Hæstiréttur íslands

Mál nr. 98/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Málskostnaðartrygging


                                     

Miðvikudaginn 19. febrúar 2014.

Nr. 98/2014.

Sigurður Pálmason

(Sigurður Sigurjónsson hrl.)

Hermann Eyjólfsson

Árný ehf. og

Birken Ltd.

(Sigurður G. Guðjónsson hrl.)

gegn

þrotabúi B 230 ehf.

(Kristín Edwald hrl.)

Kærumál. Málskostnaðartrygging.

Þrotabú B ehf. höfðaði skaðabótamál á hendur S, H, Á og B Ltd. Tekin var til greina krafa síðargreindu aðilanna um að þrotabúi B ehf. yrði gert að setja málskostnaðartryggingu vegna meðferðar málsins í héraði, sem ákveðin var að fjárhæð 2.000.000 krónur og skiptast skyldi jafnt milli S, H, Á og B Ltd.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðilar skutu málinu hver fyrir sitt leyti til Hæstaréttar með kærum 28. janúar 2014 og 31. sama mánaðar, sem bárust réttinum ásamt kærumálsgögnum 10. febrúar sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 17. janúar 2014, þar sem varnaraðila var gert að setja málskostnaðartryggingu að fjárhæð 2.000.000 krónur í formi peningagreiðslu eða bankaábyrgðar. Kæruheimild er í o. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilinn Sigurður Pálmason krefst þess að krafa hans um að varnaraðila verði gert að setja málskostnaðartryggingu verði tekin til greina á þann veg að hún verði sérgreind til tryggingar á málskostnaði sóknaraðilans og að hún verði ákveðin aðallega að fjárhæð 4.000.000 krónur, en til vara lægri fjárhæðar. Einnig krefst hann kærumálskostnaðar úr hendi varnaraðila.  Sóknaraðilarnir Hermann Eyjólfsson, Árný ehf. og Birken Ltd. krefjast þess að varnaraðila verði gert að setja hverjum þeirra málskostnaðartryggingu að fjárhæð 2.000.000 krónur, auk þess sem þeir krefjast hver fyrir sitt leyti málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar úr hendi varnaraðila.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Ekki eru efni til að hnekkja mati héraðsdóms á fjárhæð málskostnaðartryggingar. Verður hinn kærði úrskurður staðfestur með vísan til forsendna hans að öðru leyti en því að samkvæmt 2. mgr. 132. gr. laga nr. 91/1991 skiptist fjárhæð tryggingarinnar jafnt milli sóknaraðila og þá hefst tveggja vikna frestur varnaraðila til að setja hana við uppsögu dóms þessa, hvort tveggja eins og í dómsorði greinir.

Málskostnaðar var ekki krafist í héraði af hálfu sóknaraðilanna Hermanns Eyjólfssonar, Árnýjar ehf. og Birken Ltd. og kemur krafa þeirra um málskostnað þar fyrir dómi því ekki til álita.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur um fjárhæð málskostnaðartryggingar, sem varnaraðili, þrotabú B 230 ehf., skal setja innan tveggja vikna frá uppsögu dóms þessa og skiptist jafnt milli sóknaraðila, Sigurðar Pálmasonar, Hermanns Eyjólfssonar, Árnýjar ehf. og Birken Ltd., þannig að í hlut hvers þeirra koma 500.000 krónur.

Kærumálskostnaður fellur niður.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 17. janúar 2014.

Mál þetta, sem var tekið til úrskurðar 10. janúar sl., er höfðað af þrotabúi B 230 ehf., Árgerði, Akureyri, á hendur Sigurði Pálmasyni, Álfholti 12, Hafnarfirði, Hermanni Eyjólfssyni, Brautarlandi 16, Reykjavík, Árnýju ehf., Síðumúla 1, Reykjavík, og Birken Ltd., 10 John Street, London.

Stefnandi krefst þess í málinu aðallega að stefndu verði gert að greiða honum 168.304.500 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 3. nóvember 2009 til þess dags er liðinn sé mánuður frá stefnubirtingu, en frá þeim degi með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags. Til vara krefst stefnandi þess að stefnda Birken Ltd. verði gert að greiða honum 168.304.500 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 3. nóvember 2009 til þess dags er liðinn sé mánuður frá stefnubirtingu, en frá þeim degi með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar óskipt úr hendi stefndu.

Við þingfestingu málsins, 10. desember sl., kröfðust stefndu málskostn­aðar­trygg­ingar úr hendi stefnanda með vísan til b-liðar 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála vegna líkinda fyrir ógjaldfærni stefnanda. Stefnandi mótmælti kröfunni. Munnlegur málflutningur fór fram um þessa kröfu stefndu 10. desember sl.

I

Til stuðnings þeirri kröfu að stefnanda verði gert að setja málskostnaðar­trygg­ingu vísa stefndu til þess að eindregnar líkur séu á því að stefnandi, sem þrotabú, sé ófær um greiðslu málskostnaðar sem á hann kunni að vera lagður í málinu. Því sé fullnægt skilyrði b-liðar 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991 fyrir því að stefnanda verði gert að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar. Við ákvörðun fjárhæðarinnar verði að líta til stefnufjárhæðar og umfangs málsins, en mikla vinnu þurfi að leggja í það. Stefndi, Sigurður, krefst þess að málskostnaðatrygging verði ákveðin 4.000.000 króna. Stefndu Hermann, Árný ehf. og Birken Ltd. krefjast hvert um sig málskostnaðartryggingar að fjárhæð 2.000.000 króna.

II

Stefnandi hefur ekki andmælt kröfu stefndu um málskostnaðartryggingu, en hefur mótmælt fjárhæðum þeim sem krafist er sem óhæfilegum. Ekkert við málið gefi tilefni til svo hárrar tryggingar. Stefna málsins sé skýr og umfang málsins ekki svo mikið. Beri að miða við það sem sé hæfilegt og eðlilegt í sambærilegum málum.

III

Samkvæmt b-lið 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála getur stefndi krafist þess við þingfestingu máls að stefnandi setji tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar, megi leiða líkur að því að stefnandi sé ófær um greiðslu málskostnaðar sem á hann kunni að falla í málinu.

Bú stefnanda var tekið til gjaldþrotaskipta 13. janúar 2013. Óumdeilt er að skilyrði b-liðar 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991 til setningar málskostnaðartryggingar eru uppfyllt. Verður fallist á kröfu stefndu um að stefnanda verði gert að leggja fram málskostnaðartryggingu. Með hliðsjón af kröfu málsins og umfangi þess þykir fjárhæð málskostnaðartryggingar hæfilega ákveðin 2.000.000 króna. Ber stefnanda að setja tryggingu á þann hátt og innan þess frests sem nánar greinir í úrskurðarorði.         

Málskostnaðar var ekki krafist vegna þessa þáttar málsins.

Barbara Björnsdóttir héraðsdómari kvað upp þennan úrskurð.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Stefnandi, þrotabú B 230 ehf., skal innan tveggja vikna frá uppsögu þessa úrskurðar setja málskostnaðartryggingu að fjárhæð 2.000.000 króna í formi peningagreiðslu eða bankaábyrgðar.