Hæstiréttur íslands

Mál nr. 410/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Vanlýsing


                                     

Mánudaginn 25. ágúst 2014.

Nr. 410/2014.

Bengt Kylén

(Bjarki H. Diego hrl.)

gegn

SPB hf.

(Berglind Svavarsdóttir hrl.)

Kærumál. Vanlýsing.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem kröfu B var hafnað og staðfest sú afstaða slitastjórnar S hf. að taka kröfu B ekki inn á kröfuskrá, þar sem henni hafði ekki verið lýst fyrr en eftir að kröfulýsingarfrestur rann út og var B ekki talinn hafa sýnt fram á að uppfyllt væru skilyrði 5. töluliðar 118. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. 

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Benedikt Bogason og Þorgeir Örlygsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 5. júní 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 13. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. maí 2014 þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila á hendur varnaraðila. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að viðurkennt verði að ,,krafa hans að fjárhæð 1.719.982.136,02 sænskar krónur komist að við slitameðferð varnaraðila og að hún verði tekin til efnislegrar meðferðar.“ Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðili greiði varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærðir úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Bengt Kylén, greiði varnaraðila, SPB hf., 350.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. maí 2014.

             Máli þessu, sem er ágreiningsmál við slitameðferð varnaraðila, beindi slitastjórn varnaraðila til dómsins með bréfi sem barst héraðsdómi 23. ágúst 2013. Var um heimild til að leita úrlausnar dómsins vísað til 171. gr. sbr. 120. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Málið var þingfest 22. nóvember 2013 og var sakarefni þess þá skipt að ósk málsaðila. Var málið flutt og tekið til úrskurðar um þann þátt þess sem hér er til úrlausnar föstudaginn 28. mars sl.

             Sóknaraðili er Bengt Kylén, 163 Basin Approach, Limehouse Basin, London, Englandi, en varnaraðili er SPB hf., (áður Sparisjóðabanki Íslands hf.), Borgartúni 25, Reykjavík.

             Sóknaraðili krefst þess að krafa hans að fjárhæð 1.719.982.136,02 sænskar krónur komist að við slitameðferð varnaraðila og að hún verði tekin til efnislegrar meðferðar. Þá krefst hann málskostnaðar.

             Varnaraðili krefst þess kröfu sóknaraðila verði hafnað. Þá krefst hann málskostnaðar.

I

             Varnaraðili máls þessa er fjármálafyrirtæki í slitameðferð. Liggur fyrir í málinu að Fjármálaeftirlitið ákvað 21. mars 2009 að taka yfir vald hluthafafundar varnaraðila, víkja stjórn hans frá og skipa honum skilanefnd í samræmi við þágildandi ákvæði 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008. Varnaraðila var veitt heimild til greiðslustöðvunar 23. mars 2009 og átti hún að standa til 15. júní sama ár. Áður en sá tími var á enda runninn var honum skipuð slitastjórn 19. maí 2009 samkvæmt 4. mgr. 101. gr. laga nr. 161/2002 fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 44/2009 og 4. tölulið ákvæðis II til bráðabirgða við þau lög. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 15. mars 2011 var varnaraðili tekinn til slitameðferðar.

             Í samræmi við ákvæði 1. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002 ráðstafar slitastjórn hagsmunum fjármálafyrirtækis sem er til slitameðferðar eftir sömu reglum og gilda um bústjórn skiptastjóra samkvæmt lögum nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Einnig gilda þau lög að meginstefnu um meðferð krafna á hendur slíku fyrirtæki, sbr. 102. gr. laga nr. 161/2002.

             Gefin var út innköllun til skuldheimtumanna og lauk kröfulýsingarfresti 3. nóvember 2009. Sóknaraðili lýsti kröfu sinni 18. júní 2013 og krafðist þess að hún nyti rétthæðar samkvæmt 3. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991 við slitameðferð varnaraðila. Þá var einnig vísað til 5. tl. 118. gr. sömu laga um heimild til að hafa kröfuna uppi eftir lok kröfulýsingarfrests. Með tölvubréfi 8. júlí 2013 var kröfunni hafnað meðal annars á þeim grundvelli að henni hefði verið lýst of seint. Sóknaraðili hafði uppi mótmæli við framagreindri afstöðu slitastjórnar innan lögboðinna tímamarka og var haldinn fundur 26. júlí 2013 til að freista þess að jafna ágreining aðila en án árangurs. Í kjölfarið var málið sent héraðsdómi.

             Eins og fyrr greinir var sakarefni málsins skipt við þingfestingu þess að ósk beggja málsaðila. Vísuðu málsaðilar til þess að efnislegur ágreiningur um kröfu sóknaraðila fæli í sér viðamikla og kostnaðarsama sönnunarfærslu og því þjónaði það hagsmunum beggja að fá fyrst úr því skorið hvort krafan teldist fallin niður gagnvart varnaraðili sökum vanlýsingar. Féllst dómari á umrædda skiptingu sakarefnis og er hér því aðeins til úrlausnar hvort sóknaraðili hafi lýst kröfu sinni án ástæðulausra tafa í skilningi 5. tl. 118. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.

II

             Að því er varðar það ágreiningsefni sem hér er til úrlausnar eru málsatvik að hluta til óumdeild. Er því lýst svo í greinargerð varnaraðila að hann og félagið Carta Capital Ltd. hafi staðið saman að fjármögnunarverkefni er lotið hafi að félaginu Cross Dental Ltd.  Það félag hafi verið stofnað á Írlandi síðla árs 2007 og hafi aðaltilgangur þess verið sá að vera eignarhaldsfélag fyrir nokkur dótturfélög í tannsmíðastarfsemi.  Dótturfélög Cross Dental hafi verið PTL A/S, Oversea Labs Denmark A/S, Oversea Labs Sweden AB, Oversea Labs Germany GmbH og Oversea Labs France. Markmiðið með stofnun Cross Dental hafi verið að sameina rekstrarfélögin undir einn hatt og efla starfsemina með tilkomu fagfjárfesta.  Stærstu hluthafar félagsins hafi verið Ola Johansson og  sóknaraðili auk Carta Capital Fund II LP og stjórnenda er átt hafi smærri hluti.

             Varnaraðili og Cross Dental hafi gert með sér fjármögnunarsamning 7. september 2007 þar sem varnaraðili hafi veitt félaginu lánsheimild upp á samtals SEK 45.000.000.  Carta Capital hafi sömuleiðis veitt félaginu lánsheimild samtals að fjárhæð SEK 21.450.000 á grundvelli svokallaðs millilagsfjármögnunarsamnings, er dagsettur hafi verið sama dag.  Til tryggingar skuldbindingum þessum hafi meðal annars verið hlutabréf félagsins í öllum dótturfélögum þess.

             Þá hafi verið gerður veðsamningur, dagsettur 29. nóvember 2007 á milli varnaraðila, sem veðhafa, fyrir sig og Carta Capital, og Per Hallberg, Lars Fellenius og Bengt Kylén allra sem veðsala, þar sem þeir síðarnefndu hafi veðsett öll sín hlutabréf í Cross Dental Ltd. Hafi hlutafjáreign sóknaraðila í félaginu numið 42.858 hundraðshlutum.

             Fjármálaeftirlitið hafi ákveðið 21. mars 2009 að taka yfir vald hluthafafundar varnaraðila, víkja stjórn hans frá störfum og skipa honum skilanefnd. Varnaraðila var veitt heimild til greiðslustöðvunar 19. maí 2009 var honum skipuð slitastjórn.

             Þann 16. júní 2009 hafi skilanefnd varnaraðila tilkynnt Cross Dental Ltd. um gjaldfellingu lánsins vegna vanefnda félagsins á lánssamningnum og að farið yrði fram á fullnustu hinna veðsettu hlutabréfa í dótturfélögunum PTL A/S, Oversea Labs Denmark A/S og Oversea Labs Sweden AB yrði krafan ekki greidd innan 8 daga. Fjárhæð hinnar umkröfðu kröfu nam þá SEK 23.269.343.  Samskonar tilkynning hafi verið send frá Carta Capital og hafi fjárhæð þeirrar kröfu numið SEK 23.316.715. Áður, eða 13. mars 2009, hafi varnaraðili sent Cross Dental Ltd. tilkynningu um vanhöld á lánssamningnum.

             Um framangreinda lýsingu málsatvika eru málsaðilar í stórum dráttum sammála en eru ósammála um hvort tilefni hafi verið til að beita þeim vanefndaúrræðum sem varnaraðili beitti.

             Í málinu liggur fyrir bréf skilanefndar varnaraðila 24. júní 2009 þar sem sóknaraðila var tilkynnt að ef ekki yrði bætt úr vanefndum á fyrrnefndum lánasamningum fyrir 26. júní yrði gengið að hlutabréfaeign hans.  Í kjölfarið eða 1. júlí 2009 mun varnaraðili hafa gengið frá formlegu framsali hinna veðsettu hluta Bengts, Pers og Lars til sín og sendi ósk um breytta skráningu þar að lútandi til félagsins Cross Dental Ltd. 

             Jafnframt liggur fyrir að félaginu var tilkynnt með bréfi 10. júlí 2009, að hinir veðsettu hlutir í dótturfélögum þess hefðu verið yfirteknir á nánar tilgreindu verði.

             Varnaraðili kveður að þrátt fyrir ofangreinda innlausn og fullnustu hlutabréfaeignar í aðaleignum félagsins Cross Dental Ltd hafi krafa hans aldrei fengist greidd og hafi hún síðan verið endanlega afskrifuð 3. nóvember 2011 vegna gjaldþrots hinna yfirteknu dótturfélaga.   Í gögnum málsins má sjá að félagið Cross Dental Ltd var leyst upp 8. apríl 2011.

             Sóknaraðili lýsir því svo í greinargerð sinni að hann hafi gert fjölmargar tilraunir til þess að koma í veg fyrir að varnaraðili ráðstafaði veðinu og hafi hann leitað ítrekað eftir upplýsingum frá varnaraðila um það hvort og þá hvernig hinum veðsettu hlutum hafi verið ráðstafað. Hafi hann gert þetta í símtölum á milli starfsmenn skilanefndar varnaraðila þar sem hann hafi m.a. boðist til að endurgreiða útistandandi skuld Cross Dental Ltd. við SPB hf. og Carta Capital. Þá hafi lögmannsstofan Wistrand, sent bréf 13. september 2009 fyrir hönd sóknaraðila til lögmannsstofu varnaraðila og Carta Capital, William Fry Solicitors. Einnig hafi sóknaraðili sent bréf til skilanefndar varnaraðila sem slitastjórn bankans hafi einnig fengið afrit af, 3. september 2010 og 30. nóvember 2010. Loks beri að nefna bréf frá sænskum lögmanni sóknaraðila, Björn Tude, til slitastjórnar varnaraðila dags. 1. október 2012 og annað bréf frá honum til sömu aðila, fyrir hönd sóknaraðila, 22. október 2012, þar sem ítrekað hafi verið efni bréfsins sem hafi verið var 1. október. Engin svör eða nokkur samskipti hafi fengist við neinum af erindum sóknaraðila.

             Varnaraðili mótmælir því að vanhöld hafi verið á upplýsingagjöf til sóknaraðila eða lögmanna á hans vegum. Af hálfu varnaraðila hafa verið lögð fram tölvupóstsamskipti sóknaraðila við Guðmund Auðunsson starfsmann varnaraðila. Nefndur starfsmaður kom einnig fyrir dóminn og gaf skýrslur. Kvaðst hann hafa verið í sambandi við sóknaraðila og hafa einnig svarað fyrirspurnum frá lögmönnum á hans vegum í nokkru skipti og hafi veitt upplýsingar um stöðu mála en um hafi verið að ræða kröfu bankans um greiðslu útistandandi láns. Hafi sú upplýsingagjöf hans á hinn bóginn ekki leitt til viðbragða af hálfu sóknaraðila eða lögmanna á hans vegum.

III

             Í greinargerð sóknaraðila byggir hann á því að krafa hans eigi að komast að við slitameðferð varnaraðila þrátt fyrir að henni hafi verið lýst eftir að kröfulýsingafrestur leið. Samkvæmt 117. gr. laga nr. 21/1991 verði sá sem vilji halda uppi kröfu á hendur þrotabúi að lýsa henni fyrir skiptastjóra. Samkvæmt 118. gr. sömu laga falli krafan niður gagnvart búinu sé henni ekki lýst fyrir skiptastjóra áður en kröfulýsingarfresti ljúki nema við eigi undantekningar sem þar séu taldar upp. Samkvæmt 5. tl. ákvæðisins falli krafa ekki niður ef um kröfu samkvæmt 1. – 3. tl. 110. gr. laganna sé að ræða eða hún hafi fyrst orðið til eftir uppkvaðningu úrskurðar um að búið sé tekið til gjaldþrotaskipta og henni sé lýst án ástæðulausra tafa og áður en boðað hafi verið til skiptafundar um frumvarp til úthlutunar úr búinu.

             Sóknaraðili byggi á því að kröfu hans hafi verið réttilega lýst og að undanþáguákvæði  5. tl. 118. gr. laga nr. 21/1991 eigi við þar sem kröfu hans hafi verið lýst sem kröfu samkvæmt 3. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991, hún hafi orðið til eftir uppkvaðningu úrskurðar og áður en boðað hafi verið til skiptafundar um frumvarp til úthlutunar úr búinu. Enn fremur byggi sóknaraðili á því að hann hafi lýst kröfu sinni án ástæðulausra tafa þar sem hann hafi ítrekað reynt – allt fram að lýsingu kröfu – að fá upplýsingar um afdrif hinna veðsettu hlutabréfa og hvort og þá hve miklu tjóni hann hafi orðið fyrir. Sóknaraðili hafi enn engin svör fengið. Mætti þess vegna allt eins ætla að hann sé enn hluthafi í Cross Dental. Sóknaraðili hafi hins vegar – vegna athafnaleysis varnaraðila – ekki getað vitað hvort hann þyrfti að lýsa kröfu á hendur varnaraðila. Hins vegar, þegar ekkert hafi bólað á svörum frá varnaraðila, hafi sóknaraðili þess vegna ekki séð sér annað fært en að grípa til aðgerða gagnvart varnaraðila með því að lýsa formlega kröfu.

             Það skipti höfuðmáli fyrir þann ágreining sem hér sé til úrlausnar að sóknaraðili hafi reynt að nálgast upplýsingar frá varnaraðila allt frá því að honum hafi borist tilkynning frá skilanefnd varnaraðila 24. júní 2009 og fram til ársloka 2012 þegar sænskir lögmenn sóknaraðila hafi sent seinna bréf sitt til varnaraðila og hafi reynt með símtölum og öðrum samskiptum að fá svör við skriflegum erindum. Sóknaraðila hafi aldrei borist neitt svar eða aðrar upplýsingar um afdrif hinna veðsettu hluta og hafi sóknaraðili enn ekki fengið neinar slíkar upplýsingar.

             Með tilliti til þessa athafnaleysis varnaraðila verði að horfa til þess að samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki skuli fjármálafyrirtæki starfa í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti og venjur á fjármálamarkaði. Þá hafi, með lögum nr. 78/2011, um breyting á lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, 101. gr. a. verið bætt við lögin. Í 2. mgr. 101. gr. a. nefndra laga séu tekin af öll tvímæli um það að fjármálafyrirtæki sem séu í slitameðferð skuli fara að reglum um eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti og venjur. Þannig hafi sóknaraðili haft réttmætar, og beinlínis lögmætar væntingar, um að starfsmenn varnaraðila myndu starfa í samræmi við góða viðskiptahætti og hafi hann þannig átt von á að þeir myndu á einhverjum tímapunkti svara erindum sóknaraðila í góðri trú og leitast við að leysa, útskýra eða semja um kröfur sóknaraðila á hendur varnaraðila.

             Líkt og komið hafi fram snúi þessi hluti deilunnar á milli sóknar- og varnaraðila að því hvort að kröfu sóknaraðila hafi verið lýst án ástæðulausra tafa. Ljóst sé að markmiðið að baki reglu 5. tl. 118. gr. laga nr. 21/1991 sé að ekki megi draga það úr hófi að lýsa kröfu í bú liggi staðreyndir á annað borð fyrir. Ekki sé hægt að túlka regluna það þrengjandi lögskýringu að aðilar geti misst þann rétt sinn ef þeir hafi sannarlega verið að reyna að komast að því hvort yfir höfuð væri tilefni til að lýsa kröfu í búið. Ákvæði 5. tl. 118. gr. laga nr. 21/1991 sé ætlað að ná yfir slík tilvik þegar ekki sé sanngjarnt að ætlast til að kröfum sé lýst vegna óvissu um tilvist og umfang þeirra. Um þetta sé vitnað í athugasemdum við 110. gr., sem orðið hafi að 111. gr., eldri gjaldþrotaskiptalaga nr. 6/1978 en þar segi: „Reglan á að koma í veg fyrir bersýnilega ósanngjörn málalok, og verður skiptaráðandi að hafa þann tilgang í huga við skýringu á henni og einstakar ákvarðanir sínar.“ Í athugasemdum við 118. gr. laga nr. 21/1991 hafi verið vísað til 111. gr. eldri gjaldþrotaskiptalaganna.

             Það hljóti að teljast ósanngjörn málalok að svipta sóknaraðila rétti sínum til að lýsa kröfu sinni í slitabú varnaraðila eftir að hann hafi talið fullreynt og augljóst að varnaraðili myndi ekki upplýsa sóknaraðila um afdrif hinna veðsettu hlutabréfa en slíkar upplýsingar hafi verið afar mikilvægar til þess að meta hvort að forsendur væru til staðar til frekari aðgerða á hendur varnaraðila. Þegar ljóst hafi verið að varnaraðili væri ólíklegur til þess að svara erindum sóknaraðila hafi sóknaraðili strax hafist handa við að leita fullnustu á hugsanlegum réttindum sínum á hendur varnaraðila. Hvergi í þessu ferli sem lýst hafi verið hér að framan hafi sóknaraðili gerst sekur um neitt tómlæti við að halda kröfu sinni á lofti. Þvert á móti hafi vinnubrögð varnaraðila ekki samræmst þeim ríku kröfum um fagmennsku og vandvirkni sem gera verði til slitastjórna með því að svara ekki erindum sóknaraðila og hafi þar af leiðandi gert honum mun erfiðara um vik við að gæta hagsmuna sinna.

             Loks telji sóknaraðili að síðasta skilyrði 5. tl. 118. gr. laga nr. 21/1991 komi ekki í veg fyrir að krafa hans komist að þar sem skiptalok séu hvergi nærri og því ekki um neitt frumvarp til úthlutunar að ræða.

             Að öllu framangreindu virtu telji sóknaraðili að engar málefnalegar ástæður búi að baki því að hafna efnislegri meðferð kröfu hans. Sóknaraðili hafi gert allt sem í hans valdi hafi staðið til þess að reyna að afla upplýsinga frá varnaraðila um afdrif hinna veðsettu hlutabréfa þannig að hann gæti áttað sig á tilvist og umfangi kröfu sinnar. Þannig hafi hann lýst kröfu sinni án ástæðulausra tafa þar sem meginástæðan fyrir því að kröfunni hafi ekki verið lýst fyrr hafi verið athafnaleysi varnaraðila.

             Sóknaraðili telji því að fallast beri á kröfu hans um að fjárkrafa hans skuli komast að við slitameðferð varnaraðila og að henni hafi verið lýst án ástæðulausra tafa og því verði leyst úr þeim ágreiningi sem ríki á milli aðila um efni kröfunnar í samræmi við bókun úr þinghaldi í málinu hinn 22. nóvember 2013.

             Um lagarök kveðst sóknaraðili vísa til laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., einkum 4. þáttar og laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Krafan um málskostnað byggi á 129. gr. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

             Við munnlegan málflutning byggði lögmaður sóknaraðila einnig á því að sóknaraðili væri erlendur kröfuhafi og þess hafi ekki verið gætt að tilkynna honum um slitameðferðina, sbr. 1. mgr. 86. gr. laga nr. 21/1991. Vanlýsingaráhrifa gætti því ekki gagnvart honum, sbr. 2. tl. 118. gr. laga nr. 21/1991.

IV

             Í greinargerð sinni kveðst varnaraðili byggja á því að krafa sóknaraðila eigi ekki að komast að við slitameðferð hans þar sem henni hafi verið lýst of seint og falli þar af leiðandi niður gagnvart varnaraðila sbr. 118. gr. laga nr. 21/1991 sbr. 4. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002. Varnaraðili kveðst mótmæla öllum málsástæðum sóknaraðila að því leyti sem þær gangi gegn málatilbúnaði varnaraðila.

             Sá sem vilji halda uppi kröfu á hendur þrotabúi og geti ekki fylgt henni eftir skv. 116. gr. laga nr. 21/1991 skuli lýsa henni fyrir skiptastjóra sbr. 117. gr. sömu laga.  Samkvæmt 118. gr. laganna falli krafa niður gagnvart búinu ef henni er ekki lýst innan innköllunarfrests, sbr. 2. mgr. 85. gr. eða að unnt sé að fylgja henni eftir skv. 116. gr.  Undantekningar komi síðan fram í 1. - 6. tl. 118. gr., en varnaraðili telji engar þeirra eiga við í máli þessu. Varnaraðili bendi á það að frestur til að lýsa kröfum í slitabú varnaraðila hafi ekki runnið út fyrr en 3. nóvember 2009.  Sóknaraðila hefði því verið í lófa lagið að lýsa kröfu sinni innan þess tíma.

             Sóknaraðili byggi á 5. tl. 118. gr. laga nr. 21/1991 og vísi til þess að öll skilyrði þess töluliðar séu uppfyllt. Varnaraðili mótmæli því og telji 5. tl. 118. gr. ekki eiga við þegar af þeirri ástæðu að kröfunni hafi ekki verið lýst án ástæðulausra tafa. Það hafi liðið 4 ár frá ætluðum tjónsatburði og fram til þess að kröfu þar að lútandi hafi verið lýst við slitameðferð varnaraðila. Þær tafir séu bæði ástæðulausar og verulegar að mati varnaraðila.

             Varnaraðili vísi því á bug sem fráleitu að það sé við varnaraðila að sakast þó að sóknaraðili hafi ekki getað lýst kröfunni fyrr. Varnaraðili byggi á því að sóknaraðili hafi ekki lýst neinni kröfu þegar af þeirri ástæðu að það hafi ekki orðið neitt tjón. Samkvæmt gögnum málsins hafi sóknaraðili sjálfur og/eða lögmenn á hans vegum verið í stöðugum samskiptum við starfsmenn og lögmenn bankans. Þá komi það beinlínis fram í framlögðum gögnum af hálfu sóknaraðila sjálfs að hann sé að vísa til samskipta þeirra í millum. Af bréfum sóknaraðila til varnaraðila sem liggi fyrir í málinu sé ljóst að sóknaraðila hafi verið mæta vel kunnugt um slitameðferð varnaraðila en áréttað skuli að sóknaraðili hafi notið aðstoðar lögmanna. Það sé því töluverður ólíkindablær yfir þeirri málsástæðu sóknaraðila að hann hafi alltaf verið að bíða eftir upplýsingum frá varnaraðila. Varnaraðili telji ekkert í málatilbúnaði sóknaraðila rökstyðja það að sóknaraðila hafi ekki verið unnt að senda kröfulýsingu í samræmi við 117. gr. laga nr. 21/1991 mörgum árum fyrr. Sóknaraðili hafi ekki lýst kröfunni formlega fyrr en 18. júní 2013 eða meira en 4 árum eftir að ætluð krafa hafi orðið gjaldkræf. Sé hún því í raun fyrnd sbr. 9. gr. fyrningarlaga nr. 150/2007.

             Þá veki varnaraðili athygli á því að ákvæði í 1.-6. tl. 118. gr. laga nr. 21/1991 feli í sér undantekningar frá meginreglunni í 1. ml. 118. gr. sömu laga um áhrif vanlýsingar kröfu en slíkar undantekningar beri að skýra þröngri lögskýringu. Af því leiði að það verði að telja að það sé sóknaraðila að sanna að tiltekin undantekning eigi við. Að mati varnaraðila hafi sú sönnun ekki tekist.

             Það séu engar þær ástæður fyrir hendi er réttlætt geti tómlæti sóknaraðila við að halda kröfu sinni fram og jafnvel þó sú málsástæða væri rétt, sem hún sé þó ekki, að athafnaleysi varnaraðila væri algjört þá hefði það enn frekar átt að ýta við sóknaraðila að lýsa kröfu sinni með skýrum og formlegum hætti, svo sem sóknaraðila hafi verið í lófa lagið að gera. Það hafi ekki verið gert og beri sóknaraðili allan halla af því.

             Að öllu þessu virtu telji varnaraðili að hafna beri kröfu sóknaraðila og staðfesta þar með niðurstöðu varnaraðila.

             Um lagarök kveðst varnaraðili vísa til laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. sérstaklega 110., 117 og 118. gr. þeirra svo og meginreglna gjaldþrotaskiptaréttarins. Þá sé einnig vísað til XII. kafla laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. l. nr. 44/2009. Málskostnaðarkröfu sína styðji varnaraðili við XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sérstaklega 130. gr.

             Við munnlegan málflutning mótmælti lögmaður varnaraðila, sem of seint fram komnum, málsástæðum sóknaraðila sem byggðu á sjónarmiðum um að sóknaraðila, sem erlendum kröfuhafa, hefði ekki verið gert aðvart um slitameðferð varnaraðila með fullnægjandi hætti, sbr. 2. tl. 118. gr. laga nr. 21/1991 og 85. og 86. gr. sömu laga.

V

             Í 1. mgr. 177. gr. laga nr. 21/1991 greinir að gefa skuli sóknaraðila máls færi á því í kjölfar þingfestingar þess að leggja fram greinargerð og er mælt fyrir um það að í henni skuli koma fram til fullnaðar hverjar kröfur hann hafi uppi og á hverju þær séu byggðar. Í greinargerð sóknaraðila var ekki teflt fram málsástæðum er lúta að því að sóknaraðila hafi, sem hugsanlegum kröfuhafa, ekki verið réttilega tilkynnt um slitameðferð varnaraðila, sbr. 1. mgr. 86. gr. laga nr. 21/1991, og vanlýsingaráhrifa geti því ekki gætt gagnvart honum, sbr. 2. tl. 118. gr. sömu laga. Eru umræddar málsástæður of seint fram komnar og geta því ekki komið til álita við úrlausn málsins.

             Krafa sóknaraðila er skaðabótakrafa og byggir á því að varnaraðili hafi, eftir að Fjármálaeftirlitið tók yfir vald hlutahafafundar hans og skipaði honum skilanefnd, á grundvelli veðsamnings leyst til sín hlutabréf í eigu sóknaraðila, sem á þeim tíma hafi verið til muna verðmætari en sú skuld sem veðinu hafi verið ætlað að tryggja. Nemur hin lýsta skaðabótakrafa þeim mismun sem hann telur vera á verðmæti hlutabréfanna og hinni veðtryggðu skuld. Af gögnum sem sóknaraðili lagði fram með kröfulýsingu sinni má sjá að það verðmat sem hann byggir kröfu sína á hafi verið framkvæmt í febrúar 2009. Þá verður ekki annað ráðið af þeim gögnum sem liggja fyrir í málinu en að sóknaraðila hafi mátt vera ljóst hver fjárhæð þeirrar kröfu var sem varnaraðili leitaði fullnustu á með innlausn veðsins. Þá bera gögn málsins, sem og vitnisburður Guðmundar Auðunssonar, fyrrum starfsmanns varnaraðila, fyrir dómi, þess skýr merki að mati dómsins að sóknaraðila voru veittar upplýsingar um innheimtu þeirrar skuldar sem veðinu var ætlað að tryggja strax á árinu 2009. Er því fallist á með varnaraðila að strax á miðju ári 2009 hafi legið fyrir þær forsendur sem sóknaraðila hafi verið nauðsynlegar til að lýsa kröfu sinni. Má og sjá það í bréfi sóknaraðila 3. september 2010 að hann telur sig eiga rétt á bótum vegna þess mismunar sem hann taldi vera á verðmæti hinna veðsettu hlutabréfa og þeirra skuldar sem þeim var ætlað að tryggja, þó hann geri þar ekki grein fyrir neinum fjárhæðum í þessu sambandi. Sóknaraðili lýsti kröfu sinni 18. júní 2013. Það er mat dómsins að sá dráttur sem samkvæmt framansögðu varð á kröfulýsingu sóknaraðila eigi sér ekki fullnægjandi skýringar í gögnum málsins. Hefur sóknaraðili því ekki sýnt fram á það með nægilega skýrum hætti að hann hafi lýsti kröfu sinni án ástæðulausra tafa í skilningi 5. tl. 118. gr. laga nr. 21/1991. Með vísan til 1.  ml. 118.gr. laga nr. 21/1991 telst því krafa sóknaraðila fallin niður gagnvart varnaraðila sökum vanlýsingar. Verður þegar af framangreindum ástæðum staðfest niðurstaða slitastjórnar varnaraðila um að hafna hinni lýsti kröfu sóknaraðila.

             Með hliðsjón af framangreindum málsúrslitum verður sóknaraðila gert að greiða varnaraðila málskostnað að þeirri fjárhæð sem nánar greinir í úrskurðarorði og hefur þar verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

             Af hálfu sóknaraðila flutti málið Árni Freyr Árnason hdl. vegna Atla Björns Þorbjörnssonar hdl., en af hálfu varnaraðila flutti málið Berglind Svavarsdóttir hrl.

             Halldór Björnsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan að gættu ákvæði 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála en uppkvaðning úrskurðar hefur dregist vegna embættisanna dómara.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

             Kröfu sóknaraðila, Bengt Kylén, að fjárhæð 1.719.982.136,02 sænskar krónur, sem hann lýsti við slitameðferð varnaraðila, SPB hf., með kröfulýsingu 18. júní 2013 er hafnað.

             Sóknaraðili greiði varnaraðila 439.250 krónur í málskostnað.