Hæstiréttur íslands
Mál nr. 228/2007
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhaldsúrskurður felldur úr gildi
|
|
Fimmtudaginn 3. maí 2007. |
|
Nr. 228/2007. |
Ákæruvaldið(Jón H. Snorrason saksóknari) gegn X (Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhaldsúrskurður felldur úr gildi.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var felldur úr gildi, þar sem ekki þótti liggja fyrir að skilyrði stafliðarins væru fyrir hendi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 27. apríl 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 30. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 25. apríl 2007, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi þar til dómur gengi í málum hans en þó ekki lengur en til miðvikudagsins 23. maí 2007 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Varnaraðili hefur við yfirheyrslu hjá lögreglu játað aðild sína að ráni í versluninni 10-11 við Setberg í Hafnarfirði aðfararnótt 25. mars 2007. Þá hefur hann játað að hafa brotist inn og stolið ýmsum munum úr húsi í Reykjavík aðfararnótt 28. janúar sama ár og að hafa í kjölfarið tekið í heimildarleysi bifreið, sem stóð fyrir utan húsið og ekið henni um Reykjavík og svo til Akureyrar. Hann hefur ennfremur játað að hafa farið inn í bifreið um svipað leyti og tekið þaðan kveikjuláslykla og bensínkort og greitt fyrir vörur með kortinu 28. janúar 2007. Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu gaf út ákæru á hendur varnaraðila 13. apríl 2007 vegna síðargreindu brotanna ásamt því sem hann var talinn hafa gerst sekur um brot gegn umferðarlögum og lögum um ávana- og fíkniefni. Þar sætir hann ennfremur ákæru fyrir tilraun til þjófnaðar á tveimur stöðum í Reykjavík aðfararnótt 24. mars 2007, en við yfirheyrslu hjá lögreglu kannast hann ekki við að hafa verið þar að verki. Þá gaf ríkissaksóknari 17. apríl 2007 út ákæru, þar sem varnaraðili er ásamt tveimur öðrum mönnum ákærður fyrir fyrrgreint rán.
Varnaraðila mun hafa með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness 25. mars 2007 verið gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 vegna gruns um aðild að umræddu ráni. Þá mun hann hafa verið úrskurðaður í áframhaldandi gæsluvarðhald á grundvelli c. liðar sama ákvæðis með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 28. mars 2007. Hvorugur þessara úrskurða var kærður til Hæstaréttar. Krafa sóknaraðila um áframhaldandi gæsluvarðhald er á því reist að skilyrði c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 séu fyrir hendi. Samkvæmt ákvæðinu er unnt að úrskurða sakborning í gæsluvarðhald ef ætla má að hann muni halda áfram brotum meðan máli hans er ekki lokið, enda sé öðrum skilyrðum málsgreinarinnar fullnægt.
Varnaraðili er átján ára gamall. Samkvæmt sakavottorði hefur hann einu sinni gerst sekur um refsiverða háttsemi en þá gekkst hann undir sátt fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni. Tæplega tveir mánuðir liðu frá því að ætluð brot varnaraðila í lok janúar 2007 voru framin þar til hann á samkvæmt fyrirliggjandi ákærum að hafa að nýju gerst sekur um refsiverða háttsemi. Með hliðsjón af þessu þykir ekki nægilega fram komið að fullnægt sé skilyrðum til að varnaraðili sæti gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 25. apríl 2007.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að X kt. [kennitala], [heimilisfang], verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í málum hans eða allt til miðvikudagsins 25. maí 2007, kl. 16.00.
Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að ákærði hafi verið úrskurðaður í gæsluvarðhald með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness laugardaginn 25. mars s.l. á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991, vegna gruns um að hafa framið vopnað rán í versluninni 10/11 við Setberg í Hafnarfirði aðfaranótt sunnudagsins 25. mars s.l. Þann 28. mars s.l. hafi ákærði aftur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur, á grundvelli c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála, til dagsins í dag, þ.e. í 4 vikur. Til rannsóknar hjá lögreglu hafi verið sex mál á hendur ákærða og hafi ákæra verið gefin út í þeim öllum, og verður nú greint frá þeim í tímaröð:
M. 007-2007-20824:
Aðfaranótt sunnudagsins 25. mars sl. barst lögreglu tilkynning að framið hefði verið rán í versluninni 10-11 við Setberg í Hafnarfirði. Þrír grímuklæddir menn fóru inn í verslunina og ógnuðu starfsfólki með hnífum. Höfðu mennirnir á brott með sér m.a. peninga úr afgreiðslukössum. Ákærði hefur játað að hafa í félagi við tvo aðra nafngreinda pilta framið rán í versluninni og tekið þaðan peninga o.fl.
M. 007-2007-20618:
Aðfaranótt laugardagsins 24. mars sl. var óskað eftir lögreglu að A vegna innbrots sem þar hafði átt sér stað. Boð hafði komið úr öryggiskerfi Securitas um að farið hefði verið inn í húsnæðið. Búið var að slíta stormjárn frá glugga í eldhúsi og hafði verið farið inn í íbúðina. Engu var stolið en af ummerkjum á vettvangi er ljóst að gengið hafi verið í gegnum íbúðina. Utan við húsnæðið voru fótspor sem lögregla rakti að B, en brotist hafði verið þar inn sömu nótt sbr. mál nr. 007-2007-20569
M. 007-2007-20596
Aðfaranótt laugardagsins 24. mars sl. var óskað eftir lögreglu að B vegna innbrots sem þar hafði átt sér stað. Tilkynnandi greindi frá því að öryggiskerfi húsnæðisins hefði farið af stað og greindi hann frá því að farið hefði verið inn um glugga á austanverðu húsnæðinu og að farið hefði verið út um útidyr á sunnanverðu húsnæðinu. Skoðun á glugga, sem farið hefði verið inn um á austanverðu húsnæðinu, leiddi í ljós skemmdir á stormjárnum sem voru á glugganum. Greinileg fótspor voru á vettvangi og rakti lögregla þau m.a. að A þar sem einnig hafði verið brotist inn. Við Álfheima var ákærði handtekinn af lögreglu og við rannsókn lögreglu kom í ljós að fótspor þau er fundust á B og A voru samskonar og á skósólum kærða.
M. 007-2007-6821
Að morgni miðvikudagsins 30. janúar sl. var tilkynnt um innbrot í bifreiðina KU-097 við Skipasund 83 á tímabilinu 27. janúar 30. janúar sl. Brotist var inn í bifreiðina og stolið kveikjuláslyklum og bensínkorti frá Olís. Ákærði hefur játað að hafa brotist inn í bifreiðina, stolið kveikjuláslyklum, bensínkorti frá Olís og hafa í eitt skipti notað umrætt kort til kaupa á bensíni.
M. 024-2007-657
Sunnudaginn 28. janúar á Akureyri var ákærði stöðvaður af lögreglu á bifreiðinni [...] sem stolið hafði verið frá B í Reykjavík þann 18. janúar sbr. mál nr. 007-2007-6024. Ákærði hefur játað nytjastuld bifreiðarinnar. Í ljós hefur komið að ákærði var undir áhrifum lyfja við aksturs bifreiðarinnar í umrætt sinn og óhæfur til aksturs bifreiðar. Í umrætt sinn hafði ákærði í vörslum sínum 1,71 g af tóbaksblönduðu kannabisefni. Ákærði hefur játað vörslur fíkniefna.
M. 007-2007-6024.
Sunnudaginn 18. janúar sl. var tilkynnt um innbrot að B. Búið var að spenna upp glugga á jarðhæð og þar hafði verið farið inn í húsnæðið. Var m.a.stolið nýju Bose heimabíókerfi að verðmæti krónur 1.000.000.-, handveski að verðmæti krónur 40.000.- ásamt fjölda debet- og kreditkorta, lyklum af húsnæðinu og lyklum af bifreiðinni [...]. Ákærði hefur játað innbrotið.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu krefst þess nú að ákærði verði úrskurðaður í áframhaldandi gæsluvarðhald, jafnframt á grundvelli c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991, allt þar til dómur gengur í málum hans.
Varðandi málsatvik kröfunnar vísast til ofangreinds, meðfylgjandi afrits af ákæru sem gefin var út af lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins 13. apríl s.l. og send var dóminum 18. þ.m., úrskurði dómsins kveðnum upp þann 28. mars s.l. í máli R-198/2007, úrskurði Héraðsdóms Reykjaness kveðnum upp þann 25. mars s.l. í máli R-56/2007, og ákæru sem gefin var út af ríkissaksóknara 17. apríl s.l. sem lögð hefur verið fram hér í dag fyrir hönd ríkissaksóknara, til birtingar fyrir kærða sbr. 1. mgr. 20. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991, fyrir brot gegn 252. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 sem verður lögð fram hjá Héraðsdómi Reykjaness á morgun 26. apríl. Hafi ákærði játað aðild sína að flestum þeim brotum sem hann hafi verið ákærður fyrir, en um sé að ræða brotahrinu sem annars vegar stóð yfir seinni part janúar sl. og hins vegar í mars sl. þar til honum hafi verið gert að sæta gæsluvarðhaldi þann 25. mars sl.
Ákærði hafi viðurkennt hjá lögreglu að vera fíkniefnaneytandi í mikilli neyslu, og að hafa fjármagnað neyslu sína með afbrotum. Það sé mat lögreglustjóra að þegar hafi sýnt sig að brýn hætta sé á að ákærði haldi áfram afbrotum á meðan málum hans sé ólokið fyrir dómi. Brot kærða séu framin undir áhrifum fíkniefna til þess að komast yfir peninga eða verðmæti til frekari fíkniefnaneyslu, sem ákærði segist neyta í miklu mæli. Brotin séu framin með innbrotum í híbýli fólks að næturlagi þar sem búast megi við að fólk sé fyrir sofandi, nú síðast með vopnum þar sem fólk sé þvingað til að láta peninga af hendi.
Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna, þess að ákærði sé mikill fíkniefnaneytandi og fyrst og fremst til þeirrar hættu sem sé fyrir hendi sé á áframhaldandi auðgunar- og ofbeldisbrotum, sem og þeirra almanna- og einstaklingshagsmuna sem séu fyrir hendi og með vísan til c-liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991, sé þess farið á leit að fallist verði á framkomna kröfu.
Ákærði hefur hjá lögreglu játað aðild sína að megin hluta framangreindra brota, en um er að ræða brotahrinu sem annars vegar stóð yfir seinni part janúar sl. og hins vegar í mars sl. þar til úrskurður um gæsluvarðhald yfir ákærða var kveðinn upp 25. mars sl. Brot kærða geta varðað fangelsisrefsingu. Þá er óbirt ákærða vegna vopnaðs ráns í versluninni 10/11, dags. 17. apríl 2007. Að virtum fjölda brotanna og tímasetningu þeirra, svo og þegar litið er til fíkniefnaneyslu ákærða, og þess að hann er ekki í föstu starfi, telur dómari að ætla megi að hann muni halda áfram brotum meðan máli hans er ekki lokið. Er því fullnægt skilyrði c- liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 til að ákærði sæti áframhaldandi gæsluvarðhaldi. Krafa ákæruvaldsins lítur að gæsluvarðhaldi til miðvikudagsins 25. maí nk. 25. maí er á föstudegi og verður gæsluvarðhaldskrafan því tekin til greina til miðvikudagsins 23. maí nk. eins og nánar greinir í úrskurðarorði.
Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Ákærði, X, sæti áfram gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í málum hans en þó ekki lengur en til miðvikudagsins 23. maí nk. kl. 16.00.