Hæstiréttur íslands

Mál nr. 618/2007


Lykilorð

  • Kærumál
  • Farbann


Þriðjudaginn 27

 

Þriðjudaginn 27. nóvember 2007.

Nr. 618/2007.

Ríkissaksóknari

(Ragnheiður Harðardóttir, vararíkissaksóknari)

gegn

X

(Stefán Bogi Sveinsson hdl.)

 

Kærumál. Farbann.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta farbanni samkvæmt b. lið 1. mgr. 103. gr. og 110. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 20. nóvember 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 21. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. nóvember 2007, þar sem varnaraðila var bönnuð för frá Íslandi meðan á meðferð máls vegna framsalsbeiðni á hendur honum stendur, þó eigi lengur en til mánudagsins 10. desember 2007, kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. 24. gr. laga nr. 13/1984 um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

I.

Hinn 6. september 2007 barst beiðni frá dómsmálayfirvöldum í Litháen, heimalandi varnaraðila, um að hann skyldi framseldur þangað vegna þátttöku í fimm þjófnaðarbrotum þar í landi. Í Héraðsdómi Reykjavíkur var varnaraðili 11. september 2007 úrskurðaður í gæsluvarðhald til 1. október 2007 í því skyni að tryggja nærveru hans meðan krafan um framsal væri til meðferðar. Þessi úrskurður var felldur úr gildi með dómi Hæstaréttar 13. september 2007 í máli nr. 470/2007 en varnaraðila þess í stað bönnuð brottför frá landinu. Varnaraðili mun hafa sætt farbanni frá þeim tíma.

Dómsmálaráðherra ákvað 8. október 2007 að fallast á beiðni um framsal. Þeirri ákvörðun skaut varnaraðili til dómstóla. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 22. október 2007 var synjað kröfu varnaraðila um að felld yrði úr gildi fyrrgreind ákvörðun dómsmálaráðherra um framsal. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar. Tefldi hann meðal annars fram þeim rökum að í ákvæði 1. mgr. 3. gr. laga nr. 13/1984, þar sem fram koma skilyrði fyrir framsali, væri ekki miðað við refsiramma sambærilegs íslensks lagaákvæðis og þess sem viðkomandi á að hafa brotið gegn í Litháen, líkt og sóknaraðili heldur fram. Þess í stað þyrftu dómstólar að meta hvaða refsingu varnaraðila yrði gert að sæta að íslenskum lögum fyrir þau tilgreindu brot sem framsalskrafa væri reist á. Í dómi Hæstaréttar 12. nóvember 2007 í málinu nr. 569/2007 kom fram að til meðferðar væru hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu fjögur mál vegna ætlaðra brota varnaraðila hér á landi. Um væri að ræða þjófnað, eignaspjöll, umferðarlagabrot og fíkniefnalagabrot. Þótti málatilbúnaður sóknaraðila vera með þeim hætti að hann gæti aldrei leitt til þeirrar niðurstöðu sem hann krafðist. Af þeirri ástæðu var framangreind ákvörðun dómsmálaráðherra um framsal varnaraðila felld úr gildi, en jafnframt tekið fram að ekki þyrfti að taka afstöðu til áðurnefnds álitaefnis um skýringu á 1. mgr. 3. gr. laga nr. 13/1984.

Hinn 9. nóvember 2007 gekkst varnaraðili undir viðurlagaákvörðun í Héraðsdómi Reykjaness fyrir þjófnað, eignaspjöll og umferðarlagabrot. Upplýsingar um þessa afgreiðslu málsins munu hafa borist ríkissaksóknara 12. nóvember 2007. Hinn 13. nóvember 2007 tók dómsmálaráðherra á ný ákvörðun um að framselja skyldi varnaraðila til Litháen. Varnaraðili hefur kært þá ákvörðun til Héraðsdóms Reykjavíkur sem hefur málið til meðferðar.

II.

Samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laga nr. 13/1984 má við rannsókn vegna framsalsbeiðni beita þeim þvingunaraðgerðum sem lög um meðferð opinberra mála heimila við rannsókn sambærilegra sakamála. Framangreindum þvingunaraðgerðum má beita uns úr því er skorið hvort framsal skuli fram fara og síðan þangað til framsal er framkvæmt sé það heimilað. Samkvæmt þessu og með vísan til b. liðar 1. mgr. 103. gr., sbr. 110. gr. laga nr. 19/1991, þykir mega fallast á framkomna kröfu sóknaraðila um farbann meðan framsalsbeiðnin er til meðferðar hjá dómstólum til þess tíma sem greinir í hinum kærða úrskurði. Verður hann því staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

                                Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. nóvember 2007.

Ríkissaksóknari hefur krafist þess með vísan til b- liðar 1. mgr. 103. gr., sbr. 110. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, og 1. mgr. 18. gr. laga um framsal sakamanna o.fl. nr. 13/1984, að kærða, X, kt. [...], verði með úrskurði gert að sæta áframhaldandi farbanni meðan á meðferð máls vegna framsalsbeiðni á hendur honum stendur, þó eigi lengur en til föstudagsins 14. desember 2007, kl. 16:00.

Í greinargerð ríkissaksóknara kemur fram að hinn 6. september sl. hafi dómsmála­ráðuneytinu borist með símbréfi beiðni ríkissaksóknara Litháen um framsal X, litháísks ríkisborgara, sem búsettur sé að [heimilisfang], Kópavogi.

Samkvæmt framsalsbeiðninni og gögnum, sem henni fylgdu, sæti kærði rannsókn lögreglu í Raseiniai sýslu í Litháen vegna fimm þjófnaðarbrota, sem hann sé grunaður um að hafa framið í félagi við aðra á tímabilinu frá júlí til október árið 2006, með því að hafa brotist inn í íbúðarhús og atvinnuhúsnæði á tilgreindum stöðum í Raseiniai og haft á brott með sér nánar tilgreinda muni, að verðmæti um 230.000 krónur. 

Háttsemin, sem um ræði, geti varðað við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Framsalsbeiðninni hafi fylgt handtökuskipun, útgefin af héraðsdómstólnum í Raseiniai sýslu, dags. 27. ágúst 2007.

Með bréfi frá dómsmálaráðuneytinu, dags. 11. september 2007,  hafi ríkissaksóknara borist framsalsbeiðnin til meðferðar, sbr. 2. mgr. 13. gr. laga um framsal sakamanna o.fl. nr. 13/1984. Ríkissaksóknari hafi gefið ráðuneytinu umsögn um lagaskilyrði til framsals með bréfi, dags. 3. október sl.

Í bréfi dómsmálaráðuneytisins til ríkissaksóknara, dags. 8. október 2007, hafi komið fram, að ráðuneytið hefði ákveðið að verða við beiðni litháískra dómsmálayfirvalda um framsal. Eftir að kærða hafi verið kynnt ákvörðunin, hafi hann óskað eftir því við ríkissaksóknara, að leitað yrði úrskurðar Héraðsdóms Reykjavíkur um hvort skilyrði laga um framsal væru fyrir hendi, sbr. 1. og 2. mgr. 14. gr. laga nr. 13/1984.  

Með úrskurði héraðsdóms, uppkveðnum 29. október sl., í máli nr. R-545/2007, hafi fyrrnefnd ákvörðun dómsmálaráðherra verið staðfest. Varnaraðili hafi kært úrskurðinn til Hæstaréttar sem felldi ákvörðun dómsmálaráðherra úr gildi með dómi uppkveðnum 12. nóvember sl. Meirihluti dómsins hafi komist að þeirri niðurstöðu að skilja ætti 10. gr. laga nr. 13/1984 svo að óheimilt væri að framselja varnaraðila þar sem fram kæmi í gögnum málsins að til meðferðar væru hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu fjögur mál vegna ætlaðra brota hans hér á landi.

Með viðurlagaákvörðun Héraðsdóms Reykjaness, dagsettri 9. nóvember sl., hafi varnaraðila verið ákvörðuð refsing vegna umræddra mála og sé þeim nú lokið. Ekkert mál sé því nú til meðferðar hjá lögreglu vegna hans.

Með bréfi til ríkissaksóknara, dags. 13. nóvember, hafi dómsmálaráðherra tekið á ný ákvörðun um framsal varnaraðila til Litháen. Sú ákvörðun hafi verið kynnt honum og hafi hann lýst því yfir að hann óski eftir úrskurði héraðsdóms um það hvort skilyrði framsals séu fyrir hendi, sbr. 1. mgr. 14. gr. laga nr. 13/1984.

Kærði hafi sætt farbanni samkvæmt dómi Hæstaréttar uppkveðnum hinn 13. september 2007 í máli nr. 470/2007 og úrskurðum Héraðsdóms Reykjavíkur í málum nr. R-467/2007 og 544/2007.

Kærði sé erlendur ríkisborgari. Til að tryggja að hann hverfi ekki af landi áður en meðferð málsins ljúki þykir nauðsynlegt að hann sæti áframhaldandi farbanni. Þá er bent á að samkvæmt gögnum sem hafi fylgt framsalsbeiðninni hafi kærði í heimalandi sínu brotið gegn skriflegri yfirlýsingu um að fara ekki af landi brott og hafi af þeim sökum verið gefin út handtökuskipun á hendur honum.

Með vísan til ofangreinds, framlagðra gagna, b. liðar 1. mgr. 103. gr., sbr. 110. gr. laga nr. 19/ 1991 um meðferð opinberra mála, og 1. mgr. 18. gr. laga um framsal sakamanna o.fl. nr. 13/1984, sé þess beiðst að ofangreind krafa nái fram að ganga.

Í framangreindum dómi Hæstaréttar frá 12. nóvember sl., í máli nr. 569/2007, er vísað til þess að til meðferðar séu hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu fjögur mál vegna ætlaðra brota kærða hér á landi. Fyrir liggur að þeim málum hefur verið lokið með viðurlagaákvörðun. Dómsmálaráðuneytið tók ákvörðun að nýju um framsal kærða. Ákvörðunin var kynnt kærða fyrir dómi í dag og óskaði hann eftir úrskurði héraðsdóms um hana, sbr. 14. gr. laga nr. 13/1984.  Samkvæmt öllu framansögðu verður kærða með vísan til b. liðar 1. mgr. 103. gr., sbr. 110. gr. laga nr. 19/1991, bönnuð brottför af landinu á meðan framsalskrafa þessi er til meðferðar, en henni verður markaður skemmri tími, svo sem nánar greinir í úrskurðarorði.

Sandra Baldvinsdóttir settur héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Kærða, X, kt. [...], er bönnuð brottför frá Íslandi meðan á meðferð máls vegna framsalsbeiðni á hendur honum stendur, þó eigi lengur en til mánudagsins 10. desember 2007, kl. 16.00.