Hæstiréttur íslands
Mál nr. 570/2011
Lykilorð
- Endurgreiðslukrafa
|
|
Fimmtudaginn 31. maí 2012. |
|
Nr. 570/2011.
|
M (Björgvin Jónsson hrl.) gegn K (Þórdís Bjarnadóttir hrl.) |
Endurgreiðslukrafa.
M krafði K um greiðslu fjármuna sem hann kvað hafa verið lán henni til handa. M bar fyrir dómi að ekkert hefði verið rætt um þeirra á milli hvort og hvenær K skyldi endurgreiða féð. K hélt því fram að M hefði greitt sér féð sem bætur fyrir ófjárhagslegt tjón sem M hefði valdið henni. M lagði féð inn á reikning K án þess að tilgreina að um lán væri að ræða. Í ljósi þess og fyrri samskipta aðila og atvika málsins að öðru leyti var M talinn bera sönnunarbyrði fyrir því að K væri skuldbundin til að endurgreiða honum umrædda fjármuni og hefði honum ekki tekist sú sönnun.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson og Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson settur hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 20. október 2011. Hann krefst þess að stefnda verði dæmd til að greiða sér 2.050.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 26. júní 2010 til greiðsludags. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefnda krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Svo sem rakið er í hinum áfrýjaða dómi lagði áfrýjandi, án sérstakra skýringa, samtals 2.050.000 krónur inn á reikning stefndu með þremur greiðslum á árinu 2010, 50.000 krónur 28. janúar, 1.900.000 krónur 9. febrúar og 100.000 krónur 26. sama mánaðar. Óumdeilt er að málsaðilar kynntust á árinu 2006 og að þau áttu í ástarsambandi um tíma á því ári. Þá liggur fyrir að þau hafa eftir það átt nokkur samskipti sín á milli og fram til þess tíma sem atvik máls þessa taka til.
Í skýrslu sinni fyrir héraðsdómi greindi áfrýjandi svo frá að stefnda hefði farið að biðja sig um 50.000 krónur í hvert skipti sem þau hittust. Áfrýjandi hafi lifað í þeirri von að þau væru að taka saman. Síðan hafi hún tilkynnt sér að hún þyrfti „að fá milljón til að [...] og aðra milljón til að redda skuld hjá [...]“. Hafi hann lagt þetta inn á reikning hennar og alltaf í þeirri von að þau væru að taka saman. Stuttu síðar hafi hún kynnst öðrum manni og um það leyti hafi hún beðið áfrýjanda um 250.000 krónur „til að redda bílnum“. Áfrýjandi kvaðst hafa lánað stefndu peningana á þeirri forsendu að þau væru að byrja saman „og þetta væri eitthvað sem yrði varanlegt“, en ekkert hafi verið talað um hvenær ætti að endurgreiða féð. Stefnda skýrði á hinn bóginn svo frá að aðilar hefðu verið í samskiptum í ársbyrjun 2010. Áfrýjandi hafi séð aðstæður hennar og sagst vera orðinn betri maður og sæi hann eftir hvernig hann hefði komið fram við sig á liðnum árum og viljað hjálpa sér. Hafi stefnda þegið aðstoðina.
II
Svo sem rakið hefur verið ber áfrýjandi að hann hafi hafi lánað stefndu féð í þeirri von og á þeirri forsendu að þau tækju saman á ný. Í framburði hans fyrir dómi kom fram að þau hefðu ekkert rætt um hvort og þá hvenær stefnda skyldi endurgreiða féð. Byggir áfrýjandi á því að ekkert annað liggi fyrir í málinu en að um lán hafi verið ræða. Stefnda heldur því hins vegar fram að áfrýjandi hafi greitt sér féð sem bætur fyrir ófjárhagslegt tjón sem hann hafi valdið henni bæði á líkama og sál eftir langvarandi hótanir, umsátur og ofbeldi.
Áfrýjandi lagði féð, sem hann krefur stefndu um greiðslu á, inn á reikning hennar án þess að tilgreina að um lán væri að ræða. Samkvæmt því og í ljósi fyrri samskipta aðila og atvika málsins að öðru leyti verður áfrýjandi talinn bera sönnunarbyrði fyrir því að hún sé skuldbundin til að endurgreiða honum umrædda fjármuni. Hefur honum ekki tekist sú sönnun. Af þessum ástæðum verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest.
Eftir úrslitum málsins verður áfrýjandi dæmdur til að greiða stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti sem ákveðinn verður eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, M, greiði stefndu, K, 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 20. júlí 2011.
Mál þetta, sem dómtekið var 28. júní sl., var höfðað með birtingu stefnu þann 12. október 2010 og var málið þingfest þann 27. október s.á.
Stefnandi er M, kt. [...], [...], [...] en stefnda er K, kt. [...], [...], [...].
Stefnandi krefst þess að stefnda verði dæmd til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 2.050.000 ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 21. maí 2010 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu.
Stefnda sótti þing við þingfestingu málsins og fékk frest til framlagningar greinargerðar til 24. nóvember 2010. Krefst stefnda þess að hún verði alfarið sýknuð af kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefndu málskostnað að mati dómsins ásamt virðisaukaskatti á málflutningsþóknun. Aðalmeðferð fór fram þann 1. júlí sl. og var málið dómtekið að málflutningi loknum.
Málsatvik.
Samkvæmt stefnanda eru málsatvik þau að hanni hafi lánað stefndu stefnufjárhæð samkvæmt munnlegum samningi þeirra. Stefnandi hafi millifært samkvæmt þeim samningi í þrennu lagi inn á reikning stefndu, fyrst 50.000 krónur þann 28. janúar 2010, 1.900.000 krónur þann 9. febrúar 2010 og 100.000 krónur þann 26. febrúar 2010. Skuldin hafi gjaldfallið í heild sinni 21. maí 2010 og sé dráttarvaxtakrafan miðuð við það tímamark.
Stefnandi kvaðst hafa kynnst stefndu vorið 2006 og verið í sambandi við hana til 2010 með mislöngu millibili. Lengst hafi þau þó verið saman á árunum 2006 og 2007. Aðspurður kvað stefnandi það vera rangt að þau hafi einungis verið saman í þrjá mánuði árið 2006 og svo ekkert saman fyrr en árið 2010 og neitar því jafnframt að hafa áreitt stefndu og hótað henni með einhverjum hætti á þessu tímabili. Stefnandi kvaðst ekki kannaðist við að hafa verið kærður til lögreglu vegna meintrar nauðgunar sem stefnda hefur haldið fram og jafnframt hafi lögreglan aldrei haft samband við hann vegna þessa. Stefnandi neitar alfarið þeim ásökunum stefndu.
Stefnandi kvaðst hafa hafið samskipti við stefndu á ný árið 2010 í þeim tilgangi að hefja sambúð en stefnandi kvað það greinilegt að annað hafi legið að baki hjá stefndu. Stefnandi kvaðst hafa hitt hana nokkuð reglulega og í hvert skipti sem þau hittust hafi hún beðið hann um peninga og í eitt skipti hafi hún beðið hann um eina milljón þar sem hún hafi verið að klára [...] [...] [...] [...] og síðar aðra milljón til að greiða upp skuld við [...]. Stefnandi kvaðst hafa lagt þessa peninga inn á reikning stefndu enda taldi hann að þau væru að hefja samband aftur. Stuttu síðar hafi stefnda kynnst öðrum manni og þá hafi hún alfarið lokað á samskipti við hann og þá hafi stefnandi áttað sig á því að hún hafi verið að nota hann.
Stefnandi kvaðst hafa orðið mjög ósáttur og samskipti þeirra hafa orðið mjög erfið eftir þetta þar sem hann gat með engu móti fengið peninga sína endurgreidda þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir. Stefnandi hafi þá farið inn á heimili stefndu þann 2. maí 2010 eins og dagbók lögreglu ber með sér og beðið um peningana sína til baka en stefnda hafi neitað að endurgreiða honum peningana. Lögreglan hafi síðan komið og ekið honum í burtu frá húsinu.
Stuttu eftir þetta hafi stefnda fengið nálgunarbann á stefnanda. Aðspurður kvaðst stefnandi hafa samþykkt nálgunarbannið sem sett var á hann þann 21. maí 2010 þar sem hann vildi ekki ónáða stefndu lengur. Hann hafi einfaldlega viljað fá peningana sína til baka sem hann hafi lánaði stefndu og var auk þess orðinn reiður og pirraður hvernig sambandi þeirra á milli hafi verið orðið. Stefnandi kvaðst þó hafa virt nálgunarbannið þann tíma sem það stóð yfir en því hafi lokið 21. nóvember 2010. Stefnandi kvaðst ekki hafa haft samband við stefndu eftir að nálgunarbanninu lauk.
Stefnandi kvaðst þó hafa kært stefndu til lögreglu fyrir að hafa tekið bókhaldsgögn ófrjálsri hendi úr verslun hans þann 4. nóvember 2010 en eftirlitsmyndavélar í búðinni hafi sýnt hana koma inn í búðina og taka þessi gögn.
Aðspurður kvaðst stefnandi ekki sammála þeirri skýringu stefndu að umræddar peningagreiðslur hafi verið greiddar sem bætur vegna sambúðaslita þeirra á sínum tíma heldur hafi verið um lán að ræða þrátt fyrir að hann hafi ekki tiltekið það sérstaklega sem lán á millifærslunum. Stefnandi kvaðst hafa treyst stefndu og ekki talið sig þurfa að tiltaka það sérstaklega að um lán hafi verið að ræða þegar hann framkvæmdi millifærslurnar enda taldi hann að þau hafi ætlað að byrja saman. Stefnandi taldi sig ennfremur ekki þurfa að ræða það neitt sérstaklega hvenær henni bæri að greiða honum lánið til baka þar sem hann trúði því að þau væru að fara hefja ástarsamband á ný.
Stefnandi kvaðst einnig hafa stundað viðskipti við stefndu á árunum 2006 til 2010 en hann hafi meðal annars keypt af henni [...] og lager úr verslun sem hún rak en rekstur fyrirtækis hennar hafði gengið illa á tímabili og hann hafi einnig hjálpað henni á þeim tíma. Stefnandi kvaðst hafa keypt þó nokkurt magn af lager af stefndu á árunum 2006 til 2010. Hann hafi einnig rekið verslun á þessum tíma og því hafi þau átt í viðskiptasambandi.
Samkvæmt stefndu eru málsatvik þau að aðilar hafi kynnst árið 2006 og verið í sambandi í um þriggja mánaða skeið. Stefnda hafi síðan slitið sambandi þeirra. Stefnandi hafi verið ósáttur við sambandsslitin og hafi setið um stefndu og brotist inn á heimili hennar og beitt hana ofbeldi. Í eitt skipti hafi hann brotist inn til hennar, eða í maí 2007 og nauðgað henni. Hafi stefnda leitað til Stígamóta og læknis í kjölfar þess. Aðspurð kvaðst stefnda ekki hafa kært hina meintu nauðgun til lögreglu á sínum tíma þar sem hún hafi ekki haft neina trú á réttarkerfinu. Stefnda kvaðst þó hafa farið í viðtal til lögreglunnar vegna máls þessa en þó ekki kært verknaðinn. Þá hafi stefnda tilkynnt lögreglu nokkur skipti um áreiti, hótanir o.fl. af hálfu stefnanda og aðspurð kvaðst stefnda hafa verið mjög hrædd og hafi ávallt þurft að gæta þess sérstaklega að hafa alla glugga lokaða og hurðar læstar þar sem hún hafi óttast að stefnandi kæmi inn á heimili hennar í leyfisleysi.
Stefnda kvaðst einungis hafa verið í sambandi við stefnanda í 3 mánuði árið 2006 og eftir það hafi samband þeirra eingöngu verið viðskiptalegs eðlis. Hann hafi m.a. keypt af henni [...] úr verslun sem hún hafi rekið árið 2008 og hún hafi einnig verslað vörur frá honum úr verslun sem hann rak og millifært yfir á hans reikning peninga fyrir þau vörukaup. Stefnda kvaðst ekki hafa verið ein um það að versla af honum vörur en hún hafði rekið [...] verslanir á sínum tíma og verið með [...] starfsmenn á sínum snærum og hafi þeir einnig verslað af stefnanda vörur í nafni fyrirtækis hennar. Stefnda kvaðst hafa síðast verslað við stefnanda í nóvember 2009. Aðspurð kvað stefnda stefnanda hafa hjálpað sér við rekstur fyrirtækis hennar á tímabili en stefnandi hafi þó ekki tekið á sig neinn kostnað í því tilliti.
Stefnda kvað stefnandi hafa komið að máli við stefndu í janúar 2010 er hún var að gera upp húsnæði fyrir sig og börn sín. Hann hafi boðist til að bæta henni tjón það sem hann hafði valdið henni frá sambúðarslitum með framgöngu sinni, með því að greiða henni 2.050.000 krónur. Aðspurð kvaðst stefnda það ekki hafa verið samkomulag þeirra á milli að hún skyldi endurgreiða stefnanda þessa fjárhæð heldur hafi hann greitt henni þennan pening sem bætur. Hafi stefnandi sagst vera nýr og breyttur maður. Stefnda kvaðst hafa farið með honum út að borða í nokkur skipti þar sem hún hafi talið hann vera breyttan mann. Stefnda kvað hegðun hans fljótlega hafa færst í sama horf og fyrr og hann hafi farið að áreita hana og mæta á heimili hennar drukkinn. Stefnda hafi þá slitið öllu sambandi við stefnanda. Í framhaldi af áreiti, umsátri, hótunum og ofbeldi sem stefnda hafi þurft að þola af hálfu stefnanda hafi honum verið gert að sæta nálgunarbanni gagnvart stefndu í sex mánuði, sbr. úrskurð héraðsdóms Reykjaness í málinu R-324/2010 frá 21. maí 2010. Stefnda kvað stefnanda ekki hafa virt nálgunarbannið heldur hafi hann sent henni tvö smáskilaboð á þeim tíma og einnig tölvupóst. Stefnanda kvaðst hafa tilkynnt það til lögreglu.
Aðspurð viðurkenndi stefnda að hafa farið inn í verslun stefnanda og tekið þar stílabók ófrjálsri hendi. Hún kvað þessa stílabók hins vegar ekki vera nein bókhaldsgögn heldur gögn sem hafa sýnt fram á svarta sölu á ólöglegum lyfjum sem stefnandi hafði verið að flytja inn og selja. Stefnda kvaðst hafa verið orðin þreytt á því að vera fórnalamb og vera ávallt hrædd og hafi þess vegna tekið þessa bók til að hafa eitthvað á stefnanda ef hann skyldi halda áfram að áreita hana. Stefnda kvaðst hafa skilað stílabókinni til lögreglu um leið og lögreglan bað hana um það og hafi einnig játaði á sig verknaðinn.
Í framhaldi af nálgunarbannsúrskurðinum hafi stefndu borist innheimtubréf frá lögmanni stefnanda. Hafi stefnda skýrt lögmanni stefnanda strax frá því að ekki væri um lán að ræða heldur bótagreiðslur skv. framansögðu. Þrátt fyrir þær skýringar stefndu þá hafi málinu verið stefnt fyrir héraðsdóm.
Málsástæður og lagarök stefnanda.
Stefnandi byggir kröfu sína á láni er hann hafi veitt stefndu eins og rakið er í málsatvikum. Stefnandi neitar því alfarið að greiðslur þessar sem millifærslukvittanir bera með sér hafi verið greiddar sem bætur fyrir hegðun hans. Hann hafi lánað henni þennan pening og jafnframt treyst henni að hún mundi borga honum til baka með einum eða öðrum hætti enda taldi hann að þau væru að fara hefja samband á nýju. Stefnandi neitar einnig ásökunum stefndu um meinta nauðgun enda hafi þessa meinta nauðgun ekki verið kærð til lögreglu.
Þegar stefnda hafi fengið nálgunarbann á hann hafi stefnandi gjaldfellt skuldina enda hafi ekkert gengið að fá peninga endurgreidda. Stefnandi leitaði þá til lögmanns og hafi skuldin ekki fengist greidd þrátt fyrir innheimtutilraunir og sé málshöfðun þessi því nauðsynleg.
Stefnandi byggir kröfur sínar á reglum samninga- og kröfuréttar um loforð og efndir fjárskuldbindinga. Kröfur um dráttarvexti, þ.m.t. vaxtavexti, styður stefnandi við lög um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001. Kröfuna um málskostnað styður hann við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Málsástæður og lagarök stefndu.
Stefnda reisir sýknukröfu sína á því að stefnandi hafi greitt henni bætur skv. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sem henni beri ekki að endurgreiða. Stefnda hafi þegið þessar bætur úr hendi stefnanda þar sem hann hafi sannarlega valdið henni tjóni, bæði á líkama og sál eftir langvarandi hótanir, umsátur og ofbeldi. Stefnda vísar í þessu sambandi til dagbókar lögreglu sem sýna fram að hann hafi meðal annars verið fjarlægður af heimili hennar. Stefnda segist hafa átt í viðskiptasambandi við stefnanda á árunum 2006-2009 og hafi þau viðskipti ávallt verið skýrð sem slík á kvittunum. Stefnda segir stefnanda hafa greitt sér umræddar fjárhæðir sem bætur fyrir hegðun sína og að hann beri alfarið sönnunarbyrðina á því að um lán hafi verið að ræða. Aldrei hafi verið rætt um það þeirra í milli að stefndu bæri að endurgreiða umþrætta fjárhæð og hún því ekki litið á greiðslurnar sem lán.
Stefnda vísar til 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 um sýknukröfu sína og 1. mgr. 130. gr. laga vegna málskostnaðar.
Niðurstöður:
Í máli þessu greinir aðila á um hvort greiðslur er bárust frá stefnanda til stefndu hafi verið lán til stefndu eða miskabætur skv. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.
Í gögnum málsins er að finna afrit af innborgunum frá stefnanda inn á reikning stefndu eins og skýrt er í málsatvikum og er ekki ágreiningur um að þær greiðslur hafi átt sér stað. Engar skýringar eru gefnar á bankakvittunum meðfylgjandi greiðslunum. Þá liggur fyrir afrit af úrskurði, kveðnum upp þann 21. maí 2010 í Héraðsdómi Reykjaness þar sem stefnanda er gert að sæta nálgunarbanni í sex mánuði og bannað að koma á eða í námunda við heimili stefndu, vinnustað hennar eða svæði sem afmarkast við 50 metra radíus umhverfis áðurgreinda staði. Þá er stefnanda jafnframt bannað að veita stefndu eftirför, nálgist hann hana á almannafæri, hringja í heima-, vinnu- eða farsíma hennar eða setja sig á annan hátt í beint samband við hana.
Þá liggja fyrir dagbækur lögreglu, fyrst frá 19. nóvember 2006, þar sem [...] stefndu óskaði eftir aðstoð lögreglu á heimili stefndu þar sem stefnandi var kominn inn. Þá er bókun frá 10. janúar 2007 þar sem fram kemur að stefnda hafi óskað eftir bókun hjá lögreglu þess efnis að stefnandi hafi spennt upp glugga á baðherbergi á 1. hæð, farið inn í íbúðina og stefnda læst sig inni á baði. Hann hafi beðið stefndu að opna sem hún hafi ekki gert og stefnandi farið eftir einhverja stund. Þann 28. apríl 2010 er bókun hjá lögreglu þar sem fram kemur að stefnda hafi komið á lögreglustöð til að kæra stefnanda fyrir langvarandi miklu ónæði af hálfu stefnanda. Þá er í gögnum málsins útskrift úr dagbók lengri nokkrar færslur um áreiti af hálfu stefnanda.
Samkvæmt læknisvottorði frá 7. júní 2007 kom stefnda á bráðamóttöku kvenna á LSH þann 6. júní 2006 vegna áhyggna varðandi nauðgun af hálfu stefnanda þann 20. maí 2007. Þá er staðfesting frá starfskonu Stígamóta um komu stefndu þangað vorið 2007 vegna árásar fyrrverandi kærasta sem ofsótti hana. Þá liggur fyrir vottorð frá slysa- og bráðamóttöku Landspítala/háskólasjúkrahúss frá 10. maí 2010 þar sem staðfest er að stefnda hafi komið í viðtal og stuðning á Áfallamiðstöð LSH í Fossvogi þann 6. maí 2010 eftir að henni hafi verið vísað í viðtal þangað eftir komu á slysa- og bráðamóttöku þann 4. maí s.á. til að fá áverkaskoðun vegna ofbeldis sem fyrrverandi sambýlismaður hennar til þriggja til fjögurra mánaða fyrir fjórum árum hafi beitt hana og unnusta hennar. Er í vottorðinu lýst hvernig stefnandi hafi áreitt stefndu frá sambúðarslitum þeirra og nauðgunar sem hann hafi beitt hana en hún ekki kært til lögreglu.
Þá liggja fyrir í gögnum málsins, lögregluskýrsla, dagsett 4. nóvember 2010, þar sem stefnandi, forráðamaður verslunarinnar [...]., hafi kært þjófnað úr verslun sinni. Hafði stílabók sem geymdi bókhaldsgögn fyrirtækisins horfið þaðan sem hún átti að vera á bak við afgreiðsluborð. Kveður stefnandi að sést hafi í eftirlitsmyndavél að stefnda hafi komið og tekið stílabókina. Í sömu skýrslu kemur fram að lögreglan hafi farið heim til stefndu og hún viðurkennt að hafa tekið stílabókina og hafi afhent lögreglu hana. Í lögregluskýrslu frá 8. nóvember 2010 þar sem stefnandi kærði stefndu fyrir þjófnað, er haft eftir stefnanda að einu samskipti sem aðilar hafi haft undanfarið hafi verið í þeim tilgangi að endurheimta peninga sem hann hafði lánað stefndu en það mál sé hjá lögfræðingi. Þá liggur fyrir afrit af innheimtubréfi dagsett 26. maí 2010 þar sem stefnandi krefur stefndu um stefnufjárhæðina ásamt dráttarvöxtum og innheimtukostnaði, samtals 2.068.456 krónur.
Af gögnum málsins og framburði stefnanda og stefndu fyrir dóminum verður að telja ósannað að stefnandi hafi lánað stefndu umrædda fjárhæð enda kvað stefnandi fyrir dóminum að ekki hafi verið rætt um það á sínum tíma að stefndu bæri að endurgreiða stefnanda umþrætta fjárhæð. Engar sannanir liggja fyrir um að lán hafi verið að ræða annað en framburður stefnanda sem er á skjön við framburð stefndu. Stefnanda var í lófa lagið að vísa til þess á millifærslukvittunum að um lán hafi verið að ræða þegar hann millifærði inn á reikning stefndu eða tilgreina það með öðrum hætti sem hann gerði ekki. Þá upplýsti stefnandi fyrir dóminum að hann hafi ekki ætlast til að umrædd fjárhæð yrði greidd honum til baka, þegar hann millifærði þær til stefndu, hann hafi ekki, á þeim tíma, litið á fjárhæðina sem lán. Eins og gögn málsins bera með sér áttu aðilar í viðskiptasambandi á árunum 2006-2009 og af þeim gögnum af dæma voru flestar millifærslur merktar sérstaklega svo mátti greina að um viðskipti hafi verið að ræða. Því hefði stefnandi átt að gera grein fyrir hvers eðlis umræddar millifærslur væru ef þær voru lán til stefndu en það gerði hann ekki. Hefur stefnandi ekki ná að sýna fram á að um lán hafi verið að ræða og ber stefnandi hallan af því. Breytir þar engu um, hvort stefnda hafi litið á greiðsluna sem miskabætur til hennar eða í öðrum tilgangi.
Af öllu þessu sögðu ber að sýkna stefndu af kröfum stefnanda. Að þessum niðurstöðum fengnum verður stefnandi dæmdur til að greiða stefndu 300.000 krónur í málskostnað auk virðisaukaskatts.
Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
Dómsorð:
Stefnda, K, kt. [...], er sýkn í máli þessu.
Stefnandi, M, greiði stefndu 300.000 krónur í málskostnað auk virðisaukaskatts.