Hæstiréttur íslands
Mál nr. 618/2011
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
Þriðjudaginn 22. nóvember 2011. |
|
|
Nr. 618/2011. |
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H.B. Snorrason saksóknari) gegn X (Brynjólfur Eyvindsson hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli a. liðar. 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson og Greta Baldursdóttir og Benedikt Bogason settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 19. nóvember 2011 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 21. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. nóvember 2011, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 25. nóvember 2011 klukkan 16 og einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Það athugist að úr því að varnaraðila var gert að sæta einangrun samkvæmt b. lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008 var óþarft að láta hann jafnframt sæta takmörkunum samkvæmt c., d. og e. liðum sömu málsgreinar.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. nóvember 2011.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að kærða, X, verði gert að sæta gæsluvarðhaldi í sex daga eða allt til föstudagsins 25. nóvember næstkomandi klukkan 16:00.
Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að um klukkan 20 í gærkvöldi hafi komið akandi inn á athafnasvæði lögreglustöðvarinnar við Hverfisgötu, Y, kt. [...], á bifreiðinni [...]. Bifreiðin hafi sýnilega verið skemmd, afturrúða brotin með greinilegum ákomum eftir högl. Y hafi verið í miklu uppnámi og sagt að skotið hefði verið á sig. Hafi Y lýst atburðum og aðdraganda þannig að A, hefði haft samband við sig og boðað sig að bílasölu við [...] í Reykjavík. Þegar Y hafi komið akandi að bílasölunni hafi A gengið að bíl hans og byrjað að sparka í hana. Hann hafi verið mjög æstur og í kjölfarið hafi tveir menn aðrir komið út úr bifreið hans, annar vopnaður haglabyssu, líklega afsagaðri. Y kveðst hafa bakkað bifreið sinni til þess að komast undan og þá hafi verið hleypt skoti af byssunni og í átt að honum. Hann hafi þá tafarlaust ekið á brott frá [...] og inn á [...] til suðurs. Hann hafi orðið var við bifreið á eftir sér, sem hann hafi talið árásarmannanna, og ítrekað komið í veg fyrir að hún kæmist fram úr sér með því að aka í veg fyrir hana. Þegar hann hafi komið að hringtorgi við [...] hafi bifreiðin verið kominn þétt að honum. Þá hafi hann heyrt hvell, beygt sig niður og í sömu andrá hafi afturrúðan í bifreið hans sprungið. Hann hafi síðan hraðað ferð sinni að lögreglustöðinni við Hverfisgötu. Víðtæk leit hafi hafist að A og ætluðum árásarmönnum. Fljótlega hafi bifreið [...] fundist sem [...] sé umráðamaður yfir og hann og ætlaðir árásarmenn hafi verið á. Inn í henni hafi m.a. mátt sjá úðavopn og handboltakylfu. Við skoðun á síma Y sjáist að ítrekað hafi verið hringt frá símanúmeri [...] í gær og beri hann að hafa átt samtal við handhafa þess síma fyrr um kvöldið og hafi honum verið sagt að A hafi viljað ná í hann. Handhafi símanúmersins [...] sé kærði, X. Kærði hafi verið handtekinn í gærkvöldi laust fyrir klukkan 21.00. Hann hafi verið klæddur skóm, buxum og jakka sem svari til klæðnaðar, þess sem haldi á byssunni, sem sjáist á myndbandi frá bílasölu við [...], þar sem skotið hafi verið á Y fyrst. Kærði kannist við það að hafa verið með A í gærdag en leiðir þeirra hafi skilið um miðjan dag og hann ekkert hitt hann eftir það. Kærði segist hafa komið heim til sín á milli klukkan 18:00 og 18:30 og verið heima hjá sér eftir það en sú skýring fái ekki staðist.
Lögreglustjóri vísar til þess að kærði sé undir rökstuddum grun um að hafa tekið þátt í að fá Y að [...] og að eiga aðild að hinni lífshættulegu atlögu sem að framan er lýst. Brýnt sé að ná til A og annarra sem að henni stóðu. Þá liggi fyrir að rannsaka síma, ýmis myndbönd frá fyrirtækjum á svæðinu og annað það sem kunni að gefa upplýsingar um atburðinn. Rannsókn málsins sé á frumstigi sé því brýnt að kærði verði gert að sæta gæsluvarðhaldi til þess að honum gefist ekki færi á að spilla rannsókn málsins, en veruleg hætta sé á því ef hann fái að fara frjáls ferða sinna, að hann hafa samband við samseka, vitni og eða með því að koma undan sakargögnum. Uppfyllt séu skilyrði a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Niðurstaða:
Fallist er á að kærði sé undir rökstuddum grun um aðild að skotárás, sem sætt getur ákæru, og að augljósir rannsóknarhagsmunir séu í húfi. Skilyrðum a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála, er því fullnægt og verður því orðið við kröfu um að kærði sæti gæsluvarðhaldi eins og nánar greinir í úrskurðarorði. Í ljósi rannsóknarhagsmuna og alvarleika brots þess sem kærði er grunaður um að hafa framið í félagi við aðra er fallist á að hann sæti takmörkunum á gæslunni samkvæmt b-, c-, d- og e-liðum 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008.
Kolbrún Sævarsdóttir settur héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Kærði, X, kt. [...], skal sæta gæsluvarðhaldi í sex daga eða allt til föstudagsins 25. nóvember næstkomandi klukkan 16:00. Kærði sæti takmörkunum á gæslunni samkvæmt b-, c-, d- og e-liðum 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.