Hæstiréttur íslands

Nr. 2020-289

Íslenska ríkið (Óskar Thorarensen lögmaður)
gegn
þrotabúi EK1923 ehf. (Sveinn Andri Sveinsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Gjaldþrotaskipti
  • Skuldajöfnuður
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ingveldur Einarsdóttir, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Sigurður Tómas Magnússon.

Með beiðni 10. desember 2020 leitar íslenska ríkið leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 13. nóvember sama ár í málinu nr. 755/2019: Þrotabú EK1923 ehf. gegn íslenska ríkinu, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

Mál þetta lýtur að kröfu gagnaðila á hendur leyfisbeiðanda um endurgreiðslu gjalds vegna úthlutunar tollkvóta 27. júlí 2015. Leyfisbeiðandi byggir á því að honum sé heimilt að skuldajafna við kröfuna skattkröfum vegna áætlaðrar staðgreiðslu af launum og tryggingagjalds í september, október og nóvember 2016 enda sé um að ræða forgangskröfur samkvæmt 2. tölulið 110. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. dóma Hæstaréttar 13. mars 2014 í máli nr. 161/2014 og 5. febrúar sama ár í máli nr. 62/2014.

Bú EK1923 ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta 7. september 2016 og var frestdagur við skiptin 9. maí sama ár. Héraðsdómur sýknaði leyfisbeiðanda af kröfu gagnaðila en Landsréttur gerði leyfisbeiðanda  að endurgreiða gjaldið með nánar tilgreindum vöxtum. Í dómi Landsréttar var talið að krafa gagnaðila hefði stofnast á þeim degi sem viðkomandi gjöld voru ranglega innheimt, 27. júlí 2015, og þar með fyrir frestdag. Um þetta var vísað til 1. mgr. 2. gr. eldri laga nr. 29/1995 um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda og núgildandi ákvæðis 1. mgr. 8. gr. laga nr. 150/2019 um innheimtu opinberra skatta og gjalda. Á hinn bóginn fullnægði krafa leyfisbeiðanda ekki því skilyrði skuldajafnaðar í 1. mgr. 100. gr. laga nr. 21/1991 að hann hefði eignast kröfuna áður en þrír mánuðir voru til frestdags og breytti engu í því sambandi að hluti kröfunnar yrði talinn til skiptakostnaðar.

Leyfisbeiðandi telur að dómur Landsréttar hafi verulegt almennt gildi og varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni sína en málið taki til mikilvægra atriða um stofnun kröfu um endurgreiðslu tollkvóta og skiptastjórn í þrotabúum. Þá telur hann dóm Landsréttar bersýnilega rangan. Leyfisbeiðandi byggir á því að 1. mgr. 2. gr. laga nr. 29/1995 taki ekki á því hver stofndagur kröfu sé heldur aðeins viðmiðunardegi vaxta. Stofndagur kröfu gagnaðila sé 28. febrúar 2018 þegar honum hafi verið tilkynnt um að gjaldið yrði endurgreitt. Kröfur beggja aðila hafi því stofnast eftir töku EK1923 ehf. til gjaldþrotaskipta og 100. gr. laga nr. 21/1991 eigi þar með ekki við í málinu.

Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi eða efni, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðninni er því hafnað.