Hæstiréttur íslands

Mál nr. 811/2014


Lykilorð

  • Brot gegn valdstjórninni


                                     

Fimmtudaginn 17. september 2015.

Nr. 811/2014.

Ákæruvaldið

(Stefanía G. Sæmundsdóttir saksóknari)

gegn

Gintars Stalts

(Guðjón Ólafur Jónsson hrl.)

Brot gegn valdstjórninni.

G var sakfelldur fyrir brot gegn valdstjórninni, sbr. 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með því að hafa kýlt með krepptum hnefa í höku lögreglumanns sem var við skyldustörf. Var refsing hans ákveðin fangelsi í þrjá mánuði en fullnustu hennar frestað skilorðsbundið í tvö ár.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Eiríkur Tómasson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 9. desember 2014 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er krafist staðfestingar héraðsdóms.

Ákærði krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur, til vara sýknu en að því frágengnu að refsing verði milduð.

Ekkert er fram komið í málinu er bendir til að það mat héraðsdóms sé rangt að ákærði hafi með háttsemi sinni gerst sekur um brotið sem hann er ákærður fyrir. Verður aðalkröfu ákærða því hafnað, en héraðsdómur staðfestur með vísan til forsendna hans.

Ákærða verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Gintars Stalts, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 385.982 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Guðjóns Ólafs Jónssonar hæstaréttarlögmanns, 372.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 11. nóvember 2014.

I

                Mál þetta, sem dómtekið var 3. nóvember síðastliðinn, var höfðað með ákæru ríkissaksóknara, útgefinni 12. september 2014, á hendur Gintars Stalts, kennitala [...], [...], [...], „fyrir brot gegn valdstjórninni með því að hafa þann 1. janúar 2013, fyrir utan [...], kýlt með krepptum hnefa í höku lögreglukonunnar A, sem var við skyldustörf, með þeim afleiðingum að hún hlaut bólgu og mar á höku.

Telst þetta varða við 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

                Ákærði neitar sök og krefst sýknu. Þess er krafist að málsvarnarlaun verði greidd úr ríkissjóði sem og annar sakarkostnaður.

II

                Málavextir eru þeir að lögreglumenn voru kvaddir að framangreindu húsi á þeim tíma er í ákæru getur. Tilefnið var að sjúkraliðar höfðu verið kvaddir á staðinn af ákærða vegna þess að sambýliskona hans hafði kvartað yfir bakverkjum. Þegar til kom vildi hún ekki þiggja aðstoð og fóru því lögreglumenn og sjúkraliðar úr íbúðinni. Í lögregluskýrslu kemur fram að ákærði hafi veist að framangreindri lögreglukonu með óviðeigandi orðbragði í íbúðinni.

                Þegar út var komið og lögreglumenn og sjúkraliðar höfðu sest inn í bifreiðar sínar kom ákærði út og barði í sjúkrabifreiðina. Hann sneri sér síðan að lögreglubifreiðinni og barði með krepptum hnefa í rúðu ökumannsmegin. Framangreind lögreglukona fór þá út úr bifreiðinni og þá kýldi ákærði hana í hökuna segir í skýrslunni.

                Lögreglukonan fór á slysadeild þessa sömu nótt og í vottorði þaðan segir að hún sé bólgin og marin yfir miðri höku.

III

                Við aðalmeðferð bar ákærði að hann hefði kallað á sjúkrabifreið vegna konu sinnar, en hún hafði fengið lungnabólgu sem hefði versnað. Hann kvaðst hafa beðið lögreglumennina að fara út, enda hefði verið kallað á sjúkralið. Lögreglukonan hefði gefið konu sinni tákn af kynferðislegum toga og hefði hann talið það óviðeigandi og viljað verja konu sína. Hann kvaðst ekki vera viss um hvort hann hefði slegið hana en hann hefði ýtt henni út úr íbúðinni. Ákærða var bent á að hann væri ákærður fyrir að slá lögreglukonuna fyrir utan húsið og kvað hann konu sína hafa ýtt við lögreglukonunni inni á gangi. Ákærði kvaðst ekki hafa viðhaft óviðeigandi orðbragð á vettvangi. Hann kvaðst hafa farið út til að spyrja hvort kona hans gæti farið á sjúkrahús. Þar hefðu verið sjúkrabifreið og lögreglubifreið og hefðu menn setið í þeim. Hann kvaðst hafa verið handtekinn þarna og taldi það hafa verið vegna þess að hann hafði látið ófriðlega. Hann kvaðst muna eftir að hafa slegið í sjúkrabifreiðina og hefði það verið til að biðja um hjálp handa konu sinni. Þá kvaðst hann hafa slegið í rúðu lögreglubifreiðarinnar en hann hefði ekki slegið lögreglukonuna, þó hefði eitthvað slíkt getað gerst óvart. Hann kvaðst hafa verið handtekinn eftir þetta.

                Lögreglumaður sem kom á vettvang með lögreglukonunni kvað lögreglumenn hafa farið að aðstoða sjúkraflutningamenn. Á vettvangi hefði ákærði tekið á móti þeim, verið með óviðeigandi orðbragð við lögreglukonuna og ýtt við henni. Kona ákærða hefði ekki viljað fara með sjúkrabifreiðinni. Ákærði hefði orðið æstur og hefðu þeir lögreglumenn kallað fleiri til. Eftir að málin höfðu róast kvað hann lögreglumenn hafa farið út og inn í bifreið. Þá kvaðst hann hafa séð ákærða koma og berja í sjúkrabifreiðina og eftir það hefði hann farið að lögreglubifreiðinni og barið tvisvar í hliðarrúðuna ökumannsmegin þar sem lögreglukonan hefði verið. Hún hefði opnað bifreiðina og farið út. Í sömu mund hefði ákærði slegið hana höggi sem hafi lent neðarlega í andliti hennar. Í framhaldinu hefði ákærði verið handtekinn og færður á lögreglustöð.

                Framangreind lögreglukona bar á sama hátt og fyrrgreindur lögreglumaður um aðdraganda þess að þau komu á vettvang. Hún kvað ákærða hafa verið ölvaðan og æstan. Ákærði hefði strax gengið að sér, verið með svívirðingar og ýtt við sér. Eftir að lögreglumenn og sjúkraflutningamenn voru komnir út hefði ákærði komið hlaupandi og barið í sjúkrabifreiðina. Hann hefði verið mjög æstur og ber að ofan. Eftir að hafa barið í sjúkrabifreiðina hefði hann komið að lögreglubifreiðinni, ökumannsmegin þar sem hún hefði setið, og barið tvisvar í hliðarrúðu bifreiðarinnar. Hún kvaðst hafa farið út og þá hefði ákærði slegið sig í hökuna.

                Lögreglumaður, sem var á vettvangi, bar að eftir að lögreglumenn voru komnir út úr íbúðinni hefði ákærði komið og kýlt í sjúkrabifreiðina og svo í lögreglubifreiðina. Hann kvað ákærða hafa slegið nokkur þung högg í rúðu lögreglubifreiðarinnar, ökumannsmegin. Lögreglukonan hefði staðið upp og ætlað út en þá hefði ákærði slegið hana í andlitið. Ekki kvaðst hann hafa séð nánar hvar höggið lenti. Eftir þetta hefði ákærði verið handtekinn.

                Annar lögreglumaður bar á sama hátt og aðrir lögreglumenn um komu þeirra í íbúðina og hvað þar gerðist. Hann kvaðst ekki hafa verið í sömu lögreglubifreið og lögreglukonan heldur verið í bifreið sem hefði verið beint fyrir framan hennar bifreið. Hann kvaðst hafa séð ákærða koma hlaupandi að lögreglubifreiðinni þar sem lögreglukonan hefði setið. Hann hefði slegið í rúðu bifreiðarinnar þar sem lögreglukonan hefði setið. Hún hefði opnað bifreiðina og farið út. Í því hefði ákærði slegið hana en ekki gat hann lýst því nánar.

                Þá komu fyrir dóminn tveir sjúkraflutningamenn. Þeir báru á sama hátt og lögreglumenn um afskipti af konu ákærða og veru sína í íbúðinni. Þeir kváðust hafa setið í sjúkrabifreið fyrir utan húsið er ákærði hefði komið. Ákærði hefði barið í sjúkrabifreiðina en síðan farið að lögreglubifreiðinni og barið í hana. Þeir fóru þá út en hvorugur þeirra sá ákærða slá lögreglukonuna.

                Læknir, sem ritar framagreint vottorð, staðfesti það. Hann kvað það geta verið að lögreglukonan hefði fengið hnefahögg. Þá kvað hann áverkann hafa verið nýjan þegar hún kom á slysadeildina.

IV

                Ákærði neitar sök en fjórir lögreglumenn hafa borið að hann hafi slegið lögreglukonuna eins og honum er gefið að sök í ákærunni. Með framburði þessara vitna er sannað, gegn neitun ákærða, að hann hafi gerst sekur um það sem honum er gefið að sök í ákærunni. Brot ákærða er rétt fært til refsiákvæðis í ákærunni.

                Sakaferill ákærða hefur ekki þýðingu. Refsing hans er hæfilega ákveðin 3 mánaða fangelsi sem bundin skal skilorði eins og í dómsorði greinir.

                Ákærði verður dæmdur til að greiða sakarkostnað og málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns,  að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

                Arngrímur Ísberg héraðsdómari kveður upp dóminn.

D ó m s o r ð :

                Ákærði, Gintar Stalts, sæti fangelsi í 3 mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum 2 árum frá deginum í dag að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

                Ákærði greiði 30.400 krónur í sakarkostnað og málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Guðjóns Ólafs Jónssonar hrl., 175.700 krónur.