Hæstiréttur íslands
Mál nr. 288/2008
Lykilorð
- Kærumál
- Lögræði
|
|
Þriðjudaginn 3. júní 2008. |
|
Nr. 288/2008. |
A(Stefán Karl Kristjánsson hdl.) gegn B og C (enginn) |
Kærumál. Lögræði.
Úrskurður Héraðsdóms um að A skyldi sviptur sjálfræði á grundvelli a. liðar 4. gr. lögræðislaga nr. 71/1997 var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Gunnlaugur Claessen og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 23. maí 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 27. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. maí 2008, þar sem sóknaraðili var sviptur sjálfræði í sex mánuði. Kæruheimild er í 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann þess að kærumálskostnaður verði greiddur úr ríkissjóði.
Varnaraðilar hafa ekki látið málið til sín taka.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila úr ríkissjóði, sem er hæfilega ákveðin eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Þóknun Stefáns Karls Kristjánssonar héraðsdómslögmanns, skipaðs verjanda sóknaraðila, A, 100.000 krónur greiðist úr ríkissjóði.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. maí 2008.
Sóknaraðilar eru B og C, til heimilis að [...], Bandaríkjunum. Varnaraðili er sonur þeirra A, bandarískur ríkisborgari, fæddur [...] 1981, að eigin sögn til heimilis að [...], Noregi, nú sjúklingur á geðdeild 32C Landspítala (LSH).
Sóknaraðilar krefjast þess að varnaraðili verði sviptur sjálfræði í sex mánuði á grundvelli a. liðar 4. gr., sbr. 1. mgr. 5. gr. lögræðislaga nr. 71/1997, en hann sé þungt haldinn af geðsjúkdómi og af þeim sökum ófær um að ráða persónulegum högum sínum. Varnaraðili krefst þess að synjað verði um kröfuna, enda sé hann með óskert andlegt heilbrigði og því séu skilyrði a. liðar 4. gr. lögræðislaga ekki fyrir hendi.
I.
Varnaraðili kom til landsins 7. apríl 2008 og tók sér gistingu á hóteli í Reykjavík. Hann var 11. apríl nauðungarvistaður á geðdeild LSH í allt að 21 sólarhring sökum geðrofsástands, en áður hafði lögregla fundið hann fáklæddan og vegalausan við Esjurætur. Til grundvallar téðri ákvörðun lá vottorð Páls Matthíassonar geðlæknis, þar sem fram kemur að varnaraðili hafi verið vistaður á geðdeild í New York í október 2007, að síðar hafi frést af honum á geðdeildum í Noregi, fyrst í Haugaland og svo í Osló, um miðjan febrúar á þessu ári. Þaðan mun varnaraðili hafa verið færður á geðdeild í New Jersey, en verið útskrifaður tveimur vikum síðar eftir að hafa sannfært sóknaraðila um að hann væri búinn að ná heilsu. Í kjölfarið mun hann hafa haldið til Kaupmannahafnar 5. apríl og ætlað til Noregs, en dúkkað upp á Íslandi tveimur dögum síðar, eins og áður segir. Varnaraðili kærði nauðungarvistunina til héraðsdóms, sem staðfesti hana 13. apríl. Áður en sú vistun rann á enda settu sóknaraðilar fram kröfuna um lögræðissviptingu. Við þingfestingu málsins í gær var lagt fram vottorð Þórðar Sigmundssonar yfirlæknis á deild 32C, dagsett 30. apríl, en Þórður hefur annast meðferð varnaraðila. Þórður bar og vitni fyrir dómi, en auk hans tjáði varnaraðili sig um málefnið.
II.
Í vottorði Þórðar kemur fram að ástand varnaraðila hafi lítið breyst frá innlögn og að þrátt fyrir viðtals- og lyfjameðferð sé hann enn innsæislaus í eigið sjúkdómsástand, en samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum og klínísku mati Þórðar sé það álit hans að varnaraðili sé haldinn langvinnum geðrofssjúkdómi og því ófær nú um stundir að ráða persónulegum högum sínum. Þórður staðfesti framangreint álit fyrir dómi, bar að fyrir lægi sjúkdómsgreiningin „manía“, að grunur léki á geðklofasjúkdómi og að reynsla síðustu mánaða sýndi að ef varnaraðili yrði nú látinn laus af geðdeild myndi ástand hans fljótlega hverfa til fyrra horfs. Því væri brýn nauðsyn á sjálfræðissviptingu í sex mánuði til að tryggja stöðuga læknismeðferð, en varnaraðili þurfi að gangast undir frekari rannsóknir og einsætt sé að hann þurfi á stöðugri lyfjameðferð að halda næstu 1-2 árin til að ná einhverjum bata.
Varnaraðili hlýddi á vitnisburð Þórðar og gagnrýndi að læknirinn hefði verið í litlum samskiptum við hann frá innlögn á deild 32C. Hann kvaðst ekki skilja af hverju hann hefði verið vistaður á geðdeild gegn vilja sínum, taldi að andlegt heilbrigði sitt væri óskert og vildi útskrifast nú þegar af LSH, fá eigur sínar afhentar og leita sér að vinnu hér á landi, en ellegar fá að fara til Noregs þar sem hann væri búinn að búa sér heimili, en hann væri af norsku bergi brotinn. Til Bandaríkjanna vildi hann alls ekki fara og sagðist vera búinn að slíta öll tengsl við heimalandið og foreldra sína.
III.
Sóknaraðilar styðja kröfu sína við a. lið 4. gr. lögræðislaga og vísa í því sambandi til vottorðs Þórðar Sigmundssonar og vitnisburðar hans fyrir dómi, sem taki af öll tvímæli um nauðsyn tímabundinnar sjálfræðissviptingar, svo að tryggja megi örugga og samfellda læknismeðferð í þágu varnaraðila, enda hafi hann ekkert innsæi í eigið sjúkdómsástand. Þá er því mótmælt sem röngu að varnaraðili eigi ættir að rekja til Noregs og draga sóknaraðilar í efa að hann eigi þar heimili.
Af hálfu varnaraðila er áréttað að ekkert ami að honum andlega og að því sé skilyrðum a. liðs 4. gr. lögræðislaga ekki fullnægt til að svipta megi hann sjálfræði. Hann bendir og á að engin greining liggi fyrir á formlegum geðsjúkdómi og því standi þar orð Þórðar Sigmundssonar gegn orðum varnaraðila. Allan vafa í þessu sambandi beri lögum samkvæmt að meta varnaraðila í hag.
IV.
Samkvæmt 4. gr. lögræðislaga nr. 71/1997 má svipta fulltíða einstakling sjálfræði ótímabundið, ef þörf krefur, sé hann ekki fær um að ráða persónulegum högum sínum, s.s. vegna geðsjúkdóms, sbr. a. liður. Er hér um að ræða afdrifaríka skerðingu grundvallarréttinda og ber því eðli máls samkvæmt að beita téðri lagaheimild af varfærni.
Í máli þessu er krafist sjálfræðissviptingar í sex mánuði á grundvelli a. liðar 4. gr., sbr. 1. mgr. 5. gr. lögræðislaga. Meðal gagna málsins er vottorð Þórðar Sigmundssonar sérfræðings á sviði geðlækninga og vitnisburður hans fyrir dómi. Samkvæmt téðum gögnum er það rökstutt, klínískt mat Þórðar að varnaraðili sé haldinn alvarlegum og langvinnum geðsjúkdómi og að hann hafi ekkert innsæi í eigið sjúkdómsástand. Því sé nauðsynlegt að svipta varnaraðila sjálfræði í sex mánuði í því skyni að tryggja honum samfellda læknismeðferð, í þeirri von að hann nái einhverjum bata. Að þessu gættu og með hliðsjón af fyrirliggjandi sjúkdómssögu varnaraðila og heildstæðu mati á framburði hans fyrir dómi, telur dómurinn engin áhöld um að varnaraðili eigi við alvarlegan geðsjúkdóm að stríða og að hann hafi í dag óverulegt ef nokkuð innsæi í eigin vanda. Sökum þessa telst hann ófær um að ráða persónulegum högum sínum í skilningi a. liðar 4. gr. lögræðislaga og er því fallist á kröfu sóknaraðila um sex mánaða sjálfræðissviptingu varnaraðila, í hans eigin þágu, frá og með uppkvaðningu úrskurðar þessa.
Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaganna ber að greiða allan málskostnað úr ríkissjóði, þar með talda þóknun Guðrúnar Sesselju Arnardóttur héraðsdómslögmanns, skipaðs talsmanns sóknaraðila og þóknun Lúðvíks Emils Kaaber héraðsdómslögmanns, skipaðs verjanda varnaraðila. Með hliðsjón af eðli og umfangi máls og að teknu tilliti til fjölda þinghalda og eftirfylgni í kjölfar úrskurðar þykir þóknun lögmannanna hvors um sig hæfilega ákveðin 139.440 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti.
Jónas Jóhannsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
ÚRSKURÐARORÐ:
Varnaraðili, A, bandarískur ríkisborgari, fæddur [...] 1981, er sviptur sjálfræði í sex mánuði frá og með uppkvaðningu úrskurðarins að telja.
Úr ríkissjóði greiðist 139.440 króna þóknun Guðrúnar Sesselju Arnardóttur héraðsdómslögmanns, talsmanns sóknaraðila, B og C, og 139.440 króna þóknun Lúðvíks Emils Kaaber héraðsdómslögmanns, verjanda varnaraðila.