Hæstiréttur íslands
Mál nr. 286/2010
Lykilorð
- Líkamsárás
- Skilorð
- Skaðabætur
- Miskabætur
|
|
Fimmtudaginn 25. nóvember 2010. |
|
Nr. 286/2010. |
Ákæruvaldið (Hulda Elsa Björgvinsdóttir settur saksóknari) gegn X (Sveinn Andri Sveinsson hrl.) (Erlendur Gíslason hrl. f.h. brotaþola) |
Líkamsárás. Skilorð. Skaðabætur. Miskabætur.
X var sakfelldur fyrir brot gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga, með því að hafa sparkað tvisvar sinnum í höfuð brotaþola á skemmtistað í miðbæ Reykjavíkur svo að hann hlaut af áverka á andliti. Var héraðsdómur staðfestur um annað en refsingu X og hann dæmdur í 12 mánaða fangelsi, skilorðsbundið að hluta, og til greiðslu skaðabóta til handa brotaþola.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 6. apríl 2010 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að ákærði verði sakfelldur samkvæmt ákæru og að refsing verði þyngd.
Ákærði krefst aðallega sýknu af ákæru að öðru leyti en því að hafa sparkað einu sinni í höfuð brotaþola, A, en til vara er krafist refsilækkunar þótt sakfellt verði samkvæmt ákæru. Þá krefst hann lækkunar á dæmdum bótum til handa brotaþola og þess að þóknun réttargæslumanns brotaþola í héraði greiðist úr ríkissjóði.
Brotaþoli krefst staðfestingar héraðsdóms um skaðabætur sér til handa.
Ekki eru efni til að fallast á að mat héraðsdóms á sönnunargildi munnlegs framburðar sé rangt svo einhverju skipti fyrir úrslit málsins. Þótt ekki verði fullyrt um hversu oft ákærði sparkaði í höfuð tjónþola þar sem hann lá á gólfi veitingastaðarins Apóteksins við Austurstræti er sannað að ákærði sparkaði oftar en einu sinni. Verður við það miðað að hann hafi sparkað tvisvar sinnum í höfuð tjónþola sem hlaut svokallaða háorkuáverka á andliti, svo sem fram kom í vætti Guðmundar Ásgeirs Björnssonar munn- og kjálkaskurðlæknis fyrir héraðsdómi. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um sakfellingu ákærða. Þegar litið er til atvika allra og afleiðinga árásar ákærða verður refsing hans ákveðin fangelsi í 12 mánuði. Á hinn bóginn verður fallist á með héraðsdómi að binda refsinguna skilorði að hluta, eins og greinir í dómsorði.
Ákvæði héraðsdóms um skaðabætur og sakarkostnað verða staðfest.
Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns og málskostnað brotaþola fyrir Hæstarétti, sem ákveðast að meðtöldum virðisaukaskatti, eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Ákærði, X, sæti fangelsi í 12 mánuði en fresta skal fullnustu 9 mánaða af refsingunni og sá hluti hennar niður falla að liðnum 3 árum frá uppkvaðningu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Ákvæði héraðsdóms um skaðabætur og sakarkostnað skulu vera óröskuð.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins 373.348 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 251.000 krónur og málskostnað A fyrir Hæstarétti, 100.400 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 25. mars 2010.
Mál þetta, sem dómtekið var 5. mars sl., er höfðað með ákæru útgefinni af ríkissaksóknara 7. desember 2009 á hendur X, kt. 000000-0000, [...], Kópavogi, fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás aðfaranótt 14. febrúar 2009, á skemmtistaðnum Apótekinu, Austurstræti 5, Reykjavík, með því að hafa ráðist á A, kennitala 000000-0000, slegið hann í höfuðið og sparkað ítrekað í höfuð hans þar sem hann lá með þeim afleiðingum að hann hlaut brot í nefrót sem lá gegnum botninn á vinstri augntóft, brot í hægra kinnbeini, brot í kinnbeinsboga vinstra megin, bólgu á kinnbeini og nefi og sár yfir nefbeini, auk þess sem tennur brotnuðu og sprungu.
Telst háttsemi ákærða varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.
Af hálfu A er krafist skaðabóta að fjárhæð 1.540.069 krónur auk vaxta skv. 8. gr., sbr. 4. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 14. febrúar 2009 til greiðsludags. Dráttarvaxta er krafist frá dómsuppsögu. Þá er krafist greiðslu kostnaðar vegna lögmannsaðstoðar að mati dómara eða samkvæmt síðar framlögðum reikningi, auk virðisaukaskatts á málskostnað.
Verjandi ákærða krefst þess að ákærða verði dæmd vægasta refsing er lög leyfa, sem jafnframt verði skilorðsbundin að öllu leyti. Þá krefst verjandi lækkunar á bótakröfu og málsvarnarlauna sér til handa.
Málsatvik
Samkvæmt dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu frá mánudeginum 16. febrúar 2009, hafði B samband við lögreglu og sagði frá því að sonur hans, A, hefði orðið fyrir stórfelldri líkamsárás á veitingastaðnum Apótekinu við Austurstræti aðfaranótt laugardagsins 14. febrúar. Hefði ákærði „lamið hann til óbóta“ þar sem hann hefði verið í fylgd með fyrrverandi kærustu ákærða, C. A væri tvíkinnbeinsbrotinn og kjálkabrotinn, auk annarra áverka og hefði hann gengist undir aðgerð vegna þessa.
Lögregla ræddi við A á sjúkrahúsi samdægurs. Sagðist A hafa verið að skemmta sér aðfaranótt laugardagsins ásamt C og hefðu þau farið á veitingastaðinn Apótekið. Þegar þau gengu þar inn hefði C hitt mann sem hann þekkti ekki. Hefði C farið að ræða við manninn, en A sagðist hafa staðið rétt hjá þeim. Hefði maðurinn spurt hann um nafn og hann sagt honum það. Minnti A að maðurinn hefði farið að ásaka hann um að hafa sofið hjá C. Hann sagðist svo ekki muna eftir sér fyrr en hann vaknaði upp úr roti inni í eldhúsi veitingastaðarins og hefðu dyraverðir verið hjá honum ásamt C. A sagðist ekkert muna eða vita hvað hefði komið fyrir, en C hefði sagt honum að maðurinn sem hún var að tala við hefði kýlt hann niður og sparkað nokkrum sinnum í andlit hans þar sem hann hefði legið meðvitundarlaus. Hefði C sagt honum að það hefði verið fyrrverandi unnusti hennar, ákærði í máli þessu, sem hefði ráðist á hann.
C gaf skýrslu hjá lögreglu miðvikudaginn 18. febrúar og var skýrslan tekin upp á hljóð- og myndband. Við upphaf skýrslutökunnar óskaði C eftir því að nafni hennar yrði leynt vegna vitnisburðarins. Sagði hún ákærða margoft hafa ráðist að sér og hefði hann haft í hótunum við hana ef hún myndi skýra frá. Hann myndi líklega leggja hana í einelti vegna skýrslutökunnar. C sagðist hafa komið með A á veitingastaðinn Apótekið um klukkan fjögur umrædda nótt. Þau hefðu verið nýkomin inn, staðið við barinn og A haldið í hönd hennar, þegar hún hefði séð ákærða sem þar hefði verið ásamt vini sínum. Ákærði hefði gengið til hennar og beðið hana um að tala við sig, en þau hefðu nýlega slitið sambandi þegar þetta var. Hefði ákærði sagst elska hana og spurt hvað hún væri að gera með þessum strák. A hefði þá komið að þeim og spurt: „Hvað er málið“, eða eitthvað slíkt. Þá hefði ákærði brjálast og kýlt A í andlitið svo að hann datt í gólfið og sparkað svo í höfuðið á honum „nokkrum sinnum, svona fimm sinnum eða eitthvað, ég veit það ekki, ég taldi það ekki“. Eftir þetta hefði ákærði hlaupið út af staðnum. Þetta hefði gerst mjög hratt. Nánar spurð hversu mörg högg ákærði hefði kýlt A í andlitið svaraði C: „Ég veit það ekki, ég sá eitt það getur verið að það hafi verið tvö. Ég veit það ekki.“ Þá sagðist hún giska á að ákærði hefði sparkað fimm eða sex sinnum í höfuð A þar sem hann lá.
Ákærði var handtekinn af lögreglu miðvikudaginn 18. febrúar og færður til skýrslutöku. Ákærði, sem er laganemi við Háskóla Íslands, sagðist hafa tekið þátt í skipulagðri dagskrá fyrir norræna laganema föstudaginn 13. febrúar. Að því loknu hefði hann farið til vinnu á veitingastað. Hann hefði farið að skemmta sér að lokinni vinnu um miðnætti og farið niður í miðbæ Reykjavíkur. Þar hefði hann hitt tvær norskar lagastúdínur og þau gengið saman vestur á Eggertsgötu, þar sem ákærði bjó. Hefði þetta verið á milli klukkan 1 og 2 um nóttina og hann hefði farið að sofa um það leyti. Ákærði sagðist ekki kannast við sakarefnið og ekki hafa komið á veitingastaðinn Apótekið þessa nótt. Hann vísaði á bug framburði A, sem borinn var undir hann.
Í framhaldi af skýrslutöku var ákærði í Héraðsdómi Reykjavíkur úrskurðaður í vikulangt gæsluvarðhald á grundvelli a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Samkvæmt skýrslu lögreglu óskaði ákærði í kjölfarið eftir því að fá að gefa skýrslu á ný. Var skýrslan tekin upp á hljóð- og myndband. Verjandi, sem ákærða hafði verið tilnefndur á rannsóknarstigi, var viðstaddur skýrslutöku. Sagði ákærði frá því að eftir miðnætti aðfaranótt laugardagsins 14. febrúar hefði hann farið í samkvæmi á heimili vinar síns, D, á Brávallagötu. Hefðu þeir D og einhverjir fleiri síðan gengið niður í miðbæ og farið á veitingastaðinn Apótekið. Þar hefði hann séð fyrrverandi kærustu sína við barinn, en þau hefðu slitið sambandi um viku eða hálfum mánuði fyrr. Hefði einhver strákur verið þarna með henni. Ákærði sagðist hafa farið að ræða við stúlkuna, en strákurinn sagt honum að láta hana í friði og ýtt tvívegis við honum. Sagði ákærði að fokið hefði í hann við þetta. Hefði hann tekið í höku stráksins, ýtt honum frá og sagt honum að „drulla sér í burtu“. Strákurinn hefði hins vegar komið aftur og ýtt eitthvað við honum. Ákærði sagðist ekki muna eftir að hafa kýlt strákinn, en muna eftir því að hann hefði „hent honum niður í jörðina“. Sagðist ákærði muna eftir því að strákurinn „lá á jörðinni og ég man eftir því að ég tók allavega tvö spörk í andlitið á honum“. Eftir þetta hefði D komið og fengið hann á brott með sér. Ákærði sagðist hafa gert þetta í stundarbrjálæði. Nánar aðspurður sagði ákærði að sér fyndist eins og hann hefði ýtt við stráknum svo að hann féll niður. Á upptökunni sést ákærði sýna hvernig hann minnti að þetta hefði átt sér stað og jafnframt hvernig hann hefði sparkað tvívegis í manninn liggjandi. Um ástæður fyrir breyttum framburði sagði ákærði þetta vera mikinn „áfellisdóm“ fyrir sig þar sem hann stundaði laganám og gæti orðið til þess að skaða starfsmöguleika hans. Hefði hann verið til í að borga brotaþolanum hvað sem hann færi fram á ef hann vildi falla frá kæru. Hann hefði þó ekki vitað að brotaþoli væri svo alvarlega slasaður.
Meðal gagna málsins er læknisvottorð Hlyns Þorsteinssonar, sérfræðings á slysa- og bráðadeild Landspítala-háskólasjúkrahúss, dagsett 17. febrúar 2009, þar sem kemur fram að A hafi leitað á deildina 14. sama mánaðar klukkan 4:13 eftir að hafa orðið fyrir líkamsárás. Hefði hann verið bólginn um nef og kinnbein, auk þess sem virst hefði sem kvarnast hefði upp úr tveimur eða þremur tönnum í neðri góm. Hefði hann verið sendur heim með verkjalyf. A hefði komið aftur á slysadeild síðdegis daginn eftir vegna verkja og vaxandi bólgu. Hefði hann þá verið búinn að fá skoðun tannlæknis. Á sneiðmyndum sem teknar voru af andlitsbeinum hefði sést brot í nefrót sem lá í gengum botninn á vinstri augntóft, með 2 til 3 mm tilfærslu. Þá hefðu verið brot í hægra kinnbeini og kinnbeinsboga vinstra megin. Var hann í kjölfarið lagður inn á háls-, nef- og eyrnadeild.
Samkvæmt vottorði Guðmundar Ásgeirs Björnssonar, sérfræðings í munn- og kjálkaskurðlækningum, dagsettu 11. september 2009, gekkst A undir aðgerð daginn sem hann lagðist inn á háls-, nef- og eyrnadeild. Var brotum í efri kjálka, nef- og kinnbeini lokað og tennur efri og neðri kjálka víraðar saman. Voru vírar fjarlægðir 18. mars 2009.
Þá liggur fyrir vottorð Hrannar Róbertsdóttur tannlæknis, dagsett 13. maí 2009, þar sem kemur fram að klínísk skoðun og röntgenskoðun hafi leitt í ljós að tennur 12, 31, 41 og 42 hafi brotnað illa. Brotnað hafi upp úr tönnum 32 og 43 og sprungur séu sjáanlegar í tönnum 11, 12, 21, 31, 41 og 42.
Verður nú rakinn framburður ákærða og vitna fyrir dómi.
Ákærði neitaði að hafa slegið A í höfuðið eins og lýst er í ákæru, en játaði að hafa sparkað einu sinni í höfuð hans. Ákærði sagðist hafa farið með vini sínum á veitingastaðinn Apótekið í umrætt sinn. Þar hefði hann séð C, sem hann hefði talið vera kærustu sína á þessum tíma, en þau hefðu þó rifist nokkrum dögum fyrr. C hefði verið að leiða einhvern strák og þau gert sér dælt hvort við annað. Ákærði sagðist hafa spurt C hvort hann mætti tala við hana, en strákurinn hefði sagt honum að fara í burtu. Hann hefði loksins náð að tala við C og spurt hana hvað hún væri að gera með þessum strák. Hefði strákurinn þá komið aftur að, reynt að stöðva samræðurnar og hreytt einhverju í ákærða. Þá hefði strákurinn ýtt við honum. Ákærði sagðist hafa sagt honum að hafa sig á brott, en strákurinn þá ýtt aftur við honum svo að hann féll við. Í kjölfarið hefði komið til ryskinga á milli þeirra, sem hefði lyktað með því að strákurinn féll í jörðina og ákærði sparkaði í hann. Sagðist ákærði ekki vera viss um að sparkið hefði lent framan í stráknum, verið gæti að hann hefði sparkað í hnakka hans. Þeir hefðu tekist á með höndum, en ákærði svo náð að bregða fæti fyrir strákinn svo að hann féll.
Ákærði gerði athugasemdir við skýrslutöku hjá lögreglu og sagði lögreglumenn sem hana önnuðust hafa haft áhrif á framburð sinn. Hefðu þeir með látbragði sýnt skoðun sína á framburði hans og hann hagað framburði sínum eftir því. Þegar hann hefði sagst hafa sparkað einu sinni, hefðu þeir sagt að spörkin hefðu verið fleiri og þannig sáð efa í huga hans. Hann hefði verið búinn að vera í haldi í 12 til 13 tíma og viljað losna. Lögreglumennirnir hefðu viljað að hann sýndi hvernig hann sparkaði tvisvar og hann hefði gert það. Ákærði sagðist hins vegar vera viss um að hann hefði aðeins sparkað einu sinni. Hann taldi sig hafa sagt það við skýrslutökuna, en lögreglumennirnir hefðu ekki verið nógu sáttir við það, svo að hann hafi sagst „kannski“ hafa sparkað tvisvar.
Ákærði sagði þau C nú eiga barn saman og hefði hann grunað að hún væri barnshafandi þegar atvikið átti sér stað.
Vitnið A sagðist hafa komið inn á veitingastaðinn Apótekið með C og hefðu þau séð ákærða þar inni. Ákærði hefði komið til þeirra og farið að ræða við C, en A sagðist þá hafa farið að barnum. Honum hefði svo sýnst ákærði ýta við C og því farið til hennar og sagt að þau þyrftu ekki að vera þarna, heldur gætu bara farið. Hann hefði gengið aftur að barnum, en ákærði þá elt hann og farið að saka hann um að hafa sofið hjá C. Næst sagðist A muna eftir sér þegar dyravörður var að aðstoða hann eftir atlöguna og hefði fossblætt úr nefi hans. A sagðist ekki hafa þekkt C fyrir þetta kvöld. Þá hefði hann ekki snert ákærða og vísaði því á bug að hann hefði ýtt við honum.
Vitnið C sagðist hafa verið með A á veitingastaðnum og hefðu þau haldist í hendur, þegar hún sá ákærða við barinn. Hefði hún sagt A að þetta væri fyrrverandi kærasti hennar. Ákærði hefði komið til þeirra og leitt hana frá A. Hann hefði sagst elska hana og spurt hvað hún væri að gera með þessum strák. A hefði komið til þeirra, spurt hvort ekki væri allt í lagi eða hvað væri í gangi og ýtt við ákærða. Hefðu þeir ákærði lent í ryskingum og ákærði hrint A eða kýlt hann svo að hann féll í jörðina. Síðan hefði ákærði sparkað einu sinni í höfuð A. C sagði ekki rétt sem kæmi fram í lögregluskýrslu hennar um fjölda sparka. Lögreglumenn sem tóku skýrsluna hefðu neytt hana til að nefna einhverja tölu. Hún hefði margsagt að hún vissi ekki hversu oft ákærði hefði sparkað, en lögreglumennirnir hefðu þráspurt hana um þetta. Hún hafi giskað á að spörkin hefðu verið fimm. C sagðist hafa verið ölvuð, auk þess sem þetta hefði gerst hratt og hún hefði staðið í svolítilli fjarlægð. Hún vissi að ákærði hefði sparkað einu sinni í A, en gæti ekki sagt til um hvort hann gerði það oftar. A hefði verið mjög slasaður eftir þetta og hefði það ef til vill átt sinn þátt í því að hún hefði giskað á að ákærði hefði sparkað oftar en hann í rauninni gerði. Henni hefði fundist lögreglan vera að þvinga sig til að lýsa atvikum betur en hún mundi og fundist hún tilneydd að búa til einhverja frásögn sem hún mundi ekki nógu vel eftir.
Vitnið D sagðist hafa verið með ákærða á veitingastaðnum Apótekinu í umrætt sinn. Þeir hefðu séð C með einhverjum strák. Hefði ákærði ætlað að ræða eitthvað við C, en strákurinn verið á milli þeirra og ýtt ákærða frá. Af þessu hefði orðið orðaskak og strákurinn ýtt ákærða aftur frá. Einhverjar ryskingar hefðu orðið á milli þeirra, sem enduðu með því að strákurinn féll í jörðina. Eftir það hefðu þeir ákærði farið út af veitingastaðnum. D sagðist ekki hafa séð ákærða sparka í strákinn. Þá myndi hann ekki eftir því að hafa séð ákærða sparka í átt til stráksins þar sem hann lá, eins og haft var eftir honum í lögregluskýrslu.
Vitnið Hlynur Þorsteinsson gerði grein fyrir læknisvottorði sem hann ritaði vegna málsins. Vitnið sagði hugsanlegt að spark í andlit hefði valdið áverkum A, eitt þungt högg sem kæmi framan á andlit. Höggið þyrfti að vera „nokkuð þungt“ eða „bærilega þétt“ til að valda þeim beinbrotum sem um var að ræða.
Vitnið Hrönn Róbertsdóttir sagði þrjár framtennur fyrir miðju í neðri góm A hafa brotnað illa, sem og eina framtönn í efri góm. Jafnframt hefði flísast upp úr fleiri tönnum og komið sprungur, eins og tennurnar hefðu skollið saman, eða skollið á eitthvað.
Vitnið Guðmundur Ásgeir Björnsson sagði efri kjálka brotaþola, kinnbein, nefbein og augntóft hafa brotnað í ákveðnu mynstri. Nokkuð mikið högg þurfi til að brjóta bein á þennan hátt. Spark, fremur en fall, hljóti að hafa valdið þessu þar sem bein voru innkýld. Eitt þungt högg hefði getað valdið þessum áverkum, en höggin gætu líka hafa verið fleiri. Vitnið sagði slík högg geta verið hættuleg. Mikið væri af æðum þarna við og dauðsföll af völdum kjálkabrots væru þekkt. Svona spark geti verið lífshættulegt. Ef um eitt högg eða spark hefði verið að ræða væri líklegast að það hefði lent undir kinnbeini brotaþola vinstra megin og undir nefrótinni. Slíkt högg gæti losað neðri og efri kjálka, nefbein og kinnbein. Taldi vitnið líklegt að höggið hefði lent þannig á brotaþola. Vitnið sagði ólíklegt að áverkar af þessu tagi væru tilkomnir við fall. Þetta væri „háorkuáverki“ og sagðist vitnið ekki hafa séð svona innkýldan áverka við fall.
Niðurstaða
Ákærði neitar að hafa slegið A í höfuðið eins og lýst er í ákæru, en játar að hafa sparkað einu sinni í höfuð hans þar sem hann lá á gólfi veitingarstaðarins. Við skýrslutöku hjá lögreglu sagðist ákærði ekki muna eftir að hafa „kýlt“ A, en muna eftir að hafa „hent honum í jörðina“. Þá sagðist ákærði muna eftir að hafa tekið „allavega tvö spörk í andlitið á honum“ og sýndi ákærði við skýrslutökuna hvernig hann hefði borið sig að þegar hann sparkaði. C, eina vitnið sem borið hefur um atlöguna, sagði við skýrslutöku hjá lögreglu að hún hefð séð ákærða „kýla“ A eitt eða tvö högg í andlitið svo að hann féll í gólfið. Hefði ákærði sparkað fimm eða sex sinnum í höfuð A þar sem hann lá. Við aðalmeðferð málsins bar C hins vegar að komið hefði til ryskinga milli ákærða og A og hefði ákærði hrint A eða kýlt hann svo að hann féll í jörðina. Síðan hefði ákærði sparkað einu sinni í höfuð A, en hún sagðist ekki geta sagt til um hvort hann sparkaði oftar. Ákærði og C hafa skýrt misræmi í framburði við skýrslutöku hjá lögreglu og fyrir dómi þannig að lögreglumenn sem önnuðust skýrslutöku hafi þrýst á þau að lýsa atvikum með þeim hætti sem þau þar gerðu.
Í málinu liggja fyrir hljóð- og myndbandsupptökur af umræddum skýrslum ákærða og C, sem dómari hefur kynnt sér. Ekkert kemur þar fram sem styður fullyrðingar um að lögregla hafi haft áhrif á skýrslugjöf þeirra eða að þau hafi verið beitt þrýstingi við skýrslugjöfina. Jafnframt er til þess að líta að ákærði gaf skýrslu sína að viðstöddum verjanda sem honum var tilnefndur á rannsóknarstigi. Hafa ákærði og C ekki gefið trúverðuga skýringu á breyttum framburði sínum, sem miðar að því að draga úr alvarleika verknaðar ákærða. Verður ekki á þeim framburði byggt, heldur lagt til grundvallar að ákærði hafi, svo sem hann lýsti við skýrslutöku hjá lögreglu, sparkað ítrekað í höfuð A þar sem hann lá, með þeim afleiðingum sem í ákæru greinir og lýst er í læknisvottorðum. Verður ákærði sakfelldur samkvæmt ákæru að þessu leyti. Hins vegar hefur ákærði frá upphafi neitað að hafa slegið A í höfuðið, en um það bar C við skýrslutöku hjá lögreglu. Telst það ósannað og verður ákærði sýknaður af þeim hluta ákæru.
Sú háttsemi ákærða að sparka ítrekað í höfuð A var stórhættuleg. Vitnið Guðmundur Ásgeir Björnsson taldi eitt þungt högg hafa getað valdið beinbrotum í andliti. Sagði vitnið slíkt spark í andlit geta verið lífshættulegt, enda væru þekkt dauðsföll af völdum blæðingar sem rekja mætti til höggs á kjálka. Háttsemi ákærða á samkvæmt þessu undir 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga svo sem í ákæru greinir.
Ákærði er fæddur í október 1986. Sakaferill hans hefur ekki áhrif á refsingu. Árás ákærða á A var fólskuleg og tilefnislaus og hlaut A umtalsverða áverka af. Þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 8 mánuði, en rétt þykir að ákveða að fullnustu 5 mánaða refsingarinnar skuli frestað og hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppsögu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.
Samkvæmt dagbók lögreglu var ákærði laus úr haldi lögreglu eftir að hafa gefið síðari skýrslu sína að kvöldi 18. febrúar 2009. Kom því ekki til þess að ákærði sætti gæsluvarðhaldi.
A hefur krafist skaðabóta úr hendi ákærða að fjárhæð 1.540.069 krónur auk vaxta. Er krafan sundurliðuð þannig:
|
1. |
Miskabætur |
1.000.000 krónur |
|
2. |
Vinnutap frá 14. febrúar til 19. mars 2009 |
320.930 krónur |
|
3. |
Komugjald á slysadeild |
4.600 krónur |
|
4. |
Tannlæknakostnaður 14. febrúar |
10.500 krónur |
|
5. |
Tannlæknakostnaður 26. mars |
15.860 krónur |
|
6. |
Tannlæknakostnaður 2. apríl |
63.490 krónur |
|
7. |
Tannlæknakostnaður 13. maí (vottorð) |
44.560 krónur |
|
8. |
Lyf, sérfæði o.fl. |
80.129 krónur |
|
|
samtals: |
1.540.069 krónur |
A hlaut verulega áverka af atlögu ákærða, svo sem lýst er í læknisvottorðum Hlyns Þorsteinssonar, Guðmundar Ásgeirs Björnssonar og Hrannar Róbertsdóttur. Þykja miskabætur hæfilega ákveðnar 600.000 krónur. Samkvæmt læknisvottorði Guðmundar Ásgeirs Björnssonar gekkst A undir aðgerð á háls-, nef- og eyrnadeild 14. febrúar 2009, þar sem brotum í efri kjálka, nef- og kinnbeini var lokað og tennur efri og neðri kjálka víraðar saman. Voru vírar fjarlægðir 18. mars þar á eftir. Kom fram hjá A að hann hefði verið frá vinnu þennan tíma og orðið af tekjum sem því nemur. Er það staðfest með vottorði vinnuveitanda, þar sem tilgreind er fjárhæð tapaðra vinnulauna. Verður krafa um fjártjón vegna vinnutaps dæmd eins og hún er fram sett. Krafa um bætur vegna útlagðs kostnaðar á slysadeild og tannlæknakostnaðar skv. 3.-7. lið er studd viðhlítandi gögnum og verður dæmd að fullu. Sama er að segja um kröfu um bætur vegna lyfjakostnaðar, skv. 6. lið., sem nemur 51.148 krónum samkvæmt framlögðum gögnum. Hins vegar verður ákærði ekki dæmdur til greiðslu kostnaðar brotaþola við fæðuöflun samkvæmt sama lið. Samkvæmt framansögðu verður ákærði dæmdur til að greiða A skaðabætur að fjárhæð 1.111.088 krónur, sem beri vexti sem í dómsorði greinir. Ákvörðun þóknunar fyrir réttargæslu tekur mið af kostnaði við gerð bótakröfu og meðferð málsins fyrir dómi.
Ákærði verður dæmdur til að greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 200.800 krónur, verjanda síns á rannsóknarstigi málsins, Erlendar Þórs Gunnarssonar héraðsdómslögmanns, 163.150 krónur og réttargæslumanns, Hrafnhildar Kristinsdóttur héraðsdómslögmanns, 338.850 krónur, í öllum tilvikum að meðtöldum virðisaukaskatti. Þá verður ákærði dæmdur til að greiða 58.600 krónur í annan sakarkostnað.
Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Hulda Elsa Björgvinsdóttir, settur saksóknari.
Ragnheiður Harðardóttir, settur héraðsdómari, kveður upp dóm þennan.
DÓMSORÐ:
Ákærði, X, sæti fangelsi í 8 mánuði, en fullnustu 5 mánaða refsingarinnar skal frestað og fellur hún niður að liðnum tveimur árum frá uppsögu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.
Ákærði greiði C skaðabætur að fjárhæð 1.111.088 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 14. febrúar 2009 til 25. mars 2010, en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 200.800 krónur, þóknun verjanda síns á rannsóknarstigi málsins, Erlendar Þórs Gunnarssonar héraðsdómslögmanns, 163.150 krónur og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Hrafnhildar Kristinsdóttur héraðsdómslögmanns, 338.850 krónur. Ákærði greiði 58.600 krónur í annan sakarkostnað.