Hæstiréttur íslands
Mál nr. 460/2008
Lykilorð
- Líkamstjón
- Gjafsókn
|
|
Fimmtudaginn 5. mars 2009. |
|
Nr. 460/2008. |
A(Ásdís J. Rafnar hrl.) gegn íslenska ríkinu (Skarphéðinn Þórisson hrl.) |
Líkamstjón. Gjafsókn.
A krafðist viðurkenningar á greiðsluskyldu ríkissjóðs á bótum henni til handa vegna líkamsárásar sem hún varð fyrir 2. febrúar 2001. Hún hafði sótt um bætur til bótanefndar samkvæmt lögum nr. 69/1995 um greiðsluskyldu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota 2. nóvember 2006. Hafði það verið gert á grundvelli 3. mgr. 6. gr. laganna þar sem heimilað er að víkja frá skilyrðum 2. mgr. greinarinnar um tveggja ára tímafrest á umsókn til nefndarinnar frá því að brot er framið ef veigamikil rök mæla með því. Þegar A sótti um bætur til nefndarinnar voru fimm ár og níu mánuðir liðnir frá broti. A byggði meðal annars kröfu sína á því að með synjun bótanefndarinnar á erindi hennar hefði verið brotið gegn jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar. Ekki var fallist á kröfu hennar á þeim grundvelli þar sem hún hefði ekki gert sérstaka grein fyrir í hverju hún teldi það brot felast. Bótanefnd hefði hafnað því að veigamikil rök mæltu með fráviki frá fyrrgreindri reglu um tveggja ára tímafrest á umsókn í tilviki A. Taldi Hæstiréttur að ekki væru efni til að dómstólar hnekktu því mati og var hinn áfrýjaði dómur því staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 25. ágúst 2008. Hún krefst þess að viðurkennd verði greiðsluskylda ríkissjóðs á bótum henni til handa vegna líkamsárásar sem hún varð fyrir 2. febrúar 2001. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem henni hefur verið veitt á báðum dómstigum.
Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Eins og nánar er rakið í hinum áfrýjaða dómi sótti áfrýjandi 2. nóvember 2006 um bætur til bótanefndar samkvæmt lögum nr. 69/1995 um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota. Var það gert á grundvelli 3. mgr. 6. gr. laganna þar sem heimilað er að víkja frá skilyrðum 2. mgr. greinarinnar um tveggja ára tímafrest á umsókn til nefndarinnar frá því að brot er framið ef veigamikil rök mæla með því. Þegar áfrýjandi sótti um bætur til nefndarinnar voru fimm ár og níu mánuðir liðnir frá broti. Í hinum áfrýjaða dómi er rakin meðferð málsins fyrir bótanefnd og forsendur og sjónarmið nefndarinnar sem lágu að baki mati hennar fyrir höfnun á erindi áfrýjanda. Áfrýjandi kveðst meðal annars byggja kröfu sína á því að með synjun bótanefndar á erindi hennar hafi verið brotið gegn jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar. Hún hefur hins vegar ekki gert sérstaka grein fyrir í hverju hún telur það brot felast. Verður ekki fallist á kröfu hennar á þessum grundvelli. Bótanefnd hafnaði því að veigamikil rök mæltu með fráviki frá fyrrgreindri reglu um tveggja ára tímafrest á umsókn í tilviki áfrýjanda. Ekki eru efni til að dómstólar hnekki því mati. Með þessum athugasemdum verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur.
Rétt er að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður. Um gjafsóknarkostnað fyrir Hæstarétti fer eins og segir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, A, greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar 200.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 2. júní 2008.
Mál þetta, sem dómtekið var 6. maí sl., var höfðað 11. júlí 2007.
Stefnandi er A, [heimilisfang].
Stefndi er íslenska ríkið.
Dómkröfur
Stefnandi gerir þær dómkröfur að greiðsluskylda ríkissjóðs á bótum henni til handa verði viðurkennd vegna líkamsárásar sem hún varð fyrir hinn 2. febrúar 2001.
Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt málskostnaðarreikningi, að viðbættum virðisaukaskatti eins og mál þetta væri eigi gjafsóknarmál.
Stefndi krefst sýknu af öllum dómkröfum stefnanda. Jafnframt er krafist málskostnaðar úr hendi stefnanda.
Málavextir
Hinn 2. febrúar 2001 varð stefnandi fyrir líkamsárás þáverandi eiginmanns síns. Var árásarmaðurinn dæmdur fyrir þá sök í Héraðsdómi Suðurlands í málinu nr. S-702/2001 hinn 10. maí 2002 og hlaut hann eins mánaðar skilorðsbundið fangelsi.
Stefnandi sótti um bætur til bótanefndar samkvæmt lögum nr. 69/1995, um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota vegna tjóns af völdum árásarinnar, með bréfi dags. 2. nóvember 2006. Sótt var um bætur á grundvelli 3. mgr. 6. gr. laganna með síðari breytingum. Þar segir að þegar veigamikil rök mæla með því megi víkja frá skilyrðum 2. mgr. ákvæðisins um tveggja ára tímafrest á umsókn til nefndarinnar frá því að brot er framið. Erindi stefnanda var hafnað í ákvörðun nefndarinnar í málinu nr. 281/2006 hinn 16. febrúar 2007 á þeirri forsendu að umsóknin hafi komið fram of seint. Stefnandi höfðar mál þetta til þess að fá þessari ákvörðun bótanefndarinnar hrundið.
Málsástæður stefnanda og lagarök
Stefnandi byggir á því að hún hafi strax tilkynnt líkamsárásina til lögreglu og hafi lagt fram formlega kæru 10 dögum síðar. Hún hafi gengist undir læknisskoðun í framhaldi árásarinnar, sbr. áverkavottorð dags. 16. febrúar 2001, sem hafi legið frammi í sakamálinu. Kveðst hún hafa þurft á læknismeðferð að halda síðan vegna þessa atburðar.
Í kæruskýrslu hjá lögreglunni á Selfossi, dags. 12. febrúar 2001, sé skráð að henni hafi verið kynntur réttur til bóta samkvæmt lögum nr. 69/1995, að hún ætli að leggja fram bótakröfu og henni sé bent á að frestur til þess sé til 1. mars 2001. Verði að ætla, á grundvelli gagna málsins, að lögregla hafi kynnt brotamanni yfirlýsingu stefnanda hjá lögreglu, um að hún hygðist krefja hann um skaðabætur vegna árásarinnar. Í skýrslu lögreglufulltrúa, dags. 18. nóvember 2001, segi að stefnandi hafi leitað til Sigurðar Jónssonar hrl. á Selfossi til að fá aðstoð við gerð bótakröfu. Sigurður hafi haft símasamband við lögreglufulltrúann og skýrt frá því að hann hefði ráðlagt stefnanda að fara fram með bótakröfu í einkamáli að loknu refsimálinu þegar ljóst væri með vissu hvert fjárhagslegt tjón hennar væri.
Engin bótakrafa hafi komið fram af hennar hálfu. Henni hafi aldrei verið tilkynnt um niðurstöðu dómsmálsins gagnvart árásarmanninum og enginn hafi gætt hagsmuna hennar með tilliti til bótamáls eða umsóknar til bótanefndar skv. 2. mgr. 6. gr. laga nr. 69/1995. Stefnanda hafi ekki verið tilnefndur réttargæslumaður, sbr. 2. og 3. mgr. 44. gr.b laga nr. 19/1991 með síðari breytingum eða skipaður réttargæslumaður við meðferð sakamálsins á hendur árásarmanninum skv. 44. gr. c s.l., sem stefnandi telji að hefði verið sanngjarnt og eðlilegt miðað við aðstæður. Fullt tilefni hafi verið til þess þar sem hún hvorki skildi né talaði íslensku og hafi haft túlk, sem var ólöglærður. Hún hafi ekkert þekkt til íslenskra laga og hafi hún engan skilning haft á því hvernig slík mál eru rekin eða hvaða hugsanlegan rétt hún ætti. Stefnandi sé fædd í Tælandi. Hún hafi komið til Íslands 1999 og fljótlega gifst fyrrverandi manni sínum. Hafi stefnandi starfað utan heimilis.
Stefnandi hafi verið mjög illa farin eftir árásina. Hafi hún strax skilið við eiginmann sinn og verið mjög hrædd við hann. Beri hún varanlegan skaða af þeirri árás sem hún varð fyrir og sé óvinnufær. Mat á tjóni hennar eftir árásina liggi ekki fyrir. Hún sé í sambúð og eigi dóttur, fædda í apríl 2003. Sambýlismaður hennar hafi fylgst með líkamlegri vanlíðan stefnanda í sambúð þeirra án þess að vera það ljóst að hún gæti stafað af þessari árás fyrrverandi eiginmanns. Það sé fyrst sl. haust sem honum hafi orðið kunnugt um alvarleika árásarinnar er hann aflaði dómsins í sakamálinu og gagna frá lögreglu um málið.
Tilgangur laga nr. 69/1995 sé, samkvæmt athugasemdum sem fylgdu frumvarpi að þeim, að styrkja stöðu þolenda afbrota. Í athugasemdum með frumvarpi að lögum nr. 118/1999 til breytinga á lögum nr. 69/1995 segi að við ákvörðun um hvort vikið verði frá skilyrðum 1. og 2. mgr. 6. gr. verði að meta hvert tilvik fyrir sig. Vanþekking, erfið félagsleg staða stefnanda og skortur á hagsmunagæslu í hennar þágu sé orsök þess að ekki var sótt um bætur til bótanefndar innan þess frests sem 2. mgr. 6. gr. kveði á um. Þegar aðstæður séu metnar heildstætt verði að ætla að þær falli innan þeirra marka sem lögunum sé ætlað að verja þannig að skilyrðum bótaábyrgðar ríkisins samkvæmt lögum nr. 69/1995 með síðari breytingum sé fullnægt. Stefnanda hafi verið veitt gjafsókn til að reka þetta mál með leyfi, dags. 6. júní 2007.
Krafa stefnanda sé reist á lögum nr. 69/1995, með síðari breytingum um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota, sbr. einnig 65. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 með síðari breytingum, og lögum nr. 19/1991, með síðari breytingum um meðferð opinberra mála, hvað varðar réttindi brotabola og réttargæslumenn. Krafa um málskostnað sé byggð á 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og um virðisaukaskatt vísist til laga nr. 50/1988.
Málsástæður stefnda og lagarök
Af hálfu stefnda er á því byggt að ekki sé ágreiningur í málinu um þá atburði sem leiddu til þess að stefnandi gerði kröfur um bætur til bótanefndar samkvæmt lögum nr. 69/1995. Samkvæmt gögnum málsins sé ljóst að stefnandi hafi orðið fyrir árás fyrrum eiginmanns síns þann 2. febrúar 2001 en kröfum um bætur á grundvelli laga nr. 69/1995 hafi ekki verið lýst fyrr en með bréfi sem borist hafi bótanefnd, þann 7. nóvember 2006.
Í skýrslu stefnanda til lögreglunnar á Selfossi, þann 12. febrúar 2001, segi orðarétt: „...Henni er jafnframt leiðbeint um rétt hennar til bóta samkvæmt lögum nr. 69/1995. Mætta kveðst ætla að leggja fram bótakröfu og henni bent á að frestur til þess sé til l. mars2001.“
Í upplýsingaskýrslu lögreglunnar á Selfossi þann 18. nóvember 2001 sé vakin athygli á því að stefnandi hefði ekki lagt fram bótakröfu í málinu, ef frá væru taldir fimm reikningar vegna læknisþjónustu. Síðan segi í skýrslunni: „A leitaði til Sigurðar Jónssonar hrl. á Selfossi til að fá aðstoð við gerð bótakröfu. Sigurður Jónsson hrl. hafði símasamband við mig og skýrði frá því að hann hefði ráðlagt A að fara fram með bótakröfu í einkamáli að loknu refsimálinu og þegar ljóst væri með vissu hvert fjárhagslegt tjón hennar væri.“
Samkvæmt framansögðu hafi stefnandi haft uppi áform um bótakröfu á hendur fyrrum eiginmanni sínum en virðist ekki hafa komið þeim áformum í verk. Bótakrafa á grundvelli laga nr. 69/1995 komi síðan fram 7. nóvember 2006, eins og áður sé vikið að.
Bótanefnd hafi hafnað kröfu stefnanda og vísar þar um aðallega til 2. og 3. mgr. 6. gr. laga nr. 69/1995. Hafi nefndin talið að umsókn stefnanda hefði borist of seint, sbr. 2. mgr. 6. gr., og að réttur stefnanda hefði ekki verið sniðgenginn af lögreglu eða að upplýsingaskylda hefði brugðist. Þar af leiðandi hafi ekki verið efni til að líta til undanþáguákvæða 3. mgr. 6. gr. laga nr. 69/1995.
Stefndi sé sammála afstöðu bótanefndarinnar að öllu leyti. Jafnframt vilji hann vekja athygli á því að samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga 69/1995 sé skilyrði fyrir bótagreiðslu að tjónþoli hafi krafið brotamann um greiðslu skaðabóta. Eins og mál þetta sé lagt fyrir dómstóla, og reyndar fyrir bótanefnd áður, liggi þetta ekki ljóst fyrir. Því sé ekki enn vitað hvort stefnandi hafi krafið brotamann um bætur. Gögn málsins beri þetta ekki með sér. Stefnandi verði að bera hallann af þessu.
Eins og áður segi sé stefndi sammála bótanefnd um að eðlilega hafi verið staðið að rannsókn málsins gagnvart stefnanda og að hún hafi verið upplýst á fullnægjandi hátt um réttarstöðu sína. Túlkur hafi verið við skýrslutöku af henni og hafi hún verið upplýst um rétt sinn til að leita til bótanefndar um bætur. Í upplýsingaskýrslu lögreglunnar komi líka fram að stefnandi hafi fengið ráðleggingar hjá lögmanni á Selfossi. Í ljósi þessa mæli lagaleg rök ekki með því að undanþáguákvæði 3. mgr. 6. gr. laga 69/1995 geti átt við í þessu tilviki. Heimild þessa beri að skýra þröngt og veigamikil rök þurfi að vera fyrir hendi til þess að víkja frá skilyrðum 1. og 2. mgr. 6. gr. laganna. Að mati stefnda geti slíkt ekki komið til álita miðað við þær upplýsingar sem fyrir liggi og sé það í andstöðu við eðlilega lagaskýringu lagaákvæðisins. Beri því að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda.
Niðurstaða
Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 69/1995 er það skilyrði bótagreiðslu úr ríkissjóði að brot, sem tjón er rakið til, hafi án ástæðulauss dráttar verið kært til lögreglu og að tjónþoli hafi gert kröfu um greiðslu skaðabóta úr hendi brotamanns. Í 2. mgr. segir að umsókn um bætur skuli hafa borist bótanefnd innan 2 ára frá því að brot var framið. Samkvæmt 3. mgr. má, þegar veigamikil rök mæla með því, víkja frá skilyrðum 1. og 2. mgr.
Fyrir liggur samkvæmt lögregluskýrslu að stefnandi lagði fram kæru á hendur fyrrverandi eiginmanni sínum 12. febrúar 2001 hjá Sýslumanninum á Selfossi. Í skýrslunni segir að henni hafi verið leiðbeint um rétt hennar til bóta samkvæmt lögum nr. 69/1995. Stefnandi kvaðst ætla að leggja fram bótakröfu og var henni bent á að frestur til þess væri til 1. mars 2001. Viðstaddur skýrslutökuna var túlkur sem túlkaði milli stefnanda og rannsóknara.
Í upplýsingaskýrslu lögreglunnar frá 18. nóvember 2001 kemur fram að stefnandi hafi ekki enn lagt fram mótaða bótakröfu. Hafi hún leitað til Sigurðar Jónssonar hrl. á Selfossi til að fá aðstoð við gerð bótakröfu. Sigurður hafði samband við lögreglufulltrúa og skýrði frá því að hann hefði ráðlagt stefnanda að fara fram með bótakröfu í einkamáli að loknu refsimálinu og þegar ljóst væri hvert fjárhagslegt tjón hennar væri.
Stefnandi hefur lagt fram í máli þessu tvö gjafsóknarleyfi. Í gjafsóknarleyfi vegna þessa máls, dags. 6. júní 2007, segir að stefnanda veitist gjafsókn vegna máls sem hún hyggst höfða til að fá hrundið ákvörðun bótanefndar frá 16. febrúar 2007. Í hinu gjafsóknarleyfinu, sem dags. er 19. janúar 2007, segir að stefnanda veitist gjafsókn vegna máls sem hún hyggst höfða gegn fyrrverandi eiginmanni sínum til heimtu skaðabóta. Lögmaður stefnanda upplýsti í munnlegum málflutningi í máli þessu að stefnandi hefði höfðað einkamál á hendur fyrrverandi eiginmanni sínum fyrir Héraðsdómi Suðurlands til heimtu skaðabóta vegna þeirrar sömu líkamsárásar sem er grundvöllur bótakröfu í þessu máli. Lögmaður stefnda lýsti þeirri skoðun sinni að þar sem nú væri upplýst að stefnandi hefði höfðað einkamál til heimtu skaðabóta úr hendi fyrrverandi eiginmanns síns beri að vísa máli þessu frá dómi ex officio þar sem um sömu kröfu sé að ræða og höfð sé uppi í þessu máli.
Engin gögn liggja fyrir í máli þessu um tilgreinda málssókn stefnanda fyrir Héraðsdómi Suðurlands á hendur brotamanni. Verður ekki séð að þær upplýsingar sem fyrir liggja varðandi hana varði frávísun þessa máls.
Eins og áður greinir er, samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 69/1995, skilyrði fyrir bótagreiðslu að tjónþoli hafi krafið brotamann um greiðslu skaðabóta. Engin gögn liggja fyrir í þessu máli um að stefnandi hafi krafið brotamanninn um skaðabætur fyrir eða eftir að hún sótti um bætur til bótanefndar. Hefur því ekki verið sýnt fram á að umrætt skilyrði 1. mgr. 6. gr. hafi verið uppfyllt. Þá liggur fyrir að stefnandi sótti ekki um bætur til bótanefndar fyrr en 5 árum eftir að hún varð fyrir umræddri líkamsárás. Í áðurnefndri 2. mgr. 6. gr. laga nr. 69/1995 segir að umsókn um bætur skuli hafa borist bótanefnd innan 2 ára frá því að brot var framið. Umsókn stefnanda var því of seint fram komin. Eins og rakið er hér að framan segir í lögregluskýrslu að stefnanda hafi verið leiðbeint um rétt hennar til bóta samkvæmt lögum nr. 69/1995. Hefur stefnandi ekki sýnt fram á það í máli þessu að henni hafi ekki verið leiðbeint með fullnægjandi hætti um réttarstöðu sína að þessu leyti.
Samkvæmt framansögðu þykja því ekki efni til þess að beita undanþáguákvæði 3. mgr. 6. gr. laga nr. 69/1995 og ber að sýkna stefnda af kröfum stefnanda í málinu.
Eftir atvikum þykir rétt að hvor aðila beri sinn kostnað af málinu.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda, þ.e. þóknun lögmanns hennar, Ásdísar Rafnar hrl., 350.000 krónur greiðist úr ríkissjóði. Við ákvörðun málflutningsþóknunar er ekki tekið tillit til virðisaukaskatts.
Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
Dómsorð
Stefndi, íslenska ríkið, skal vera sýkn af kröfum stefnanda, A.
Málskostnaður fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda, þ.e. þóknun lögmanns hennar, Ásdísar Rafnar hrl., 350.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.