Hæstiréttur íslands

Mál nr. 226/1998


Lykilorð

  • Þjófnaður
  • Ítrekun


Nr. 226/1998
Nr. 226/1998.

Fimmtudaginn 14. janúar 1999.

Ákæruvaldið
(Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari)
gegn
Anthony Lee Bellere
(Ragnar Aðalsteinsson hrl.)

 

Þjófnaður. Ítrekun.

A var ákærður fyrir þjófnað með því að hafa brotist inn í bifreið og stolið hátölurum og hillu. Talið sannað, gegn andmælum ákærða, að hann hafi gerst brotlegur við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Við ákvörðun refsingar var tekið tillit þess að um ítrekað brot var að ræða.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 26. maí 1998 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun og jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst nú staðfestingar héraðsdóms.

Ákærði krefst sýknu af kröfum ákæruvaldsins.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða af því broti gegn 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sem um ræðir í málinu. Við ákvörðun refsingar verður í ljósi sakarferils ákærða, sem rakinn er í héraðsdómi, að líta til ákvæða 71. gr., 72. gr. og 255. gr. almennra hegningarlaga. Að þessu gættu verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms um refsingu staðfest.

Ákvæði hins áfrýjaða dóms um sakarkostnað skal vera óraskað. Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, svo sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Anthony Lee Bellere, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin saksóknarlaun í ríkissjóð, 40.000 krónur, og málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Ragnars Aðalsteinssonar hæstaréttarlögmanns, 40.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 3. apríl 1998.

Árið 1998, föstudaginn 3. apríl, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Steingími Gaut Kristjánssyni, héraðsdómara, kveðinn upp svohljóðandi dómur í sakamálinu nr. 806 1997: Ákæruvaldið gegn Anthony Lee Bellere, en málið var dómtekið 6. mars sl.

Málið er höfðað með ákæruskjali dagsettu 28. október 1997 á hendur Anthony Lee Bellere, Bárugötu 22, Reykjavík, kennitala 030966-5389, fyrir þjófnað með því að hafa, aðfaranótt sunnudagsins 11. maí 1997, brotist inn í bifreiðina GY 634 við Bárugötu 11 Reykjavík, og stolið tveimur hátölurum og hillu.

Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940,

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.

Í málinu krefst Baldur Lárusson, kt. 120478-4279, 103.340 króna í skaðabætur.

Laust eftir kl. 05:29 aðfaranótt 11. maí sl. var lögreglunni í Reykjavík tilkynnt um að verið væri að ráðast á mann á gatnamótum Bárugötu og Ægisgötu. Er lögreglan kom á vettvang hittust þar fyrir ákærði, kærandi og tveir félagar hans en þeir félagar höfðu handtekið ákærða fyrir meintan þjófnað sem lýst er í ákæru. Ákærði lýsti yfir sakleysi sínu en var færður í fangaklefa. Við skýrslutöku næsta dag ítrekaði hann sakleysi sitt. Kærandi og félagar hans hafa gefið skýrslu hjá lögreglu. Verður nú rakinn framburður ákærða og vitna fyrir dómi.

Ákærði segist hafa verið heima drukkinn að hlusta á tónlist og heyrt á milli laga eins og að hópur manna væri kominn saman úti á götunni. Hann fór út og hugðist koma sér í hópinn en sá að strákar voru neðar í götunni fyrir utan gistiheimili. Einn þeirra sagði „Þetta er hann" og snerust þeir þá gegn ákærða og einn þeirra hafði uppi barefli. Ákærði segist hafa reynt að forða sér en kveður þá sem eftir sóttu hafa náð sér á Ægisgötu. Réðust þeir á ákærða og sögðu: „Þú gerðir þetta, hvar eru hinir?" Ákærði segist hafa sagt að hann væri einn og ekki vita hvað þeir ættu við. Hann kveðst ekki hafa gengist við því sem á hann var borið. Hann segist halda að piltarnir hafi verið sex eða sjö, þar af þrír árásargjarnir sem hafi slegið sig.

Vitnið Baldur Lárusson kveðst hafa dvalið á gistiheimilinu Ísafold við Bárugötu þegar atvik málsins urðu; hann hafi litið út um glugga á 2. hæð og séð í afturenda bíls síns í stæði hinum megin í götunni; hann hafi orðið var við tvo menn í nágrenni við bílinn og ákærða inni í bílnum; hann hafi verið að príla út úr bílnum. Hann kveðst hafa hlaupið niður og út og tveir félagar sínir á eftir. Vitnið segist hafa séð ákærða á hlaupum þegar hann kom út úr gistiheimilinu; hann hafi fleygt frá sér hattahillunni úr bílnum með hátölurum í. Vitnið kveðst ekki hafa misst sjónar á ákærða nema einhverjar sekúndur en þá hafi Eiríkur félagi sinn sagt: „Þarna er hann"; þeir félagarnir hafi náð ákærða í garði og reynt að fá hann til að tjá sig um verknaðinn. Hann kveður ákærða hafa lofað að vísa þeim á geislaspilarann en ekkert hafi orðið úr því þar sem lögreglan hafi komið og tekið hann; ákærði hafi verið blóðugur á höndum þegar þeir komu að honum, verið hafi blóð í bílnum og segir vitnið sig minna að það hafi verið í aftursætinu. Vitnið synjar fyrir að blóðið hafi verið af völdum þeirra félaganna. Vitnið kveður einn hátalara hafa eyðilagst og geislaspilarann sem hafi verið alveg nýr ekki hafa komið í leitirnar. Hann segir félaga sína hafa sagt eftir ákærða að tveir aðrir hefðu verið í verki með honum.

Hann kannast við að hafa verið ölvaður en segir að sér hafi fundist hann vera orðinn nærri keyrsluhæfur þegar atvik þessi urðu; Eiríkur hafi hinsvegar verið mikið drukkinn.

Vitnið Þengill Stefánsson segir að Baldur hafi sagst heyra flaut og þeir litið út um gluggann. Þá segist hann hafa séð ákærða aftur í bílnum á leiðinni út og honum sýnst annar maður vera við bílinn. Hann segist hafa gripið hafnarboltakylfu, hlaupið út ásamt Eiríki og Baldri, séð hattahilluna úr bílnum liggja á gatnamótum Bárugötu og Ægisgötu, tvo menn hlaupa austur eftir Bárugötu en ákærða hlaupa fyrir horn og suður eftir Ægisgötu. Hann kveðst hafa misst sjónar á ákærða stutta stund; Baldur hafi komið auga á hann bak við hús þar sem hann húkti bakvið steinvegg; þeir hafi krafið ákærða sagna og þjarmað að honum; Eiríkur hafi löðrungað hann einum þrisvar sinnum. Sjálfur segist hann hafa barið hafnarboltakylfunni í steinvegginn oftar en einu sinni en ekki slegið ákærða; ákærði hafi verið blóðugur í andliti og líklega á hendi, en það hafi ekki verið af þeirra völdum; hann hafi sagt að hann skyldi vísa þeim á geislaspilarann ef þeir kölluðu ekki á lögregluna; þeir hafi svo verið á leiðinni með honum þegar lögreglan kom og tók hann. Hann segist hafa verið búinn að drekka tvo bjóra þegar þetta var en ekki vita um ástand Eiríks.

Ekki tókst að afla vættis Eiríks en hann gaf skýrslu fyrir lögreglu 25. september sl. Hann sagðist hafa verið inni í herbergi á gistiheimilinu þegar Baldur kallaði að verið væri að brjótast inn í bifreið sína, þeir hafi báðir hlaupið út, Þengill með en Eiríkur síðastur. Hann sá félaga sína hlaupa fyrir húshorn og fylgdi þeim eftir. Hann heyrði torkennileg hljóð í bakgarði og kallaði á félaga sína; þeir hafi síðan komið að manni í garðinum sem var að reyna að opna dyr; Baldur og Þengill hafi talið sig þekkja þar innbrotsþjófinn og spurt hann um þýfið; hann hafi boðist til að vísa á það og sagst ekki hafa verið einn að verki.

Niðurstöður:

Í ljósi rannsóknargagna og vættis vitna verður að telja framburð ákærða fyrir dómi ótrúverðugan og ómarktækan. Dómarinn telur hins vegar sannað, með vætti tveggja fullgóðra vitna, sem bera í öllu sem máli skiptir á sama veg, að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi, sem lýst er í ákærunni og þar er réttilega heimfærð til refsiákvæðis. Frásögn vitnanna á styrka stoð í rannsóknargögnum. Ber þá að fallast á kröfur ákæruvaldsins.

Ákærði hefur, frá árinu 1983, hlotið 24 refsidóma fyrir héraðsdómi og einu sinni verið dæmdur í Hæstarétti, þar sem héraðsdómur var staðfestur. 17 af þessum dómum eru fyrir þjófnaði og stundum fyrir fleiri afbrot jafnframt. Tveir dómanna eru dæmdir áður en ákærði náði 18 ára aldri og með öðrum er ákvörðun refsingar frestað skilorðsbundið. Ákærða hefur ellefu sinnum verið dæmdur hegningarauki. Síðast hlaut ákærði dóm 9. apríl 1997. Þá hlaut hann fjögra mánaða fangelsi fyrir þjófnað.

Eins og sakarferli ákærða er háttað þykir refsing hæfilega ákvörðuð fangelsi í 6 mánuði.

Kærandi segist hafa látið meta tjónið en ekki fengið það bætt. Hann hefur lagt fram bótakröfu studda matsgerð Tjónaskoðunarstöðvarinnar og reikningi. Skaðabótakrafan er, að því er virðist, samansett af fleiri kröfuliðum en þeim sem ákærði er sakfelldur fyrir og ekki er unnt að ráða af henni hvað verður beinlínis rakið til þeirrar háttsemi ákærða sem um er dæmt. Þá fylgja kröfunni ekki næg gögn. Með vísan til alls þessa ber að vísa kröfunni frá dómi.

Samkvæmt ofangreindum niðurstöðum ber að fella sakarkostnað á ákærða. Að því er varðar málflutningslaun er þó þess að gæta að þau hafa orðið meiri en ella af ástæðum sem ákærði á ekki sök á. Saksóknarlaun teljast hæfilega ákveðin 60.000 krónur og málsvarnarlaun sama fjárhæð. Aukakostnaður vegna árangurslausra tilrauna ákæruvaldsins til að afla vættis vitna nemur 30.000 krónum og reiknast sem hluti málflutningslauna. Þessi kostnaður greiðist úr ríkissjóði.

Dómsuppkvaðning hefur dregist nokkuð vegna anna dómarans.

Dómsorð:

Ákærði, Anthony Lee Bellere, sæti fangelsi í 6 mánuði.

Skaðabótakröfu er vísað frá dómi.

Ákærði greiði sakarkostnað, þ.m.t. 60.000 krónur í saksóknarlaun sem renni í ríkissjóð og sömu fjárhæð í málsvarnarlaun til verjanda síns Róberts Árna Hreiðarssonar héraðsdómslögmanns. 15.000 krónur í málsvarnarlaun til verjandans greiðist úr ríkissjóði.