Hæstiréttur íslands
Nr. 2021-321
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Skjalabrot
- Skjalafals
- Ásetningur
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Karl Axelsson, Ása Ólafsdóttir og Björg Thorarensen.
2. Með beiðni 11. nóvember 2021, sem barst réttinum 16. desember sama ár, leitar Kristján Sigurður Kristjánsson leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 15. október sama ár í málinu nr. 76/2021: Ákæruvaldið gegn Kristjáni Sigurði Kristjánssyni á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Ákæruvaldið leggst gegn beiðninni.
3. Með dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu leyfisbeiðanda fyrir brot gegn 1. mgr. 155. gr. og 1. mgr. 157. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með því að hafa án heimildar og í blekkingarskyni límt falsaðan skoðunarmiða á skráningarmerki og sett þau á bifreið sem hafði önnur skráningarmerki. Var honum gert að greiða 150.000 krónur í sekt.
4. Leyfisbeiðandi byggir á því að málið hafi verulega almenna þýðingu um inntak og túlkun 1. mgr. 155. gr. og 1. mgr. 157. gr. almennra hegningarlaga. Hann telur ljóst að orðalag ákvæðanna bendi til þess að áskilinn sé ásetningur til þess að blekkja í lögskiptum og að Landsréttur hafi ranglega talið svo vera. Auk þess sé ekki fullnægt skilyrði ákvæðanna um notkun. Leyfisbeiðandi telur ennfremur að niðurstaða Landsréttar gangi gegn skýrum fordæmum Hæstaréttar í málum nr. 250/2005 og 357/2005.
5. Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að það lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu eða að mjög mikilvægt sé af öðrum ástæðum að fá úrlausn Hæstaréttar um þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 4. mgr. sömu lagagreinar í málinu. Niðurstaða Landsréttar um sakfellingu byggir jafnframt að nokkru leyti á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar leyfisbeiðanda en það mat verður ekki endurskoðað fyrir Hæstarétti, sbr. 5. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Beiðninni er því hafnað.