Hæstiréttur íslands
Mál nr. 472/2009
Lykilorð
- Kærumál
- Dómkvaðning matsmanns
|
|
Þriðjudaginn 13. október 2009. |
|
Nr. 472/2009. |
Íslenska ríkið og Fjármálaeftirlitið (Jóhannes Karl Sveinsson hrl.) gegn Aresbank S.A. (Bjarki Diego hrl.) |
Kærumál. Dómkvaðning matsmanns.
Fallist var á beiðni A um dómkvaðningu tveggja matsmanna til að meta tiltekin atriði varðandi svokölluð peningamarkaðsinnlán í máli hans á hendur N hf., F og Í, þó þannig að fimm spurninganna yrðu ekki lagðar fyrir matsmennina.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Markús Sigurbjörnsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 12. ágúst 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 20. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 31. júlí 2009, þar sem tekin var að hluta til greina krafa varnaraðila um að dómkvaddir yrðu matsmenn til að meta nánar tiltekin atriði í máli, sem hann hefur höfðað aðallega á hendur NBI hf. en sóknaraðilum til vara. Kæruheimild er í c. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilar krefjast þess að beiðni varnaraðila um dómkvaðningu matsmanna verði hafnað og honum gert að greiða málskostnað í héraði ásamt kærumálskostnaði.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
NBI hf. hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
I
Varnaraðili höfðaði mál þetta með stefnu 27. febrúar 2009 aðallega á hendur NBI hf. til greiðslu á 30.000.000 evrum, en til vara gegn sóknaraðilum til viðurkenningar á rétti sínum til skaðabóta úr hendi þeirra sökum þess að hann hafi orðið af greiðslu innstæðna að fjárhæð 30.000.000 evrur og 7.000.000 bresk pund, í báðum tilvikum með nánar tilgreindum vöxtum. Í héraðsdómsstefnu lýsti varnaraðili atvikum svo að hann sé spænskur banki í eigu seðlabanka Líbýu, sem hafi 6. júní og 7. ágúst 2008 lagt með svokölluðum peningamarkaðsinnlánum samtals 30.000.000 evrur inn hjá Landsbanka Íslands hf. í starfsstöð hans hér á landi, en fé þetta hafi átt að verða laust til útborgunar 12. nóvember og 10. desember sama ár. Að auki hafi varnaraðili 16. september 2008 lagt á sama hátt 7.000.000 bresk pund inn hjá bankanum, en sú fjárhæð hafi átt að losna til útborgunar 18. mars 2009. Sóknaraðilinn Fjármálaeftirlitið hafi 7. október 2008 tekið ákvörðun á grundvelli 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, um að taka yfir vald hluthafafundar í Landsbanka Íslands hf., víkja stjórn félagsins frá störfum og skipa því skilanefnd. Hinn 9. sama mánaðar hafi sóknaraðilinn kynnt ákvörðun sína um að tilteknum eignum Landsbanka Íslands hf. væri ráðstafað til Nýja Landsbanka Íslands hf., sem nú beri heitið NBI hf., gegn því að hann tæki meðal annars yfir „skuldbindingar í útibúum Landsbanka Íslands hf. á Íslandi vegna innlána frá fjármálafyrirtækjum, Seðlabanka Íslands og öðrum viðskiptavinum.“ Að undangengnum viðræðum og bréfaskiptum milli varnaraðila og sóknaraðilans hafi sá síðarnefndi lýst þeirri afstöðu 21. nóvember 2008 að peningamarkaðsinnlán varnaraðila teldust ekki til þeirra skuldbindinga Landsbanka Íslands hf., sem færðar hafi verið til NBI hf., og hafi þetta verið ítrekað í bréfi sóknaraðilans 3. desember sama ár. Varnaraðili unir ekki þessari afstöðu og reisir aðalkröfu sína í málinu gegn NBI hf. í meginatriðum á því að tilkall hans til greiðslna úr hendi Landsbanka Íslands hf., sem endurkræfar hafi verið við höfðun málsins, séu meðal þeirra skuldbindinga, sem nýi bankinn hafi tekið að sér samkvæmt fyrrgreindri ákvörðun sóknaraðilans Fjármálaeftirlitsins 9. október 2008. Varakröfuna á hendur sóknaraðilum byggir varnaraðili á hinn bóginn á því að þeir hafi svo að skaðabótaskyldu varði komið í veg fyrir að innstæður hans yrðu greiddar út af NBI hf.
Á dómþingi 18. júní 2009 lagði varnaraðili fram beiðni um að dómkvaddir yrðu tveir menn „til að meta tiltekin atriði varðandi svo kölluð peningamarkaðsinnlán, m.a. muninn á þeim og öðrum innlánum, ef einhver er, meðhöndlun þeirra og framkvæmd á alþjóðlegum bankamarkaði o.fl.“ Matsatriði voru tilgreind nánar í fjórtán töluliðum í beiðninni og var jafnframt í sex liðum gerð grein fyrir því hvað varnaraðili hygðist sanna með matsgerðinni. Sóknaraðilar ásamt NBI hf. andmæltu í þinghaldi 2. júlí sama ár að orðið yrði við beiðni varnaraðila og var leyst úr þeim ágreiningi þeirra með hinum kærða úrskurði.
II
Í úrskurði héraðsdóms er greint frá þeim fjórtán spurningum, sem varnaraðili óskar eftir í matsbeiðni að dómkvaddir menn veiti svör við. Með úrskurðinum var hafnað að leggja fyrir matsmenn spurningar í 11. til og með 14. lið. Með því að varnaraðili unir við þá niðurstöðu er hér til úrlausnar ágreiningur hans við sóknaraðila um hvort dómkvaddir verði menn til að svara fyrstu tíu matsspurningunum.
Með 7. lið matsspurninga óskar varnaraðili eftir svari dómkvaddra manna við því hver munur sé á „s.k. „Term Deposits“ frá Straumi, sbr. dskj. 48“ og því, sem varnaraðili nefnir peningamarkaðsinnlán sín hjá Landsbanka Íslands hf. Í gögnum málsins er ekki að finna af hendi varnaraðila viðhlítandi skýringu á því hverju svar við þessari spurningu varðar fyrir úrlausn um kröfur hans. Ákvæði hins kærða úrskurðar um að varnaraðila sé heimilt að fá dómkvadda menn til að veita svar við þessari spurningu verður því fellt úr gildi.
Í 2., 4., 6. og 10. lið spurninganna leitar varnaraðili svara matsmanna um hverjar venjur séu á svokölluðum alþjóðlegum bankamarkaði um nánar tiltekin atriði. Samkvæmt 2. mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991 verður málsaðili, sem ber fyrir sig venju, að sanna tilvist hennar og efni. Matsspurningar í 1., 3., 5., 8. og 9. lið lúta efnislega að því að afla lýsingar dómkvaddra manna á samanburði á nánar tilgreindum atriðum. Þótt ætla verði að varnaraðila sé fært að leggja gögn um þessi atriði fyrir héraðsdóm án þess að afla áður skoðunargerðar í skilningi 1. mgr. 60. gr. laga nr. 91/1991 um þennan samanburð verður ekki litið fram hjá því að þau varða að ýmsu leyti álitaefni, sem ekki verður slegið föstu að dómara sé fært að meta án atbeina sérfróðra manna, sbr. 2. mgr. sömu lagagreinar. Eins og málið liggur fyrir verður ekki litið svo á að bersýnilegt sé að þau atriði, sem þessar níu matsspurningar snúa að, skipti engu við úrlausn málsins, sbr. 3. mgr. 46. gr. sömu laga. Varnaraðila verður því ekki meinað að afla svara dómkvaddra manna við þessum spurningum, enda ber hann sjálfur kostnað af matsgerð og áhættu af því hvort hún komi honum að notum. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur að þessu leyti.
Rétt er að aðilarnir beri hver sinn kostnað af þessum þætti málsins í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur að öðru leyti en því að spurning í 7. lið í matsbeiðni varnaraðila, Aresbank S.A., verður ekki lögð fyrir dómkvadda matsmenn.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 31. júlí 2009.
Mál þetta, sem tekið var tekið til úrskurðar 14. júlí sl. vegna ágreinings um dómkvaðningu matsmanna er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Aresbank, Castellana, 257 Madrid, Spáni, aðallega á hendur NBI hf., Austurstræti 11, Reykjavík, en til vara Fjármálaeftirlitinu, Suðurlandsbraut 32, Reykjavík, og íslenska ríkinu, Sölvhólsgötu 7, Reykjavík, með stefnu birtri 26. og 27. febrúar 2009.
Í þinghaldi í málinu 18. júní sl. lagði stefnandi fram beiðni um dómkvaðningu tveggja matsmanna til að meta tiltekin atriði varðandi svokölluð peningamarkaðsinnlán, eins og nánar greinir í matsbeiðni.
Matsbeiðninni var mótmælt af hálfu stefndu og varastefndu lögðu fram skriflegar athugasemdir sínar við matsbeiðni í þinghaldi 2. júlí sl.
Fram fór málflutningur vegna ágreinings um dómkvaðninguna 14. júlí sl. Matbeiðandi krafðist þess að dómkvaðning matsmanna færi fram og gerði kröfu um málskostnað í þessum þætti málsins. Af hálfu matsþola, stefndu í málinu, var þess krafist að beiðni um dómkvaðningu yrði hafnað og gerð krafa um málskostnað.
Í matsbeiðni er málavöxtum og matsatriðum lýst þannig:
Mál þetta má rekja til millifærslna matsbeiðanda á peningum til íslenskra banka í formi svo kallaðra peningamarkaðsinnlána samtals 120.000.000 evrur auk 7.000.000 breskra punda. Þrjú af þessum innlánum voru lögð inn hjá Landsbanka Íslands hf., fyrst 15.000.000 evrur þann 6. júní 2008 en sú innstæða var bundin til 10. desember 2008 og bar 5,02% vexti. Síðan sama fjárhæð 15.000.000 evrur sem lögð var inn 7. ágúst 2008 og var bundin til 12. nóvember 2008 og bar 5,18% vexti. Loks voru lögð inn 7.000.000 bresk pund þann 16. september 2008 en sú fjárhæð var laus til greiðslu 18. mars 2009 og ber 6,20% vexti (innlán þessi vera sameiginlega nefnd „peningamarkaðsinnlánin“)
Ríkisstjórn Íslands birti yfirlýsingu á vef forsætisráðuneytisins þann 6. október 2008, þar sem áréttað var af hálfu ríkisstjórnar Íslands að innstæður í innlendum viðskiptabönkum og sparisjóðum og útibúum þeirra hér á landi yrðu tryggðar að fullu.
Sama dag, þann 6. október 2008, samþykkti Alþingi lög um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl. nr. 125/2008 sem veittu fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs heimild til að reiða fram fjármagn til að stofna nýtt fjármálafyrirtæki eða yfirtaka fjármálafyrirtæki eða þrotabú þess í heild eða að hluta.
Á grundvelli heimildar í 5. gr. laga nr. 125/2008, sem fól í sér viðbót við lög um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002 og varð 100. gr. a. þeirra laga og í kjölfar knýjandi fjárhags- og rekstrarerfiðleika Landsbanka Íslands hf. birti Fjármálaeftirlitið, þann 7. október 2008 ákvörðun sína um að taka yfir vald hluthafafundar Landsbanka Íslands hf. og víkja félagsstjórn í heild sinni frá störfum og skipa í hennar stað svonefnda skilanefnd. Í fréttatilkynningu sem fylgdi ákvörðuninni og birt var á vefsíðu Fjármálaeftirlitsins var áréttað að „Bankainnlán á Íslandi eru að fullu tryggð, eins og ríkisstjórnin hefur lýst yfir“.
Þann 9. október 2008 birti Fjármálaeftirlitið ákvörðun sína um ráðstöfun eigna og skulda Landsbanka Íslands hf. á grundvelli 100. gr. a. laga nr. 161/2002. Þar var tekið fram að tilteknum eignum sé ráðstafað til Nýja Landsbanka Íslands hf., nú NBI hf., og jafnframt að Nýi Landsbanki Íslands hf. skuli taka yfir tilteknar skuldir og aðrar skuldbindingar Landsbanka Íslands hf. Í 7. tl. ákvörðunar þessarar segir síðan orðrétt:
„Nýi Landsbanki Íslands hf. yfirtekur skuldbindingar í útibúum Landsbanka Íslands hf. á Íslandi vegna innlána frá fjármálafyrirtækjum, Seðlabanka Íslands og öðrum viðskiptavinum. Jafnframt yfirtekur Nýi Landsbanki Íslands hf. réttindi og skyldur samkvæmt afleiðusamningum.“
Þá segir orðrétt í 8. tl. sömu ákvörðunar:
„Innlendar innstæður við Landsbanka Íslands hf. flytjast yfir til Nýja Landsbanka Íslands hf. miðað við stöðu og áunna vexti á tímamarki framsals skv. 5. tl. Ekki er þörf á innköllun eða auglýsingu vegna þeirrar færslu.“
Af hálfu matsbeiðanda er tekið fram að Í málinu sé m.a. deilt um það hvort peningamarkaðsinnlánin teljist innlán/innstæða og hafi því flust eða átt að flytja yfir til NBI hf. í samræmi við ofangreint eða hvort um lán hafi verið að ræða sem rétt hafi verið að skilja eftir í Landsbanka Íslands hf. líkt og Fjármálaeftirlitið hafi haldið fram. Í ljósi þessa sé það mikilvægt fyrir matsbeiðanda að varpa ljósi á það hvert raunverulegt eðli peningamarkaðsinnlánanna sé, hvernig tæknileg og bókhaldsleg meðhöndlun þeirra almennt sé og að ekki sé sá munur á þeim og öðrum færslum sem almennt sé viðurkennt að skuli teljast til innlána að þau beri að flokka sem lán en ekki innlán. Með mati þessu hyggst matsbeiðandi meðal annars sanna eftirfarandi:
1. Að ekki sé marktækur munur á eðli og eiginleikum peningamarkaðsinnlána, líkt og peningamarkaðsinnlánanna og þeim innlánum sem flutt voru frá Landsbanka Íslands hf. til NBI hf. þannig að þau fyrrnefndu myndu flokkast á alþjóðlegum bankamarkaði sem lán en hin síðarnefndu sem innlán.
2. Að gjörningar sem að öllu verulegu leyti eru sambærilegir við peningamarkaðsinnlánin hafi verið fluttir frá Landsbanka Íslands hf. til NBI hf.
3. Að peningamarkaðsinnlán, líkt og peningamarkaðsinnlánin, séu almennt talin og meðhöndluð sem innlán á alþjóðlegum bankamarkaði.
4. Að peningamarkaðsinnlánin séu eðlisólík hefðbundnum millibankalánum.
5. Að samkvæmt alþjóðlegum reikningsskilastöðlum (IFRS) beri að færa peningamarkaðsinnlánin til bókar sem innlán en ekki lán.
6. Hvert sé líklegt endurgreiðsluhlutfall af peningamarkaðsinnlánunum verði niðurstaðan sú að þau séu og verði áfram hjá Landsbanka Íslands hf. og þar með hversu mikið af þeim muni tapast.
Þó nokkur bréfaskipti og tölvupóstsamskipti hafi átt sér stað milli matsbeiðanda og Fjármálaeftirlitsins og við lögmann tryggingasjóðs innstæðueigenda og milli annarra aðila vegna þessa. Meðal þess sem Fjármálaeftirlitið hafi borið fyrir sig, niðurstöðu sinni til stuðnings, sé bókhaldsmeðferð peningamarkaðsinnlánanna sem bendi, að mati Fjármálaeftirlitsins, til þess að um lán sé að ræða og að enginn eðlismunur sé á milli þessara gjörninga og hefðbundinna millibankalána. Þá hafi því verið haldið fram af hálfu Fjármálaeftirlitsins að peningamarkaðsinnlán séu innlán, nema þegar gagnaðili fjármálafyrirtækis sé annað fjármálafyrirtæki en þá teljist þau til hefðbundinna lánasamninga.
Með hliðsjón af því sem að framan greinir, er þess óskað að matsmennirnir láti í té skriflegt og rökstutt álit á eftirfarandi atriðum:
1. Hver, ef einhver, er eðlismunurinn, þ.e. marktæki munurinn á skilmálum og öðrum eiginleikum, milli peningamarkaðsinnlánanna og innlána Seðlabanka Íslands hjá Landsbanka Íslands hf. og öðrum fjármálafyrirtækjum?
2. Eru innlán seðlabanka hjá fjármálafyrirtækjum almennt skilgreind á alþjóðlegum bankamarkaði sem peningamarkaðsinnlán?
3. Hver, ef einhver, er eðlismunurinn, þ.e. marktæki munurinn á skilmálum og öðrum eiginleikum, milli peningamarkaðsinnlánanna og þeirra innlána fjármálafyrirtækja hjá Landsbanka Íslands hf. sem flutt voru til NBI hf.?
4. Er almennt talið á alþjóðlegum bankamarkaði að marktækur eðlismunur sé á peningamarkaðsinnlánum frá fjármálafyrirtækjum og peningamarkaðsinnlánum frá aðilum sem ekki teljast fjármálafyrirtæki, þannig að hin fyrri séu álitin lán en hin síðari sem innlán?
5. Hver, ef einhver, er eðlismunurinn, þ.e. marktæki munurinn á skilmálum og öðrum eiginleikum, á hefðbundnum millibankalánum og peningamarkaðsinnlánum?
6. Hvernig er venjan á alþjóðlegum bankamarkaði að meðhöndla peningamarkaðsinnlán sem eru svipaðs eða sama eðlis og peningamarkaðsinnlánin, þ.e. sem innlán eða lán?
7. Hver, ef einhver, er eðlismunurinn, þ.e. marktækur munur, á s.k. „Term Deposits“ frá Straumi, sbr. dskj. 48 og peningamarkaðsinnlánunum?
8. Hver er marktæki munurinn á tæknilegri meðferð fjármálafyrirtækja á peningamarkaðsinnlánunum og öðrum innlánum, þ.e. hvernig þau eru varðveitt og hvernig viðkomandi fjármálafyrirtæki geta nýtt þessa fjármuni í rekstri sínum?
9. Eru peningamarkaðsinnlán alltaf meðhöndluð eins tæknilega, þ.e. skráð með sama hætti á reikning eða eru þau stundum lögð inn á reikninga sem skráðir eru hjá Reiknistofu bankanna og stundum skráð með öðrum hætti? Ef svarið er að þau séu stundum skráð með ólíkum hætti eftir atvikum, er þá einhver eðlismunur, þ.e. marktækur munur á skilmálum og öðrum eiginleikum, á peningamarkaðsinnlánum sem hafa verið skráð á reikninga hjá Reiknistofu bankanna og annarra sem skráð hafa verið með öðrum hætti?
10. Er almennt viðurkennt á alþjóðlegum bankamarkaði að niðurstaðan um það hvort gjörningur teljist lán eða innlán ráðist af því hvort viðkomandi fjárhæð er lögð inn á hefðbundinn bankareikning eða meðhöndluð með öðrum hætti af því fjármálafyrirtæki sem tekur við fjármununum?
11. Hafa einhver peningamarkaðsinnlán (eða aðrir eðlislíkir gjörningar) sem lögð voru inn hjá Landsbanka Íslands hf. fyrir 9. október 2008 verið færð frá Landsbanka Íslands hf. til Nýja Landsbanka Íslands hf. (nú NBI hf.)? Ef svo er, var í einhverjum tilvikum um að ræða peningamarkaðsinnlán frá fjármálafyrirtækjum?
12. Hefur NBI hf. í einhverjum tilvikum greitt út fé til fjármálafyrirtækja sem höfðu upphaflega millifært fé í formi peningamarkaðsinnlána eða með millifærslum af svipuðu eðli til Landsbanka Íslands hf.?
13. Hvernig ber fjármálafyrirtæki sem tekur við peningamarkaðsinnlánum, hvort sem er frá fjármálafyrirtækjum eða öðrum, að færa slíkar færslur í bókhaldi sínu, þ.e. sem innlán (e. Deposit) eða sem lántöku (e. Borrowings), samkvæmt alþjóðlegum reikningsskilastöðum IFRS? Að svari við fyrrgreindri spurningu virtu, hvernig bar að meðhöndla peningamarkaðsinnlánin samkvæmt IFRS?
14. Að því gefnu að peningamarkaðsinnlánin séu og verði áfram í Landsbanka Íslands hf. og kröfu vegna þeirra lýst við slitameðferðina skv. lögum nr. 161/2002 og miðað við fyrirliggjandi upplýsingar um eignir og skuldir Landsbanka Íslands hf., hvert er líklegt endurgreiðsluhlutfall af peningamarkaðsinnlánunum ef annars vegar krafa vegna þeirra telst forgangskrafa sem njóti réttarstöðu skv. 112. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 og hins vegar ef krafan telst almenn krafa skv. 113. gr. laga nr. 21/1991?
Til að geta svarað og lagt mat á ofangreint atriði telur matsbeiðandi nauðsynlegt að dómkvaddir verði tveir matsmenn úr hópi erlendra löggiltra endurskoðanda frá Deloitte, KPMG, Ernst & Young eða PriceWaterhouseCoopers.
Af hálfu matsþola fjármálaeftirlits og íslenska ríkisins voru settar fram skriflegar athugasemdir við matsbeiðni í þinghaldi 2. júlí sl. Þar kemur fram að matsbeiðni sé ýmsum annmörkum háð og í andstöðu við reglur einkamálaréttarfars um öflun sönnunargagna fyrir dómi. Í málinu sé ekki uppi mikill ágreiningur um staðreyndir eða sönnun málsatvika, né eðli þeirra viðskipta sem matsbeiðandi átti í við aðalstefnda. Matsbeiðandi virðist hins vegar ætla að afla sér eins konar sérfræðiálits á þeim atriðum sem með réttu ætti að tefla fram gögnum og sjónarmiðum um í hefðbundinni málsmeðferð, sem alla jafna ljúki með því að dómur eftir atvikum fjölskipaður leggi mat sitt á gildi staðhæfinga málsaðila. Af þessum sökum séu matsspurningarnar óþarfar og beri að hafna dómkvaðningu matsmanna. Hér verði nánar vikið að einstökum matsspurningum og álitaefnum er varði matsbeiðnina:
Matsgerðir hafi tvíþætt markmið; Skoðun, þ.e. lýsingu á staðreynd með hvaða skynfæri sem er og mat sem er álit um verkanir staðreyndar t.d. hvert tjón einhvers sé.
Rétturinn til að óska dómkvaðningu matsmanns takmarkist einkum af tvennu.
a) Með gagnályktun frá 1. ml. 1. mgr. 61. gr. EML og gagnályktun frá 2. mgr. 60 gr. EML fari mat dómkvadds matsmanns aðeins fram á þeim atriðum sem krefjast sérþekkingar eða tiltekinnar menntunar.
b) Að dómari telji gögnin sem óskað sé eftir ekki tilgangslaus til sönnunar sbr. 3. mgr. 46. gr. EML.
Hið fyrra atriði fær enn fremur stoð í athugasemd með 61. gr. EML.
„Kemur fram í 1. mgr. greinarinnar að dómari kveðji til einn eða tvo matsmenn eftir skriflegri beiðni aðila, ef það á ekki undir dómarann sjálfan að leggja mat á viðkomandi atriði skv. 2. mgr. 60. gr. og ekki verður leitað til opinbers matsmanns til að vinna verkið skv. 3. mgr. sömu greinar.“
Ekki sé því unnt að dómkveðja matsmann til að láta í ljós skoðun á atriðum sem sönnunargögn verði almennt ekki færð fram um s.s. skýringu á réttarreglu eða hvernig beita eigi henni í tiltekinni aðstöðu.
Af hálfu matsþola fjármálaeftirlits og íslenska ríkisins hafa eftirfarandi athugasemdir verið settar fram við einstakar spurningar í matsbeiðni.
1. Hver, ef einhver, er eðlismunurinn, þ.e. marktæki munurinn á skilmálum og öðrum eiginleikum, milli peningamarkaðsinnlánanna og innlána Seðlabanka Íslands hjá Landsbanka Íslands hf. og öðrum fjármálafyrirtækjum?
Í dómsmálinu haldi stefnandi því fram að ekki sé eðlismunur á almennum innlánum fjármálastofnana og svokölluðum peningamarkaðslánum milli lánastofnana. Þessu mótmælir stefndi og telur peningamarkaðslánin sem veitt eru í aðalatvinnustarfsemi aðila eiga mun meiri samleið með öðrum lánveitingum. Hugsanlega þurfi dómari að skera úr þessum meiningamun við úrlausn sína á málsástæðum stefnanda, en algjörlega fráleitt sé að matsmenn kveði upp slíkan dóm. Ágreiningurinn snúi að afmörkuðum og vel þekktum ágreiningi. Það sé ekki hlutverk matsmanna að skera úr um ágreining aðila varðandi slík atriði. Spurningin falli því í þann flokk að vera í andstöðu við 1. ml. 1. mgr. 61. gr. EML, sbr. og það sem felist í gagnályktun frá 2. mgr. 60 gr. EML, sem áður sé vikið að.
Spurning 1 sé þess eðlis að mögulegt ætti að vera að svara henni með sönnunarfærslu fyrir dómi hvað samanburð á skilmálum snerti. Lögmaður stefnanda ætti að geta lagt þá fram og bent á hugsanlegan mun á þeim sem þýðingu geti haft í málinu.
2. Eru innlán seðlabanka hjá fjármálafyrirtækjum almennt skilgreind á alþjóðlegum bankamarkaði sem peningamarkaðsinnlán?
3. Hver, ef einhver, er eðlismunurinn, þ.e. marktæki munurinn á skilmálum og öðrum eiginleikum, milli peningamarkaðsinnlánanna og þeirra innlána fjármálafyrirtækja hjá Landsbanka Íslands hf. sem flutt voru til NBI hf.?
Spurning nr. 2 sé óskýr. Spurt sé um „innlán“ seðlabanka, en í málinu sé einmitt deilt um það hvað felist í innlánshugtakinu. Matsbeiðandi verði að útskýra það hvort hér sé átt við hefðbundnar innstæður seðlabankans og þá hvaða seðlabanka - í öðrum bönkum, s.s. tékkareikninga og sparireikninga eða einhvers konar önnur innlán. Þá sé algjörlega óljóst hvaða merkingu beri að leggja í hugtakið alþjóðlegan bankamarkað og við hvaða seðlabanka sé átt. Innlánsform seðlabanka og banka yfirhöfuð um víða veröld geti verið mismunandi og verið skilgreind með mismunandi hætti eftir því hvers lands lög eigi við.
Spurning 3 sé beiðni um álit á málsástæðu stefnanda, sem eigi undir dómstólinn í málinu. Gögn og almenn þekking um eðli innlánsreikninga og peningamarkaðslána liggi fyrir og dómurinn geti myndað sér skoðun á því hvort um eðlismun sé að ræða.
4. Er almennt talið á alþjóðlegum bankamarkaði að marktækur eðlismunur sé á peningamarkaðsinnlánum frá fjármálafyrirtækjum og peningamarkaðsinnlánum frá aðilum sem ekki teljast fjármálafyrirtæki, þannig að hin fyrri séu álitin lán en hin síðari sem innlán?
Hér vísast til þess sem sagt sé að framan um spurningu nr. 1. Um sé að ræða beiðni um lögfræðilega eða sérfræðilega álitsgerð um vel skilgreint og upplýst atriði í málinu. Það hafi ekki gildi fyrir sönnunarfærslu í málinu. Spurning þessi sé nokkuð opin og vafi á því hvort hægt sé að sanna hvað sé „almennt talið“ á alþjóðlegum bankamarkaði, og hvaða þýðingu slíkt álit hefði í því máli sem til umfjöllunar sé. Hin umþrættu atvik þessa máls eigi ekkert skylt við hvað sé almennt talið á alþjóðlegum bankamarkaði.
5. Hver, ef einhver, er eðlismunurinn, þ.e. marktæki munurinn á skilmálum og öðrum eiginleikum, á hefðbundnum millibankalánum og peningamarkaðsinnlánum?
Þessi spurning ætti að leiða í ljós, þ.e.a.s. um eiginleikana, að þetta voru millibankalán og ekki fullkomlega sambærileg við peningamarkaðsinnlán. Hins vegar sé henni mótmælt sem allt of almennri auk þess sem stefnanda sé í lófa lagið að leiða þetta fram við meðferð málsins.
6. Hvernig er venjan á alþjóðlegum bankamarkaði að meðhöndla peningamarkaðsinnlán sem eru svipaðs eða sama eðlis og peningamarkaðsinnlánin, þ.e. sem innlán eða lán?
Hér eigi það sama við og um spurningu 4. Venja á alþjóðlegum bankamarkaði geti ekki verið mælistika á neyðaraðgerðir íslenska ríkisins til að lágmarka áhrif algjörs bankahruns sem eigi sér engin fordæmi.
7. Hver, ef einhver, er eðlismunurinn, þ.e. marktækur munur, á s.k. „Term Deposits“ frá Straumi, sbr. dskj. 48 og peningamarkaðsinnlánunum?
Þessi spurning hafi engin tengsl við það sem stefnandi hyggst sjálfur sanna með matinu samkvæmt hans eigin matsbeiðni. Þá verði ekki séð að þetta hafi tengsl við málsástæður hans.
8. Hver er marktæki munurinn á tæknilegri meðferð fjármálafyrirtækja á peningamarkaðsinnlánunum og öðrum innlánum, þ.e. hvernig þau eru varðveitt og hvernig viðkomandi fjármálafyrirtæki geta nýtt þessa fjármuni í rekstri sínum?
9. Eru peningamarkaðsinnlán alltaf meðhöndluð eins tæknilega, þ.e. skráð með sama hætti á reikning eða eru þau stundum lögð inn á reikninga sem skráðir eru hjá Reiknistofu bankanna og stundum skráð með öðrum hætti? Ef svarið er að þau séu stundum skráð með ólíkum hætti eftir atvikum, er þá einhver eðlismunur, þ.e. marktækur munur á skilmálum og öðrum eiginleikum, á peningamarkaðsinnlánum sem hafa verið skráð á reikninga hjá Reiknistofu bankanna og annarra sem skráð hafa verið með öðrum hætti?
10. Er almennt viðurkennt á alþjóðlegum bankamarkaði að niðurstaðan um það hvort gjörningur teljist lán eða innlán ráðist af því hvort viðkomandi fjárhæð er lögð inn á hefðbundinn bankareikning eða meðhöndluð með öðrum hætti af því fjármálafyrirtæki sem tekur við fjármununum?
Varðandi spurningar 8-10 þá verði ekki séð að munur á tæknilegri meðferð innlána hafi þýðingu fyrir málið, sbr. greinargerð FME í málinu. Þá séu þessar spurningar óþarfar því enginn ágreiningur sé um þessar staðreyndir málsins og því ekki nauðsynlegt að afla mats um þetta atriði. Hvað telst viðurkennt á alþjóðlegum bankamarkaði hafi ekki þýðingu fyrir það mál sem hér sé til umfjöllunar vegna hinna sérstöku aðstæðna líkt og áður sé rakið.
11. Hafa einhver peningamarkaðsinnlán (eða aðrir eðlislíkir gjörningar) sem lögð voru inn hjá Landsbanka Íslands hf. fyrir 9. október 2008 verið færð frá Landsbanka Íslands hf. til Nýja Landsbanka Íslands hf. (nú NBI hf.)? Ef svo er, var í einhverjum tilvikum um að ræða peningamarkaðsinnlán frá fjármálafyrirtækjum?
12. Hefur NBI hf. í einhverjum tilvikum greitt út fé til fjármálafyrirtækja sem höfðu upphaflega millifært fé í formi peningamarkaðsinnlána eða með millifærslum af svipuðu eðli til Landsbanka Íslands hf.?
Þessar tvær spurningar séu afar sérstakar og það verði ekki séð hvers vegna ekki megi leysa úr þeim með skýrslutökum fyrir dómi eða með framlagningu gagna að hálfu stefnda NBI. Stefnandi málsins hafi þegar í stefnu skorað á NBI hf. að leggja fram gögn um þessi tvö atriði. Óþarft sé því að afla mats.
13. Hvernig ber fjármálafyrirtæki sem tekur við peningamarkaðsinnlánum, hvort sem er frá fjármálafyrirtækjum eða öðrum, að færa slíkar færslur í bókhaldi sínu, þ.e. sem innlán (e. Deposit) eða sem lántöku (e. Borrowings), samkvæmt alþjóðlegum reikningsskilastöðum IFRS? Að svari við fyrrgreindri spurningu virtu, hvernig bar að meðhöndla peningamarkaðsinnlánin samkvæmt IFRS?
Ekki sé unnt að óska mats um þetta efni. Um sé að ræða atriði sem tengist túlkun laga en samkvæmt 56. gr. F. í lögum um ársreikninga nr. 144/1994 skulu ákvæði reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1606/2002 frá 19. júlí 2002, um beitingu alþjóðlegra reikningsskilastaðla, hafa lagagildi hér á landi. Það sé dómsins að skera úr um hvort að íslenskum lögum hafi verið fylgt í þessu efni. Þá hafi það atriði sem hér sé spurt um ekki þýðingu fyrir efni þessa máls.
14. Að því gefnu að peningamarkaðsinnlánin séu og verði áfram í Landsbanka Íslands hf. og kröfu vegna þeirra lýst við slitameðferðina skv. lögum nr. 161/2002 og miðað við fyrirliggjandi upplýsingar um eignir og skuldir Landsbanka Íslands hf., hvert er líklegt endurgreiðsluhlutfall af peningamarkaðsinnlánunum ef annars vegar krafa vegna þeirra telst forgangskrafa sem njóti réttarstöðu skv. 112. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 og hins vegar ef krafan telst almenn krafa skv. 113. gr. laga nr. 21/1991?
Ómögulegt sé að fá fram svar við þessari spurningu á því stigi máls sem slitameðferð Landsbankans hf. sé nú á og því þýðingarlaust að óska mats á henni.
Þá sé mótmælt sérstaklega óskum matsbeiðanda um að brugðið verði af venju íslensk réttarfars og leitað erlendra matsmanna. Þingmálið sé íslenska og þau gögn sem um ræðir séu á því máli líka. Matsþolar sætti sig ekki við að matsmálið verði rekið á öðru tungumáli enda sé það óþarft. Matsbeiðnin sé því marki brennd að þekking matsmanna á íslenskum aðstæðum, lögum og reglum sé óhjákvæmileg, þ.e.a.s. ef dómari fallist á matsbeiðnina að því marki sem hún innifeli slíkar spurningar. Þá sé ljóst að erlend endurskoðunarfyrirtæki séu í tengslum við aðila sem hafi mikla hagsmuni af niðurstöðu þessa máls og engin leið að upplýsa að fullu um þau hagsmunatengsl sem þar geti verið fyrir hendi.
Niðurstaða
Í máli þessu gerir stefnandi kröfu til þess að aðalstefndi, NBI hf., verði dæmdur til greiðslu skuldar að fjárhæð 30.000.000 evrur, en til vara er kröfum beint að íslenska ríkinu og Fjármálaeftirlitinu til viðurkenningar á rétti stefnanda til skaðabóta auk vaxta og málskostnaðar. Með þeirri matsbeiðni sem ágreiningur er um í málinu er þess óskað að dómkvaddir verði tveir hæfir og óvilhallir matsmenn til að meta tiltekin atriði varðandi svokölluð peningamarkaðsinnlán, m.a. muninn á þeim og öðrum innlánum, ef einhver er, meðhöndlun þeirra og framkvæmd á alþjóðlegum bankamarkaði o.fl.
Samkvæmt 1. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991 hefur aðili forræði á því hverra gagna hann aflar til stuðnings kröfum sínum fyrir dómi. Sá réttur er almennt ekki takmarkaður umfram það sem leiðir af 3. mgr. sömu lagagreinar, en þar kemur fram að dómari geti meinað aðila um sönnunarfærslu ef bersýnilegt er að atriði sem aðili vill sanna skipti ekki máli eða að gagn sé tilgangslaust til sönnunar. Matsbeiðandi ber kostnað af matsgerð og hann tekur áhættu af sönnunargildi hennar fyrir dómi.
Í matsbeiðni hefur matsbeiðandi gert grein fyrir því hvað hann hyggst sanna með matinu en það er m.a. að ekki sé marktækur munur á eðli og eiginleikum peningamarkaðsinnlána og almennra innlána fjármálastofnana. Hefur matsbeiðandi metið það svo að til að varpa ljósi á raunverulegt eðli peningamarkaðsinnlánanna þurfi hann að fá svör dómkvaddra matsmanna við framangreindum spurningum, enda sé ekki til að dreifa í málinu gögnum þar um. Dómur metur sönnunargildi matsgerðar og verður einstökum matsspurningum ekki hafnað á þeim grundvelli að á þær kunni að reyna við úrlausn á málsástæðum fyrir dómi eða að þær séu þýðingarlausar samkvæmt áliti matsþola. Í ljósi þessa verður ekki fallist á sérstök andmæli matsþola við matsspurningum nr. 1-10. Með matsspurningum nr. 11 og 12 virðist því vera beint til matsmanna að afla gagna í málinu, sem ekki er hlutverk þeirra. Er tekið undir andmæli matsþola gegn þessum matsspurningum og er þeim hafnað. Þá er fallist á með matsþola að matsspurning nr. 13 feli í sér lagatúlkun, sem falli utan starfa matsmanna, sbr. 2. mgr. 60. gr. laga nr. 91/1991. Er þeirri matsspurningu hafnað. Einnig er fallist á sjónarmið matsþola um það að dómkvöddum matsmönnum verði ekki gert að meta þau atriði sem matsspurning nr. 14 felur í sér og er henni hafnað.
Samkvæmt framansögðu og með vísan til 1. mgr. 61. gr. laga nr. 91/1991 er fallist á að umbeðin dómkvaðning matsmanna skuli fara fram en þó þannig að matsspurningar nr. 11, 12, 13 og 14 verða ekki lagðar fyrir matsmenn. Um hæfi matsmanna og dómkvaðningu fer svo sem segir í 3. og 4. mgr. 61. gr. laga nr. 91/1991.
Málskostnaður verður felldur niður í þessum þætti málsins.
Eggert Óskarsson héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð :
Umbeðin dómkvaðning matsmanna skal fara fram en þó þannig að matsspurningar nr. 11, 12, 13 og 14 verða ekki lagðar fyrir matsmenn.
Málskostnaður fellur niður.