Hæstiréttur íslands
Mál nr. 98/2001
Lykilorð
- Kærumál
- Kæruheimild
- Vitni
- Meðdómsmaður
|
|
Þriðjudaginn 27. mars 2001. |
|
Nr. 98/2001. |
Hekla Tryggvadóttir(Karl Axelsson hrl.) gegn Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri (Árni Pálsson hrl.) |
Kærumál. Kæruheimild. Vitni. Meðdómsmenn.
Með vísan til b. liðar 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 kærði H úrskurð héraðsdóms þar sem heimilað var að teknar yrðu skýrslur fyrir dómi af fjórum mönnum í tengslum við áfrýjun F á dómi héraðsdóms í máli, sem H höfðaði gegn F. Var ekki fallist á það með F að skýra bæri kæruheimild b. liðar 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 svo þröngt, sem hann hélt fram. Kröfu F um frávísun málsins frá Hæstarétti var því hafnað. Krafa H um að hafnað yrði kröfu F um skýrslutökurnar var á því byggð að þar væri um að ræða gögn, sem hinn sérfróði héraðsdómur gæti ekki tekið afstöðu til áður en málið kæmi fyrir Hæstarétt og þetta bryti gegn rétti H til að um málið væri dæmt af sérfróðum mönnum, sbr. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 91/1991. Þessum sjónarmiðum H var hafnað, þar sem það væri meginregla laga nr. 91/1991 að einn dómari dæmdi mál, sbr. 1. mgr. 2. gr. laganna, og aðilar hefðu ekki forræði á því hvort meðdómsmenn væru kvaddir til starfa. Þá var með vísan til 76. gr. laga nr. 91/1991 ekki á það fallist með H að fyrri afstaða F um þörf á frekari sönnunarfærslu hefði falið í sér bindandi ráðstöfun sakarefnisins og ekki var það heldur talið ráða úrslitum um heimild F til umræddrar gagnaöflunar þótt hann hefði átt þess kost á fyrri stigum að hlutast til hana. Var niðurstaða héraðsdóms því staðfest.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 2. mars 2001, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 14. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. febrúar 2001, þar sem heimilað var að teknar yrðu skýrslur fyrir dómi af fjórum mönnum í tengslum við áfrýjun varnaraðila á dómi Héraðsdóms Norðurlands eystra 4. desember 2000 í máli, sem sóknaraðili höfðaði gegn varnaraðila. Um kæruheimild vísar sóknaraðili til b. liðar 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Hún krefst þess að hafnað verði kröfu varnaraðila um að umbeðnar skýrslur verði teknar. Hún krefst einnig málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti, en til vara að úrskurður héraðsdóms verði staðfestur. Hann krefst einnig kærumálskostnaðar.
I.
Varnaraðili styður aðalkröfu sína þeim rökum að kæruheimild í b. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 eigi hér ekki við. Með ákvæðinu sé veitt heimild til að kæra úrskurði, sem lúti að framkvæmd við töku skýrslna af aðilum og vitnum, en ekki hvort skýrslugjöf eigi að fara fram. Þessi niðurstaða verði meðal annars leidd af samanburði við kæruheimildir í eldri lögum, svo og af e. lið og f. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991. Samkvæmt síðastnefndu ákvæðunum sé aðeins gert ráð fyrir að synjun um heimild til að afla sönnunargagna verði kærð, en ekki úrskurðir þar sem fallist sé á beiðni um öflun slíkra gagna. Þar eð kæruheimild, sem vísað er til, eigi hér ekki við og ekki sé annarri til að dreifa, beri að vísa málinu frá Hæstarétti.
Samkvæmt e. lið áðurnefndrar lagagreinar sætir synjun héraðsdómara um heimild til að afla sönnunargagna fyrir öðrum dómi kæru til Hæstaréttar. Ákvæðið varðar úrlausnir héraðsdómara samkvæmt 3. mgr. 73. gr. sömu laga, en XI. kafli laganna, sem ákvæðið er í, hefur að geyma reglur um öflun sönnunargagna fyrir öðrum dómi en þar sem mál er rekið. Um öflun gagna í tengslum við rekstur máls fyrir æðra dómi er sérstaklega fjallað í 1. mgr. 76. gr. laganna, en samkvæmt henni skal þá beitt eftir því sem við getur átt ákvæðum 75. gr. sömu laga. Þar er hins vegar ekki vísað til 73. gr. laganna. Að þessu gættu kemur e. liður 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 heldur ekki til sérstakra álita við úrlausn um það hvort kæruheimild í málinu teljist vera fyrir hendi samkvæmt b. lið sömu málsgreinar.
Um skýringu á síðastnefndri kæruheimild verður að öðru leyti litið til ákvæðis c. liðar sömu greinar, sem varðar matsgerðir. Eru þessar tvær kæruheimildir settar fram með sama hætti í lögunum, en um þá síðarnefndu hefur áður verið dæmt að innan hennar rúmist kæra á úrskurði um að dómkvaðning matsmanns í tengslum við rekstur máls fyrir æðra dómi skuli fara fram, sbr. dóm Hæstaréttar 20. febrúar 2001 í máli nr. 44/2001. Vísun varnaraðila til f. liðar 1. mgr. 143. gr. sömu laga er haldlaus. Að gættu öllu því, sem að framan er rakið, verður ekki fallist á með varnaraðila að skýra beri kæruheimild b. liðar 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 svo þröngt, sem hann heldur fram. Verður aðalkröfu hans hafnað.
II.
Sóknaraðili styður kröfu sína þeim rökum að dómur í máli hennar gegn varnaraðila hafi verið kveðinn upp af fjölskipuðum dómi, sbr. 2. gr. laga nr. 91/1991. Annar meðdómsmaðurinn í því sé læknir. Varnaraðili hafi nú áfrýjað dóminum til Hæstaréttar og með beiðni sinni stefni hann sýnilega að því að leggja fram endurrit af nýjum skýrslutökum um ýmis sérfræðileg atriði. Þar sé um að ræða gögn, sem hinn sérfróði héraðsdómur geti ekki tekið afstöðu til áður en málið komi fyrir Hæstarétt. Telur sóknaraðili að hann eigi rétt til að um mál hans sé dæmt af sérfróðum mönnum líkt og 2. mgr. 2. gr. laga nr. 91/1991 geri ráð fyrir. Þurfi hann ekki að una því að sérfræðilegs álits sé aflað með þessum hætti eftir að sérfróður héraðsdómur hafi dæmt málið. Jafnframt þessu reisir sóknaraðili kröfu sína á því að varnaraðili sé bundinn af yfirlýsingu sinni við aðalmeðferð málsins og ráðstöfun sakarefnisins, sem í henni hafi falist, en þar hafi báðir aðilar lýst yfir að þeir tækju framlagðar matsgerðir og skjöl sem staðfest væru og teldu ekki þörf á frekari skýrslutökum.
Meginregla laga nr. 91/1991 er sú að einn dómari dæmir mál, sbr. 1. mgr. 2. gr. laganna. Undantekning frá aðalreglunni felst í 2. mgr. og 3. mgr. sömu greinar, þar sem héraðsdómara er að tilteknum skilyrðum uppfylltum veitt heimild til að kveðja meðdómsmenn til setu í dómi með sér. Ákvörðun um það er tekin af dómara og hafa málsaðilar ekki forræði á því hvort meðdómsmenn verði kvaddir til starfa. Skiptir afstaða þeirra til þess ekki máli. Er því haldlaus sú viðbára sóknaraðila að hún eigi rétt til þess að um mál hennar sé dæmt af sérfróðum mönnum.
Í yfirlýsingu málsaðila fyrir héraðsdómi, sem sóknaraðili vísar til, kemur fram það mat þeirra að tiltekin sönnunarfærsla sé óþörf. Samkvæmt 76. gr. laga nr. 91/1991 er málsaðilum heimilt að afla frekari gagna í tengslum við rekstur máls fyrir æðra dómi. Varnaraðili telur nú þörf á sönnunarfærslu, sem hann taldi áður óþarfa. Verður ekki fallist á að fyrri afstaða hans í þessum efnum hafi falið í sér bindandi ráðstöfun sakarefnisins, svo sem sóknaraðili heldur fram. Ræður heldur ekki úrslitum um heimild hans til að afla gagna nú þótt hann hafi átt þess kost á fyrri stigum að hlutast til um að skýrslur yrðu teknar af umræddum mönnum. Að þessu virtu og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdómara verður hinn kærði úrskurður staðfestur.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Kærumálskostnaður fellur niður.