Hæstiréttur íslands
Mál nr. 5/2002
Lykilorð
- Kærumál
- Lögbann
- Hlutafélag
|
|
Föstudaginn 25. janúar 2002. |
|
Nr. 5/2002. |
Jóhann Óli Guðmundsson(Hróbjartur Jónatansson hrl.) gegn Aðalsteini Karlssyni Heiðu Láru Aðalsteinsdóttur Hildi Sesselju Aðalsteinsdóttur Tómasi Aðalsteinssyni Bjarna HalldórssyniJóhannesi Blöndal Haraldi Gunnarssyni og Lárusi Blöndal (Jón Steinar Gunnlaugsson hrl.) |
Kærumál. Lögbann. Hlutafélög.
J, sem var hluthafi í L hf., krafðist þess að lagt yrði lögbann við því að A o.fl. hagnýttu sér þann rétt, sem fylgdi hlutafjáreign þeirra í L hf., sem þeim var afhent til ráðstöfunar á grundvelli samings þeirra og L hf. frá 1. desember 2000 um kaup félagsins á óútgefnum hlutabréfum í A ehf. Þá krafðist J þess að lagt yrði lögbann við því að A o.fl. ráðstöfuðu umræddri hlutafjáreign sinni til þriðja manns, svo og að sýslumaður legði fyrir A o.fl. að afhenda honum hlutina til varðveislu eða tryggja með tilkynningu til L hf. og Verðbréfaskráningar Íslands hf. að þeir yrðu ekki færðir yfir á nafn þriðja manns meðan lögbannið stæði yfir. Í málinu lá fyrir yfirlýsing 24. janúar 2001, sem var gefin í tengslum við hluthafafund sem var haldin í L hf. 23.-24. sama mánaðar, þar sem L hf. lýsti því yfir gagnvart A o.fl. að með samþykki hluthafafundar sama dag á hlutafjáraukningu teldist samningurinn frá 1. desember 2000 endanlega samþykktur. Auk samningsaðila undirritaði J yfirlýsinguna með eftirfarandi athugasemd: „Samþykkur sem stærsti hluthafi [L hf.]“ Í dómi Hæstaréttar segir að af þessu sé ljóst að J hafi þá verið orðið kunnugt um efni samningsins frá 1. desember 2000, hvað sem líði þekkingu hans á framvindu málsins í einstökum atriðum eftir það. Sé einnig ómótmælt að A o.fl hafi sótt hluthafafund í L hf. 10. júlí 2001 og greitt þar atkvæði í skjóli þeirra hlutabréfa í félaginu, sem þeir hafi fengið sem endurgjald samkvæmt umræddum samningi, án þess að J hreyfði athugasemdum við því. J hafi þegar höfðað dómsmál vegna umræddra viðskipta varnaraðila og L hf. Hann hafi hvorki sannað né gert sennilegt að hann muni verða fyrir réttarspjöllum af því að bíða dóms í því máli úr því sem komið sé, enda verði í því sambandi ekki litið fram hjá því að áður en hann hafi leitað lögbanns hafi honum í meira en níu mánuði verið kunnugt um samning A o.fl. og L hf. án þess að síðar tilkomin atvik gæfu frekara tilefni til þeirrar aðgerðar. Var því ekki fallist á að skilyrðum 24. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, löbann o.fl. væri fullnægt til að verða við kröfu J um lögbann.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 21. desember 2001, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 3. janúar sl. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 17. desember 2001, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að felld yrði úr gildi ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík 12. nóvember sama árs um að synja um lögbann við því að varnaraðilar hagnýti sér þann rétt, sem fylgir hlutafjáreign þeirra í Lyfjaverslun Íslands hf. að nafnverði 80.000.000 krónur, sem þeim var afhent til ráðstöfunar í maí sama árs á grundvelli samnings þeirra og Lyfjaverslunar Íslands hf. 1. desember 2000 um kaup félagsins á óútgefnum hlutabréfum að nafnverði 9.000.000 krónur í A. Karlssyni ehf. Þá var hafnað að leggja lögbann við því að varnaraðilar ráðstafi umræddri hlutafjáreign sinni til þriðja manns, svo og kröfu sóknaraðila um að sýslumaður geri varnaraðilum að afhenda honum hlutina til varðveislu eða tryggja með tilkynningu til Lyfjaverslunar Íslands hf. og Verðbréfaskráningar Íslands hf. að þeir verði ekki færðir yfir á nafn þriðja manns meðan lögbannið vari. Kæruheimild er í 1. mgr. 35. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl., sbr. 4. mgr. 91. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, eins og þeim var breytt með 102. gr. laga nr. 92/1991. Sóknaraðili krefst þess að lagt verði fyrir sýslumann að leggja á lögbann í samræmi við beiðni sína og að varnaraðilum verði gert að greiða sér málskostnað í héraði og kærumálskostnað.
Varnaraðilar krefjast þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sóknaraðila gert að greiða þeim kærumálskostnað.
I.
Ágreiningur málsaðila á rætur að rekja til samnings, sem gerður var 1. desember 2000 milli varnaraðila annars vegar og Lyfjaverslunar Íslands hf. hins vegar, en í inngangsorðum hans segir að varnaraðilar séu í samningnum nefndir seljendur og Lyfjaverslun Íslands hf. kaupandi. Er síðan tekið fram að varnaraðilar séu eigendur alls hlutafjár í A. Karlssyni ehf., en hlutabréf séu óútgefin. Muni þeir framselja hlutafé sitt til eignarhaldsfélags, sem þeir muni stofna í tengslum við samningsgerðina. Séu aðilar sammála um að kaupandi yfirtaki allt hlutafé seljenda í eignarhaldsfélaginu, en þeir fái sem endurgjald hlutabréf í kaupanda að nafnverði 160.000.000 krónur. Skuli stjórnir kaupanda og eignarhaldsfélagsins strax eftir samningsgerðina undirrita samrunaáætlun og hraða samrunaferlinu svo sem kostur sé. Þá skuli kaupandi boða til hluthafafundar til að fjalla um samninginn og stjórn kaupanda fá heimild til að gefa út nýtt hlutafé. Þá skuli kaupandi og seljandinn Aðalsteinn Karlsson hafa gagnkvæman innlausnarrétt á 80.000.000 krónum af þeim hlutabréfum, sem seljendur fái í sinn hlut við samrunann. Verði innlausnarrétti beitt skuli verðið vera 420.000.000 krónur og greiðast fyrir 15. febrúar 2001. Meðal annarra ákvæða í samningnum er upptalning í mörgum liðum á því, sem nefnt er ákvörðunarástæður fyrir samruna og fjárhæð endurgjalds, en þar á meðal er að eigið fé A. Karlssonar ehf. í lok árs 2000 nái tiltekinni fjárhæð. Um líkt leyti og þessi samningur var gerður stofnuðu varnaraðilar einkahlutafélagið Eignarhaldsfélag A. Karlsson.
Boðað var til hluthafafundar í Lyfjaverslun Íslands hf., sem haldinn var 23. og 24. janúar 2001. Var þar samþykkt tillaga stjórnar félagsins um breytingu á 4. gr. samþykkta þess, en í greininni svo breyttri segir meðal annars að hlutafé félagsins sé 300.000.000 krónur og að stjórnin skuli hafa heimild til að hækka hlutfé þess um allt að 300.000.000 krónur. Sé stjórninni heimilt að gefa út nýju hlutina í tengslum við samruna í skiptum fyrir hlutafé í öðrum félögum eða sem greiðslu vegna kaupa á eignum og rekstri.
Meðal málsgagna er fundargerð stjórnar Lyfjaverslunar Íslands hf. 8. mars 2001. Kemur þar fram að kynntur hafi verið óáritaður rekstrarreikningur fyrir A. Karlsson ehf. fyrir árið 2000 og bráðabirgðatölur fyrir janúar og febrúar 2001. Var bókað að rekstrarniðurstaða ársins 2000 væri langt frá væntingum og að forstjóra Lyfjaverslunar Íslands hf. væri falið að kanna réttarstöðu félagsins. Hinn 14. mars 2001 var síðan undirritaður viðauki við saminginn frá 1. desember 2000, þar sem meðal annars kemur fram að aðilar séu sammála um að kaupverðið eigi að lækka um fjárhæð, sem nemi frávikum frá raunverulegu eigin fé A. Karlssonar ehf. samkvæmt endurskoðuðum ársreikningi fyrir árið 2000 og því, sem gert var ráð fyrir í samningnum frá 1. desember 2000. Í samræmi við þann samning var unnið að því að sameina félögin og í Lögbirtingablaði 21. febrúar 2001 birtist tilkynning frá hlutafélagaskrá um að borist hefði samrunaáætlun Lyfjaverslunar Íslands hf. og Eignarhaldsfélags A. Karlssonar ehf. með fylgiskjölum, þar með talin yfirlýsing matsmanna samkvæmt 4. mgr. 97. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög og 4. mgr. 122. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög. Þá liggur fyrir að varnaraðilum voru afhent hlutabréf að nafnverði 80.000.000 krónur í Lyfjaverslun Íslands hf. og að innlausnarréttur samkvæmt samningnum 1. desember 2000 var nýttur, þannig að endurgjaldið fyrir hlutaféð í Eignarhaldsfélagi A. Karlssyni ehf. yrði að öðru leyti greitt með peningum.
Aðalfundur Lyfjaverslunar Íslands hf. var haldinn 2. apríl 2001. Á vormánuðum sama ár kom upp ágreiningur milli stjórnar félagsins og nokkurra hluthafa, þar á meðal tveggja varnaraðila í þessu máli, vegna ráðagerða stjórnarinnar um að kaupa af sóknaraðila allt hlutafé í Frumafli ehf. og greiða fyrir það með hlutabréfum í Lyfjaverslun Íslands hf. Var þeim ráðagerðum hrundið í framkvæmd 20. júní 2001, en vegna þessa ágreinings var boðað til hluthafafundar í félaginu, sem haldinn var 10. júlí 2001. Sama dag féll dómur Hæstaréttar í máli nr. 256/2001, þar sem fallist var á kröfu nokkurra nafngreindra hluthafa um að lagt yrði lögbann við því að sóknaraðili hagnýtti sér þann rétt, sem fylgdi hlutabréfum hans í Lyfjaverslun Íslands hf., er honum voru afhent sem endurgjald fyrir hlutabréf í Frumafli ehf., eða ráðstafaði hlutabréfunum til þriðja manns. Dómur mun ekki enn hafa gengið í máli, sem höfðað var til staðfestingar lögbanninu.
II.
Í málatilbúnaði sóknaraðila kemur fram að hann hafi að gengnum áðurnefndum dómi Hæstaréttar farið að kynna sér efni samnings varnaraðila og Lyfjaverslunar Íslands hf. frá 1. desember 2000 og síðari samninga þeirra. Hann búi erlendis og hafi ekki verið kunnugur efni samninganna eða tekið þátt í gerð þeirra. Einu afskipti hans hafi falist í yfirlýsingu 24. janúar 2001, sbr. nánar í III. kafla hér á eftir. Ákvarðanir um viðskipti Lyfjaverslunar Íslands hf. við varnaraðila hafi verið teknar af stjórn félagins en ekki á hluthafafundum, utan það að ákveðið hafi verið á hluthafafundi 24. janúar 2001 að veita stjórninni almenna heimild til að auka hlutaféð til að kaupa félög eða rekstur. Samningurinn hafi þá ekki verið kynntur hluthöfum og ekki heldur á hluthafafundum eftir það. Hinu sama gegni um viðaukann 14. mars 2001. Þau verðmæti, sem Lyfjaverslun Íslands hf. hafi þar keypt fyrir 840.000.000 krónur, hafi eingöngu verið svokölluð óefnisleg verðmæti, en fasteignir hafi áður verið færðar út úr A. Karlssyni ehf. yfir í sérstakt félag í eigu varnaraðila. Ekkert verðmat hafi legið að baki ákvörðun um kaupverðið. Vísar sóknaraðili um þetta atriði til 1. mgr. 37. gr. laga nr. 2/1995, þar sem segi að ef nýja hluti skuli greiða með skuldajöfnuði eða á annan hátt en með reiðufé skuli reglur settar um það í ákvörðun hlutahafafundar um hlutafjárhækkunina og gildi þá ákvæði 5. gr. og 6.-8. gr. laganna eftir því sem við eigi. Hafi Hæstiréttur reist niðurstöðu sína í máli nr. 256/2001 meðal annars á því að ekki hafi verið fylgt þessu ákvæði laganna áður en fyrrnefnd kaup Lyfjaverslunar Íslands hf. á Frumafli ehf. voru ráðin. Enginn vafi leiki á að þetta eigi enn frekar við um kaup lyfjaverslunarinnar á hlutum í A. Karlssyni ehf., þar sem ekkert verðmat hafi verið gert, en í hinu fyrra máli hafi verðmat verið gert of seint. Taki dómstólar augljóslega strangt á því að formsatriði séu uppfyllt í hvívetna þegar svona standi á. Í áðurgreindum samningi frá 1. desember 2000 sé ætíð rætt um kaupanda og seljendur, auk þess sem hann beri margs konar önnur auðkenni þess að um kaup hafi verið að ræða. Skipti þá engu þótt þar hafi til málamynda einnig verið fjallað um samruna félaganna, en það hafi verið gert til að gera varnaraðilum kleift að sniðganga reglur skattalaga. Jafnvel þótt litið yrði svo á að um samruna hafi verið að ræða en ekki kaup, þannig að 2. mgr. 37. gr. laga nr. 2/1995 eigi hér við, verði niðurstaðan hin sama. Í XIV. kafla laganna séu strangar formkröfur gerðar einnig við sameiningu félaga, sem ekki hafi verið virtar. Þannig hafi til dæmis endurskoðendur félaganna gert skýrslu um samrunaáætlunina, en með því hafi verið brotið gegn 1. mgr. 122. gr. laganna, sem mæli fyrir um að óháðir matsmenn skuli annast það verk. Margs konar aðrar brotalamir hafi orðið við framkvæmd samruna félaganna.
Varnaraðilar taka fram að afhending hlutabréfa til þeirra í Lyfjaverslun Íslands hf. að nafnverði 80.000.000 krónur hafi farið fram í maí 2001 og sé samningurinn um samruna félaganna efndur að fullu. Hafi þeir eftir það nýtt atkvæðisrétt sinn á vettvangi félagsins, meðal annars á hluthafafundi 10. júlí 2001, án nokkurra athugasemda af hálfu sóknaraðila. Séu ekki uppfyllt í málinu skilyrði 24. gr. laga nr. 31/1990 fyrir því að lögbann megi leggja á, svo sem það að tilteknar athafnir séu byrjaðar eða yfirvofandi. Halda varnaraðilar því einnig fram að sóknaraðili hafi verið gjörkunnugur öllum atvikum þessa máls, auk þess að hafa samþykkt samninginn 1. desember 2000 berum orðum í yfirlýsingu 24. janúar 2001. Hafi hann á þeim tíma verið stærsti hluthafinn í Lyfjaverslun Íslands hf. og þá ráðið vali meiri hluta stjórnarmanna. Hafi stjórnarformaðurinn verið sérlegur trúnaðarmaður sóknaraðila.
Þá mótmæla varnaraðilar því að samruni félaganna tveggja hafi verið málamyndagerningur eins og sóknaraðili haldi fram. Stofnun Eignarhaldsfélags A. Karlssonar ehf. hafi haft skýran tilgang og heimildin til þess samkvæmt lögum sé ótvíræð. Með þessu hafi meðal annars verið komist hjá því að leggja A. Karlsson ehf. niður, sem hefði haft í för með sér áhættu af því að viðskiptasambönd töpuðust. Hafi það verið samkvæmt tillögu Lyfjaverslunar Íslands hf. sem þessi háttur var hafðar á viðskiptunum. Þar sem um samruna félaga hafi verið að ræða eigi 2. mgr. 37. gr. laga nr. 2/1995 hér við, en ekki 1. mgr. sömu greinar. Reglur XIV. kafla laganna um samruna félaga hafi verið hafðar í heiðri. Er því sérstaklega mótmælt að endurskoðendur, sem gerðu sérfræðiskýrslur vegna samruna félaganna, hafi ekki verið hlutlausir og óvilhallir, en hefð sé fyrir því að endurskoðendur félaga, sem eru sameinuð, vinni slíkar skýrslur sameiginlega. Með því sé tryggt að þeir, sem vinni verkið, hafi þekkingu á málefnum félaganna og að farið sé yfir þau með gagnrýnum augum. Þá sé af og frá að skort hafi á heimildir frá hluthafafundi Lyfjaverslunar Íslands hf. til að ganga til samrunans. Hafi beinlínis verið boðað til fundarins 24. janúar 2001 vegna samningsins við varnaraðila og öllum, sem sátu fundinn, hafi verið fullljóst að samþykktum félagsins hafi þá verið breytt til að gera stjórninni kleift að ganga frá samrunanum við Eignarhaldsfélag A. Karlssonar ehf.
III.
Sóknaraðili lýsti yfir fyrir sýslumanninum í Reykjavík 12. nóvember 2001 að hann krefðist úrlausnar Héraðsdóms Reykjavíkur um ákvörðunina, sem sýslumaður hafði þá tekið um hafna kröfu hans um lögbann. Af því tilefni var mál þetta þingfest í héraði 21. sama mánaðar. Í málatilbúnaði sóknaraðila kemur fram að hann hafi 25. október 2001 þingfest mál fyrir héraðsdómi gegn Lyfjaverslun Íslands hf. og varnaraðilum, þar sem þess sé meðal annars krafist að viðurkennt verði með dómi að áðurnefndur samningur 1. desember 2000 sé ógildur, sem og samruni Lyfjaverslunar Íslands hf. og Eignarhaldsfélags A. Karlssonar ehf. Dómur hefur ekki gengið í málinu.
Meðal þeirra skilyrða, sem fullnægja verður samkvæmt 24. gr. laga nr. 31/1990 til þess að beiðni um lögbann geti náð fram að ganga, er að athöfn, sem stöðva skal með slíkri gerð, sé byrjuð eða yfirvofandi og gerðarbeiðandi sanni eða geri sennilegt að réttindi sín fari forgörðum eða verði fyrir teljandi spjöllum verði hann knúinn til að bíða dóms um þau. Yfirlýsing 24. janúar 2001, sem áður var getið, var gefin í tengslum við hluthafafund í Lyfjaverslun Íslands hf. sama dag. Í henni segir meðal annars að félagið ábyrgist gagnvart varnaraðilum að með samþykki hluthafafundar sama dag á hlutafjáraukningu teljist samningurinn frá 1. desember 2000 endanlega samþykktur, þar með talið hvað varðar verð og greiðslutilhögun. Auk samningsaðila undirritaði sóknaraðili yfirlýsinguna með eftirfarandi athugasemd: „Samþykkur sem stærsti hluthafi Lyfjaverslunar Íslands hf.“ Af þessu er ljóst að sóknaraðila hefur þá verið orðið kunnugt um efni samningsins frá 1. desember 2000, hvað sem líður þekkingu hans á framvindu málsins í einstökum atriðum eftir það. Er einnig ómótmælt að varnaraðilar sóttu hluthafafund í Lyfjaverslun Íslands hf. 10. júlí 2001 og greiddu þar atkvæði í skjóli þeirra hlutabréfa í félaginu, sem þeir fengu sem endurgjald samkvæmt umræddum samningi, án þess að sóknaraðili hreyfði athugasemdum við því. Sóknaraðili hefur sem fyrr segir þegar höfðað dómsmál vegna umræddra viðskipta varnaraðila og Lyfjaverslunar Íslands hf. Hann hefur hvorki sannað né gert sennilegt að hann muni verða fyrir réttarspjöllum af því að bíða dóms í því máli úr því sem komið er, enda verður í því sambandi ekki litið fram hjá því að áður en hann leitaði lögbanns hafði honum í meira en níu mánuði verið kunnugt um samning varnaraðila og Lyfjaverslunar Íslands hf. frá 1. desember 2000 án þess að síðar tilkomin atvik gæfu frekara tilefni til að þeirrar aðgerðar.
Samkvæmt framangreindu verður ekki fallist á að skilyrðum laga sé fullnægt til að verða við kröfu sóknaraðila um lögbann. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur um annað en málskostnað, en rétt er að hver aðilanna beri sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur um annað en málskostnað.
Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 17. desember 2001.
Mál þetta var þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 21. nóvember sl.
Sóknaraðili er Jóhann Óli Guðmundsson, kt. 020954-5829, með lögheimili á Gíbraltar en með dvalarstað á Íslandi að Brekkugerði 34, Reykjavík.
Varnaraðilar eru Aðalsteinn Karlsson, kt. 121146-2749, Flókagötu 59, Reykjavík, Heiða Lára Aðalsteinsdóttir, kt. 290171-3509, Laugalind 2, Kópavogi, Hildur Sesselja Aðalsteinsdóttir, kt. 100377-4549, Lönguhlíð 21, Reykjavík, Tómas Aðalsteinsson, kt. 121182-5729, Flókagötu 59, Reykjavík, Bjarni Halldórsson, kt. 280252-3369, Hlyngerði 2, Reykjavík, Jóhannes Blöndal, kt. 250849-2069, Drápuhlíð 20, Reykjavík, Haraldur Gunnarsson, kt. 200960-3519, Grasrima 20, Reykjavík, og Lárus Blöndal, kt. 051161-2899, Rjúpnahæð 3, Garðabæ.
Dómkröfur sóknaraðila eru að ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík 12. nóvember 2001 um að hafna kröfum sóknaraðila um lögbann verði felld úr gildi og lagt verði fyrir sýslumann að leggja lögbann við því í fyrsta lagi, að varnaraðilar hagnýti sér þann rétt sem fylgir hlutafjáreign þeirra í Lyfjaverslun Íslands hf., kt. 430269-4029, Borgartúni 7, Reykjavík, sem var afhent þeim til ráðstöfunar í maí 2001, að nafnvirði 80.000.000 króna á grundvelli samnings varnaraðila og Lyfjaverslunar Íslands hf., dagsettum 1. desember 2000, um kaup Lyfjaverslunar Íslands hf. á óútgefnum hlutabréfum, að nafnvirði 9.000.000 króna í hlutafélaginu A. Karlsson hf., kt. 6709-0179, Brautarholti 28, Reykjavík, í öðru lagi, að lagt verði lögbann við því að varnaraðilar ráðstafi framangreindri hlutabréfaeign sinni í Lyfjaverslun Íslands hf. til þriðja aðila með veðsetningu eða sölu eða öðrum hætti, í þriðja lagi, að lagt verði fyrir sýslumann að taka afstöðu til þess, um leið og lögbannið verður ákveðið, að gera varnaraðilum skylt að afhenda sýslumanni hlutabréfin til varðveislu með vísan til ákvæða 2. mgr. 25. gr. laga nr. 31/1990 eða tryggja með tilkynningu til Lyfjaverslunar íslands hf. og Verðbréfaskráningar Íslands hf. að framangreind hlutabréf verði ekki færð yfir á nafn þriðja aðila meðan lögbannið varir. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi varnaraðila in solidum.
Dómkröfur varnaraðila eru að öllum kröfum sóknaraðila fyrir dóminum verði synjað og honum gert að greiða varnaraðilum óskipt málskostnað að skaðlausu.
Málaferli aðila eiga sér nokkurn aðdraganda, sem ekki verður rakinn hér, enda varða þau ekki óskipt að öllu leyti það álitaefni sem hér er til úrlausnar, þ.e. hvort höfnun sýslumanns á lögbannskröfu sóknaraðila eigi rétt á sér.
Sóknaraðili, sem er eigandi 11.27% hlutafjár í Lyfjaverslun Íslands hf., telur að samningur milli Lyfjaverslunar Íslands hf. og varnaraðila frá 1. desember 2000 um kaup félagsins á öllum hlutabréfum varnaraðila í A. Karlsson hf. sé ólögmætur og að samruni sem varð milli Lyfjaverslunar Íslands hf. og Eignarhaldsfélagsins A. Karlsson ehf. hafi ekki verið með lögmætum hætti. Hefur sóknaraðili höfðað mál á hendur Lyfjaverslun Íslands hf. og varnaraðilum meðal annars til að fá þetta viðurkennt. Málið var þingfest 25. október 2001 en lögbannsbeiðni sóknaraðila móttekin hjá sýslumanni 31. október 2001.
Af hálfu sóknaraðila er talið ljóst, að með kaupsamningi Lyfjaverslunar Íslands hf. og varnaraðila um hlutabréf í A. Karlsson hf. „og/eða málamyndasamruni L.Í. og Eignarhaldsfélagsins A. Karlsson ehf.," hafi ákvæði laga nr. 2/1995 um hlutafélög verið brotin. Þessi kaup og ráðstafanir varnaraðila og Lyfjaverslunar Íslands hf. séu ógild. Sóknaðili muni verða fyrir teljandi spjöllum verði hann knúinn til að bíða dóms um lögvarin réttindi sín. Fráleitt sé að varnaraðilar beiti þeim réttindum í félaginu sem bundin séu hlutabréfum, er þeir hafi fengið með „ólöglegum gerningi stjórnar L.Í." Frelsi varnaraðila til að ráðstafa hlutabréfunum án takmarkana eða hagnýta sér að öðru leyti réttindi, sem bundin eru við þau, sé fullnægjandi ástæða til lögbanns svo sem krafist er.
Af hálfu varnaraðila er byggt á því að krafa sóknaraðila um lögbann uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. Þá megi telja að ákvæði 3. mgr. 24. gr. sömu laga standi einnig í vegi fyrir lögbannskröfunni. Telji sóknaraðili, að umdeildur kaupsamningur um hlutabréf hafi valdið honum tjóni, geti hann freistað þess að höfða skaðabótamál eins og 1. tl. 3. mgr. 24. gr. mælir fyrir um. Þá er byggt á því að ljóst sé að ótvíræðir hagsmunir varnaraðila af því, að gerðinni sé synjað, séu miklum mun ríkari en umdeildir hagsmunir sóknaraðila að koma gerðinni fram.
Niðurstaða: Með 24. gr. laga nr. 31/1990 gerði löggjafinn ráð fyrir að heimildir til lögbannsgerðar yrðu þrengdar talsvert frá því sem áður var. Nú þarf gerðarbeiðandi að sanna eða gera sennilegt að athöfn gerðarþola brjóti gegn rétti hans. Lögbanni verður ekki beitt nema gerðarbeiðandi sanni eða geri sennilegt að hagsmunir hans muni fara forgörðum, verði hann knúinn til að bíða dómsúrlausnar um vernd þeirra. Með því að lögbann er í eðli sínu neyðarráðstöfun, verður að telja ófært að því sé beitt í tilvikum, þar sem almenn úrræði geta komið til. Sú athöfn, sem banna á, verður að vera byrjuð eða yfirvofandi. Það er ekki nægilegt að hún sé hugsanleg einhvern tímann síðar. Gerðarþoli verður að hafa sýnt hug sinn ótvírætt í verki. Engin lagaheimild er fyrir því að leggja lögbann við því að gerðarþoli hafi tækifæri til að brjóta rétt á manni enda þótt tilgreint sé með hvaða hætti það gæti gerst.
Sóknaraðili hefur ekki með sannfærandi hætti sýnt fram á að lögmælt skilyrði séu til að verða við kröfu hans um lögbann. Verður því að hafna kröfu hans.
Rétt er að sóknaraðili greiði varnaraðilum 150.000 krónur alls í málskostnað.
Páll Þorsteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
ÚRSKURÐARORÐ:
Hafnað er kröfu sóknaraðila, Jóhanns Óla Guðmundssonar, um lögbann.
Sóknaraðili greiði varnaraðilum, Aðalsteini Karlssyni, Heiðu Láru Aðalsteins-dóttur, Hildi Sesselju Aðalsteinsdóttur, Tómasi Aðalsteinssyni, Bjarna Halldórssyni, Jóhannesi Blöndal, Haraldi Gunnarssyni og Lárusi Blöndal, öllum samanlagt, 150.000 krónur í málskostnað.