Hæstiréttur íslands
Mál nr. 275/2011
Lykilorð
- Kærumál
- Boðun til þinghalds
- Lögmæt forföll
|
|
Þriðjudaginn 14. júní 2011. |
|
Nr. 275/2011. |
Sigurður Einarsson (Gestur Jónsson hrl.) gegn Kaupþingi banka hf. (Guðni Á. Haraldsson hrl.) |
Kærumál. Boðun til þinghalds. Lögmæt forföll.
S kærði úrskurð héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu hans um að mál K hf. á hendur honum yrði fellt niður. Við uppkvaðningu úrskurðar í héraðsdómi um frávísunarkröfu S var sótt þing af hálfu hans en ekki K hf. Krafðist S þá að málið yrði fellt niður og honum úrskurðaður málskostnaður. Í úrskurði héraðsdóms sagði að réttaráhrif sem bundin væru við ákvörðun um nýtt þinghald á dómþingi yrðu ekki virk nema þeirrar ákvörðunar væri getið í þingbók. Þar sem það hefði ekki verið gert yrðu útivistaráhrif samkvæmt 105. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála ekki bundin við fjarveru lögmanns K hf. úr þinghaldinu. Með hliðsjón af f. lið 1. mgr. 97. gr. laga nr. 91/1991 hefði fjarvist úr þinghaldi jafngilt lögmætum forföllum við fyrirtöku málsins. Fyrir Hæstarétti hélt lögmaður K hf. því fram að eftir munnlegan flutning málsins um frávísunarkröfu S hefði dómari skýrt frá því að hann hygðist kveða upp úrskurð tiltekinn dag á tilteknum tíma. Tímasetningunni hefði síðar verið breytt án þess að hann hefði haft um það upplýsingar. Að þessu gættu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar var hann staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 27. apríl 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 5. maí sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. apríl 2011, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að mál varnaraðila á hendur honum yrði fellt niður. Kæruheimild er í k. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess „að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og að lagt verði fyrir héraðsdómara að taka málið til úrskurðar um málskostnaðarkröfu sóknaraðila og fella málið niður að öðru leyti.“ Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði staðfestur en til vara að hann verði ómerktur ásamt meðferð málsins frá 7. apríl 2011 að telja og lagt fyrir héraðsdómara að boða til nýs þinghalds í málinu. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Af hálfu varnaraðila er haldið fram að eftir munnlegan flutning málsins um frávísunarkröfu sóknaraðila 25. mars 2011 hafi dómari skýrt frá því að hann hygðist kveða upp úrskurð 7. apríl sama ár klukkan 15 og slitið þinghaldi við svo búið. Lögmaður varnaraðila hafi fært þessa ákvörðun dómarans í dagbók sína. Af gögnum málsins verði ráðið að eftir það hafi verið sett inn á vefsíðu Héraðsdóms Reykjavíkur að uppkvaðning úrskurðar yrði klukkan 13.15 sama dag, en lögmaður varnaraðila hvorki séð þetta né fengið tilkynningu um breytta tímasetningu frá réttinum. Þessi atvik skýri hvers vegna hann hafi ekki sótt þing í málinu við uppkvaðningu úrskurðar um frávísunarkröfu sóknaraðila. Að þessu gættu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Sigurður Einarsson, greiði varnaraðila, Kaupþingi banka hf., 300.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. apríl 2011.
Í máli hefur stefndi gert kröfu um frávísun málsins frá héraðsdómi. Lögmenn aðila fluttu málið um frávísunarkröfuna föstudaginn 25. mars sl. og var málið tekið til úrskurðar þann sama dag. Í lok þinghaldsins tilkynnti dómari lögmönnum aðila málsins munnlega að úrskurður um frávísunarkröfuna yrði kveðinn upp fimmtudaginn 7. apríl 2011 kl. 13.15 í dómsal 401. Í þingbók málsins þennan dag var skráð að málið væri tekið til úrskurðar en ekki er skráð um þinghald til uppkvaðningar úrskurðar um frávísun málsins. Fimmtudaginn 7. apríl 2011 kl. 13.15 setti dómari dómþing í dómsal 401 og tók mál þetta til meðferðar til að kveða upp úr um ágreining um frávísun málsins. Sótt var þing af hálfu lögmanns stefnda en ekki af hálfu lögmanns stefnanda. Lögmaður stefnda krafðist þess að málið yrði fellt niður og stefnda úrskurðaður málskostnaður.
Síðar þennan sama dag barst dóminum bréf lögmanns stefnanda 7. apríl sl. í tilefni af því að þinghald var haldið 7. apríl þar sem lögmaður stefnanda mætti ekki til þinghaldsins. Rekur lögmaðurinn í bréfi sínu að honum hafi ekki verið ljóst að ákveðið hafi verið að taka málið fyrir þann dag kl. 13.15 og komi ekki fram í þingbók málsins að málið hafi átt að taka fyrir þann dag. Þá liggi fyrir að lögmaðurinn hafi átt að flytja annað mál í réttinum þennan dag kl. 13.20 en um sé að ræða héraðsdómsmálið nr. E-292/2011. Ákvörðun um þann flutning hafi verið tekin 14. mars sl. en í hlutarins eðli liggi að lögmaðurinn hefði aldrei getað samþykkt að mæta í þessu máli fimm mínútum áður. Gerir lögmaðurinn kröfu um að málinu verði fram haldið.
Lögmaður stefnda hefur mótmælt því að málinu verði fram haldið og ítrekað kröfu um að málið verði fellt niður og stefnda úrskurðaður málskostnaður. Samkvæmt b-lið 2. mgr. 105. gr. laga nr. 91/1991 skuli fella mál niður ef stefnandi sæki ekki þing og hafi ekki lögmæt forföll. Stefndi byggir á því að boðað hafi verið til þinghalds í málinu með fullnægjandi hætti. Við lok málflutnings um frávísunarkröfu stefnda hafi dómari tilkynnt lögmönnum aðila skilmerkilega að úrskurður um frávísunarkröfuna yrði kveðinn upp í þinghaldi 7. apríl 2011 kl. 13.15 í dómsal 401. Hin boðaða tímasetning hafi ekki sætt andmælum af hálfu lögmanns stefnanda. Samkvæmt 2. mgr. 92. gr. laga nr. 91/1991 sé ekki þörf á frekari tilkynningu til aðila ef tími til nýs þinghalds sé ákveðinn á dómþingi þar sem hann sé viðstaddur. Þar sem lögmenn beggja aðila hafi verið viðstaddir hafi ekki verið þörf á frekari tilkynningu um þinghaldið. Af hálfu stefnanda sé á því byggt að tímasetningar þinghaldsins hafi ekki verið getið í þingbók réttarins. Stefndi hafi þingbókina ekki undir höndum en jafnvel þó svo tímasetningar hafi ekki verið þar getið komi það ekki í veg fyrir að málið verði fellt niður. Lögmönnum hafi verið tilkynnt um þinghaldið við lok flutnings um frávísunarkröfuna. Í 2. mgr. 11. gr. laga nr. 91/1991 sé sérstaklega tekið fram að ef önnur ákvæði laganna mæli ekki fyrir um að bókað verði um tiltekin atriði ákveði dómari að öðru leyti hvað skráð verði í þingbók. Þá vísi stefndi til þess að stefnandi hafi ekki kynnt sér efni þingbókarinnar fyrr en eftir að útivist hafi orðið af hans hálfu. Stefnandi geti þar af leiðandi ekki borið fyrir sig að tímasetningar hafi ekki verið getið í þingbókinni. Þinghaldsins hafi enn fremur verið getið í dagskrá á vefsíðu Héraðsdóms Reykjavíkur, auk þess sem upplýst hafi verið í fjölmiðlum hvenær það skyldi fram fara. Stefnandi hafi ekki sýnt fram á að hann hefði lögmæt forföll. Jafnvel þótt svo hefði verið hefði stefnanda borið að upplýsa dóminn um það tafarlaust, sbr. 4. mgr. 97. gr. laga nr. 91/1991 og dóm Hæstaréttar frá 7. maí 1998 í máli nr. 182/1998.
Niðurstaða:
Í lok þinghalds til flutnings um frávísun málsins föstudaginn 25. mars sl. boðaði dómari að úrskurður yrði kveðinn upp um frávísunina 7. apríl 2011 kl. 13.15. Dómari boðaði þinghaldið 7. apríl munnlega en ákvörðunin var ekki skráð í þingbók í málinu, sbr. 2. mgr. 11. gr. laga nr. 91/1991. Að mati dómsins verða réttaráhrif sem bundin eru við ákvörðun um nýtt þinghald á dómþingi samkvæmt 2. mgr. 92. gr. laga nr. 91/1991 ekki virk nema þeirrar ákvörðunar sé getið í þingbók. Þar sem það var ekki gert verða útivistaráhrif samkvæmt 105. gr. laga nr. 91/1991 ekki bundin við fjarveru lögmanns stefnanda úr þinghaldinu 7. apríl sl.
Þá er að því að gæta að í ljósi staðhæfinga stefnanda um fyrirhugaðan málflutning í öðru máli hefur dómurinn sannreynt að 14. mars sl. hafði verið ákveðinn flutningur um frávísun í máli nr. E-292/2011 við dóminn þennan sama dag kl. 13.20, en lögmaður stefnanda er lögmaður stefnda í því máli. Með hliðsjón af f. lið 1. mgr. 97. gr. laga nr. 91/1991 hefði fjarvist úr þinghaldinu jafngilt lögmætum forföllum úr þinghaldi við fyrirtöku málsins 7. apríl.
Verður kröfum stefnda um niðurfellingu málsins hafnað.
Ekki verður dæmt um málskostnað af þessum þætti málsins.
Símon Sigvaldason héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Kröfu stefnda, Sigurðar Einarssonar, um að mál þetta verði fellt niður er hafnað.