Hæstiréttur íslands
Mál nr. 725/2015
Lykilorð
- Kærumál
- Farbann
|
|
Þriðjudaginn 27. október 2015. |
|
Nr. 725/2015.
|
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H.B. Snorrason saksóknari) gegn X (Sigurður Freyr Sigurðsson hdl.) |
Kærumál. Farbann.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem X var gert að sæta áfram farbanni á grundvelli b. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. 1. mgr. 100. gr. sömu laga.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir, Helgi I. Jónsson og Karl Axelsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 23. október 2015 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 26. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. október 2015 þar sem varnaraðila var áfram gert að sæta farbanni allt til föstudagsins 20. nóvember 2015 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að farbanninu verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. október 2015.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X verði gert að sæta áfram farbanni, allt til föstudagsins 20. nóvember 2015 kl. 16:00.
Í greinargerð lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu kemur fram að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafi haft til rannsóknar ætluð brot kærða og bróður hans, meðkærða Y, gegn 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Upphaf málsins sé tilkynning sem lögreglu hafi borist þann 19. ágúst sl. frá [...] um að reynt hafi verið að panta fartölvu í gegnum netverslun verslunarinnar á nafnið [...] sem vakið hefði grunsemdir þar sem uppgefin kennitala hafi ekki staðist og varan því ekki verið send. Uppgefið heimilisfang í pöntuninni hafi verið [..] í Reykjavík. Í framhaldi hafi lögregla leitað upplýsinga frá færsluhirðingarfyrirtækjum og hafi sú fyrirspurn leitt í ljós að fleiri pantanir hefðu verið gerðar í gegnum netverslanir hérlendis sem hafi átt að senda á sama heimilisfang. Síðdegis þann 20. ágúst sl. hafi lögregla fengið tilkynningu um að vara hefði verið pöntuð á sama nafn og heimilisfang í gegnum vefsíðuna www. [...] og greitt fyrir með stolnum greiðslukortaupplýsingum. Þar sem grunur hafi leikið á fjársvikum hafi lögregla látið sendingaraðila afhenda annan pakka og í kjölfar viðtöku hans að [...] þann 21. ágúst sl. hafi kærði og meðkærði verið handteknir ásamt þriðja aðila, [...] sem muni vera frændi kærðu.
Framkvæmd hafi verið húsleit á vettvangi og hafi þá fundist ýmsar vörur óuppteknar í umbúðum sem búið hafi verið að pakka ofan í ferðatösku og lögregla hafi haldlagt í þágu rannsóknar málsins. Þá liggi fyrir upplýsingar um að [...] sé leiguhúsnæði á vegum vefsíðunnar www.airbnb.com og enginn hinna handteknu sé búsettur þar.
Við rannsókn málsins hafi lögregla rakið þær vörur sem fundist hafi á vettvangi og grunur leiki á að hafi verið aflað með sviksamlegum hætti. Þá hafi önnur kaup kærðu á vörum og þjónustu svo sem á flugmiðum, leiguhúsnæði og bíleigubifreið einnig verið skoðuð. Liggi nú fyrir grunur um að kærðu hafi í allt að 17 tilvikum keypt vörur og þjónustu sem greitt hafi verið fyrir með stolnum greiðslukortaupplýsingum. Í einhverjum tilvikum kunni að vera um tilraun að ræða þar sem vörur hafi ekki verið afhentar.
Við skýrslutökur hafi kærði neitað sök. Hafi hann neitað allri vitneskju um málið eða að honum hafi verið ljóst um háttsemi bróður síns meðkærða, Y sem viðurkennt hafi hjá lögreglu að hafa nýtt illa fengnar greiðslukortaupplýsingar til kaupa á hinum ýmsu vörum sem fundist hafi á dvalarstað kærðu og auk þess til að greiða flugfarmiða fyrir sig, kærða og [...] til og frá Íslandi, leiguhúsnæði að [...] og bílaleigubifreið sem kærðu hafi notast við hér á landi. Við skýrslutökur hafi kærði viðurkennt að hann hafi notið góðs af flugi, bílaleigubifreið og húsnæði því sem um ræði en að hann hafi ekki vitað að það hafi verið með óheiðarlegum hætti.
Við skýrslutökur af meðkærða Y hafi hann sagt aðspurður um þátt kærða að hann hafi haft einhverja vitneskju um hvað hafi verið að gerast en ekki tekið þátt í pöntununum. Í framburði [...]hafi komið fram að hann héldi að kærði hefði vitað af þessu.
Með hliðsjón af framangreindum framburðum, þeim gæðum sem kærði hafi þegið og því augljósa magni af vörum sem borist hafi á dvalarstað kærða telji lögregla framburð kærða um að honum hafi ekki verið kunnugt um hvað hafi verið í gangi ótrúverðugan. Jafnframt sé bent á að í fyrstu skýrslutökum strax að lokinni handtöku hafi kærði, líkt og meðkærði, bent á að með þeim hefði verið fjórði maðurinn [...] sem líklega hefði átt þær vörur sem hafi verið pantaðar. Framburður um þann aðili hafi reynst tilbúningur en lögregla telji líklegt að kærðu hafi fyrirfram komið sér saman um að benda á þann aðila en nafn hans hafi, eins og áður greinir, verið notað til pöntunar á vörum.
Að mati lögreglu sé því fyrir hendi rökstuddur grunur um að kærði hafi gerst sekur um brot gegn 248. gr. almennra hegningarlaga eftir atvikum sbr. 20. gr. sömu laga. Ætluð háttsemi kærða kunni þó að verða heimfærð sem hlutdeild í brotum meðkærða gegn 248. gr. hegningarlaga og/eða við 254. gr. sömu laga um hylmingu.
Rannsókn lögreglu hafi gengið skjótt og vel fyrir sig. Lok rannsóknar hafi þó strandað á endanlegum upplýsingum frá erlendum greiðslukortafyrirtækjum sem ekki hafi borist lögreglu nægilega greiðlega. Eins og stendur sé stefnt að því að rannsókn ljúki snemma í næstu viku og að í framhaldi verði ákærumeðferð flýtt sem kostur er.
Kærði sé erlendur ríkisborgari og hafi engin sérstök tengsl við landið og telji lögregla að ef hann gangi laus muni hann reyna að komast úr landi til að komast undan málsókn eða fullnustu refsingar. Að mati lögreglu sé nauðsynlegt að tryggja nærveru kærða á meðan mál hans sé til meðferðar fyrir yfirvöldum hér á landi og því nauðsynlegt að honum verði gert að sæta farbanni þar til mál hans verði til lykta leitt. Bent sé á að með úrskurðum Héraðsdómur Reykjavíkur, dags. 28. ágúst sl. í máli nr. R-[...]/2015 og dags. 25. september sl. í máli nr. R-[...]/2015 hafi kærða verið gert að sæta farbanni vegna málsins.
Með vísan til alls framangreinds, framlagðra gagna málsins, 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og b. liðar 1. mgr. 95. gr., sbr. 100. gr., laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 sé þess beiðst að krafa lögreglustjóra um farbann nái fram að ganga.
Niðurstaða:
Varnaraðili er erlendur ríkisborgari og hefur engin tengsl við Ísland. Fallist er á það með lögreglustjóra að ætla megi að varnaraðili gæti reynt að koma sér úr landi og þannig leitast við að koma sér undan málsókn vegna brotsins. Það er mat dómsins að gögn málsins sýni að kærði sé undir rökstuddum grun um að hafa framið afbrot sem fangelsisrefsing er lögð við. Skilyrði b-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 eru því fyrir hendi, sbr. 100. gr. sömu laga. Þó nokkur dráttur hafi orðið á því að rannsókn málsins hafi lokið þykir það ekki veita nægilega ástæðu til að hafna nú kröfu sóknaraðila. Samkvæmt þessu og því sem að framan var rakið úr greinargerð lögreglustjóra verður orðið við kröfu hans eins og nánar greinir í úrskurðarorðinu.
Halldór Björnsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Kærði, X, skal áfram sæta farbanni allt til föstudagsins 20. nóvember 2015 kl. 16:00.