Hæstiréttur íslands
Mál nr. 274/2017
Lykilorð
- Kærumál
- Kæra
- Frávísun frá Hæstarétti
Reifun
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Ingibjörg Benediktsdóttir settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 3. maí 2017, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 2. maí 2017, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 30. maí 2017 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, til vara að farbanni verði beitt í stað gæsluvarðhalds, en að því frágengnu að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Samkvæmt 2. mgr. 193. gr. laga nr. 88/2008 skal í skriflegri kæru til héraðsdómara greint frá því hvaða úrskurður sé kærður, kröfu um breytingu á honum og ástæður sem kæran er reist á. Í kæru varnaraðila er í engu vikið að þeim ástæðum, sem kæran er reist á, heldur segir aðeins að áskilinn sé réttur til að leggja fram greinargerð. Samkvæmt þessu eru slíkir annmarkar á kærunni að vísa verður málinu sjálfkrafa frá Hæstarétti.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur, sbr. 3. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness þriðjudaginn 2. maí 2017
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur í dag krafist þess að Héraðsdómur Reykjaness úrskurði að X, kt. [...], [...] verði gert að sæta gæsluvarðhaldi, allt til þriðjudagsins 30. maí 2017 kl. 16:00.
Í greinargerð með kröfunni segir að kærði hafi verið handtekinn 27. mars sl. og úrskurðaður degi síðar í gæsluvarðhald til 4. apríl sl. á grundvelli rannsóknarhagsmuna. Hinn 4. apríl sl. hafi gæsluvarðhaldið verið framlengt á grundvelli c-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. [...], til 18. apríl, en Hæstiréttur hafi framlengt úrskurðinn með dómi í máli nr. 222/2017 til dagsins í dag, 2. maí, en kærði sé nú undir sterkum grun um eftirtalin fjársvikabrot:
Mál lögreglu númer [...]. Fjársvik. Þann 8. mars síðastliðinn hafi aðili kært kærða fyrir fjársvik. Kvaðst hún hafa greitt kærða 300.000 krónur 14. febrúar síðastliðinn sem fyrirfram greidda leigu vegna marsmánaðar fyrir einbýlishúsið að A í Njarðvík. Kærandi hefði séð auglýsingu kærða á Bland.is um leigu á húsnæðinu. Jafnframt hefði kærði krafist 900.000 króna í tryggingu sem kærandi hefði ekki greitt. Ekkert hefði orðið úr leigunni. Kærandi hefði verið í samskiptum við kærða með tölvu og síma um afhendingu og frekari greiðslur, þar sem kærði virðist beita blekkingum til að hafa fé út úr kæranda vegna húsnæðisins. Hefði kærandi lagt fram gögn um samskipti við kærða máli sínu til stuðnings. Kærandi kvaðst hafa verið í sambandi um endurgreiðslu og kærði hafi lofað en ekkert greitt til baka. Hefði félag á vegum kærða, B ehf., gert samning um kaup á ofangreindri eign, sem greiða átti í júní 2017, en félagið hafi ekki haft heimild til að framleigja eignina. Að mati lögreglu hafi kærði gefið ótrúverðugar skýringar á málinu.
Mál lögreglu númer [...]. Fjársvik. Kæra frá 23. mars síðastliðinn vegna sama húsnæðis að A í Njarðvík. Í málinu kveðst kærandi hafa greitt kærða um 1.328.000 krónur inn á bankareikning B ehf., 900.000 krónur 14. febrúar síðastliðinn og 428.000 krónur 17. febrúar, það er þriggja mánaða leigu og tryggingu fyrir sama húsnæði. Kærandi kvaðst hafa séð auglýsingu á Bland.is. Kærandi hefði svo fengið símtal frá réttmætum eiganda húsnæðisins þar sem hann bar að kærði væri ekki réttmætur eigandi og hefði ekki heimild til að leigja húsnæðið. Kærði sé undir sterkum grun um að hafa svikið út fyrrnefnda upphæð með blekkingum, en því neiti kærði og gefi ótrúverðugar skýringar.
Mál lögreglu nr. [...]. Fjársvik. Kæra frá 28. mars síðastliðinn, þar sem kært sé fyrir fjársvik vegna húsnæðis í A, sem kærandi hafi leigt án heimildar. Kærandi kveðst hafa komist í samband við kærða gegnum Bland.is, þar sem húsnæðið hafi verið auglýst og hafa greitt kærða í tvígang vegna leigu á ofangreindu húsnæði, 300.000 krónur 14. febrúar síðastliðinn sem tryggingu og 300.000 krónur 10. mars síðastliðinn. Hafi fjármunirnir verið millifærðir á félag skráð á kærða, B ehf. Kveðst kærandi ekki hafa fengið lykil og ítrekað reynt að ná tali af kærða vegna þess. Þegar kærandi hafi náð sambandi við kærða kvað hann leiguna vera 600.000 krónur og ætlaður samningur hafi verið óundirritaður af hálfu kærða. Kærði sé undir sterkum grun um fjársvik fyrir að hafa með blekkingum svikið út 600.000 krónur.
Mál lögreglu númer [...]. Fjársvik. Kæra eiganda A frá 23. mars, en þar er kærði grunaður um að hafa svikið út í mars 2017 900.000 krónur vegna sama húsnæðis, sem hann framleigði án heimildar. Samskiptin við kærða hafi byrjað með þeim hætti að fyrirtækið B ehf. hafi gert kauptilboð í eignina A 8. desember 2016, sem hafi verið tekið. Greiða hafi átt með einni greiðslu við kaupsamning í síðasta lagi 3. mars 2017. Þangað til hafi félagið ætlað að leigja húsið frá 3. janúar 2017. Leigan hafi átt að vera 260.000 krónur á mánuði og 10. janúar síðastliðinn hafi verið greiddar 144.000 krónur. Þann 20. febrúar síðastliðinn hafi verið greiddar 205.000 krónur. Síðan hafi kærði ekki greitt meir. Að sögn kæranda hafi kærandi mætt með foreldra sína, þegar hann kom og skoðaði húsið í fyrsta skiptið.
Þann 21. mars síðastliðinn hafi kærandi farið, ásamt eiginmanni sínum, að A og séð einhverja inni í í húsinu. Að sögn kæranda hafi hann hringt í kærða og þá hafi hann sagst vera í New York. Samkvæmt upplýsingum kæranda hafi komið í ljós að [...] höfðu leigt eignina til tveggja ára og hafi þeir greitt 900.000 krónur fyrirfram til kærða sem tryggingu, sbr. fyrri kæru, mál númer [...]. Samkvæmt upplýsingum kæranda hafi [...] verið hræddir og hafi kærði haft í hótunum við þá. Hafði kærði verið búinn að segja þeim að ef einhver myndi koma ættu þeir að segjast vera vinir hans sem væru að vinna að lagfæringum á húsinu. Samkvæmt kæranda hafi hún rætt við [...], kynnt þeim stöðuna og þeir hafi sagt henni að þeir hafi skrifað undir leigusamning og hafi verið búnir að vera í húsinu í mánuð. Strax um kvöldið hafi þeir komið heim til kæranda í [...] og hafi leigusamningur þeirra verið ljósritaður og málin rædd. Kærandi sagðist vera búinn að skipta um skrá að húsinu. Kærandi kvaðst hafa rift leigusamningi við kærða/B ehf. 21. mars síðastliðinn.
Það sé sterkur rökstuddur grunur lögreglu að með þessu móti hafi kærði svikið út fjármuni með blekkingum með því að leigja sama húsnæði án heimildar að A á sama tímabili, þremur aðilum í því skyni að afla sér ávinnings. Telst þetta varða við 248. gr. almennra hegningarlaga.
Mál lögreglu númer [...]. Fjársvik. Kæra frá 23. mars síðastliðinn. Þar sé kærði grunaður um að hafa leigt íbúð að C í Hafnarfirði 19. október síðastliðinn. Kærandi hafi séð auglýsingu á Bland.is og skoðað íbúðina, og hitt þar aðila sem hafi kynnt sig sem D. Daginn eftir hafi hún greitt 700.000 krónur til kærða sem tryggingu, en kærði hafði boðið íbúðina með skilyrði um tryggingu. Hafi kærandi fengið lykla og íbúðina afhenta. Síðar hafi komið í ljós við þinglýsingu leigusamnings að íbúðin hafi verið í eigu E ehf. og hafi komið fram að kærði hafi ekki haft umboð til leigja íbúðina. Félag skráð á kærða B ehf. hafi leigt íbúðina og ekki staðið við neitt og hafi átt að bera aðilann út. Kærði hafi því svikið út nefnda fjárhæð með blekkingum og kynnt sig sem leigusala. Samkvæmt upplýsingum kæranda hafi hún verið í samskiptum við kærða um að hann endurgreiddi og hafi hann lofað greiðslu en ekkert orðið úr því. Kærði hafi gefið ótrúverðugar skýringar á málinu, en viðurkenni að hafa móttekið 700.000 krónur.
Mál lögreglu númer [...]. Fjársvik, kæra frá 4. apríl sl., þar sé kærði grunaður um hafa svikið út leigugreiðslur vegna verslunarhúsnæðis að H Seltjarnarnesi, íbúðarhúsnæðis að I, í Hafnarfirði frá september 2016. Kærandi hafi verið í sambandi við [...] þar sem kærði hafi verið starfsmaður í júlí 2016 vegna H. Virðist kærði hafa beitt blekkingum og gert leigusamning og fengið kæranda til að greiða sér persónulega og inn á reikning fyrirtæki kærða J ehf. kr. 173.600,- 26. júlí 2016 og greitt kærða persónulega í tvígang, fyrst kr. 585.000,- og aftur kr. 180.000,- í reiðufé, samtals kr. 938.000,-. En kærði hafi ekki haft heimild til að fá greitt fyrirfram inn á eigin reikning og fyrirtæki sitt. Einnig hafi kærði beitt sömu blekkingum við leigu á íbúðarhúsnæði að I, en þar hafi kærandi greitt kærða samtals kr. 562.000,-, inn á reikning fyrirtækis kærða, J ehf. fyrst þann 187.600,- 15. september og þann 2. október kr. 375.000,-. Samkvæmt framburði kæranda byrjuðu reikningar að berast frá [...] vegna leigu á ofangreindu húsnæði og hafi kærandi verið í sambandi við [...] í október 2016, þar sem fram hafi komið hjá starfsmanni [...] að kærði hafi ekki haft heimild til að móttaka þessar greiðslur og hafði hann hætt störfum í kjölfarið. Eigandi húsnæðisins að H hafi aldrei móttekið greiðslur vegna leigu á þessu húsnæði.
Mál lögreglu númer [...]. Fjársvik eftir atvikum fjárdráttur, kæra frá 19. apríl sl., vegna leigu á K og L í Reykjavík. Þar sé kærði grunaður um að hafa dregið sér heimildarlaust leigugreiðslur 5. október 2016 að fjárhæð kr. 800.000,- vegna ofangreinds húsnæðis þegar hann var starfsmaður hjá [...]. Um hafi verið að ræða greiðslur sem ganga áttu til leigusala, en hluta af þessu hélt kærði, sem þóknun en sú upphæð hafi átt að ganga til [...].
Mál lögreglu númer [...]. Fjársvik. Kæra frá 21. apríl sl. vegna M, þar sé kærði grunaður um að svíkja út með blekkingum kr. 992.000, - 2.11.2016, sem greitt var inn á reikning J ehf. félag í eigu kærða., sem starfsmaður [...], en hann hafi látið af störfum. Þar hafi kærði misnotað aðstöðu sína, og hafi látið kæranda með blekkingum greiða umrædda upphæð á félag í sinni eigu.
Mál lögreglu númer [...]. Fjársvik. Kæra frá október 2016, en þar sé kærði grunaður um að hafa með blekkingum svikið út úr aðila leigugreiðslur vegna húsnæðis að F og G í Kópavogi að fjárhæð krónur 1.350.000,- en það mál hafi verið kært til lögreglu 20. október sl. Kærandi hafi greitt krónur 1.000.000,- sem var fyrirframgreidd leiga vegna F. Kærði hafi játað að hafa móttekið krónur 1. milljón vegna leigu á F. Kærði virðist ekki hafa haft umboð til að leigja G, en sú eign hafi verið í eigu þriðja aðila. Kærði hafi verið starfsmaður [...], en hætt þar sem starfsmaður. Svo virtist sem kærði hafi útbúið samninga í nafni [...]. Kærði neiti sök og gefi ekki trúverðugar skýringar.
Þá er í greinargerð lögreglustjóra vísað til eldri mála frá 2015, en kærði hafi þá verið á reynslulausn (2. mars 2014, 495 daga eftirstöðvar, sem hafi lokið 2. mars 2016), sbr. sakavottorð og ákvörðun um reynslulausn. Um sé að ræða eftirfarandi mál:
Mál lögreglu númer [...]. Fjársvik. Kæra frá 20. mars 2015. Kærði sé grunaður um að hafa svikið aðila með því að auglýsa á vefsíðunni „Bland“ Iphone 6 + síma til sölu, og hafi kærandi greitt inn á reikning kærða í Íslandsbanka 105.000 krónur með þremur greiðslum. Kærandi hafi aldrei fengið símann afhentan þrátt fyrir að kærði hafi lofað að endurgreiða andvirðið. Kærði geti ekki gefið viðhlítandi skýringar á þessu. Ekki hafi náðst í kærða, þar sem hann virðist hafa verið í útlöndum, en málið hafi verið kært í maí 2015. Kærði geti ekki gefið viðhlítandi skýringar á málinu.
Mál lögreglu númer [...]. Fjársvik. Kæra frá 13. maí 2015. Kærði sé grunaður um að hafa svikið aðila með því að auglýsa á vefsíðunni „Bland“ Samsung síma til sölu, en kærandi hafi greitt kærða 90.000 krónur með því að leggja andvirði símans inn á reikning kærða, en kærandi hafi aldrei fengið símann afhentan. Ekki hafi náðst í kærða, en málið hafi verið kært í júlí 2015. Kærði geti ekki gefið viðhlítandi skýringar á þessu. Ætlað sakarefni sé talið varða við 248. gr. almennra hegningarlaga.
Í málum þessum hafi kærði meðal annars verið í tölvu-, net- og símasamskiptum við kærendur, þar sem hann beiti blekkingum og þar sem hann lofi meðal annars að greiða til baka umræddar greiðslur.
Lögregla telur vera sterkan rökstuddan grun um að kærði hafi svikið út fé af aðilum með blekkingum og því sé nauðsynlegt að hann sæti gæsluvarðhaldi til að lögregla geti lokið málum með útgáfu ákæru og meðferð málsins fyrir dómi. Um sé að ræða fjársvik sem beinist að fólki sem oft sé í erfiðri aðstöðu vegna erfiðs leigumarkaðar. Það er mat lögreglu að um sé að ræða brotahrinu sem þurfi að stöðva og því sé nauðsynlegt að kærði sæti gæsluvarðhaldi til að lögregla geti lokið málum á kærða. Kærði sé undir sterkum rökstuddum grun um aðild að málunum. Kærði hafi áður komið við sögu lögreglu í tengslum við fjársvik og hafi hann hlotið dóma vegna fjársvika hér á landi og í Danmörku.
Það sé því brýnt með vísan til alls framanritaðs og gagna málsins að öðru leyti að kærða verði, með vísan til c-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, gert að sæta gæsluvarðhaldi til þriðjudagsins 30. maí 2017 kl. 16.00.
Með vísan til brotaferils kærða á undanförnum vikum er það mat lögreglustjóra að yfirgnæfandi líkur séu á því að kærði muni halda áfram brotastarfsemi fari hann frjáls ferða sinna en nauðsynlegt sé að ljúka þeim málum sem séu til meðferðar hjá lögreglu og dómstólum sem fyrst, en ákæruvaldið muni gefa út ákæru á næstu dögum.
Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og c-liðar 1. mgr. 95. gr. laga 88/2008 um meðferð sakamála er þess krafist að krafan nái fram að ganga
Eins og rakið hefur verið var kærða með dómi Hæstaréttar 6. apríl sl. í máli nr. 222/2017 gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til 2. maí 2017, á grundvelli c-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Eftir að framangreindur dómur var kveðinn hafa fleiri lagt fram kærur á hendur kærða. Rannsókn málsins mun vera á lokstigi og ákæra gefin út á næstu dögum. Kærði hefur lagt fram gögn um að hann hafi gert samkomulag við nokkra kærendur um endurgreiðslu og að kærendur falli þá frá kæru. Þetta breytir því ekki að um fjölmörg önnur mál er að ræða á hendur kærða og slíkt samkomulag breytir því ekki að brot kunna að hafa verið framin og er ákæra vegna þeirra ekki háð því að sá krefjist sem misgert var við. Kærði heldur því einnig fram að honum verði ekki gert að sæta gæsluvarðhaldi vegna þess að hann sé með háan blóðþrýsting og sykursýki. Þá hefur kærði lagt fram læknisvottorð um að unnusta hans sé barnshafandi og að um áhættu meðgöngu sé að ræða. Einnig bendir kærði á að hann eigi sex ára gamalt barn. Ekkert af þessu getur leitt til þess að kröfu lögreglustjóra um gæsluvarðhald verði synjað.
Með vísan til framangreinds og c-liðar 1. mgr. 95. gr. laga 88/2008 um meðferð sakamála er krafa um áframhaldandi gæsluvarðahald tekin til greina með þeim hætti sem nánar greinir í úrskurðarorði.
Úrskurð þennan kveður upp Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari.
Úrskurðarorð:
Kærði, X, skal sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 30. maí 2017 klukkan 16:00.