Hæstiréttur íslands
Mál nr. 580/2017
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
- Gæsluvarðhaldsúrskurður felldur úr gildi
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 15. september 2017, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 18. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 15. september 2017, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 13. október 2017 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, til vara að honum verði gert að sæta farbanni, en að því frágengnu að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Samkvæmt 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 má úrskurða sakborning í gæsluvarðhald þótt skilyrði a. til d. liðar 1. mgr. greinarinnar séu ekki fyrir hendi ef sterkur grunur leikur á að hann hafi framið afbrot sem að lögum getur varðað 10 ára fangelsi, enda sé brotið þess eðlis að ætla megi varðhald nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Eins og málið liggur fyrir verður ekki fullyrt að fullnægt sé því frumskilyrði 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 að sterkur grunur leiki á því að varnaraðili hafi framið það brot sem hann er sakaður um. Verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness föstudaginn 15. september 2017
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur í dag krafist þess að Héraðsdómur Reykjaness úrskurði að X, kt. [...], verði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 13. október 2017, kl. 16:00.
Í greinargerð lögreglustjóra segir að hann hafi undanfarið haft til rannsóknar mál er varðar innflutning á ætluðum ávana- og fíkniefnum hingað til lands. Hinn 19. ágúst sl. hafi Y, kt. [...], komið með flugi [...] frá [...] á Spáni. Hann hafi verið handtekinn í kjölfar afskipta tollvarða vegna gruns um að hann hefði fíkniefni í fórum sínum. Í ljós hafi komið að í fölskum botni ferðatösku sem hann hafði meðferðis hafi verið 2.022,53 g af kókaíni.
Lögregla hafi upplýsingar um að meðkærði, Z, og kærði, X, væru viðriðnir málið. Við rannsóknaraðgerðir lögreglu hafi verið fylgst með ferðum meðkærða Z sem hafi sótt meðkærða Y við komuna hingað til lands á BSÍ að morgni 20. ágúst. Þeir hafi ekið að [...] í Reykjavík þar sem Y hafi farið inn með töskuna og meðkærði Z haldið á brott. Síðar um daginn hafi meðkærði farið að [...], sótt töskuna og farið í beinu framhaldi að [...], Hafnarfirði, dvalarstað kærða. Kærði hafi verið handtekinn þar ásamt meðkærða. Hinn 21. ágúst sl. hafi kærða verið gert að sæta gæsluvarðhaldi vegna aðildar sinnar að málinu. Hafi kærði setið í gæsluvarðhaldi á grundvelli rannsóknarhagsmuna síðan og hafi úrskurður Héraðsdóms Reykjaness tvisvar sinnum verið staðfestur í Hæstarétti.
Kærði hafi við skýrslutökur hjá lögreglu neitað aðild að málinu, en að mati lögreglu sé sá framburður afar ótrúverðugur. Hafi meðkærði Z greint frá því að hlutverk hans hafi verið það að móttaka ávana- og fíkniefnin af Y, sem hafi flutt efnin hingað til lands, og koma efnunum til eiganda þeirra.
Í málinu sé lagt til grundvallar að um sé að ræða mjög mikið magn hættulegra fíkniefna. Telur lögregla nær öruggt að fíkniefnin hafi átt að fara í sölu og dreifingu til ótiltekins fjölda manna hér á landi og að þannig kunni háttsemi kærða að varða við 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 auk ákvæða laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni, en við brotunum liggi allt að 12 ára fangelsi. Hið meinta brot kærða þyki mjög alvarlegt og ljóst að mati lögreglu að kærði hafi haft hlutverk við skipulagningu og framkvæmd þess brots sem hér um ræðir, m.a. með því að fá burðardýr til að flytja efnin hingað til lands og hafa ætlað að afhenda efnin óþekktum manni hér á landi. Fái það m.a. stoð í gögnum málsins auk þess sem kærði hafi verið handtekinn við að móttaka efnin. Að mati lögreglu hefði verið ómögulegt eða a.m.k. illframkvæmanlegt að framkvæma þá refsiverðu háttsemi sem kærða er gefin að sök án aðkomu hans og auki það enn á alvarleika brotsins að mati lögreglu. Með tilliti til hagsmuna almennings þyki þannig nauðsynlegt að kærði sæti áframhaldandi gæsluvarðhaldi á meðan mál hans er til meðferðar í refsivörslukerfinu en telja verði að ef sakborningur, sem orðið hefur uppvís að jafn alvarlegu broti og kærða er gefið að sök, gangi laus áður en máli lýkur með dómi þá valdi það hneykslun í samfélaginu og særi réttarvitund almennings. Telur lögregla því að staða kærða í málinu sé sambærileg stöðu sakborninga í öðrum álíka málum, sbr. mál Hæstaréttar nr. 534/2011, 422/2011, 323/2011, 164/2010, 136/2008, 635/2007, 378/2006, 377/2006, 376/2006, 154/2006, 368/2005, 93/2005, 488/2004, 269/2004, 417/2000 og 471/1999, þar sem sakborningum hafi verið gert að sæta gæsluvarðhaldi fram að dómi, þegar legið hafi fyrir sterkur rökstuddur grunur um beina aðild að innflutningi að miklu magni fíkniefna til sölu og dreifingar í ágóðaskyni. Ekki sé talin ástæða til að ætla að refsimat og réttarvitund almennings í slíkum málum hafi breyst frá því téðir dómar voru uppkveðnir, og sé því talið að skilyrðum 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála sé fullnægt í því máli sem hér um ræðir.
Með vísan til alls framangreinds, 2., sbr. 4. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni telur lögreglustjóri að öllum skilyrðum sakamálalaga sé fullnægt til að kærða verði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 13. október 2017 kl. 16.00 eða þar til að dómur fellur í máli hans.
Eins og rakið hefur verið hefur kærði sætt gæsluvarðhaldi frá 21. ágúst sl. á grundvelli rannsóknarhagsmuna. Samkvæmt gögnum málsins er kærði undir sterkum grun um aðild að innflutningi á miklu magni af hættulegum fíkniefnum. Með hliðsjón af því magni sem hér um ræðir verður að telja nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna að hann sæti áfram gæsluvarðhaldi, sbr. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Er því fallist á kröfu lögreglustjóra, eins og nánar greinir í úrskurðarorði.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Kærði, X, skal sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 13. október 2017, kl. 16:00.