Hæstiréttur íslands
Mál nr. 253/2009
Lykilorð
- Kærumál
- Farbann
- Sératkvæði
|
|
Þriðjudaginn 19. maí 2009. |
|
Nr. 253/2009. |
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu(Jón H. B. Snorrason, saksóknari) gegn X (Erlendur Þór Gunnarsson hdl.) |
Kærumál. Farbann. Sératkvæði
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X yrði áfram bönnuð för úr landi á grundvelli 1. mgr. 100 gr. laga nr. 88/2008, sbr. b. lið 1. mgr. 95. gr. sömu laga.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 15. maí 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 18. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. maí 2009, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram farbanni allt til föstudagsins 12. júní 2009 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að honum verði gert að setja tryggingu fyrir því að hann mæti og gefi skýrslur hjá lögreglu allt til 12. júní 2009 klukkan 16. Að því frágengnu krefst varnaraðili þess að farbanni verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.
Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 8. maí 2009 var varnaraðila gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 til 15. maí 2009 klukkan 16. Með dómi Hæstaréttar 13. sama mánaðar í máli nr. 226/2009 var úrskurði héraðsdóms breytt og varnaraðila í stað gæsluvarðhalds gert að sæta farbanni til sama tíma. Fallast má á með sóknaraðila að fram sé kominn sá áskilnaður sem gerður er í 1. mgr. 95. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr., laga nr. 88/2008 um að rökstuddur grunur sé fyrir hendi um að varnaraðili hafi framið verknað sem fangelsisrefsing er lögð við. Þá liggur fyrir að hann kom hingað til lands sem ferðamaður. Eru uppfyllt skilyrði b. liðar 1. mgr. 95. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr., laganna. Sérstaka skyldu ber til að hraða rannsókn og meðferð sakamála, þar sem sakborningur sætir þvingunaraðgerð, en samkvæmt gögnum málsins er rannsókn lögreglu lokið og einungis er eftir að taka ákvörðun um saksókn. Talið verður að enn séu fyrir hendi skilyrði farbanns þann tíma sem ákveðinn var í hinum kærða úrskurði. Með þessum athugasemdum, en að öðru leyti með vísan til forsendna hans, verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sératkvæði
Jóns Steinars Gunnlaugssonar
Varnaraðili er erlendur ríkisborgari sem kom til Íslands sem ferðamaður. Farbann felur í sér alvarlega skerðingu á frelsi hans sem meðal annars hindrar hann í að komast heim til sín. Samkvæmt 1. mgr. 100. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála þurfa að vera fyrir hendi skilyrði gæsluvarðhalds samkvæmt 1. eða 2. mgr. 95. gr. laganna til þess að taka megi kröfu um farbann til greina. Meðal skilyrða sem þar greinir er að fyrir hendi sé rökstuddur grunur um að sakaður maður hafi gerst sekur um þá háttsemi sem um ræðir. Svo sem fram kemur í atkvæði meirihluta dómenda er rannsókn lögreglu nú lokið.
Fyrir liggur í málinu að varnaraðili hafði kynmök við kæranda sem hún að eigin sögn skynjaði að fullu meðan á þeim stóð. Hún kveðst hins vegar hafa talið að hún væri að eiga kynmök við annan mann. Felast sakargiftir á hendur varnaraðila í því að hann hafi nýtt sér þessa ætluðu villu kæranda til að geta átt kynmökin við hana. Ég tel ekki unnt að fallast á með sóknaraðila að af rannsóknargögnum megi draga þá ályktun að rökstuddur grunur í skilningi 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 sé fyrir hendi um slíkt brot varnaraðila. Tel ég því að ekki séu fyrir hendi skilyrði til að fallast á kröfu sóknaraðila og að fella beri hinn kærða úrskurð úr gildi.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. maí 2009.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], verði bönnuð brottför af landinu allt til föstudagsins 12. júní 2009 kl. 16.
Kærði var úrskurðaður í gæsluvarðhald til dagsins í dag í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 8. maí s.l., en sá úrskurður var kærður til Hæstaréttar Íslands sem með dómi sínum 12. maí felldi gæsluvarðhaldsúrskurðinn úr gildi en ákvað að kærði skyldi sæta farbanni til dagsins í dag.
Í greinargerð lögreglu kemur fram að þann 8. þ.m. kl. 1.24, hafi lögreglu borist beiðni um aðstoð vegna grátandi stúlku, í anddyri Z, [heimilisfang], Reykjavík. Er lögreglumenn komu á staðinn hittu þeir fyrir stúlku í anddyri hótelsins sem grét mikið.
Hún hafi skýrt svo frá hjá lögreglu að hún hefði verið að skemmta sér á hótlinu kvöldið áður með vinkonu sinni og hitt þar tvo bandaríkjamenn, A og annan sem hún gat ekki nafngreint og þrjár konur. Hún hafi drukkið með þeim nokkuð magn áfengis þegar leið á kvöldið. Hafi hún og A farið að láta vel hvort að öðru og í framhaldi af því ákveðið að fara saman upp á hótelherbergi sem var á 3. hæð hótelsins. Áður en þau fóru upp hafi félagi A rétt honum herbergislykil. Hafi þau haft kynmök þar. A hafi sagt að hann væri orðinn svangur og ætlaði að fá sér að borða. Hann kæmi aftur og yrði fljótur. Hafi hún sent móður sinni símskilaboð, sem bárust um kl. 1:00, og sofnaði síðan.
Hún kvaðst hafa sofnað. Hafi hún rumskað er maður, sem hún hélt vera A, kom upp í rúm. Hafi hún legið á hlið og snúið að glugga herbergisins en með bakið að dyrunum. Hafi maðurinn byrjað að hafa við hana samfarir. Hún kvaðst ekki muna hvort hún lá þá á hlið eða á baki, en maðurinn, sem hún hélt vera A, hafi grúft andlit sitt við kinn hennar þannig að hún hafi ekki séð framan í hann. Dimmt hafi verið í hótelherberginu. Þegar maðurinn hafi hætti samfarahreyfingum hafi hún séð að þetta var ekki A. Hafi henni brugðið mjög þar sem hún hélt að hún væri að hafa samfarir við A en hafi þá fyrst áttað sig á því að um annan mann var að ræða, félaga A, “sem kynnti sig ekki”. Hún hafi verið mjög æst og öskrað og farið í skelfingu inn á baðherbergi, læst að sér og hringt í vinkonu sína. Eftir nokkra stund hafi hún orðið var við að herbergið var mannlaust.
Stúlkan hafi borið um að hún hafi talið að þetta hefðu verið samantekin ráð hjá A og félaga hans, A hefði veitt félaga sínum kynferðislegan aðgang að henni og hafi hún lagt fram kæru á hendur báðum mönnum.
Einn starfsmaður hótelsins hefur skýrt svo frá að hann hafi séð mennina tvo og stúlkuna skömmu áður nefndur atburður átti sér stað. Hafi þau öll verið áberandi ölvuð. Hann hafi heyrt stúlku gráta nokkkru síðar. Hafi nefnd stúlka komið niður stigagang frá herberginu og verið í miklu uppnámi. Hafi hún sest í stigann og beðið hann að hringja í lögregluna.
Herbergið á 3ju hæð reyndist vera númer 318 og muni X hafa pantað það um kl. 0.30 sömu nótt. Í ljós hafi komið að grunuðu X og A gistu báðir í herbergjum í annarri álmu á þriðju og fjórðu hæð hótelsins.
Kærði X skýrði svo frá hjá lögreglu að hann og A væru í hópi fólks frá Bandaríkjunum sem gistu á Z. Hafi hann, vinkona hans B og A slegist í hóp með tveimur stúlkum sem hann taldi vera íslenskar. Um miðnættið hafi einn úr hópi ferðamanna farið að sofa í herbergi A og því hafi A beðið að útvega annað herbergi svo hann gæti farið með aðra stúlkuna þangað. Sagði X að vinkona stúlkunnar hefði gefið í skyn fyrr um kvöldið að stúlkan sem fylgdi A vildi hafa mök við hann og A samtímis. Hann kvaðst ekki hafa rætt þetta við stúlkuna sjálfa og reyndar lítið rætt við hana.
Hann hafi látið A hafa lykilinn að herberginu og farið í sitt hótelherbergi. Hann hafi kannski haldið að stúlkan vildi einnig hafa mök við sig síðar. Um 20-30 mínútum eftir að hann yfirgaf A á barnum hafi A komið í herbergið til hans afhent honum lykilinn og sagt að stúlkan vildi að hann kæmi til hennar á herbergið. Hafi hann túlkað það þannig að hún vildi eiga við hann mök þar. Hafi stúlkan verið í rúminu en hann vissi ekki hvort hún var klædd eða ekki. Þau hefðu heilsast og byrjað að kyssast. Hann hafi farið út fötunum og þau hafi byrjað samfarir. Hafi hún legið á bakinu og hann ofan á. Hafi samfarirnar staðið í 5 10 mínútur. Hafi þau legið í rúminu á eftir og faðmast og kysstst. Hún hafi farið á salernið en hann klætt sig og farið.
A hefur meðal annars skýrt svo frá hjá lögreglu að hann hafi verið á hótelbarnum ásamt fleira fólki. Ein stúlkan í ferðahóp þeirra X hafi farið með honum upp í herbergi A nr. 404 og lagst þar fyrir. Hafi þeir X síðan snætt pizzu á hótelinu líklega um miðnættið. Hann hafi síðan hitt aðra stúlkuna, sem hann hafi áður verið að spjalla við. Hún hafi látið vel að honum og spurt hann hvort hann væri til í að fara að sofa eða skemmta sér. Hafi X boðist til að panta fyrir hann annað herbergi á hótelinu þar sem X hafi vitað að stúlkunni í herbergi A. Hafi hann samþykkt það. Hafi hann farið upp á herbergið ásamt stúlkunni þar sem þau hafi haft samfarir í um 15 til 20 mínútur. Hann síðan orðið svangur og farið í burtu og skilið stúlkuna eftir í herberginu. Hafi stúlkan verið vakandi og verið að hringja í síma eða senda símskilaboð. Hann hafi sagt við hana að hann ætlaði að ná sér í mat og myndi koma til baka. Hann kvaðst ekki hafa læst herberginu. Aðspurður hvers vegna ekki kvaðst hann hafa talið að herbergið læstist um leið og hurðin lokaðist en hann hafi í raun ekki hugsað út í það að dyrnar voru ólæstar.
Hann hafi farið til félaga síns X. Eftir um 2 mínúta viðdvöl hans í herbergi X hafi X farið á brott úr herberginu. Inntur eftir því um hvað þeir hafi rætt svaraði hann því til að þeir hefðu rætt um næsta dag. Hafi X sagt sér að hann væri búinn að taka svefnpillur. Aðspurður um hvort þeir hefðu rætt um stúlkuna sagði hann að hugsanlega hafi hann sagt X frá því að hann hefði haft samfarir við stúlkuna. Hann kveðst síðan hafa lokið við leifar af pizzunni. Aðspurður neitaði A því að hafa átt þátt í að skipuleggja nauðgun. Hann kvaðst ekki muna hvað varð af lykli herbergis nr. 318 og neitaði að hafa sagt við X að stúlkan biði hans í herberginu.
Nefnd vinkona stúlkunnar hefur borið að hún hafi rætt við X um kvöldið. Hafi samræður þeirra mest verið á þá leið að hann væri að koma þeim yngri saman þ.e. stúlkunni og A, og vildi fá hana til að aðstoða sig við það. Ekki kom fram hjá henni að X sjálfu hafi haft áhuga á stúlkunni.
Kærði X sé undir rökstuddum grun um að hafa framið verknað sem varðar óskilorðsbundinni fangelsisrefsingu. Rannsókn málsins telst að mestu lokið og er fyrirhugað að senda það ríkissaksóknara til meðferðar eftir helgina. Kærði X er með lögheimili og fastan dvalarstað í Bandaríkjum Norður Ameríku. Áttu þeir A pantað flugfar til Bandaríkjanna 9. maí sl. Þeir hafa engin tengsl við landið. Því má ætla að hann muni reyna að komast úr landi í því skyni að koma sér undan málsókn nái krafa þessi ekki fram að ganga.
Með vísun til framangreindra röksemda lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og þeirra gagna sem lögð hafa verið fyrir dóminn er fallist á það með lögreglustjóra að skilyrði 1. mgr. 100. gr. sbr. b. lið 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 séu uppfyllt í málinu. Skilyrði eru því til þess að verða við kröfunni og verður varnaraðili því úrskurðaður í farbann eins og krafist er og nánar greinir í úrskurðarorði.
Anna M. Karlsdóttir settur héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
ÚRSKURÐARORÐ:
Kærða, X, kt. [...], er bönnuð brottför af landinu allt til föstudagsins 12. júní 2009 kl. 16.