Hæstiréttur íslands
Mál nr. 83/2005
Lykilorð
- Kærumál
- Málskostnaðartrygging
|
|
Fimmtudaginn 10. mars 2005. |
|
Nr. 83/2005. |
Íslensk dreifing ehf. (Hafþór Guðmundsson) gegn Italo Suisse NV (Þórunn Guðmundsdóttir hrl.) |
Kærumál. Málskostnaðartrygging.
Í krafðist þess að IS yrði gert að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar í máli sem fyrirtækið hafði höfðað á hendur Í. Var úrskurður héraðsdóms, þar sem kröfunni var hafnað, staðfestur í Hæstarétti.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Guðrún Erlendsdóttir og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 23. febrúar 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 1. mars sl. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. janúar 2005, sem sóknaraðila varð fyrst kunnugt um 15. febrúar sl., en þar var hafnað kröfu sóknaraðila um að varnaraðila yrði gert að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar í máli sínu á hendur sóknaraðila. Kæruheimild er í o. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að varnaraðila verði gert að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður.
Sóknaraðili ber fyrir sig að héraðsdómari hafi ekki sinnt skyldu samkvæmt 4. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991 til að leiðbeina fyrirsvarsmanni hans, sem sótti sjálfur þing í héraði og er ólöglærður, í tæka tíð um rétt hans til að krefjast tryggingar fyrir greiðslu málskostnaðar. Byggir sóknaraðili kröfu sína um að varnaraðila verði gert að setja slíka tryggingu á 1. mgr. 133. gr. laganna með áorðnum breytingum. Samkvæmt a. lið þess ákvæðis getur stefndi að fullnægðum nánari skilyrðum krafist málskostnaðartryggingar ef stefnandi er búsettur utan Evrópska efnahagssvæðisins eða aðildarríkja stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu. Fram er komið að varnaraðili hefur heimilisvarnarþing í Belgíu. Samkvæmt þessu og með því að ekkert hefur verið fært fram til að leiða líkur að því að varnaraðili sé ófær um að greiða málskostnað verður hinn kærði úrskurður staðfestur.
Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Íslensk dreifing ehf., greiði varnaraðila, Italo Suisse NV, 100.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. janúar 2005.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 14. desember sl. er höfðað með stefnu birtri 11. febrúar sl.
Stefnandi er Italo Suisse NV Kastelenlaan 107-A 7780 Komen, Belgíu.
Stefndi er Íslensk Dreifing ehf. Skútuvogi 1e, Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 4.393 evrur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 21. apríl 2003 til greiðsludags.
Þá krefst stefnandi málskostnaðar.
Dómkröfur stefnda eru þær að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og dæmdur málskostnaður.
Í þessum þætti málsins hefur þess verið krafist af hálfu stefnda að stefnanda verði gert að setja málskostnaðartryggingu.
Vísað er til þess af hálfu stefnda að stefnandi sé aðili með búsetu erlendis og því beri honum að setja tryggingu fyrir málskostnaði sbr. a-lið 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Af hálfu stefnanda er kröfunni mótmælt og vísað til þess að samkvæmt 1. mgr. 133. gr. laga um meðferð einkamála hafi stefnda borið að gera kröfu þessa við þingfestingu málsins.
Stefna í máli þessu var birt fyrir fyrirsvarsmanni stefnda sjálfum. Hún ber greinilega með sér að stefnandi er búsettur erlendis og mátti stefnda vera kunnugt um það. Krafa hans er því of seint fram komin og þegar af þeirri ástæðu verður henni hafnað.
Allan V. Magnússon héraðsdómari kvað upp dóminn.
ÚRSKURÐARORÐ
Kröfu stefnda, Íslenskrar Dreifingar ehf., um að stefnanda, Italo Suisse, verði gert að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar er hafnað.