Hæstiréttur íslands

Mál nr. 123/2008


Lykilorð

  • Brot gegn valdstjórninni
  • Líkamsárás
  • Skilorð


         

Fimmtudaginn 5. júní 2008.

Nr. 123/2008.

Ákæruvaldið

(Sigríður J. Friðjónsdóttir, saksóknari)

gegn

Nikolajs Smorodinovs

(Björn L. Bergsson hrl.)

 

Brot gegn valdstjórninni. Líkamsárás. Skilorð.

N var sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 106. gr. og 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með því að hafa slegið lögreglumanninn A, sem var við skyldustörf, hnefahögg í andlit með þeim afleiðingum að A hlaut brot á vinstra kjálkabeini. Í dómi Hæstaréttar kom fram að með lögum nr. 25/2007 um breytingu á almennum hegningarlögum nr. 19/1940 hafi 2. málslið verið bætt við 1. mgr. 106. gr. laganna um brot gegn opinberrum starfsmönnum. Samkvæmt ákvæðinu væri nú heimilt að dæma fangelsi allt að átta árum ef brotið beindist að opinberum starfsmanni sem hefði heimild til líkamlegrar valdbeitingar. Við ákvörðun refsingar var litið til þess að brot N var framið eftir að þessi viðbót tók gildi en talið var að með henni hefði vernd lögreglumanna í starfi verið aukin. Þá var einnig litið til þess að afleiðingar brotsins voru töluverðar. Þótti refsing N hæfilega ákveðin fangelsi í átta mánuði. Hins vegar var ekki hægt að líta fram hjá því að N, sem var rússneskumælandi Letti, talaði ekki íslensku og hefði lögreglu borið að kalla til túlk, þrátt fyrir ölvunarástand N, og gæta 32. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála þegar N var handtekinn. Rétt þótti að skilorðsbinda fimm mánuði af refsingunni.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 19. febrúar 2008 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar á sakfellingu og þyngingar á refsingu.

Ákærði krefst aðallega sýknu, en til vara að refsing verði milduð og hún skilorðsbundin.

Niðurstaða hins áfrýjaða dóms um sakfellingu ákærða og heimfærslu til refsiákvæða, sem og um sakarkostnað, er staðfest með vísan til forsendna.

Ákærði er fundinn sekur um alvarlega árás á lögreglumann. Hinn 23. mars 2007 tóku gildi lög nr. 25/2007 um breyting á almennum hegningarlögum nr. 19/1940 þar sem bætt var 2. málslið við 1. mgr. 106. gr. um brot gegn opinberum starfsmanni. Viðbótin kveður á um að beinist brot gegn opinberum starfsmanni, sem að lögum hefur heimild til líkamlegrar valdbeitingar, megi beita fangelsi allt að átta árum. Brot ákærða var framið eftir að þessi viðbót gekk í gildi. Með henni var vernd lögreglumanna í starfi aukin. Ákærði er auk brots gegn valdstjórninni sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. Afleiðingar brotsins voru töluverðar svo sem lýst er í héraðsdómi. Eins og atvikum máls þessa er háttað og með hliðsjón af dómafordæmum fyrir framangreinda lagabreytingu og að teknu tilliti til hennar, þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í átta mánuði.

Ekki verður fram hjá því litið að ákærði, sem er rússneskumælandi Letti, talar ekki íslensku og lögreglumennirnir gátu ekki gert honum skiljanlegt hvað hann var grunaður um og að ákveðið hefði verið að vista hann í fangaklefa. Þrátt fyrir að ákærði hafi verið mjög ölvaður verður ekki fullyrt að hann hefði ekki skilið réttarstöðu sína ef hún hefði verið tryggilega kynnt fyrir honum. Bar að kalla til túlk og gæta 32. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Rétt er að fresta fullnustu fimm mánaða af refsivist ákærða skilorðsbundið eins og nánar segir í dómsorði.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara um sakarkostnað og ákvörðun Hæstaréttar um málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, svo sem nánar greinir í dómsorði, en virðisaukaskattur er innifalinn í fjárhæð þeirra.

Dómsorð:

Ákærði, Nikolajs Smorodinovs, sæti fangelsi í átta mánuði, en fresta skal fullnustu fimm mánaða af refsivist hans og hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppsögu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 236.991 krónu, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Björns L. Bergssonar hæstaréttarlögmanns, 224.100 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 18. janúar 2008.

             Mál þetta, sem dómtekið var 15. janúar sl., er höfðað með ákæru útgefinni af ríkissaksóknara 31. desember 2007 á hendur Nikolajs Smorodinovs, lettneskum ríkisborgara, kt. 120870-3869, Skúlagötu 46, Reykjavík, fyrir brot gegn valdstjórninni og líkamsárás, með því að hafa aðfaranótt mánudagsins 24. desember 2007, á lög­reglu­stöðinni við Hverfisgötu, Reykjavík, slegið A, lögreglu­mann, sem þar gegndi skyldustarfi, hnefahögg í andlitið með þeim afleiðingum að hann hlaut brot á vinstra kjálkabeini.

Þetta er talið varða við 1. mgr. 106. gr. og 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 25/2007 og 11. gr. laga nr. 20/1981.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.

Verjandi ákærða krefst þess aðallega að ákærði verði sýknaður af kröfum ákæruvalds, en til vara að honum verði ákvörðuð vægasta refsing er lög leyfa. Þá krefst hann þess að sakarkostnaður, þ.m.t. málsvarnarlaun, verði greiddur úr ríkissjóði.

Samkvæmt skýrslu lögreglu frá aðfaranótt mánudagsins 24. desember 2007 kl. 03.01 barst lögreglumönnum tilkynning um að ,,sköllóttur” maður í ljósum buxum og í leðurjakka hafi brotist inn í bifreið fyrir utan Hverfisgötu 105 í Reykjavík. Tekið var fram að umræddur maður gengi suður Snorrabraut. Samkvæmt frumskýrslu lögreglu voru lögreglumennirnir A og B í lög­reglu­bifreið á Hverfisgötu við Lækjargötu. Hafi þeir ekið Hverfisgötu til austurs en er komið var á Snorrabraut veitt athygli einstaklingi sem kom heim og saman við lýsingu á þeim sem hafi átt að hafa brotist inn í bifreiðina. Var för mannsins stöðvuð á Snorra­braut við Austurbæ. Tekið er fram að maðurinn, ákærði í máli þessu, hafi strax verið mjög ógnandi í framkomu og því verið færður í lögreglutök. Hafi hann hvorki skilið ensku, þýsku né íslensku. Þá hafi ákærði verið mjög ölvaður. Af þessum ástæðum hafi verið ákveðið að handtaka ákærða þar til unnt yrði að ganga úr skugga um hvort hann hafi verið á ferð við Hverfisgötu 105. Hafi ákærði verið færður inn í lögreglubifreið og fluttur á lögreglustöð við Hverfisgötu. Þar hafi ákærði verið færður fyrir varðstjóra. Ákærði hafi verið samvinnuþýður á lögreglustöðinni. Hafi hann ekki getað tjáð sig og verið erfitt að ræða við hann. Hann hafi gefið upp kennitölu sína. Er hann hafi verið færður inn viðtalsherbergi varðstjóra hafi verið tekin ákvörðun um að taka af honum handjárn þar sem ákærði hafi verið rólegur. Þar sem ölvunarástand ákærða hafi verið mikið og ekki hægt að ræða við hann um brot það sem hann hafi verið grunaður um hafi verið ákveðið að vista hann í fangageymslu. Lögreglumenn hafi fylgt ákærða í lyftu upp í fangageymslur. Þar hafi ákærði slegið frá sér með höndum en lögreglu­maðurinn B gripið um hendur hans. Við það hafi ákærði hætt. Því næst hafi ákærði verið færður að innritunarborði í fangamóttöku þar sem hann hafi verið klæddur úr jakka. Þá hafi belti verið tekið af honum og leitað í vösum og munir fjarlægðir. Hafi ákærða ekki alls kostar líkað þetta og sveiflað höndum í kringum sig. Því næst hafi verið tekið um handlegg ákærða og hann leiddur að fangaklefa. Þegar ákærði og lögreglumenn hafi verið komnir að klefanum hafi lögreglumaðurinn A bent ákærða á að fara úr skóm. Hafi hann um leið bent ákærða á skó fyrir utan aðra fangaklefa. Við það hafi ákærði rokið inn í klefann og snúið baki í lögreglu­menn. Lögreglumaðurinn A hafi verið næstur ákærða. Fyrir aftan A hafi lögreglumaðurinn B staðið og fyrir aftan hann fangavörðurinn C. D varðstjóri hafi verið í afgreiðslu fangamóttöku. Ákærði hafi skyndilega snúið sér mjög snöggt við og lamið lögreglumanninn A mjög þungt hnefahögg á vinstri hluta höfuðsins. Hafi A hlotið sár við höggið og orðið vankaður. Hafi ákærði gert sig líklegan til frekari árásar. Hafi B stokkið á ákærða og keyrt hann upp að vegg í fangaklefanum. Hafi ákærði skollið með hnakka í vegg klefans en við það hafi komið sár á hnakka ákærða. Fangavörðurinn C hafi komið B til aðstoðar og þeir í sameiningu náð að yfirbuga ákærða. Hafi ákærði barist hart á móti lögreglumönnum. Hafi ekki verið fyrr en D varðstjóri hafi komið til hjálpar að tekist hafi að færa ákærða í örugg tök. Á meðan hafi ákærði skallað vegg í fangaklefa með höfði sínu. Ákærði hafi því næst verið færður úr skóm. Hann hafi síðan verið lagður í gólfið. Loks hafi fangaklefanum verið lokað. A hafi sjáanlega verið bólginn við augnbotn á vinstra auga. Þá hafi hann kvartað undan verk í eyra og kjálka. Einnig hafi hann verið með mikinn höfuðverk. A hafi verið ekið á slysadeild Landspítala háskólasjúkrahúss til rann­sóknar.

             E sérfræðingur á slysa- og bráðadeild Landspítala háskólasjúkrahúss hefur 24. desember 2007 ritað vottorð vegna komu A á slysadeild. Fram kemur að A hafi greinst með brot á vinstri ,,os zygomaticum” (kjálkabein) og þurft að fara í aðgerð vegna brotsins fyrir hádegi 24. desember. A lagði fram kæru á hendur ákærða 27. desember 2007. 

Ákærði hefur skýrt svo frá að hann hafi umrætt sinn verið á leið heim er hann hafi verið stöðvaður af lögreglu. Einhver hafi ekið ákærða og viðkomandi hleypt honum út úr bifreiðinni rétt hjá lögreglustöðinni við Hverfisgötu. Þaðan hafi ákærði ætlað að ganga heim til sín að Karlagötu í Reykjavík. Kvaðst ákærði hafa verið ölvaður. Ekki kvaðst ákærði muna nánast neitt eftir atvikum. Hafi hann verið færður inn í lögreglubifreið án þess að vita ástæðu þess. Þaðan hafi honum verið ekið á lögreglustöð. Á lögreglustöðinni kvaðst ákærði ekki muna eftir öðru en að hann hafi verið laminn í höfuðið. Ekki kvaðst ákærði muna eftir að hafa slegið frá sér.

             A lögreglumaður kvaðst þessa nótt hafa handtekið ákærða á Snorrabraut og fært hann á lögreglustöð. Er ákærða hafi verið vísað í fanga­klefa hafi honum verið bent á að fara úr skóm. Ákærði hafi ekki sinnt því og gengið beint inn í klefann án þess að fara úr skónum. Hafi A farið á eftir honum inn í klefann en fyrir aftan A hafi B lögreglumaður verið. Inni í fanga­klefanum hafi ákærði snúið sér snöggt við og kýlt A með krepptum hnefa hægri handar. Hafi höggið komið á vinstra kinnbein A. Við þetta hafi A stigið skref aftur á bak. D varðstjóri hafi séð að eitthvað var að og komið úr fangamóttöku. Þá hafi B og C fangavörður verið búnir að ná ákærða niður. Á meðan ákærði hafi legið í gólfinu hafi hann lamið hnakkanum í gólf fangaklefans. Skór hafi verið teknir af ákærða og ákærði verið skilinn eftir í fangaklefanum. A kvaðst hafa farið á slysadeild í framhaldi. Skoðun hafi leitt í ljós að A hafi framan við vinstra eyra verið með brotið andlitsbein. Hafi A farið í aðgerð sama dag þar sem brotið hafi verið lagað með skurðaðgerð. A kvaðst eftir þetta samfellt fá höfuðverk. Þá væri hann stífur í hálsi. Væri heilsa hans almennt ekki góð þó svo hann væri kominn til vinnu. 

B lögreglumaður kvaðst hafa handtekið ákærða aðfara­nótt mánudagsins 24. desember 2007 ásamt lögreglumanninum A. Hafi ákærði verið grunaður um innbrot í bifreið við Hverfisgötu 105. Í framhaldi hafi hann verið færður fyrir varðstjóra á lögreglustöð. Ákveðið hafi verið að vista ákærða í fangageymslu. Er ákærði hafi verið færður að fangaklefa hafi A bent ákærða á að fara úr skóm áður en hann færi inn í klefann. Um leið hafi A bent á skó fyrir utan aðra fangaklefa. Við það hafi ákærði rokið inn í klefann og snúið baki í lögreglu­mennina. A hafi farið fyrstur inn í klefann á eftir ákærða. Ákærði hafi snúið sér mjög snöggt við og kýlt A mjög þungt hnefahögg og höggið komið á vinstri kinn. Ákærði hafi beitt miklu afli og fylgt högginu eftir með líkama sínum. Hafi B tekið eftir því að A hafi hlotið sár við höggið og virst vankaður. Hafi ákærði gert sig líklegan til frekari árásar og B því stokkið til og tekið með vinstri hendi í hægri hendi ákærða og sett hægri framhandlegg að viðbeini hans um leið og B hafi keyrt ákærða upp að vegg í fangaklefanum. Hafi ákærði skollið með hnakka í vegginn og við það komið sár á hnakka hans. C fangavörður hafi komið B til aðstoðar og þeir í sameiningu náð að yfirbuga ákærða. Hafi ákærði barist mjög hart á móti B og C. Eftir að D varðstjóri hafi komið til hafi tekist að halda ákærða niðri. Hafi ákærði á þessum tíma reynt að skalla í vegg með höfði sínu. Ákærði hafi verið færður úr skóm og fangaklefa því næst lokað. B kvað öruggt að ákærði hafi ekki verið með sár á höfði er hann hafi komið á lögreglustöð. Hafi áverkinn hlotist við það að B hafi keyrt hann upp að vegg. 

             D varðstjóri kvaðst hafa verið varðstjóri í fangamóttöku er komið hafi verið með ákærða. Ákærði hafi verið grunaður um að hafa brotist inn í bifreið. Hafi hann verið mjög ölvaður er lögreglumenn hafi komið með hann á lög­reglu­stöð. Af þeim sökum og vegna rannsóknarhagsmuna hafi D ákveðið að vista ákærða í fangageymslu. Hafi D farið inn á skrifstofu við fangagang á meðan lögreglumenn hafi fylgt ákærða að fangaklefa. Kvaðst D síðan hafa heyrt læti og því farið fram á gang til að athuga hvað væri í gangi. A lögreglumaður hafi staðið við dyr að fangaklefa og verið mjög kvalinn að sjá. Hafi A sagt að ákærði hafi lamið hann í andlitið. B og C hafi verið búnir að yfirbuga ákærða er D hafi komið inn í klefann. Hafi D lítillega aðstoðað þá. Smávægi­legt sár hafi verið á hnakka ákærða. Hafi sárið komið við átök við lögreglumennina.

C fangavörður kvaðst hafa gengið með ákærða og lögreglu­mönnum að fangaklefa er ákærði hafi átt að fara inn í. Ákærði hafi verið áberandi ölvaður en þó ágætlega viðræðuhæfur. A hafi reynt að útskýra fyrir ákærða að hann yrði að fara úr skóm áður en hann færi inn í fangaklefann. Hafi ákærði ekki sinnt því og A farið á eftir honum inn í klefann til að brýna fyrir honum að fara úr skónum. Ákærði hafi skyndilega snúið sér við og í átt að A. Hafi hann slegið A af afli, með hægri hendi, og höggið komið í andlit A. Hafi A kastast til baka við höggið. Fyrstu viðbrögð C og B hafi verið að fara að manninum og ná honum í tök. Það hafi tekist eftir nokkuð ,,basl” en við það hafi þeir notið aðstoðar D varðstjóra. Að lokum hafi tekist að loka hurðinni að fangaklefanum. Kvaðst C hafa séð að A hafi verið nokkuð vankaður eftir höggið. Ákærði hafi fengið sár á höfuð er hann hafi verið yfirbugaður. Eitthvað hafi blætt úr sárinu.

             F læknir kvaðst hafa komið á lögreglustöð kl. 13.40 þann 24. desember 2007 til að skoða ákærða sem verið hafi í fangageymslu. Túlkur hafi verið viðstaddur skoðunina. Komið hafi í ljós að ákærði hafi verið með kúlu á hnakka um 8 x 5 cm að stærð. Hrufl hafi verið ofan á kúlunni. Þá hafi hann kvartað um höfuðverk og verk aftanvert í hálsi. Hann hafi ekki verið með uppköst og vel vakandi er skoðun hafi farið fram. Hafi hann svarað spurningum vel. Hafi hann sagt að hann myndi ekki hvað hafi gerst. Ýmsar athuganir hafi verið gerðar á ákærða. Hafi lögreglu verið ráðlagt að fara með ákærða á slysadeild ef ætlunin hafi verið að vista hann áfram.

             Niðurstaða:

          Ákærði neitar sök en kveðst ekki muna atburði vel. Muni hann það eitt að hafa í samskiptum við lögreglu fengið sjálfur högg á höfuðið. Ekki kveðst hann muna eftir að hafa slegið til lögreglumanns aðfaranótt mánudagsins 24. desember 2007.

          Lögreglumennirnir A og B, sem og fangavörðurinn C, hafa lýst samskiptum sínum við ákærða er ákærði var færður í fangaklefa. Ber þeim öllum saman um að ákærði hafi fyrirvara­laust og án tilefnis slegið lögreglumanninn A hnefahögg í andlitið er A hafi beðið ákærða um að fara úr skóm í fangaklefa. Læknisvottorð leiðir í ljós að A hlaut brot á vinstra kjálkabeini við högg ákærða. Hver sá sem ræðst með ofbeldi gegn lögreglumönnum við skyldustörf gerist með því brotlegur við 1. mgr. 106. gr. laga nr. 19/1940. Með vísan til samhljóða framburða lögreglumannanna og fangavarðar telur dómurinn sannað að ákærði hafi ráðist með ofbeldi gegn lög­reglu­manninum A. Afleiðingar árásarinnar eru slíkar að brotið verður einnig heimfært undir 1. mgr. 218. gr. laga nr. 19/1940.  Verður ákærði því sakfelldur samkvæmt ákæru.            

             Ákærði er fæddur í ágúst 1970. Gekkst hann undir viðurlagaákvörðun í júní 2007 fyrir ölvunar- og réttindaleysisakstur. Þá gekkst hann undir sátt í nóvember 2007 fyrir þjófnað. Ákærði réðst með líkamlegu ofbeldi gegn lögreglumanni sem var að gegna skyldustarfi. Voru afleiðingar þeirrar árásar alvarlegar, en lögreglumaðurinn kjálkabrotnaði við árásina og þurfti í framhaldi að gangast undir skurðaðgerð. Var þetta með öllu tilefnislaust og háttsemin sérlega ámælisverð. Með hliðsjón af því, sem og 1. og 3. tl. 1. mgr. 70. gr. laga nr. 19/1940, er refsing ákærða ákveðin fangelsi í 10 mánuði. Í ljósi háttseminnar þykir ekki ástæða til að skilorðsbinda refsinguna að neinu leyti. 

Ákærði verður dæmdur til að greiða tildæmd málsvarnarlaun, að viðbættum virðis­aukaskatti, sem í dómsorði greinir.

Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Ragna Bjarnadóttir fulltrúi ríkissaksóknara.

Símon Sigvaldason héraðsdómari kvað upp dóminn.

                                                               D ó m s o r ð

Ákærði, Nikolajs Smorodinovs, sæti fangelsi í 10 mánuði.

Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Björns L. Bergssonar hæstaréttarlögmanns, 250.992 krónur.