Hæstiréttur íslands
Mál nr. 563/2006
Lykilorð
- Kærumál
- Flýtimeðferð
|
|
Mánudaginn 30. október 2006. |
|
Nr. 563/2006. |
Salmann Tamimi(Einar Páll Tamimi hdl.) gegn íslenska ríkinu (enginn) |
Kærumál. Flýtimeðferð.
Fallist var á að skilyrðum 1. mgr. 123. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála væri fullnægt til útgáfu stefnu til flýtimeðferðar á máli, sem S hugðist höfða á hendur Landspítala-háskólasjúkrahúsi til ógildingar á ákvörðun um að segja honum upp starfi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Hjördís Hákonardóttir og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 25. október 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 26. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 25. október 2006, þar sem hafnað var beiðni sóknaraðila um flýtimeðferð á máli, sem hann hyggst höfða á hendur Landspítala-háskólasjúkrahúsi. Kæruheimild er í n. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að gefa út stefnu til flýtimeðferðar á málinu.
Eins og rakið er í úrskurði héraðsdóms var sóknaraðila sagt upp starfi sínu á upplýsingatæknisviði Landspítala-háskólasjúkrahúss 28. september 2006 og mun uppsögnin koma til framkvæmda 1. janúar 2007. Með beiðni 19. október 2006 óskaði hann eftir að gefin yrði út stefna til flýtimeðferðar á máli, sem hann hyggst höfða á hendur Landspítala-háskólasjúkrahúsi, þar sem hann mun aðallega krefjast ógildingar uppsagnarinnar, en til vara viðurkenningar á að ákvörðunin „hafi verið ólögmæt.“ Beiðnin er rökstudd með því að það varði stórfellda hagsmuni sóknaraðila að fá úrlausn í málinu áður en uppsögnin taki gildi, vegna óvissu um að hann muni fá starf sitt aftur gangi dómur síðar. Vísar sóknaraðili til þess að hann sé 51 árs og tækifæri hans á vinnumarkaði takmarkaðri af þeim sökum, og einnig til þess að starfsreynsla hans sé að mestu fengin hjá Landspítala-háskólasjúkrahúsi sem sé mjög sérhæfð stofnun. Uppsögin sé stjórnvaldsákvörðun sem ekki verði kærð til æðra stjórnvalds.
Fallast má á með sóknaraðila að málið geti talist varða stórfellda hagsmuni hans. Þó að hann gæti krafist skaðabóta í tilefni uppsagnarinnar kemur það ekki í stað kröfu um ógildingu hennar, er miðar að því að sóknaraðili fái að halda starfi sínu. Verði ekki fallist á flýtimeðferð málsins er ljóst að ekki fengist úr því skorið fyrir dómstólum, áður en uppsögnin kemur til framkvæmda, hvort unnt sé að taka til greina aðalkröfu sóknaraðila. Er því fallist á að sóknaraðila sé brýn þörf á skjótri úrlausn málsins. Þá útiloka ummæli í uppsagnarbréfinu þess efnis að ákveðið hafi verið að leggja starf sóknaraðila niður ekki að hann haldi starfi sínu ef fallist verður á aðalkröfu hans. Ber í því sambandi að líta til þess að samkvæmt gögnum málsins á uppsögn sóknaraðila rætur að rekja til fækkunar starfsmanna á upplýsingasviði sjúkrahússins vegna breytinga á skipulagi starfseminnar, sem þar fer fram, en ekki til þess að sú starfsemi sé að leggjast af innan sjúkrahússins. Kveðst sóknaraðili gegna starfi sem sé almennt og taki til allra verkefna á fagsviði hans og að slíkum verkefnum verði áfram sinnt af starfsmönnum sjúkrahússins eftir að uppsögn hans á að koma til framkvæmda. Þá er ekki útilokað að leggja dóm á kröfu sóknaraðila áður en uppsagnarfresti hans lýkur. Samkvæmt framansögðu eru uppfyllt skilyrði 1. mgr. 123. gr. laga nr. 91/1991 og verður því lagt fyrir héraðsdómara að gefa út stefnu til flýtimeðferðar í málinu.
Dómsorð:
Lagt er fyrir héraðsdómara að gefa út stefnu til flýtimeðferðar í máli, sem sóknaraðili, Salmann Tamimi, hyggst höfða á hendur Landspítala-háskólasjúkrahúsi til ógildingar á ákvörðun 28. september 2006 um að segja honum upp starfi.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 25. október 2006.
Með bréfi Einars Páls Tamimi hdl., dags. 19. þ.m., var þess beiðst að heimiluð yrði flýtimeðferð í fyrirhuguðu máli Salmanns Tamimi, Dalseli 34, Reykjavík, aðallega til ógildingar þeirrar ákvörðunar Landspítala-háskólasjúkrahúss 28. september 2006 að segja honum upp störfum en til vara viðurkenningar á að ákvörðunin hafi verið ólögmæt.
Beiðnin er studd þeim rökum að úrlausn málsins varði stórfellda hagsmuni Salmanns Tamimi. Hann sé 52 ára að aldri og þrátt fyrir hæfni hans og reynslu á fagsviði sínu sé hann ekki á þeim aldri sem mest eftirspurn er eftir á vinnumarkaði. Aukinheldur sé megnið af starfsreynslu hans hjá Landspítala-háskólasjúkrahúsi. Um sé að ræða mjög sérhæfða stofnun og lúti reynsla Salmanns að verkefnum og tölvukerfum sem varði þá sérhæfinu. Vegna þess vafa, sem leiki á því að Salmann fái starf sitt aftur, hafi uppsögninn tekið gildi þegar niðurstaða liggur fyrir í dómsmálinu, jafnvel þótt aðalkrafa hans nái fram að ganga, sé honum mjög mikilvægt að dómur liggi fyrir áður en til þess komi.
Beiðninni var synjað með bréfi dómstjóra 20. þ.m. og með bréfi í dag var krafist úrskurðar um synjunina skv. heimild í 2. málsl. 3. mgr. 123. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Uppfyllt er það skilyrði 1. mgr. 123. gr. laga nr. 91/1991 að um er að ræða ákvörðun stjórnvalds. Kemur þá næst til álita hvort þörf er á skjótri meðferð málsins. Fram er komið í málinu að starf Salmanns Tamimi á upplýsingatæknisviði Landspítala-háskólasjúkrahúsi var lagt niður frá og með 1. október sl. vegna skipulagsbreytinga og var honum tilkynnt sú ákvörðun með bréfi Landspítala-háskólasjúkrahúss 28. september sl. Störf fjögurra annarra starfsmanna á sama sviði voru jafnframt lögð niður frá sama tíma. Í umræddu bréfi Landspítala-háskólasjúkrahúss er greint frá því að Salmanni verði greidd laun í þrjá mánuði frá og með 1. október 2006 skv. ákvæðum kjarasamninga um uppsagnarfrest og 2. málsl. 1. mgr. 41. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Samkvæmt framansögðu verður ekki séð að Salmann geti gengið í fyrra starf sitt á Landspítala-háskólasjúkrahúsi enda þótt aðalkrafa hans yrði tekin til greina þar sem fyrir liggur ákvörðun um að leggja starf hans niður sem tók gildi 1. október sl. Þá er á það að líta að verði kröfur Salmanns teknar til greina stendur honum það réttarúrræði til boða að krefjast skaðabóta vegna þess tjóns sem hann telur að uppsögnin hafi í för með sér fyrir hann. Að lokum skal tekið fram að útilokað er að málinu verði lokið fyrir dómstólum á þeim liðlega tveimur mánuðum sem til stefnu eru þar til fyrrgreindum þriggja mánaða uppsagnarfresti lýkur.
Með vísan til framanskráðs verður ekki talið að þörf sé á skjótri úrlausn málsins í skilningi ofangreinds lagaákvæðis. Er því synjað um flýtimeðferð í máli þessu.
Úrskurðinn kvað upp Helgi I. Jónsson dómstjóri.
Úrskurðarorð:
Beiðni Salmanns Tamimi um flýtimeðferð í fyrirhuguðu máli hans gegn Landspítala-háskólasjúkrahúsi er synjað.