Hæstiréttur íslands
Mál nr. 468/2011
Lykilorð
- Skaðabótamál
- Líkamstjón
- Skóli
- Viðurkenningarkrafa
- Málskostnaður
|
|
Fimmtudaginn 23. febrúar 2012. |
|
Nr. 468/2011.
|
Íslenska ríkið (Óskar Thorarensen hrl.) gegn Birgi Fannari Péturssyni (Þorsteinn Einarsson hrl.) |
Skaðabótamál. Líkamstjón. Skóli. Viðurkenningarkrafa. Málskostnaður.
B krafðist þess að viðurkennd yrði bótaskylda Í vegna líkamstjóns sem hann varð fyrir sem nemandi í húsasmíði er hann var að festa sperrur á þakkant á sumarhúsi sem í smíði var á skólalóðinni. Hæstiréttur féllst á með héraðsdómi að álstigi sem notaður var við verkið hafi ekki hentað án frekari öryggisráðstafana og að auðvelt hefði verið að gera ráðstafanir til að auka öryggi B. Virða yrði það kennaranum til vanrækslu að sjá ekki til þess að beitt væri verklagi sem tryggði öryggi betur en í raun var gert. Staðfesti Hæstiréttur niðurstöðu hins áfrýjaða dóms um viðurkenningu á bótaskyldu Í.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Greta Baldursdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 3. ágúst 2011. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti en til vara að hann verði aðeins talinn skaðabótaskyldur að hluta á slysi stefnda og málskostnaður verði felldur niður.
Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Í máli þessu krefst stefndi þess að viðurkennd verði bótaskylda áfrýjanda vegna líkamstjóns sem stefndi varð fyrir 13. febrúar 2007. Stefndi var þá nemandi í húsasmíði við Menntaskólann á Ísafirði. Hann var að vinna við að festa sperrur á þakkant á sumarhúsi, sem verið var að smíða á skólalóðinni, og varð slysið með þeim hætti að álstigi sem hann stóð á við verkið rann undan honum, en snjór var á jörðu þegar slysið varð.
Stefndi hefur lagt nokkur ný gögn fyrir Hæstarétt. Á meðal þeirra er örorkumat Atla Þórs Ólasonar sérfræðings í bæklunarskurðlækningum, en samkvæmt því nam varanlegur miski stefnda vegna slyssins 13. febrúar 2007 8 stigum og varanleg örorka 10%. Áfrýjandi byggir á að ósannað sé að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni umrætt sinn og því sé ekki fullnægt skilyrðum 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála til að stefndi megi hafa uppi viðurkenningarkröfu. Staðfest verður sú niðurstaða hins áfrýjaða dóms að fullnægt sé skilyrðum nefnds lagaákvæðis.
Í I. kafla laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum er fjallað um tilgang og gildissvið laganna. Eins og að framan var rakið unnu nemendur við að reisa sumarhús á lóð Menntaskólans á Ísafirði er slysið varð. Aðstæður voru því um flest hliðstæðar því sem gerist við húsbyggingar almennt. Þykir því mega hafa ákvæði laganna og stjórnvaldsfyrirmæla settra á grundvelli þeirra til hliðsjónar sem lágmarksviðmiðun um kröfur til aðbúnaðar og öryggis á verkstað, en gera verður ríkari kröfur til eftirlits og leiðbeiningarskyldu kennara en gerðar verða til verkstjóra á grundvelli framangreindra laga og reglna. Að þessu gættu verður fallist á með héraðsdómi að umræddur álstigi hafi ekki hentað án frekari öryggisráðstafana til verksins eins og aðstæðum var háttað, að auðvelt hefði verið að gera ráðstafanir til að auka öryggi stefnda, til dæmis með því að reisa vinnupalla við langhliðar bústaðarins og að virða verði það kennaranum til vanrækslu að sjá ekki til þess að beitt væri verklagi sem tryggði öryggi betur en í raun var gert. Með þessum athugasemdum verður héraðsdómur staðfestur með vísan til forsendna hans.
Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði og er þá ekki tekið tillit til kostnaðar stefnda við örorkumat þar sem í málinu er aðeins krafist viðurkenningar á skaðabótaskyldu áfrýjanda..
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, íslenska ríkið, greiði stefnda, Birgi Fannari Péturssyni, 750.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 9. maí 2011.
Mál þetta sem dómtekið var 11. apríl sl. er höfðað með stefnu birtri 3. mars 2010.
Stefnandi er Birgir Fannar Pétursson, kt. [...], Noregi.
Stefndi er íslenska ríkið, Sölvhólsgötu 7, Reykjavík, f.h. Menntaskólans á Ísafirði.
Dómkröfur stefnanda eru þær að viðurkennt verði að stefndi sé bótaskyldur gagnvart stefnanda vegna líkamstjóns sem stefnandi varð fyrir vegna slyss við nám í Menntaskólanum á Ísafirði 13. febrúar 2007.
Þá krefst stefnandi málskostnaðar.
Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað.
Til vara krefst stefndi að stefndi verði aðeins talinn skaðabótaskyldur að hluta á slysi stefnanda og að málskostnaður verði felldur niður.
MÁLAVEXTIR
Stefnandi var nemandi í húsasmíði við Menntaskólann á Ísafirði 13. febrúar 2007 þegar hann lenti í slysi. Hann var að vinna við að festa sperrur við þakkant á sumarhúsi þegar slysið varð, og var vinnan hluti af námi hans.
Stefnandi stóð í álstiga og hæð þakskeggsins var um 2,8-3 metrar. Stefnandi lýsti slysinu svo fyrir dómi að stiginn hefði runnið til og stefnandi dottið. Fram kom hjá stefnanda og Þresti Jóhannessyni, kennara hans, að stefnandi hefði lent á spýtu, eða dregara, sem var fest við steyputrapísu, sem var notuð til að halda bústaðnum niðri. Á mynd sem lögreglan á Ísafirði tók ári eftir slysið sést trapísan með viðfestum spýtum. Spýturnar voru síðar sagaðar af. Stiginn stóð á malbiki, en það var hálkuskán yfir öllu.
Engin vitni voru að slysinu. Lýsti Þröstur því að samist hefði svo um að stefnandi fengi að vinna af sér tíma sem hann hefði verið fjarverandi, þegar hann væri í götum. Þegar slysið varð var stefnandi að vinna ásamt skólabróður sínum, Sigurði Fannari Grétarssyni, við húsið, en Þröstur var við aðra kennslu.
Slysið var skráð, sérstakri slysaskráningu, í menntaskólanum, 20. mars 2007. Er slysinu þar lýst stuttlega, efnislega er lýsingin eins og hér að framan. Þá segir að stefnandi hafi verið að vinna við sumarhús í byggingu og væri það hluti verklegs náms. Merkt er við að skaddaður líkamshluti sé hryggsúla og grindarbotn og meiðsl sé beinbrot.
Í göngudeildarnótu og vottorði Þorsteins Jóhannessonar, yfirlæknis á fjórðungssjúkrahúsinu á Ísafirði, kemur fram að 16. mars 2007 hafi stefnandi leitað á göngudeild. Koman hafi verið vegna slyss fjórum vikum fyrr, um miðjan febrúar 2007, er hann var við smíði sumarbústaðar, féll og fékk högg á spjaldhrygg. Tekið er fram að stefnanda hafi versnað dagana fyrir læknisheimsóknina og vegna þess m.a. ekki treyst sér í skólann.
Í vottorðinu segir að stefnandi hafi stungið aðeins við á hægri fæti, röntgenmynd sem tekin var hafi vakið grun um sprungu í mjaðmakambshryggjarlið hægra megin. Mynd, tekin 31. ágúst 2007, hafi ekki sýnt merki um brot lengur.
Í nótu, vegna komu stefnanda á sjúkrahúsið 27. október 2009, kemur fram að hann sé alltaf slæmur í baki eftir slysið. Um sé að ræða verki neðst í mjóbaki á morgnana, og hann þurfi að nota ibufen.
Stefnandi sagði svo frá fyrir dómi að hann hafi verið á fimmtu önn við skólann þegar slysið varð, en námið sé í heild sex annir. Hann hafi verið búinn með námskeið í öryggisfræði en myndi ekki eftir að fjallað hefði verið um stiga. Stefnandi sagði að hann hefði unnið með samnemanda sínum, en hann myndi ekki nákvæmlega hvað sá hefði verið að gera þegar slysið varð. Stefnandi hafi stillt stiganum upp með venjulegum hætti og talið hann öruggan. Hann hefði ekki klárað skóladaginn. Eftir slysið hefði hann ekki getað klárað verklega hluta námsins, en hann væri búinn með bóklega hlutann. Hann kvaðst ekki hafa getað unnið sem smiður eftir þetta.
Stefnandi tilkynnti Vinnueftirliti og lögreglu um slysið í júlí 2008. Valgeir Hauksson, umdæmisstjóri á Vestfjörðum, fór og rannsakaði stigann og niðurstaða hans er meðal gagna málsins. Fram kemur í henni að undir stigakjálkanum voru skriðvarnir úr gúmmíi sem voru vel fastar og með lítið slitnum rifflum. Ætla megi að meginorsök slyssins hafi verið sú að stiginn hafi ekki verið traustlega festur til að koma í veg fyrir að hann félli. Ekki sé ljóst hver halli stigans hafi verið en mikilvægt sé að hann sé um það bil 75 gráður.
Kennari stefnanda, Þröstur Jóhannesson, gaf skýrslu fyrir dóminum. Hann sagði meðal annars að hann hefði haft nemendur í tíma um morguninn áður en slysið varð og þá farið yfir öryggismál, en stefnandi hefði verið einn þessara nemenda. Svo hefðu stefnandi og annar nemandi haldið áfram vinnunni eftir tímann, en vitnið ekki farið sérstaklega yfir öryggismálin aftur. Það hefði verið hált og þurft að tryggja stigana, en það hefði ekki þurft ef annar stæði við. Vitnið sagðist ekki hafa vitað að samnemandi stefnanda fór frá. Inntur eftir því hvert hefði verið rétt vinnulag, sagði hann að það hefði þurft að útbúa upphengi á stigann, eða tryggja undirlagið að neðan, til að stiginn rynni ekki. Það hefði vel mátt nota stigann en það væru til betri aðferðir. Kvað hann þá stefnanda hafa samið um að stefnandi fengi að vinna af sér fjarvistir, í eyðum í stundaskrá. Þröstur sagði að það gæti verið að hann hefði stöðvað verkið hefði hann verið viðstaddur. Stefnandi hefði þó haft töluverða reynslu og verið búinn að ljúka öryggisnámskeiði hjá Vinnueftirliti, sem hann hefði fengið metið. Þröstur hefði því treyst honum vel, ella hefði hann ekki leyft honum að vinna utan kennslustunda. Þegar vitnið kom á vettvang hefði stefnandi verið staðinn á fætur. Stiginn hefði runnið undan honum og hann lent á skífu yfir steyputrapísu, en trapísurnar hefðu komið með áfestum spýtum þegar þær voru keyptar. Vitnið hefði ráðlagt stefnanda að fara á slysavarðstofuna en stefnandi ekki viljað það.
Þröstur kvað verkið, að festa sperrur, hafa verið næsta verk sem þurfti að vinna við bústaðinn. Inntur eftir því hvernig verkstjórn hefði verið hagað, sagði hann að á kennslutíma hefði hann haft eftirlit með hverjum og einum nemanda eins og verkstjóri. Tækin sem voru fyrir hendi, hefðu verið vinnupallar við gafla hússins, og stigar til hliðanna, en hann hefði talið að stigarnir nægðu. Svo hefði einnig verið færanlegur vinnupallur þarna. Ári síðar var byggt annað eins hús, og þá hefði vitnið látið reisa vinnupalla allan hringinn.
MÁLSÁSTÆÐUR OG LAGARÖK STEFNANDA
Stefnandi vísar til þess að Menntaskólanum á Ísafirði hafi borið skylda til að tilkynna slysið án tafar til Vinnueftirlits ríkisins og lögreglu, sbr. 79. gr. laga nr. 46/1980. Þetta hafi verið mikilvægt til að Vinnueftirlit og lögregla gætu kannað tildrög slyssins. Vinnueftirliti ríkisins sé skv. 81. gr. laga nr. 46/1980 ætlað að rannsaka orsakir slysa. Rannsókn hafi ekki farið fram fyrr en löngu síðar, og þá að tilstuðlan stefnanda. Menntaskólinn beri hallann af skorti á sönnun um málsatvik sem hefði mátt leiða í ljós með rannsókn.
Stefnandi hafi verið einn við verkið og notað stiga. Hann hafi ekki fengið fyrirmæli um annað og önnur úrræði hafi ekki verið lögð til. Mun öruggara hefði verið að notast við vinnupalla.
Stefnandi bendir á að skv. 37. gr. laga nr. 46/1980, skuli haga vinnu þannig, að gætt sé fyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar og hollustuhátta. Þá skuli fylgja viðurkenndum stöðlum, ákvæðum laga og reglugerða, svo og fyrirmælum Vinnueftirlits ríkisins, að því er varðar aðbúnað, hollustuhætti og öryggi, sbr. 2. mgr. 37. gr.
Í 13. gr. sé kveðið á um að atvinnurekandi skuli tryggja, að gætt sé fyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar og hollustuhátta á vinnustað. Jafnframt skuli atvinnurekandi gera starfsmönnum sínum ljósa slysa- og sjúkdómshættu, sem kunni að vera bundin við starf þeirra. Atvinnurekandi skuli þar að auki sjá um, að starfsmenn fái nauðsynlega kennslu og þjálfun í að framkvæma störf sín á þann hátt, að ekki stafi hætta af, sbr. 14. gr.
Stefnandi telur að stiginn hafi alls ekki hentað við aðstæður á slysstað og að m.a. hafi ekki verið fylgt reglum nr. 547/1996 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggisráðstafanir á byggingarvinnustöðum og við aðra tímabundna mannvirkjagerð, sbr. einkum greinar 19.1 í B hluta IV. viðauka, þar sem komi fram að lausir vinnustigar sem notaðir séu við byggingarvinnu skuli vera af viðurkenndri gerð og þannig gengið frá lausum stigum að ekki sé hætta á að þeir velti eða skríði til.
Enn fremur bendir stefnandi á reglugerð nr. 367/2006 um notkun tækja, sbr. 4. gr. II. viðauka, þar sem segi í gr. 4.2.1, um lausa stiga, að þeir verði að vera þannig settir upp að öruggt sé að þeir séu stöðugir við notkun. Koma skuli í veg fyrir að færanlegir stigar renni til við notkun með því að festa efri og neðri enda þeirra með búnaði sem hindri að þeir renni til, eða með öðrum hætti, sbr. gr. 4.2.2. Stigar skuli enn fremur, skv. gr. 4.2.3., notaðir þannig að starfsmenn geti jafnan verið stöðugir og haft trygga handfestu.
Jafnframt megi vísa til leiðbeininga um vinnuvernd nr. 1/1991 um lausa stiga, tröppur og búkka, sem settar voru með heimild í lögum nr. 46/1980. Þar segi að ef hætta sé á að stigi renni til skuli festa hann, t.d. með böndum eða öðrum öruggum festingum. Stefnandi telur að slíkt hljóti að vera sérstaklega mikilvægt þegar unnið er með stiga í hálku og snjó. Kennari stefnanda hefði því með réttu átt að benda á þessi úrræði í ljósi veðurfarsaðstæðna í umrætt sinn.
Samkvæmt 21. gr. laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, sé verkstjóri fulltrúi atvinnurekanda og beri að sjá til þess að allur búnaður sé góður og öruggt skipulag ríkjandi. Í 1. mgr. 23. gr. sé einnig kveðið á um að verkstjóri skuli beita sér fyrir, að starfsskilyrði séu fullnægjandi að því er varðar aðbúnað, hollustuhætti og öryggi. Hann skuli sjá um, að þeim ráðstöfunum sem gerðar séu til þess að auka öryggi og bæta aðbúnað og hollustuhætti sé framfylgt. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar skuli verkstjóri jafnframt tryggja að hættu sé afstýrt verði hann var við atriði, sem leitt geti til hættu á slysum eða sjúkdómum.
Í umsögn Menntaskólans á Ísafirði segi orðrétt:
Verkstjórn var með þeim hætti að nemandanum voru gefin fyrirmæli um hvaða verki skyldi sinna meðan verkstjórinn var bundinn annarri kennslu, en nemandanum hafði verið gefinn kostur á að vinna einsamall úti, til þess að bæta upp mætingu. Þar sem nemandinn var upplýstur um það hvernig átti að bera sig að við verkið, getur þessi verkstjórn ekki talist ámælisverð.
Stefnandi segist ekki geta fallist á að Menntaskólinn firri sig ábyrgð á verkstjórn og eftirliti með þessum hætti. Augljóst sé að ekkert virkt eftirlit hafi verið haft með störfum stefnanda á vinnusvæðinu og þar með hafi starfsmenn skólans vanrækt skyldur sínar samkvæmt lögum nr. 46/1980.
Ekki verði betur séð en að verkstjóri á vettvangi hafi með öllu brugðist þeim skyldum sem á honum hvíldu samkvæmt fyrrgreindum ákvæðum laga nr. 46/1980. Hann hafi sýnt af sér saknæma og ólögmæta háttsemi. Stefnandi var 22 ára gamall menntaskólanemi og ómögulegt að gera sömu kröfur til hans og reynds húsasmiðs. Þá hafi hann verið einn og algerlega án eftirlits og notað þau tæki sem voru til staðar og honum var uppálagt að nota. Stjórnendur verksins hafi ekki lagt til önnur öruggari úrræði. Meðal annars hafi honum verið gert að nota stiga þrátt fyrir að pallur hafi verið reistur við annan gafl hússins en verklagið sé nú það að nota vinnupalla við samskonar smíði. Ríkar skyldur hljóti að hvíla á kennurum sem taki að sér umsjón með smíðaverkefnum, sem ef til vill séu unnin við aðstæður sem bjóða heim hættu á slysum. Því verði að gera þær kröfur til kennara að gæta öryggis, einkum þegar verið er að mennta einstaklinga sem síðar þurfi að gæta að hinu sama. Hafi kennarinn því sýnt af sér gáleysi í starfi sínu við eftirlit með vinnu nemenda við sumarhúsið.
Að mati stefnanda hafi þær reglur sem raktar voru verið brotnar af menntaskólanum og standi því engin rök til að láta stefnanda bera tjón sitt alfarið sjálfur. Starfsmenn og kennarar menntaskólans hefðu átt að hafa eftirlit með notkun lausra stiga til þess að notkun þeirra samræmdist skilyrðum laga og reglna. Menntaskólinn á Ísafirði beri því skaðabótaábyrgð á tjóni stefnanda á grundvelli hinnar ólögfestu reglu um vinnuveitendaábyrgð.
Stefnandi vísar til laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, reglna nr. 547/1996 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggisráðstafanir á byggingarvinnustöðum og við aðra tímabundna mannvirkjagerð, reglugerðar nr. 367/2006 um notkun tækja, sem og leiðbeininga um vinnuvernd nr. 1/1991 um lausa stiga, tröppur og búkka. Um málskostnað vísar stefnandi til XXI. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, einkum 1. mgr. 130. gr. þeirra. Stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur aðili skv. lögum nr. 50/1988 og því þurfi að taka tillit til skattsins við ákvörðun málskostnaðar.
MÁLSÁSTÆÐUR OG LAGARÖK STEFNDA
Stefndi segir að stefnandi hafi verið á fjórðu önn í húsasmíði við Menntaskólans á Ísafirði þegar hann slasaðist. Hann hafi verið mikið frá skóla á þessum tíma og óskað eftir því að bæta upp tíma sem hann hafði misst úr með smíðum á sumarbústaðnum sem fjallað er um í málinu. Stefnandi hafi komist að samkomulagi við Þröst Jóhannesson smíðakennara um það. Þröstur hafi samþykkt að leyfa stefnanda að smíða í bústaðnum í götum á stundatöflu. Þröstur hafi treyst stefnanda til að sinna þessu verki, þar sem hann var orðinn það reyndur á þessum tíma. Kennari hafi því verið að kenna öðrum þegar slysið átti sér stað.
Þröstur varð ekki vitni að slysinu. Hann hafi vitað að stefnandi og Sigurður Fannar Grétarsson hafi unnið við bústaðinn og talið að þeir væru báðir þar að störfum. Stefnandi hafi ekki getið þess mikilvæga atriðis í stefnu að stefnandi hélt áfram vinnu sinni einn, eftir að Sigurður Fannar brá sér frá, en það hafi einmitt verið á meðan Sigurður var fjarverandi sem slysið varð. Slysið hafi orðið að vetrarlagi, í frosti. Stefnandi hafi verið tuttugu og tveggja ára. Hann hafi verið vanur smíðavinnu fyrir utan nám sitt í skólanum. Þá hafi hann verið búinn að klára áfangann ÖRF1012 sem fjalli um öryggismál og vinnuvernd, og fengið einkunnina 10,0.
Stefndi finni þess ekki stoð í gögnum málsins sem fram kemur í stefnu að stefnandi hafi farið í læknisskoðun nokkrum dögum eftir slys. Af gögnum málsins verði ekki annað ráðið en að hann hafi fyrst farið til læknis 16. mars 2007. Sú fullyrðing að þá hafi komið í ljós sprunga í hryggjartindi við spjaldhrygg sé ósönnuð.
Þegar kennari hitti stefnanda eftir slysið hafi stefnandi sagt honum frá því hvað gerðist. Kennarinn hafi þá óskað eftir því við stefnanda að hann færi strax í læknisskoðun en stefnandi ekki viljð fara. Hann hafi ekki farið til læknis fyrr en um mánuði eftir slys en sama dag var fyllt út slysaskýrsla Menntaskólans á Ísafirði og hún undirrituð af kennara og stefnanda.
Stefnandi byggi á því í stefnu að stefnda hafi borið skylda til að tilkynna slysið án tafar til Vinnueftirlits ríkisins og lögreglu. Telji hann að um vanrækslu og sinnuleysi hafi verið að ræða hjá stefnda og m.a. vegna þess eigi stefndi að bera hallann af skorti á sönnun um málsatvik. Stefndi mótmælir þessu. Kennari hafi hitt stefnanda stuttu eftir atvikið. Stefnandi hafi ekki talið sig slasaðan og ekki orðið við ósk kennarans um að fara strax í læknisskoðun, en benda megi á að sjúkrahúsið sé í nokkur hundruð metra fjarlægð frá vettvangi. Stefnandi sé fullorðinn maður og kennari hafi ekki getað neytt hann til læknis. Á því sé byggt af hálfu stefnda að engin skylda hafi hvílt á stefnanda að tilkynna atvikið til Vinnueftirlits og lögreglu. Því sé mótmælt að um hafi verið að ræða vinnuslys í skilningi laga nr. 46/1980 eða annarra reglna sem taki til Vinnueftirlits ríkisins. Slík atvik á skólasvæði falli utan gildissviðs laga nr. 46/1980. Skólinn hafi ekki verið atvinnurekandi í þessu sambandi og stefnandi ekki starfsmaður. Ekki hafi hvílt lagaskylda á stefnda til að tilkynna atvikið til lögreglu.
Stefnandi hafi sjálfur talið að hann væri ekki slasaður og ekki farið til læknis fyrr en um mánuði eftir atvikið. Verði talið að á stefnda hafi hvílt lagaskylda til að kalla til lögreglu og Vinnueftirlit sé á því byggt að það hefði engu breytt þótt lögregla og Vinnueftirlit hefðu rannsakað vettvang mánuði eftir atvikið. Of langur tími hafi þá verið liðinn frá atvikinu og stefndi sjái ekki muninn á mánuði og þeim tíma sem leið þar til þessir aðilar voru kallaðir til. Stefndi telur fráleitt að þetta breyti sönnunarstöðu aðila. Stefnandi hafi sönnunarbyrði fyrir öllu sem meintu tjóni hans viðkemur og engin atvik valdi því að slaka eigi á sönnunarkröfum í málinu. Stefnandi hafi að mati stefnda ekki bent á neinar lagareglur eða aðrar reglur sem lögðu skólanum þær skyldur á herðar sem hann byggi á í málinu.
Því sé mótmælt að ekkert virkt og markvisst eftirlit hafi verið með störfum stefnanda á vinnusvæðinu.
Stefnandi vísi til ýmissa reglna í stefnu um tilhögun vinnu, stiga, notkun tækja, vinnuvernd o.fl. Verði talið að einhverjar af þessum reglum eigi við um tilvikið sé á því byggt að aðbúnaðurhafi verið eðililegur. Stefndi mótmælir því að hafa brotið gegn þeim reglum sem stefnandi vísi til. Því sé mótmælt að kennari stefnanda hafi með réttu átt að benda á úrræði í ljósi veðurs umrætt sinn. Stefnandi hafi verið reyndur við smíðar, hann hafi fengið kennslu í smíðum, lokið prófi í öryggisfræðum og átt að þekkja allar þær reglur og leiðbeiningar sem gildi um það þegar unnið er í stiga við hús.
Stefndi mótmælir því að hann eigi sök á umræddu atviki.
Því sé mótmælt að umræddur stigi hafi ekki hentað við aðstæður á slysstað. Stefndi telur að annar stigi, tréstigi, hafi einnig verið til taks á staðnum og því sé fullyrðing stefnanda um að þetta hafi verið eini stiginn á svæðinu, ekki rétt.
Því er mótmælt af hálfu stefnda, að nauðsynlegt hafi verið að reisa verkpalla kringum allt húsið. Þá byggi stefnandi á því í stefnu að verkstjórn hafi verið áfátt. Þessari málsástæðu mótmæli stefndi harðlega. Telur stefndi að lög nr. 46/1980 eigi ekki við um tilvik þetta, það falli utan gildissviðs laganna. Á því sé byggt að kennari hafi staðið mjög vel að þeirri kennslu sem hann veitti stefnanda og hann hafi í engu brotið gegn lögum eða starfsskyldum sínum.
Því sé mótmælt að ekkert virkt og markvisst eftirlit hafi verið haft með störfum stefnanda á vinnusvæðinu og að starfsmenn skólans hafi vanrækt skyldur sínar. Því sé mótmælt að kennari eða aðrir starfsmenn skólans hafi sýnt af sér saknæma og ólögmæta háttsemi. Því sé mótmælt að kennari hafi sýnt af sér gáleysi í starfi sínu við eftirlit með vinnu nemenda við sumarhúsið. Því sé mótmælt að stefndi hafi brotið reglur. Því sé mótmælt að verkstjórn eða vinnuaðstæðum við verkið hafi verið áfátt. Snjór og hálka hafi ekki útilokað að unnið væri við verkið en sú skylda hafi hvílt á stefnanda að taka tillit til þess við uppsetningu stigans.
Í stefnu sé á því byggt að stiginn hafi verið ófullnægjandi. Stefndi mótmælir þessu en byggir á því að stiginn hafi verið í fullkomnu lagi. Stefndi hafnar öllum málsástæðum sem snúi að því að stiginn hafi ekki verið fullnægjandi. Að auki hafi verið myndrænar leiðbeiningar á stiganum sjálfum. Bent sé á að Vinnueftirlit skoðaði stigann en gerði engar athugasemdir.
Verði talið að lög nr. 46/1980 og aðrar reglur sem þeim tengjast eigi við, sé á því byggt að ekki hafi af hálfu stefnda verið brotið gegn þeim.
Stefndi telur að ekki sé fullnægt skilyrðum 25. gr. laga nr. 91/1991 til að gera megi viðurkenningarkröfu, en ósannað sé að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni, a.m.k. að það sé að rekja til atviks þess sem lýst sé í stefnu. Stefnandi leggi fram skýrslu læknis sem gerð sé um einum mánuði eftir atvikið en ósannað sé með öllu að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni. Stefnandi beri sönnunarbyrði fyrir öllu sem viðurkenningarkröfu hans viðkemur, þ.m.t. sök, ólögmæti, sennilegri afleiðingu, orsakasambandi, tjóni o.fl.
Stefnandi hafi ekki rætt við kennara að einhver vandamál væru við notkun stiga vegna snjós og frosts.
Ekkert í reglum geri ráð fyrir því að óheimilt sé að nota stiga við störf í þeirri hæð sem stefnandi var við vinnu við húsið.
Þar sem um var að ræða lausan stiga sé ljóst að mati stefnda að ábyrgðin á uppsetningu hans hafi legið hjá stefnanda en stefnandi hafi haft töluverða reynslu auk þess að hafa setið áfanga um öryggismál eins og fyrr sé lýst. Á því sé byggt að stefnandi hafi verið fullfær um að reisa og nota umræddan stiga og leggja mat á aðstæður umrætt sinn. Því sé mótmælt að stiginn hafi ekki hentað við aðstæður á slysstað. Á því sé byggt að stefnandi hafi ekki komið stiganum rétt fyrir og ekki notað stigann rétt umræddan dag og eigi því sjálfur sök á því hvernig fór. Þá sé auk þess á það bent að stefnandi hafi unnið áfram eftir að félagi hans brá sér frá. Stefndi telur að eigin sök stefnanda auk sjónarmiða um samþykki og áhættutöku leiði til þess, auk þeirra atriða sem reifuð séu hér að framan, að sýkna eigi stefnda af kröfum stefnanda í máli þessu.
Stefndi bendir á misræmi í frásögn stefnanda en í lögregluskýrslu segist hann hafa lent á dregara sem fastur var við steypuklump en ekki á steypuklumpnum sjálfum eins og haldið sé fram í stefnu.
Verði ekki fallist á framangreind sjónarmið sé á því byggt að um hafi verið að ræða óhapp sem ekki sé bótaskylt.
Stefndi mótmælir málavaxtalýsingu og málsástæðum stefnanda.
Til vara krefst stefndi þess að hann verði aðeins talinn skaðabótaskyldur að hluta á slysi stefnanda og að málskostnaður verði felldur niður.
Stefndi byggir varakröfu á sömu sjónarmiðum og fram hafa komið hér að framan.
Stefndi byggir á því að stefnandi eigi sjálfur sök á slysinu eins og að framan er rakið, en einnig eigi að lækka bætur vegna áhættutöku og samþykkis.
Þess sé krafist vegna varakröfu að málskostnaður verði felldur niður.
Stefndi vísar til almennu skaðabótareglunnar og reglu um vinnuveitendaábyrgð og til almennra reglna skaðabótaréttar. Hann vísar einnig til sjónarmiða um eigin sök, áhættutöku og samþykki. Um málskostnaðarkröfu vísar hann til 130. gr. laga nr. 91/1991.
NIÐURSTAÐA
Stefnandi varð fyrir slysi í febrúar 2007, þegar stigi sem hann stóð í rann til í hálku. Féll hann úr stiganum og lenti á steyputrapísu, og spýtu festri við hana.
Í skýrslu Vinnueftirlitsins, dagsettri 10. júlí 2008, segir að ætla megi að aðalorsök slyssins hafi verið sú að stiginn hafi ekki verið traustlega festur, til að koma í veg fyrir að hann félli. Þá sé ekki ljóst hver halli stigans var, en hann eigi að vera um 75 gráður.
Ganga skal þannig frá lausum stigum að ekki sé hætta á að þeir velti eða skríði til, sbr. gr. 19.1, B-hluta IV. viðauka reglna nr. 547/1996. Þá skal koma í veg fyrir að færanlegir stigar renni til með því að festa efri og neðri enda með búnaði sem hindrar það, sbr. gr. 2.4.4. í reglugerð nr. 367/2006 um notkun tækja. Þegar slysið varð var vetur og stiginn rann til í hálkunni, sem fyrr segir. Kennari stefnanda lýsti því fyrir dómi hvernig mætti að festa stiga til að tryggja að hann rynni ekki.
Ekkert er fram komið sem bendir til að stefnandi hafi haft önnur tæki til afnota sem hentuðu betur en stiginn. Telja verður á hinn bóginn að það hefði verið nokkuð auðvelt að gera ráðstafanir til að auka öryggi stefnanda. Nú eru notaðir vinnupallar við sambærileg hús, einnig hefði verið unnt að festa stigann.
Kennari stefnanda bar ábyrgð á að vinnuaðstaða væri fullnægjandi, og honum bar skylda til að tryggja að öryggis væri gætt, sbr. 37, og 1. mgr. 23. gr. laga nr. 46/1980. Þá var rík ástæða til að hafa eftirlit með vinnunni, vegna veðurs. Þegar slysið varð var hann hins vegar við kennslu annars staðar. Fram kom hjá Þresti að á kennslutíma hefði hann haft eftirlit með hverjum og einum nemanda. Hann hafi leyft stefnanda að vinna vinnuna, þar sem stefnandi hafði reynslu og hafði einnig lokið öryggisnámskeiði. Þrátt fyrir þessa reynslu stefnanda, verður að virða kennaranum til vanrækslu að sjá ekki til þess að hann beitti verklagi, sem tryggt gæti öryggi hans betur. Verður stefndi því að bera skaðabótaábyrgð á tjóni stefnanda.
Í framlögðu læknisvottorði kemur fram að stefnandi hafi leitað á göngudeild 16. mars 2007 vegna slyssins. Afleiðingum slyssins er lýst, m.a. er getið um að stefnandi hafi stungið við og að tekin hafi verið röntgenmynd sem vakti grun um sprungu í spjaldhryggjarlið. Áverkum stefnanda er einnig lýst í slysaskráningu menntaskólans. Ekkert er fram komið sem þykir draga úr trúverðugleika stefnanda þegar hann segir að þessir áverkar séu afleiðing slyssins.
Við mat á eigin sök stefnanda verður að líta til þess að hann var nemandi við skólann og notaði þau verkfæri sem honum voru fengin. Stefnandi hafði sótt öryggisnámskeið, en þegar slysið varð var hann í verklegu námi, án eftirlits. Í ljósi þess sem hér er greint um verkstjórn, verður ekki fallist á að hann skuli bera hluta tjónsins sjálfur.
Krafa stefnanda verður skv. framansögðu tekin til greina.
Stefndi verður dæmdur til að greiða stefnanda 500.000 í málskostnað, og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Allan V. Magnússon héraðsdómari kvað upp dóminn.
D Ó M S O R Ð :
Viðurkennt er að stefnda, íslenska ríkið, sé bótaskylt gagnvart stefnanda, Birgi Fannari Péturssyni, vegna líkamstjóns sem stefnandi varð fyrir vegna slyss við nám í Menntaskólanum á Ísafirði 13. febrúar 2007.
Stefndi greiði stefnanda 500.000 krónur í málskostnað.