Hæstiréttur íslands
Mál nr. 1/2002
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Fimmtudaginn 3. janúar 2002. |
|
Nr. 1/2002. |
Lögreglustjórinn í Reykjavík(enginn) gegn X (Þórey Aðalsteinsdóttir hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. C liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 30. desember 2001, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 2. janúar 2002. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. desember 2001, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 18. janúar nk. kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Í gögnum málsins kemur fram að við yfirheyrslu hjá lögreglu 13. desember 2001 viðurkenndi varnaraðili að hafa tekið þátt í þremur innbrotum og innbrotstilraun dagana 8., 12. og 13. sama mánaðar í félagi við annan mann. Hann var látinn laus í kjölfar þeirrar yfirheyrslu. Þann 28. desember sl. játaði varnaraðili að hann hafi átt þátt í fimm innbrotum dagana 8., 27. og 28. sama mánaðar og í einu tilvikanna stolið vopnum og í þremur tölvubúnaði.
Samkvæmt framansögðu er ljóst að varnaraðili hefur haldið áfram innbrotum eftir að hann var handtekinn og játaði við yfirheyrslur aðild sína að nokkrum þjófnaðarbrotum. Að þessu virtu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. desember 2001.
Lögreglan í Reykjavík hefur krafist þess að X verði með vísan til c-liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991, gert að sæta gæsluvarðhaldi, til föstudagsins 18. janúar nk kl. 16:00.
Kærði hefur mótmælt kröfunni.
[ ]
Að öllu því virtu sem að framan greinir þykir vera fram kominn rökstuddur grunur um að kærði sé viðriðinn þau innbrot í ofangreind fyrirtæki sem framin hafa verið í Reykjavík nú í desember. Er hann þannig grunaður um brot gegn 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og ef sök sannast í málum þessum varða brot hans fangelsisrefsingu. Með vísan til framangreindrar háttsemi kærða undanfarna daga má ætla að hann muni halda áfram brotum gangi hann laus. Þykir því rétt með vísan til c-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála að taka kröfu lögreglustjóra til greina eins og hún er fram sett.
Greta Baldursdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi til föstudagsins 18. janúar nk. kl. 16:00.