Hæstiréttur íslands

Nr. 2020-282

Landsbankinn hf. (Bjarni Þór Óskarsson lögmaður)
gegn
Jens Pétri Jensen (Sigurður Snædal Júlíusson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Lánssamningur
  • Fyrning
  • Hafnað

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.

Með beiðni 4. desember 2020 leitar Landsbankinn hf. eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 13. nóvember 2020 í málinu nr. 741/2019: Landsbankinn hf. gegn Jens Pétri Jensen, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

Málið höfðaði leyfisbeiðandi til heimtu skuldar samkvæmt lánssamningi frá árinu 2007 í íslenskum krónum, bundið við gengi danskrar krónu, milli forvera leyfisbeiðanda og gagnaðila og síðar gerðum viðaukum við samninginn. Með dómi Landsréttar var gagnaðili sýknaður af kröfu leyfisbeiðanda. Í dóminum var vísað til þess að um kröfu leyfisbeiðanda gilti sérregla í ákvæði XIV til bráðabirgða í lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu um að fyrningarfrestur uppgjörskrafna vegna ólögmætrar verðtryggingar lánssamninga í formi gengistryggingar reiknaðist frá 16. júní 2010 og væri átta ár frá þeim tíma í samræmi við dómaframkvæmd Hæstaréttar. Þar sem málið hefði verið höfðað 1. nóvember 2018 væri krafa leyfisbeiðanda á hendur gagnaðila samkvæmt lánssamningnum fyrnd.

Leyfisbeiðandi telur að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til. Landsréttur hafi komist að þeirri niðurstöðu að ákvæði XIV til bráðabirgða í lögum nr. 38/2001 næði til höfuðstóls lánsins. Niðurstaða dómsins leiði til þess að fyrningarfrestur heildarkröfu leyfisbeiðanda sé styttur og réttur hans þar með takmarkaður. Leyfisbeiðandi telur þessa niðurstöðu ranga enda byggi krafa hans á peningaláni. Það hafi hvorki verið vilji löggjafans að stytta fyrningarfrestinn sem um kröfuna gilti né hafi það verið honum heimilt. Auk þess byggir leyfisbeiðandi á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi um túlkun fyrningarreglna.

Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að fallast á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi umfram það sem leitt verður af öðrum dómsúrlausnum né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðninni er því hafnað.