Hæstiréttur íslands
Mál nr. 505/2008
Lykilorð
- Þjófnaður
- Skilorð
- Skilorðsrof
|
|
Fimmtudaginn 26. mars 2009. |
|
Nr. 505/2008. |
Ákæruvaldið(Hulda Elsa Björgvinsdóttir, settur saksóknari) gegn Tomas Vaiciulis og Ugnius Vaiciulis (Páll Arnór Pálsson hrl.) |
Þjófnaður. Skilorð. Skilorðsrof.
T var dæmdur í fjögurra mánaða fangelsi fyrir þjófnaðarbrot en fullnustu refsingarinnar frestað. Með brotinu rauf hann skilorð þriggja mánaða fangelsisrefsingar samkvæmt dómi 18. maí 2007 og bar því að gera honum refsingu í einu lagi fyrir brot samkvæmt þeim dómi, sbr. 60. og 77. gr. laga nr. 19/1940. U var dæmdur í 10 mánaða fangelsi fyrir þrjú þjófnaðarbrot. Með brotunum rauf hann skilorð sjö mánaða fangelsisrefsingar samkvæmt dómi 18. maí 2008 en fimm mánuðir af refsivistinni voru skilorðsbundnir í tvö ár og bar því að gera honum refsingu í einu lagi fyrir brot samkvæmt þeim dómi, sbr. 60. og 77. gr. sömu laga.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jóns Steinar Gunnlaugsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 19. febrúar 2008 í samræmi við yfirlýsingar ákærðu um áfrýjun og einnig af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar á sakfellingum en refsiþyngingar hvað varðar ákærðu báða.
Ákærði Tomas krefst mildunar refsingar.
Ákærði Ugnius krefst aðallega sýknu af öllum kröfum ákæruvalds en til vara mildunar á refsingu.
Mál þetta var höfðað gegn ákærðu og fjórum öðrum mönnum fyrir mörg þjófnaðar- og hylmingarbrot. Með hinum áfrýjaða dómi var ákærði Ugnius dæmdur fyrir þrjú þjófnaðarbrot, en ákærði Tomas fyrir þjófnað í eitt skipti. Skaðabótakröfum á hendur ákærða Ugnius var vísað frá dómi og er sú úrlausn ekki til endurskoðunar.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um sakfellingu beggja ákærðu. Þá verður héraðsdómur staðfestur um refsingu ákærða Ugnius Vaiciulis á þann hátt að frá refsingu hans skal samkvæmt 76. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 dragast með fullri dagatölu gæsluvarðhaldsvist er hann sætti 3. til 19. október 2007.
Með hinum áfrýjaða dómi var ákærði Tomas sakfelldur fyrir að hafa stolið skóm og tveimur íþróttapeysum í verslun, samtals að verðmæti um 20.000 krónur. Samkvæmt gögnum málsins var hann staðinn að verki og greiddi hann andvirði þýfisins á staðnum að boði starfsmanns verslunarinnar. Eins og getið er í héraðsdómi rauf ákærði með broti sínu skilorð þriggja mánaða fangelsisrefsingar samkvæmt dómi 18. maí 2007 og ber því að gera honum refsingu í einu lagi fyrir brot samkvæmt þeim dómi og það brot sem hér er til meðferðar, sbr. 60. gr. og 77. gr. almennra hegningarlaga. Er niðurstaða héraðsdóms um refsingu ákærða staðfest, en þegar litið er til umfangs brots hans og þess að hann hefur greitt andvirði þýfisins þykir mega skilorðsbinda refsingu hans að fullu. Komi til fullnustu refsingarinnar skal dragast frá með fullri dagatölu gæsluvarðhaldsvist er hann sætti 3. til 19. október 2007.
Málskostnaðarákvörðun héraðsdóms verður staðfest að því er ákærðu varðar.
Eftir þessum úrslitum verður ákærði Ugnius gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins hvað hann varðar, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti, eins og nánar greinir í dómsorði. Áfrýjunarkostnaður að því er ákærða Tomas varðar verður felldur á ríkissjóð, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans fyrir Hæstarétti sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti, eins og nánar greinir í dómsorði
Dómsorð:
Ákærði, Ugnius Vaiciulis, sæti fangelsi í 10 mánuði. Til frádráttar refsingunni komi með fullri dagatölu gæsluvarðhaldsvist ákærða sem hann sætti 3. til 19. október 2007.
Ákærði, Tomas Vaiciulis, sæti fangelsi í 4 mánuði. Fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún niður falla að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Komi til fullnustu refsingarinnar skal dragast frá með fullri dagatölu gæsluvarðhaldsvist ákærða er hann sætti 3. til 19. október 2007.
Ákvæði hins áfrýjaða dóms um sakarkostnað að því er ákærðu varðar skulu vera óröskuð.
Ákærði, Ugnius Vaiciulis, greiði 210.032 krónur í sakarkostnað fyrir Hæstarétti, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Páls Arnórs Pálssonar hæstaréttarlögmanns, 149.400 krónur.
Annar áfrýjunarkostnaður málsins 185.132 krónur greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun Páls Arnórs Pálssonar hæstaréttarlögmanns skipaðs verjanda ákærða, Tomas Vaiciulis, 124.500 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 20. desember 2007.
Málið er höfðað með ákæru útgefinni 13. nóvember 2007, á hendur:
,,Andrius Barodkinas, kt. 090680-4129,
Iðnbúð 6, 210 Garðabæ,
dvst. Háaleitisbraut 46, Reykjavík
Gytis Vaiciulis, kt. 040188-3399,
Fellsmúla 4, Reykjavík,
A, kt [...],
[heimilisfang],
B, kt. kt [...],
[heimilisfang],
dvst. [heimilisfang],
Tomas Vaiciulis, kt. 020780-3989,
Iðnbúð 6, Garðabæ,
dvst. Fellsmúla 4, Reykjavík, og
Ugnius Vaiciulis, kt. 060179-2479,
Fellsmúla 4, Reykjavík,
fyrir eftirtalin auðgunarbrot:
I.
Á hendur ákærðu Tomas og Ugnius fyrir hylmingu, með því að hafa í félagi föstudaginn 22. júlí 2007, haft í fórum sínum eftirtalin fatnað, samtals að verðmæti 129.840 krónur, í fangelsinu að Litla-Hrauni, þrátt fyrir að vita að um þjófstolna muni væri að ræða, en fatnaðinum var stolið úr verslununum Herragarðinum í Kringlunni, Hugo Boss í Kringlunni og Hugo Boss í Smáralind, og fangaverðir lögðu hald á:
|
Gallabuxur af gerðinni Psycho |
kr. 12.980 |
|
Gallabuxur af gerðinni Boss |
kr. 16.980 |
|
Jakki af gerðinni Boss |
kr. 39.980 |
|
Peysa af gerðinni Sand |
kr. 11.980 |
|
Skyrta af gerðinni Armani |
kr. 11.980 |
|
Peysa af gerðinni Sand |
kr. 9.980 |
|
Peysa af gerðinni Canali |
kr. 10.980 |
|
Gallabuxur af gerðinni Boss |
kr. 14.980 |
Telst þetta varða við 1. mgr. 254. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.
Í málinu geri Hákon Hákonarson, f.h. Fata og skóa ehf., kt. 601196-2479, þá kröfu að ákærðu verði dæmdir til að greiða skaðabætur að fjárhæð 30.000 krónur.
II.
Á hendur ákærðu Tomas og Ugnius fyrir hylmingu, með því að hafa í félagi, föstudaginn 22. júlí 2007, haft í fórum sínum eftirtalin fatnað, samtals að verðmæti 115.120 krónur, í fangelsinu að Litla-Hrauni, þrátt fyrir að vita að um þjófstolna muni væri að ræða, en fatnaðinum var stolið úr verslun Intersports hf. að Bíldshöfða 20 í Reykjavík, og fangaverðir lögðu hald á:
|
Jakki af gerðinni Haglöfs |
kr. 27.990 |
|
Jakki af gerðinni Haglöfs |
kr. 27.990 |
|
Buxur af gerðinni Haglöfs |
kr. 23.990 |
|
Hnébuxur af gerðinni Nike |
kr. 4.690 |
|
Stuttbuxur af gerðinni Nike |
kr. 5.990 |
|
Jakki af gerðinni Nike |
kr. 9.990 |
|
Polobolur af gerðinni Nike |
kr. 4.490 |
|
Jakki af gerðinni Nike |
kr. 9.990 |
Telst þetta varða við 1. mgr. 254. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.
Í málinu gerir Magnús R Magnússon, f.h. Intersports hf., þá kröfu að ákærðu verði dæmdir til að greiða skaðabætur að fjárhæð 115.120 krónur, auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá tjónsdegi. En síðan dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar til greiðsludags.
III.
Á hendur ákærðu Gytis, Ugnius, Tomas og A fyrir þjófnað með því að hafa í sameiningu laugardaginn 4. ágúst 2007, stolið tveimur jökkum, annars vegar af gerðinni Vatnajökli og hins vegar Glymi, samtals að verðmæti 78.400 krónur, með því að Gytis og Tomas fóru með jakkana inn í mátunarklefa og settu þá þar í bakpoka, á meðan Ugnius og A reyndu að bægja athygli starfsmanns verslunarinnar frá mátunarklefanum, en þau svo öll hlaupið út úr versluninni með jakkana er starfsmaðurinn reyndi að hafa afskipti af Gytis og Tomas.
Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.
IV.
Á hendur ákærða Tomas fyrir þjófnað, með því að hafa laugardaginn 11. ágúst 2007, í verslun Intersports hf. að Bíldshöfða í Reykjavík, stolið skópari og tveimur íþróttapeysum, samtals að verðmæti 22.970 krónur, með því að stinga vörunum inn á sig og gengið áleiðis út úr versluninni, en ákærði var stöðvaður af afgreiðslumanni verslunarinnar.
Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.
V.
Á hendur ákærða Tomas fyrir þjófnað, með því að hafa föstudaginn 24. ágúst 2007, í verslun Bónus við Smiðjuveg 2 í Kópavogi, stolið rakvélablöðum af gerðinni Gilette M3 power og Gilette Mach 3 turbo, að verðmæti allt að kr. 70.706, með því að setja umrædd rakvélablöð í innkaupakörfu og gengið svo með vörurnar afsíðis, úr mynd öryggismyndavélakerfis verslunarinnar, og þá út úr versluninni án þess að greiða fyrir vörurnar.
Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.
Í máli þessu gerir Lilja Norðfjörð, kt. 081073-4499, þá kröfu f.h. Bónus að ákærði verði dæmdur til greiðslu skaðabóta að fjárhæð kr. 70.706.
VI.
Á hendur ákærðu Ugnius, Gytis og B fyrir þjófnað með því að hafa í sameiningu laugardaginn 1. september 2007, um kl. 13:30, í verslun Bónus við Holtagarða í Reykjavík, stolið rakvélablöðum af gerðinni Gilette Mach 3 turbo og Gilette M3 power, að verðmæti allt að kr. 60.744, með því að setja umrædd rakvélablöð í innkaupakörfu og gengið svo með vörurnar afsíðis, úr mynd öryggismyndavélakerfis verslunarinnar, og þá út úr versluninni án þess að greiða fyrir vörurnar.
Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.
Í máli þessu gerir Lilja Norðfjörð, kt. 081073-4499, þá kröfu f.h. Bónus að ákærðu verði dæmdir til greiðslu skaðabóta að fjárhæð kr. 60.744.
VII.
Á hendur ákærðu Gytis og B fyrir þjófnað með því að hafa í sameiningu, ásamt óþekktum þriðja aðila, laugardaginn 1. september 2007, um kl. 17:06, í verslun Bónus við Smiðjuveg 2 í Kópavogi, stolið rakvélablöðum af gerðinni Gilette M3 power, að verðmæti allt að kr. 25.186, með því að setja umrædd rakvélablöð í innkaupakörfu og gengið svo með vörurnar afsíðis, úr mynd öryggismyndavélakerfis verslunarinnar, og þá út úr versluninni án þess að greiða fyrir vörurnar.
Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.
Í máli þessu gerir Lilja Norðfjörð, kt. 081073-4499, þá kröfu f.h. Bónus að ákærðu verði dæmdir til greiðslu skaðabóta að fjárhæð kr. 25.186.
VIII.
Á hendur ákærðu Ugnius, Tomas og Andrius fyrir þjófnað með því að hafa í sameiningu sunnudaginn 2. september 2007, um kl. 17:05, í verslun Bónus við Smiðjuveg 2 í Kópavogi, stolið rakvélablöðum af gerðinni Gilette Mach 3 turbo, Gilette M3 power og Gilette Mach 3, að verðmæti allt að kr. 76.744, með því að setja umrædd rakvélablöð í innkaupakörfu og gengið svo með vörurnar afsíðis, úr mynd öryggismyndavélakerfis verslunarinnar, og þá út úr versluninni án þess að greiða fyrir vörurnar.
Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.
Í máli þessu gerir Lilja Norðfjörð, kt. 081073-4499, þá kröfu f.h. Bónus að ákærðu verði dæmdir til greiðslu skaðabóta að fjárhæð kr. 76.744.
IX.
Á hendur ákærðu Ugnius, Tomas og Andrius fyrir þjófnað með því að hafa í sameiningu sunnudaginn 2. september 2007, um kl. 17:30, í verslun Bónus að Tjarnarvöllum í Hafnarfirði, stolið rakvélablöðum af gerðinni Gilette MC3 power og raksköfum af gerðinni Gilette Fusion power, að verðmæti allt að kr. 50.891, með því að setja umrædd rakvélablöð og sköfur í innkaupakörfu og gengið svo með vörurnar afsíðis, úr mynd öryggismyndavélakerfis verslunarinnar, og þá út úr versluninni án þess að greiða fyrir vörurnar.
Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.
Í máli þessu gerir Benedikt Arnarson, þá kröfu f.h. Bónus að ákærðu verði dæmdir til greiðslu skaðabóta að fjárhæð kr. 50.891.
X.
Á hendur ákærðu Gytis og Tomas fyrir þjófnað, með því að hafa í sameiningu, laugardaginn 8. september 2007, í verslun Bónus við Smiðjuveg í Kópavogi, stolið rakvélablöðum af gerðinni Gillette M3 Power og Gillette Mach 3 Turbo, að verðmæti allt að 92.915 kr., með því að setja umrædd rakvélablöð í innkaupakörfu, og gengið svo með vörurnar afsíðis, úr mynd öryggismyndavélakerfis verslunarinnar, og þá út úr versluninni án þess að greiða fyrir vörurnar.
Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.
Í máli þessu gerir Lilja Norðfjörð, kt. 081073-4499, þá kröfu f.h. Bónus að ákærðu verði dæmdir til greiðslu skaðabóta að fjárhæð kr. 92.915.
XI.
Á hendur ákærða Gytis og B fyrir þjófnað í félagi með ótilgreindum manni, með því að hafa föstudaginn 14. september 2007, í versluninni Krónunni, Fiskislóð 15 í Reykjavík, stolið rakvélablöðum af gerðinni Gillette Venus og Gilette M3 power, samtals að verðmæti allt að kr. 83.727, með því að stinga umræddum rakvélablöðum ofan í bakpoka, en ákærðu hurfu á braut er starfsmaður verslunarinnar hafði afskipti af þeim.
Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.
XII.
Á hendur ákærðu Gytis, A og Ugnius fyrir þjófnað, með því að hafa í sameiningu, sunnudaginn 16. september 2007, í verslun Hagkaupa í Garðabæ, stolið rakvélablöðum af gerðinni Gillette Mach 3 Power, Gillette Mach 3 Turbo og Gillette Fusion Power og raksköfum af gerðinni Gillette Fusion Power, að verðmæti allt að 193.228 kr., með því að setja umrædd rakvélablöð og sköfur í innkaupakörfu og gengið svo með vörurnar afsíðis, úr mynd öryggismyndavélakerfis verslunarinnar, og þá út úr versluninni án þess að greiða fyrir vörurnar.
Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.
Í máli þessu gerir Benedikt Arnarson þá kröfu f.h. Hagkaups, kt. 430698-3549, að ákærðu verði dæmd til greiðslu skaðabóta að fjárhæð kr. 193.228.
XIII.
Á hendur ákærða Gytis fyrir þjófnað í félagi með Mariusi Ceikauskas, kt. 280288-3499,, með því að hafa sunnudaginn 30. september 2007, í verslun Lyfju, Lágmúla 5 í Reykjavík, stolið samtals 9 ilmvatnsglösum af tegundinni Red Door Velvet, Escada, Burberry, Obsession, Blossom, Moschino Funny, Max Mara og Very Irresistible, allt samtals að verðmæti um 41.311 kr., með því að stinga umræddum ilmvatnsglösum inn á sig og ganga út úr versluninni án þess að greiða fyrir vörurnar.
Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.
Í máli þessu gerir Benedikt Arnarson þá kröfu f.h. Lyfju, kt. 531095-2279,
að ákærði verði dæmdur til greiðslu skaðabóta að fjárhæð kr. 41.311.
XIV.
Á hendur ákærða Gytis fyrir hylmingu, með því að hafa þriðjudaginn 2. október 2007, haft í vörslum sínum á ofangreindu lögheimili sínu, Garmin Nuvi 660 GPS staðsetningartæki að verðmæti um 50.000 kr., en umræddu tæki var stolið úr bifreiðinni TE-145 á bifreiðastæði við íbúðarhúsnæðið að Hringbraut 161 í Reykjavík.
Telst þetta varða við 1. mgr. 254. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.
XV.
Á hendur ákærða B fyrir hylmingu, með því að hafa þriðjudaginn 2. október 2007, haft í vörslum sínum á ofangreindum dvalarstað sínum, Garmin Nuvi 660 GPS staðsetningartæki að verðmæti um 50.000 kr., en umræddu tæki var stolið úr bifreiðinni OV-213 á bifreiðastæði við Laugateig 38 í Reykjavík, á tímabilinu 14-15. júlí 2007.
Telst þetta varða við 1. mgr. 254. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.
Þess er krafist að ákærðu verði dæmd til refsingar.“
Önnur ákæra var gefin út 23. nóvember 2007, á hendur:
,,A, kt [...],
[heimilisfang],
Ugniusi Vaiciulis, kt. 060179-2479,
Fellsmúla 4, Reykjavík,
fyrir þjófnað með því að hafa í sameiningu laugardaginn 15. september 2007, í verslun Hagkaupa, Skeifunni 15 í Reykjavík, stolið rakvélablöðum af gerðinni Gillette og snyrtivörum af gerðinni Gucci, Dior, Boss, Bourjois, Versace, Max Mara, Lacoste og Calvin Klein, með því að setja rakvélablöðin og snyrtivörurnar í innkaupakörfu og gengið svo með vörurnar afsíðis, úr mynd öryggismyndavélakerfis verslunarinnar, og þá út úr versluninni án þess að greiða fyrir vörurnar.
Háttsemi ákærðu telst varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.
Í máli þessu gerir Benedikt Arnarson, kt. 150962-7149, þá kröfu f.h. Hagkaupa, kt. 430698-3549, að ákærðu verði dæmd til greiðslu skaðabóta að fjárhæð kr. 1.308.842, ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. vaxtalaga nr. 38, 2001, frá tjónsdegi en síðan dráttarvaxta samkvæmt 9. gr. sömu laga að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar til greiðsludags.
Þess er krafist að ákærðu verði dæmd til refsingar.“
Þriðja ákæran var gefin út 23. nóvember 2007, á hendur:
,,Gytis Vaiciulis, kt. 040188-3399,
Fellsmúla 4, Reykjavík, og
B, kt. [...],
. [heimilisfang],
dvst. . [heimilisfang],
fyrir eftirtalin auðgunarbrot:
I.
Á hendur ákærðu báðum fyrir þjófnað með því að hafa í sameiningu fimmtudaginn 13. september 2007, í verslun Hagkaupa, Skeifunni 15 í Reykjavík, stolið snyrtivörum af gerðinni Gucci, Dior, Boss, Bourjois, Versace, Max Mara, Lacoste og Calvin Klein, með því að setja snyrtivörurnar í innkaupakörfu og gengið svo með vörurnar afsíðis, úr mynd öryggismyndavélakerfis verslunarinnar, og þá út úr versluninni án þess að greiða fyrir vörurnar.
II.
Á hendur ákærðu báðum fyrir þjófnað með því að hafa í sameiningu laugardaginn 15. september 2007, í verslun Hagkaupa, Skeifunni 15 í Reykjavík, stolið snyrtivörum af gerðinni Gucci, Dior, Boss, Bourjois, Versace, Max Mara, Lacoste og Calvin Klein, með því að setja snyrtivörurnar í innkaupakörfu og gengið svo með vörurnar afsíðis, úr mynd öryggismyndavélakerfis verslunarinnar, og þá út úr versluninni án þess að greiða fyrir vörurnar.
Háttsemi ákærðu telst varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.
Í máli þessu gerir Benedikt Arnarson, kt. 150962-7149, þá kröfu f.h. Hagkaupa, kt. 430698-3549, að ákærðu verði dæmdir til greiðslu skaðabóta að fjárhæð kr. 1.308.842, ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. vaxtalaga nr. 38, 2001, frá tjónsdegi en síðan dráttarvaxta samkvæmt 9. gr. sömu laga að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar til greiðsludags.
Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar.“
Málin voru sameinuð.
Verjandi ákærða Andriusar krefst sýknu og til vara vægustu refsingar sem lög leyfa. Komi til refsivistar er þess krafist að gæsluvarðhaldsvist ákærða komi til frádráttar. Krafist er frávísunar bótakrafna. Málsvarnarlauna er krafist úr ríkissjóði skv. framlögðum reikningi.
Verjandi ákærða Gytis krefst sýknu af þeim sakarefnum þar sem ákærði neitar sök, en vægustu refsingar vegna sakarefnis sem lýst er í XI., XII. og XIII. kafla ákæru. Verði dæmd refsivist er þess krafist að hún verði skilorðsbundin. Komi til óskilorðsbundinnar refsivistar er þess krafist að gæsluvarðhaldsvist ákærða komi til frádráttar. Þess er krafist að skaðabótakröfum á hendur ákærða verði vísað frá dómi. Málsvarnarlauna er krafist að mati dómsins úr ríkissjóði.
Verjandi ákærðu A krefst aðallega sýknu og að bótakröfum verði vísað frá dómi. Til vara er krafist sýknu af öllum kröfum og að bótakröfum verði vísað frá dómi að svo stöddu. Til þrautavara er krafist vægustu refsingar og ef refsivist verður dæmd að hún verði skilorðsbundin. Í öllum tilvikum er málsvarnarlauna krafist skv. framlögðum reikningi.
Verjandi ákærða B krefst sýknu og að bótakröfum verði vísað frá dómi. Málsvarnarlauna úr ríkissjóði er krafist að mati dómsins.
Verjandi ákærða Thomas krefst vægustu refsingar sem lög leyfa vegna sakarefnis í IV. kafla ákæru og að gæsluvarðhaldsvist ákærða komi til frádráttar refsivistar ef dæmd verður. Þess er krafist að allur sakarkostnaður, þ.m.t. málsvarnarlaun, verði greidd úr ríkissjóði.
Verjandi ákærða Ungius krefst aðallega sýknu en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa. Ef dæmd verður refsivist er þess krafist að gæsluvarðhaldsvist komi til frádráttar. Þess er krafist að bótakröfum á hendur ákærða verði vísað frá dómi, en til vara að þær sæti lækkun. Þess er krafist að sakarkostnaður, þ.m.t málsvarnarlaun, verði greidd úr ríkissjóði.
Upphaf rannsóknar máls þessa má rekja til þess er fangavörður á Litla-Hrauni hafði samband við lögreglu og greindi frá því að ákærði Ugnius hefði komið með fatnað til refsifanga og að grunur væri um að fatnaðurinn væri illa fenginn.
Hákon Sigurjónsson lögreglufulltrúi lýsti rannsókninni fyrir dóminum en m.a. var gerð húsleit að Fellsmúla 4 og að Háaleitisbraut 46 hér í borg þar sem mikið fannst af varningi sem rannsóknaraðilar töldu þýfi eins og fram kemur í gögnum málsins. Ekki er ástæða til þess að rekja framvindu rannsóknarinnar þar sem margir komu við sögu.
Nú verður vikið að einstökum ákæruliðum, reifaður framburður ákærðu og vitna við hvern ákærulið um sig og niðurstaða viðkomandi ákæruliðar strax á eftir.
Ákæra dagsett 13. nóvember 2007.
Undir aðalmeðferð málsins féll ákæruvaldið frá I. kafla þessarar ákæru og þeim hluta II. kafla sem lýtur að Nike fatnaði.
Ákæruliður II.
Ákærði Tomas neitar sök. Hann kvaðst ásamt meðákærða Ungius hafa farið með varninginn sem í þessum ákærulið greinir á Litla-Hraun. Ákærði kvað Salunas, refsifanga á Litla-Hrauni, hafa afhent sér peninga til fatakaupa. Peningana hafi ákærði afhent öðrum manni sem hann gat ekki nafngreint. Sá hafi síðan afhent fötin og ákærði tekið að sér að afhenda þau á Litla-Hrauni. Hann kvaðst ekki hafa skoðað fatnaðinn en vitað að hann var að afhenda föt. Ákærði kvaðst ekki hafa vitað að fatnaðurinn væri stolinn.
Ákærði Ugnius neitar sök. Hann kvaðst hafa farið með fatnaðinn sem hér um ræðir á Litla-Hraun ásamt meðákærða Tomas en hann hafi ekki vitað að um þýfi var að ræða. Ákærði kvað kunningja refsifanga á Litla-Hrauni hafa afhent fatnaðinn í því skyni að ákærðu færu með hann á Litla-Hraun til eigandans þar. Ákærði kvaðst hafa vitað að í pakkanum voru föt en ekki vitað að fatnaðurinn væri þýfi og hann kvaðst ekki hafa tekið eftir því hvort fatnaðurinn væri nýr og eða væri verðmerktur. Hann hafi tekið við fatnaðinum í poka og ekki skoðað í pokann.
Vitnið Haraldur Jens Guðmundsson lýsti því hvernig það var fundið út hjá verslun Intersport að þær flíkur sem um ræðir í þessum ákærulið vantaði og það verið óþekkt rýrnun. Hann viti ekki til þess að aðrir selji Haglöfs vörur, auk þess sem vörurnar sem hér um ræðir hafi verið verðmerktar Intersport hf.
Vitnið Sarunas Budvytis kvaðst hafa afhent ákærða Tomas 300.000 krónur til fatakaupa sl. sumar. Hann kvaðst vita til þess að ákærði Tomas hafi verið upptekinn á þessum tíma og hann hafi því afhent nafngreindum manni peningana. Kvaðst hann telja að þessi maður hafi síðan keypt fatnaðinn og afhent ákærðu. Hann kvaðst ekki vita frekari deili á þessum manni. Sarunas kvaðst engin samskipti hafa átt við ákærða Ugnius vegna þessa máls.
Niðurstaða ákæruliðar II.
Með vitnisburði Haraldar Jens Guðmundssonar og öðrum gögnum málsins er sannað að þeim flíkum sem þessi ákæruliður lýtur að hafi verið stolið úr verslun Intersport eins og lýst er í ákærunni.
Ákærði Tomas fékk í hendur peninga til að kaupa föt fyrir, eins og lýst var, og tók hann við hærri peningafjárhæð hjá Sarunas en nemur verðmætum fatnaðarins sem hann fór með á Litla-Hraun ásamt meðákærða.
Báðir hafa ákærðu neitað að hafa vitað að um þýfi var að ræða.
Með vísan til alls ofanritaðs er ósannað gegn eindreginni neitun beggja ákærðu að þeir hafi vitað að flíkunum sem hér um ræðir var stolið úr verslun Intersport. Ber því að sýkna báða ákærðu af þessum ákærulið.
Eftir þessum úrslitum ber að vísa bótakröfu Intersports hf. frá dómi.
Fallið var frá ákærulið I og er bótakröfu Hákonar Hákonarsonar, f.h. Fata og skóa ehf., vísað frá dómi.
Ákæruliður III.
Í þennan ákærulið vantar lýsingu á því í hvaða verslun ákærðu er gefinn að sök þjófnaður. Af gögnum málsins er ljóst að verslunin er verslun 66° norður, Bankastræti 5, Reykjavík. Þessi ónákvæmni í ákæru kemur ekki að sök eins og á stendur.
Ákærði Gytis neitar sök og kvaðst ekki muna hvort hann var staddur í versluninni á þessum tíma.
Starfsmaður verslunarinnar bar kennsl á ákærða í myndsakbendingu og kvað hann hafa verið í versluninni á þessum tíma ásamt a.m.k. tveimur meðákærðu. Ákærði neitaði því. Á heimili ákærða fundust úlpur merktar 66° norður. Ákærði kvaðst ekki eigandi þeirra og ekki vita hver ætti þær.
Ákærða A neitar sök. Hún kvaðst ekki muna hvort hún hafi komið í verslunina sem hér um ræðir, en hún hafi engu stolið.
Ákærði Tomas neitar sök og kvaðst ekki hafa farið í verslunina sem hér um ræðir ásamt meðákærðu á þessum tíma og kvaðst ákærði ekki vita hvort hann hafi nokkru sinni komið í þessa verslun.
Ákærði Ugnius neitar sök og taldi sig ekki hafa verið í versluninni á þessum tíma og vissi ekki hvort hann hefði nokkru sinni komið þangað.
Vitnið Margrét Elísa Rúnarsdóttir kvaðst hafa verið við störf í versluninni sem hér um ræðir á þeim tíma sem í ákæru greinir, er fjórir einstaklingar komu þar inn. Tveir hafi farið inn í mátunarklefa með jakka þeirrar tegundar sem í ákæru greinir. Hin tvö, par að sögn vitnisins, hafi á meðan gengið um verslunina. Er fólkið fór út hafi þjófavarnarkerfið byrjað að pípa. Hún hafi þá hlaupið á eftir fólkinu. Eftir á kvaðst hún hafa orðið vör við það að tveir jakkar voru horfnir, af þeirri gerð sem í ákæru greinir. Hún kvað lögregluna hafa komið til sín í verslunina og sýnt ljósmyndir af fólki. Þar hafi hún þekkt þrjá þeirra sem voru í versluninni en ekki þann fjórða. Hún kvað lögreglumanninn hafa greint sér frá því að hin grunuðu væru meðal þeirra sem myndirnar voru af. Fyrir dóminum greindi hún frá á sama veg og hjá lögreglu að hún þekkti ákærðu utan einn og benti hún þá á mann sem ekki er meðal hinna ákærðu.
Vitnið Elísabet Björnsdóttir var við störf í versluninni á þessum tíma. Hún kvað þrjá karla og eina konu hafa komið þar inn. Tveir hafi farið inn í mátunarklefa. Þegar fólkið fór út úr versluninni hafi þjófavörn farið í gang. Ekki hafi tekist að stoppa fólkið af, en Margrét, samstarfsmaður hennar, hafi hlaupið á eftir einum aðilana. Hún kvaðst hafa séð að herðatré voru skilin eftir inni í mátunarklefa sem hafi gefið til kynna að einhverju hefði verið stolið, auk þess sem þjófavörn hafi farið í gang, en það hafi ekki gerst þegar fólkið kom inn í verslunina. Hún gat ekki borið um það hverju var stolið. Hún lýsti útliti fólksins. Hún kvað lögregluna hafa sýnt sér ljósmyndir af einstaklingum og hafi hún þá þekkt ákærðu A sem stúlkuna sem kom inn í verslunina á þessum tíma.
Vitnið Ágúst Rafn Einarsson rannsóknarlögreglumaður lýsti því er hann sýndi starfsmönnum verslunarinnar ljósmyndirnar.
Niðurstaða ákæruliðar III.
Ákærðu neita öll sök.
Vitnið Margrét Elísa Rúnarsdóttir kvaðst viss um að þekkja þrjú þeirra sem komu í verslunina á ljósmyndum sem henni voru sýndar en myndirnar voru 14 talsins. Áður hafði hún greint lögreglu frá því að konan sem kom í verslunina hafi verið ljóshærð. Á myndunum sem henni voru sýndar er ein kona sem talist getur ljóshærð, en það er mynd af ákærðu A. Þá var Margréti greint frá því, áður en hún skoðaði myndirnar, að hinir grunuðu væru á þeim. Myndsakbending þessi fór fram í versluninni og enginn verjenda hinna ákærðu var viðstaddur.
Vitnið Elísabet Björnsdóttir þekkti ákærðu A á ljósmyndunum, en hún skoðaði sömu myndir í versluninni, daginn eftir að vitnið Margrét gerði það.
Þessi háttur á myndsakbendingu er haldinn svo miklum annmörkum að ekki verður á henni byggt. Töluvert magn af fatnaði frá 66° norður fannst að Fellsmúla 4 en engar tvær flíkur þeirrar gerðar sem í ákæru greinir og sem svara til verðmætis sem þar er lýst. Að öllu þessu virtu er ósannað gegn eindreginni neitun ákærðu að þau hafi framið þá háttsemi sem í þessum ákærulið greinir og ber að sýkna þau.
Ákæruliður IV.
Sannað er með skýlausri játningu Tomas að hann hafi gerst sekur um háttsemi þá sem í þessum ákærulið greinir og er skírskotað til ákæru um lýsingu málavaxta.
Ákæruliður V.
Ákærði Tomas neitar sök. Hann kvaðst ekki muna hvort að hann var í versluninni á þessum tíma. Hann kvaðst ekki þekkja sig á upptöku úr eftirlitsmyndavél verslunarinnar frá þessum tíma.
Vitnið Lilja Marín Norðfjörð kvaðst sjá um öryggismál hjá verslunum Bónus. Hún vann að því að finna út magn þess sem talið var að hefði verið stolið úr verslununum í öllum tilvikum sem lýst er í þessari ákæru og varða Bónus. Hún kvað magn þess sem hvarf hafa verið fundið þannig, að vörutalning hafi verið gerð 25. ágúst. Þá hafi legið fyrir upplýsingar frá heildsala um varning sem verslanirnar höfðu fengið í hverja verslun Bónus um sig. Þá hafi legið fyrir upplýsingar um sölu viðkomandi vöru. Þegar þessar tölur voru bornar saman hafi verið hægt að finna út hvað átti að vera af viðkomandi vörum í hverri Bónus verslun um sig. Lilja lýsti því að hún hafi skoðað upptökur úr eftirlitsmyndavélum verslananna og skýrði hún þá vinnu sína fyrir dóminum. Fram kom hjá henni að myndir sem hún skoðaði hafi verið skýrari en þær upptökur sem afritaðar voru og eru hluti af gögnum málsins. Skoðaði hún fyrir dóminum upptöku varðandi einn ákæruliðinn og staðfesti þetta. Hún kvaðst hafa skoðað upptökurnar það vel að ekki væri mögulegt að aðrir hafi stolið rakvélablöðum en þeir einstaklingar sem fram koma á upptökunum og grunur er um að séu valdir að hvarfinu, nema þá einu eintaki eins og hún lýsti. Hún lýsti nánar vinnu við að finna út magn þess sem stolið var í hverri Bónus verslun um sig. Hún kvað innkaupakörfurnar hafa verið skildar eftir í verslununum en engin rakvélablöð hafi verið í þeim. Hún kvað þá reglu hjá fyrirtækinu að finnist karfa í versluninni með eiknennilegu innihaldi, þá eigi að tilkynna henni um það. Engar slíkar tilkynningar hafi borist. Lilja kvaðst hafa skoðað upptökurnar m.a. með það í huga hvort rýrnun gæti verið af völdum starfsmanna. Komið hafi í ljós að svo var ekki.
Lilja Marín kvað bótakröfur Bónus í öllum tilvikum miðast við útsöluverð þeirra vara sem stolið var. Hún vissi ekki hvert innkaupsverðið var.
Niðurstaða ákæruliðar V.
Meðal sönnunargagna í þessum ákærulið, og mörgum sem á eftir koma, eru upptökur úr eftirlitsmyndavélum viðkomandi verslana. Upptökur eru misjafnar að gæðum. Sumar mjög óskýrar. Hins vegar sést vel á þeim þegar einstaklingar taka varning sem viðkomandi er grunaður um að hafa stolið. Í mörgum tilvikum neita ákærðu að hafa verið á ferð í viðkomandi verslun. Í sumum tilvika sést illa eða ekki framan í þann einstakling sem er grunaður um þjófnað. Rannsakendur hafa í mörgum tilvikum ritað skýrslur, sem þeir staðfestu fyrir dómi, og látið í ljós álit sitt á því hverja hinna ákærðu þeir telji vera á upptökum. Mat rannsakenda ræður ekki úrslitum er svona stendur á, hvorki í þessum ákærulið né öðrum.
Ákærði neitar sök. Undir rannsókn málsins var upptaka úr eftirlitsmyndavél Bónus frá þessum tíma, borin undir marga grunaða aðila. Framburður flestra er á sama veg, að viðkomandi þekki ekki einstaklinginn sem grunaður er um þjófnaðinn sem hér um ræðir.
Börkur Árnason rannsóknarlögreglumaður ritaði skýrslu og staðfesti fyrir dómi að ákærði væri á upptökunni. Við skoðun dómsins á upptöku eftirlitsmyndavélarinnar, sem hér um ræðir, sést karlmaður taka mikið magn rakvélablaða og setja í körfu sína. Aldrei sést vel framan í manninn og hann er að hluta út úr mynd við iðju sína. Það er mat dómsins að öllu ofanrituðu virtu að alls ekki sé með vissu hægt að slá því föstu að ákærði Tomas sé maðurinn á myndunum og ber því að sýkna hann af þessum ákærulið.
Eftir þessum úrslitum ber að vísa skaðabótakröfu Bónus frá dómi.
Ákæruliður VI.
Ákærði Gytis neitar sök. Hann kveðst hafa verið staddur í versluninni á þessum tíma en engu hafa stolið. Hann kveðst ekki muna hver var með honum í för. Eftir að hafa skoðað upptöku úr eftirlitsmyndavél kvaðst ákærði þekkja sig og meðákærða B á upptökunni en ekki meðákærða Ugnius. Á upptökunni sést ákærði setja eitthvað í innkaupakörfu sína er hann stendur við hillu þar sem rakvélablöð munu hafa verið. Hann kvaðst hafa skilið allan varninginn eftir inni í versluninni, þar sem hann hafi ekki haft peninga meðferðis. Ákærði Gytis kvaðst engu geta svarað um meðákærða B.
Ákærði Ugnius neitar sök og kvaðst ekki hafa verið í versluninni ásamt meðákærðu á þessum tíma, en ákærði kvaðst hafa verið að vinna þennan dag. Á myndskeiði úr eftirlitsmyndavél verslunarinnar frá þessum tíma sjást þrír menn koma saman inn í verslunina og athafna sig þar. Hann kvaðst engan ákærðu þekkja á upptökunni. Við skýrslutöku hjá lögreglunni kvaðst ákærði þekkja báða meðákærðu á upptökunni og Tomas bróður sinn.
Ákærði B neitar sök en hann kom ekki fyrir dóminn undir aðalmeðferð málsins. Hjá lögreglunni kvaðst hann þekkja sig og meðákærða Gytis á myndunum og þriðji maðurinn líkist Tomas.
Julius Mangus bar um það í skýrslugjöf hjá lögreglunni að ákærðu Bog Gytis væru á myndunum auk Tomas. Ákærða A bar á sama veg hjá lögreglunni.
Niðurstaða ákæruliðar VI.
Sannað er með myndbandsupptöku úr eftirlitsmyndavél og með vitnisburði Lilju Marínar Norðfjörð, sem reifaður var við ákærulið V, og með öðrum gögnum málsins, að vörunum sem hér um ræðir var stolið þennan dag úr verslun Bónus. Eins og rakið hefur verið, hefur enginn hinna ákærðu borið um að ákærði Ugnius sé á myndunum sem varða þennan ákærulið. Margir hafa hins vegar borið um að bróðir hans Tomas sé þar. Ekki verður ráðið af upptökunni úr eftirlitsmyndavélinni, hvort ákærði Ugnius er á myndskeiðinu, en flest bendir til þess að svo sé ekki, eins og rakið var. Samkvæmt þessu er ósannað á ákærði Ugnius hafi verið í versluninni í umrætt sinn og ber að sýkna hann af þessum ákærulið.
Sannað er með framburði ákærða Gytis og með framburði ákærða B hjá lögreglu og með framburði annarra hjá lögreglu sem báru á sama veg um þetta, að þessir tveir ákærðu voru í versluninni á þeim tíma sem hér um ræðir og að myndbandið sýni þá þar. Ákærði B stendur hjá á meðan ákærði Gytis setur vörurnar í körfu sína. Þátttaka B í þjófnaði ákærða Gytis getur ekki falist í nærveru hans einni. Ekki sést á myndunum, eða neinum gögnum málsins, að hann hafi tekið þátt í þjófnaði í versluninni þennan dag og ber að sýkna hann af þessum ákærulið. Framburður ákærða Gytis, um að hann hafi gleymt peningum heima, er ótrúlegur en hann ber varðandi fleiri ákæruliði á sama veg og að hafa skilið vörurnar eftir í versluninni er hann uppgötvaði þetta.
Dómurinn telur sannað með upptöku úr eftirlitsmyndavélinni, og með vitnisburði Lilju Marínar Norðfjörð og að hluta með framburði ákærða Gytis sjálfs, sem ber að hann hafi tekið vörurnar, en gegn neitun hans um þjófnað, að hann hafi gerst sekur um háttsemi þá sem ákært er fyrir í þessum ákærulið.
Bótakröfunni hefur verið andmælt. Bótakrafa Bónus miðast við útsöluverð vörunnar sem ákærði stal. Ljóst er að fjártjón verslunarinnar er minna, en engar upplýsingar liggja fyrir um innkaupsverð og raunverulegt tjón af völdum ákærða. Ber skv. þessu að vísa bótakröfunni frá dómi.
Ákæruliður VII.
Ákærði Gytis neitar sök. Hann kvaðst hafa verið í versluninni en engu hafa stolið. Hann kvaðst ekki muna hvort meðákærði B var með í för. Ákærði mundi ekki hvort hann tók rakvélablöð í körfu sína, það gæti verið. Hann skoðaði upptöku úr eftirlitsmyndavél þar sem hann þekkti sig á upptökunni. Þar sem ákærði fór tómhentur út úr versluninni kvað hann ljóst að hann hefði skilið varninginn eftir þar inni þótt hann myndi það ekki. Fram kemur á upptöku eftirlitsmyndavélarinnar að maður sést skilja eftir innkaupakörfu inni í versluninni áður en hann gengur út. Ákærði kvaðst þekkja meðákærða B á upptökunni, hvorugur þeirra hafi stolið í versluninni.
Ákærði B neitar sök. Hann kom ekki fyrir dóm undir aðalmeðferð málsins. Hjá lögreglunni kvaðst ákærði sjást á upptökunni.
Niðurstaða ákæruliðar VII.
Sannað er með myndbandsupptöku úr eftirlitsmyndavél, og með vitnisburði Lilju Marínar Norðfjörð, sem reifaður var við ákærulið V, og með öðrum gögnum málsins, að vörunum sem hér um ræðir var stolið þennan dag úr verslun Bónus. Á upptökunni sést að ákærði Gytis tekur varninginn sem hér um ræðir í körfu sína. Framburður hans um hvað varð af vörunum er ótrúverðurgur en háttsemin í þessum ákærulið átti sér stað innan við fjórum klukkustundum eftir háttsemina sem lýst er í ákæruliðnum næsta hér á undan, en þar kvaðst ákærði Gytis hafa gleymt veski sínu heima eins og rakið var. Hann hefur borið að hann hafi farið tómhentur út úr versluninni.
Dómurinn telur sannað með upptöku úr eftirlitsmyndavélinni og með vitnisburði Lilju Marínar Norðfjörð, en gegn neitun ákærða Gytis, að hann hafi gerst sekur um háttsemi þá sem í þessum ákærulið greinir.
Ákærði B stendur hjá á meðan ákæri Gytis setur vörurnar í körfu sína. Þátttaka B í þjófnaði ákærða Gytis getur ekki falist í nærveru hans einni. Ekki sést á myndunum eða öðrum gögnum málsins að hann hafi tekið þátt í þjófnaði í versluninni þennan dag og ber að sýkna hann af þessum ákærulið.
Bótakröfunni hefur verið andmælt. Bótakrafa Bónus miðast við útsöluverð vörunnar sem ákærði stal. Ljóst er að fjártjón verslunarinnar er minna, en engar upplýsingar liggja fyrir um innkaupsverð og raunverulegt tjón af völdum ákærða. Ber skv. þessu að vísa bótakröfunni frá dómi.
Ákæruliður VIII.
Ákærði Andrius neitar sök. Hann kvaðst hafa verið í versluninni á þessum tíma ásamt meðákærða Ugnius. Hann kvaðst hafa sett hluti í innkaupakörfu, en munina hafi hann skilið eftir er hann fór út úr versluninni. Þetta hafi hann gert þar sem hann hafði ekki peninga til þess að greiða. Hann kvaðst ekki vita hvað meðákærði Ugnius gerði í versluninni en ákærði kvaðst ekki hafa séð hann taka rakvélablöð þar. Þá kvaðst hann ekki hafa séð þriðja manninn, sem að var með þeim í för, taka rakvélablöð. Hann skoðaði upptöku úr eftirlitsyndavél verslunarinnar frá þessum tíma og þekkti hann sig og meðákærða Ugnius þar, en ekki þriðja manninn sem var með þeim í för.
Ákærði Tomas neitar sök. Hann kvaðst ekki muna hvort hann hafi verið í versluninni á þeim tíma sem hér um ræðir og þekkti sig ekki á upptöku úr eftirlitsmyndavél frá þessum tíma.
Ákærði Ugnius neitar sök. Hann kvaðst hafa verið í versluninni á þeim tíma sem hér um ræðir en ekki muna hvort meðákærðu hafi verið með honum. Hann kvaðst engan varning hafa sett í innkaupakörfu á þessum tíma og ekki muna hvort vörur voru skildar eftir í versluninni. Hann kvaðst ekki muna hvort hann keypti eitthvað í þessari ferð. Hann kvaðst ekki þekkja tvo tiltekna menn á myndskeiði úr eftirlitsmyndavél en mennirnir standa við rekka sem hafði að geyma rakvélablöð og snúa báðir baki í upptökuvélina. Annar mannanna er að mestu leyti út úr mynd. Ákærði tók fram að tveir menn í versluninni á þessum tíma líkist meðákærðu en hann kvaðst ekki viss hvort þetta væru þeir.
Niðurstaða ákæruliðar VIII.
Sannað er með myndbandsupptöku úr eftirlitsmyndavél og með vitnisburði Lilju Marínar Norðfjörð, sem reifaður var við ákærulið V, og með öðrum gögnum málsins, að vörunum sem hér um ræðir var stolið þennan dag úr verslun Bónus. Enginn hinna ákærðu hefur borið að ákærði Tomas hafi verið í versluninni á þeim tíma sem hér um ræðir. Þá verður það ekki ráðið með vissu af öðrum gögnum málsins, s.s. upptökum úr eftirlitsmyndavél. Er því ósannað að ákærði Tomas hafi verið í versluninni á þessum tíma og ber að sýkna hann af þessum ákærulið. Ákærðu Ugnius og Andrius hafa báðir borið um þessa verslunarferð sína en neita sök. Á upptökum úr eftirlitsmyndavél sjást þeir taka mikið magn rakvélablaða í körfur sínar og ganga afsíðis. Framburður beggja ákærðu er ótrúverðugur og ekki í neinu samræmi við annað sem fram er komið í málinu og verður í engu á honum byggt um afdrif vörunnar sem þeir tóku. Er sannað með upptökum úr eftirlitsmyndavél að ákærðu Ugnius og Andrius hafi gerst sekir um þá háttsemi sem ákært er fyrir í þessum ákærulið.
Bótakröfunni hefur verið andmælt. Bótakrafa Bónus miðast við útsöluverð vörunnar sem ákærðu stálu. Ljóst er að fjártjón verslunarinnar er minna, en engar upplýsingar liggja fyrir um innkaupsverð og raunverulegt tjón af völdum ákærðu. Ber skv. þessu að vísa bótakröfunni frá dómi.
Ákæruliður IX.
Ákærði Andrius neitar sök. Hann kvaðst hafa verið í versluninni á þessum tíma ásamt meðákærða Ugnius. Hann kvaðst ekki muna eftir Tomas. Ákærði kvaðst ekki þekkja þriðja manninn sem var í för með þeim, þar sem andlit hans sjáist ekki á upptöku eftirlitsmyndavélarinnar. Eftir að hafa skoðað upptökuna kvaðst ákærði þekkja sig og meðákærða Ugnius þar. Hann kvaðst hafa sett tvo til þrjá pakka af rakvélablöðum í innkaupakörfu sína en skilið vörurnar eftir inni í versluninni þar sem hann átti ekki fyrir þeim, eða hann hafi ekki haft greiðslukort sitt meðferðis. Hann hafi þannig farið tómhentur út. Í húsleit á heimili ákærða, þar sem margt fólk dvaldist á þeim tíma sem húsleitin fór fram, fannst nokkurt magn af rakvélablöðum. Ákærði kvaðst ekki eiga þau og ekki vita hver eigandinn væri.
Ákærði Tomas neitar sök. Hann kvaðst ekki minnast þess að hafa verið í versluninni á þessum tíma. Hann kvaðst ekki þekkja sig af upptökum úr eftirlitsmyndavél og heldur ekki þekkja meðákærðu.
Ákærði Ugnius neitar sök. Hann kvaðst hafa verið í versluninni á þessum tíma ásamt meðákærðu að hann taldi. Ákærði neitaði sök og kvaðst ekki vita hvort meðákærðu stálu einhverju í versluninni. Á myndskeiði úr eftirlitsmyndavél kemur fram að ákærði setur eitthvað í innkaupakörfu. Hann kvaðst hafa skilið varninginn eftir inni í versluninni en helst mátti skilja á ákærða að það hafi verið sökum þess að hann hafi skilið veskið sitt eftir heima.
Vitnið Benedikt Arnarson, starfsmaður öryggisdeildar Haga, lýsti því hvernig magntölur voru fundnar út varðandi þjófnað sem lýst er í þessum ákærulið. Hann kvað hafa komið í ljós að stolið var tuttugu og sjö pökkum af rakvélablöðum og tveimur rakvélum og það sé kæruefnið.
Niðurstaða ákæruliðar IX.
Sannað er með myndbandsupptöku úr eftirlitsmyndavél og með vitnisburði Lilju Marínar Norðfjörð, sem reifaður var við ákærulið V, og Benedikts Arnarsonar og með öðrum gögnum málsins að vörunum sem hér um ræðir var stolið þennan dag úr verslun Bónus. Enginn hinna ákærðu hefur borið að ákærði Tomas hafi verið í versluninni á þeim tíma sem hér um ræðir. Þá verður það ekki ráðið með vissu af öðrum gögnum málsins, s.s. upptökum úr eftirlitsmyndavél. Er því ósannað að ákærði Tomas hafi verið í versluninni á þessum tíma og ber að sýkna hann af þessum ákærulið. Ákærðu Ugnius og Andrius sjást á eftirlitsmyndavélum setja vörur í körfu sína og skýringar þeirra hvað varð um vörurnar eru fjarstæðukenndar. Þessi verslunarferð þeirra átti sér stað innan við hálfri klukkustund eftir verslunarferðina sem lýst er í ákæruliðnum næsta hér á undan. Er sannað með upptökum úr eftirlitsmyndavél og öðrum gögnum málsins, en gegn neitun ákærðu Ugnius og Andrius, að þeir hafi gerst sekir um þá háttsemi sem ákært er fyrir í þessum ákærulið.
Bótakröfunni hefur verið andmælt. Bótakrafa Bónus miðast við útsöluverð vörunnar sem ákærðu stálu. Ljóst er að fjártjón verslunarinnar er minna, en engar upplýsingar liggja fyrir um innkaupsverð og raunverulegt tjón af völdum ákærða. Ber skv. þessu að vísa bótakröfunni frá dómi.
Ákæruliður X.
Ákærði Gytis neitar sök. Hann mundi ekki hvort meðákærði Tomas var með honum í för. Ákærði Gytis þekkti sig á upptöku úr eftirlitsmyndavél. Hann sést þar setja varning í körfu sína. Hann kvaðst ekki muna hvað varð um varninginn, en hann hafi skilið vörurnar eftir inni í versluninni en engu stolið. Aðspurður um ástæðu þess að hann skildi vörurnar eftir kvaðst ákærði ekki muna það.
Ákærði Tomas neitar sök. Hann kvaðst ekki muna hvort hann var í versluninni á þessum tíma. Hann kvaðst ekki þekkja sig á upptöku úr eftirlitsmyndavél. Þá kvaðst hann heldur ekki þekkja meðákærða af upptökunni.
Niðurstaða ákæruliðar X.
Sannað er með myndbandsupptöku úr eftirlitsmyndavél og með vitnisburði Lilju Marínar Norðfjörð, sem reifaður var við ákærulið V, og með öðrum gögnum málsins, að vörunum sem hér um ræðir var stolið þennan dag úr verslun Bónus. Samkvæmt lögregluskýrslu sem rannsakendur rituðu segir að greina megi ákærða Gytis koma í verslunina á þessum tíma og Ugnius eða bróður hans Tomas, en þeir bræður séu mjög áþekkir þegar ekki sjáist vel í andlit þeirra. Ákærði Tomas neitar því að hafa verið í versluninni á þessum tíma. Framburður ákærða Gytis um þetta er mjög á reiki eins og um flest annað í málinu og lítið á honum að byggja. Ekki verður með vissu ráðið af upptökunni úr eftirlitsmyndavélinni, eða af öðrum gögnum málsins, að ákærði Tomas hafi verið í versluninni á þessum tíma og ber því að sýkna hann af þessum ákærulið.
Ákærði Gytis sést setja vörur í körfu sína en segist hafa skilið þær eftir í versluninni. Ekkert bendir til þess að það sé rétt. Sannað er með myndbandsupptöku úr eftirlitsmyndavél og með vitnisburði Lilju Marínar Norðfjörð, sem reifaður var við ákærulið V, en gegn neitun ákærða Gytis, að hann hafi gerst sekur um háttsemi sem í þessum ákærulið greinir.
Bótakröfunni hefur verið andmælt. Bótakrafa Bónus miðast við útsöluverð vörunnar sem ákærðu stálu. Ljóst er að fjártjón verslunarinnar er minna, en engar upplýsingar liggja fyrir um innkaupsverð og raunverulegt tjón af völdum ákærða. Ber skv. þessu að vísa bótakröfunni frá dómi.
Ákæruliður XI.
Ákærði Gytis játar sök, utan magnið. Hann kvaðst hafa stolið tíu til fimmtán pökkum af rakvélablöðum. Hann kvaðst ekki muna hver var með honum í för, en samferðamaður hans hafi engu stolið. Hann kvaðst ekki hafa verið með bakpoka í versluninni en hann hafi stungið rakvélapökkunum í vasann og farið þannig með þau út.
Ákærði B neitar sök, en hann kom ekki fyrir dóminn undir aðalmeðferð málsins.
Vitnið Fannar Örn Hermannsson, verslunarstjóri Krónunnar, kvaðst hafa verið við störf í versluninni á þessum tíma. Hann kvaðst þá hafa séð þrjá grunsamlega einstaklinga sem hafi verið með töskur í innkaupakerrunni og þeir hafi að hans sögn þóst versla. Hann kvaðst hafa fylgst með mönnunum en einn hafi haldið í innkaupakörfuna, annar hafi haldið á poka og þriðji sett rakvélablöðin í pokann, en hann hafi séð hvar þeir settu ,,hrúgu“ af rakvélablöðum ofan í tösku sem þeir höfðu meðferðis. Hann hafi ætlað að fá aðstoð við að stöðva mennina. Þeir hafi þá haldið út úr versluninni, en á leiðinni hafi þeir misst töskurnar og hlaupið í burtu. Andvirði rakvélablaðanna sé hið sama og í þessum ákærulið greinir.
Niðurstaða ákæruliðar XI.
Engin sakbending fór fram til að ganga úr skugga um það hvort Fannar Örn þekkti mennina sem voru á ferð í versluninni. Ósannað er gegn neitun ákærða B að hann hafi verið einn mannanna sem voru á ferð í versluninni Krónunni á þeim tíma sem hér um ræðir. Ber því að sýkna hann af þessum ákærulið.
Sannað er með játningu ákærða Gytis að hann hafi gerst sekur um þjófnað skv. þessum ákærulið og er út frá því gengið að hann hafi stolið tíu pökkum af rakvélablöðum. Ekki er ljóst hvert verðmæti þeirra er en ljóst er að það uppfyllir skilyrði sem þjófnaðarandlag.
Ákæruliður XII.
Ákærði Gytis neitar sök en kaus að tjá sig ekki um sakarefnið. Hjá lögreglunni játaði hann sök að hluta skv. þessum ákærulið. Hann kaus að skýra mál sitt ekki frekar fyrir dóminum.
Ákærða A neitar sök. Hún kvaðst hafa verið í versluninni á þeim tíma sem hér um ræðir ásamt meðákærðu Gytis og Ugnius. Hún kvaðst hafa orðið vör við það að þrír starfsmenn verslunarinnar hafi fylgst með ákærðu eins og þau hafi verið að stela einhverju, sem ekki var. Ugnius hafi verið með innkaupakörfuna en hún kvaðst ekki hafa séð hvort meðákærðu settu rakvélablöð í körfuna, en þau Ugnius hafi verið í versluninni þeirra erinda að kaupa mat. Hún hafi ekki haft innkaupakörfu meðferðis og engar vörur, eins og lýst er í ákærunni, sett í körfuna hjá meðákærða Ugnius. Eftir að hún hafi orðið starfsmanna vör hafi hún farið út úr versluninni, en meðákærði Gytis hafi komið á eftir.
Ákærði Ugnius neitar sök. Hann kvaðst hafa verið í versluninni ásamt meðákærðu á þessum tíma. Hann kvaðst ekkert hafa keypt en skilið varning eftir í versluninni þar sem hann hafi farið út eftir að hann varð þess var að starfsfólk fylgdist með ákærðu líkt og þau væru að stela. Hann kvaðst ekki hafa verið búinn að setja nein rakvélablöð í innkaupakörfuna sem hann skildi eftir í versluninni og meðákærða A hafi aldrei í þessari atburðarás tekið innkaupakörfuna.
Vitnið Margrét Birgisdóttir, verslunarstjóri í Hagkaupum, Garðabæ, lýsti því fyrir dóminum hvernig magn og verðmæti þýfisins sem í þessum ákærulið greinir var fundið.
Niðurstaða ákæruliðar XII.
Sannað er með vitnisburði Margrétar Birgisdóttur, og með upptökum úr eftirlitsmyndavélum, að verðmætum sem í ákæru greinir var stolið úr Hagkaupum, Garðabæ, á þessum tíma.
Ákærðu hafa öll borið að hafa verið í versluninni á þessum tíma og sjást þau öll á upptökunni úr eftirlitsmyndavél. Þar sjást ákærðu Gytis og Ugnius setja varning í innkaupakörfu, sem hvor um sig hafði á handleggnum. Ekki sést hvað sett er í innkaupakörfurnar, en skv. því sem sagt er í kærubréfi frá Hagkaupum, voru ákærðu við hillur sem höfðu að geyma rakvélar og rakvélablöð.
Ákærða A hefur ekki meðferðis innkaupakörfu og hún sést ekki setja neina muni í körfu meðákærðu. Þótt hún hafi verið í för með meðákærðu er þeir stálu úr versluninni, eins og síðar verður rakið, dugar nærvera hennar ein ekki til að sakfella hana fyrir þjófnað. Ekkert er fram komið í málinu sem bendir til þess að hún hafi gerst sek um þjófnað í greint sinn og ber því að sýkna hana af þessum ákærulið.
Framburður ákærða Ugnius, um að hann hafi skilið vörurnar eftir inni í versluninni, er ótrúverðugur og fær enga stoð í öðrum gögnum málsins.
Ákærði Gytis tjáði sig ekki um sakarefni málsins en hjá lögreglu játaði hann að hafa stolið tíu til fimmtán pakkningum af rakvélablöðum í greint sinn. Er sannað með upptökunni úr eftirlitsmyndavél, og með vitnisburði Margrétar Birgisdóttur sem bar um hvarf úr versluninni, en gegn neitun ákærðu Uginus og Gytis fyrir dómi, en að hluta með játningu ákærða Gytis hjá lögreglu, að þeir hafi gerst sekir um þá háttsemi sem í þessum ákærulið greinir.
Bótakröfunni hefur verið andmælt. Bótakrafa Hagkaupa miðast við útsöluverð vörunnar sem ákærðu stálu. Ljóst er að fjártjón verslunarinnar er minna, en engar upplýsingar liggja fyrir um innkaupsverð og raunverulegt tjón af völdum ákærðu. Ber skv. þessu að vísa bótakröfunni frá dómi.
Ákæruliður XIII.
Sannað er með skýlausri játningu ákærða fyrir dómi og með öðrum gögnum málsins að hann hafi gerst sekur um háttsemi þá sem hér um ræðir og er skírskotað til ákærunnar um lýsingu málavaxta.
Bótakröfunni hefur verið andmælt. Bótakrafa Lyfju miðast við útsöluverð vörunnar sem ákærði stal. Ljóst er að fjártjón verslunarinnar er minna, en engar upplýsingar liggja fyrir um innkaupsverð og raunverulegt tjón af völdum ákærða. Ber skv. þessu að vísa bótakröfunni frá dómi.
Ákæruliður XIV.
Ákærði neitar sök. Framburður ákærða um þetta var óljós en helst var að skilja á honum að kunningi hans hafi haft orð á því að GPS tæki, sem var í íbúðinni þar sem ákærði dvaldist á þessum tíma, hefði verið stolið fyrir um ári síðan. Ákærði kvaðst ekki hafa haft tækið sem hér um ræðir í vörslum sínum og því neita sök.
Niðurstaða ákæruliðar XIV.
GPS tækið sem hér um ræðir fannst í stofu íbúðarinnar að Fellsmúla 4 þar sem ákærði bjó. Fimm manns höfðu þar svefnaðstöðu. Ákærði var ekki einn þeirra. Gegn eindreginni neitun ákærða er ósannað að hann hafi haft tækið sem hér um ræðir í vörslum sínum og ber að sýkna ákærða af þessum ákærulið.
Ákæruliður XV.
Ákærði B neitar sök. Hann kom ekki fyrir dóminn undir meðferð málsins.
Niðurstaða ákæruliðar XV.
Engin sönnunarfærsla fór fram fyrir dóminum um það að ákærði B hafi haft GPS tækið sem í þessum ákærulið greinir í vörslum sínum. Gegn neitun ákærða er ósannað að hann hafi haft vörslur tækisins og ber að sýkna hann.
Öll brot ákærðu sem sakfellt er fyrir eru rétt færð til refsiákvæða í ákærunni.
Niðurstaða beggja ákæra dagsettra 23. nóvember 2007.
Að kröfu dómsins var sérstaklega vikið að formhlið þessara ákæra við munnlegan flutning málsins. Ákærandinn krefst efnisdóms en allir verjendur krefjast frávísunar.
Sakarefni á hendur ákærðu A og Ungius skv. ákæru dagsettri 23. nóvember 2007 er hið sama og sakarefni á hendur ákærðu Gytis og B í II. kafla ákæru á hendur þeim en ákæran er dagsett sama dag, utan rakvélablöð sem eru án sérgreiningar um tegund eða verðmæti eins og annað í þessum ákærum. Sömu rannsóknargögn fylgja báðum ákærunum varðandi þetta sakarefni. Þá er sama bótakrafa í báðum ákærunum, en hún gefur til kynna stórfelldan þjófnað. Kæruskýrslur virðast ekki benda til þess að kærður hafi verið þjófnaður í versluninni 15. september 2007, heldur hafi ætlað hvarf átt sér stað fyrr. Í þessum tveimur ákærum er engin sérgreining muna, hvorki um undirtegund einstakra vörutegunda, fjölda hverrar tegundar um sig eða verð. Þá er engin lýsing á heildarverðmæti þess sem ákærðu er gefið að sök að hafa stolið. Þessi efnislýsing í ákærunum leiðir til þess að við efnisdóm verður dómurinn að afmarka sakarefnið og skammta einstökum ákærðu sakarefni, yrði sakfellt, en slíkt ber að gera í ákæru, sbr. c lið 1. mgr. 116 gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Þessir ágallar á ákæru eru þess konar að ekki er unnt að leggja efnisdóm á ákærurnar, enda varða ágallarnir ekki aukaatriði brots svo sem stað og stund eins og lýst er í 1. mgr. 117. gr. lagana. Ekki verður úr þessum ágöllum bætt undir aðalmeðferð málsins. Ber skv. þessu að vísa báðum ákærunum, dagsettum 23. nóvember 2007, annars vegar á hendur ákærðu A og Ugnius, og hins vegar á hendur ákærðu Gytis og B, frá dómi.
Samkvæmt sakavottorði ákærða Andrius hefur hann ekki áður gerst brotlegur við lög. Hann er sakfelldur fyrir tvo þjófnaði í samvinnu við annan mann. Refsing hans er ákvörðuð með hliðsjón af 77. gr. almennra hegningarlaga og þykir hæfilega ákvörðuð fangelsi í 2 mánuði. Ákærði Andrius hefur ekki áður gerst brotlegur við lög og brotaandlag er ekki hátt. Þykir því eftir atvikum rétt að fresta fullnustu refsivistar hans skilorðsbundið í 2 ár frá birtingu dómsins að telja og skal sá hluti refsingarinnar falla niður að þeim tíma liðnum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Samkvæmt sakavottorði ákærða Gytis hefur hann ekki áður gerst brotlegur við lög. Hann er sakfelldur fyrir sex þjófnaði, að hluta unna í samvinnu með öðrum. Hann hefur játað sum brota sinna og er það virt honum til refsilækkunar við ákvörðun refsingar. Refsing hans er ákvörðuð með hliðsjón af 77. gr. almennra hegningarlaga og þykir hæfilega ákvörðuð fangelsi í 8 mánuði. Ákærði Gytis er ungur að árum. Hann hefur að hluta játað brot sín og hefur ekki áður gerst brotlegur við lög. Þykir því eftir atvikum rétt að fresta fullnustu 6 mánaða af refsivistinni skilorðsbundið í 2 ár frá birtingu dómsins að telja og skal sá hluti refsingarinnar falla niður að þeim tíma liðnum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærði Tomas hlaut hinn 18. maí sl. 3 mánaða fangelsi, skilorðsbundið í 2 ár, fyrir þjófnað. Með broti sínu nú hefur hann rofið skilorð dómsins og ber að gera honum refsingu í einu lagi, sbr. 60. og 77. gr. almennra hegningarlaga, og þykir refsingin hæfilega ákvörðuð fangelsi í 4 mánuði en ekki eru efni til að skilorðsbinda refsivistina.
Ákærði Ugnius hlaut hinn 18. maí sl. 7 mánaða fangelsi fyrir þjófnað, hylmingu og vopnalagabrot, en 5 mánuðir af refsivistinni voru skilorðsbundnir í 2 ár. Með brotum sínum nú hefur hann rofið skilorð og ber að dæma skilorðshluta framangreinds dóms upp og gera ákærða refsingu í einu lagi, sbr. 60. og 77. gr. almennra hegningarlaga, og þykir hún hæfilega ákvörðuð fangelsi í 10 mánuði.
Frá refsivist ákærðu skal í öllum tilvikum draga gæsluvarðhald sem viðkomadi sætti vegna rannsóknar málsins, sbr. 76. gr. almennra hegningarlaga. Þetta á einnig við um refsivist ákærða Andrius, komi til afplánunar refsivistar hans.
Ákærði Andrius greiði Erlendi Þór Gunnarssyni héraðsdómslögmanni 1.577.913 krónur í málsvarnarlaun.
Ákærði Gytis greiði Hilmari Baldurssyni héraðsdómslögmanni ¾ hluta af 1.372.488 krónum í málsvarnarlaun á móti ¼ hluta sem greiðist úr ríkissjóði.
Ákærði Tomas greiði Ingimar Ingimarssyni héraðsdómslögmanni 1/5 hluta af 1.372.488 krónum í málsvarnarlaun á móti 4/5 hlutum sem greiðist úr ríkissjóði.
Ákærði Ugnius greiði Bjarna Haukssyni héraðsdómslögmanni helming 1.320.696 króna í málsvarnarlaun á móti helmingi sem greiðist úr ríkissjóði.
Ríkissjóður greiði Jónasi Þór Guðmundssyni héraðsdómslögmanni, verjanda ákærðu A, 556.764 krónur í málsvarnarlaun.
Ríkissjóður greiði Oddgeiri Einarssyni héraðsdómslögmanni, verjanda ákærða B, 1.566.708 krónur í málsvarnarlaun.
Ríkissjóður greiði Hilmari Baldurssyni héraðsdómslögmanni 30.294 krónur vegna útlagðs kostnaðar hans vegna túlkaþjónustu sem greiða ber úr ríkissjóði.
Þóknun verjanda er í öllum tilvikum fyrir vinnu þeirra undir rannsókn málsins og dómsmeðferð. Í öllum tilvikum hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Karl Ingi Vilbergsson fulltrúi flutti málið fyrir ákæruvaldið.
Guðjón St. Marteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.
Dómsorð:
Ákærðu, A og B, eru sýknuð af kröfum ákæruvaldsins samkvæmt ákæru, dagsettri 13. nóvember 2007.
Ákærði, Ugnius Vaiciulis, sæti fangelsi í 10 mánuði.
Ákærði, Tomasi Vaiciulis, sæti fangelsi í 4 mánuði.
Ákærði, Gytis Vaiciulis, sæti fangelsi í 8 mánuði en fresta skal fullnustu 6 mánaða af refsivistinni skilorðsbundið í 2 ár frá birtingu dómsins að telja og skal sá hluti refsingarinnar falla niður að þeim tíma liðnum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærði, Andrius Barodkinas, sæti fangelsi í 2 mánuði en fresta skal fullnustu refsivistar hans skilorðsbundið í 2 ár frá birtingu dómsins að telja og skal refsingin falla niður að þeim tíma liðnum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4 gr. laga nr. 22/1955.
Frá refsivist ákærðu skal í öllum tilvikum draga gæsluvarðhald sem viðkomandi sætti vegna rannsóknar málsins.
Ákæru, útgefinni 23. nóvember 2007, á hendur ákærðu, A og Ugnius Vaiciulis, er vísað frá dómi.
Ákæru, útgefinni 23. nóvember 2007, á hendur ákærðu, Gytis Vaiciulis og B, er vísað frá dómi.
Öllum skaðabótakröfum er vísað frá dómi.
Ákærði Andrius greiði Erlendi Þór Gunnarssyni héraðsdómslögmanni 1.577.913 krónur í málsvarnarlaun.
Ákærði Gytis greiði Hilmari Baldurssyni héraðsdómslögmanni 3/4 hluta af 1.372.488 krónum í málsvarnarlaun á móti 1/4 hluta sem greiðist úr ríkissjóði.
Ákærði Tomas greiði Ingimar Ingimarssyni héraðsdómslögmanni 1/5 hluta af 1.372.488 krónum í málsvarnarlaun á móti 4/5 hlutum sem greiðist úr ríkissjóði.
Ákærði Ugnius greiði Bjarna Haukssyni héraðsdómslögmanni helming 1.320.696 króna í málsvarnarlaun á móti helmingi sem greiðist úr ríkissjóði.
Ríkissjóður greiði Jónasi Þór Guðmundssyni héraðsdómslögmanni, verjanda ákærðu A, 556.764 krónur í málsvarnarlaun.
Ríkissjóður greiði Oddgeiri Einarssyni héraðsdómslögmanni, verjanda ákærða B, 1.566.708 krónur í málsvarnarlaun.
Ríkissjóður greiði Hilmari Baldurssyni héraðsdómslögmanni 30.294 krónur vegna útlagðs kostnaðar.