Hæstiréttur íslands
Mál nr. 307/2004
Lykilorð
- Kærumál
- Dánarbússkipti
- Frávísun frá Hæstarétti
|
|
Þriðjudaginn 7. september 2004. |
|
Nr. 307/2004. |
A(Magnús Guðlaugsson hrl.) gegn dánarbúi X (Ragnar Halldór Hall hrl.) |
Kærumál. Dánarbússkipti. Frávísun frá Hæstarétti.
Fyrir Hæstarétti krafðist A að ógilt yrði tiltekin ákvörðun skiptastjóra dánarbús X sem vísað hafði verið frá héraðsdómi. Þar sem A hafði ekki uppi kröfu um að úrskurður héraðsdóms um frávísun yrði felldur úr gildi og málinu heimvísað til efnismeðferðar voru ekki lagaskilyrði til þess að Hæstiréttur fjallaði frekar um málatilbúnað hans við svo búið. Var málinu því vísað frá Hæstarétti.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. júlí 2004, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 22. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. júlí 2004, þar sem vísað var frá dómi kröfu sóknaraðila um að ákvörðun skiptastjóra varnaraðila um að selja jörðina Q yrði felld úr gildi, en öðrum kröfum sóknaraðila við skipti á dánarbúinu hafnað. Kæruheimild er í 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðili krefst þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og breytt á þá leið að ákvörðun skiptastjóra um að selja jörðina samerfingjum sóknaraðila verði ógilt. Hann krefst einnig málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti, til vara að því verði vísað frá héraðsdómi, en að því frágengnu að kröfu sóknaraðila verði hafnað. Þá krefst varnaraðili staðfestingar á ákvæði hins kærða úrskurðar um málskostnað auk kærumálskostnaðar.
Við skipti á dánarbúi X reis ágreiningur með erfingjum, sem eru annars vegar sóknaraðili og hins vegar þrjú systkini hans. Áður hafa önnur ágreiningsefni sömu aðila við skiptin verið borin undir dómstóla, svo sem nánar er rakið í hinum kærða úrskurði. Í þessu máli gerði sóknaraðili kröfur í nokkrum liðum fyrir héraðsdómi. Varð niðurstaðan sú að kröfum hans var ýmist vísað frá dómi eða þeim hafnað.
Í þessu kærumáli gerir sóknaraðili þá einu kröfu fyrir Hæstarétti að ógilt verði sú ákvörðun skiptastjóra varnaraðila að selja jörðina Q B, C og D. Þeirri kröfu var svo sem áður var getið vísað frá héraðsdómi. Samkvæmt þessu krefst sóknaraðili ekki að þetta ákvæði úrskurðarins verði ógilt og því heimvísað til efnismeðferðar, heldur leitar hann eftir efnisdómi Hæstaréttar um kröfu, sem ekki var skorið úr um í héraði. Endurskoðun Hæstaréttar á úrskurði héraðsdóms um frávísun leiðir til ógildingar hans og heimvísunar máls, ef fallist yrði á að efni séu til þess. Sóknaraðili hefur ekki uppi slíka kröfu og eru ekki lagaskilyrði til þess að Hæstiréttur fjalli frekar um málatilbúnað hans við svo búið. Verður samkvæmt því fallist á aðalkröfu sóknaraðila í málinu.
Sóknaraðili skal greiða varnaraðila kærumálskostnað, sem verður ákveðinn eins og nánar segir í dómsorði.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.
Sóknaraðili, A, greiði varnaraðila, dánarbúi X 150.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. júlí 2004.
Máli þessu var beint til dómsins með bréfi skiptastjóra dánarbús X, dags. 23. mars 2004. Það var tekið til úrskurðar að lokinni aðalmeðferð 7. júní sl.
Dánarbú X var tekið til opinberra skipta 13. mars 1997. Erfingjar í búinu eru sóknaraðili máls þessa, A, B, C og D. Skiptastjóri ákvað að dánarbúið skyldi eiga aðild að málinu varnarmegin.
Sóknaraðili gerir þessar kröfur:
Aðallega að ógilt verði sú ákvörðun skiptastjóra að selja jörðina Q til B, C og D. Til vara að viðurkenndur verði réttur hans til að neyta forkaupsréttar og ganga inn í kaupsamning dánarbúsins og þessara aðila.
Að viðurkennt verði að erfingjanum D beri að greiða dánarbúinu eðlilegt endurgjald fyrir malarefni er hann hefur tekið úr landi Q.
Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar að viðbættum virðisaukaskatti.
Loks tekur sóknaraðili fram að í þessum kröfum felist krafa um að frumvarpi skiptastjóra til úthlutunar, er lagt var fram á skiptafundi 16. janúar 2004, verði hafnað.
Varnaraðili gerir þessar kröfur:
Að kröfu sóknaraðila um ógildingu ákvörðunar um sölu jarðarinnar verði vísað frá dómi, til vara að kröfunni verði hafnað.
Að kröfu sóknaraðila um viðurkenningu forkaupsréttar að jörðinni og réttar til að ganga inn í kaupsamning verði vísað frá dómi, til vara að kröfunni verði hafnað.
Að kröfu sóknaraðila um viðurkenningu á skyldu erfingjans D til að greiða endurgjald fyrir malarefni verði vísað frá dómi, til vara að kröfunni verði hafnað.
Loks krefst varnaraðili málskostnaðar að viðbættu sérstöku álagi og virðisaukaskatti á málflutningsþóknun.
Í bréfi skiptastjóra til dómsins segir að frumvarp til úthlutunar úr búinu hafi verið gert 18. desember 2003. Skiptafundur hafi verið haldinn 16. janúar 2004 og hafi þá komið fram andmæli gegn frumvarpinu. Tilraunir skiptastjóra til að jafna ágreininginn hafi reynst árangurslausar. Vísaði skiptastjóri því ágreiningnum til héraðsdóms samkvæmt 3. mgr. 79. og 122. gr. laga nr. 20/1991.
Ágreiningi er lýst í bréfi lögmanns sóknaraðila til skiptastjóra, dags. 15. janúar 2004. Skal nú gerð stuttlega grein fyrir málefnunum, en síðan verða reifuð sjónarmið og málsástæður aðila um hvert atriði.
Meginágreiningsefnið er sú ákvörðun skipastjóra að selja meðerfingjum sóknaraðila jörðina Q.
Sóknaraðili lýsir því að hann hafi snemma hafið sjálfstæðan rekstur á jörðinni. Með byggingarbréfi útgefnu 1. febrúar 1974 hafi honum verið byggð hálf jörðin, en sá hluti hafi síðar fengið nafnið Q I. Q II sé hins vegar iðnaðarbýli sem hafi verið selt varnaraðilanum D á erfðaleigu 30. nóvember 1967.
Dánarbúið var tekið til opinberra skipta 13. mars 1997. Ekki varð sátt um að sóknaraðili fengi jörðina í sinn hlut. Lauk þeim ágreiningi með dómi Hæstaréttar 22. september 1998. Í þeim dómi segir m.a.:
„Í 1. gr. jarðalaga segir meðal annars, að tilgangur þeirra sé að tryggja að nýting lands utan skipulagðra þéttbýlissvæða sé eðlileg og hagkvæm og eignarráð á landi og búseta á jörðum sé í samræmi við hagsmuni sveitarfélaga og þeirra, sem stundi landbúnað. Í síðari málslið fyrri málsgreinar 3. gr. laganna segir enn fremur, að þéttbýlissvæði, sem skipulögð séu fyrir fasta búsetu manna, er stundi ekki landbúnað, séu undanskilin ákvæðum þeirra. Svo sem að framan greinir, er í gildandi aðalskipulagi miðað við, að talsverður hluti af landi [Q] verði lagður undir þéttbýlissvæði. Þar er hvorki stundaður búskapur nú né eru neinar líkur á, að svo verði framvegis. Að þessu gættu eru ekki lengur skilyrði til að telja ákvæði VII. kafla jarðalaga geta átt við um landareign þessa. Verður samkvæmt því að fallast á þann þátt í aðalkröfu varnaraðila, að eignin[Q] falli ekki undir reglur jarðalaga um óðalsjarðir...”
Í framhaldi af þessum dómi Hæstaréttar var lagt fram frumvarp til úthlutunar þar sem þáverandi skiptastjóri lagði til að jörðin skiptist jafnt á milli erfingjanna þannig að hver fengi fjórðung hennar í sinn hlut. Þetta frumvarp var samþykkt af öðrum erfingjum en sóknaraðila og gekk ágreiningur um þetta til Hæstaréttar. Með dómi réttarins 14. desember 1999 var þetta frumvarp fellt úr gildi. Með dóminum var jafnframt hafnað kröfu sóknaraðila þessa máls um að honum yrði lögð út jörðin, svo og varakröfu hans um hálfa jörðina.
Snemma árs 2000 óskaði skiptastjóri eftir því að verða leystur frá starfi og var nýr skiptastjóri skipaður.
Skiptastjóri bannaði sóknaraðila frekari nýtingu jarðarinnar með bréfi dags. 10. nóvember 2000. Féllst sóknaraðili ekki á þessa ákvörðun og lauk þessum ágreiningi með dómi Hæstaréttar 3. október 2002. Í dómi héraðsdóms, sem staðfestur var í Hæstarétti með skírskotun til forsendna, segir m.a.:
„Fallist er á með aðalstefnanda [varnaraðili], að réttindi samkvæmt II. kafla ábúðarlaga séu háð þeirri forsendu, að viðkomandi jörð sé í ábúð samkvæmt 1. og 2. gr. laganna. Samkvæmt því og með vísan til þess, sem áður greinir um búskaparlag í [Q], þykir mega fallast á með aðalstefnanda, að forsendur fyrir ábúð aðalstefnda [sóknaraðili] á grundvelli byggingarbréfsins frá 1. febrúar 1974 og ábúðarlögum séu brostnar.
... Með skírskotun til þess, sem hér hefur verið rakið, ber að taka til greina kröfu aðalstefnanda um, að viðurkennd verði skylda aðalstefnda til að láta af nýtingu þess hluta jarðarinnar [Q], sem hann hefur á undanförnum árum haft til afnota.”
Á skiptafundi í búinu 19. nóvember 2002 var rætt um ráðstöfun jarðarinnar. Var þar ákveðið að að „óska eftir því að Magnús Leópoldsson, löggiltur fasteignasali, taki að sér að verðmeta jörðina með það fyrir augum að hún verði sett í sölu hjá honum þegar það þykir henta.”
Á þessum sama fundi var bókað að skiptastjóri teldi að gengið hefði endanlegur dómur um skyldu sóknaraðila til að láta af nýtingu þess hluta jarðarinnar er hann hafi haft til afnota og sé utan lóðar íbúðarhúss hans. Þá segir að skiptastjóri geri ekki ráð fyrir því að jörðin verði lögð út erfingjum nema formleg krafa kæmi fram. Erfingjar hafi enda áður hafnað því að fá jörðina lagða út sem óskipta sameign.
Þá kom fram sú ósk frá lögmanni þeirra D, C og B að úttekt færi fram á jörðinni og að búskapur sóknaraðila yrði stöðvaður. Að frumkvæði skiptastjóri var gerð úttekt á jörðinni samkvæmt ábúðarlögum nr. 64/1976. Er skýrsla úttektarmanns dagsett 18. ágúst 2003.
Í framhaldi af þessu var jörðin boðin til sölu. Í gögnum málsins sést að tilraunir til sölu stóðu um skeið. Að lokum var á skiptafundi 24. október 2003 samþykkt boð þeirra D, C og B í jörðina, sem var að fjárhæð 170.000.000 króna. Var boð þeirra hærra en önnur boð sem borist höfðu, en hæsta boð annarra var að fjárhæð 160.000.000 króna.
Á skiptafundinum 24. október var deilt um þessa sölu. Fram kom sú krafa að kauptilboðinu yrði tekið, en lögmaður sóknaraðila krafðist þess að öllum framkomnum tilboðum yrði hafnað og sölutilraunum haldið áfram. Var gert hlé á fundinum en að því loknu tilkynnti skiptastjóri ákvörðun sína. Rétt er að taka hér upp orðrétt úr bókuninni, en hún lýsir atvikum skýrlega:
„Skiptastjóri tekur fram, að allir erfingjar hafi á sínum tíma verið sammála um að fela Magnúsi Leópoldssyni að hafa milligöngu um öflun tilboða í jörðina. Þetta hafi verið ákveðið á vormánuðum og Magnús þá verið beðinn um að undirbúa söluferlið, meta hæfilegt söluverð o.s.frv. Á skiptafundi 13. júní sl. var gerð grein fyrir verðhugmyndum Magnúsar um jörðina, og taldi hann ekki líklegt að hægt væri að selja hana fyrir hærra verð en 125-130 mkr., líklega yrðu menn að sætta sig við heldur lægra verð en það. Eftir að úttekt var gerð á jörðinni sl. sumar var hins vegar settur fullur kraftur á sölutilraunir, með þeim árangri sem kynntur hefur verið hér á fundinum. Skiptastjóri telur, eftir að hafa verið í sambandi við fasteignasalann fyrr í dag, að aðrir sem gert hafa sig líklega til að bjóða í jörðina muni ekki gera frekari boð í hana. Tilboð erfingjanna þriggja í jörðina hefur verið gert á nákvæmlega sama grundvelli og aðrir hafa boðið í jörðina, þ.e. að þau hafi keppt á jafnréttisgrundvelli við aðra. Skiptastjóri telur alveg ljóst að hann hefði tekið tilboði frá aðilum sem ótengdir eru dánarbúinu, ef svo stæði á að 3 erfingjar af 4 vildu samþykkja 170 mkr. tilboð í jörðina. Telur skiptastjóri engin rök standa til þess að láta aðra niðurstöðu verða í þeim efnum fyrir þá sök að tilboðið kemur frá erfingjum. Samkvæmt þessu lýsir skiptastjóri yfir því að hann samþykki tilboð erfingjanna [B], [D] og [C] í jörðina að fjárhæð kr. 170.000.000.”
Síðan var bókað að lögmaður sóknaraðila ítrekaði mótmæli sín gegn því að þessi sala færi fram.
Skiptastjóri gaf tilboðsgjöfunum leyfi til að veðsetja jörðina til tryggingar láni frá Landsbanka Íslands hf. að höfuðstól 43.000.000 króna.
Skiptastjóri útbjó frumvarp til úthlutunar úr dánarbúinu og sendi aðilum í desembermánuði síðastliðnum. Ekki tókst honum að ljúka skiptum fyrir áramót og var haldinn skiptafundur 16. janúar sl. Þar lagði sóknaraðili fram athugasemdir í sjö liðum, en þessar athugasemdir hans eru grundvöllur þess máls sem hér er til úrskurðar. Ekki tókst að jafna ágreining aðila og vísaði skiptastjóri málinu til dómsins með bréfi 23. mars sl., eins og áður segir.
Málsástæður sóknaraðila.
Kröfu um ógildingu ákvörðunar um sölu jarðarinnar til B, D og C kveðst sóknaraðili byggja á því að sölutilraunir fyrir milligöngu fasteignasala hafi ekki verið fullreyndar þegar skiptastjóri hætti sölumeðferðinni og ákvað að selja jörðina þremur erfingjum af fjórum. Söluverðið sé nokkuð fjarri ásettu verði. Þannig hafi staðið á að tveir aðilar höfðu ítrekað boðið í jörðina á móti lögmanni erfingjanna þriggja og hafi boð þeirra hækkað um 30 milljónir frá fyrsta tilboði. Fullyrðir sóknaraðili að fá hefði mátt hærra verð fyrir jörðina með því að halda sölutilraunum áfram.
Þá telur sóknaraðili að þessi sala eða útlagning til hluta erfingja án tilkynningar til sveitarstjórnar og jarðanefndar sé andstæð jarðalögum, enda hafi erfingjarnir ekki uppi fyrirætlanir um að stunda landbúnað á jörðinni eða búa þar.
Til vara krefst sóknaraðili þess að viðkenndur verði réttur sinn til að neyta forkaupsréttar og ganga inn í kaupsamninginn. Styður hann kröfu þessa við 2. mgr. 30. gr. jarðalaga nr. 65/1976. Sóknaraðili kveðst fæddur og uppalinn á jörðinni og hafa stundað þar búskap frá 1961. Hann nýti jörðina nú til landbúnaðar. Þá telur hann engu skipta þó honum hafi verið gert að láta af nýtingu þess hluta jarðarinnar sem hann fékk til ábúðar með samningi 1. febrúar 1974. Ábúðin standi enn og telur sóknaraðili sig uppfylla öll skilyrði nefnds ákvæðis jarðalaga.
Þá er í kröfugerð sóknaraðila liður um fjárkröfu dánarbúsins á hendur erfingjanum D. Segir sóknaraðili að D hafi árum saman stundað efnistöku úr landi jarðarinnar. Geri hann ráð fyrir að þetta hafi verið með samþykki skiptastjóra. Því hljóti að reiknast umtalsverðar tekjur inn í búið af þessari efnistöku.
Málsástæður varnaraðila.
Varnaraðili telur að eðlilega hafi verið staðið að tilraunum til sölu jarðarinnar. Segir hann að á skiptafundi 13. júní 2003 hafi verið gerð grein fyrir verðmati Magnúsar Leópoldssonar, löggilts fasteignasala. Þá hafi komið fram að jörðin yrði boðin til sölu í framhaldi af fundinum og að sölunni yrði hagað þannig að erfingjum gæfist kostur á að bjóða betur en aðrir tilboðsgjafar. Hafi ekki verið gerð athugasemd við þessa skipan mála.
Þá segir varnaraðili að ráðstöfun jarðarinnar hafi verið lögmæt og skuldbindandi fyrir búið. Borist hefðu boð frá utanaðkomandi aðilum, hæst 160.000.000 krónur. Það hefðu samerfingjar sóknaraðila bætt með því að bjóða 170.000.000. Er skiptafundur var haldinn 24. október hefðu frekari boð ekki verið komin og hefði skiptastjóri ákveðið að taka þessu boði, sem hafi verið hæst. Sóknaraðili hafi mótmælt því að salan færi fram, en hann hafi aldrei óskað eftir því að bera þá ákvörðun undir dóm.
Frávísunarkröfu um þennan lið styður sóknaraðili við það að salan hafi þegar farið fram og því verði ákvörðun um sölu ekki ógilt í dómsmáli þar sem fjallað er um frumvarp til úthlutunar. Ákvörðun um sölu hafi verið tekin á skiptafundi og hafi sóknaraðila verið í lófa lagið að krefjast dómsúrlausnar um þá ákvörðun.
Til vara krefst varnaraðili þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað. Hann segir að löglega hafi verið staðið að ráðstöfun jarðarinnar og engin lagastoð sé fyrir kröfu sóknaraðila um ógildingu hennar. Þá telur hann að hafi sóknaraðili einhvern tíma haft tök á að fá ákvörðunina fellda úr gildi, sé sá réttur fallinn niður vegna tómlætis.
Varnaraðili krefst þess að varakröfu um viðurkenningu forkaupsréttar verði vísað frá dómi. Bendir hann á að dómstólar hafi þegar slegið því föstu að sóknaraðili hefði ekki stöðu ábúanda samkvæmt jarðalögum. Þá hafi verið viðurkennt með dómi að sóknaraðili ætti ekki rétt til að erfa jörðina á grundvelli óðalsréttar. Varnaraðili telur að þessi tveir dómar, frá 22. september 1998 og 3. október 2002, séu bindandi úrslit sakarefnis og sóknaraðili hafi ekki stöðu ábúanda. Varnaraðili vísar hér til 4. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991.
Til vara krefst varnaraðili þess að varakröfu sóknaraðila verði hafnað. Hann bendir á að sala jarðarinnar hafi verið ákveðin á skiptafundi og að bindandi kaupsamningur hafi komist á að viðstöddum lögmanni hans á skiptafundi 24. október 2003. Samkvæmt 9. gr. laga nr. 40/2002 hafi forkaupsréttarhafi 15 daga frest frá því honum er boðið að neyta forkaupsréttar til að ganga inn í boð. Hafi sóknaraðili átt rétt til að ganga inn í kaupin, sé sá réttur nú fallinn niður.
Enn telur varnaraðili að 35. gr. jarðalaga hindri beitingu forkaupsréttar í þessu tilviki þar sem eign sé ráðstafað til skylduerfingja.
Varnaraðili krefst þess að kröfu um viðurkenningu á greiðsluskyldu erfingjans D verði vísað frá dómi. Telur varnaraðili kröfu þessa ódómhæfa, sbr. d- og g-liði 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Segir að dánarbúið hafi ekki gert neinar kröfur á hendur D, enda hafi honum ekki verið selt neitt efni. Til skýringar tekur varnaraðili fram að búið hafi selt tilteknum verktaka mikið efni úr jörðinni og hafi D haft atvinnu af vörubílaakstri og flutt fyrir verktakann mikið af því efni sem hann hafi keypt af dánarbúinu. Til vara krefst varnaraðili þess að kröfunni verði hafnað sem ósannaðri og tilhæfulausri.
Loks mótmælir varnaraðili því að frumvarp til úthlutunar verði fellt úr gildi í heild sinni. Verði fallist á einhverjar af kröfum sóknaraðila verði farið að reglu 3. mgr. 79. gr. laga nr. 20/1991.
Um málskostnað vísar varnaraðili til 130. gr. laga nr. 91/1991. Þá krefst hann þess að ákveðið verði álag á málskostnað samkvæmt heimild í 2. mgr., sbr. a- og c-liði 1. mgr. 131. gr. Málarekstur sóknaraðila sé tilefnislaus og hann hafi ítrekað uppi kröfur, málsástæður og staðhæfingar sem þegar hafi verið dæmt um í fyrri dómsmálum í tengslum við skipti þessa dánarbús.
Forsendur og niðurstaða.
Máli þessu er beint til héraðsdóms í formi ágreinings um frumvarp til úthlutunar. Helstur ágreiningur snýst þó um ráðstöfun jarðarinnar Q, sem er helsta eign búsins.
Ekki er ágreiningur um að aðilar voru sammála um að reyna að selja jörðina. Andmæli sóknaraðila fela ekki í sér fullyrðingu um að ranglega hafi verið að sölunni staðið. Er þar var komið að skiptastjóri ákvað að samþykkja boð samerfingja sóknaraðila mótmælti sóknaraðili þeirri ráðstöfun. Kemur það skýrt fram í bókun af skiptafundinum 24. október að lögmaður sóknaraðila mótmælti því að tilboð samerfingja hans yrði samþykkt og krafðist þess að sölutilraunum yrði haldið áfram. Skiptastjóri mat aðstæður hins vegar svo að fullreynt væri að hærra verð fengist ekki.
Mótmælum sóknaraðila var ekki sinnt. Samkvæmt 3. mgr. 71. gr. laga nr. 20/1991 bar skiptastjóra að freista þess að jafna ágreining um lögmæti ráðstöfunar. Ákvörðun um að selja jörðina hafði verið tekin áður og var ekki ágreiningur um hana. Sú ákvörðun að samþykkja boð var eðlilegur hluti af sölutilraunum og er samþykki tilboðs ekki eitt af því sem 3. mgr. 71. gr. heimilar að verði lagt fyrir dóm sem ágreiningsefni. Verður því að vísa kröfu um ógildingu þessarar ákvörðunar frá dómi.
Varakröfu um viðurkenningu forkaupsréttar byggir sóknaraðili á því að hann sé ábúandi og njóti þessa réttar samkvæmt 2. mgr. 30. gr. jarðalaga. Með dómi Hæstaréttar 3. október 2002 var komist að þeirri niðurstöðu að forsendur fyrir ábúð sóknaraðila á jörðinni samkvæmt byggingarbréfinu frá 1. febrúar 1974 og ábúðarlögum væru brostnar. Þá var viðurkennd skylda hans til að láta af nýtingu þess hluta jarðarinnar er hann hafi haft til afnota. Áður var með dómi Hæstaréttar 22. september 1998 ákveðið að jörðin félli ekki undir reglur laganna um óðalsjarðir. Í því að viðurkennd er skylda sóknaraðila til að láta af nýtingu jarðarinnar þar sem ábúðarsamningur hans sé ekki lengur í gildi felst, að hann er ekki leiguliði í skilningi 2. mgr. 30. gr. jarðalaga. Framlagning sóknaraðila nú á óstaðfestu ljósriti af blaðsíðu er hann kallar forðagæsluskýrslu fær ekki hnekkt þessari niðurstöðu Hæstaréttar. Forkaupsrétt á hann því ekki samkvæmt þeirri heimild. Þar sem þessi krafa hans er ný krafa sem byggð er á málsástæðu sem dæmt hefur verið um áður, verður að hafna kröfunni en ekki vísa henni frá dómi, sbr. 116. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 2. mgr. 131. gr. laga nr. 20/1991.
Þá telur sóknaraðili að eignir búsins séu vantaldar með því að það eigi kröfu á hendur erfingjanum D fyrir malarnám í landi jarðarinnar.
Skiptastjóri hefur skýrt frá því að gerður hafi verið samningur um malarnám í landi jarðarinnar og að D hafi annast malarflutninga fyrir verktaka. Hefur sóknaraðili ekki gert líklegt að meira malarefni hafi verið selt eða það tekið úr landi jarðarinnar, en skiptastjóri hefur samið um. Þá er ekki sýnt fram á að tekjur hafi verið vantaldar í reikningum búsins. Verður þessari kröfu hafnað.
Kröfur sóknaraðila hafa ekki verið teknar til greina og því verður kröfu um að frumvarpi að úthlutun verði hafnað í heild jafnframt hafnað.
Við ákvörðun málskostnaðar ber að hafa í huga að kröfum sóknaraðila er ýmist hafnað eða þeim vísað frá dómi. Ekki er fallist á neinar af kröfum hans. Þó ber að geta þess að búið hafði fallið frá því að telja honum til tekna malarnám. Þar sem sóknaraðili hefur uppi kröfur sem byggja á atriðum sem þegar hefur verið hafnað verður að líta til c-liðar 1. mgr. og 2. mgr. 131. gr. laga nr. 91/1991. Verður sóknaraðila gert að greiða varnaraðila 300.000 krónur í málskostnað. Er þá jafnframt tekið tillit til virðisaukaskatts.
Jón Finnbjörnsson, héraðsdómari, kveður upp úrskurð þennan.
Ú r s k u r ð a r o r ð
Kröfu sóknaraðila, A, um að ákvörðun um sölu jarðarinnar Q verði felld úr gildi er vísað frá dómi.
Kröfu sóknaraðila um viðurkenningu forkaupsréttar er hafnað.
Kröfu sóknaraðila um að D verði krafinn um endurgjald fyrir malartöku er hafnað.
Sóknaraðili greiði varnaraðila, dánarbúi X, 300.000 krónur í málskostnað.