Hæstiréttur íslands

Mál nr. 60/2006


Lykilorð

  • Einkahlutafélag
  • Samruni


Fimmtudaginn 5

 

Fimmtudaginn 5. október 2006.

Nr. 60/2006.

Örn Erlingsson

(Jónas A. Aðalsteinsson hrl.)

gegn

Festi eignarhaldsfélagi ehf.

(Jóhannes Bjarni Björnsson hrl.)

 

Einkahlutafélag. Samruni.

Ö gerði samning við Þ á árinu 1999 um skipti á hlutabréfum í félögum sem þeir áttu saman og var ógreitt kaupverð hans 200.000.000 krónur á síðari hluta ársins. Ö hafði ári áður persónulega gert samning við skipasmíðastöð í Kína um smíði fiskiskips. Hinn 13. desember 1999 gerði Ö samning við bankann LÍ hf. og var annars vegar samið um að bankinn skyldi lána honum 200.000.000 króna vegna kaupa á hlutafé Þ og hins vegar leggja til fé vegna smíði skipsins í Kína. Í samningnum kom einnig m.a. fram að skipið skyldi renna inn í N ehf. og Ö auka hlutafé í félaginu sem skyldi fyrst og fremst notað til að greiða fyrrgreint lán. Hinn 20. janúar 2000 var gerður samningur á milli Ö og N ehf. um kaup síðarnefnds félags á nýsmíði fiskiskipsins í Kína og var kaupverð hins selda 834.613.314 krónur sem síðan var nánar sundurgreint. Á grundvelli samningsins frá 13. desember 1999 greiddi LÍ hf. með tveimur færslum í janúar og júní 2000 samtals 203.337.746 krónur til Þ og félags í hans eigu, en dráttarvextir höfðu bæst við síðari greiðsluna. Hinn 16. desember 2000 undirrituðu Ö vegna N ehf. og fyrirsvarsmaður F ehf. viljayfirlýsingu um að stefna að samruna félaganna og var jafnframt undirritað sérstakt samkomulag um forsendur til að meta eignir, skuldir og eigið fé félaganna. Samið var um að D hf. yrði falið að veita alla sérfræðiþjónustu við sameiningu félaganna, auk þess að gera og endurskoða ársreikning N ehf. fyrir árið 2000. Gengið var endanlega frá samruna félaganna 17. maí 2001 og hlaut það nafnið F hf. Engin ætluð skuld Ö við N ehf. var talin félaginu til eignar við samrunann. Í málatilbúnaði F hf. var byggt á því að Ö skuldi félaginu stefnufjárhæðina, sem greidd hafi verið út af reikningi N ehf. vegna samnings Ö við Þ um hlutafjárkaup. Hafi LÍ hf. lánað félaginu féð og Ö skuldbundið sig til að endurgreiða það með því að auka hlutafé í því. Með því að gera kaupin með þessum hætti hefði N ehf. átt að vera kaupandi hlutafjárins en ekki Ö, en þar sem hann hafi kastað eign sinni á hlutaféð skuldi hann þessa fjárhæð. Í niðurstöðu Hæstaréttar var tekið fram að Ö hefði sem eini eigandi N ehf. verið bær til að skuldbinda félagið og að það sem réði úrslitum væri hvort viðsemjanda hans við sameiningu félaganna tveggja hafi mátt vera ljósar þær ráðstafanir um efnahag N ehf. sem gerðar höfðu verið. Hefðu umræddar greiðslur LÍ hf. til Þ og félags hans verið færðar í byrjun árs 2001 í bókhald N ehf. fyrir árið 2000, þar sem þær stæðu í hreyfingalista meðal einstakra kostnaðarliða vegna nýsmíði skipsins í Kína, og þar með verið komnar inn í bókfærðan kostnað félagsins við verkið. Þá hafi nýsmíðin verið færð félaginu til eignar á kostnaðarverði í ársreikningi fyrir árið 2000 og óumdeilt að umræddar tvær greiðslur voru þar innifaldar. Hefði F hf. ekki vefengt að þeir sérfræðingar sem könnuðu efnahag félaganna þegar unnið var að samruna þeirra hafi haft bókhald N ehf. fyrir árið 2000 undir höndum og átt aðgang að grunngögnum á bak við einstakar færslur, en meðal þeirra hefðu verið svonefndar viðskiptakvittanir LÍ hf. þar sem fram kæmi að Þ og félag í eigu hans væru viðtakendur umræddra greiðslna. Talið var að Ö hefði haft formlega heimild til að færa N ehf. nýsmíðina til eignar á því verði sem hann ákvað og var fallist á með honum að sú ákvörðun hafi birst viðsemjanda hans í bókhaldi og ársreikningi félagsins fyrir árið 2000 með þeim hætti að ekki átti að geta dulist. Greiðslurnar hefðu verið orðnar hluti af bókfærðu kostnaðarverði við nýsmíðina þegar áreiðanleikakönnun var gerð, en samkvæmt samkomulagi 16. desember 2000 skyldi bókfært verð véla og tækja lagt til grundvallar við mat á þeim við sameiningu félaganna. Þá var hafnað þeirri málsástæðu F hf. að umræddar greiðslur hefðu falið í sér lán N ehf. til Ö, enda hefðu þær aldrei verið færðar sem skuld hans. Ekki var talið að annað væri fram komið sem stutt gæti málatilbúnað F hf. og var Ö því sýknaður af kröfu hans.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Hrafn Bragason og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 31. janúar 2006. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Stefnandi málsins í héraði var Festi hf. Nafni félagsins mun síðar hafa verið breytt í Festarfell ehf. og framseldi félagið kröfu sína á hendur áfrýjanda til nýstofnaðs félags, Festar eignarhaldsfélags ehf., sem tók við aðild málsins. Í héraði krafðist áfrýjandi sýknu vegna aðildarskorts stefnda, en féll frá þeirri málsástæðu. Verður hér á eftir ekki greint á milli stefnda og upphaflegs stefnanda málsins.

I.

Atvik þessa máls urðu á tímabilinu frá 13. desember 1999 til 17. maí 2001. Má greina á milli atvika, sem urðu á fyrri hluta þess til loka júní 2000 og þeirra, sem urðu eftir að samningaviðræður hófust á síðari hluta árs 2000 um sameiningu tveggja félaga, svo sem síðar verður vikið að. Í héraðsdómi er greint frá samningum, sem áfrýjandi hafði áður gert við bróður sinn, Þorstein Erlingsson, á árinu 1999 um skipti á hlutabréfum í félögum, sem þeir áttu saman. Eftir það átti áfrýjandi einn öll hlutabréf í Sólbakka hf. og Nót útgerðarfélagi ehf., og var ógreitt kaupverð hans í þessum skiptum 200.000.000 krónur á síðari hluta árs 1999. Þorsteinn eignaðist með þessu einn félagið Saltver ehf. Í dóminum er einnig rakið að áfrýjandi hafði persónulega gert samning 1998 við skipasmíðastöð í Kína um smíði fiskiskips, sem síðar hlaut nafnið Guðrún Gísladóttir, en virðist á þessum tíma jafnan hafa verið nefnt Kínaskipið. Smíði skipsins lauk á síðari hluta árs 2001, en það fórst í júní 2002 við Lofot í Noregi.

Áfrýjandi gerði samning við Landsbanka Íslands hf. 13. desember 1999, sem ber fyrirsögnina „Viðskiptasamkomulag”. Segir í upphafi að áfrýjandi geri samninginn vegna sjálfs síns, Sólbakka hf. og óstofnaðs hlutafélags, en þar mun vera átt við Nót útgerðarfélag ehf., sem óumdeilt er að hafi þá þegar verið stofnað. Með þessu var í einum og sama gerningnum samið annars vegar um að bankinn skyldi „lána og ábyrgjast greiðslu á allt að kr. 200.000.000“ vegna kaupa áfrýjanda á hlutafé í Sólbakka hf. og hins vegar að leggja til fé vegna áðurnefnds verks í Kína meðan smíði skipsins stæði yfir. Segir jafnframt í samkomulaginu að áfrýjandi skuldbindi sig til að standa að þeim aðgerðum, sem greini í því vegna Sólbakka hf. og Kínaskipsins, og skuli þeim vera að fullu lokið fyrir 1. desember 2000. Nánar tilgreindar eignir áttu að renna inn í nýja félagið og Kínaskipið yrði „sett inn“ í það. Skyldi þegar hafist handa við þessar aðgerðir og „skal sameining þessara eigna inn í hið nýja félag miðast við áramótin 1999/2000 og hafi verið formlega samþykkt eigi síðar en 15. febrúar 2000.“ Þá skuldbatt áfrýjandi sig til að auka hlutafé í nýja félaginu og skyldi innborgað hlutafé „fyrst og fremst notað til að greiða upp 200 millj. kr. skammtímalán sem félagið mun fá hjá Landsbanka Íslands hf., ef þessi samningur nær fram að ganga, til að kaupa hlut Þorsteins Erlingssonar í fyrirtækinu Sólbakka hf.“ Þá samþykkti bankinn að lána áfrýjanda 100.000.000 krónur eigi síðar en 20. janúar 2000 og sömu fjárhæð 20. apríl sama ár til að greiða fyrir „kaupin á eignarhlut“ bróður hans. Sama dag og viðskiptasamkomulagið var gert undirrituðu aðilar að því jafnframt svokallað fjármögnunarsamkomulag vegna nýsmíði skips í Kína.

Meðal málsgagna er samningur 20. janúar 2000 með fyrirsögninni „Kaupsamningur vegna nýsmíði frystiskips í Kína.“ Er hann milli áfrýjanda sem seljanda og Nótar útgerðarfélags ehf. sem kaupanda og var lýst yfir að seld væri nýsmíði frystiskips í Kína og að kaupandi tæki við henni eins og hún var í ársbyrjun 2000. Kaupverð hins selda var sagt 834.613.314 krónur, sem var síðan nánar sundurgreint. Samkvæmt því tæki kaupandi við skuld áfrýjanda vegna nýsmíðinnar í Landsbanka Íslands hf., 600.095.380 krónum, og skuld hans við Þorstein Erlingsson, 200.000.000 krónur. Eftirstöðvarnar, 34.517.934 krónur, skyldi kaupandi greiða eigi síðar en í árslok 2000. Undirritaði áfrýjandi samninginn vegna beggja aðila hans og jafnframt varamaður í stjórn Nótar útgerðarfélags ehf. Einnig var hann undirritaður af einum votti.

Landsbanki Íslands hf. greiddi 25. janúar 2000 til Saltvers ehf. 100.000.000 krónur út af reikningi, sem virðist hafa verið á nafni áfrýjanda, en notaður til greiðslu smíðakostnaðar skipsins í Kína. Bankinn greiddi síðan Þorsteini Erlingssyni 103.337.746 krónur 8. júní sama ár út af sama reikningi. Greiðslurnar voru inntar af hendi á grundvelli áðurnefnds viðskiptasamkomulags 13. desember 1999, en með því að síðari greiðslan dróst fram yfir tilsettan dag bættust dráttarvextir við umsamdar 100.000.000 krónur. Þá liggur fyrir ársreikningur Nótar útgerðarfélags ehf. fyrir árið 1999, sem er dagsettur 11. apríl 2000. Meðal eigna í efnahagsreikningi er tilgreint skip í smíðum með fjárhæðinni 634.613.314 krónum. Í skýringum með reikningnum segir að í árslok 1999 hafi félagið yfirtekið réttindi og skuldbindingar vegna nýsmíði skips í Kína og að greiðslur vegna hennar hafi þá numið framangreindri fjárhæð. Loks ber að geta samnings 13. apríl 2000 með fyrirsögninni „Staðfesting á samkomulagi Arnar Erlingssonar og Nótar útgerðarfélags ehf.“, sem áfrýjandi undirritaði vegna beggja aðila. Segir þar að staðfest sé samkomulag aðilanna, sem gert hafi verið 13. desember 1999 samhliða gerð viðskiptasamkomulags og fjármögnunarsamkomulags sama dag, en með „framangreindu samkomulagi“ hafi áfrýjandi framselt Nót útgerðarfélagi ehf. öll réttindi og skyldur samkvæmt samningi um smíði skips í Kína. Sérstaklega var kveðið á um endurgreiðslu félagsins til áfrýjanda á 34.517.934 krónum, sem sá síðarnefndi hafði greitt vegna nýsmíðinnar. Tveir fulltrúar Landsbanka Íslands hf. árituðu samninginn um samþykki við skuldskeytingu, þar sem félagið skyldi verða skuldari í stað áfrýjanda vegna þegar veittra lána bankans til nýsmíðinnar.

Seint á árinu 2000 hófust viðræður milli áfrýjanda vegna Nótar útgerðarfélags ehf. og fyrirsvarsmanns Festar ehf. með það fyrir augum að sameina félögin. Í kjölfarið undirrituðu þeir viljayfirlýsingu 16. desember sama ár fyrir hönd félaganna um að stefna að samruna þeirra og að hið sameinaða félag skyldi eftir það nefnt Festi hf. Ef til kæmi skyldi samruninn miðast við 1. janúar 2001 og eignir og skuldir Nótar útgerðarfélags ehf. 31. desember 2000 flytjast til Festar hf. Sama dag undirrituðu sömu menn sérstakt samkomulag um forsendur til að meta eignir, skuldir og eigið fé félaganna, þar sem sagði meðal annars að eignarhluti hvors þeirra í sameinuðu félagi skyldi ráðast af hlutfalli endurmetins eigin fjár þess við sameininguna. Nánar var kveðið á um forsendur við mat einstakra eigna og í 7. lið sagði að fjárhæðanefnd fiskiskipa endurmeti húftryggingu skipa eigi síðar en 1. janúar 2001 og að verðmæti skipanna verði miðað við endurmetið húftryggingarmat þeirra. Í 8. lið sagði að vélar og tæki skyldu metin á bókfærðu verði þeirra eins og það væri 1. janúar 2001. Samnings um smíði skips í Kína var ekki sérstaklega getið í samkomulaginu.

Á þeim tíma sem um ræðir annaðist KPMG Endurskoðun hf. endurskoðun reikninga Nótar útgerðarfélags ehf., en fyrir Festi ehf. annaðist PricewaterhouseCoopers hf. endurskoðun. Til að tryggja hlutleysi sérfróðra ráðgjafa við sameiningu félaganna var samið um að endurskoðunarfyrirtækinu Deloitte & Touche hf. yrði falið að veita alla sérfræðiþjónustu, auk þess að gera og endurskoða ársreikning Nótar útgerðarfélags ehf. fyrir árið 2000. Tók fyrirtækið þessi verkefni að sér. Er í héraðsdómi nánar greint frá matsstörfum ráðgjafanna á fyrri hluta árs 2001. Er óumdeilt að bókhald Nótar útgerðarfélags ehf. fyrir árið 2000 var fært í febrúar eða mars 2001, en meðal færslna á smíðareikning fyrir skip í Kína voru áðurnefndar greiðslur til Þorsteins Erlingssonar og félags í hans eigu 25. janúar og 8. júní 2000. Samrunaáætlun félaganna er dagsett 9. mars 2001. Þar var lýst samkomulagi um skiptahlutfall í hinu sameinaða félagi, sem reist væri á fyrirliggjandi gögnum um fjárhagsstöðu félaganna samkvæmt árshlutareikningi Festar ehf. í október 2000 og drögum að ársreikningi Nótar útgerðarfélags ehf. fyrir árið 2000 ásamt áðurnefndu samkomulagi félaganna 16. desember sama ár. Skýrsla Deloitte & Touche hf. samkvæmt 97. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög með áorðnum breytingum er dagsett sama dag. Þar var stuttlega greint frá starfi við gerð skýrslunnar og því lýst yfir að skipting eigna í samrunaáætlun væri sanngjörn. Hinn 17. maí 2001 voru síðan haldnir fundir í Nót útgerðarfélagi ehf. og Festi ehf. til staðfestingar samruna félaganna, sem var samþykktur. Á fundi í hvoru félaginu lá fyrir endurskoðaður ársreikningur þess fyrir árið 2000 og samrunaefnahagsreikningur þeirra 1. janúar 2001. Engin ætluð skuld áfrýjanda við Nót útgerðarfélag ehf. var talin félaginu til eignar við samrunann.

Samkvæmt gögnum málsins seldi áfrýjandi Íshafi hf. hlut sinn í Festi hf. 22. ágúst 2002.

II.

Þann 9. desember 2002 sendi stefndi ríkislögreglustjóra kæru á hendur áfrýjanda fyrir ætlaðan fjárdrátt eða fjársvik fyrir að hafa notað fjármuni félagsins til að gera upp viðskipti við bróður sinn og látið það uppgjör líta út sem greiðslu á kostnaði við smíði skips í Kína. Með því hafi hann brotið ákvæði almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Kvaðst stefndi hafa fyrr sama haust falið endurskoðanda að athuga bókhald Nótar útgerðarfélags ehf. og komið fram athugasemdir við tvær færslur 25. janúar 2000 og 8. júní sama ár, sem fyrr var vikið að. Áfrýjandi hafi verið beðinn um skýringar á færslunum með bréfi 9. október 2002. Í ódagsettu svarbréfi frá Rekstrarþjónustunni hafi sú skýring verið gefin að 20. janúar 2000 hafi verið samið um kaup Nótar útgerðarfélags ehf. á Kínaskipinu af áfrýjanda fyrir verð, sem væri 200.000.000 krónum hærra en kostnaði nam þá við smíðina og færður hafði verið í bækur félagsins í árlok 1999. Segir í kærunni að sá kaupsamningur hafi ekki verið færður í bókhaldi félagsins og hann hvorki verið á vitorði endurskoðanda þess né fyrirsvarsmanns stefnda, sem undirritaði samkomulag 16. desember 2000 um forsendur við mat á eignum félaganna tveggja við sameiningu. Í kærunni segir jafnframt að í bréfi tveggja endurskoðenda til stefnda 19. nóvember 2002 komi fram að í bókhaldi og ársreikningi Nótar útgerðarfélags ehf. fyrir árið 2000 væri Kínaskipið bókfært á 1.453.946.078 krónur, en inni í því bókfærða verði séu umræddar tvær færslur, samtals að fjárhæð 203.337.746 krónur. Hljóti sá máti, sem hafður var á bókun færslnanna, að orka mjög tvímælis. Lýsti stefndi yfir að hann teldi kaupsamninginn 20. janúar 2000 vera málamyndagerning og að í reynd hafi áfrýjandi dregið sér fé frá Nót útgerðarfélagi ehf., sem nú hafi verið sameinað Festi hf. Krafðist stefndi þess að málið yrði rannsakað og áskildi sér rétt til að koma að skaðabótakröfu áður en rannsókn yrði lokið. Kærunni fylgdu ljósrit ýmissa gagna.

Ríkissaksóknari ritaði áfrýjanda bréf 13. október 2005 og vísaði til þess að ríkislögreglustjóri hafi haft mál hans til rannsóknar vegna kæru stefnda. Hafi þrisvar verið tekin skýrsla af áfrýjanda af því tilefni. Rannsókninni væri nú lokið og hafi ríkislögreglustjóri sent ríkissaksóknara gögn málsins. Hafi niðurstaðan orðið sú að það, sem fram sé komið, væri ekki nægilegt eða líklegt til sakfellis og því verið tekin ákvörðun um að aðhafast ekki frekar gagnvart áfrýjanda. Stefndi óskaði 25. október 2005 eftir rökstuðningi fyrir þessari ákvörðun, sem var veittur með bréfi ríkissaksóknara 17. nóvember sama ár. Segir þar meðal annars að þegar umræddar tvær greiðslur fóru fram hafi áfrýjandi verið eini eigandi Nótar útgerðarfélags ehf., en greitt hafi verið annars vegar tæpu ári áður en sameining við stefnda varð og hins vegar hálfu ári fyrr. Verði að teljast sannað að áfrýjandi hafi sjálfur átt umræddan smíðasamning í Kína. Þrátt fyrir að hann hafi verið færður í ársreikningi Nótar útgerðarfélags ehf. í árslok 1999 hafi áfrýjandi gefið þá skýringu að þá hafi enn verið ólokið að ganga frá sölu á smíðasamningnum til félagsins og það hafi verið gert í byrjun árs 2000. Samningurinn 20. janúar 2000 sé undirritaður af áfrýjanda fyrir eigin hönd og Nótar útgerðarfélags ehf. og það kunni að standast að hann hafi getað keypt af sjálfum sér umræddan smíðasamning fyrir hönd félags síns. Endurskoðandi hjá Deloitte & Touche hf. kannist ekki við að hafa séð kaupsamninginn 20. janúar 2000, en hann hafi litið svo á að færslur í bókhaldi Nótar útgerðarfélags ehf. vegna nýsmíði væru smíðakostnaður. Þá virtist að við mat á verði eigna við sameiningu félaganna hafi bókfærður kostnaður við smíði Guðrúnar Gísladóttur verið lagður til grundvallar eins og átti við um vélar og tæki samkvæmt 8. lið samkomulags 16. desember 2000, enda hafi þá ekki verið komið vátryggingarmat á skipið þar eð smíði þess var ekki lokið. Inni í bókfærða verðinu hafi verið greiðslurnar tvær, sem málið snúist um. Að því er varðar kæruefnin væri ekki talið koma til álita að áfrýjandi hafi framið fjárdrátt, enda hafi hann á þessum tíma verið eini eigandi Nótar útgerðarfélags ehf. Sá máti, sem hafður var á færslu á þessum greiðslum í bókhaldi, hafi ekki veitt nægilegt tilefni til að ákæra áfrýjanda fyrir bókhaldsbrot þrátt fyrir að eðlilegra kunni að hafa verið að haga henni með öðrum og gagnsærri hætti. Þá hafi áfrýjandi talið sér til tekna á skattframtali hagnað af sölu smíðasamningsins. Það hafi hann reyndar ekki gert fyrr en í leiðréttu framtali, sem skilað var 2003 eftir að kæra var send til lögreglu, en líta verði til þess að lög hafi heimilað að fresta skattlagningu söluhagnaðarins í tvö ár. Hafi því ekki þótt tilefni til að ákæra áfrýjanda fyrir skattalagabrot. Að því er varðar kæru fyrir fjársvik hefði þurft að sanna að áðurnefndur máti við færslur í bókhaldi hafi verið gerður af ásetningi til að blekkja væntanlega viðsemjendur. Í ljósi þess að færslurnar voru gerðar mörgum mánuðum áður en kom að sameiningu félaganna hefði orðið vandkvæðum bundið að sanna að sameiningin hafi þá verið komin á rekspöl. Í niðurlagi bréfs ríkissaksóknara var tekið fram að nokkur af þeim atriðum, sem að framan er getið, bendi til að kæra stefnda sé á rökum reist. Þrátt fyrir það séu skýringar áfrýjanda það trúverðugar og vafi um sakfellingu svo mikill að lagaskilyrðum til að gefa út ákæru hafi ekki þótt fullnægt.

III.

Í málatilbúnaði stefnda er á því byggt að áfrýjandi skuldi honum stefnufjárhæðina, sem greidd hafi verið út af reikningi Nótar útgerðarfélags ehf. vegna samnings áfrýjanda við bróður sinn um hlutafjárkaup. Landsbanki Íslands hf. hafi lánað félaginu féð og áfrýjandi skuldbundið sig til að endurgreiða það með því að leita allra leiða til að auka hlutafé í því. Með því að gera kaupin með þessum hætti hefði Nót útgerðarfélag ehf. en ekki áfrýjandi átt að vera kaupandi hlutafjárins, enda hafi félagið ekki mátt lána honum fyrir kaupverðinu, sbr. 79. gr. laga nr. 138/1994. Með þeirri ákvörðun að kasta eign sinni á hlutaféð hafi áfrýjanda borið að endurgreiða stefnda útlagt kaupverð þess að fullu. Það hafi hann ekki gert og skuldi þessa fjárhæð. Við gerð ársreiknings fyrir Nót útgerðarfélag ehf. vegna ársins 2000 hafi áfrýjandi tekið ákvörðun um að reyna að koma sér undan endurgreiðslu á skuldinni með því að færa kostnað af hlutafjárkaupunum ranglega á smíðakostnað Guðrúnar Gísladóttur. Skýringar Rekstrarþjónustunnar í ódagsettu bréfi fái ekki staðist og telur stefndi að kaupsamningur 20. janúar 2000 hafi verið ritaður í tilefni af fyrirspurn sinni 9. október 2002. Efni skjalsins feli í sér tilraun til að rangfæra atvik málsins og hafi það enga þýðingu gagnvart stefnda. Nót útgerðarfélag ehf. hafi yfirtekið öll réttindi og skyldur vegna nýsmíðinnar 13. desember 1999 og það verið staðfest með samningi 13. apríl 2000. Hið sama komi fram í ársreikningi Nótar útgerðarfélags ehf. fyrir árið 1999.

Áfrýjandi byggir á því að hann hafi persónulega gert smíðasamninginn í Kína og átt hann. Samningurinn hafi verið sér afar hagstæður, sem skýrist meðal annars af því að hann hafi verið einn sá fyrsti sinnar tegundar, sem íslenskur verkkaupi hafi gert við kínverska skipasmíðastöð. Í viðskiptasamkomulagi 13. desember 1999 hafi ekkert falist, sem geti talist vera framsal af sinni hálfu á smíðasamningnum til Nótar útgerðarfélags ehf. Þvert á móti segi í þessu samkomulagi, að færsla eigna inn í félagið miðist við áramót 1999 og 2000 og skuli vera formlega lokið eigi síðar en 15. febrúar 2000. Það formlega samþykki hafi hann veitt með kaupsamningnum 20. janúar 2000 og verið fyllilega bær til að undirrita hann fyrir hönd beggja aðila hans. Söluverðið, 200.000.000 krónur, auk þegar útlagðs smíðakostnaðar eða samtals rúmlega 834.000.000 krónur, hafi síst verið of hátt að því virtu hvaða verðmætum var verið að ráðstafa. Við flutning málsins fyrir Hæstarétti var söluverðið skýrt svo að skuld áfrýjanda við bróður sinn gæti hafa haft áhrif á ákvörðun um það. Í kaupsamningnum hafi falist nánari útfærsla á samkomulaginu 13. desember 1999 og Landsbanka Íslands hf. verið fyllilega kunnugt um alla þætti málsins. Þessi viðskipti hafi öll orðið löngu áður en sameining Nótar útgerðarfélags ehf. og Festar ehf. hafi fyrst borið á góma. Greiðslur fyrrnefnda félagsins til Þorsteins Erlingssonar og einkahlutafélags hans hafi því ekki verið lán til áfrýjanda, heldur greiðsla á hluta inneignar hans hjá Nót útgerðarfélagi ehf. Við síðari samningsgerð um samruna félaganna tveggja hafi engu verið leynt og stefndi fengið öll gögn í hendur, sem þurfti til að gera sér glögga grein fyrir eignum og skuldum Nótar útgerðarfélags ehf. Þá hafi færslurnar tvær komið fram í bókhaldi félagsins og ársreikningi fyrir árið 2000, sem bæði endurskoðandi stefnda og Deloitte & Touche hf. hafi rannsakað. Málsástæðum aðilanna er að öðru leyti lýst í hinum áfrýjaða dómi, sbr. einnig II. kafla að framan.

 

 

IV.

Í I. kafla að framan var rakin tímasetning einstakra málsatvika allt frá því að „viðskiptasamkomulag“ áfrýjanda við Landsbanka Íslands hf. var gert 13. desember 1999 fram til 17. maí 2001, þegar sameiningu Nótar útgerðarfélags ehf. og Festar ehf. var endanlega lokið. Er ekkert fram komið í málinu sem bent getur til þess að viðræður um að sameina félögin hafi hafist fyrr en síðla árs 2000. Áður var lýst hvernig áfrýjandi skýrði og framkvæmdi samkomulag sitt við bankann fram á mitt ár 2000, en á þeim tíma var hann sem eini eigandi Nótar útgerðarfélags ehf. bær til að skuldbinda það. Ræður ekki úrslitum um ágreining aðilanna þótt samkomulag áfrýjanda við bankann og framkvæmd þess hafi að sumu leyti verið óvenjuleg og sérstæð, heldur hitt, hvort síðari viðsemjanda hans við sameiningu félaganna tveggja hafi mátt vera ljósar þær ráðstafanir um efnahag Nótar útgerðarfélags ehf., sem gerðar höfðu verið og hér skipta máli.

Í ársreikningi Nótar útgerðarfélags ehf. fyrir árið 1999 var þegar áfallinn kostnaður við smíði skips í Kína færður félaginu til eignar. Landsbanki Íslands hf. annaðist áfram lánveitingar vegna verksins og færði greiðslur til Saltvers ehf. 25. janúar 2000 og Þorsteins Erlingssonar 8. júní sama ár af sérstökum bankareikningi, sem hafður var til greiðslu á smíðakostnaði skipsins. Í byrjun árs 2001 voru greiðslurnar síðan færðar í bókhaldi félagsins, þar sem þær standa í hreyfingalista meðal einstakra kostnaðarliða vegna „Nýsmíði Kínab.“ Er þar um að ræða hæstu einstöku fjárhæðirnar vegna nýsmíðinnar og með þeim er skýringartextinn „Millif. v. G.G. Kína“. Umræddar greiðslur voru þar með komnar inn í bókfærðan kostnað Nótar útgerðarfélags ehf. við verkið. Ársreikningur félagsins fyrir árið 2000 var gerður 17. mars 2001, en þar var nýsmíðin færð því til eignar á kostnaðarverði, 1.453.946.078 krónum. Er óumdeilt að umræddar tvær greiðslur, samtals að fjárhæð rúmlega 203.000.000 krónur, voru þar innifaldar. Í áritun Deloitte & Touche hf. á reikninginn kemur meðal annars fram að hann sé talinn gefa glögga mynd af efnahag félagsins 31. desember 2000.

Í I. kafla að framan var rakið hvaða aðferð samkomulag tókst um að beita við könnun á efnahag félaganna, sem um ræðir, þegar unnið var að sameiningu þeirra á fyrri hluta árs 2001. Ekki er vefengt af hálfu stefnda að tilkvaddir sérfræðingar höfðu bókhald Nótar útgerðarfélags ehf. fyrir árið 2000 undir höndum og áttu jafnframt aðgang að grunngögnum á bak við einstakar færslur. Meðal þeirra voru svonefndar viðskiptakvittanir Landsbanka Íslands hf. frá 25. janúar og 8. júní 2000, þar sem kemur fram að Saltver ehf. og Þorsteinn Erlingsson voru viðtakendur þeirra greiðslna, sem deila málsaðila snýst um. Áfrýjandi hafði formlega heimild til að færa Nót útgerðarfélagi ehf. nýsmíðina í Kína til eignar á því verði, sem hann ákvað, og verður að fallast á með honum að sú ákvörðun hafi birst viðsemjanda hans í bókhaldi og ársreikningi félagsins fyrir árið 2000 með þeim hætti að ekki átti að geta dulist. Greiðslurnar voru orðnar hluti af bókfærðu kostnaðarverði við nýsmíðina þegar áreiðanleikakönnun var gerð, en samkvæmt 8. lið samkomulags 16. desember 2000 skyldi bókfært verð véla og tækja lagt til grundvallar við mat á þeim við sameiningu félaganna. Þá verður jafnframt að hafna þeirri málsástæðu stefnda að umræddar greiðslur Landsbanka Íslands hf. hafi falið í sér lán Nótar útgerðarfélags ehf. til áfrýjanda. Á engu stigi málsins voru þær færðar sem skuld hans. Er ekkert að öðru leyti komið fram sem stutt getur við þennan málatilbúnað stefnda.

Samkvæmt öllu framanröktu verður áfrýjandi sýknaður af kröfu stefnda. Rétt er að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Áfrýjandi, Örn Erlingsson, er sýkn af kröfu stefnda, Festar eignarhaldsfélags ehf.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 23. janúar 2006.

Mál þetta, sem dómtekið var þriðjudaginn 6. desember sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Festi hf., kt. 590371-0769, Krossey, Höfn, Hornafirði, með stefnu birtri 19. febrúar 2005 á hendur Erni Erlingssyni, kt. 030237-4479, Sæbraut 20, Seltjarnarnesi.  Undir rekstri málsins var nafni stefnanda breytt í Festarfell ehf.  Síðar undir rekstri málsins tók Festi eignarhaldsfélag ehf. við aðild stefnanda að málinu.

Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda kr. 203.337.746 með dráttarvöxtum skv. III. kafla laga nr. 25/1987 af kr. 100.000.000 frá 25. janúar 2000 til 8. júní 2000, en af kr. 203.337.746 frá þeim degi til 1. júlí 2001 en skv. 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.  Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnda.

Dómkröfur stefnda eru þær, að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda og að honum verði dæmdur málskostnaður úr hans hendi að mati dómsins.

II

Málavextir

Þann 29. desember 1989 stofnaði stefndi ásamt bróður sínum, Þorsteini Erlingssyni, hlutafélagið Sólbakka hf. um útgerð skips þeirra, Arnar KE-13.  Var hlutafé félagsins kr. 6.000.000, og skiptist það til helminga á milli fjölskyldna þeirra. 

Á árinu 1998 hafði stefndi samið persónulega við Liaoing Machinery Import & Export Corporation í Kína um smíði á nýju nótaskipi, en þeim samningi hafði verið haldið utan við Sólbakka hf.

Hinn 16. júní 1999 gerðu bræðurnir Þorsteinn Erlingsson og stefndi Örn með sér samkomulag um breytingu á eignaraðild þeirra að félögunum Saltveri ehf. og Sólbakka ehf., sem þeir bræður áttu saman að hálfu hvor.  Í samræmi við það samkomulag stofnuðu þeir fyrirtækið Nót útgerðarfélag ehf. hinn 12. október 1999.  Bræðurnir áttu helming hluta þess félags hvor.  Þorsteinn var kosinn formaður stjórnar, stefndi meðstjórnandi og Gunnar Þórarinsson var kosinn varamaður í stjórn.  Stefndi var ráðinn framkvæmdastjóri.

Stefndi kveður stofnun Nótar ehf. hafa verið tilkynnta til hlutafélagaskrár sama dag. 

Með viðauka við samkomulagið frá 16. júní 1999, dags. 13. desember 1999, gerðu bræðurnir breytingu á eignaraðild að félögunum Saltveri ehf. og Sólbakka ehf., þannig  að hvor þeirra um sig átti einn þau félög, sem þeir höfðu áður átt og rekið saman.  Einn liður í þeim breytingum fólst í því, að stefndi keypti alla hluti Þorsteins í Nót ehf. og átti þá félagið einn. 

Þann sama dag var tilkynnt til hlutafélagaskrár, að stefndi tæki sæti í aðalstjórn óskráðs einkahlutafélags síns, Útgerðarfélagsins Nótar ehf., sem formaður.  Sonur stefnda, Örn Arnarson, væri meðstjórnandi og Gunnar Þórarinsson sæti áfram í varastjórn.  Stefndi var sjálfur áfram framkvæmdastjóri með prókúruumboð.

Sama dag og stefndi keypti alla hluti Þorsteins bróður síns í Nót ehf., eða hinn 13. desember 1999, var gengið frá viðskiptasamkomulagi við Landsbanka Íslands hf.  Það samkomulag gerði stefndi við bankann fyrir sína hönd persónulega og vegna tveggja einkahlutafélaga sinna, Sólbakka ehf. og Nótar ehf., sem þá var sagt óstofnað félag.  Í samkomulagi þessu segir svo m.a. um skuldbindingar stefnda vegna kaupa hans á hlutafé Þorsteins:

“... að lána og ábyrgjast greiðslu á allt að kr. 200.000.000,- vegna kaupa Arnar Erlingssonar á öllu hlutafé í Sólbakka hf.”

“e. ... Inngreitt hlutafé verður fyrst og fremst notað til að greiða 200 millj. kr. skammtímalán sem félagið mun fá hjá Landsbanka Íslands hf., ef þessi samningur nær fram að ganga, til að kaupa hlut Þorsteins Erlingssonar í fyrirtækinu Sólbakka hf.”

“l. ... Landsbanki Íslands hf. samþykkir að lána Erni Erlingssyni eigi síðar en 20. janúar árið 2000 skammtímalán að upphæð samtals 100 millj. kr. sem notist til að greiða upp í kaupin á eignarhlut Þorsteins Erlingssonar.  Jafnframt mun Landsbankinn ábyrgjast greiðslu sem inna skal af hendi 20. apríl 2000 að upphæð 100 millj. kr. til sama. ...”

Þá segir m.a. svo í sama viðskiptasamkomulagi um meðferð á Kínaskipinu svokallaða:

“a. ... Örn Erlingsson skuldbindur sig til þess að stofna nýtt hlutafélag sem mun bera heitið Nót útgerðarfélag hf.  Inn í það félag mun renna skipið Örn KE 13, skipaskrárnr. 1012, ásamt öllum varanlegum aflaheimildum sem í dag eru … …Jafnframt verður “Kínaskipið” sett inn í hið nýja félag. Hafist verði handa við þessar aðgerðir nú þegar og skal sameining þessara eigna inn í hið nýja félag miðast við áramótin 1999/2000 og hafa verið formlega samþykkt eigi síðar en 15. febrúar 2000.”

“i. ... Samhliða þessum samningi skal gert fjármögnunarsamkomulag milli Landsbankans og Arnar Erlingssonar um fjármögnun “Kínaskipsins”, og telst það hluti samkomulags þessa.”

  Tilvitnað fjármögnunarsamkomulag var gert sama dag og ber yfirskriftina „Fjármögnunarsamkomulag vegna nýsmíði skips í Kína”.  Er þar fjallað um það, hvernig Landsbanki Íslands hf. muni veita óstofnuðu félagi, Nót útgerðarfélagi hf., lán til áframhaldandi smíði skipsins í Kína.

Í samræmi við fyrrgreint viðskiptasamkomulag var nýsmíði nótaskips í Kína formlega færð yfir í Nót útgerðarfélag ehf., og var skipið talið þar til eigna og á félagið færðar allar skuldir, sem smíðinni tengdust frá og með 13.12. 1999, og kemur það fram í ársreikningi félagsins fyrir árið 1999.  Einnig var skipið Örn KE-13, skipaskrárnr. 1012, fært inn í félagið, svo sem kveðið var á um í samkomulaginu við Landsbanka Íslands hf., svo og allur rekstur þess á árinu 1999.

Ársreikningur Nótar útgerðarfélags ehf. fyrir árið 1999 var unninn af þáverandi endurskoðanda félagsins, Sigurþóri Ch. Guðmundssyni. Í ársreikningnum er “skip í smíðum” talið til eigna félagsins og það metið á kr. 634.613.314.  Í skýringum með þessum lið segir svo í ársreikningnum:

“Í árslok 1999 yfirtók félagið réttindi og skuldbindingar vegna nýsmíði skips í Kína. Greiðslur vegna nýsmíðinnar nema í árslok 634,6 millj. kr. og hafa þær verið fjármagnaðar af viðskiptabanka félagsins og hluthafa.”

Með bréfi dags. 23. september 2004 svaraði þáverandi endurskoðandi félagsins fyrirspurn stefnanda frá 12. febrúar 2004, þar sem óskað var eftir nánari skýringum á fyrrgreindri eignfærslu í ársreikningi félagsins og afriti af þeim gögnum, sem lágu að baki henni og skýringum í ársreikningi ársins 1999.  Með svari endurskoðandans fylgdi yfirlit yfir útlagðan kostnað við byggingu skipsins, sem myndaði þá fjárhæð, sem eignfærð var í ársreikningnum, og einnig fylgdi með skjal með yfirskriftinni “Staðfesting á samkomulagi Arnar Erlingssonar og Nótar útgerðarfélags ehf.”, dags. 13. apríl 2000.  Í upphafi síðarnefnda skjalsins segir, að Nót útgerðarfélag ehf. og stefndi séu með skjalinu að staðfesta samkomulag aðila frá 13. desember 1999, sem fram kemur í viðskiptasamningi og fjármögnunarsamningi við Landsbanka Íslands hf. og fyrr er getið. Síðan segir:

“Með framangreindu samkomulagi framseldi Örn Erlingsson Nót útgerðarfélagi ehf. öll réttindi og skyldur og Nót útgerðarfélag ehf. öðlaðist öll réttindi og tókst á hendur allar skyldur vegna skipasmíðasamnings milli Arnar Erlingssonar og Liaoing Machinery Import & Export Corporation vegna smíði á nóta og togveiðiskipi ásamt öllum viðaukum við samninginn og öllum samningum sem gerðir hafa verið í tengslum við skipasmíðasamninginn þ.m.t. allir samningar sem getið er í meðfylgjandi bréfi Skipatækni ehf. dags. 7. apríl 2000.”

Umrædd staðfesting var einnig árituð af Landsbanka Íslands hf. um samþykki fyrir skuldskeytingu vegna lána, sem Landsbanki Íslands hf. hafði veitt stefnda persónulega vegna nýsmíði á bát í Kína og var Nót útgerðarfélag ehf. samþykkt sem skuldari á þessum skuldum í stað stefnda.

Í greinargerð stefnda kemur fram, að þann 20. janúar 2000 hafi verið gengið endanlega frá sölu/framsali stefnda á Kínaskipinu til Nótar ehf. og uppgjöri við hann persónulega í því sambandi.  Um þá sölu hafi verið gerður skriflegur samningur í samræmi við ákvæði 3. mgr. 51. gr. einkahlutafélagalaga.  Skipasmíðastöðin í Kína hafi þurft að samþykkja það framsal. 

Stefndi kveður, að við þessi kaup hafi myndazt skuld Nótar ehf. við stefnda persónulega að fjárhæð kr. 834.613.314.  Áhættan af  kaupum á þeim smíðasamningi hafi þannig endanlega flutzt yfir á Nót ehf. hinn 20. janúar 2000. 

Fjárhæð kaupverðsins í samningnum milli stefnda persónulega og Nótar ehf. um Kínaskipið hafi verið við það miðuð, að kaupverðið væri sem næst þeirri fjárhæð, sem um yrði samið í viðskiptum milli óskyldra aðila á þeim tíma (arms length).  Við endanlegt framsal stefnda á Kínaskipinu til Nótar ehf. hafi allir þessir þættir í kostnaðar- og söluverði skipsins um áramótin 1999/2000 verið taldir nema samtals 234 m.kr. fyrir utan skuld nýsmíðinnar í Landsbanka, sem þá hafi numið samtals kr. 600.095.380.

Í framangreindum samningi frá 20. janúar 2000 um kaup Nótar ehf. á Kínaskipinu hafi verið um það samið, að Nót ehf. greiddi kaupverðið með þeim hætti að yfirtaka alla skuldina við Landsbankann, greiða skuld stefnda við Þorstein, samtals að fjárhæð kr. 200.000.000 samkvæmt samningi þeirra bræðra, og greiða eftirstöðvarnar til stefnda í peningum, samtals kr. 34.517.934, fyrir árslok 2000.  Samtals nemi þessar fjárhæðir kaupverði Kínaskipsins í ársbyrjun 2000, eða kr. 834.613.314, sem hafi verið bókfært verð Kínaskipsins hjá Nót ehf. á fyrri hluta ársins 2000, þegar sú fjárhæð hefði ýmist verið greidd eða skuldskeytt með formlegum hætti. 

Samningur stefnda við Nót ehf. um framangreind kaup liggur fyrir í málinu, en af hálfu stefnanda er dregið í efa, að samningurinn hafi verið gerður á þeim tíma, sem dagsetning hans segir til um.

Þann 25.01. 2000 greiddi Landsbanki Íslands hf. kr. 100.000.000 til Saltvers hf., félags í eigu Þorsteins Erlingssonar, í samræmi við viðskiptasamkomulagið um kaup á hlut hans í Sólbakka hf.  Hafði reikningur stefnanda nr. 101-26-2005 verið skuldfærður fyrir þeirri greiðslu deginum áður.

Þann 08.06. 2000 greiddi stefndi til Þorsteins Erlingssonar kr. 103.337.746 sem lokagreiðslu vegna kaupa á hlutafé hans í Sólbakka hf., þ.e. höfuðstól kr. 100.000.000, auk dráttarvaxta frá gjalddaga 20. apríl til greiðsludags, kr. 3.337.746.

Við færslu á bókhaldi Nótar ehf. fyrir árið 2000 voru umræddar greiðslur færðar sem smíðakostnaður skipsins í Kína, undir bókhaldslið 7533 “Nýsmíði Kínab.” með skýringunum “MILLIF. V. G.G. KÍNA”. Af færslunúmeri má sjá, að þessi færsla í bókhaldi Nótar ehf. hefur ekki átt sér stað fyrr en á árinu 2001, væntanlega í tengslum við ársuppgjör félagsins, sem lokið var þann 17. marz 2001 með áritun stjórnar félagsins og endurskoðanda.

Þann 16. desember 2000 tókst samkomulag á milli stjórnenda félaganna Festar ehf. og Nótar útgerðarfélags ehf. um að sameina félögin undir nafni Festar ehf.  Undirrituðu aðilar af þessu tilefni viljayfirlýsingu um samruna félaganna, og var jafnframt gert samkomulag um forsendur til að meta eignir, skuldir og eigið fé fyrirtækjanna.  Í því samkomulagi var m.a. um það samið, að við mat á skiptahlutfalli við samruna félaganna yrði byggt á húftryggingarmatsreglum Fjárhæðanefndar fiskiskipa varðandi skip félaganna.  Þá var samið um mat á aflaheimildum, að bókfært verð skyldi gilda um vélar og tæki, en áætlað söluverð fasteigna skyldi gilda um þær.  Aðrar eignir skyldu einnig metnar, en meta bæri allar eignir félaga samkvæmt ákvæðum laga um einkahlutafélög við samruna félaga að því marki, sem aðilarnir hefðu ekki samið um sérstakt verðmat eða verð. 

Endurskoðunarfirma Nótar ehf. á þeim tíma, sem samrunaviðræðurnar hófust, var KPMG Endurskoðun, Heimir Haraldsson endurskoðandi, og endurskoðunarfirma Festar ehf. var PricewaterhouseCoopers, Valdimar Guðnason endurskoðandi.

Í þeim tilgangi að tryggja hlutleysi hinna sérfróðu ráðgjafa við samruna fyrirtækjanna náðu fyrirsvarsmenn þeirra samkomulagi um, að endurskoðunar­fyrirtækinu Deloitte & Touche hf. (Deloitte hf.), Stórhöfða 23, Reykjavík, yrði falið að veita alla sérfræðiþjónustu varðandi samruna fyrirtækjanna.  Þá var Deloitte hf. einnig falin gerð og endurskoðun ársreiknings Nótar ehf. fyrir rekstrarárið 2000.

Samrunaáætlun fyrirtækjanna er dagsett 9. marz 2001.  Skýrsla matsmanna samkvæmt ákvæðum 97. gr. einkahlutafélagalaganna vegna samrunans er dagsett sama dag, og var hún unnin af starfsmönnum Deloitte hf.  Í henni kemur fram, að matsmennirnir hafi kannað samrunaáætlun félaganna og segir þar svo m.a.:

“Endanlegt skiptahlutfall verður hinsvegar ákvarðað í samræmi við endurskoðuð ársuppgjör félaganna 31. desember 2000, að teknu tilliti til samkomulags félaganna um forsendur til að meta eignir og skuldir félaganna frá 16. desember 2000”.

Nokkrum dögum áður en þeir fundir voru haldnir, sem staðfesta skyldu samruna félaganna endanlega, héldu matsmenn Deloitte hf. og Valdimar Guðnason, hinn löggilti endurskoðandi Festar ehf., fund á skrifstofu Festar, þar sem þeir fóru saman yfir öll samrunagögnin.  Var sérstaklega farið yfir hreyfingalista úr bókhaldi Nótar ehf. um bókfært verð Kínaskipsins á þeim fundi.  Að þeirri yfirferð lokinni gerði Valdimar athugasemdir við verðmat Kínaskipsins í samrunanum, en þær lutu að færslu gengismunar til hækkunar smíðakostnaði og endurmati samkvæmt skattalögum.  Var fullt tillit tekið til þeirra athugasemda.  Var verðmat Kínaskipsins í samrunanum lækkað um kr. 41.308.352 frá fyrra verðmati Deloitte og skiptahlutfallinu breytt í samræmi við þær athugasemdir Valdimars.  Hið bókfærða verð Kínaskipsins hélst óbreytt í ársreikningi Nótar ehf. og samrunaefnahagsreikningnum, en engar athugasemdir voru við það verð gerðar.

Á hluthafafundum í Festi ehf. og Nót útgerðarfélagi ehf., sem haldnir voru þann 17. maí 2001, var samþykktur samruni félaganna tveggja.  Skyldi samruninn eiga sér stað á grundvelli samrunaáætlunar, sérfræðiskýrslu, greinargerðar stjórna félaganna og samrunaefnahagsreiknings.  Með bréfum, dags. sama dag, var samruninn tilkynntur Hlutafélagaskrá.   Skyldi uppgjörsdagur fyrir hið sameinaða félag vera 1. janúar 2001.  Á fundunum voru ársreikningar félaganna einnig samþykktir.

Kínaskipið svokallaða kom til landsins haustið 2001 og fékk nafnið Guðrún Gísladóttir KE-15.  Einhverjar breytingar og lagfæringar voru gerðar á því, eftir að það kom til landsins, og hækkaði bókfært verð þess við það, en húftryggingarmat þess var óbreytt, kr. 2.027.714.000.  Skipið sökk við Lófóten í Noregi 20. júní 2002.  Félagið hafði ekki keypt hagsmunatryggingu til viðbótar við húftryggingu, og kveður stefndi tryggingabætur skipsins ekki hafa náð bókfærðu verði þess.  Rann vátryggingarverð þess til greiðslu á áhvílandi skuldum vegna endurfjármögnunar á smíðakostnaði þess.

Með kaupsamningi, dags. 22. ágúst 2002, seldu stefndi og fjölskylda hans öll hlutabréf sín, sem þau áttu í Festi hf., til Íshafs hf.

Með bréfi, dags. 9. október 2002, óskaði stjórn stefnanda eftir því við stefnda, að hann skýrði áðurnefndar greiðslur að fjárhæð kr. 203.337.746.

Fyrirspurninni var svarað af hálfu Rekstrarþjónustunnar, Brekkustíg 39, Njarðvík, sem annazt hafði um bókhald fyrir félagið.  Í því bréfi var sú skýring gefin á ofangreindum færslum, að þær væru vegna kaupa Nótar ehf. á Kínaskipinu og vísað til kaupsamnings, sem gerður hafi verið 20. janúar 2000, þar sem samið hafi verið um, að Nót útgerðarfélag ehf. greiddi stefnda kr. 234.517.934 fyrir yfirtöku á smíði Kínaskipsins, en fjárhæðin samanstóð annars vegar af kr. 200.000.000, sem átti að greiðast til Þorsteins Erlingssonar fyrir hlut hans í Sólbakka hf., og hins vegar af kr. 34.517.934, sem greiddar voru stefnda á árinu 2000 vegna áður ógreidds kostnaðar, auk vaxta til hans.

Stjórn stefnanda fékk Ragnar J. Bogason og Valdimar Guðnason, löggilta endurskoðendur, til þess að gera úttekt á bókhaldi Nótar ehf. og þá sérstaklega þeim færslum, sem runnu til Þorsteins Erlingssonar, en fullnægjandi skýringar þóttu vera á áðurgreindum kr. 34.517.934.

 Í bréfi, dags. 19. nóvember 2002, sem endurskoðendurnir rituðu stjórn stefnanda vegna rannsóknar sinnar, var niðurstaða þeirra sú, að um væri að ræða greiðslur í tengslum við samkomulag, sem stefndi gerði við Þorstein Erlingsson um kaup stefnda á 50% eignarhlut hans í hlutafélaginu Sólbakka hf.  Komust þeir að þeirri niðurstöðu í nefndu bréfi, að ljóst væri: “... af því sem hér var rakið um tilvitnað viðskiptasamkomulag, að gert hefur verið ráð fyrir því að félagið, þ.e. Nót útgerðarfélag hf., endurgreiddi bankanum þessar 200 millj. króna sérstaklega, þ.e. að þessari fyrirgreiðslu væri ekki blandað saman við fjármögnun á smíði Kínaskipsins, enda kaupin á eignarhlutanum allsendis óviðkomandi smíðakostnaði skipsins”.

Í bréfinu var tekin afstaða til skýringa stefnda á nefndum færslum, sem höfðu borizt stefnanda í ódagsettu bréfi frá Rekstrarþjónustunni, Brekkustíg 39, Njarðvík. Bentu endurskoðendurnir á, að umræddur kaupsamningur hefði ekki verið færður í bókhaldi félagsins, heldur hefðu kr. 203.337.746 verið færðar á bókhaldslykil 7533, sem var vegna smíðakostnaðar Kínaskipsins.  Í því samhengi var bent á, að umræddur kaupsamningur var hvorki á vitorði endurskoðenda Nótar ehf., Deloitte &  Touche hf. né Sigmars Björnssonar, sem undirritar samkomulag f.h. hluthafa í Festi hf. um forsendur til að meta eignir, skuldir og eigið fé fyrirtækjanna Festar hf. og Nótar ehf.

Einnig var í bréfinu bent á, að samkvæmt endurskoðuðum ársreikningi ársins 1999 af KPMG Endurskoðun væri ekki annað að sjá, en að smíðakostnaður vegna skipsins hefði verið færður til eignar á árinu 1999, og að skipið hefði verið fært inn í Nót ehf. til samræmis við viðskiptasamkomulag milli annars vegar Arnar Erlingssonar persónulega og fh. Sólbakka hf. og óstofnaðs hlutafélags og hins vegar Landsbanka Íslands.  Var það niðurstaða endurskoðendanna í greindu bréfi, að umrædd hækkun á bókfærðu verði skipsins byggðist ekki á nefndum kaupsamningi, þar sem hann hefði ekki verið færður í bókhaldi  félagsins, og jafnframt yrði ekki annað séð samkvæmt endurskoðuðum ársreikningi Nótar ehf. árið 1999, en að félagið hefði yfirtekið smíðasamninginn á árinu 1999.  Af þeim sökum töldu endurskoðendurnir ofangreindar færslur, að fjárhæð kr. 203.337.746, á smíðaverði skipsins orka mjög tvímælis.

Með bréfi dags. 9. desember 2002 kærði stefnandi stefnda til efnahagsbrotadeildar Ríkislögreglustjóra fyrir meintan fjárdrátt og/eða fjársvik, þegar hann notaði fjármuni stefnanda til þess að gera upp viðskipti sín við bróður sinn Þorstein Erlingsson og léti líta út fyrir í uppgjöri Nótar útgerðarfélags ehf., að um smíðakostnað vegna nýsmíði á skipinu Guðrúnu Gísladóttur hefði verið að ræða.

Lögreglurannsókn þessari lauk undir rekstri málsins, án þess að tilefni þætti til frekari aðgerða.

Með bréfi, dags. 9. maí 2003, krafði stefnandi stefnda um endurgreiðslu á fé því, sem hann hefði tekið sér. 

Með bréfi, dags. 12. febrúar 2004, óskaði Ólafur Þór Jóhannesson, löggiltur endurskoðandi, eftir því f.h. stefnda, að KPMG léti af hendi gögn og upplýsingar um, hvað hafi staðið að baki eignfærslu á Kínabátnum í ársreikningi Nótar ehf. fyrir árið 1999.

Með bréfi, dags. 23. september 2004, svaraði Sigurþór Ch. Guðmundsson, endurskoðandi Nótar ehf., fyrirspurn stefnanda með því að senda stefnanda afrit af “Staðfestingu á samkomulagi milli Arnar Erlingssonar og Nótar ehf. vegna viðskipta með hlutabréf”, dags. 13. apríl 2000, og “Yfirlit yfir útlagðan kostnað við byggingu fjölveiðiskips í Kína frá 15/7 1998 til 31/12 1999”, sem sýni grundvöll eignfærslu á smíðakostnaði skipsins í ársreikningi Nótar ehf. 

Með bréfi, dags. 7. september 2004, fór lögmaður stefnanda fram á það við Deloitte hf., að það svaraði nokkrum spurningum, sem málið vörðuðu, m.a. því, hvort starfsmönnum Deloitte hf. hefði verið kynntur hinn meinti kaupsamningur, dags. 20. janúar 2000, þar sem stefndi semur um, að Nót ehf. yfirtaki skuldir hans vegna kaupa á hlutafé í Sólbakka ehf. af bróður sínum, hvort sem hafi verið við endurskoðun ársreiknings félagsins fyrir árið 2000 eða vegna vinnu við verðmat á eignum Nótar ehf. í ársbyrjun 2001.  Kemur fram í svari Deloitte hf., að starfsmönnum þess hafi á engum tíma verið sýndur, eða þeir upplýstir um efni hans, og hafi þeir fyrst séð hann í desember 2002, er þeim voru kynntar athugasemdir Rekstrarþjónustunnar, sem áður hefur verið fjallað um.

III

Málsástæður stefnanda

Stefnandi byggir á því, að stefndi skuldi honum kr. 203.337.746, sem greiddar hafi verið út af reikningi félagsins til Þorsteins Erlingssonar og einkahlutafélags hans, Saltvers ehf., vegna samnings stefnda við hann um kaup á hlut stefnda í Sólbakka hf.

Samkvæmt “Viðskiptasamkomulagi”, dags. 13. desember 1999, sem stefndi og Nót útgerðarfélag ehf. séu aðilar að og gert hafi verið við Landsbanka Íslands hf., hafi Landsbanki Íslands hf. veitt stefnda lán til þess að fjármagna kaupin á hlut Þorsteins Erlingssonar.  Hafi lánið átt að vera skammtímalán, sem stefndi hafi skuldbundið sig samkvæmt samningnum til þess að endurgreiða með því að leita allra leiða til þess að auka hlutafé í félaginu.  Hafi kaupverð hlutafjárins verið greitt með skuldfærslu á reikning Nótar útgerðarfélags ehf. nr. 101-26-2005.

Með því að standa að viðskiptum þessum með ofangreindum hætti, hefði Nót útgerðarfélag ehf., en ekki stefndi, átt að vera kaupandi að hlutafé Þorsteins Erlingssonar í Sólbakka hf., enda hafi félagið ekki mátt lána stefnda fyrir kaupverðinu, skv. 79. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög.  Engin skjöl sé hins vegar að finna um kaup á umræddu hlutafé í gögnum félagsins eða upplýsingar um það, hver hafi verið upphaflegur kaupandi hlutafjárins.

Fyrir liggi, að stefnandi hafi á einhverjum tímapunkti, hvort sem verið hafi í tengslum við samninga um sameiningu Nótar útgerðarfélags ehf. við Festi ehf. eða fyrr, ákveðið að eigna sér umrætt hlutafé, þannig að það rynni ekki inn í hið sameinaða félag, enda sé umrætt hlutafé ekki talið með eignum Nótar útgerðarfélags ehf., þann 31. 12. 2000, samkvæmt ársreikningi þess árs.

Krafa stefnanda á stefnda byggist á því, að við þá ákvörðun stefnda að kasta eign sinni á umrætt hlutafé, hafi honum borið að endurgreiða stefnanda útlagt kaupverð hlutafjárins að fullu.  Þar sem stefndi hafi ekki greitt stefnanda andvirði eða útlagðan kostnað af kaupunum á hlut Þorsteins Erlingssonar í Sólbakka hf., skuldi stefndi stefnanda þá fjárhæð, sem jafnframt sé stefnufjárhæð þessa máls.

Byggi stefnandi á því, að þar sem stefnda hafi, samkvæmt ákvæðum 79. gr. laga nr. 138/1994, verið óheimilt að láta stefnanda fjármagna persónuleg kaup á hlutabréfum í Sólbakka hf., verði ekki á öðru byggt en að stefnda hafi borið að endurgreiða kaupverð þeirra, þegar er hann hafi ákveðið að kasta eign sinni á þau.  Þar sem ekki liggi fyrir, hvenær stefndi hafi fært hlutaféð frá Nót útgerðarfélagi ehf. yfir til sín, byggi stefnandi á því, að stefndi hafi gert það jafnhliða greiðslum Nótar útgerðarfélags ehf. til Þorsteins Erlingssonar, og því beri krafa stefnanda dráttarvexti frá þeim tíma, sem stefnandi hafi innt greiðslurnar af hendi.

Stefnandi telji, að stefndi hafi, við gerð ársreiknings vegna ársins 2000 fyrir Nót útgerðarfélag ehf., tekið ákvörðun um að reyna að koma sér undan endurgreiðslu á umræddri skuld við félagið með því að færa kostnað af kaupum á hlutafé Þorsteins Erlingssonar í Sólbakka hf. ranglega á smíðakostnað Guðrúnar Gísladóttur KE-15, sem þá hafi verið í smíðum í Kína.  Með því hafi stefndi viljað koma því þannig fyrir, að hann héldi hinum keypta eignarhluta í Sólbakka hf., en stefnandi sæti eftir með skuld við Landsbanka Íslands hf. vegna kaupanna.

Háttsemi stefnda að þessu leyti hafi, að mati stefnanda, verið hvort tveggja ólögmæt og saknæm, enda hafi hún orðið tilefni þess, að stefnandi hafi kært hana til efnahagsbrotadeildar Ríkislögreglustjóra.

Stefnandi telji, að skýringar þær, sem fram séu settar í ódagsettu bréfi Rekstrarþjónustunnar Brekkustíg 39, Njarðvík, eigi ekki við rök að styðjast, og kaupsamningur frá 20. janúar 2000, sem hafi verið sendur stefnanda með umræddu bréfi um yfirtöku stefnanda á skuld stefnda við Þorstein Erlingsson vegna kaupa hans á umræddu hlutafé, sé óskuldbindandi fyrir stefnanda.

Stefnandi byggi á því, að umræddur kaupsamningur hafi verið ritaður í tilefni af fyrirspurn stefnanda um umræddar færslur með bréfi, dags. 09.10. 2002.  Byggi stefnandi á því, að efni skjalsins feli í sér tilraun til að rangfæra atvik málsins og færa tilbúnar skýringar á hinum ólögmætu færslum í bókhaldi stefnanda.  Skjalið hafi því enga þýðingu að lögum gagnvart stefnanda og enn síður skuldbindingargildi.  Telji stefnandi því umræddan kaupsamning óskuldbindandi og málamyndagerning, sem leysi stefnda ekki undan kröfum stefnanda.

Verði ekki fallizt á, að umræddur kaupsamningur sé óskuldbindandi gagnvart stefnanda með ofangreindum rökum, byggi stefnandi á því, að ákvæði kaupsamningsins, um að stefnandi greiði stefnda kr. 200.000.000 í formi yfirtöku á skuld við Þorstein Erlingsson vegna kaupa stefnda á hlutafé í Sólbakka hf. fyrir yfirtöku á öllum réttindum og skyldum vegna nýsmíði Guðrúnar Gísladóttur KE-15 í Kína, séu óskuldbindandi, enda stangist þau á við áður gerða samninga félagsins um yfirtöku á nýsmíðinni.

Samkvæmt áðurnefndu viðskiptasamkomulagi milli stefnda, stefnanda, Sólbakka hf. og Landsbanka Íslands hf., dags. 13. desember 1999, hafi stefnandi yfirtekið öll réttindi og allar skyldur vegna nýsmíðinnar á þeim degi.  Sú yfirtaka hafi verið staðfest þann 13. apríl 2000 með “Staðfestingu á samkomulagi” á milli stefnanda og stefnda, auk þess sem þar sé sérstaklega samið um uppgjör á kr. 34.517.934, sem hafi verið óuppgerður kostnaður til stefnda og vextir vegna hans.  Með samningum þessum sé skýrt kveðið á um fjárhagslegt uppgjör vegna yfirtöku Nótar útgerðarfélags ehf. á umræddu Kínaskipi, og því hafi stefndi engar frekari kröfur átt á hendur stefnanda vegna nýsmíðinnar.

Samningur um “kaup” stefnanda á nýsmíðinni, dags. 20. janúar 2000, sé því samningur um kaup á skipi í smíðum, sem stefnandi hafi þegar átt, og samningur um kr. 200.000.000 þóknun vegna “kaupanna” stangist á við ofangreinda samninga og einnig umrædda staðfestingu frá 13. apríl 2000.  Stefnandi byggi á því, að verði talið, að samningi aðila um yfirtöku stefnanda á nýsmíðinni í Kína, samkvæmt viðskiptasamkomulagi, dags. 13. desember 1999, hafi verið breytt með “kaupsamningi, dags. 20. jan. 2000”, hafi sú breyting gengið til baka eða verið upphafin með “Staðfestingu á samkomulagi”, dags. 13. apríl 2000.  Stefndi geti því aldrei átt meiri kröfur á hendur stefnanda vegna yfirtökunnar en sannanlega hafi verið um samið þann 13. apríl 2000, en það hafi verið um greiðslu á kr. 34.517.934 vegna útlagðs kostnaðar, auk vaxta á þann kostnað.  Um sé að ræða sömu fjárhæð og sé hluti af “kaupsamningnum, dags. 20. janúar 2000”, og því megi segja, að sannanlegt sé, að verið sé að semja “aftur” um greiðslur til stefnda vegna yfirtöku Nótar útgerðarfélags ehf. á skipinu, og því ryðji síðasti samningurinn þeim fyrri úr vegi og komi í stað hans.  Stefndi hafi fengið umræddar kr. 34.517.934, samkvæmt staðfestingunni frá 13. apríl 2000, greiddar, og hafi stefnandi ekki talið tilefni til að krefjast endurgreiðslu þeirrar fjárhæðar.

Um lagarök vísist til almennra reglna samninga- og kröfuréttar um efndir samninga og greiðslu skulda.  Jafnframt sé vísað til laga nr. 145/1994 um bókhald, sérstaklega II. kafla laganna.  Þá sé byggt á lögum nr. 138/1994 um einkahlutafélög, sérstaklega 79. gr. laganna.  Um dráttarvexti vísist til III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001.  Krafizt sé málskostnaðar eftir ákvæðum XXI. kafla laga nr. 91/1991.

Málsástæður stefnda

Stefndi byggði upphaflega á því að stefnandi hefði ekki aðild að málinu, en féll frá þeirri málsástæðu við aðalmeðferð og samþykkti aðild Festar eignarhaldsfélags ehf.

Stefndi kveður stefnanda byggja kröfugerð sína á hendur stefnda í máli þessu á rangri atvikalýsingu á viðskiptum stefnda persónulega við einkahlutafélag hans Nót ehf., sem átt hafi sér stað löngu áður en stefnandi hafi átt nokkra aðild að eða haft nokkurt samningssamband við stefnda persónulega eða einkahlutafélag hans, Nót ehf.  Stefnandi byggi mál þetta á þeirri málsástæðu, að stefndi hafi tekið lán, að fjárhæð 200 milljónir króna, hjá Nót ehf. til hlutabréfakaupa á fyrri hluta árs 2000, sem hafi verið ólögmæt lántaka samkvæmt ákvæðum 79. greinar laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög, og að honum beri að endurgreiða þá skuld til félagsins.

Þau viðskipti og fjármagnstilfærslur, sem hér um ræði, varði framsal stefnda persónulega á byggingasamningi hans um hið svokallaða Kínaskip til Nótar ehf. um áramótin 1999/2000 og uppgjör þeirra viðskipta.  Af hálfu stefnda sé á því byggt, að þau viðskipti, sem stefnandi byggi mál þetta á, hafi verið til lykta leidd á fyllilega eðlilegan og lögmætan hátt á fyrri helmingi ársins 2000, eða löngu áður en viðræður aðila máls þessa um samruna félaganna hófust, en það hafi verið í nóvember/desember 2000.  Á þeim tíma, sem umrædd viðskipti milli stefnda og Nótar fóru fram, hafi þau alls ekkert komið Festi ehf. eða eigendum þess félags við. 

Nánar tiltekið byggi stefndi á því, að hann hafi framselt smíðasamninginn um Kínaskipið til Nótar ehf. um áramótin 1999/2000 og lokið þeim viðskiptum við Nót ehf. endanlega með samningi, dagsettum hinn 20. janúar 2000, sbr. dskj. nr. 31.  Efni þess framsals komi skýrt fram í bókum Nótar ehf.  Framsal smíðasamningsins frá stefnda til Nótar ehf. hafi eingöngu verið háð samþykki skipasmíðastöðvarinnar.  Stefndi hafi, á þessum tíma, verið eini eigandi Nótar ehf. og hafi haft fullar eigandaheimildir til ákvarðanatöku um það framsal og efni þess, reyndar bæði sem seljandi og kaupandi.  Varðandi formhlið þeirra viðskipta hafi stefndi gætt ákvæða 3. mgr. 51. greinar laga um einkahlutafélög.  Gagnvart opinberum aðilum hafi hann þurft að gæta þeirrar lagaskyldu skattalaga, nú 2. mgr. 57. gr. l. nr. 90/2003, við það framsal þess efnis, að verðmat hinnar framseldu eignar í þeim viðskiptum væri sem næst því, sem það myndi vera í viðskiptum ótengdra aðila á þeim tíma.  Engar efnislegar athugasemdir hafi fram komið þar að lútandi, hvorki frá opinberum aðilum né einkaaðilum.    

Samkvæmt framsali stefnda á smíðasamningi hans um Kínaskipið til Nótar ehf. dags. 20. janúar 2000, hafi Nót ehf. keypt smíðasamninginn endanlega á 834 milljónir króna af stefnda.  Nót ehf. yfirtæki skuld stefnda við Landsbanka vegna smíðasamningsins pr. áramótin 1999/2000, að fjárhæð 600 milljónir króna, og greiddi stefnda eftirstöðvarnar, 234 milljónir króna, með nánar tilteknum hætti síðar.

Þar eð eftirstöðvar kaupverðsins, skuld við stefnda að fjárhæð 234 mkr., hafi ekki verið staðgreiddar, hafi orðið til skuld Nótar ehf. við stefnda persónulega.  Sú skuld Nótar ehf. við stefnda hafi m.a. verið greidd með greiðslu persónulegrar skuldar stefnda við Þorstein Erlingsson, svo sem fram komi í dskj. nr. 31.  Hluti af þeirri fjárhæð, eða kr. 203 milljónir, sé einmitt dómkrafa stefnanda í máli þessu. 

Stefndi mótmæli því alfarið sem röngu, að hann hafi stofnað til skuldar hjá Nót ehf. með þeim hætti, sem greini í stefnu eða í kæru.   Stefndi byggi sýknukröfu sína í máli þessu þannig á því, að hann hafi hvorki fengið né tekið sér lán hjá Nót ehf., hvorki með lögmætum né ólögmætum hætti, hvorki misfarið með né dregið sér fé úr sjóðum Nótar ehf., svo sem fram sé haldið í stefnu á dskj. nr. 1 eða kæru á dskj. nr. 33.  Stefndi vísi m.a. til dskj. nr. 31 því til sönnunar.  Stefnandi beri sönnunarbyrðina á fullyrðingum sínum, um að það skjal sé síðari tíma málamyndaskjal.  Sönnun stefnanda á þeirri fullyrðingu hafi síður en svo tekizt, og þegar af þeirri ástæðu beri að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda.

Þar eð málsástæður stefnanda víki að fleiri atriðum, vilji stefndi taka afstöðu til þeirra hér á eftir.  Þær málsástæður stefnanda lúti flestar að samruna Nótar ehf. og Festar ehf.  Dómkrafa stefnanda lúti ekki að breytingum á samruna félaganna eða ógildingu, enda þótt ýmsar af málsástæðum stefnanda bendi til hugleiðinga um slíka kröfugerð. 

Stefnandi láti að því liggja í málástæðnakafla stefnu og kæru á dskj. nr. 33, að stefndi hafi ranglega látið Nót ehf. taka lán í Landsbanka Íslands til að fjármagna greiðslu, sem honum hafi borið að greiða persónulega. 

Afstaða stefnda til þessarar málsástæðu stefnanda sé sú, að Nót ehf. hafi yfirtekið lánsloforð Landsbanka Íslands til stefnda persónulega til fjármögnunar greiðslu skuldar við stefnda persónulega vegna kaupa félagsins af stefnda á byggingasamningi Kínaskipsins 20. janúar 2000.  Sú lántaka Nótar ehf., og síðan greiðsla margnefndra greiðslna til Þorsteins Erlingssonar, eigi sér þannig fullkomlega eðlilega skýringu, sem öllum hlutaðeigandi, þeirra á meðal Landsbanka Íslands, hafi verið fullkunnugt um.  Stefndi vísi til dskj. nr. 14 og dskj. nr. 48–52 því til sönnunar.  Stefnanda hafi verið eða mátt vera kunnugt um þá lántöku Nótar ehf.  Hann hafi ítrekað staðfest og viðurkennt tilvist þeirrar skuldar Nótar ehf. gagnvart Landsbankanum á sínum tíma.

Stefndi telji gögn málsins sanna, að stefnanda hafi verið kunnugt um hið bókfærða verð Kínaskipsins eftir færslur í bókhaldi Nótar ehf. samkvæmt ákvæðum kaupsamningsins á dskj. nr. 31, auk útlagðs smíðakostnaðar í Kína á árinu 1999 og 2000, þegar samrunaviðræður Festar og Nótar hafi hafizt síðla árs 2000.  Hann vísi til dómskjala nr. 23, 25, 20, 53 og 21 þessu til sönnunar.  Stefndi bendi á, að fjölmörg gögn málsins sýni, að stefnandi hafi margítrekað viðurkennt og staðfest athugasemdalaust vitneskju sína um hið bókfærða verð Kínaskipsins, bæði samkvæmt ársreikningi Nótar ehf. pr. 31.12. 2000, stofnefnahagsreikningi félagsins Festar ehf. pr. 01.01. 2001 og síðar. 

Stefndi telji gögn málsins einnig sýna á ótvíræðan hátt, að fullt samkomulag hafi náðst um verðmat allra eigna Nótar ehf. milli hluthafa félaganna, Nótar ehf. og Festar ehf., þegar samruni félaganna hafi verið endanlega staðfestur hinn 17. maí 2001, en áhætta öll, sem tengist þeim viðskiptum, hafi flutzt yfir á stefnanda á þeim degi.  Stefndi mómæli því sem fjarstæðu, að Nót ehf. hafi átt einhverja fjárkröfu á hendur honum persónulega, þegar Nót ehf. og Festi ehf. runnu saman við staðfestingu samruna félaganna á fundum þeirra hinn 17. maí 2001.

  Nót ehf., Festi ehf., Festi hf. eða hluthafar þeirra félaga, jafnt fyrrverandi sem núverandi, hafi ekki sýnt fram á, að þeir hafi orðið fyrir neinu fjárhagslegu tjóni af völdum stefnda í sambandi við þá atburðarás, sem mál þetta fjalli um. 

Stefndi byggir á því, að stefnandi hafi að athuguðu máli endanlega leyst hann undan öllum ábyrgðum og skuldbindingum gagnvart stefnanda með yfirlýsingunum á dskj. nr. 66 – 69 og kaupsamningnum á dskj. nr. 65.

Af hálfu stefnda sé því haldið fram, að sönnunarbyrði um allar þær ávirðingar, sem stefnandi saki stefnda um og hann byggi mál sitt á, hvíli á stefnanda.  Sú sönnun hafi alls ekki tekizt nema síður sé, og því beri að sýkna stefnda af dómkröfum stefnanda.

Allar þessar málsástæður sameiginlega, sem og hver einstök þeirra, leiði til sýknu stefnda í máli þessu.

Stefndi byggi kröfugerð sína á almennum reglum eignaréttar, kröfu- og samningaréttar, auk ákvæða laga um hlutafélög og einkahlutafélög, almennra reglna skaðabótaréttar, auk þeirra lagaákvæða, sem vitnað sé sérstaklega til hér að framan.

IV

Forsendur og niðurstaða

Fyrir dóminn komu til skýrslugjafar Guðmundur Hjaltason stjórnarformaður stefnanda, stefndi Örn Erlingsson, Gunnar Þórarinsson viðskiptafræðingur, Steinunn Sighvatsdóttir, starfsmaður í bókhaldi, Þorvarður Gunnarsson endurskoðandi, Halldór Arason endurskoðandi, Guðni Þór Gunnarsson endurskoðandi, Davíð Björnsson, sérfræðingur á viðskiptasviði Landsbanka Íslands, Árni Þór Þorbjörnsson, forstöðumaður á fyrirtækjasviði Landsbanka Íslands, Gunnar J. Felixson, fyrrverandi forstjóri Tryggingamiðstöðvarinnar, Valdimar Guðnason endurskoðandi, Sigurþór Ch. Guðmundsson endurskoðandi, Einar Jón Ólafsson hagfræðingur, Heimir V. Haraldsson endurskoðandi og Sigmar Björnsson sjómaður.

Samkvæmt viðskiptasamkomulagi milli stefnda, Sólbakka hf., Nótar og Landsbanka Íslands á dskj. nr. 11, sem dags. er 13. desember 1999, fékk stefndi loforð fyrir láni frá Landsbanka Íslands til þess að fjármagna kaupin á Sólbakka, allt að kr. 200.000.000.  Lánið skyldi endurgreitt með aukningu hlutafjár í óstofnuðu félagi, (Nót ehf.). 

Samhliða viðskiptasamkomulaginu gerðu sömu aðilar með sér fjármögnunar­samkomulag vegna Kínaskipsins svokallaða, þar sem Landsbankinn samþykkir að lána Nót ehf. allt að kr. 750.000.000 til að fjármagna smíði skipsins.

Í ársreikningi Nótar vegna ársins 1999 er talið til eigna félagsins skip í smíðum að verðmæti kr. 634.613.314.  Er ársreikningurinn undirritaður af stefnda sem stjórnarmanni og framkvæmdastjóra félagsins þann 11. apríl 2000 og áritaður af endurskoðendum sama dag.  Í skýringum í tl. 6 í ársreikningnum segir svo:  “Í árslok 1999 yfirtók félagið réttindi og skuldbindingar vegna nýsmíði skips í Kína.  Greiðslur vegna nýsmíðinnar nema í árslok 364,6 millj. kr. og hafa þær verið fjármagnaðar af viðskiptabanka félagsins og hluthafa.”

Samkvæmt umdeildum kaupsamningi á dskj. nr. 31, sem er dags. 20. janúar 2000, seldi stefndi Nót ehf. umrætt Kínaskip og segir þar, að kaupandi taki við nýsmíðinni eins og hún sé í ársbyrjun 2000.  Kaupverðið er kr. 834.613.314, sem sundurliðast svo:

Yfirtekin skuld vegna nýsmíðinnar í Landsbanka Íslands m.v. áramót 1999/2000 kr. 600.095.380

Yfirtekin skuld Arnar Erlingssonar við Þorstein Erlingsson, kr. 200.000.000 vegna kaupa á hlutabréfum í Sólbakka.

Eftirstöðvarnar, kr. 34.517.934, skyldi Nót greiða Erni Erlingssyni í síðasta lagi í árslok 2000.

Af hálfu stefnanda er á því byggt, að framangreindur kaupsamningur hafi verið saminn mun síðar en dagsetning hans segir til um.

Stefndi skýrði svo frá fyrir dómi, að hann hefði tekið ákvörðun um gerð samningsins á sínum tíma til þess að fullnægja kröfum Landsbankans.  Hann kvaðst ekki muna, hvenær sú ákvörðun var tekin, en hann hefði borið hana undir sinn bókara og þetta hefði allt legið opið fyrir bankanum.  Hann kvaðst ekki muna, hver hefði samið kaupsamninginn, en taldi sig hafa gert það í samvinnu við bókara sinn.  Þá kvaðst hann ekki muna, hvar samningurinn var undirritaður.  Hann kvaðst ekki hafa borið samninginn undir endurskoðanda félagsins.  Aðspurður kvað hann fjárhæðina, kr. 34.517.934, sem Nót tók að sér að greiða honum samkvæmt staðfestingu á samkomulagi hans og Nótar á dskj. nr. 14, sem dags. er 13. apríl 2000, hafa verið skuld félagsins við sig vegna útlagðs kostnaðar.  Hann gat ekki gefið skýringu á því, hvers vegna þessarar fjárhæðar væri getið þarna, ef búið hefði verið að semja um eina greiðslu í kaupsamningi, sem gerður hafi verið tæpum þremur mánuðum fyrr, en vísaði til þess, að Landsbanki Íslands hefði gert þetta svona, og bankinn hefði líklega ekki verið með kaupsamninginn undir höndum.  Þá staðfesti hann aðspurður, að með samkomulaginu á dskj. nr. 14 væri staðfest, að Nót hefði yfirtekið réttindi vegna Kínaskipsins þann 13. desember 1999.

Gunnar Þórarinsson viðskiptafræðingur, sem rekur bókhaldsfyrirtækið Rekstrar­þjónustuna, sem færði bókhald Nótar á þessum tíma, kvaðst hafa samið umdeildan kaupsamning, og væri dagsetning undirritunar hans rétt.  Hann hefði verið undirritaður annað hvort á skrifstofu eða heimili vitnisins.  Fram kom, að eiginkona vitnisins, sem einnig vinnur við bókhaldsfyrirtækið, er náfrænka stefnda.  Aðspurt skýrði vitnið misræmi í ársreikningi Nótar árið 1999 um yfirtöku Nótar á nýsmíðinni og yfirtökutíma samkvæmt kaupsamningi með því, að bak við þetta væri viðskiptasamkomulag við Landsbankann, þar sem gert sé ráð fyrir yfirtökunni, en henni hefði ekki verið lokið fyrir áramótin.  Hann hefði gert ráð fyrir því, að endurskoðendur hefðu viljað setja þetta inn í ársreikninginn, þar sem búið hefði verið að ákveða yfirtökuna.  Hann kvaðst ekki telja, að endurskoðandi  félagsins hefði haft kaupsamninginn undir höndum, hann hefði eingöngu fengið þau gögn sem tilheyrðu árinu 1999.  Hann kvaðst hafa séð um persónulegt skattframtal stefnda.  Ástæða þess, að hann hefði ekki talið söluhagnað stefnda til tekna á árinu 2000 og ekki fyrr en á árinu 2003, hefði verið ákveðin óvissa, sem ríkt hefði um, hvernig ætti að standa að framtalinu vegna ýmiss kostnaðar, sem talið hefði verið að hefði fallið til og hafi átt eftir að skýra.

Eiginkona Gunnars Þórarinssonar, Steinunn Sighvatsdóttir, staðfesti, að hún hefði vottað kaupsamninginn á dskj. nr. 31 á skrifstofu eða bókhaldsstofu Rekstrarþjónustunnar árið 2000 að viðstöddum stefnda og Gunnari.

Þorvarður Gunnarsson endurskoðandi, sem kom að aðstoð við gerð samrunaáætlunar Nótar og Festar um miðjan janúar 2001, kvaðst ekki hafa haft vitneskju um kaupsamninginn á þeim tíma.  Aðspurður kvaðst hann hafa talið bókfært verð Kínaskipsins í ársreikningi vera smíðakostnað þess, og hefði hann ekki gert ráð fyrir söluhagnaði inni í þeirri tölu.

Halldór Arason endurskoðandi hjá Deloitte, sem skrifaði undir ársreikning Nótar fyrir árið 2000, kvaðst ekki hafa séð kaupsamninginn í gögnum Nótar við endurskoðun ársreikningsins fyrir árið 2000, og hefði hann fyrst séð samninginn í árslok 2002.

Guðni Þór Gunnarsson, starfsmaður hjá Deloitte, sonur Gunnars Þórarinssonar, kvaðst hafa unnið undirbúningsvinnu við gerð ársreikningsins.  Hann kvað fjárhæðirnar 100.000.000 og 103.000.000 hafa verið færðar sem hluta af smíðakostnaði Kínaskipsins í ársreikningi og fyrningarskýrslu Nótar.  Hann hafi ekki séð kaupsamninginn, þegar hann vann við bókhald Nótar og kvaðst vera að sjá hann fyrst í þinghaldinu.  Hann kvaðst ekki hafa vitað, að framangreindar fjárhæðir væru vegna uppgjörs við Þorstein Erlingsson vegna hlutafjárkaupanna, og hefði hann ekki leitað skýringa á þeim.

Hvorki vitnið Davíð Björnsson, sérfræðingur á viðskiptasviði Landsbankans, Árni Þór Þorbjörnsson, forstöðumaður á fyrirtækjasviði Landsbankans, né Einar Jón Ólafsson, sem var tengiliður stefnda í Landsbankanum, könnuðust við að hafa séð kaupsamninginn á þeim tíma, sem verið var að vinna að samkomulagi við Landsbankann.

Vitnið Valdimar Guðnason endurskoðandi, sem var endurskoðandi Festar og til aðstoðar Sigmari Björnssyni við samrunaferli Festar og Nótar, auk þess sem hann framkvæmdi úttekt á bókhaldi Nótar, ásamt Ragnari Bogasyni, að ósk stjórnar Festar, þegar stjórnendur félagsins höfðu rekið augun í færslur á nýbyggingarreikningi Kínaskipsins, sem þeim þóttu torkennilegar, skýrði svo frá, að í sínum huga væri ljóst, að hefði umdeildur kaupsamningur verið til staðar, þegar ársreikningur Nótar vegna ársins 1999 var undirritaður í apríl 2000, hefði verið rétt að gera grein fyrir kaupsamningnum í ársreikningi félagsins.  Kaupsamningurinn hefði ekki verið inni í bókum félagsins, heldur hefðu færslurnar á samtals kr. 203 milljónum einungis verið byggðar á greiðslufylgiskjölum frá Landsbanka Íslands.  Hann kvað ekkert annað hafa komið fram í viðræðum, þegar unnið var við að sameina Festi og Nót, en að bókfært verð skipsins væri eingöngu smíðaverð þess.

Vitnið Sigurþór Charles Guðmundsson, sem staðfesti ársreikning Nótar og ritaði skýringu við eignfærslu skips í smíðum á efnahagsreikningi, sem áður hefur verið rakin, skýrði svo frá m.a., að hann hefði hvorki séð né verið upplýstur um tilveru kaupsamningsins á dskj. nr. 31 fyrr en á síðari stigum málins.  Aðspurður, hvort efni kaupsamningsins færi saman við eignfærslu Kínaskipsins í ársreikningi 1999, kvaðst hann myndu hafa eignfært 834 milljónir, ef hann hefði haft kaupsamninginn undir höndum við gerð ársreikningsins.  Hann kvaðst myndu hafa leitað eftir staðfestingu á því, hvort allur kostnaður við smíði skipsins væri kominn, og ef vantað hefði upp á þann kostnað einhverja fjárhæð, hefði hann bætt honum við kostnaðarverðið og eignfært kostnaðarverð skipsins.

Vitnið, Heimir Haraldsson, sem starfaði hjá KPMG endurskoðun og kom að stofnun Nótar og var kjörinn endurskoðandi félagsins, kvaðst ekki kannast við kaupsamninginn á dskj. nr. 31.

Sigmar Björnsson, sem var aðaleigandi Festar, þegar félögin voru sameinuð, skýrði svo frá, að hann hefði ekki séð kaupsamninginn á sínum tíma og hefði ekki verið upplýstur um hann.  Aldrei hefði verið rætt um, að í byggingarverði skipsins væri 200 milljóna króna þóknun til Arnar við yfirfærsluna.

Samkvæmt framburði þeim, sem rakinn hefur verið hér að ofan, var umdeildur kaupsamningur einungis á vitorði stefnda, bókhaldara hans, Gunnars Þórarinssonar og Steinunnar Sighvatsdóttur.  Aðrir þeir, sem komu að samruna fyrirtækjanna eða gerð ársreiknings Nótar eða bókhaldi, höfðu enga vitneskju um samninginn.  Með vísan til tengsla stefnda við þau vitni, sem vottuðu kaupsamninginn, þykir ekki unnt, gegn andmælum stefnanda, að byggja á vitnisburði þeirra um dagsetningu samningsins, enda koma til önnur atriði, sem gera tilvist samningsins á þeim tíma, sem hann er dagsettur, tortryggilega, svo sem dskj. nr. 14, þar sem m.a. er samið um greiðslu á fjárhæðinni kr. 34.389.284, sem þegar átti að vera búið að semja um samkvæmt hinum umdeilda kaupsamningi, hafi hann verið rétt dagsettur.  Á hinn bóginn var í engu getið um 200 milljón króna skuld Arnar við Þorstein, sem einnig er inni í kaupsamningnum.  Þá var ofangreind fjárhæð ekki talin stefnda til tekna á árinu 2000, heldur fyrst á árinu 2003, sem dregur enn fremur úr trúverðugleika dagsetningar kaupsamningsins.  Einnig verður ekki annað ráðið af endurskoðuðum ársreikningi Nótar ehf. vegna ársins 1999, en að félagið hafi yfirtekið smíðasamninginn á árinu 1999, en þar er skipið, sem þá var í smíðum fært til eignar á kr. 634.613.314.  Hefur stefnda ekki tekizt að sanna eða gera sennilegt, að kaupsamningurinn hafi verið gerður 20. janúar 2000, og verður því ekki á honum byggt í máli þessu.

Greiðslur þær, sem deilt er um í máli þessu, fóru af reikningi Nótar ehf. til Þorsteins Erlingssonar, án þess að séð verði, að Nót ehf. hafi eignazt hlutafé það, sem greiðslurnar runnu til kaupa á.  Þá eru greiðslurnar færðar í ársreikning félagsins vegna ársins 2000, eins og um smíðakostnað Kínaskipsins svokallaða hefði verið að ræða.  Hafa þeir endurskoðendur, sem að málinu komu, borið fyrir dómi, að engin gögn hafi legið fyrir í bókhaldi félagsins, sem bentu til þess, að um annan kostnað væri að ræða.  Er því fallizt á með stefnanda, að við samruna fyrirtækjanna Nótar ehf. og Festar ehf. hafi stefndi verið í skuld við Nót ehf., sem nemur umstefndri fjárhæð, án þess að það kæmi fram í bókhaldi félagsins.  Ber honum því að greiða stefnanda fjárhæðina, ásamt vöxtum eins og krafizt er, en vaxtakröfu stefnanda hefur ekki verið andmælt sérstaklega.  Jafnframt ber stefnda að greiða stefnanda málskostnað, sem þykir eftir atvikum hæfilega ákveðinn kr. 3.000.000.

Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.

D Ó M S O R Ð

Stefndi, Örn Erlingsson, greiði stefnanda, Festi eignarhaldsfélagi ehf., kr. 203.337.746 ásamt dráttarvöxtum skv. III. kafla laga nr. 25/1987 af kr. 100.000.000 frá 25. janúar 2000 til 8. júní 2000, en af kr. 203.337.746 frá þeim degi til 1. júlí 2001, en skv. 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags og kr. 3.000.000 í málskostnað.