Hæstiréttur íslands

Mál nr. 245/2008


Lykilorð

  • Líkamsárás
  • Skilorð
  • Skaðabætur


                                     

Fimmtudaginn 4. desember 2008.

Nr. 245/2008.

Ákæruvaldið

(Kolbrún Sævarsdóttir, saksóknari)

gegn

Andrius Paulauskas

(Björn Þorri Viktorsson hrl.)

 

Líkamsárás. Skilorð. Skaðabætur.

A var sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga, með því að hafa ráðist á B og slegið hann hnefahöggi í andlitið svo að hann féll í jörðina og hlaut tilgreinda áverka. A var dæmdur í fimm mánaða skilorðsbundið fangelsi og til greiðslu skaðabóta til handa B.

  

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 16. apríl 2008 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þyngingar á refsingu.

Ákærði krefst þess að refsing hans verði milduð.

Við meðferð málsins í héraði játaði ákærði sakargiftir og var málið rekið þar og dæmt samkvæmt 125. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Af því sem fram er komið verður ráðið að áverkar þeir sem B hlaut séu töluverðir og að hluta til varanlegir. Ekkert er fram komið sem réttlætir hina fyrirvaralausu og harkalegu líkamsárás ákærða. Hann hefur hins vegar ekki áður gerst sekur um refsvert brot samkvæmt sakavottorði því sem er meðal gagna málsins. Refsing ákærða verður ákveðin fangelsi í fimm mánuði og verður hún bundin skilorði eins og í dómsorði greinir.

Ákvæði héraðsdóms um skaðabætur er ekki til endurskoðunar fyrir Hæstarétti.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verður staðfest.

Ákærði verður dæmdur til að greiða helming áfrýjunarkostnaðar málsins samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara um sakarkostnað og ákvörðun Hæstaréttar um málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans fyrir Hæstarétti sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti, svo sem nánar greinir í dómsorði.

 

Dómsorð:

Ákærði, Andrius Paulauskas, sæti fangelsi í fimm mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún niður falla að liðnum þremur árum frá uppsögu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákvæði héraðsdóms um skaðabætur og sakarkostnað eru óröskuð.

Ákærði greiði helming áfrýjunarkostnaðar málsins, sem nemur samtals 236.099 krónum, þar sem með eru talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans fyrir Hæstarétti, Björns Þorra Viktorssonar hæstaréttarlögmanns, 224.100 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 28. mars 2008.

Málið þetta er höfðað með ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, útgefinni 6. febrúar sl. á hendur ákærða, Andrius Paulauskas, kt. 160979-2249, Bollagötu 5, Reykjavík, "fyrir líkamsárás, með því að hafa síðla kvölds föstudagsins 18. ágúst 2006 við Reykjavíkurveg 27 í Hafnarfirði ráðist á B, [kt.], og slegið hann hnefahöggi í andlit svo að hann féll í jörðina, með þeim afleiðingum að hann hlaut rof í tengslum ennis- og kinnbeins hægra megin, brot á kinnbeinsboga og brot á gólfi augntóftar hægra megin, auk þess sem hann hlaut áverka á heila.

Telst þetta varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19,1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20,1981 og 111. gr. laga nr. 82,1998.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.

Af hálfu B er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða sér í skaða- og miskabætur samtals að fjárhæð kr. 1.828.184.- með vöxtum skv. 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 19. ágúst 2006, en með dráttarvöxtum skv. 9. gr. sbr. 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga frá 21. október 2007 til greiðsludags."

Mál þetta er dæmt samkvæmt heimildarákvæði 125. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, en með skýlausri játningu ákærða, sem samrýmist öðrum gögnum málsins, telst sannað að hann hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og þar er réttilega færð til refsiákvæða.

Ákærði á ekki að baki neinn sakaferil og hefur játað brot sitt.

Við ákvörðun refsingar verður ákærða, sem er þjálfaður hnefaleikari, metið til refsiþyngingar að líkamsárásin var algerlega að tilefnislausu og gerð þeim sem fyrir henni varð að óvörum auk þess sem hún hafði í för með sér mjög alvarlegar afleiðingar, bæði beinbrot og áverka á heila brotaþola. Er áverka lýst í læknisvottorði sem háorkuáverka og að líkamslýti í formi öra séu viðvarandi, áverkinn sé alvarlegur vegna þess að hann er nálægt lífsmikilvægum líffærum þ.e. auga og heila. Þá þurfti brotaþoli að gangast undir læknisaðgerðir vegna brotinna andlitsbeina í kring um augun eins og nánar er lýst í læknisvottorði sem ekki hefur verið vefengt.

Enginn vafi leikur á því að um alvarlega, hrottafegna og hættulega líkamsárás að tilefnislausu var að ræða af hálfu ákærða. Þykir refsing hans hæfilega ákveðin 6 mánaða fangelsi. Þrátt fyrir að ákærði eigi ekki sakaferil að baki hér á landi þykir ekki rétt að skilorðsbinda nema þrjá mánuði af refsingunni og ákveða að sá hluti hennar skuli niður falla að liðnum 4 árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. alm. hgl.

Ástæðulaust er að vísa skaðabótakröfu brotaþola í heild frá dómi eins og ákærði krafðist og verður hann dæmdur til þess að greiða brotaþola eftirfarandi bætur. Þjáningarbætur í 34 daga 74.800 krónur, miskabætur samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga 1.000.000 króna, útlagðan lækniskostnað samkvæmt kvittun 4.384 krónur og vegna gagnaöflunar og  lögmannsaðstoðar 124.500 þ.m.t vsk. eða samtals 1.203.684 krónur. Þá skal ákærði greiða útlagðan sakarkostnað að fjárhæð 18.700 krónur auk málsvarnarlauna verjanda síns Guðbjarna Eggertssonar hdl. 74.700 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti..

Sókn málsins annaðist Hrannar Már Sigurðsson Hafberg fulltrúi lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu.

Sveinn Sigurkarlsson héraðsdómari kveður upp dóminn.

DÓMSORÐ

Ákærði, Andrius Paulauskas, skal sæta fangelsi í 6 mánuði, en fresta skal 3 mánuðum af refsivistinni og sá hluti hennar niður falla að liðnum 4 árum frá birtingu dómsins haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærði skal greiða B 1.203.684 krónur í skaðabætur.

Ákærði greiði útlagðan sakarkostnað að fjárhæð 18.700 krónur auk málsvarnarlauna skipaðs verjanda síns Guðbjarna Eggertssonar hdl. 74.700 krónur.