Hæstiréttur íslands
Mál nr. 654/2010
Lykilorð
- Kynferðisbrot
- Börn
|
|
Fimmtudaginn 13. október 2011. |
|
Nr. 654/2010. |
Ákæruvaldið (Hulda Elsa Björgvinsdóttir settur saksóknari) gegn X(Guðmundur Ágústsson hrl. Oddgeir Einarsson hdl.) |
Kynferðisbrot. Börn.
X var ákærður fyrir kynferðisbrot með því að hafa káfað innan klæða annars vegar á rassi og getnaðarlim A, sem þá var sjö ára gamalla, og hins vegar á lærum og rassi B sem var þá átta ára gamall. Áttu brotin að hafa verið framin þegar X var leiðbeinandi á námskeiði sem A og B sóttu. Ekki þóttu önnur haldbær gögn vera til um háttsemi þá sem X var gefin að sök en framburður hans sjálfs og drengjanna tveggja og stóðu þar orð gegn orði, enda hafði hvorugur drengjanna orðið vitni að háttsemi X gagnvart hinum. Framburður drengjanna þótti trúverðugur svo langt sem hann náði. Ekki lágu fyrir aðrar kvartanir um störf X á námskeiðunum. Þótti rétt að leggja til grundvallar að X hefði umrætt sinn verið að kitla drengina og að um ærsl hefði verið að ræða af hans hálfu sem kynni að hafa farið úr böndunum. Af gögnum málsins varð ekki ráðið með vissu að drengirnir hefðu tekið þetta nærri sér en ljóst þótti að drengjunum hefði fundist gaman á námskeiðinu og að þeir hefðu báðir farið í útilegu í lok námskeiðsins. Kvartanir A og B hefðu fyrst komið fram þegar rætt var um að þeir færu aftur á sams konar námskeið árið eftir. Að öllu þessu virtu varð ekki gegn eindreginni neitun ákærða staðhæft að atvik hefðu verið með þeim hætti sem greindi í ákæru. X var því sýknaður. Í dómi Hæstaréttar var tekið fram að héraðsdómari sem stýrði skýrslutökum af A og B hefði ekki átt sæti í fjölskipuðum héraðsdómi sem kvað upp hinn áfrýjaða dóm og að ekki hefði verið skýrt frá því í hinum áfrýjaða dómi hvers vegna því hefði ekki verið við komið.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Eiríkur Tómasson, Greta Baldursdóttir, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 24. nóvember 2010 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd.
Ákærði krefst aðallega sýknu, en til vara mildunar á refsingu.
I
Ákærða er í máli þessu gefið að sök að hafa í júlí 2008, í starfi sínu sem leiðbeinandi í [...], káfað innan klæða, annars vegar á rassi og getnaðarlim A, sem þá var 7 ára gamall, og hins vegar á lærum og rassi B, sem þá var 8 ára gamall. Í hinum áfrýjaða dómi var ákærði sakfelldur fyrir þessa háttsemi sem talin var varða við 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Óumdeilt er að þetta sumar voru drengirnir á námskeiði [...] þar sem ákærði starfaði eins og hann hafði gert tvö sumur þar á undan.
Ákærði hefur staðfastlega neitað sök í máli þessu. Í skýrslutöku fyrir héraðsdómi kvað hann að vel gæti verið að hann hefði einhvern tímann kitlað umrædda drengi, þótt hann myndi ekki sérstaklega eftir þeim, en hundruð barna hafi sótt þessi námskeið þann tíma er hann starfaði þar. Þá fullyrti hann að hefði hann kitlað þá hefði hann hætt því ef þess hefði verið óskað og hann myndi aldrei fara innan klæða til að kitla. Báðir drengirnir hafa lýst atvikum svo að ákærði hafi sagt áður en hann byrjaði að kitla þá „ertu kitlinn“ og að ætlað káf hafi átt sér stað þegar hann var að kitla þá. Þegar þetta og gögn málsins að öðru leyti eru virt þykir ekki óvarlegt að slá því föstu að aðdragandi hinna ætluðu brota hafi verið sá að ákærði hafi umrætt sinn verið einn í herbergi með drengjunum. Hann hafi kitlað þá þar sem þeir sátu þrír saman í sófa og drengirnir voru að skiptast á að leika sér í tölvu.
II
Samkvæmt 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga skal sá sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við barn, yngra en 15 ára, sæta fangelsi ekki skemur en 1 ár og allt að 16 árum. Í 2. mgr. sömu greinar segir að önnur kynferðisleg áreitni en sú sem greinir í 1. mgr. varði fangelsi allt að 6 árum. Í 199. gr. laganna, sem varðar kynferðisbrot gagnvart þeim sem eru 15 ára og eldri, segir að hver sem gerist sekur um kynferðislega áreitni skuli sæta fangelsi allt að 2 árum og segir þar að kynferðisleg áreitni felist meðal annars í því að strjúka, þukla eða káfa á kynfærum eða brjóstum annars manns innan klæða sem utan, enn fremur í táknrænni hegðun eða orðbragði sem er mjög meiðandi, ítrekað eða til þess fallið að valda ótta. Eins og ákvæði þetta ber með sér eru þær athafnir sem lýstar eru refsiverðar í því ekki tæmandi taldar heldur eru þær nefndar í dæmaskyni og þannig gert ráð fyrir að um önnur tilvik geti verið að ræða. Ákvæðið var lögfest með 8. gr. laga nr. 61/2007 um breyting á almennum hegningarlögum. Í athugasemdum sem fylgdu grein þessari í frumvarpi til laganna er hugtakið kynferðisleg áreitni skýrt þannig að það sé háttsemi, kynferðislegs eðlis, sem hvorki teljist til samræðis né svokallaðra annarra kynferðismaka og felist í hvers konar snertingu á líkama annarrar manneskju sem sé andstæð góðum siðum og samskiptaháttum. Það sé kynferðisleg áreitni að strjúka, þukla eða káfa á kynfærum eða brjóstum þolanda innan klæða sem utan, en slíkt geti þó verið á því stigi, ákaft eða langvarandi, að um önnur kynferðismök sé að ræða. Þá segir í athugasemdunum að þukl og káf annars staðar en á kynfærum og brjóstum geti verið kynferðisleg áreitni.
III
Um það hvort ákærði hafi sýnt af sér þá háttsemi sem honum er gefin að sök er ekki við önnur haldbær gögn að styðjast en framburð hans sjálfs og drengjanna tveggja og stendur þar orð gegn orði. Skýrslur voru teknar af drengjunum fyrir dómi 9. september 2009 eða um 14 mánuðum eftir ætluð brot. Liggja þessar skýrslur, sem voru mynd- og hljóðritaðar og að auki endurritaðar, frammi í málinu. Í framburði A kom fram að ákærði hefði umrætt sinn byrjað að kitla hann og svo farið inn á buxurnar og kitlað hann þar. Hann hafi byrjað að kitla hann á líkamanum og svo hafi hann farið „að kitla framan á typpið og þar og svo á rassinn og eitthvað.“ Þá bar hann að ákærði hefði snert hann undir fötunum með fingrinum og svo að ákærði hefði komið „bara hér svona ekkert alveg á rassinn. Svona næstum því.“ Þegar myndskeiðið er skoðað sést brotaþoli benda á lendar sér. Í framburði B kom fram að ákærði hefði verið að reyna að kitla hann og farið inn á buxurnar, þó ekki inn undir nærbuxur og kitlað hann ofarlega á lærinu rétt hjá rassinum. Þykir framburður beggja drengjanna um atvik trúverðugur svo langt sem hann nær en hvorugur þeirra sagðist hafa séð hvað ákærði gerði við hinn umrætt sinn.
Móðir A, F, gaf skýrslu fyrir héraðsdómi og kom fram hjá henni að drengurinn hefði talað um það strax eftir atburðinn að strákur í [...] hefði kitlað hann og hafi hann í því sambandi „bent á magann og rassinn og eitthvað svona“. Hún hafi ekki tekið það alvarlega þar sem þetta hafi verið „náttúrulega bara eitthvað kitl á maganum og eitthvað svona þannig að við vorum ekkert að spá meira í það.“ Þá kom fram hjá henni að drengurinn hafi verið ánægður á námskeiðinu. Móðir B, D, gaf skýrslu fyrir héraðsdómi og kom fram hjá henni að drengnum hafi fundist gaman á [...]námskeiðinu.
Ákærði var sautján ára þegar atvik málsins áttu sér stað. Hafa ekki verið bornar brigður á að þetta hafi verið þriðja sumarið sem hann starfaði sem leiðbeinandi á [...]námskeiðum eins og því sem hér um ræðir og hundruð barna tekið þátt í þeim. Ekki liggur fyrir að aðrar kvartanir hafi komið fram um starf hans. Ekki er útilokað að í umrætt sinn hafi verið um að ræða ærsl af hans hálfu sem kunna að hafa farið úr böndum. Af gögnum málsins verður ekki ráðið með vissu að drengirnir hafi tekið þetta nærri sér en mæður þeirra hafa báðar borið að drengjunum hafi fundist gaman á námskeiðinu og þeir hafi báðir farið í útilegu með [...] í lok þess. Komu fyrst fram kvartanir af þeirra hálfu þegar rætt var um að þeir færu aftur á sams konar námskeið árið eftir. Að öllu því virtu sem nú hefur verið rakið verður ekki gegn eindreginni neitun ákærða staðhæft að atvik hafi verið með þeim hætti sem greinir í ákæru. Verður því ekki talið að færðar hafi verið viðhlítandi sönnur á að ákærði hafi gerst sekur um þau brot sem honum eru gefin að sök. Verður hann því sýknaður af sakargiftum í máli þessu.
Samkvæmt 2. mgr. 112. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála skal skýrsla tekin fyrir dómi af brotaþola samkvæmt 1. mgr. 59. gr. laganna fyrir þeim dómara, sem síðar fer með málið og kveður upp dóm í því, eftir atvikum sem dómsformaður, ef því verður við komið. Meðal helstu sönnunargagna í máli þessu eru skýrslur sem teknar voru fyrir dómi af drengjunum á rannsóknarstigi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 59. gr. laganna og kom hvorugur þeirra fyrir dóm við aðalmeðferð þess. Það athugist að sá héraðsdómari sem stýrði skýrslutökunni átti ekki sæti í fjölskipuðum héraðsdómi sem kvað upp hinn áfrýjaða dóm án þess að þar sé skýrt hvers vegna því hafi ekki verið við komið.
Allur sakarkostnaður eins og hann var ákveðinn í héraði verður felldur á ríkissjóð. Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, sem ákveðin verða með virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, X, er sýkn af kröfu ákæruvaldsins.
Allur sakarkostnaður málsins eins og hann var ákveðinn í hinum áfrýjaða dómi greiðist úr ríkissjóði.
Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Guðmundar Ágústssonar hæstaréttarlögmanns, 376.500 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 23. september 2010.
Mál þetta, sem dómtekið var í dag, er höfðað með ákæru útgefinni af ríkissaksóknara 15. júní 2010 á hendur X, [...], „fyrir kynferðisbrot framin í starfi ákærða í [...], í júlí 2008:
1. Með því að hafa káfað innan klæða á rassi og getnaðarlim A sem þá var 7 ára gamall og sagt eitthvað á þá leið að A væri með standpínu og ákærða þætti það ekkert ógeðslegt.
Telst þetta varða við 2. mgr. 202. gr. og 209. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.
2. Með því að hafa káfað innan klæða á lærum og rassi B sem þá var 8 ára gamall.
Telst þetta varða við 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.
Einkaréttarkröfur:
Af hálfu A, kt. [...], er krafist skaða- og miskabóta að fjárhæð kr. 1.500.000 auk vaxta skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sbr. 4. gr. laganna, frá 7. júlí 2008 til 25. október 2009 en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 9. gr. sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags auk greiðslu málskostnaðar.
Af hálfu B, kt.[...] , er krafist skaða- og miskabóta að fjárhæð kr. 1.500.000 auk vaxta skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sbr. 4. gr. laganna, frá 7. júlí 2008 til 25. október 2009 en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 9. gr. sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags auk greiðslu málskostnaðar.“
Af hálfu ákærða er krafist sýknu. Til vara krefst hann vægustu refsingar sem lög leyfa. Þá er krafist hæfilegra málsvarnarlauna sem greidd verði úr ríkissjóði.
Skipaður réttargæslumaður beggja brotaþola mætti ekki við aðalmeðferð málsins, sem ákveðin hafði verið við þingfestingu þess. Var krafa beggja brotaþola því felld niður með vísan til 2. mgr. 174. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Málavextir
Með bréfi, dags. 29. júlí 2009, fór Barnavernd Reykjavíkur fram á að fram færi lögreglurannsókn á því hvort, og þá með hvaða hætti, A, hefði verið beittur kynferðisofbeldi af hálfu ákærða. Er í bréfinu tekið fram að [...] hafi tilkynnt málið til Barnaverndar með bréfi hinn 11. maí sama ár. Fylgdi bréf [...] með og kemur þar fram að foreldrar A hafi komið og tilkynnt um kynferðislega áreitni starfsmanns námskeiðs á vegum [...] gagnvart drengnum. Hafi foreldrarnir lýst þar frásögn drengsins af því sem gerðist og þar meðal annars komið fram að annar drengur, B, hafi einnig verið viðstaddur atvikið. Hafi föður A verið sendar myndir af starfsfólki námskeiðsins og drengurinn í kjölfarið bent á mynd af ákærða. Í bréfi Barnaverndar kemur og fram að A hafi í könnunarviðtali í Barnahúsi lýst atburðinum þannig að hann og vinur hans hafi einn daginn verið að leika sér í tölvu á námskeiðinu þegar ákærði hafi byrjað að kitla hann, fyrst á líkamann en síðan farið inn á buxurnar og kitlað rassinn og typpið. Ákærði hafi þá sagt „þú ert með standpínu“ og síðan bætt við „mér finnst það ekkert ógeðslegt“. Á meðan á þessu stóð hafi vinur hans verið í tölvunni. Eftir atvikið hafi vinirnir rætt saman og vinurinn þá sagt frá því að það sama hefði verið gert við hann.
Skýrslur fyrir dómi
Skýrsla skv. 1. mgr. a-liðar 59. gr. laga nr. 88/2008 var tekin af öðrum brotaþolanum, A, hinn 9. september 2009. Lýsti hann þá atvikum á þá leið að ári áður, um sumarið, hefði hann verið á námskeiði hjá [...]. Hefði hann og vinur hans B þá verið einn daginn að spila tölvuleik inni í herbergi þar á staðnum. Í herberginu hefði þá einnig verið staddur með þeim starfsmaður námskeiðsins sem héti C. Þegar B hefði átt leik í tölvunni sagði A manninn hafa byrjað að kitla sig á líkamann og spurt: „Ertu kitlinn?“ Hefði maðurinn svo haldið áfram, farið inn á buxurnar og kitlað hann á typpinu og á rassinum. Hefði maðurinn og sagt: „Þú ert með standpínu, mér finnst það ekki ógeðslegt.“ Nánar aðspurður sagði A manninn hafa snert typpið með fingrunum, undir fötin. Spurður með hverju maðurinn hefði snert rassinn svaraði hann: „Bara með fingrunum. Hann kom eiginlega bara hér svona ekkert alveg á rassinn. Svona næstum því.“ Aðspurður hélt A fyrst að hann hefði verið í gallabuxum en þegar hann var spurður hvernig maðurinn hefði komist með fingurna undir fötin svaraði hann: „Hann bara, ég man ekki hvernig buxum ég var í en ég held að ég hafi verið í svona teygjanlegum.“ A kvaðst ekki hafa orðið var við að maðurinn gerði neitt við B í umrætt sinn. Sagðist A hafa spurt B eftirá hvort maðurinn hefði gert eitthvað við hann og hann þá sagt svo vera. Hefði B sagt manninn hafa verið „að gera þetta við sig“, „koma við typpið og það“. Sagðist A hafa sagt móður sinni frá því eftir námskeiðið að maður hefði verið að kitla sig á námskeiðinu. Hún hefði bara haldið að um kitl væri að ræða en það hefði svo ekki verið fyrr en árið eftir, þegar hún spurði hann hvort hún ætti að skrá hann á sama námskeiðið, sem þetta hefði rifjast upp fyrir honum. Kvaðst hann þá hafa sagt foreldrunum frá því sem raunverulega gerðist. Hefði hann svo fengið að skoða myndir í tölvunni og þau þá fundið út hver þessi maður var.
Samdægur var tekin skýrsla af brotaþolanum B á grundvelli sama lagaákvæðis. Sagði hann þá A hafa verið saman á [...]námskeiði og í umrætt sinn, um morgun, hafi þeir verið einir mættir á staðinn. Hefðu þeir verið að leika sér þar í tölvu ásamt starfsmanni námskeiðsins sem hefði sagst heita C. Þegar A hefði verið í tölvunni sagði B starfsmanninn hafa spurt sig hvort hann væri „kitlinn“. Sagðist B hafa neitað því. Hefði maðurinn þá farið inn undir og niður í buxur hans, þó ekki nærbuxurnar, og reynt að kitla hann þar. B kvaðst hafa beðið hann um að hætta en maðurinn samt haldið áfram. Hann hefði þá beðið manninn á ný um að hætta og maðurinn þá hætt. Nánar lýsti B kitli mannsins þannig að það hefði verið ofarlega á lærinu, rétt hjá rassinum. B sagðist ekki hafa séð hvað maðurinn gerði við A en A hefði spurt hann einhvern tímann þegar þeir voru á námskeiðinu „hvað hann var að gera við mig og ég sagði honum það og þá fór hann að gera þetta við hann, einhvern tímann“. Spurður nánar út í þetta kvaðst B ekki muna hvað A hefði sagt honum að hefði gerst. Spurður hvort hann héldi að það hefði gerst á sama tíma og atvikið sem hann hefði lýst svaraði hann: „Ég veit það ekki, ég held á öðrum tíma.“
Ákærði neitar sök. Kannaðist hann við að hafa verið leiðbeinandi í [...] sumarið 2008 eins og reyndar einnig tvö sumur þar á undan. Hefði í því falist að hafa þar umsjón með börnum og kenna þeim hvernig ætti að leika sér. Aðspurður kvaðst ákærði ekkert muna eftir eða þekkja til drengjanna tveggja sem teljast brotaþolar í máli þessu. Mörg hundruð börn hefðu tekið þátt í þessum námskeiðum og minntist hann ekki þessara drengja sérstaklega. Spurður hvort verið gæti að hann hefði einhvern tímann kitlað þessa drengi sagði hann að það gæti vel verið en hann myndi í fyrsta lagi aldrei gera slíkt innan klæða og í öðru lagi myndi hann hætta því strax væri um það beðið. Þá myndi hann ekkert eftir að slíkt hefði gerst í herbergi þar sem hann hefði verið staddur með tveimur drengjum og þeir að leika sér þar í tölvu. Kvaðst hann kannast við að hafa verið kallaður C og að enginn annar í [...] hefði haft þetta gælunafn. Hann sagðist þó ekki kannast við að hafa verið með tagl eða fléttu í hárinu en hann væri vissulega með gleraugu. Sagði hann það eina sem gæti passað við lýsingu þeirra væri að hann hefði þetta sumar alltaf mætt fyrstur á morgnana, góðum klukkutíma á undan öðrum. Þá hefði ekki verið neitt óvenjulegt að hann eða einhverjir aðrir starfsmenn væru einir með börnunum.
D, móðir B, sagði drenginn hafa verið á [...]námskeiði sumarið 2008. Hefði hún ekki orðið vör við neitt annað þá en að honum hefði líkað það vel. Það hefði svo ekki verið fyrr en næsta sumar sem móðir A hefði hringt í hana og spurt hvort hún hefði heyrt B tala um að einhver hefði verið að kitla strákana á námskeiðinu. Sagðist vitnið ekki minnast þess. Móðir A hefði svo hringt aftur nokkru síðar og sagt að hún og A hefðu verið að horfa á þátt um barnaníðinga í sjónvarpinu og hefði A þá sagt að þetta væri bara eins og „perrinn í [...]“. Hefði hún og spurt hvort B hefði tjáð sig um þetta en hún hefði svarað því neitandi. Kvaðst hún svo í framhaldi hafa sest niður með B og spurt hann hvort eitthvað hefði komið upp á í [...] árið áður. Hefði hann þá sagt henni að þar hefði verið strákur sem hefði verið að kitla á þeim typpið og horfa eitthvað á þá. Hún kvaðst þó ekki viss um að hann hefði talað um að maðurinn hefði farið undir buxurnar hjá honum, eins og haft er eftir henni í lögregluskýrslu, heldur einungis hjá A. Hún hefði þó vafalaust munað þetta betur er hún gaf fyrst skýrslu í málinu. Í framhaldi af þessu hefði mál þetta farið af stað. Spurð hvort B hefði eitthvað minnst á einhvern á námskeiðinu sem honum líkaði ekki við sagðist hún ekki minnast þess. Hins vegar hefði verið sérstakt í þessu sambandi að B hefði þvertekið fyrir að fara á annað námskeið. Er vitninu var bent á að hún hefði talað um það í skýrslu sinni hjá lögreglu að B hefði haft orð á því að fyrra bragði í kjölfar námskeiðsins að einhver „perri“ hefði verið að kitla þá kvað hún það líklegast vera það rétta því hún hefði munað þetta allt mun betur þá en nú, auk þess sem hún hefði reynt að ýta þessa svolítið frá sér eftir að hún gaf umrædda lögregluskýrslu. Hún hefði hins vegar ekki talið að þetta væri neytt alvarlegt. Þá minntist hún ekki annars en að drengnum hefði þótt gaman á umræddu námskeiði. Hann hefði verið viljugur að fara á morgnana.
E, faðir A, sagði að mál þetta hefði komið upp stuttu eftir að A hefði verið að horfa á þátt í sjónvarpinu um kynferðisofbeldi. Hefði hann þá farið að tala um það að starfsmaður [...]námskeiðsins hefði verið einn með þeim A inni í tölvuherbergi og byrjað að kitla þá. Hefði A sagt manninn hafa farið inn undir buxurnar og kitlað hann í typpinu og við það hefði hann fengið „standpínu“. Hefði maðurinn þá sagt að það væri allt í lagi að fá „standpínu“. Vitnið sagði að þeim foreldrunum hefði við þetta brugðið mjög. Sérstaklega þegar þau fóru að hugsa málið betur og það rifjast upp fyrir þeim að A hefði eitthvað ýjað að því, á svipuðum tíma og námskeiðið stóð, að einhver starfsmaður þar væri svolítið furðulegur. Þeim hefði þó ekki fundist það þá neitt athugavert, enda ekki virst sem A hræddist hann. Eftir þetta hefðu þau ákveðið að hafa samband við [...]félagið og hefði rannsókn málsins hafist í framhaldi af því. Aðspurt kvaðst vitið telja að rétt væri eftir sér haft í lögregluskýrslu, að A hefði þá stuttu áður þvertekið fyrir að fara aftur á námskeið hjá [...], en hann myndi þetta þó ekki vel. Spurður um afleiðingar þessa fyrir A kvaðst vitnið ekki hafa þekkingu til að meta það en hann minnti þó að drengirnir hefðu báðir verið frekar baldnir í skólanum veturinn á eftir. Aðspurt kvaðst vitnið ekki minnast þess að A hefði lýst því hvað gert hefði verið við B, en hann hefði sagt að þeir hefðu lent í þessu saman.
F, móðir A, lýsti atvikum svo að um vorið 2009, líklega í apríl, hefði hún ætlað að skrá drenginn aftur á [...]námskeið eins og árið áður. Hefði þá brugðið svo við að hann hafi algjörlega neitað því. Nokkru síðar hefði A verið að horfa á sjónvarpsþátt um kynferðisofbeldi og að honum loknum hefði hann farið að tala um að það væru bara „perrar“ í [...]. Við þetta hefði rifjast upp fyrir henni að einhvern tímann þegar A hefði verið nýkominn heim af [...]námskeiði sumarið áður hefði hann talað um að strákurinn á námskeiðinu væri eitthvað skrýtinn því hann hefði verið að kitla þá. Hún kvaðst ekki hafa talið þetta alvarlegt mál en þó spurt móður B hvort hann hefði eitthvað minnst á þetta. Það hefði ekki verið og hefðu þau því ýtt þessu til hliðar. Með þetta í huga hefði hún beðið A um að lýsa því betur hvað þarna gerðist. Hefði A þá skýrt frá því að starfsmaðurinn hefði boðið honum að leika sér í tölvu. Maðurinn hefði svo byrjað að kitla A og kitlið þróast þannig að maðurinn hefði smeygt hendi sinni inn undir buxnastrenginn á „jogging“- buxunum hans og kitlað hann í typpinu. Hann hefði svo sagt að það væri allt í lagi að fá „standpínu“. Kvaðst hún þá samstundis hafa áttað sig á að málið væri alvarlegt. A hefði svo sagt að maðurinn hefði einnig kitlað B en A hefði ekki séð nánar hvað hann gerði gagnvart honum. Aðspurð kvaðst hún ekki vita hvort maðurinn hefði farið ofan í nærbuxurnar hjá A. Í framhaldi af frásögn A hefðu þau foreldrarnir fengið fund með formanni [...]félagsins ásamt sálfræðingi og í kjölfar þess fundar fengið sendar myndir af starfsmönnum námskeiðsins sem til greina kæmu. Hefði A þá bent á mynd af ákærða sem umræddan starfsmann. Vitnið kvaðst ekki minnast annars en að A hefði virst ánægður á umræddu útivistarnámskeiði en þó minnti hana að eitthvert hik hefði verið á honum þegar fara átti í útilegu í lok þess. Hún hefði hins vegar þrýst á hann að fara.
G, starfsmaður [...]félagsins, sagði ákærða hafa verið aðstoðarleiðbeinanda í H sumarið 2008. Í starfi hans hefði meðal annars falist að sjá um gæslu og hafa ofan af fyrir þeim börnum sem mættu fyrir upphaf námskeiðs kl. 9 og þeim börnum sem dveldu eitthvað fram yfir lok námskeiðsins. Gæti því vel verið að ákærði hefði í umrætt sinn verið einn með tveimur drengjum í tölvuherberginu. Aðstoðarleiðbeinendur hefðu skipst á að sjá um slíka gæslu. Vitnið kvað skipulagi þessara mála nú hafa verið breytt þannig að slíkir leiðbeinendur væru ekki einir með börnunum. Ákærði hefði starfað hjá félaginu í þrjú ár og að hún vissi ekki til að á þeim tíma hefðu aðrar kvartanir borist vegna hegðunar hans.
Niðurstaða
Ákærði hefur frá upphafi rannsóknar neitað sök. Hann kannast við að hafa sumarið 2008 starfað sem leiðbeinandi í umræddum [...] og verið kallaður C. Hann hafi yfirleitt mætt á undan öðrum starfsmönnum á morgnana og þá stundum verið einn með börnum sem mætt hafi snemma. Hann kveðst ekkert muna eftir eða þekkja til brotaþolanna tveggja en segir að vel geti verið að hann hafi einhvern tímann kitlað þá. Hafi það einhvern tímann gerst hefði hann hætt því strax væri um það beðið og aldrei gert slíkt innan klæða.
Eins og fyrr greinir hafa báðir brotaþolarnir lýst því að þeir hafi dag einn verið staddir saman í herbergi [...]námskeiðsins að leika sér í tölvu, að viðstöddum starfsmanni námskeiðsins sem héti C. Segir A starfsmanninn hafa spurt hvort hann væri „kitlinn“? Hafi starfsmaðurinn svo kitlað hann, farið inn undir buxur hans og kitlað hann á typpinu og á eða við rassinn. Starfsmaðurinn hafi svo sagt: „Þú ert með standpínu, mér finnst það ekki ógeðslegt.“ Hafi þetta gerst á meðan B var í tölvunni og því hafi B ekki séð atvikið.B ber að starfsmaðurinn hafi spurt hann hvort hann væri „kitlinn“? Hann hafi neitað því en maðurinn samt byrjað að kitla hann. Hafi maðurinn farið niður í og inn undir teygjubuxurnar, þó ekki undir nærbuxurnar, og kitlað hann ofarlega á lærinu, við rassinn. A segist ekki hafa „almennilega“ séð hvað gerðist á milli B og mannsins því hann hafi sjálfur verið upptekinn í tölvuleik. Hann hafi þó heyrt B segja að hann væri ekkert „kitlinn“. Báðir segjast brotaþolarnir hafa rætt málið sín í milli eftir námskeiðið. A lýsti því svo: „Ég bara spurði hann eftirá og hann sagði já hann gerði þetta við mig. Ég held hann hafi bara gert alveg eins og við mig.“ Spurður hvað B hefði sagt svaraði hann: „Hann sagði bara að hann væri að gera þetta við sig.“ Spurður nánar svaraði hann: „ Koma við typpið og það.“
Framburður brotaþolanna fær nokkurn stuðning af framburði F og E, foreldra A, um það hvernig mál þetta komst fyrst til þeirra vitundar, um að A hafi að loknu einu námskeiðinu talað um skrýtinn strák sem hefði verið að kitla þá og um neikvæðni A gagnvart því að fara aftur á [...]námskeið ári seinna. Þá veitir vitnisburður D, móður B, um neikvæða afstöðu hans gagnvart því að fara aftur á námskeiðið og um fyrstu frásögn B af atburðum, framburðum drengjanna nokkra stoð. Fyrir liggur með framburði ákærða sjálfs og G að vel sé mögulegt að ákærði hafi getað verið einn með börnum sem mættu snemma á námskeiðið. Þá hefur ákærði ekki útilokað að hann hafi einhvern tímann kitlað drengina tvo.
Dómendur hafa horft á myndupptöku af skýrslugjöf brotaþolanna og telja framburð þeirra í öllu tilliti trúverðugan. Með hliðsjón af því og öðru því sem að framan er rakið er það niðurstaða dómsins að leggja megi frásögn brotaþolanna til grundvallar því að ákærði hafi káfað innan klæða á brotaþolum eins og nánar er lýst í 1. og 2. tl. ákæru. Telst sú háttsemi hans nægilega sönnuð og varða við 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga. Hins vegar þykir framburður A, um að ákærði hafi sagt eitthvað á þá leið að A væri með „standpínu“ og að ákærða þætti það ekkert ógeðslegt, ekki fá þann stuðning af gögnum að nægi til sakfellingar af þeim þætti ákæruliðar 1. Verður ákærði því sýknaður af þeim hluta ákæruliðarins.
Samkvæmt fyrirliggjandi sakavottorði hefur ákærði ekki áður gerst sekur um refsiverða háttsemi. Við ákvörðun refsingar er til þess litið að ákærði hefur brugðist þeim trúnaðarskyldum sem á hann voru lagðar sem starfsmann [...]námskeiðsins en til refsimildunar horfir hins vegar að ákærði var aðeins sautján ára gamall þegar brot hans voru framin. Þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í sex mánuði. Eftir atvikum þykir rétt að fresta fullnustu refsingarinnar eins og nánar greinir í dómsorði.
Eins og að framan hefur verið rakið hafa bótakröfur verið felldar niður með vísan til 2. mgr. 174. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Ákærði greiði þóknun verjanda síns vegna vinnu hans á rannsóknarstigi og fyrir dómi og þóknun réttargæslumanns eins og nánar segir í dómsorði. Hefur í báðum tilvikum verið tekið tillit til greiðslu virðisaukaskatts.
Dóm þennan kveða upp héraðsdómararnir Ásgeir Magnússon, sem dómsformaður, Ástríður Grímsdóttir og Guðjón St. Marteinsson.
D ó m s o r ð :
Ákærði, X, sæti fangelsi í sex mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún falla niður að liðnum tveimur árum frá birtingu dómsins að telja haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.
Ákærði greiði málsvarnar- og réttargæsluþóknun verjanda síns, Oddgeirs Einarssonar hdl., 376.500 krónur, og þóknun skipaðs réttargæslumanns, Daggar Pálsdóttur hrl., 50.200 krónur.