um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa slævandi lyfja, frá bifreiðastæði við Snorrabraut 56 í Reykjavík, út á götuna og svo óvarlega að hann ók aftan á bifreiðina VT-[...] sem ekið var suður Snorrabraut og lenti við áreksturinn á bifreiðinni SJ-[...] sem var kyrrstæð og mannlaus í bifreiðastæði við götuna. Er þetta talið varða við 1. mgr. 4. gr. og 2. mgr. 44. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til sviptingar ökuréttar skv. 101. gr. nefndra umferðarlaga, sbr. 25. gr. laga nr. 44/1993.

Verjandi ákærða gerir þær kröfur að ákærða verði dæmd vægasta refsing sem lög leyfa. Þá krefst hann hæfilegra málsvarnarlauna að mati dómsins.

Málavextir.

Ákæra dagsett 24. október 2006.

Samkvæmt frumskýrslu lögreglu barst lögreglu tilkynning 3. maí 2006 kl. 13:45 um að maður í annarlegu ástandi væri í bifreiðinni TF-[...] sem lagt hefði verið í bifreiðastæði við Hverfisgötu. Þegar lögregla kom á vettvang hitti hún þar fyrir ákærða sem sat í ökumannssæti bifreiðarinnar. Mátti sjá í bifreiðinni merki um fíkniefnaneyslu, m.a. sprautur og nálar sem lágu í fremra farþegasæti. Ákærði heimilaði að leitað yrði á honum og í bifreiðinni. Fundust þá meint fíkniefni í hægri buxnavasa hans, hvítt duft í tveimur pokum og grænleitur salli í glærum plastpoka. Ákærði kvaðst eiga grænleita sallann, sem væri kannabislauf, og annan glæra pokann með hvíta duftinu, sem hann sagði vera leifar af Ritalin. Ákærði kvað hinn pokann vera eign vinkonu sinnar, en vildi ekki gefa upp hver það væri. Einnig fannst í aftursætinu brúnn moli, ætlað hass. Aðspurður um hver ætti molann sagði ákærði að vinur hans hefði verið í bifreiðinni með sér skömmu áður og beðið ákærða um að geyma hann.

Tekin var skýrsla af ákærða hjá lögreglu sama dag. Aðspurður um fíkniefni þau sem fundust við leit lögreglu kvaðst ákærði geta skýrt þau. Sallinn væri lauf sem hann hafi fengið gefins. Í öðrum pokanum væri Ritalinduft sem hann ætti en í hinum væri eitthvert drasl. Það væri kona sem ætti það en hann vildi ekki segja hver hún væri. Hún hefði keypt 3 grömm á 14.000 krónur í þeirri trú að þetta væri amfetamín. Molinn væri hass sem hann hefði keypt fyrir vin sinn. Þeir hafi verið búnir að nota eitthvað af þessu saman. Aðspurður kvaðst ákærði nota fíkniefni að staðaldri, aðallega hass, Ritalin sem hann sprautaði sig með og Mogadon.

Í matsgerð Jakobs Kristinssonar, dósents við Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði, dags. 4. janúar 2007, kemur fram að sýni sem sent hefði verið til rannsóknar hafi verið ljóst duft, 0,289 g að þyngd. Með blettagreiningu á þynnu, gasgreiningu á súlu, massagreiningu, vökvagreiningu á súlu og efnaprófum hafi komið í ljós að sýnið hafi innihaldið amfetamín, súkrósa og laktósa. Efnaprófin hafi bent til þess að amfetamínið væri að mestu í formi amfetamínsúlfats. Magn amfetamínbasa í sýninu hafi verið 6,4%, sem samsvari 8,7% af amfetamínsúlfati.

Hinn 21. maí 2006 barst lögreglu tilkynning um að fólk væri statt á bifreiðaplani Nóatúns við Hringbraut og væri að sprauta sig með fíkniefnum. Er lögregla kom á vettvang sá hún hvar ákærði og B sátu í bifreiðinni TF-[...]. Hélt ákærði á sprautu í vinstri hendi og virtist vera að aðstoða B við að sprauta sig. Leit var framkvæmd á þeim báðum. Ekkert fannst á B, en í hægri brjóstvasa ákærða fannst hvítt efni vafið í plast. Kvað ákærði um að ræða muldar Ritalintöflur. Í veski hans fundust duftleifar í hvítum plastpoka, sem hann sagðist hafa fundið á gólfinu í bifreið sinni þá um morguninn. Ákærði heimilaði leit í bifreið sinni og fannst þar hvítt efni í plastpoka undir mottu á gólfi, bílstjóra megin. Ákærði kvaðst ekki kannast við efnin.

Tekin var skýrsla af ákærða hjá lögreglu sama dag. Kvaðst hann ekki vita hvaða efni þetta væru sem fundist hefðu í bifreið hans, né vita hver ætti þau. Það sem hefði verið í brjóstvasa hans væri Ritalin sem hann ætti. Vildi hann ekki segja hvar hann hefði fengið efnin. Ákærði kvaðst ekki vera í fastri neyslu fíkniefna, einungis þegar hann kæmist yfir efni. Hann kvaðst fá efni með því að gera fólki greiða sem léti hann fá efni í staðinn.

Í matsgerð Jakobs Kristinssonar, dósents við Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði, dags. 4. janúar 2007, kemur fram að sýni sem sent hefði verið til rannsóknar hafi verið ljóst duft og kögglar, 0,571 g að þyngd. Með blettagreiningu á þynnu, gasgreiningu á súlu, massagreiningu, vökvagreiningu á súlu og efnaprófum hafi fundist að sýnið innihélt amfetamín, glúkósa, laktósa og sykuralkóhól. Efnaprófin hafi bent til þess að amfetamínið væri að mestu í formi amfetamínsúlfats. Magn amfetamínbasa í sýninu hafi verið 2,8%, sem samsvari 3,8% af amfetamínsúlfati.

Ákæra dagsett 27. nóvember 2006.

Samkvæmt frumskýrslu lögreglu voru lögreglumenn kvaddir að Snorrabraut 56 hinn 12. júní 2006 kl. 15:46 vegna tilkynningar um árekstur. Bifreiðinni TF-[...] hafði verið ekið út frá bifreiðastæðum við Snorrabraut 56 í austurátt inn á Snorrabraut og lent á hægra afturhorni bifreiðarinnar VT-[...] sem ekið var suður Snorrabraut. Við það snerist VT-[...] á götunni og lenti með vinstri hliðina á vinstri hlið bifreiðarinnar SJ-[…] sem lagt var í bifreiðastæði. TF-[...] lenti með framendann á grindverki á miðeyju götunnar og olli skemmdum á því, en ökumaður hafði fært ökutækið í bifreiðastæði vestan megin götunnar þegar lögregla kom. Bifreiðarnar VT-[...] og SJ-[...] voru fluttar af vettvangi með kranabifreið. D gaf sig á tal við lögreglu á vettvangi og kvaðst hafa séð hvar TF-[...] hefði verið ekið á mikilli ferð út frá bifreiðastæðunum við Snorrabraut 56 og inn á Snorrabraut og ekið á VT-[...] með framangreindum afleiðingum. Ákærði, sem var ökumaður TF-[...], kvaðst hafa ekið út frá bifreiðastæðunum við Snorrabraut 56 og ætlað að beygja til vinstri suður Snorrabraut. Hann kvaðst ekki vita hver hraðinn hefði verið. Kvaðst hann hafa séð VT-[...] aka í suðurátt á Snorrabraut. Hann hefði reynt að hemla en sennilega runnið af bremsunni og lent með framendann á hægra afturhorni VT-[...] og síðan endað á grindverki á miðeyjunni. Hann hafi síðan fært bifreiðina í bifreiðastæði til að hún væri ekki fyrir umferð. Ökumaður VT-[...], C, kvaðst hafa ekið suður Snorrabraut á vinstri akrein á u.þ.b. 40 km hraða á klst. Hún hafi allt í einu séð hvar TF-[...] hafi verið ekið á mikilli ferð út frá bifreiðastæðunum og lent á hægra afturhorni bifreiðar sinnar sem hafi snúist við höggið og lent með vinstri hliðina á vinstri hlið SJ-[...] sem hafi verið lagt í bifreiðastæði. Hún hafi ekki náð að hemla til að koma í veg fyrir árekstur þar sem þetta hafi gerst mjög snöggt og hratt. Ökumaður SJ-[...] kvaðst hafa lagt bifreið sinni í bifreiðastæði og farið inn í verslun. Fólk á vettvangi lét vita af því að ákærði hefði hent frá sér sprautu á vettvangi áður en lögregla kom á staðinn. Sprautan fannst og var hún tóm og nálarlaus. Lögreglumenn fluttu ákærða á lögreglustöðina við Hverfisgötu þar sem leitað var á honum og fannst ein tóm sprauta. Í bifreiðinni TF-[...] fundust áhöld til neyslu fíkniefna, bognar skeiðar og tómar sprautur. Ákærði blés í öndunarsýnismæli á lögreglustöðinni og sýndi hann 0,0. Tekin var skýrsla af ákærða. Einnig var kallaður til læknir sem tók blóðsýni úr ákærða og gerði hæfnispróf á honum. Reynt var að fá þvagsýni hjá ákærða en það gekk ekki og var því tekið blóðsýni úr honum öðru sinni. Haft er eftir ákærða að hann viðurkenni að hafa hent frá sér tómri sprautu. Hefði hann brotið af henni nálina og fleygt henni líka. Notaði hann Ritalin, Mogadon og díazepam í sprautu.

Við skýrslutöku hjá lögreglu sama dag kvaðst ákærði hafa ekið bifreið sinni TF-[...] út af bifreiðastæði við hús nr. 56 við Snorrabraut þegar hann hafi lent í árekstrinum. Aðspurður um notkun lyfja fyrir aksturinn kvaðst hann ekki hafa tekið inn lyf af neinu tagi. Hann hafi síðast tekið inn lyf u.þ.b. 48 klst. áður og hafi það verið Mogadon eða díazepam.

Ákærði var aftur yfirheyrður um sakarefnið 2. nóvember 2006. Kvaðst hann þá hafa ekið bifreiðinni TF-[...] umrætt sinn. Hann hafi verið að fara að heiman og ætlað að aka einn rúnt niður Laugaveg. Aðspurður kvaðst hann ekki hafa neytt lyfja áður en akstur hófst eða eftir að honum lauk. Ákærði kvaðst taka eina töflu af Truxal fyrir svefn. Kvað hann það ekki rétt sem fram kæmi í frumskýrslu lögreglu að hann hafi sagst taka inn Ritalin, Mogadon og díazepam í sprautu. Hann hafi sagst hafa notað þessi lyf áður en hafi ekki notað þau þarna. Þá hafi hann ekki sagst hafa losað sig við sprautu. Ákærði kvaðst ekki vita nákvæmlega hvað hefði orsakað áreksturinn en hann gæti hafa verið að vesenast með sígarettur eða lykla og fótur hans runnið út af bremsunni. Hann hafi ekið bifreiðinni á lítilli ferð en viti ekki hver hraðinn hafi verið.

Í málinu liggur fyrir hæfnispróf, framkvæmt af Áslaugu Gunnarsdóttur lækni, kl. 17:30 þann 12. júní 2006. Er það niðurstaða læknisins að ákærði hafi verið aðeins undir áhrifum, hugsanlega Ritalins, og ekki verið fær um að stjórna ökutæki örugglega. Taldi læknirinn þó skerta ökuhæfni geta orsakast af geðrænum einkennum. Í matsgerð Jakobs Kristinssonar, dósents við Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði, dags. 11. júlí 2006, kemur fram að í blóðsýni hafi etanól (alkóhól) ekki mælst. Í blóði hafi reynst vera klónazepam 55 ng/ml. Metýlfeníddat (Ritalin), díazepam, nítrazepam (Mogadon) eða klórprótixen (Truxal) hafi ekki verið mælanleg í blóði. Klónazepam sé flogaveikilyf af flokki benzódíazepína. Það hafi slævandi verkun á miðtaugakerfið og geti dregið úr aksturshæfni í lækningalegum skömmtum. Styrkur lyfsins í blóði bendi til töku í háum lækningalegum skömmtum. Ökumaður hafi því verið undir slævandi áhrifum klónazepams og sé því líklegt að hann hafi ekki getað stjórnað bifreið með öruggum hætti.

Framburður vitna fyrir dómi.

Ákæra dagsett 24. október 2006.

Vitnið, Jakob Kristinsson, dósent og lyfjafræðingur hjá Rannsóknarstofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði, kvað sýni þau sem rannsökuð voru hafa verið veik. Meðalstyrkur amfetamíns sem rannsakað hafi verið á síðasta ári hafi verið 32%. Örfá sýni hafi verið undir 1%, en þessi sýni sem hér um ræði hafi verið meðal þeirra veikustu sem rannsökuð voru. Venjulegar 100 mg amfetamíntöflur væru um 4% í styrkleika, en þó væru áhrif af þeim. Aðspurður kvað vitnið Ritalin hafa svipaða verkun og amfetamín. Það væri örvandi. Samt sem áður væri það ekki amfetamín og væri töluvert ólíkt því að gerð. Ekki væru sömu efni í því. Metýlfeníddat væri eina virka efnið í Ritalini og hefði svipaða en ekki sömu verkun og amfetamín.

Vitnið, Hallgrímur Hallgrímsson lögreglumaður, tók framburðarskýrslu af ákærða 3. maí 2006 og spurði um efni sem fundust á honum við leit. Aðspurður um hvernig skýrslan væri bókuð kvað vitnið reynt eftir fremsta megni að hafa frásögn sakbornings orðrétt eftir honum. Vitnið kvaðst ekki muna eftir skýrslutökunni yfir ákærða.

Ákæra dagsett 27. nóvember 2006.

Vitnið, Ingi Þór Sigurgeirsson lögreglumaður, kvaðst hafa komið á vettvang árekstursins á Snorrabraut og hafi ákærði þá verið búinn að færa bifreið sína. Hafi ákærði komið út úr sjoppu og verið mjög æstur og erfitt verið að átta sig á honum. Hafi sér virst sem ákærði væri undir áhrif einhverra lyfja og lögreglunni þótt ástæða til að kanna það nánar. Vitni að árekstrinum hafi gefið sig að þeim og sagt ákærða hafa komið hratt út frá bifreiðastæðinu, ekið á eina bifreið sem kastaðist á aðra og endað á grindverki. Hafi vitni borið að ákærði hafi rokið strax til og verið með sprautur og reynt að fela það. Einhver hafi komið með sprautu sem ákærði hafi átt að hafa hent frá sér. Hún hafi verið tóm. Eitt og annað hafi fundist í bifreið ákærða sem hafi getað bent til neyslu. Þegar á lögreglustöðina hafi verið komið hafi ákærði talið upp lyf sem hann hafi notað. Vitnið kvað ákærða hafa róast eitthvað niður á lögreglustöðinni en rokið upp aftur annað slagið. Hann hafi vaðið úr einu í annað og verið mjög æstur. Aðspurður kvað vitnið að aðeins hafi verið leitað í vösum ákærða. Hann taldi þó útilokað að ákærði hafi tekið einhver lyf þegar hann var á lögreglustöðinni enda hafi lögreglumenn haft augun á honum allan tímann.

Vitnið, Vagn Kristjánsson lögreglumaður, kvaðst hafa komið á vettvang árekstursins ásamt félaga sínum Mörtu Sandholt. Tilkynnt hafi verið um vitni sem séð hafi annan ökumanninn henda einhverju frá sér. Á þeim stað sem bent var á hafi þau fundið sprautunál sem búið hafi verið að brjóta járnhlutann af. Hafi verið borið undir ákærða hvort hann hafi hent þessari nál frá sér og hafi hann viðurkennt það. Hafi þá verið tekin ákvörðun um að handtaka hann. Vitnið kvað ákærða hafa verið mjög rólegan og kvaðst ekki minnast þess að hann hafi verið æstur. Hann hafi haft þannig talanda og verið það sljór að hann hafi virst undir áhrifum lyfja. Hann kvað ákærða ekki hafa talað um lyfjaneyslu svo hann heyrði en hafa viðurkennt að hafa átt nálina. Vitnið kvað afskiptum hans af málinu hafi lokið þegar búið hafi verið að flytja ákærða á lögreglustöðina og afhenda hann varðstjóra.

Vitnið, C, kvaðst hafa ekið niður Bergþórugötu og beygt inn á Snorrabraut. Við hlið málningarverslunar við þá götu væri bifreiðastæði. Ákærði hafi ekið þaðan út á mikilli ferð og ekið beint inn í afturhlið bifreiðar hennar án þess að bremsa. Hafi bifreið hennar farið í hálfhring og kastast á aðra bifreið. Ákærði hafi beðið hana afsökunar og sagst ekki hafa hitt á bremsuna. Hann hafi ætlað að faðma hana og verið mjög miður sín yfir þessu. Vitnið kvaðst hafa fundist ástand hans einkennilegt, hann hafi verið þvoglumæltur og þurft mikið að koma við hana og börnin og verið skrítinn í andlitinu. Hún hafi haldið að hann væri drukkinn eða útlendingur sem talaði óskýrt. Hún hafi verið í sjokki, enda með tvö börn í bifreiðinni, og því ekki áttað sig alveg á ástandi ákærða. Hann hafi verið mjög ör, gengið um og komið aftur og aftur og beðist afsökunar.

Vitnið, D, kvaðst starfa við málningarvöruverslun á Snorrabraut. Hann kvaðst hafa séð svarta bifreið aka á fleygiferð út af bifreiðastæði við hlið verslunarinnar og lenda á annarri bifreið. Höggið hafi verið það mikið að bifreiðin hafi snúist við og lent á annarri bifreið sem hafi verið í bifreiðastæði við götuna. Svarta bifreiðin hafi endað á vegriði á milli akbrauta. Hann kvaðst hafa séð ökumanninn en virst hann vera í þannig ástandi að ekki væri hægt að ræða mikið við hann. Hafi hann því ekki leitað eftir því heldur kannað ástand konunnar sem lenti í árekstrinum. Vitnið kvað ákærða hafa virst vera í annarlegu ástandi og ekki í takt við raunveruleikann. Hann hafi verið ör og virst útúrdópaður og ekki í sambandi við umheiminn. Aðspurður um hvort hugsanlegt væri að ákærði hafi verið í uppnámi yfir því að hafa valdið árekstri kvað vitnið það hugsanleg, en svo hafi þó ekki virst. Ákærði hafi talað við konuna sem lenti í árekstrinum en svo hlaupið inn í sjoppu, þar sem hann hafi verið í nokkrar mínútur. Hann hafi svo komið aftur út með sælgæti og farið að skýra frá því að hann hafi ekki stigið á bremsuna heldur runnið til á bensíngjöfina. Hann hafi gefið skýringar sem ekki hafi virst trúverðugar. Ástand ákærða hafi virst svipað áður og eftir að hann hafi farið inn í sjoppuna.

Fram kom hjá vitninu Jakobi Kristinssyni að við mat á aksturshæfni ákærða hafi verið stuðst við niðurstöður mælinga á klónazepami svo og hæfnispróf sem gerð hafi verið á mönnum sem hafi tekið það. Klónazepam sé notað við flogaveiki en einnig sé hægt að nota það sem kvíðastillandi lyf. Ef klónazepam væri notað við flogaveiki og fólk þyrfti á því að halda væri það tekið í langan tíma. Við það myndaðist þol gegn verkun þess. Ekki væri hægt að fullyrða með vissu að sá styrkur sem sæist í blóðinu gæti haft meiri verkun en 0,5‰ af alkóhóli, eins og miðað væri við. Ef viðkomandi hefði ekki tekið lyfið oft eða ekki samfellt í langan tíma væri nokkuð öruggt að hann væri undir meiri áhrifum en svo. Væri því líklegt að sá sem mældist með 55 ng/ml í blóði gæti ekki stjórnað bifreið með öruggum hætti og hafi hann ekki verið í langtíma meðferð með klónazepami myndi hann telja það öruggt. Aðspurður kvað vitnið lyfið vera þríhyrningsmerkt, en kvað einhverjar breytingar hafa orðið á þeim merkingum þannig að það gæti fallið niður. Aðspurður um hvort þekkt væri að þetta lyf væri misnotað af fíklum kvað vitnið hættu vera á misnotkun allra lyfja af flokki benzódíazepína og hann hafi séð dæmi um að þetta lyf væri misnotað. Væru þá teknir stærri skammtar en notaðir væru til lækninga. Aðspurður um hvort hægt væri að sprauta sig með lyfinu kvað vitnið fræðilega mögulegt að leysa það upp en sennilega þyrfti að leysa það upp í alkóhóli. Líkamleg einkenni þess sem notaði lyfið án þess að vera með flogaveiki væru sljóleiki, ósamhæfðar hreyfingar og skert athygli. Áhrifin væru að mörgu leyti svipuð og af alkóhóli, t.d. yrði viðkomandi þvoglumæltur. Það væri þó meðal þess  sem hyrfi eftir langvarandi töku lyfsins. Þol myndaðist gegn mörgum ytri einkennum en ekki væri víst að það myndaðist gegn öllum verkunum lyfsins. Aðspurður um niðurbrot í blóði kvað vitnið helmingunartímann vera nokkuð langan, um 20-30 klst. Ætti því venjulega að vera nóg að taka lyfið einu sinni til tvisvar á dag. Ekki væri hægt að segja til um það út frá einni mælingu hvenær inntaka lyfjanna hafi átt sér stað. Skammturinn 55 ng/ml væri eins og eftir fremur stóra lækningalega skammta. Vitnið kvaðst hafa séð miklu hærri tölur en það væri ekki eftir lækningalega skammta. Lyfið væri á markaði undir nafninu Rivotril.

Vitnið Áslaug Gunnarsdóttir læknir, framkvæmdi hæfnispróf á ákærða. Kvað hún ákærða hafa komið þokkalega út úr hæfnisprófinu nema að hann hafi verið algerlega óáttaður á tíma og ekki átt auðvelt með að hugsa skýrt, t.d. við að telja niður. Hann hafi þá ruglast alveg og ekki getað gert neitt. Hann hafi hins vegar getað munað fjórar tölur og gengið eftir beinni línu og hafi ekki verið skjálfhentur. Það sem hann hafi sagt hafi ekki verið samhengislaust en það hafi þó ekki verið mikið og því erfitt að dæma um það. Miðað við matið hafi henni fundist ákærði ekki vera í ökufæru ástandi. Aðspurð um lyfið klónazepam sem fannst í blóði ákærða kvað vitnið ekki endilega að sér hefði fundist ákærði vera undir áhrifum við skoðunina. Hann hafi gefið upp að hann tæki mjög mikið af lyfjum og þá hefði fólk oft mikið þol og oft ekki hægt að merkja lyfjaáhrif jafn vel og hjá þeim sem tækju lyf sjaldan. Hún hafi því ekki getað merkt það beint að hann væri undir áhrifum lyfja. Hún hafi svo verið kvödd til aftur til að taka blóð úr ákærða þar sem ekki hefði tekist að fá frá honum þvagsýni. Kvaðst hún ekki hafa gert hæfnispróf á honum þá en hann hefði þá verið orðinn mun órólegri og árásargjarnari. Hann hefði ekki sýnt sér neina ókurteisi en verið óþolinmóður við lögreglumennina. Mat hennar hafi verið að ákærði væri í óökuhæfu ástandi en hún gæti ekki sagt til um hvort það væri vegna lyfja eða einhvers annars. Kvaðst hún hafa séð ákærða á götu eftir þennan atburð og ekki fundist hann þá eins illa fyrir kallaður og þarna. Aðspurð um tímann frá handtöku ákærða og þar til hæfnismat fór fram kvað vitnið hugsanlegt að ástand ákærða hefði batnað á þeim rúma klukkutíma sem liðið hefði þar á milli. Ólíklegra væri að það hefði versnað þótt það hafi verið verra þegar hún hafi kom aftur síðar. Aðspurð hvort Rivotril væri gefið við geðklofa kvað vitnið svo ekki vera en virkni þess væri með þeim hætti að það væri kvíðastillandi, róandi lyf. Það sljóvgaði athyglisgáfu og hæfni til að gera hluti. Aðspurð um ætlaðar orsakir áhrifa í hæfnismati kvaðst vitnið hafa skráð Ritalin þar sem ákærði hefði sagst hafa tekið það. Ritalin virkaði örvandi. Henni hafi því fundist undirliggjandi sjúkdómur líklegri en áhrif lyfja. Þar sem hún hafi hins vegar séð ákærða eftir þetta álengdar á götu hafi henni fundist eftir á að hyggja óþarfi að álykta eftir svo stutt viðtal að hann væri með einhvern undirliggjandi sjúkdóm. Eitthvað hafi valdið því að hann hafi ekki verið í jafnvægi en hvort það hafi verið sjúkdómur eða ekki þori hún ekki að fullyrða.

Niðurstaða.

Ákærði hefur játað sök vegna ákæru dagsettrar 24. október 2006 að öðru leyti en því að hann heldur því fram vegna beggja ákæruliðanna að efnið sem sagt er vera amfetamín hafi verið Ritalín. Með matsgerðum frá Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði sem og framburði Jakobs Kristinssonar dósents, sem bar fyrir dómi að amfetamín og Ritalin væru úr ólíkum efnum þótt verkun þeirra væri svipuð og því ekki vafi á því að um amfetamín hafi verið að ræða, þykir sannað að efni það sem ákærði hafði í vörslum sínum hafi í báðum tilvikum verið amfetamín. Verður ákærði því sakfelldur fyrir báða liði ákæru dagsettrar 24. október 2006.

Ákærði hefur játað sök samkvæmt ákæru dagsettri 14. nóvember 2006. Sannað er með skýlausri játningu ákærða og öðrum gögnum málsins að ákærði er sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í þeirri ákæru og er brot hans rétt heimfært til refsiákvæða í ákærunni.

Ákærði hefur neitað sök samkvæmt ákæru dagsettri 27. nóvember 2006. Á vettvangi bar ákærði að hann hefði reynt að hemla til að forðast árekstur en sennilega runnið af bremsunni. Viðurkenndi hann að hafa hent frá sér sprautu og kvaðst þá nota lyfin Ritalin, Mogadon og díazepam. Við skýrslutöku hjá lögreglu sama dag kvaðst ákærði ekki hafa tekið nein lyf fyrir aksturinn en síðast hafa tekið inn Mogadon eða díazepam um 48 tímum áður. Við skýrslutöku hjá lögreglu 2. nóvember 2006 bar ákærði að hann tæki lyfið Truxal fyrir svefn. Hann neitað því hins vegar að hann tæki Ritalin, Mogadon eða díazepam. Kvað hann áreksturinn geta hafa orðið vegna þess að hann hafi verið að vesenast með sígarettur eða lykla og þegar hann hafi komið út af bifreiðastæðinu hafi fótur hans runnið af bremsunni. Ákærði mætti ekki við aðalmeðferð málsins og töldu hvorki sækjandi né verjandi ástæðu til að leiða ákærða fyrir dóminn til frekari skýrslutöku.

Ljóst er af framburði vitna á vettvangi árekstursins að ákærði var í annarlegu ástandi er hann varð valdur að árekstrinum á Snorrabraut 12. júní 2006. Hefur vitnum borið saman um að hann hafi verið þvoglumæltur og hegðun hans einkennileg. Lýstu vitni því ýmist að hann hafi verið sljór eða mjög ör. Kom fram hjá lögreglumanninum Inga Þór Sigurgeirssyni að ákærði hefði róast en svo rokið upp á milli. Er það í samræmi við framburð Áslaugar Gunnarsdóttur læknis sem sagði ákærða hafa verið sljóan en að skömmu síðar hafi hann verið órólegri og árásargjarnari. Var það álit Áslaugar að ákærði hefði ekki verið í ökufæru ástandi umrætt sinn.

Samkvæmt fyrirliggjandi matsgerð Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði reyndust 55 ng/ml af klónazepami vera í blóði ákærða. Kom fram í vitnisburði Jakobs Kristinssonar að klónazepam sé fyrst og fremst notað við flogaveiki. Það hafi sljóvgandi áhrif með ósamhæfðum hreyfingum og skertri athygli en þol myndist gegn því sé það tekið um langan tíma. Sá sem mælist með slíkt magn í blóði sem fannst hjá ákærða geti líklega ekki stjórnað bifreið með öruggum hætti og örugglega ekki nema hann hafi verið í langtímameðferð með klónazepami. Ekkert liggur fyrir í málinu um að ákærði hafi verið í slíkri langtímameðferð.

Þegar til þess er litið sem hér hefur verið rakið er það niðurstaða dómsins að fram sé komin lögfull sönnun fyrir því að ákærði hafi ekki verið fær um að stjórna bifreið vegna lyfjanotkunar er hann ók frá bifreiðastæði við Snorrabraut 56 og út á götuna þann 12. júní 2006. Samkvæmt því verður ákærði sakfelldur samkvæmt ákæru, dags. 27. nóvember 2006, og er háttsemin þar rétt heimfærð til refsiákvæða.

Ákærði er fæddur í september 1963. Hann á að baki nokkurn sakaferil allt frá árinu 1980. Hefur ákærði hlotið 13 dóma fyrir umferðar- og fíkniefnalagabrot og ýmis brot gegn almennum hegningarlögum og þrívegis gengist undir sáttir vegna umferðar- og fíkniefnalagabrota. Þá hefur hann tvisvar verið sviptur ökuréttindum. Nú síðast hlaut ákærði 45 daga skilorðsbundið fangelsi vegna brota gegn 245. gr. almennra hegningarlaga og 2. gr., sbr. 5. og 6. gr., laga um ávana- og fíkniefni þann 19. apríl 2006. Með brotum sínum nú hefur ákærði rofið skilorð þess dóms. Samkvæmt 60. gr. almennra hegningarlaga ber því að taka þann dóm upp og dæma bæði málin í einu lagi með vísan til 77. gr. sömu laga. Til mildunar refsingar horfir að ákærði hefur játað hluta brotanna greiðlega, að styrkur amfetamínsins sem hann hafði í vörslum sínum var ekki mikill og andlag þjófnaðarbrotsins var smáræði. Til þyngingar horfir hins vegar að ákærði hefur áður gerst sekur um auðgunarbrot og hefur áður verið sviptur ökuréttindum fyrir brot gegn 2. mgr. 44. gr. umferðarlaga. Með hliðsjón af öllu framangreindu og með vísan til 77. gr. almennra hegningarlaga þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 4 mánuði. Þá verður ákærði sviptur ökuréttindum í 6 mánuði frá birtingu dómsins að telja.

Upptæk eru gerð 1,45 g af amfetamíni, 1,76 g af marihuana og 0,67 g af hassi.

Ákærði skal greiða þóknun skipaðs verjanda síns, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 136.950 krónur að meðtöldum virðisauka­skatti, og útlagðan sakarkostnað, 323.920 krónur.

Af hálfu ákæruvaldsins var málið flutt af Daða Kristjánssyni, fulltrúa lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu.

Ásgeir Magnússon héraðsdómari kvað upp dóminn.

D ó m s o r ð :

Ákærði, Sæmundur Þór Sæmundsson, sæti fangelsi í 4 mánuði.

Ákærði er sviptur ökuréttindum í 6 mánuði frá birtingu dómsins að telja.

Upptæk eru gerð 1,45 g af amfetamíni, 1,76 g af marihuana og 0,67 g af hassi.

Ákærði greiði þóknun skipaðs verjanda síns, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 136.950 krónur að meðtöldum virðisauka­skatti, og útlagðan sakarkostnað, 323.920 krónur.