Hæstiréttur íslands
Mál nr. 582/2016
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Karl Axelsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. ágúst 2016, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 15. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. ágúst 2016, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 9. september 2016 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Fram er komið í málinu að hleypt var skotum úr haglabyssu við svokallaða [...] við [...] í Reykjavík að kvöldi föstudagsins 5. ágúst s.l., þar sem fólk var saman komið. Varnaraðili hefur viðurkennt að af hleypt af einu skoti sem óumdeilt er að hafnaði í bifreið þar sem fyrir var fólk. Að því gættu er fallist á það með héraðsdómi að varnaraðili sé undir sterkum grun um að hafa framið afbrot sem að lögum getur varðað 10 ára fangelsi og að brotið sé þess eðlis að gæsluvarðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. ágúst 2016.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 9. september nk. kl. 16.00.
Í greinargerð aðstoðarsaksóknara kemur fram að um klukkan 21 að kvöldi föstudagsins 5. ágúst sl. hafi lögreglan verið kölluð að [...] við [...] í Reykjavík þar sem tilkynnt hafi verið um tvo aðila sem hefðu skotið úr haglabyssu á rauða [...] bifreið. Vitni hafi borið um að þau hafi séð átök milli karlmanna, heyrt tvo skothvelli og séð aðila hlaupa bak við [...]. Fyrr um kvöldið, eða rúmum klukkutíma áður en tilkynnt hafi verið um að skotið hafi verið úr byssunni, hefði lögregla haft afskipti af kærðu,X og Y, utan við [...], sjá mál lögreglu, nr. 007-2016-[...], en um hafi verið að ræða tilkynningu um fjöldaslagsmál. Í viðræðum við lögreglu þá hafi kærðu sagt að hópur Pólverja hefði skömmu áður ætlað að ráðast á þá.
Þá er þess getið að vitni sem lögregla hafi rætt við og komið hafi á vettvang á rauðu [...] bifreiðinni sem skotið hafi verið á segði sig og unnusta sinn hafa farið að [...] en þar hafi menn verið í átökum. Unnusti hennar hafi farið út úr bílnum og blandast í átökin. Þegar unnustinn hafi komið aftur að bílnum hafi hún séð annan kærðu halda á haglabyssu sem hann hafi beint að unnusta hennar þegar hann hafi gengið að bílnum. Hafi maðurinn síðan skotið úr byssunni en ekki hæft unnusta hennar. Hún og unnustinn hafi síðan ekið bak við [...] þar sem kærðu og fleiri hafi komið. Hafi annar kærðu þá tekið upp byssu og beint henni að bílnum og skotið einu skoti í framhurðina, hægra megin, þar sem vitnið hafi setið, en við það hafi hliðarrúðan brotnað og vitnið fengið glerbrotin yfir sig. Segðist vitnið hafa séð þann sem skaut miða á bílinn áður en hann hafi skotið. Þau hafi ekið heim til sín eftir þetta. Vitnið hafi lýst því að það hefði ekki verið sami maðurinn sem skotið hafi á eftir unnusta hennar í fyrra skiptið og sá sem skotið hafi í hurðina á bílum. Fyrst hafi maður sem hafi verið [...], [...] og [...] skotið en síðar hinn sem hafi verið meðalmaður á hæð, með [...] hár og [...]. Lögregla hafi einnig yfirheyrt unnusta vitnisins sem kvæðist hafa keyrt bílinn og fái hann í meginatriðum samræmst framburði hennar af atvikum.
Í greinargerð aðstoðarsaksóknara kemur einnig fram að fjöldi vitna lýsi því að hafa orðið vitni að því þegar kærðu hafi skotið úr byssunni og samræmist lýsing vitnanna útliti og klæðarburði kærðu umrætt sinn en meðal gagna málsins liggi fyrir upptökur sem fengist hafi úr eftirlitsmyndavélarkerfi úr [...] þar sem sjá megi hvar kærðu komi inn í verslunina fyrir skotárásina. Kærði X sé þar klæddur í rauðan stuttermabol, gallabuxur, tattúeraður og með [...]hár. Kærði Y sé aftur á móti [...], [...]og hærri en Y. Þá hafi vitni sem býr í húsnæði við [...] lýst því að hafa eftir skothvellina séð karlmann í rauðum bol, með íþróttatösku meðferðis, hlaupa í átt að [...] þar sem móðir kærðu búi og farið þar inn í húsnæðið, [...]. Lögregla hafi síðar fengið tilkynningu frá öðrum aðila um að svört íþróttataska með byssu í hefði fundist í rennu fyrir rusl í blokkinni við [...] og telji lögregla sig hafa fundið ætlað skotvopn sem notað hafi verið við árásina. Sjá hafi mátt blóðkám á byssunni. Við leit lögreglu beint fyrir aftan [...] við [...] hafi og fundist ónotað skothylki. Annað vitni á vettvangi segði að kærði og meðkærði hefðu fyrst skotið upp í loftið, en síðan hefði kærði skotið í gegnum bílrúðu.
Aðstoðarsaksóknari tekur fram að kærði X hafi verið handtekinn aðfaranótt 6. ágúst sl. fyrir utan [...] í Reykjavík ásamt öðrum aðila. Kærði hafi í skýrslutöku þann 6. ágúst játað að hafa verið á vettvangi og skotið einu skoti úr byssunni en kvæðist hafa gert það eftir að hafa tekið vopnið af öðrum aðila sem hann og meðkæði hafi verið í átökum við. Í skýrslutöku þann 11. ágúst sl. hafi X aftur á móti sagt að hann og Y hafi farið að [...] til að hitta þar fyrir menn sem hefðu fyrr um kvöldið mætt fyrir utan heimili móður þeirra (sjá bókun í máli 007-2016-[...]). Þeir hafi verið vopnaðir kylfum og kærði hafi komið haglabyssu fyrir skammt frá sem hann hafi notað. Til átaka hafi komið og segði X að Y hafi skotið einu skoti upp í loftið en hann sjálfur síðar skotið einu skoti og hafi högl úr því farið í rauðu [...] bifreiðina. X hafi verið úrskurðaður í gæsluvarðhald á grundvelli rannsóknarhagsmuna með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur frá laugardeginum 6. ágúst sl. til dagsins í dag.
Þá er þess getið að kærði Y hafi verið handtekinn þann 8. ágúst sl. Í skýrslutöku hjá lögreglu þann 8. ágúst hafi hann sagt að X hefði skotið einu skoti úr byssunni eftir að hann hefði afvopnað mann sem þeir hafi verið í átökum við. Hafi sá aðili áður verið búinn að skjóta úr byssunni. Meðákærði neiti hins vegar að hafa sjálfur skotið úr byssunni. Y hafi haldið sig við sama framburð þegar hann hafi verið yfirheyrður 11. ágúst sl.
Aðstoðarsaksóknari áréttar að af gögnum málsins megi ráða að til átaka hafi komið milli kærðu og hóps annars fólks. Fram komi hjá báðum kærðu að aðilar hafi talað sig saman um að hittast við [...] og þá hafi X sagt að kærðu hefðu sammælst um að fara þangað vopnaðir kylfum og að hann hafi einnig komið fyrir afsagaðri haglabyssu skammt frá. Til átaka hafi komið milli kærðu og áður nefndra aðila fyrir utan [...] og í framhaldi hafi báðir kærðu skotið af byssunni. Þá hafi umrædd byssa fundist í ruslageymslu á heimili móður kærðu og vitni kvæðist hafa séð mann sem samsvari lýsingu um að X hafi hent byssunni þangað eftir skothvellina. Það sé mat lögreglu að með háttsemi sinni hafi kærðu í sameiningu stofnað lífi og heilsu fjölda fólks í augljósa hættu umrætt sinn. Bæði þeirra sem þeir hafi átt í útistöðum við og annarra, en fjöldi fólks hafi verið á ferli, m.a. börn og ungmenni, og þá hafi verið skotið af byssunni í miðri íbúðabyggð. Jafnframt hafi kærðu notað vopn til verksins sem búið hafi verið að eiga við með þeim hætti að eiginleikar vopnsins hafi verið hættulegri en ella. Kærðu hafi mátt vera ljós sú augljósa hætta sem gæti skapast af háttsemi þeirra.
Að mati lögreglu liggja kærðu, samkvæmt framansögðu, undir sterkum grun um brot gegn 211. gr., sbr. 20. gr., og eða 2. mgr. 218. gr. og 4. mgr. 220. gr almennra hegningarlaga nr. 19/1940 sem geti varðað allt að 16 ára fangelsi. Af öllu framangreindu sé ljóst að kærðu séu hættulegir umhverfi sínu og sé það mat lögreglu að gæsluvarðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Myndi það jafnframt særa réttarvitund almennings yrðu kærðu látnir lausir. Um heimild til gæsluvarðhalds sé vísað til 2. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.
Niðurstaða
Með vísan til greinargerðar lögreglu og rannsóknargagna málsins þykir kominn fram grunur um að kærði hafi gerst sekur um háttsemi sem fangelsisrefsing liggur við. Lögregla hafði afskipti af kærða og bróður hans, meðkærða, fyrr sama dag og atvik málsins áttu sér stað. Ekki verður betur séð en að áhöld séu um það miðað við framkomnar upplýsingar og lýsingu á skotmanninum, hvort það hafi verið kærði eða meðkærði sem hleypti af skotum, en flest bendir til þess að báðir kærðu hafi hleypt af sitt hvoru skotinu úr mjög hættulegu vopni, þar sem fjöldi fólks var saman komið.
Líta ber svo á miðað við rannsóknargögn, að kærði sé undir sterkum grun um alvarlegt brot sem varðað geti við 211. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, eða eftir atvikum 2. mgr. 218. gr. og 4. mgr. 220. gr. laganna. Brot á 2. mgr. 218. gr. getur varðað allt að 16 ára fangelsi. Fallist er jafnframt á að brotið sé þess eðlis að varðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Skilyrðum 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 er því fullnægt að mati dómsins.
Verður, að öllu framangreindu virtu, krafan tekin til greina eins og í úrskurðarorði greinir.
Lárentsínus Kristjánsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Kærði, X, kt. [...], skal áfram sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 9. september nk. kl. 16.00.